Færslur

Álfar

Í Eimreiðinni 1895 fjallar Finnur Jónsson um “Álfatrúna á Íslandi“.

Orðið þjóðtrú er notað um trúarviðhorf af ýmsu tagi sem falla að jafnaði utan viðurkenndra trúarbragða en eru þó bundin menningu, siðum og venjum fólks. Oft er þetta trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í sambandi við ýmislega reynslu sem fólk skýrir fyrir sér með tilvísun til trúarinnar.

Óttarsstaðir

Álfakirkja við Óttarsstaði.

Orðið “þjóð” í þjóðtrú vísar til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna. Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.

Hin síðari ár hefur nokkuð verið deilt um einlægni fólks í sambandi við þjóðtrú. Árni Björnsson hefur sett fram þá hugmynd að fólk hafi alla tíð fyrst og fremst sagt þjóðtrúarsögur sér til skemmtunar á meðan tiltölulega fáir hafi lagt raunverulegan trúnað á þær. Á móti því hefur Valdimar Hafstein skrifað að margt bendi einmitt til að að þjóðtrúin sé einlæg og hafi beinlínis áhrif á gjörðir fólks.

Álfatrúin á Íslandi
Álfar
“Fornfræði — það er margt, sem felst í þessum tveimur orðum. Þau geta náð yfir forna sögu, fornt mál, fornan kveðskap o. fl., ekki sízt þó allt það, sem heyrir undir fornan átrúnað eða trú, eða það sem vjer nefnum nú heiðni og hjátrú.

Álftanes

Álftanes – Akrasteinn; álfasteinn.

Þau eru forn, afargömul, þessi fræði; en þau eru líka opt ekki eingöngu forn, þ. e. þau hafa lifað sínu lífi um margar aldir og enda stundum allt fram undir eða jafnvel fram á vora daga, og eimir eptir af mörgu enn í dag sumstaðar, þótt blöðin, skólarnir, í stuttu máli »sú meiri upplýsing« — eins og Fjölnir komst forðum að orði — hafi gert sitt til að svæfa og kyrkja þau. Það sem hefur haldizt lengst við á Íslandi af heiðnum átrúnaði, er álfatrúin, og munum vjer hjer skýra frá sögu hennar í mjög stuttu máli; en vísum annars til Ísl. þjóðsagna og ævintýra um allar sjerstakar álfasögur. Það er í rauninni ekki minna vert en að kunna sögurnar sjálfar, að draga út úr þeim mynd af efni þeirra, sem sje ein og heilleg.
ÁlfarTrúin á álfa er afargömul og ekki til orðin á Norðurlöndum; sjálft orðið álf- er álitið að vera sama og orð eitt í sanskrít (rbhú), er merkir »íþróttarmann, völund«; það er dverga-hugmyndin, er þar kemur fram, en hún kemur ekki þessu máli við. En hvað eru álfar þá í raun rjettri?
Mörg rök má færa til þess, að álfar sjeu upphaflega ekkert annað en sálir andaðra manna, og trúin á þá er trúin á líf sálnanna eptir líkamlegan dauða hvers manns. Því var t. d. Óláfr á Geirstöðum kallaður Geirstaðaálfur eptir dauða sinn.

Kaðlakriki

Kaplakriki – álfaborg.

Snorri Sturluson talar um tvær aldir í Heimskringlu formála sínum og nefnir þær brunaöld og haugaöld. Þetta er rjett að því leyti sem brunaöld (líkabrennuöldin) var eldri og gekk á undan hinni, er haugar voru gerðir og lík mann lögð í þá óbrennd. En lengra aftur í tímann var ekki von til, að minni manna næði.

Haugaöldin er mjög gömul. Um leið og haugurinn varð bústaður líksins, varð hann og bústaður sálarinnar, er var ódauðleg. Þess vegna höfðu haugbúarnir (draugarnir) nokkurs konar líf eftir dauðann. Haugarnir vóru opt ættahaugar, og gátu margir verið lagðir í einn haug. Af trúnni á líf sálnanna spratt svo trúin á mátt þeirra til að vernda lifandi menn og styrkja þá til velmegunar og hamingju. Synirnir trúðu þvi eðlilega, að feður þeirra (afar og forfeður) ljeti sjer annt um þá eins eptir líkamlegan dauða sinn sem áður, og þeir fóru að tilbiðja feður sína þ. e. sálirnar, andirnar, og skoða þær sem góða anda og verndarverur; andirnar (haugbúarnir) voru því upprunalega sjerstök ættagoð; en trúin breiddist út og varð almenn og menn fóru almennt að dýrka þessar verur, sem höfðu fengið nafnið álfar.
ÁlfarÍ hinni fornu goðafræði eru álfar stundum nefndir og þá alloptast svo, að þeir eru settir í náið samband við æsi eða goðin sjálf; »æsir og álfar« eru eins og ein heild. Álfheim gáfu æsir Frey að tannfje í árdaga; hafa menn því snemma hugsað sjer sjerstakan heim, er þeir byggðu, enda segir Snorri í sinni bók (Eddu), að »einn sé staðr á himni, er heitir Álfheimr; þar byggja Ljósálfar — þeir eru fegri en sól«; »ljósálfar« eru kallaðir hjer til greiningar frá »dökkálfum« það eru dvergarnir, og þeir eru svartari en bik. Það sem hjer kemur fram, er yngsta stigið í heiðinni trú á álfa. Þeir voru hugsaðir sem ljósar og ljúfar verur (loptandar), sem vildu ekki annað en gott og unnu öllu því, sem var gott og fagurt.

Álfasteinn

Álfasteinn við Laugarás.

Í Alvíssmálum er kafli úr máli þeirra, eða taldir nokkurir hlutir og sagt, hvað álfar nefni þá; öll þessi nöfn eru yndisleg, ljúf og blíð og sýna tilfinningu fyrir fegurð náttúrunnar; jörðin heitir »gróandi«, himininn »fagraræfr«, sólin »fagrahvel«, skógurinn »fagrlimi«, lognið »dagsevi«, nóttin »svefngaman«, vindurinn »dynfari« o. s. frv. Þeir eru auðvitað fagrir ásýndum, og þegar menn hugsuðu sjer þá klædda, vóru þeir í fegurstu og dýrustu guðvefjarklæðum, bláklæddir, en einkum þó rauðklæddir; því sagði Skarphjeðinn: »sjáið þjer rauðálfinn, sveinar«. Þeir eru auðugir af gulli og gersemum, eins og Freyr og Njörður, og gátu því gefið mönnum fullsælu fjár. Þeir hata allt óhreint; því segir um Helgafell — en á því var sá átrúnaður, að þangað færi menn í fellið eptir dauðann, einkum niðjar Þórólfs Mostrarskeggs —, að enginn mátti þangað óþveginn líta og eigi skyldi þar »álfrek ganga« (forn og dýrmæt altansklæði (frá kaþólskum tímum), sem enginn veit neitt um upprunann, verða í þjóðtrúnni að álfagjöfum).

Álfar

Grásteinn í Grafarvogi – heimili álfa.

Nöfn með orðinu álf- í þóttu fögur og farsælleg (Álfgeir, Álfhildur o. fl.) og »vel þykir kent til álfa« (t. d. að kalla mann »brynjálf« í skáldskap) segir Snorri.

Ófeigskirkja

Ófeigskirkja, meint álfakirkja í Garðahrauni, var flutt um set vegna vegagerðar.

Álfadýrkun og álfablót hafa verið almenn um öll Norðurlönd; það er um þau talað í fornum sögum bæði í Norvegi og Svíþjóð, og sýnist svo, sem það hafi verið helzt konur, er stóðu fyrir þeim. Líkt hefur verið haft á Íslandi, enda segir í Kormákssögu frá veizlu, er ger hafi verið álfum til heilbrigðis manni, og hafi blóði fórnardýrsins verið roðið á álfahólinn. Ætíð þótti það hollara að hafa vináttu þeirra en styggja þá; það gat orðið til óleiks og óláns. Það er auðvitað, að úr því að álfar eru taldir með ásum, hafa menn hugsað sjer, að þeim hafi ekki verið mikið gefið um siðaskiptin forðum daga, og kemur í ljós á einum stað fögur, en angurblíðu-blandin hugmynd um það; svo segir, að maður einn hafi vaknað snemma og allt í einu hlegið; hafi hann þá verið spurður, hvað honum væri hlátursefni, og segist hann sjá mart skoplegt — maðurinn á að hafa haft ófreskisgáfu—: »margur hóll opnast og hvert kvikindi býr sinn bagga og gerír fardaga«; þetta vóru álfar og er auðsjeð, að þeir vildu flýja kristnina. En þeir flýðu ekki landið og það fór ekki fyrir þeim sem fjelögum þeirra, Óðni og þeim ásum, aðalgoðunum; þau hurfu, dóu smámsaman; Hvítakristr sigraði. Vilji maður halda landsvist, verður hann að hlýða landssið og hlíta landslögum — og það kjöru álfar, eins og síðar skal verða á drepið.

Álfar

Álfar ku búa í klettum.

Í ýmsum fornsögnum, sem þó eru ekki eldri en frá síðustu tímum fornaldarinnar, fer að brydda á þvi, að enn nánara samband getur komizt á milli manna og álfa, en áður hafa menn hugsað sjer, og er það mjög þýðingarmikið stig í islenzku álfatrúnni. »Ganga nauðsynja sinna«; dlfrek = það sem rekur álfa í burtu. Það einasta þýðing orðsins, sem getur komið til greina.
Það er ástarfar milli álfkonu t. d. og mennsks manns, sem jeg á við hjer, og eins hitt, að álfkona leitar hjálpar hjá mennskri konu í barnsnauð. Í álfasögunum í ísl. þjóðsögum og ævintýrum kemur hvorttveggja mjög opt fyrir, og það sem vjer hjer eptir höfum af álfum að segja, er tekið eptir og úr þessum álfasögum.

