Laugarás

Í klapparholti vestanvið Laugarásbíó er álfasteinn. Þrátt fyrir hús allt um kring og snyrtar lóðir umleikis, göngustíg, bifreiðaplan og umsvif hernámsliðsins hefur steinninn fengið að vera óhreyfður í samneyti Álfhóll í Laugarásivið aðra slíka í holtinu.
Halldóra Aðalsteinsdóttir man vel eftir þessum steini þótt sé komin yfir áttrætt. Hún fæddist 16. júní 1927 á Lindargötu 7 (í dag nr. 23) og fluttist 10 ára gömul í verkamannabústað á Hofsvallagötu 15. Þegar hún giftist Magnúsi Þorbjörnssyni bjuggu þau að Fálkagötu 22. Síðar fluttust þau í fjölbýlishús við Kleppsveg, en frá stofuglugganum hennar er ágætt útsýni til suðurs yfir holtið í Laugarási. Hún sagði svo frá:
“Er ég stend við stofugluggann minn, sem snýr í suður, blasir við mér stór steinn. Undir honum er bekkur. Eitt fallegt vetrarkvöld, árið 1996, sennilega í febrúar/mars, jörð var auð, verður mér litið út um gluggann og þá fannst mér eins og þessi steinn (klettur) opnaðist og mikil birta þar fyrir innan. Mér fannst eins og dyr eða gluggi væri opnaður, og fannst mér veggirnir í kringum gatið mjög þykkir. Þar fyrir innan í ljósinu fannst mér ég sjá fólk eða einhvers konar verur á hreyfingu og fannst mér það vera þó nokkuð margir. Ekki man ég eftir neinum sérstökum litum á þessum verum, mikil birta, en þó voru einhvers konar skuggar í kringum þær.

Álfasteinn

Ég horfði á þetta um stund, og fullvissaði mig um að enginn væri þarna í kring að lýsa upp steininn eða eitthvað því um líkt.
Síðan kallaði ég á manninn minn, sem kom, en með semingi þó, sagðist ekki trúa á svona, enda sá hann ekki neitt, en smám saman dofnaði þessi birta og allt varð eins og áður.
Ég horfði oft á þennan stein, nánast daglega, en hef ekki orðið vör við neitt þessu líkt aftur.
Rétt er þó að geta þess að reglulega kemur gömul kona að steininum, staldrar við stutta stund, leggur hönd á hann, segir einhver orð og fer síðan. Þetta hefur hún gert um langan tíma.”
Halldóra sagði einnig frá álfasteini við Hjarðarhaga 13.

Heimild:
Halldóra Aðalsteinsdóttir, f. 16. júní 1927. Viðtal við FERLIR í des. 2008.

Sæfinnur

Reykjavík um 1900.