Álfakirkja

Álfakirkja í Selhrauni.

Eptir því sem tímar liðu fram, hlutu hinar upprunalegu hugmyndir um álfana að gleymast, að sama skapi sem heiðnar trúarskoðanir týndust, og breytast á margvíslegan hátt; og hefur þegar erið eitt dæmi að minnsta kosti sýnt í þá stefnu.
Um uppruna álfa fer nú tveim sögnum. Önnur er sú, að þeir sjeu systkin mannanna, börn Adams og Evu; segir sagan, að Eva hafi falið suma krakkana, þegar guð heimsótti þau Adam einu sinni, af því að þeir hafi verið óþvegnir og óhreinir; þá hafi guð sagt: »Það. sem skal hulið fyrir guði, skal hulið fyrir mönnum«; þessir krakkar hafi svo orðið forfeður huldufólksins. Hin sagan er sú, að þeir sjeu englar, sem engu ljetu sig varða aðferð Lucífers —, »vóru með hvorugum« —; þeir vóru því reknir niður á jörð og urðu álfar.

Álfasteinn

Álfasteinn við Hjarðarhaga.

Annars er trúin sú, að álfar fæðist og deyi sem menn, en verði allt að jafna langlífari; eru þeir að því leyti, sem mörgu öðru reyndar, á æðra stigi.
Að útliti til er það allt fallegt fólk og föngulegt, svipmikið, en opt nokkuð stórskorið. Það er optast nær bláklætt (þ.e. í svörtum vaðmálsklæðum, sem er aðalbúningur Íslendinga sjálfra); þó er einstöku sinnum talað um rauð klæði; kirkjufólk er í litklæðum, og við hátíðleg tækifæri er það prýtt gulli og gersemum, kvenfólkið hefur skautafald, hempur og að öðru leyti búning sem
mennskar konur. Að búningur álfmeyja hafi yfir höfuð verið álitlegur og ekki af lakara tagi sýna t. d. þessar vísur:

Á bláu var pilsi en beltið var vænt,
bundið um enni silkiband grænt,
skautafald háan, hvítan sem ull,
á hendinni bar hún þríbrotið gull.
Blátt var pils á baugalín,
blóðrauð líka svuntan fín,
lifrauð treyja, lindi grænn,
líka skautafaldur vænn.

Stakkavík

Álfakirkjan í Stakkavík.

Það er valla efamál, að sá búningur, sem hjer er bent til, hafi verið hátíðabúnaður fyrirkvenna á fyrri öldum. Nöfn koma nokkur fyrir: Arnljótur, Finnnr, Grímur, Kári og jafnvel Davíð; Alvör, Björg, Borghildur (drottning í borg, Álfaborg), Hildur, Íma, Snotra, Úlfhildur, Una, Vandráð eða Valbjörg. Kallmannanöfnin eru lítt einkennileg; betri og fallegri eru kvennanöfnin og sýna annaðhvort lundernisfar (Alvör, Snotra, Una) eða hjálpsemi (Björg).
Helztu líkamlegu einkenni eru, að alt er það ósýnilegt fólk, en hefur þá yfirburði, að geta gert sig sýnilegt við tækifæri. Það sjer allt á jörðu og í. Allt er þetta fólk alvarlegt og hógvært, góðgjarnt og hjálpsamt, hvort sem leitað er til þess beinlinis eða ekki, og ærið er það gestrisið, vinfast og trúlynt, en um fram alt ráðvant og ærlegt; svik eru ekki fundin i þess munni.

Kópavogur

Álfhóll í Kópavogi.

Það eru leifar af gömlu álfatrúnni, og er ekki að undra, þótt álfar sje nefndir einu nafni Ljúflingar, og þykir þeim það gott nafn; þar á mót líkar þeim ekki vel við álfanafnið, af því að það er svo opt haft í illri merkingu, og þykir sjer með því misboðið. Hefnigjarnir eru álfar stundum, ef til þeirra er illa gert eða ef þeir eru rnjög áreittir, en fáar fara sögur af því; hinar eru fleiri og langflestar, er fara af greiðvikni þeirra, þakklátsemi og rausnargjöfum, ef vel er til þeirra gert. Gjafir þeirra eru t. d. rauðleit hálfskák dýrmæt, undurofinn ljereptsklútur, svuntudúkur, skrúðklæði í kistli, prestsskrúð og línsloppur, ábreiða úr ókennilegum vefnaði, silfurbelti, gullofinn guðvefjardúkur1, gyltur silfurhnappur (lagður í barnslófa) o.fl. Bústaðir álfa eru ekki aðeins í hólum (haugum), heldur og í steinum (klettum, björgum); stór (kletta)borg verður þá höfuðstaður (Álfaborg). Híbýli þeirra eru í raun rjettri bæir, en líta út eins og steinar og hólar; inni er líkt umhorfs og í bæjum manna.

Bæjarsker

Bæjarskersleið – álfasteinn.

Lifnaðarhættir og atvinnuvegir eru sömu sem manna (Íslendinga sjálfra). Álfar hafa hunda, kýr og kindur, naut og hesta, fjöruga og fallega, og allt er það föngulegra og gerðarlegra en hjá mönnum. Af þessu leiðir, að þeir þurfa alla heyvinnu, þeir slá og raka, hirða og binda og safna í hlöður. Mjólkurtilbúningur fer þar fram, og opt heyrist strokkhljóð úr klettum. Þeir hafa ullarvinnu, kemba, spinna og prjóna. Þeir sem búa nálægt sjó, fara í verið og róa til fiskjar og eru að hvalskurði;- þeim hepnast ætíð vel og þeim hlekkist aldrei á. Þeir sem búa upp til sveita þar sem silungsvötn eru, róa og veiða silung. Þegar talað er um mat í hólum hjá álfum — en það er sjaldan —, er nefndur steiktur silungur (og má af því nokkuð marka, að sú saga sje til orðin í sveit) og þess utan brauð og grjónagrautur; brauðsog grautarefnið má ráða í hvaðan komið sje, sem síðar skal á minnzt. Þó er ekki laust við, að mönnum sýnist ekki maturinn í hólum girnilegur (stundum maðkaður eða allur rauður). Þess skal enn fremur getið, að álfar fara á berjamó og tína ber.

Álfakirkja

Álfakirkja – fjárskjól neðan bekkja.

Yfir höfuð er það allt velmegandi og auðugt fólk, sem áður segir. Þó er til fátækt fólk meðal álfa, og er stundum hart í búi hjá því; ber þá við, að krakkarnir þeirra koma til manna og sníkja mat eða mjólk í nóann sinn; askarnir eru hvítir með rauðum gjörðum (það hafa þótt laglegir askar, er svo vóru gerðir).

Álfasteinn

Álfasteinn við Hótel Natura.

Álfar halda fardaga og flytjast búferlúm, og er það kunnugra en frá þurfi að segja; þeir flytjast þá stundum á kerrum — sem sýnast steinar eða eru. Almennasta fardagatíðin er nýjársnótt. Um jólin og nýjársleytið hafa þeir gaman af gleði, söng og dansi, og kemur það ekki í bága við, að álfar annars sje mjög alvarlegt fólk.
Menntaðir eru álfar mjög vel, enda hafa þeir sálarhæfilegleika á æðra stigi en menn; þeir kunna á sjerstök grös til lækninga; geta látið hvali hlaupa á land með kyngi sinni, og er þá ekki furða, þótt huldumaður eigi krapta- og kyngisbók (galdrakver); álög þeirra verða að áhrinsorðum (»vertu þá aldrei óstelandi«). — Alfar kunna að skrifa; að minsta kosti er látinn skrifaður miði með barni i vöggu. Þeir hafa jafnvel prentsmiðju og prenta bækur, og er talað um sálmakver með mjög fínum stíl, er fundizt hafi við bæ einn; það var svo ólíkt öllu öðru, að það hlaut að vera komið frá álfum; og til eru brot af álfasálmum.

Álfar

Álfakirkja í Esju.

Að álfar myndi eina þjóðríkisheild, er víst, og eiga þeir sjer álfaþing, og hafa lög — Huldumannalög—, en aðeins eitt lagaákvæði þekkist úr þeim, og er það ekki óskynsamlegt (að rík álfamær, sem láti tælast af auðvirðilegum manni, skuli giptast honum og missa arfs síns).

Hamarinn

Hamarinn – álfasteinn.

Álfar eiga tvo kónga; það hefur þótt hefðarlegra og æðra, að þeir hjetu svo, en lögmenn, eins og þeir íslenzku. Kóngarnir áttu að fara sitt árið hvor til Norvegs og gera þar grein fyrir hag ríkis og þjóðar fyrir yfirkóngi allra álfa, er þar var. Það er auðsjeð, að þessi hugmynd er ekki yngri en 1400. Annars fara litlar sögur af þingum og málaþrasi álfa, eða öllu heldur engar, svo að vjer vitum.
Það er sögn um álfa, að þeir sje sumir heiðnir og illir; en þessu er víst ekki svo varið; illir eru þeir að minsta kosti ekki, enda koma þeir aldrei svo fram, nema þegar þeir eru reittir til reiði og þykkju.
En hitt er satt, að heiðin trú hefur haldizt um margar aldir hjá þeim og ef til vill aldrei dáið út með öllu. Því er þeim illa við kristilegt atferli; »ekki þurftirðu að krossa þetta ólukkukindin« sagði álfkona við konu, er krossaði mjólkina. Mennsk kona nefnir Jesús í álfhól; þá skreiðist gömul kelling fram og sópar allt húsið innan, og ekki þolir huldufólk ætíð að heyra guðsnafn; heldur ekki vildi huldumaður, sem var unnusti mennskrar stúlku, kyssa hana, eptir að hún hafði verið til altaris; það var kominn svartur, blettur á tunguna á henni. En það má það eiga, huldufólkið, að trúarofstæki er ekki til hjá því; það á viðskipti við kristna menn, kemur enda í kirkju með þeim, en þolir ekki blessunina; og ekki þótti álfameyjunni neitt að því að elska Ólaf liljurós:

Þar stóð úti ein álfamær,
sú var ekki Kristi kær.
Ekki vil jeg með álfum búa — segir Ólafur —
heldur vil jeg á Krist minn trúa.
Þótt þú viljir með álfum búa — svarar hún —
þó mátt þú á Krist þinn trúa.

Álfar

Álfur á Reykjanesi.

Þetta umburðarlyndi er fagur vottur um lund álfa, og mættum við mennirnir þakka fyrir, ef við værum ætíð svo sjálfir. Hins vegar er mart af álfum kristið ; hafa þeir líklega snúizt til siðbótar nokkuru eptir 1000, og efalaust hafa þeir og tekið þátt á siðabót Lúters. Þeir hafa kirkjur — og snúa dyrna r ætíð í austur— og presta; guðsþjónustan fer fram eins og hjá mönnum, en allajafna með meiri viðhöfn, öll kirkjan er ljósum lýst og prýdd, presturinn hefur hreimsætustu rödd o. s. frv. Biskup eiga þeir einn og býr hann í Blábjörgum; biblía þeirra er sú sama sem manna og sálma hafa þeir líka eða eins. Prestar eru stundum ekki ánægðir með brauð sín og geta þá haft brauðaskipti. Þess var áður getið, að álfar dæju sem menn, og er því ekki furða, þótt þeir eigi sjer kirkjugarða.

Hamarinn

Hamarinn – þjóðsagnakenndur staður álfa og huldufólks.

Að álfar geti ekki fremur en mennskir menn látið sjer nægja með afurðir landsins sjálfs, er svo sem auðvitað; enda var áður nefnt brauð og grjón hjá þeim; þeir verða því að hafa skip í förum, kaupmenn og verzlunarstaði. Um einn huldukaupmann er að minnsta kosti talað á Hofsós. Einu sinni viltist bóndi, sem ætlaði í kaupstaðinn, í hríð og kom að bæ, sem hann átti ekki von á; en þegar til kom, var þetta kaupmannssetur og búð; kaupmaðurinn var frakkaklæddur og tók bónda vel og bauð honum kaup við sig; reyndist þá svo, að þar vóru betri vörur og þar að auk miklu ódýrari en hjá Hofsóskaupmanninum. Kaupmaður hresti bónda með ágætu víni úr flösku og gaf í kaupbæti sjal handa konunni og brauðkökur handa krökkunum. Ekki er talað um kaffi, sykur og tóbak hjá álfum; en ef til vill hafa þeir getað drukkið te; að minsta kosti er talað um tekönnu, sem álfar hafi gefið.
Að lyktum skal þess getið, að álfar eiga mikil mök við menn og hænast jafnvel eptir því; sýnist það fara sífellt í vöxt, eptir því sem stundir líða. Margar fara sögur af ástum milli álfa og manna og eru þær með mörgu móti; hjónabönd og barneignir koma opt fyrir. Ástir álfa eru heitar og sterkar, tryggðin óbilandi; þeir deyja heldur og springa af harmi, ef þeir fá ekki að lifa með þeirri mennskri konu, sem þeir hafa fengið ást á. Og ætíð er það auðnuvegur að halda vinfengi við þá.

Álftanes

Álfasteinarnir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Á annan hátt kemur sambandið milli álfa og manna í ljós, og er það allmerkilegt atriði. Álfkonur leita opt til mennskra kvenna í barnsnauð, og eru þær þá sóttar í hólinn; þurfa þær ekki annað en fara höndum (trúin á læknishendur) um álfkonuna og verður hún þegar ljettari; hið síðasta stig í þessari trú er, að álf kona jóðsjúk þurfi ekki annað en leggjast í rúm mennskrar konu„ og á slíkt að hafa við borið árið 1770.

Grindavík

Álfhóll við Þorbjörn h/f í Grindavík.

Allur þess konar greiði og hjálp er launuð með ríkmannlegum gjöfum og þakklátsemi. Að síðustu skal þess getið, að álfar hænast mjög eptir börnum manna og leitast opt við að heilla þau eða lokka þau með sjer burt frá bænum, þegar enginn gætir þeirra (hvernig stendur á þeirri trú er mér með öllu óljóst). Ef börnin sýna mótþróa, svo að álfurinn nær þeim ekki, sinnist honum opt og slær þá barnið á kinnina, og fær það þá bláan blett á hana. Svona skýrðu menn þessa óskiljanlegu meðfæddu bletti, sem einstöku menn höfðu og hafa. Stundum vilja álfar ná í börnin með því að hafa skipti á þeim og álfabörnum (sem reyndar optast eru gamlir álfar — »átján barna faðir í Álfbeimum); skiptir þá svo um, að börn, sem áður vóru spök og gæf, verða nú óspök og láta öllum illum látum; það eru umskiptingarnir, sem allir þekkja.

Hamarinn

Hamarinn.

Svona var álfatrúin á Íslandi til skamms tíma og saga hennar í stuttu máli. Nú er hún að mestu eða öllu dauð á Íslandi; menntunin, skólarnir og framfarirnar hafa orðið henni að fjörlesti, og álfarnir hvílast nú í kirkjugörðum sínum og rísa aldrei upp aptur. »Allrar veraldar vegur víkur að sama púnkt«. »Íslenzkar þjóðsögur« er grafskriptin.
Þessi álfatrú er í mörgu lærdómsrík. Hún er nokkurs konar skáldskapur þjóðarinnar, en með öllu ósjálfráður; sveigist hún stöðugt meir og meir að því að verða mynd af íslenzku mann- og þjóðfjelagslífi; álfarnir verða æ mennskari og mennskari í öllu sína eðli og athæfi; því er það svo mikils vert, að geta fylgt henni, þrætt hana svo að segja fet fyrir fet. Og hún truflast ekki eða blandast af neinum utan að komandi eða útlendum áhrifum; frá því á 14. öld að minnsta kosti er hún alíslenzk og heldur áfram að vera það til endaloka. Heiðin trú fór — að vorri hyggju — sama veginn síðustu aldirnar, sem hún lifði; en þar eru nú margar skoðanir um, hvernig henni hafi verið varið, og er það mikið mein, að svo skuli vera. En um álfatrúna á Íslandi er enginn efi eða óvissa. Af allri hjátrú liðinna tíma er hún fegursti og ljúfasti þátturinn, og hún er sá sanni spegill, er þjóð vor getur sjeð sig sjálfa í, sitt líf og sinn hugsunarhátt.” – Finnur Jónsson.

Heimild:
-Eimreiðin, 2. tbl. 01.07.1895, Álfatrúin á Íslandi, Finnur Jónsson, bls. 93-103.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2342
Álfar

Hvalbak

Við Álfhól í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má m.a. lesa eftirfarandi:
Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma. Hólinn mætti merkja með látlausum hætti.

Kópavogur

Álfhóll.

Álfhóll er stórgrýttur grasi gróinn hóll sem gengur út í götuna. í hólnum er sagt að búi þrír álfar, einn gamall og tveir unglingsálfar; en að þeir hafi verið fleiri hér áður.

Álfhóll

Kópavogur – Álfhóll.

Fjórum sinnum er talið að álfar hafi haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Byrjað var á lagningu Álfhólsvegar seint á fjórða áratugnum. Veginn átti að leggja frá Hafnarfjarðarvegi að Álfabrekku og tengja við Nýbýlaveg. vel gekk að leggja veginn út að Álfhólnum en þegar þangað var komið og átti að fara að sprengja var framkvæmdafé uppurið. því er haldið fram að álfar hafi komist í bókhald bæjarins.

Áratug síðar átti að hefja framkvæmdir aftur. Fyrsta skrefið var að ryðja burt hólnum en þegar þær framkvæmdir hófust fóru dularfullir atburðir að gerast. Vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og mörg þeirra hurfu á óskiljanlegan hátt. Hætt var við að ryðja burtu hólnum og var settur hlykkur á veginn fram hjá honum.

Kópavogur

Álfhóll.

Í lok níunda áratugarins átti að endurbæta veginn. Framkvæmdirnar gengu mjög vel þar til ráðgert var að leggja mabik upp að hólnum. Fjarlægja átti hluta hólsins en til þess átti að nota öflugan steinbor tengdan kraftmiklli loftpressu. Þegar menn hófust handa við að bora í klöppina þá brotnaði borinn. Það dugði heldur ekki til að ná í annan bor því allt fór á sama veg og segja sjónarvottar að hann hafi hreinlega kubbast í sundur.

Kópavogur

Kópavogur – Álfhóll.

Í kjölfar þess neituðu verkamenn að koma nálægt hólnum með vélar og verkfæri. Vegaskipulaginu var breytt og er þarna þrenging og hraðahindrun á veginum ásamt gangbraut sem þjónar vel þeim börnum sem sækja Digranesskola.
Áhrifum álfa var þó ekki lokið. Lóðunum austan við hólinn var úthlutað á níunda áratugnum og þar á meðal var lóðin Álfhólsvegur 102, sú sem næst liggur hólnum. Eigandi lóðarinnar hóf þar aldrei framkvæmdir heldur skilaði lóðinni með þeim skýringum að honum litist ekki á lóðina og vildi ekki byggja þar. Að öðru leyti vildi hann sem minnst um málið segja. Hvort sem álfum var um að kenna eða ekki þá er enn ekkert hús númer 102 við Álfhólsveg og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.
Hvort sem um er að ræða álfa, röð tilviljana eða ókunnug öfl þá er Álfhóllinn athyglisvert kennileiti í bænum. Örnefnið er hluti af sögu bæjarins og álfasögurnar af þessum skemmtilega stað gefa tilefni til mikilla vangavelta.

Álfhóll

Álfhóll – skilti.

Álfsnes

Bærinn Álfsnes er á Álfsnesi á Kjalarnesi. Í örnefnaskrám er m.a getið um gamlan bæjarhól, svonefndan Hulduhól (Hólinn) neðan við bæjarhúsin og laug (vatnsstæði) ofan þeirra.

Álfsnes

Álfsnes – Hulduhóll.

“Hulduhóll var 20 – 30 m frá bænum í suðaustur. Hann var stór um sig, stórþýfður og ávalur á alla kanta. Í honum var talið huldufólk, og sá B.[irgir] K.[ristjánsson] eitt sinn huldukonu þar í grennd.” (Ö.Ál.3). “Hulduhóll var kallaður Hóllinn í daglegu tali. Þetta var aflangur hóll, og hallaði aðeins af honum niður á túnið.” (Ö.Ál.2).
Hulduhóll er stór hóll suðaustur af bænum, gæti verið gamall bæjarhóll. Munnmæli herma að “Í Hólnum í Álfsneslandi var talið að huldufólk byggi”.

Álfsnes

Álfsnes – laug/brunnur/vatnssstæði.

Í “Fornleifaskráningu vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi” frá árinu 2008 segir um Hulduhól: “Í túni Álfsness í aflíðandi grasi grónni brekku um 20
m SA af íbúðarhúsunum er álfhóll, um 2 m á hæð, mjög vel grasi gróinn”.

Í óútgefinni “Fornleifaskráningu á Álfsnesi og Glóru” árið 2006 segir: “„Staðhættir og lýsing: Ferhyrnd laug sem er með þrjár hliðar steyptar en eina hlaðna. Norðvesturhliðin er með stórgrýti með steinhleðslum neðst og er 3 m löng.

Álfsnes

Álfsnes – tóft við “laugina”.

Aðrar hliðar laugarinnar eru 2 m langar. Laugin er ca. 1 m að dýpt, hún er full af vatni ásamt svolitlum gróðri. Ástand: Hleðslur standa. Hættumat: Hætta vegna nærliggjandi iðnaðar. Aldur: 1900+ þó að hlaðni hluti laugarinnar gæti verið eldri”.
Skammt norðaustan “laugarinnar” er ferhyrnd tóft. Á túnakorti frá 1916 er hún í jaðri norðurtúngarðs Álfsness.
Með því að bera tóftina á túnakortinu, auk hliðastæðrar tóftar við vesturtúngarðinn, má augljóslega bera kortið saman við nýlega loftmynd af bæjarstæðinu.

Heimildir:
-Athugasemdir Þórðar S. Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.2).
-Athugasemdir Birgis Kristjánssonar við örnefnaskrá. (Ö.Ál.3).
-Fornleifaskráning á Álfsnesi og Glóru, 2006. Óútgefin skýrsla. Gögn Minjasafns Reykjavíkur.
-Fornleifaskráning vegna fyrirhugaðra framkvæmda í Álfsnesi í Reykjavík, 2008.

Álfsnes

Álfsnes

Laugarás

Í klapparholti vestanvið Laugarásbíó er álfasteinn. Þrátt fyrir hús allt um kring og snyrtar lóðir umleikis, göngustíg, bifreiðaplan og umsvif hernámsliðsins hefur steinninn fengið að vera óhreyfður í samneyti Álfhóll í Laugarásivið aðra slíka í holtinu.
Halldóra Aðalsteinsdóttir man vel eftir þessum steini þótt sé komin yfir áttrætt. Hún fæddist 16. júní 1927 á Lindargötu 7 (í dag nr. 23) og fluttist 10 ára gömul í verkamannabústað á Hofsvallagötu 15. Þegar hún giftist Magnúsi Þorbjörnssyni bjuggu þau að Fálkagötu 22. Síðar fluttust þau í fjölbýlishús við Kleppsveg, en frá stofuglugganum hennar er ágætt útsýni til suðurs yfir holtið í Laugarási. Hún sagði svo frá:
“Er ég stend við stofugluggann minn, sem snýr í suður, blasir við mér stór steinn. Undir honum er bekkur. Eitt fallegt vetrarkvöld, árið 1996, sennilega í febrúar/mars, jörð var auð, verður mér litið út um gluggann og þá fannst mér eins og þessi steinn (klettur) opnaðist og mikil birta þar fyrir innan. Mér fannst eins og dyr eða gluggi væri opnaður, og fannst mér veggirnir í kringum gatið mjög þykkir. Þar fyrir innan í ljósinu fannst mér ég sjá fólk eða einhvers konar verur á hreyfingu og fannst mér það vera þó nokkuð margir. Ekki man ég eftir neinum sérstökum litum á þessum verum, mikil birta, en þó voru einhvers konar skuggar í kringum þær.

Álfasteinn

Ég horfði á þetta um stund, og fullvissaði mig um að enginn væri þarna í kring að lýsa upp steininn eða eitthvað því um líkt.
Síðan kallaði ég á manninn minn, sem kom, en með semingi þó, sagðist ekki trúa á svona, enda sá hann ekki neitt, en smám saman dofnaði þessi birta og allt varð eins og áður.
Ég horfði oft á þennan stein, nánast daglega, en hef ekki orðið vör við neitt þessu líkt aftur.
Rétt er þó að geta þess að reglulega kemur gömul kona að steininum, staldrar við stutta stund, leggur hönd á hann, segir einhver orð og fer síðan. Þetta hefur hún gert um langan tíma.”
Halldóra sagði einnig frá álfasteini við Hjarðarhaga 13.

Heimild:
Halldóra Aðalsteinsdóttir, f. 16. júní 1927. Viðtal við FERLIR í des. 2008.

Sæfinnur

Reykjavík um 1900.

Breiðagerðisskóli

Í Mbl árið 1984 birtist svonefnd umfjöllun um álfhól við Breiðagerðisskóla í Reykjavík:
Breiðagerðisskóli“Árið 1956 var hafin bygging barnaskóla við Breiðagerði og fékk nafnið Breiðagerðisskóli. Arkitektarnir Einar Sveinsson og Gunnar Ólafsson teiknuðu húsið. Á þeirri lóð, sem húsinu var valinn staður, var hóll, sem margir kölluðu Alkhól, en það nafn var af sumum talin afbökun úr Álfhól. Hins vegar bendir margt til þess að hóllinn hafi heitið Borgarhóll og var oft miðstöð fyrir vetrarleiki barna frá Bústöðum og síðar. Allt í kringum hólinn voru grösug tún, en ekki var hóllinn sleginn þar sem talið var að hann væri bústaður álfa. Sagt var að ljós sæjust þar stöku sinnum.
Það var því ýmissa manna mál að við hólnum mætti ekki hrófla, þetta væri álagahóll. En hver sem trú ráðamanna var um byggingu skólans var húsið þannig teiknað að ekki var í fyrstu við hólnum hreyft. Var skólinn byggður og var allt kyrrt um sinn.
En þegar kom að því, að leggja þurfti heimkeyrslu að dyrum á norðvesturhorni skólans, þurfti aðeins að skerða jaðar hólsins og var það talið fljótunnið verk. En það fór á aðra leið.
Starfsmönnum leikvalla var falið að vinna verkið og hafði Bjarnhéðinn Hallgrímsson, sem hafði og hefur umsjón með framkvæmdum á leikvöllum borgarinnar, umsjón með verkinu.
ÁlfhóllinnHann segir svo frá:
Kristínus Arndal var þá einn af flokkstjórum vallanna. Hann taldi þetta létt og fljótunnið verk en reyndin varð hins vegar önnur. Varla var verkið hafið og Kristínus að stíga sín fyrstu skref inn á vinnusvæðið er hann missteig sig illa og brákaðist á fæti og gekk haltur lengi eftir það en hélt þó áfram stjórn verksins. Var nú fengin vinnuvél til að grafa út úr hólnum, en þegar hún tók fyrstu fylli úr hólnum kvað við brestur og hafði eitthvað brostið í lyftubúnaði tækisins. Varð að fara með tækið til viðgerðar og tafðist verkið í einn dag. Þegar verkið gat hafist á ný reyndist tækið ekki betur en svo, að skiptibúnaður þess bilaði það alvarlega að verkfærðið var úr sögunni um langa hríð. Var þá fengin til verksins öflug og spánný vélgrafa af stærstu gerð sem þá hafði komið til landsins. Hún virtist ætla að fara létt með verkið, en fljótlega brast eitthvað í nýja tækinu og þótti þá mörgum furðu gegna og kunnu engar skýringar á.
Var eftir það ógerlegt að fá verkfæri til að vinna verkið. Var þar látið við sitja og jafnað undir malbik með handverkfærum. Síðan var ákveðið að taka ekki meira úr hólnum og hann jafnaður í það horf sem hann er í dag og hefur ekki borið þar á fleiri furðum eða óhöppum síðan.”

Heimild:
Mbl, lesbók, laugardaginn 7. júlí 1984 – Sigurður Þór Salvarsson.

Breiðagerðisskóli

Hafnarfjörður

Fiskaklettur í Hafnarfirði stendur traustur í hjarta framkvæmda á Norðurbakkanum í Hafnarfirði. Skammt ofar er Huldukonuklettur. Á honum er lítil varða. Enn ofar er varða við Vörðustíg. Þessar vörður, ásamt nokkrum öðrum, vörðuðu land Akurgerðis fyrrum, allt að Hamarskotslæk. Aðrar vörður en þessar tvær eru nú horfnar undir óskipulega byggð þess tíma. Skammt austan við Vörðustígsvörðuna er Álfaklettur við Merkugötu.

Fiskaklettur

Fiskaklettur – Jónatan Garðarsson við Fiskaklett 1905.

Í Morgunblaðinu árið 2005 fjallar Svavar Knút Kristinsson um Fiskaklett; “Einn af framvörðum hafnfirska hraunsins“:
“Vegfarendur sem eiga leið um athafnasvæði við höfnina í Hafnarfirði, þar sem gamla bæjarútgerðin áður stóð, reka margir augun í undarlegan klett sem stendur dálítið eins og óboðinn gestur innan um rymjandi gröfur, lyftara og jarðýtur. Kletturinn, sem nefnist Fiskaklettur, er alls ekki óþekktur meðal Hafnfirðinga, en hann skipar mikilvægan sess í sögu bæjarins frá upphafi byggðar.
Fiskaklettur er í raun ysti oddi hraunsins í Hafnarfirði og lá hann dálítið út í sjó. Nú stendur hann í miðju landfyllingar sem byggingarnar á höfninni voru reistar á.
„Fiskaklettur var lengi eins konar útvörður Hafnarfjarðar, á meðan bærinn var lítill kaupmannsbær,“ segir Jónatan Garðarsson, dagskrárgerðarmaður og ferðamálaráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ. „Það var mjög aðdjúpt við klettinn og fiskigöngur áttu það til að lóna við hann og því var hann kjörinn veiðistaður. Þaðan er nafnið dregið.“

Gamalt og merkilegt kennileiti

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1776-1778 skv. mælingum H.E. Minor.

Fiskaklettur er merktur inn í uppdrátt sem gerður var eftir mælingum sjóliðsforingjans H.E. Minor frá árunum 1776–78. Á uppdrættinum eru merkt inn þau fáu hús sem stóðu við Hafnarfjörð ásamt þeim kennileitum sem markverðust þóttu. Fiskaklettur er þar sýndur rétt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði.
Þegar stjórnvöld ákváðu að reisa tvo vita í Hafnarfirði árið 1900 var annar þeirra byggður hátt uppi á hraunbrúninni, þar sem Vitastígur er nú, en hinn vitinn settur niður vestur með sjó. Fyrstu árin voru vitarnir reknir á kostnað landstjórnarinnar, en eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi, 1. júní 1908, óskaði Stjórnarráð Íslands eftir því að bærinn tæki við rekstri vitanna. 1. janúar 1911 tók bærinn alfarið við rekstri vitanna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarvitinn efri.

Árið 1913 var fyrsta hafskipabryggja landsins tekin í notkun í Hafnarfirði, rétt innan við Fiskaklett við Hellyershúsin, en þar höfðu mikil bólvirki verið hlaðin upp og steypt á klettabrúninni. Þá var Fríkirkjan risin og skyggði hún á ljósgeisla vitans á hraunbrúninni. Þess vegna var ákveðið að stækka hann og færa hinn vitann innar í fjörðinn. Var vitinn endurreistur á Fiskakletti, en þar stóð hann til ársins 1931 þegar hann var rifinn.
Verndaður „óvart“

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2003.

Um 1960 var hafnarbakkinn í norðurhöfninni gerður og stálþil rekið niður á rúmlega 170 metra kafla. Á næstu árum var haldið áfram með landfyllingar í áttina að Norðurgarði. Á þessum árum komst efsti hluti Fiskakletts á þurrt land. Þrátt fyrir margs konar framkvæmdir, byggingu stórra vöruskemma og að gömlu fiskverkunarhúsin væru rifin í áföngum var Fiskakletti jafnan hlíft, enda talinn náttúrlegur minnisvarði sem bæri að vernda.

Fiskaklettur

Fiskaklettur – skilti.

„Það má segja að Fiskaklettur hafi verið friðaður óvart,“ segir Jónatan og bætir við að menn hafi ætíð sýnt klettinum mikla nærgætni enda mikil virðing borin fyrir honum. „Þegar menn hafa verið að vinna hér í einhverjum framkvæmdum hafa þeir alltaf gætt mjög vel að því að raska ekki klettinum. Þeir hafa meira að segja raðað gámum í kringum klettinn til að vernda hann þegar mikið er um að vera. En hann virðist alltaf hafa verið verndaður hér fyrir einhverja meðvitund Hafnfirðinga sjálfra frekar en opinbera friðun.
Það var ekki fyrr en fyrir einhverjum árum sem hann fór inn á deiliskipulag sem friðaður staður. Nú hafa verktakarnir sem byggja hér gert ráð fyrir honum í hönnuninni.“
Fegrunarnefnd Hfj. merkti klettinn 1981 og lét setja á hann koparskjöld sem á stendur: „Þetta er Fiskaklettur einn af framvörðum hafnfirska hraunsins, sem mikil fiskimið voru við hér fyrr á árum.“

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I frá árinu 2020 er m.a. fjallað um Fiskakett og svæðið ofan hans:

Hafnarfjörður
“Hafnarfjörður hefur ætíð byggt afkomu sína af því sem kom úr hafinu og því sem kom af því. Í kring um 1400 komu norsk skip að landi og er elsta heimildin um slíka komu árið 1391 og aftur 1394. Fjórtánda öldin er gjarnan kölluð norska öldin, en við henni tók öld sem kölluð hefur verið enska öldin frá því um 1400. Og enskir tóku að venja komur sínar til Hafnarfjarðar og varð Hafnarfjörður ein helsta höfn Englendinga allt fram til um 1480, en þá tóku þýskir Hansakaupmenn við keflinu og ekki alltaf án átaka. Ítök þýskra varði allt til þess er einokunarverslunin var í lög sett árið 1602, en þá tóku Danir alfarið yfir. Skreiðin var sú vara sem allir þessir aðilar sóttust eftir, en aðrar vörur voru einnig eftirsóttar, t.d. lýsi og brennisteinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902.

Árið 1677 kaupir Hans Nansen kaupmaður land Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum frá ómunatíð, og við það leggst búskapur endanlega af á býlinu og í staðinn rísa þar þurrabúðir, tvær árið 1703 og ein eyðibúð. Þeim hefur væntanlega fjölgað smám saman, en við tóku betri húsakynni í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. og standa mörg hver enn. Þetta er hluti af því sem nú er kallað Vesturbærinn og því hluti af verkefninu Verndarsvæði í byggð. Þó engin þessara þurrabúða hafi lifað fram á daginn í dag, er líklegt að dreifing þeirra hafi verið sama marki brennd og byggðin varð síðar, „… aðhúsaskipun og götulagning þar væri í mesta ólagi, enda byggði þar hver eftir sínum eigin geðþþótta, óátalið, og væri auðsýnt, að ef svo búið stæði til lengdar, mundi bæjarstæðið skemmast til þeirra muna, að engin tiltök yrði að lagfæra það.“ (Sigurður Skúlason 1933). Þetta var í nefndaráliti nefndar um bæjarstjórn í Hafnarfirði þann 25. febrúar árið 1903.

Hafnarfjörður 1925

Hafnarfjörður 1925 – uppdráttur Jóns Víðis. Hér sjást hinir gömlu garðar vel.

Dreifing húsa sem nú standa hefur tekið mið af hinu sérstæða hraunlandslagi. Húsin hafa gjarnan fundið sér stað í skjóli í hraunbollum eða grasblettum hlémegin við hraunhóla. Utan um þau hafa verið byggðir grjótgarðar sem afmörkuðu lóðirnar frá hvor annarri. Engar eiginlegar götur hafa verið lagðar svo að heitið geti, en slóðar og troðningar legið á milli húsanna. Um 1890 var enginn upp hlaðinn vegur í Hafnarfirði og svo var að mestu leyti fram yfir aldamótin. „Milli húsa eru víðast engar götur og engin fráræsla frá húsum.“ Þetta var í bréfi Guðmundar Björnssonar héraðslæknis í Reykjavík, síðar landlæknis, til Valtýs Guðmundssonar árið 1903.
Innan lóðarmarkanna hafa stundum verið dálitlir ræktunarreitir. Útlendur ferðamaður lýsti Hafnarfirði svo árið 1907: „Geysimikill hraunveggur verndar bæinn gegn bitrum austanvindinum, og húsin eru beinlínis greypt milli hraunklettanna og eru á hlýlegum stöðum.“ (Poulsen, Sven o.fl. 1907).
Opinbert skipulag leit ekki dagsins ljós fyrr en 1926 (Sigurður Júlíusson 1933).”

Í Fornleifaskránni segir auk þessa:

Huldukonuklettur – þjóðsaga

Hafnarfjörður

Huldukonuklettur – varðan sést vel upp á klettinum.

Kletturinn er nánast uppvið Vesturbraut 26b. „Í klettnum neðst við Vesturbraut býr huldukona […]. Hún er stundum sögð eiga tvo uppkomna syni.“ (Bryndís Björgvinsdóttir & Svala Ragnarsdóttir (2018). Krossgötur: Álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi).

Álfaklettur – þjóðsaga

Hafnarfjörður

Álfaklettur við Merkurgötu.

Við Merkurgötu. Á milli húsa 9 og 9a. Vegurinn sveigir framhjá klettinum og innkeyrsla fast sunnan við hann.
„Við Merkurgötu er stór álfaklettur eða álfasteinn […]. Vegurinn sveigist hinsvegar og þrengist við steininn áður en hann breiðir úr sér aftur. Sagan segir að til hafi staðið að brjóta klettinn niður árið 1937 vegna framkvæmda […]. Járnkarl sem notaður var til verksins festist í klettinum og „mikil ógæfa helltist yfir vinnumenn þá sem áttu að fjarlægja hann.“
Járnkarlinn situr enn á sínum stað og kletturinn nýtur nú hverfisverndar […].“ (Bryndís Björgvinsdóttir & Svala Ragnarsdóttir (2018). Krossgötur: Álfatrú,
álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi).

Fiskaklettur – örnefni

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022.

Kletturinn er á milli húsanna Norðurbakki 15 og 17.
„Fiskaklettur. Krosssprunginn klettur vestur frá Gestshúsum í sjó fram. Allmikið dýpi var við klettinn og þar fiskaðist vel.[…] Í skjölum og sögnum síðari alda kemur Fiskaklettur oft við sögu. Þetta mun oftast vera vegna þess, að hann var endimark hinnar fornu verzlunarlóðar (Akurgerðislóðar) að vestan með sjó.“
Kletturinn hefur verið varðveittur á milli bygginga. (Guðlaugur Rúnar Guðmundsson. (2004). Örnefnalýsing Hafnarfjarðarlands).

Varða við Vörðustíg – landamerki

Hafnarfjörður

Vörðustígur – Landamerkjavarðan; Bragi Brynjólfsson stendur við vörðuna 2022.

Á lóð Vörðustígs 2. Varðan er 1-1,2m við botn, nær ferhyrnd og 1,9 m há. Úr hraungrýti með steypu á milli steina. (Bjarni F. Einarsson, 2018).

Heimildir:
-Morgunblaðið, 228. tbl. 25.08.2005, Fiskaklettur; einn af framvörðum hafnfirska hraunsins – Svavar Knút Kristinsson, bls. 18.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I, 2020.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Kirkjuvegur 1925.

Kópavogur
Fornleifaskráning fór fram í hluta af landi Kópavogs árið 2000 undir umsjón Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings. Þó voru staðir eins og Þingnes ekki skráðir að öllu leiti. Staðurinn er í raun bæði í landi Reykjavíkur og Kópavogs og hann hefur verið rannsakaður í nokkur skipti, en aldrei að fullu. Margt bendir til þess að eldra nafn á staðnum sé Krossnes, en heitið Þingnes hefur fest sig í sessi á seinni tímum og verður væntanlega notað eftirleiðis.
ÁlfhóllÞað var annars einkennandi fyrir Kópavog, líkt og svo marga aðra staði á landinu, hversu gengið hafði verið óhikað á fornminjar og þeim ýmist eytt (meðvitað eða ómeðvitað), en seinni tíma iðrun einungis orðið til þess að opinbera vitund fólks um mistökin án þess að beinilínis hafi sést merki um að það hafi dregið dýrmætan lærdóm af þeim, sbr. Hjónadysina og Systkinaleiðin við Þinghól – og það þrátt fyrir fomlega friðlýsingu frá hinu háverðuga Alþingi Íslendinga. Þeir staðir, sem þó hafa verið varðveittir til framtíðar og teljast verða merkilegir, eru hins vegar ómerktir. Hér á eftir er byggt á skýrslu Bjarna, en jafnframt gerðar við hana smávægilegar athugasemdir. Hingað til hefur það ekki þekkst að gerðar séu athugasemdir eða ábendingar við fornleifaskráningarskýrslur, en kominn er tími til að breyta því, a.m.k. þeim er lúta að Reykjanesskaganum. Sumar hverjar virðast verulega ábótavant og aðrar beinlínis rangar. Þrátt fyrir það byggja opinberir aðilar mikilvægar ákvarðanir sínar m.a. á þeim gögnum.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Í skýrslu Bjarna (frá árinu 2000) kemur m.a. fram að “ef velja á fornleifar sem eru einkennandi fyrir ákveðið hérað eða svæði er mikilvægt að vita hvaða fornleifar eru til svo hægt sé að velja.”
Einnig kemur fram að “í hugum nútímafólks er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Sveitarfélagið sjálft var ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936. Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er áleiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ Kópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar. Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammskot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammskotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm. Ekki hefur þó þróunin alltaf verið neikvæð því í jarðarbókum 17. aldar og Jarðamati Johnsens árið 1847 og yngri jarðamötum, hækkaði jarðarmat allra jarða innan bæjarlandsins nema Digraness.
Borgarholt Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Erliggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur.J hvamme c leigv.J digranesi iij merkur:“ Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viijalne vatmell.“ Til eru aðrar og eldri heimildir um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra til fulls.

Elsta mannvirki sem í ýtarlegri sögu Kópavogs má lesa í Sögu Kópavogs I-III, sem Lionsklúbbur Kópavogs gaf út árið 1990 og endurminningum Huldu Jakobsdóttur “Við byggðum nýjan bæ”, sem Gylfi Gröndal ritaði árið 1988.
M.a. hefur fundist í Kópavogi jarðhýsi eitt, sem staðsett er undir minjum hins gamla Kópavogsþingstaðar, norðanvert við árósa Kópavogslækjar. Jarðhýsið er C-14 aldursgreint og var niðurstaðan óleiðrétt 1180 ± 130 BP. Sé niðurstaðan hins vegar leiðrétt með 95,4% vissu, er niðurstaðan sú að húsið hafi verið í notkun einhverntíma á bilinu 600 – 1200. Talið er að jarðhýsið geti jafvel verið frá 9. öld. Ofan á áðurgreindu jarðhýsi fannst smiðja, sem var mun eldri en frá 1500 miðað við afstöðu gjóskulaga, en reyndist vera frá því um 1800 samkvæmt C-14. Ástæðan fyrir þessu misræmi hlýtur að vera sú að viðurinn sem var aldursgreindur hefur borist í húsið á seinni tímum eða mistök átt sér stað á tilraunastofunni. Talið er að smiðjan geti verið frá 12. öld. Skammt suður af jarðhýsinu var byrgð þró. Viðarkolasýni úr henni var aldursgreint og niðurstaða þeirrar greiningar 900 ± 70 BP.

Latur

Latur – „Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Rannsóknin á Kópavogsþingstað sýnir svo að varla verður um villst að búseta hefur hafist á staðnum þegar á landnámsöld, kannski við upphaf hennar í lok 9. aldar. Jarðhýsi finnast nær aldrei ein og sér, þau eru ævinlega á bæjarstæðum, verslunarstöðum, þingstöðum eða eins og ýmislegt bendir til, á kumlateigum. Ekki er líklegt að jarðhýsið í Kópavogi hafi tilheyrt neinu öðru en bæjarstæði, sem er þá elsta bæjarstæði Kópavogs sem vitað er um í dag. Hvar bærinn hefur nákvæmlega staðið er ekki gott að segja, en þau jarðhýsi sem fundist hafa á bæjarstæðum hérlendis eru öll nálægt bæjarhúsunum, varla meira en 10 m frá þeim. Jarðhýsið í Kópavogi sker sig þó úr öðrum jarðhýsum hér á landi hvað tvö atriði varðar. Húsið er aðeins grafið niður um 20 sm í jökulruðninginn, sem er mjög lítið miðað við öll önnur jarðhýsi hér heima og erlendis. [Hér er í raun um vafamál að ræða, því hæpið er að kalla þetta “jarðhýsi”, svo grunnt sem það er og því fellur frekari rökstuðningur um nálægð við aðra bæjarhluta um sjálfan sig]. Á gólfinu er steinalögn sem gæti verið eldstæði, öll eða hluti hennar. Smiðjan ofan á jarðhýsinu segir okkur einnig að skammt frá hafi verið býli um 1200. Smiðjur virðast stundum hafa verið einhvern spöl frábæjarhúsum í öndverðu en færst svo nær býlunum, trúlega í upphafi miðalda, sbr. Stöng o.fl. bæi.Við önnur bæjarstæði í Kópavogi, Hvamm (Fífuhvamm), Digranes og Vatnsenda, eru/voru vafalítið mjög fornar minjar. Fífuhvammur er horfinn að mestu leyti, ef ekki öllu, og Digranes horfið að talsverðu leyti þó ýmislegt markvert kunni að leynast þar enn undir grasrótinni. Við Vatnsenda er enn búið og bæjarstæðið og nánasta umhverfi þess geymir örugglega mikið af upplýsingum um forsögu þess bæjar sem gæti hafa verið talsverð, samanber orðalag Máldagaskrá Viðeyjarkirkju. Í raun má segja að núverandi íbúðarhús standi á bæjarhól, en slíkir hólar geyma yfirleitt gríðarlegt magn upplýsinga um búskaparhætti á liðnum öldum. Niðurstaðan er því sú að þó að ritaðar heimildir segi ekki mikið um mannlífið á Kópavogsbæjunum að fornu og að svæðið virðist ekki hafa komið við sögu helstu atburða Íslandssögunnar, þá geyma fornleifarnar gríðarlegt magn af upplýsingum sem eru enn mikilvægari þegar hinar rituðu heimildir skortir. Í tilviki Kópavogs eru þær að sumu leyti einu heimildirnar sem við höfum um mannlíf og sögu svæðisins fyrstu aldirnar.

Þinghóll Í Sögu Kópavogs I segir að þegar klóak hafi verið grafið fyrir neðan Kópavogshælið, meðfram Fífuhvammsvegi, hafi verið fylgst með verkinu af fornleifafræðingi og hann skráð og teiknað upp eftir þörfum. Skilti á staðnum sýnir að hreinsað hefur verið ofan af gólfum og veggir lagaðir eitthvað til. Að öðru leyti virðist bærinn ekki hafa verið rannsakaður frekar. Skammt frá Digranesi stóð rúst sem líklega var fjárhús frá bænum. Var rústin fjarlægð með vélgröfu undir eftirliti Þjóðminjasafns.
Árið 1988 voru tvær dysjar rannsakaðar er gengu undir heitinu Hjónadysjar. Kom í ljós að þar hvíldu maður og kona og getum að því leittað þau hafi verið Sigurður Arason frá Árbæ og Steinunn Guðmundsdóttir, einnig frá Árbæ sem dæmd voru árið 1704 fyrir morð á eiginmanni Steinunnar, Sæmundi Þórarinssyni.
Í Kópavogi hafa 53 staðir verið skráðir og á þeim voru meir en 75 minjar. Þá eru rústir á Þingnesi ekki taldar með, en þær eru fleiri en 18 og a.m.k. fjórar þeirra eru í landi Kópavogs.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna 1662 á Þinghól.

Fjórir staðir eru friðlýstir. Eru þeir Kópavogsþingstaður, Hjónadysjar, Systkinaleiði og Þingnes. Allir staðirnir voru friðlýstir árið 1938. Þingnes er þó að mestu leyti í landi Reykjvíkur, en hið friðhelga svæði nær þó eitthvað inn í land Kópavogs og vafalítið eru nokkrar rústir í landi Kópavogs (þær vestustu). Í friðlýsingu Kópavogsþingstaðar segir: 1. Þinghússtóft syðst á túninu og fangakofatóftir skammt frá. 2. Dysjar austan túns, nefndar Hjónadysjarnar og Systkinaleiðin. Ekki er svæðið tilgreint nánar. Rústir við sjálfan þingstaðinn eru taldar friðlýstar í fornleifaskrá, þó ekki sé víst hvernig lögin taki á þeim. Rústir fyrir utan þingstaðinn eru ekki taldar friðlýstar í fornleifaskrá. Þyrfti að endurskoða friðlýsinguna og friðlýsa allt svæðið. Í friðlýsingu Þingness segir að friðlýstar fornleifar séu: Mannvirkjaleifar á hinum forna Kjalarnessþingstað í Þingnesi, sem gengur út í Ellliðavatn að sunnanverðu.
Þinghústóftin (þingbúð) á Kópavogsþingstað var rannsökuð árin 1973-76, auk nokkurra minja undir henni. Rústin virðist síðan hafa verið endurhlaðin á staðnum. Hjónadysjar voru rannsakaðar og fjarlægðar árið 1988, en Systkinaleiði hvarf á fyrri helmingi þessarar aldar án nokkurra rannsókna. Á Þingnesi hófst rannsókn sumarið 1982 og stóð yfir í nokkur sumur. Ekki er víst að rannsóknum þar sé lokið.

Kópavogur

Álfhóll.

Af 53 stöðum sem skráðir voru töldust fjórir hafa hátt minjagildi, 17 talsvert, 32 lítið og enginn ekkert minjagildi. Staðir geta haft hátt minjagildi þó einstakar fornleifar við þá hafi talsvert, lítið eða ekkert minjagildi. 22 fornleifar á 19 stöðum eru horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins. Af 53 stöðum eru 11 í mikilli hættu, 9 í lítilli og 15 í engri hættu. Mikill meirihluti minjanna finnast stakar og lítið er um heilar heildir. Einu heildirnar eru Kópavogsþingstaðurinn ásamt bæjarstæðinu þar og Þingnes við Elliðavatn. Þessi staðreynd eykur gildi þessara tveggja staða.

Merkilegustu fornleifarnar í Kópavogi eru eftirfarandi fornleifar í númeraröð:
1. Jarðhýsi.
2. Smiðja.
3. Þingbúð. I –VIII: Skurðir. (Guðrún Sveinbjarnardóttir 1986:21). Kópavogsþingstaður og Kópavogsbærinn. Staðurinn býr yfir afarmiklum upplýsingum sem ná frá nútíma allt aftur á landnámsöld. Ekki er mikið til ritað um staðinn og þeim mun mikilvægari eru þær heimildir sem geymdar eru undir sverðinum. Þarna má ímynda sér að skálabyggingar, fjós og önnur hús séu geymd í heilu lagi eða í brotum. Þessu fylgir mikið magn af upplýsingum sem felast í gripum, beinum og jarðveginum sjálfum.
4. Álfhóllinn. Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma.

Kópavogur

Digranesbærinn.

5. Digranesbærinn. Hér stóð eitt sinn höfuðbýli Kópavogs. Hluti af bænum stendur enn ásamt tröðinni, kálgarðinum og ýmsum minjum undirsverðinum allt í kring. Vandamálið er hve nálægt skóla staðurinn er og hve ágengni er mikil. Þessu mætti snúa í andhverfu sína og gera það að höfuðgildi staðarins, þ.e. að tengja hann kennslu grunnskólabarna með beinum hætti.
5. Selstaða? Staðurinn er skammt frá bæjarstæði Fífuhvamms. Nálægðin bendir til þess að hér sé ekki selstaða, en þó er ekki loku fyrir það skotið að hér hafi verið haft í seli svo nálægt bæ. Örnefnin Selflatir,Selvellir og Selhryggur eru nokkuð langt frá til að geta verið í tengslum við þessar rústir. Hvort sem um er að ræða selstöðu eða annað þá eru rústirnar (mjög) fornlegar að sjá. Þær eru býsna nálægt fjölbýlishúsum og við þær liggja stígar. [Ef grannt er skoðað er ljóst að tóftirnar eru ekki leifar sels. Meiri líkur benda til beitarhúsatófta, enda vottar fyrir heykumli aftan við ílanga megintóftina. Sel Fífuhvamms má enn sjá norðan í Rjúpnahæð þar sem byggðin hefur enn ekki náð til þess og þess er getið í heimildum. Selsins er hins vegar ekki getið í fornleifaskráningarskýrslunni, sjá annars á vefsíðunni; Fífuhvammur – Fífuhvammssel].

Landamerkjasteinn

Landamerkjasteinn.

6. Landamerkjasteinninn Markasteinn. Fallegasti landamerkjasteinninn í Kópavogi. Hann hefur fengið nýtt hlutverk á seinni tímum, auk síns gamla, en það er að vera hluti af girðingu utan um Rjúpnahæð.
7. Beitarhús suður af Litlabás. Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. [Hér ber að hafa í huga fyrri umfjöllun um beitarhús því tóftir meints sels skammt frá Fífuhvammi virðast eldri en hér um ræðir].
BeitarhúsÍ þéttbýli Kópavogs og næsta nágrenni eru sem fyrr segir 53 staðir skráðir sem fornleifar og geyma þeir 75 stakar fornleifar. Kópavogur á sér ekki mjög mikla sögu sem lesa má um í rituðum heimildum, en fornleifarnar geyma býsna spennandi sögu sem nær að líkindum allt aftur til landnámsaldar. Eitt megin hlutverk þessarar fornleifaskrár er að hjálpa skipulagsyfirvöldum að standa vörð um fornleifarnar og marka stefnu í skipulagsmálum/minjavernd sem tekur mið af þessum fornleifum. Fornleifaskráningu lýkur í raun aldrei og hana þarf að endurskoða reglulega. Þegar einhverjar áður óþekktar fornleifar finnast við jarðrask ber að færa slíka staði inn á fornleifaskrá auk ákvæðanna um tilkynningu í þjóðminjalögum.”
Rétt er að taka undir og árétta orð Bjarna um mikilvægi fornleifanna með hliðsjón af menningarlegu mikilvægi þeirra því þau geta, ef vel er að verki staðið, sagt engu minni sögur en þær sem skráðar hafa verið með fjaðurstaf á hinu fornu skinnhandrit – og jafnvel bætt um betur.
Meginheimildir:
-Fornleifaskrá Kópavogs – Bjarni F. Einarsson – 2000.Aðrar heimildir m.a.:
-Bjarni F. Einarsson (a). The Settlement of Iceland; a Critical Approach. Granastaðir and the Ecological Heritage. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (b). Fornleifaskrá Reykjavíkur. Skýrslur Árbæjarsafns XLVI. Reykjavík 1995.
-Bjarni F. Einarsson (c). „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Fyrrigrein: Upphafið og lögin.“ Sveitarstjórnarmál. 1. tbl. 1996.
-Bjarn F. Einarsson. „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður. Síðari grein: Skyldur okkar gagnvart fortíðinni. Sveitarstjórnarmál. 2. tbl.1996.
-Bjarni F. Einarsson. „Fornleifaskráning á Íslandi: Forsendur og markmið.“ Fréttabréf safnmanna. 6. árg. 1. tbl. 1997.
-Frásögur um fornaldarleifar 1817- 1823. Fyrri hluti. Sveinbjörn Rafnsson bjó til prentunar. Reykjavík 1983. Guðlaugur R. Guðmundsson.
-Hinar fornu jarðir Kópavogsþingstaðar. Örnefnastofnun. Handrit 1970.
-Guðmundur Ólafsson. „Sakamannadysjar í Kópavogi.“ LesbókMorgunblaðsins 23. mars 1996.
-Guðmundur Ólafsson. „Þingnes by Elliðavatn: The first Local Assembly in Iceland. “Proceedings of the Tenth Viking Congress. Universitetets Oldsaksamlings Skrifter. Ny Rekke. Nr. 9. Ósló 1987.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir. Rannsókn á Kópavogsþingstað. Meðviðaukum. Kópavogur 1986.
-Íslenskt fornbréfasafn. Fyrsta bindi. Kaupmannahöfn 1857-76.
-Íslenskt fornbréfasafn. Annað bindi. Kaupmannahöfn 1888.
-Íslenskt fornbréfasafn. Níunda bindi. Reykjavík 1909-13.
-Íslenskt fornbréfasafn. Tólfta bindi. Reykjavík 1923-32.
-Kaalund, Kristian P.E. Íslenskir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Reykjavík 1984.
-Lýður Björnsson. „Kópavogur 1936 – 1955.“ Saga Kópavogs II. Frumbyggð og hreppsár 1935 – 1955. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri Adolf J.E. Petersen. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (a). „Af Kópavogsbæjum frá fyrri öldum.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögubyggðarlagsins. Ritstjóri Árni Waage. Kópavogur 1990.
-Magnús Þorkelsson (b). „Þingstaðir í Kópavogslandi.“ Saga Kópavogs I. Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Safn til sögu byggðarlagsins. Ritstjóri ÁrniWaag. Kópavogur 1990.
-Matthías Þórðarson. „Nokkrar Kópavogsminjar.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1929. Reykjavík 1929.
-Orri Vésteinsson. „Fornleifaskráning og fornleifarannsóknir.“ Fréttabréf safnmanna. 5. árg. 4. tbl. 1996.
-Skipulags- og byggingalög 1997, nr. 73, 28. maí.
-Þjóðminjalög 1989, nr. 88, 29. maí. Með síðari breytingum.
-Þór Magnússon. „Skýrsla um Þjóðminjasafnið 1986.“· Árbók Hins ísl.fornleifafélags 1986. Reykjavík 1987

Álfhóll

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um DraugasteinarDraugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann.

Sæskrímsli í Elliðavogi.
Árið 1883 var maður að nafni Guðmundur Guðbrandsson staddur við Elliðarvog. Ekki er getið um erindi hans þar, en líklegt er að það hafi verið að tína krækling á leirunni til beitu eins og algengt var. Komst hann þarna í kast við ókennilega skepnu á stærð við veturgamlan kálf sem þakinn var skeljum að utan. Stóð hann í stimpingum við skepnuna í um tvær klukkustundir en komst á endanum að Bústöðum, blóðrisa og svo illa til reika að hann lá þar í tvo daga rúmfastur. Var hann þó annálað hraustmenni.

Með hausinn í hendinni.
ElliðaárdalurÖnnur saga tengist einnig ofanverðum Elliðaárdalnum og er sömuleiðins frá síðari hluta 19. aldar. Maður hét Guðmundur og bjó í Kópavogi. Var hann forn í skapi og hafði jafnvel í heitingum við menn um að leggja á þá eins og það var kallað. Eftir að hann dó urðu menn óþyrmilega varir við það. Reyndist hann mjög skæður, meðal annars Stefáni bónda í Hvammskoti sem var mesti sómamaður.
Það var á góðviðrisdegi haustið eftir að Guðmundur í Kópavogi andaðist að Stefán gekk upp að Vatnsenda og dvaldist hann þar fram undir sólsetur. Var honum síðan fylgt áleiðis til baka vestur að svonefndu Vatnsendahvarfi. Þá er fylgdarmaðurinn var nýskilin við Stefán sá hann man við hlið sér og þekkti hann strax, að þar var Guðmundur úr Kópavogi. Stefáni varð ekki um sel, en hann hélt þó áfram og alltaf var draugurinn á hlið við hann uns hann kom niður á móts við Breiðholt. Þá nam draugurinn allt í einu staðar, tók ofan hausinn og marghneigði sig fyrir Stefáni með hausinn í hendinni, og hvarf draugurinn eftir það. Skömmu síðar tók Stefán sótt og andaðist.
Guðmundur í Kópavogi sótti einnig að bóndanum í Breiðholti en hann stóð af sér allar skráveifur hans.

Heimildir m.a.:
-www.heimskringla.noÁlfhóll

Kópavogskirkja
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll

Álfhóll

Álfhóll í Kópavogi.

Álfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.

Kópavogur

Álfhóll.

Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.

Kópavogur

Álfhóll.

Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt

Kópavogur

Kópavogskirkja á Borgarholti.

Holtið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur

Latur

„Gamlar“ sagnir eru um að steinninn sé
álfabústaður. Einnig kemur hann nokkuð við sögu Jóns bónda Guðmundssonar í Digranesi. Mun hann hafa setið við steininn og sungið þegar hann kom heim úr sollinum í Reykjavík á fyrri helmingi tuttugustu aldar.

Latur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll

Þinghóll

Þinghóll.

Þinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.

Þinghóll

Afhjúpun upplýsingaskilta við Þinghól.

Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.

Þinghóll

Minningarsteinn um erfðahyllinguna á Þinghól.

Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi

Einbúi.

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.

Einbúi

Einbúi.

Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar

Víghólar

Víghólar.

Víghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn

Kársnes

Kársnes.

Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.

Álfhóll

Álfhólar eru nær óteljandi hér á landi. Örnefni er tengjast þeim má nánast finna í sérhverri örnefnalýsingu. Einn Álfhóllinn er suðaustan við Eyvindarstaði á Álftanesi. Honum hefur verið þyrmt þótt búið sé að byggja allt um kring.
Norðvestan við Eyvindarstaði á að vera Eyvindarleiði, haugur í túninu, að sagt er. Þá höfðu borist spurnir af örnefninu Kirkjuhóll þar skammt frá.
Álfhóll - Akurgerði fjærÁður en lagt var af stað gaf Jónína Hafsteinsdóttir hjá Örnefnastofnun Íslands eftirfarandi upplýsingar um framangreint: “
Í Örnefnalýsingu fyrir Eyvindarstaði segir: Eyvindarleiði er fast vestan við húsið í Akurgerði. Það eru tvær þúfur og er sú sem fjær er húsinu stærri. Þar á Eyvindur sá sem Eyvindarstaðir eru kenndir við að vera heygður og hundur hans í minni þúfunni. (Ath.: [Benedikt] Gröndal [Dægradvöl] getur þess að Eyvindur og kona hans hafi verið grafin í Eyvindarleiði).
Álfhóll er u.þ.b. 60–70 m beint austur frá bæ. Álfhóll og Eyvindarleiði hafa verið vernduð í gegnum aldirnar, og eru nú friðlýst af eigendum landsins, þó ekki sé búið að merkja staðina. Hjátrú er bundin þessum stöðum; ekki mátti raska leiðinu og aldrei slá Álfhól eða skerða hann.

Eyvindarstaðir

Eyvindarstaðir – Benedikt Gröndal 1902.

Íbúðarhúsið á Eyvindarstöðum var byggt 1922–3 og er úr steinsteypu. Áður stóð húsið fast fyrir norðan, þar sem íbúðarhúsið er nú. Komu þau nokkurn veginn horn í horn. Þar fyrir norðan, þar sem hóllinn var hæstur, mun gamli bærinn hafa staðið (þ.e. sá sem Sveinbjörn Egilsson bjó í).
Benedikt Gröndal getur þess, að nyrzti hluti hólsins hafi heitið Kirkjuhóll. Sennilega er átt við smá bungu við bílskúrinn í Akurgerði.
Auk þessa var Réttin í þessu landi og var hún notuð til þess að geyma þar hesta um nætur meðan tún voru ógirt (sjá Dægradvöl Ben. Gröndal). Þar sem réttin var stendur nú spennistöð rafveitunnar. Þarna mátti sjá hestasteina með krókum í til skamms tíma og e.t.v. má finna einhverja þeirra enn.” Lýsinguna gerði Jóhanna Stefánsdóttir frá Eyvindarstöðum (f:1919).
Þá var gengið af stað og byrjað á því að taka hús á heimilisfólkinu að Eyvindarstöðum. Ólafur Sverrisson tók vel á móti þátttakendum. Sagði hann Eyvindarleiðið vera á bak við bílskúrinn í Akurgerði. Annars kynni Stefán Eyþórsson þar á bæ betri skil á örnefnum á svæðinu.
Eyvindarleiði - Stefán Eyþórsson að bakiStefán (f:1936) benti óhikað á leiðið að baki bílskúrsins, fast vestan við íbúðarhúsið í Akurgerði eins og getið er um í örnefnalýsingunni. Hann kannaðist ekki við örnefnið “Kirkjuhóll”, en skv. lýsingunni mun það vera á sama stað og leiðið, “smá bunga við bílskúrinn í Akurgerði”. Réttina kvaðst Stefán ekki hafa heyrt nefnda og mundi ekki eftir spennistöð þarna nálægt. Á Álfhólnum kunni hann hins vegar góð skil.
Frá upphafi fornminjaskráningar hér á landi hefur áhersla jafnan verið á hauga og álagabletti. Í “Lögum um verndun fornmenja”, dags. 16. nóv. 1907, er tiltekið hvað teljist til fornleifa (þ.e. staðbundnar), sbr. 2. grein: ”
Til fornleifa teljast: a. Þingbúðarústir, gömul mannvirki á fornum þingstöðum, sögustöðum og öðrum merkisstöðum, sem nokkurs er um vert fyrir menningarsögu landsins, rústir af hofum, hörgum og hverskonar blótstöðum frá heiðni, af kirkjum og kirkjugörðum, kapellum og bænahúsum, forn vígi eða rústir af þeim, forn garðlög, rústir af fornum bæjum, seljum, búpeningshúsum, farmannabúðum, naustum og öðrum fornbyggingum, enn fremur fornir öskuhaugar.
b.  Fornar grafir, haugar, dysjar og leiði i jörðu eða á, er menn hafa verið grafnir, heygðir eða dysjaðir í.”
Í nýjustu þjóðminjalögunum,  frá 17. júlí árið 2001, má enn sjá hliðstætt ákvæði í 9. gr.: “Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: a. Álfhóllinnbúsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum; b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri; c. gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita; d. gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; e. virki og skansar og önnur varnarmannvirki; f. gamlir þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum; h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið;”
Orðið haugur (kk) hefur verið skilgreindur sem “Legstaður heiðins manns sem einkennist af haugi, þ.e. jarðvegi eða grjóti sem hefur verið hrúgað eða hlaðið ofan á gröfina.” Í fornritum er oft talað um legstaði fornmanna sem hauga. Eiginlegir haugar sjást þó sjaldan á Íslandi þótt örnefnin gefi annað til kynna. Því lagði Kristján Eldjárn til að hlutlausara orð væri notað: Kuml. Þau eru gjarnan þúfulaga kollar í jaðri fornra túna, á mörkum fornra jarða, við fornar leiðir eða á útsýnisstöðum jarðanna.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Lög um verndun fornmenja, dags. 16. nóv. 1907.
-þjóðminjalögun,  frá 17. júlí árið 2001.
-Örnefnalýsing fyrir Eyvindarstaði – ÖÍ.

Álftanes

Álftanes, Bessastaðahreppur fremst, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður,