Færslur

Hvalbak

Við Álfhól í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má m.a. lesa eftirfarandi:
Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma. Hólinn mætti merkja með látlausum hætti.

Kópavogur

Álfhóll.

Álfhóll er stórgrýttur grasi gróinn hóll sem gengur út í götuna. í hólnum er sagt að búi þrír álfar, einn gamall og tveir unglingsálfar; en að þeir hafi verið fleiri hér áður.
Fjórum sinnum er talið að álfar hafi haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Byrjað var á lagningu Álfhólsvegar seint á fjórða áratugnum. Veginn átti að leggja frá Hafnarfjarðarvegi að Álfabrekku og tengja við Nýbýlaveg. vel gekk að leggja veginn út að Álfhólnum en þegar þangað var komið og átti að fara að sprengja var framkvæmdafé uppurið. því er haldið fram að álfar hafi komist í bókhald bæjarins.

Áratug síðar átti að hefja framkvæmdir aftur. Fyrsta skrefið var að ryðja burt hólnum en þegar þær framkvæmdir hófust fóru dularfullir atburðir að gerast. Vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og mörg þeirra hurfu á óskiljanlegan hátt. Hætt var við að ryðja burtu hólnum og var settur hlykkur á veginn fram hjá honum.

Kópavogur

Álfhóll.

Í lok níunda áratugarins átti að endurbæta veginn. Framkvæmdirnar gengu mjög vel þar til ráðgert var að leggja mabik upp að hólnum. Fjarlægja átti hluta hólsins en til þess átti að nota öflugan steinbor tengdan kraftmiklli loftpressu. Þegar menn hófust handa við að bora í klöppina þá brotnaði borinn. Það dugði heldur ekki til að ná í annan bor því allt fór á sama veg og segja sjónarvottar að hann hafi hreinlega kubbast í sundur. í kjölfar þess neituðu verkamenn að koma nálægt hólnum með vélar og verkfæri. Vegaskipulaginu var breytt og er þarna þrenging og hraðahindrun á veginum ásamt gangbraut sem þjónar vel þeim börnum sem sækja Digranesskola.
Áhrifum álfa var þó ekki lokið. Lóðunum austan við hólinn var úthlutað á níunda áratugnum og þar á meðal var lóðin Álfhólsvegur 102, sú sem næst liggur hólnum. Eigandi lóðarinnar hóf þar aldrei framkvæmdir heldur skilaði lóðinni með þeim skýringum að honum litist ekki á lóðina og vildi ekki byggja þar. Að öðru leyti vildi hann sem minnst um málið segja. Hvort sem álfum var um að kenna eða ekki þá er enn ekkert hús númer 102 við Álfhólsveg og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.
Hvort sem um er að ræða álfa, röð tilviljana eða ókunnug öfl þá er Álfhóllinn athyglisvert kennileiti í bænum. Örnefnið er hluti af sögu bæjarins og álfasögurnar af þessum skemmtilega stað gefa tilefni til mikilla vangavelta.

Álfhóll

Álfhóll – skilti.

Sandgerðistjörn

Ætlunin var að fara um dulheima Sandgerðis og m.a. leita uppi og skoða Álfhól (á hólnum eru rústir), tóftir Uppsala (þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum), Oddstóft, Gulllág, Kríuvörðu, Efra-SandgerðiSigurðarvörðu, Kumblhól (gæti verið haugur). Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska. Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé. Á Kumlhól hefur lengi hvílt sterk helgi. Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.
Lagt var af stað Frá Efra-Sandgerði, elsta húsinu í bænum, byggt 1883. Viðirnir eru m.a. úr Jamestownstrandinu (sjá HÉR).
Reynir Sveinsson fylgdi FERLIR um svæðið. Hann er fæddur og uppalinn í Sandgerði, skammt frá Álfhól, og þekkir hvern krók og kima – og alla sem í hvorutveggja hafa dvalið.
Álfhóll„Okkur krökkunum var sagt að hrófla ekki við neinu í og við hólinn“, sagði Reynir er komið var á vettvang. „Þess var gætt að raska engu hér. Þó ætlaði fólk, tengt frystihúsarekstri hér neðar, að byggja hús á hólnum. Byrjað var að grafa fyrir húsinu, en þá urðu fjölskyldumeðlimir hver á fætur öðrum fyrir lasleika. Þá var hætt við að byggja á hólnum.“
Álfhóll er skammt sunnan við Brekkustíg. Sú gata heitir einnig Tjarnargata. Mætast þær niðri í brekku, sem var, en Sandgerðistjörnin lá þar inn í landið. Brött brekka var Brekkustígsmegin. Gatan var síðan hækkuð upp og brekkunni eitt. Tvínafnskipt gatan hefur þó haldist enn þann dag í dag.
Í Sandgerðistjörninni er Veitan. Hún er stararengi. Það var slegið fyrrum. Austan við tjörnina var LandakotSandgerðisskólinn, en hann var rifinn. Eftir að skólinn hætti að þjóna hlutverki sínu sem slíkur var þarna lítið býli, nefnt Tjörn. Sandgerðistjörnin var fyrrum einnig nefnd Skólatjörn. Eitt elsta húsið í Sandgerði, Efra-Sandgerði, stendur nú suðvestan við Sandgerðistjörnina. Vestan við húsið er Kettlingatjörn. Nafnið taldi Reynir vera komið af því að þar hafi kettlingum verið drekkt.
En fyrst svolítið almennt um Sandgerði – Sandgerðisvík skerst inn í vestanvert Rosmhvalanes. Víkin afmarkast að sunnan og vestan af skerjaklasa sem nefnist einu nafni Bæjarskerseyri. Landið umhverfis Sandgerði er láglendi og að austan er Miðnesheiði, víða grýtt og gróðurlítil. Minjar eftir mikinn uppblástur sjást víða, stór rofabörð, sem sýna að fyrrum var Kumblhólljarðvegur mun meiri í heiðinni en nú er. Nú er sauðfjárhald að mestu afnumið en landið friðað. Norðan Sandgerðis eru Flankastaðir. Þar myndaðist snemma byggðarhverfi. En með vaxandi byggð hefur Sandgerði náð þangað og er nú skammt á milli hverfa. Að sunnan liggur land Bæjarskerja að Sandgerði. Seinustu árin hefur byggðin í Sandgerði teygt sig þangað og nú eru þessi gömlu hverfi sambyggð. Sjávarströndin er lág, víða sendin og mjög skerjótt. Sandfok herjaði áður á byggðina og eyðilagði oft fisk sem breiddur var til þurrkunar. En á árunum 1930-1950 var gert stórátak í baráttunni gegn sandfokinu og það heft með melgresi. Landbrot hefur verið geysimikið á Miðnesi. Sést það á hinu mikla útfirri meðfram landinu, t.d. fram undan Kirkjubóli skammt norðan Flankastaða.
UppsalirUm 1935 var steyptur mikill sjóvarnargarður fyrir landi Sandgerðis. Bærinn Sandgerði stóð við litla tjörn norðan til í hverfinu sem myndaðist snemma upp af Sandgerðisvörinni. Er tjörnin kennd við bæinn og heitir Sandgerðistjörn. Á seinni hluta 20. aldar var byggt stórt timburhús í stað gamla Sandgerðisbæjarins. Stendur húsið enn á tjarnarbakkanum, sem fyrr er getið. Þar bjó Sveinbjörn Þórðarson og seinna sonur hans, Einar. En þeir feðgar voru eigendur Sandgerðis.
Mikið kargaþýfi er á Álfhól. Erfitt var að sannreyna hvort þar kynni að vera tóft. Hins vegar mótaði fyrir tóft eða tóftum á næsta hól, suðvestanvert. Líklegt má telja að þar kunni að vera fyrrnefndur Kumblhóll.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar eftir Berent Magnússyni, Krókskoti, og Magnúsi Þórarinssyni, segir m.a.: „
Í Sandgerðistúni útnorður frá Krókskoti Oddnýjartóftsuður af Sandgerðisbæ er stór hóll, grasi vaxinn, sem heitir Álfhóll. Á þessum hól eru rústir. Þetta er allmikið suður af Sandgerðisbæ. Þar upp af eru Uppsalir. Þar er sagt að hafi verið 18 hurðir á járnum. Þar voru rústir, sem nú hefur verið byggt á. Það er norðaustur frá Krókskoti. Þar er nú verið að byggja upp af Uppsölum, ofan við grænan hól, sem heitir Oddstóft. Þar suður af er gil eða melur, sem heitir Gulllág, líkast því að það sé farvegur eftir vatn og hafi runnið í sjó sunnan við Krókskot. Þar upp af, en ofan grjóthola, er varða, sem heitir Kríuvarða. Upp af henni er töluverður dalur með vatni í á vetrum og heitir Leirdalur. Þar upp af hækkar landið, og er hér uppi nefnt Brúnir. Þar er stór hóll, sem heitir Grænhóll, grasi vaxinn og urð í kring. Þar austur af er melur, er liggur frá norðri til suðurs alla leið frá Digruvörðu og ofan undir Garð. Þessi melur heitir Langimelur. Hann er á mörkum móti Leirunni.“
GvendartóftHalldóra Ingibjörnsdóttir bar lýsingu Ara Gíslasonar undir Berent Magnússon í Krókskoti og Árna Jónsson á Flankastöðum. Skráði hún eftir þeim athugasemdir, sem hér fara á eftir, lítt breyttar: „Sigurðarvörðu hlóð Sigurður Magnússon frá Krókskoti, er hann var að smala fé (segir Berent bróðir hans).
Ekki er líklegt, að neinn hafi verið heygður í Kumblhól.
Ekki er vitað, hvenær hætt var að nota Stekki. Nú sjást engin merki þeirra.
Kumblhóll og Álfhóll voru báðir álagablettir, og eru margar sögur til af óhöppum þeirra, sem þeim raska.
Oddstóft er kennd við Odd Jónsson í Landakoti. Hann hafði þar fé.
Gulllág sagðist Berent ekki muna eftir í sínu ungdæmi og taldi þetta nýlegt nafn. En Halldóra man aldrei eftir, að þessi grunni dalur væri kallaður annað en Gulllág. Þar voru fiskreitir, þegar hún var að alast upp.
Kría verpir nálægt Kríuvörðu.“
Loftur Altice Þorsteinsson ritaði örnefnalýsingu Fiskreiturárið 1996: „Kumlhól getur hæglega verið kuml. Á hólnum hefur lengi hvílt sterk helgi. Stekki var hætt að nota fyrir 1900, Álfhóll var talinn bústaður álfa og fullyrt var að þar hrektist aldrei hey. Gvendartóft er skammt frá Oddstóft, ofar í heiðinni, og var hún kennd við Guðmund í Tjarnarkoti.“
Að sögn Reynis mun þrællinn Uppsali hafa verið fyrsti ábúandinn í Sandgerði og hefur hann búið að Uppsölum. Á bak við hús Reynis við Bjarmaland má sjá leifar Uppsala; litla tóft og aðra jarðlæga norðar, auk garða.
Skammt ofar má sjá leifar af Oddnýjartóft í garði eins hússins efst við Bjarmaland. Suðaustar eru tóftir; Gvendartóft. Um er að ræða tvö hús og ferkantað gerði að norðaustanverðu. Líklegt er að þarna hafi verið lítið kot um tíma. Myndarlegt vatnsstæði er suðvestan við tóftirnar. Ofar er varða, líklega landamerki. Hún gæti þess vegna hafa heitið Kríuvarða.
Í Gullág eru heillegir fiskreitir; stakkstæði, frá Miðnesi. Segja má með nokkrum sanni að of lítið hefur verið gert úr áþreifanlegum minjum í og við Sandgerði með hliðjón af sögu byggðalagsins um aldir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Að henni lokinni bauð Reynir þátttakendum til stofu, bauð upp á kaffi og meðlæti, og fræddi þá um staðhætti og fólkið í Sandgerði fyrr á tímum.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Sandgerði.
-Reynir Sveinsson.

Laugarás

Í klapparholti vestanvið Laugarásbíó er álfasteinn. Þrátt fyrir hús allt um kring og snyrtar lóðir umleikis, göngustíg, bifreiðaplan og umsvif hernámsliðsins hefur steinninn fengið að vera óhreyfður í samneyti Álfhóll í Laugarásivið aðra slíka í holtinu.
Halldóra Aðalsteinsdóttir man vel eftir þessum steini þótt sé komin yfir áttrætt. Hún fæddist 16. júní 1927 á Lindargötu 7 (í dag nr. 23) og fluttist 10 ára gömul í verkamannabústað á Hofsvallagötu 15. Þegar hún giftist Magnúsi Þorbjörnssyni bjuggu þau að Fálkagötu 22. Síðar fluttust þau í fjölbýlishús við Kleppsveg, en frá stofuglugganum hennar er ágætt útsýni til suðurs yfir holtið í Laugarási. Hún sagði svo frá:
„Er ég stend við stofugluggann minn, sem snýr í suður, blasir við mér stór steinn. Undir honum er bekkur. Eitt fallegt vetrarkvöld, árið 1996, sennilega í febrúar/mars, jörð var auð, verður mér litið út um gluggann og þá fannst mér eins og þessi steinn (klettur) opnaðist og mikil birta þar fyrir innan. Mér fannst eins og dyr eða gluggi væri opnaður, og fannst mér veggirnir í kringum gatið mjög þykkir. Þar fyrir innan í ljósinu fannst mér Álfasteinnég sjá fólk eða einhvers konar verur á hreyfingu og fannst mér það vera þó nokkuð margir. Ekki man ég eftir neinum sérstökum litum á þessum verum, mikil birta, en þó voru einhvers konar skuggar í kringum þær.
Ég horfði á þetta um stund, og fullvissaði mig um að enginn væri þarna í kring að lýsa upp steininn eða eitthvað því um líkt.
Síðan kallaði ég á manninn minn, sem kom, en með semingi þó, sagðist ekki trúa á svona, enda sá hann ekki neitt, en smám saman dofnaði þessi birta og allt varð eins og áður.
Ég horfði oft á þennan stein, nánast daglega, en hef ekki orðið vör við neitt þessu líkt aftur.
Rétt er þó að geta þess að reglulega kemur gömul kona að steininum, staldrar við stutta stund, leggur hönd á hann, segir einhver orð og fer síðan. Þetta hefur hún gert um langan tíma.“
Halldóra sagði einnig frá álfasteini við Hjarðarhaga 13 (sjá HÉR).

Heimild:
Halldóra Aðalsteinsdóttir, f. 16. júní 1927. Viðtal við FERLIR í des. 2008.

Breiðagerðisskóli

Í Mbl árið 1984 birtist svonefnd umfjöllun um álfhól við Breiðagerðisskóla í Reykjavík:
Breiðagerðisskóli„Árið 1956 var hafin bygging barnaskóla við Breiðagerði og fékk nafnið Breiðagerðisskóli. Arkitektarnir Einar Sveinsson og Gunnar Ólafsson teiknuðu húsið. Á þeirri lóð, sem húsinu var valinn staður, var hóll, sem margir kölluðu Alkhól, en það nafn var af sumum talin afbökun úr Álfhól. Hins vegar bendir margt til þess að hóllinn hafi heitið Borgarhóll og var oft miðstöð fyrir vetrarleiki barna frá Bústöðum og síðar. Allt í kringum hólinn voru grösug tún, en ekki var hóllinn sleginn þar sem talið var að hann væri bústaður álfa. Sagt var að ljós sæjust þar stöku sinnum.
Það var því ýmissa manna mál að við hólnum mætti ekki hrófla, þetta væri álagahóll. En hver sem trú ráðamanna var um byggingu skólans var húsið þannig teiknað að ekki var í fyrstu við hólnum hreyft. Var skólinn byggður og var allt kyrrt um sinn.
En þegar kom að því, að leggja þurfti heimkeyrslu að dyrum á norðvesturhorni skólans, þurfti aðeins að skerða jaðar hólsins og var það talið fljótunnið verk. En það fór á aðra leið.
Starfsmönnum leikvalla var falið að vinna verkið og hafði Bjarnhéðinn Hallgrímsson, sem hafði og hefur umsjón með framkvæmdum á leikvöllum borgarinnar, umsjón með verkinu.
ÁlfhóllinnHann segir svo frá:
Kristínus Arndal var þá einn af flokkstjórum vallanna. Hann taldi þetta létt og fljótunnið verk en reyndin varð hins vegar önnur. Varla var verkið hafið og Kristínus að stíga sín fyrstu skref inn á vinnusvæðið er hann missteig sig illa og brákaðist á fæti og gekk haltur lengi eftir það en hélt þó áfram stjórn verksins. Var nú fengin vinnuvél til að grafa út úr hólnum, en þegar hún tók fyrstu fylli úr hólnum kvað við brestur og hafði eitthvað brostið í lyftubúnaði tækisins. Varð að fara með tækið til viðgerðar og tafðist verkið í einn dag. Þegar verkið gat hafist á ný reyndist tækið ekki betur en svo, að skiptibúnaður þess bilaði það alvarlega að verkfærðið var úr sögunni um langa hríð. Var þá fengin til verksins öflug og spánný vélgrafa af stærstu gerð sem þá hafði komið til landsins. Hún virtist ætla að fara létt með verkið, en fljótlega brast eitthvað í nýja tækinu og þótti þá mörgum furðu gegna og kunnu engar skýringar á.
Var eftir það ógerlegt að fá verkfæri til að vinna verkið. Var þar látið við sitja og jafnað undir malbik með handverkfærum. Síðan var ákveðið að taka ekki meira úr hólnum og hann jafnaður í það horf sem hann er í dag og hefur ekki borið þar á fleiri furðum eða óhöppum síðan.“

Heimild:
Mbl, lesbók, laugardaginn 7. júlí 1984 – Sigurður Þór Salvarsson.Breiðagerðisskóli

Álfhóll

Álfhólar eru nær óteljandi hér á landi. Örnefni er tengjast þeim má nánast finna í sérhverri örnefnalýsingu. Einn Álfhóllinn er suðaustan við Eyvindarstaði á Álftanesi. Honum hefur verið þyrmt þótt búið sé að byggja allt um kring.
Norðvestan við Eyvindarstaði á að vera Eyvindarleiði, haugur í túninu, að sagt er. Þá höfðu borist spurnir af örnefninu Kirkjuhóll þar skammt frá.
Álfhóll - Akurgerði fjærÁður en lagt var af stað gaf Jónína Hafsteinsdóttir hjá Örnefnastofnun Íslands eftirfarandi upplýsingar um framangreint: „
Í Örnefnalýsingu fyrir Eyvindarstaði segir: Eyvindarleiði er fast vestan við húsið í Akurgerði. Það eru tvær þúfur og er sú sem fjær er húsinu stærri. Þar á Eyvindur sá sem Eyvindarstaðir eru kenndir við að vera heygður og hundur hans í minni þúfunni. (Ath.: [Benedikt] Gröndal [Dægradvöl] getur þess að Eyvindur og kona hans hafi verið grafin í Eyvindarleiði).
Álfhóll er u.þ.b. 60–70 m beint austur frá bæ. Álfhóll og Eyvindarleiði hafa verið vernduð í gegnum aldirnar, og eru nú friðlýst af eigendum landsins, þó ekki sé búið að merkja staðina. Hjátrú er bundin þessum stöðum; ekki mátti raska leiðinu og aldrei slá Álfhól eða skerða hann.
Íbúðarhúsið á Eyvindarstöðum var byggt 1922–3 og er úr steinsteypu. Áður stóð húsið fast fyrir norðan, þar sem íbúðarhúsið er nú. Komu þau nokkurn veginn horn í horn. Þar fyrir norðan, þar sem hóllinn var hæstur, mun gamli bærinn hafa staðið (þ.e. sá sem Sveinbjörn Egilsson bjó í).
Benedikt Gröndal getur þess, að nyrzti hluti hólsins hafi heitið Kirkjuhóll. Sennilega er átt við smá bungu við bílskúrinn í Akurgerði.
Auk þessa var Réttin í þessu landi og var hún notuð til þess að geyma þar hesta um nætur meðan tún voru ógirt (sjá Dægradvöl Ben. Gröndal). Þar sem réttin var stendur nú spennistöð rafveitunnar. Þarna mátti sjá hestasteina með krókum í til skamms tíma og e.t.v. má finna einhverja þeirra enn.“ Lýsinguna gerði Jóhanna Stefánsdóttir frá Eyvindarstöðum (f:1919).
Eyvindarleiði - Stefán Eyþórsson að bakiÞá var gengið af stað og byrjað á því að taka hús á heimilisfólkinu að Eyvindarstöðum. Ólafur Sverrisson tók vel á móti þátttakendum. Sagði hann Eyvindarleiðið vera á bak við bílskúrinn í Akurgerði. Annars kynni Stefán Eyþórsson þar á bæ betri skil á örnefnum á svæðinu. Stefán (f:1936) benti óhikað á leiðið að baki bílskúrsins, fast vestan við íbúðarhúsið í Akurgerði eins og getið er um í örnefnalýsingunni. Hann kannaðist ekki við örnefnið „Kirkjuhóll“, en skv. lýsingunni mun það vera á sama stað og leiðið, „smá bunga við bílskúrinn í Akurgerði“. Réttina kvaðst Stefán ekki hafa heyrt nefnda og mundi ekki eftir spennistöð þarna nálægt. Á Álfhólnum kunni hann hins vegar góð skil.
Frá upphafi fornminjaskráningar hér á landi hefur áhersla jafnan verið á hauga og álagabletti. Í „Lögum um verndun fornmenja“, dags. 16. nóv. 1907, er tiltekið hvað teljist til fornleifa (þ.e. staðbundnar), sbr. 2. grein: “
Til fornleifa teljast: a. Þingbúðarústir, gömul mannvirki á fornum þingstöðum, sögustöðum og öðrum merkisstöðum, sem nokkurs er um vert fyrir menningarsögu landsins, rústir af hofum, hörgum og hverskonar blótstöðum frá heiðni, af kirkjum og kirkjugörðum, kapellum og bænahúsum, forn vígi eða rústir af þeim, forn garðlög, rústir af fornum bæjum, seljum, búpeningshúsum, farmannabúðum, naustum og öðrum fornbyggingum, enn fremur fornir öskuhaugar.
b.  Fornar grafir, haugar, dysjar og leiði i jörðu eða á, er menn hafa verið grafnir, heygðir eða dysjaðir í.“
Í nýjustu þjóðminjalögunum,  frá 17. júlí árið 2001, má enn sjá hliðstætt ákvæði í 9. gr.: „Til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem: a. Álfhóllinnbúsetulandslag, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi mannvirkjum og öskuhaugum, húsaleifar hvers kyns, svo sem kirkna, bænahúsa, klaustra og búða, leifar af verbúðum, naustum, verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum; b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri; c. gömul tún- og akurgerði, áveitumannvirki og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita; d. gamlir vegir, stíflur, brýr, vatnsvöð, varir, hafnir og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og vitar og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra; e. virki og skansar og önnur varnarmannvirki; f. gamlir þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð; g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum; h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið;“
Orðið haugur (kk) hefur verið skilgreindur sem „Legstaður heiðins manns sem einkennist af haugi, þ.e. jarðvegi eða grjóti sem hefur verið hrúgað eða hlaðið ofan á gröfina.“ Í fornritum er oft talað um legstaði fornmanna sem hauga. Eiginlegir haugar sjást þó sjaldan á Íslandi þótt örnefnin gefi annað til kynna. Því lagði Kristján Eldjárn til að hlutlausara orð væri notað: Kuml. Þau eru gjarnan þúfulaga kollar í jaðri fornra túna, á mörkum fornra jarða, við fornar leiðir eða á útsýnisstöðum jarðanna.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Lög um verndun fornmenja, dags. 16. nóv. 1907.
-þjóðminjalögun,  frá 17. júlí árið 2001.
-Örnefnalýsing fyrir Eyvindarstaði – ÖÍ.

Álfhóll

Draugaklettar eru í Breiðholsthvarfi á móts við Árbæinn, ekki háir en dökkir að lit. Þar fer ekki sögum af draugum; hins vegar átti huldufólk að búa í þeim.
Einnig er talað um DraugasteinarDraugasteina skammt frá suðurenda Árbæjarstíflu.
Uppi á Breiðholtshvarfinu, eða við fjölbýlishúsið Vesturberg 2-6, er önnur álfabyggð í hól einum, skv. Fornleifaskrá Reykjavíkur. Trúin á hana lifir svo sterkt að þegar byggja átti fjölbýlishús þar sem hóllinn var, í samræmi við skipulag annarra húsa við götuna, þótti það óráðlegt. Var ákveðið að hrófla ekki við hólnum heldur víkja frá skipulagi og byggja húsið fyrir framan hann.

Sæskrímsli í Elliðavogi.
Árið 1883 var maður að nafni Guðmundur Guðbrandsson staddur við Elliðarvog. Ekki er getið um erindi hans þar, en líklegt er að það hafi verið að tína krækling á leirunni til beitu eins og algengt var. Komst hann þarna í kast við ókennilega skepnu á stærð við veturgamlan kálf sem þakinn var skeljum að utan. Stóð hann í stimpingum við skepnuna í um tvær klukkustundir en komst á endanum að Bústöðum, blóðrisa og svo illa til reika að hann lá þar í tvo daga rúmfastur. Var hann þó annálað hraustmenni.

Með hausinn í hendinni.
ElliðaárdalurÖnnur saga tengist einnig ofanverðum Elliðaárdalnum og er sömuleiðins frá síðari hluta 19. aldar. Maður hét Guðmundur og bjó í Kópavogi. Var hann forn í skapi og hafði jafnvel í heitingum við menn um að leggja á þá eins og það var kallað. Eftir að hann dó urðu menn óþyrmilega varir við það. Reyndist hann mjög skæður, meðal annars Stefáni bónda í Hvammskoti sem var mesti sómamaður.
Það var á góðviðrisdegi haustið eftir að Guðmundur í Kópavogi andaðist að Stefán gekk upp að Vatnsenda og dvaldist hann þar fram undir sólsetur. Var honum síðan fylgt áleiðis til baka vestur að svonefndu Vatnsendahvarfi. Þá er fylgdarmaðurinn var nýskilin við Stefán sá hann man við hlið sér og þekkti hann strax, að þar var Guðmundur úr Kópavogi. Stefáni varð ekki um sel, en hann hélt þó áfram og alltaf var draugurinn á hlið við hann uns hann kom niður á móts við Breiðholt. Þá nam draugurinn allt í einu staðar, tók ofan hausinn og marghneigði sig fyrir Stefáni með hausinn í hendinni, og hvarf draugurinn eftir það. Skömmu síðar tók Stefán sótt og andaðist.
Guðmundur í Kópavogi sótti einnig að bóndanum í Breiðholti en hann stóð af sér allar skráveifur hans.

Heimiildir m.a.:
-www.heimskringla.noÁlfhóll

Kópavogur
Í Kópavogi eru nokkrir staðir, sem hafa skírskotun til sagna og munnmæla. Þeim hefur flestum verið hlíft við raski. Má þar nefna stekk nálægt Fífuhvammsvegi og sel í Rjúpnahæð. Jafnframt eru í bænum nokkrir staðir s.s. Álfhóll, Víghólar, Borgarholt, Latur og Þinghóll þar sem fyrrum er talinn hafa verið þingstaður. Kórsnesið eða Kársnesið, þar sem ormurinn langi bjó í helli, er þó horfið undir landfyllingu – og þar með gull hans.
Mikilvægt er að gæta þess vel að spilla ekki sagnatengdum stöðum, hvorki með jarðraski né skógrækt, eins og svo allt of mörg sorgleg dæmi eru um. Ástæðulaust er þó að sýta súrt, en gleðjast yfir því sem til er og nýta það til fróðleiks og ánægju.

Álfhóll
ÁlfhóllÁlfhóllinn er líklega kunnasti bústaður álfa í Kópavogi. Hann stendur sunnanvert við Álfhólsveg skammt þar frá sem Digranesskóli er nú. Hóllinn, sem er nokkuð aflíðandi, mun vera um það bil þriggja metra hár ef mælt er frá götu.
Álfhóll er jökulsorfinn klapparhóll sem nýtur bæjarverndar sem bústaður álfa. Hóllinn er dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan dag. Því er haldið fram að álfar hafi fjórum sinnum haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Hann er að miklu leyti hulinn grasi og mosagróðri, sérstaklega að norðan og austan. Í Álfhólnum er nokkurt stórgrýti sem líkist litlum klettastöllum og liggja þessir smáklettar að mestu um sunnanverðan og vestanverðan hólinn.
Lengi hefur verið talað um að álfar hafi tekið sér búsetu í Álfhólnum og margir segjast hafa séð þá með vissu. Ekki er ljóst hve gamlar þær sögusagnir eru; engar heimildir eru til um atburði fyrr en nokkuð er liðið á þessa öld.
Seint á fjórða áratug þessarar aldar var hafist handa við að leggja Álfhólsveginn. Byrjað var á honum við Hafnarfjarðarveg og ætlunin var að halda áfram í austurátt þar til komið væri að Álfabrekku sem skyldi tengja Álfhólsveginn við Nýbýlaveg. Vegurinn átti að liggja þar um sem Álfhóllinn er en hann yrði jafnaður við jörðu eftir því sem framkvæmdum miðaði. Vel gekk að leggja veginn austur eftir Digranesinu að Álfhólnum.
Þegar kom að því að sprengja hólinn gerðust atburðir sem leiddu til þess að ekkert varð af sprengingu. Vildi svo til að fjármagn það, sem veitt hafði verið til lagningar Álfhólsvegarins, var á þrotum. Féllu þá framkvæmdir niður við ólokið verk og Álfhóllinn stóð óhaggaður.
Árið 1947 var á ný hafist handa og átti að leggja veginn áfram í gegnum Álfhólinn. Þegar vinna hófst á hólnum komu upp vandamál sem áttu sér ókunnar og dularfullar orsakið að margra áliti. Vinnuvélar biluðu og ýmis verkfæri skemmdust eða hurfu jafnvel. Varð það úr að vegurinn var lagður í bugðu fram hjá hólnum norðanverðum en ekki í gegnum hann eins og ætlunin hafi verið. Sagt er að þá hafi framkvæmdir gengið eins og venja var til og hafi álfarnir ekki gert vart við sig að sinni.
Talið er að áhrifa álfa hafi einnig gætt við uppbyggingu lóðarinnar nr. 102 við Álfhólsveg en hún liggur næst hólnum. Eigandi lóðarinnar skilaði lóðinni og vildi ekki byggja þar og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.

Borgarholt
BorgarholtHoltið þar í kring, sem Kópavogskirkja stendur nú, hefur verið nefnt Borgarholt. Þar hefur álfabyggð verið talin hvað blómlegust í Kópavogi.
Þegar Borgarholtsbraut var lögð á sínum tíma þurfti að sprengja nokkuð í Borgarholtinu á þeim slóðum sem álfar bjuggu. Um það leyti er fréttist að fyrirhugað væri að leggja veg um Borgarholtið mun maður að nafni Sveinn hafa gengið út á holtið og aðvarað álfana.
Segir sagan að íbúar Borgarholtsins hafi tjáð honum að þeir myndu ekki hindra framkvæmdir heldur flytja sig um set. Kom það á daginn að greiðlega gekk að leggja Borgarholtsbrautina og urðu þar engin óhöpp eða undarlegir atburðir.
Nokkrar heimildir eru um álfabyggðina í Borgarholti og segjast skyggnir menn hafa séð þar bústaði og byggingar álfanna. Hefur húsum álfanna verið lýst nokkuð nákvæmlega og eru til teikningar af þeim eftir lýsingu hinna skyggnu. Þá hefur það borið við að börn frá leikskóla þar í grenndinni hafi séð álfa í holtinu og jafnvel tekið þá tali.

Latur
LaturLatur er nokkuð stór steinn í sunnanverðum Digraneshálsi þar sem nú liggur gatan Hlíðarhjalli. Stendur steinninn enn óhreyfður innst í einum af botnlöngum Hlíðarhjalla en áður mun Digranesbærinn hafa verið skammt norðan við steininn.
Sagnir um stein þennan tengjast fremur Jóni Guðmundssyni bónda í Digranesi en álfum en sagt er að á steininum hafi Jón hvílt sig á ferðum sínum um jarðeignina. Þá mun Jón einnig hafa setið eða staðið á steininum og sungið allt hvað af tók er hann var drukkinn sem oft kom fyrir.
Gamlar sagnir eru til um að steinninn Latur hafi verið álfabústaður og mun það sérstaklega hafa verið á vitorði manna er bjuggu í Fífuhvammslandi. Eitt sinn gerðist það að börn, sem voru á ferð við steininn, sáu huldukonu þar á sveimi en er hún varð þeirra vör hvarf hún þeim sjónum við steininn.
Annars er Latur hinn ágætasti drykkjarsteinn.

Þinghóll
ÞinghóllÞinghóll er hóllinn sem stendur við Kópavogsbotn hjá gamla þingstaðnum í Kópavogi. Helsta sögnin af Þinghólnum er tengd nafni hans. Það hefur verið trú manna að á hólnum hafi álfar haldið sitt eigið þing á svipuðum tíma og mannfólkið. Eiga álfarnir að hafa komið þar saman og þingað en ekki fóru aftökur þar fram enda þekkist það ekki á meðal álfa.
Til er önnur sögn tengd Þinghólnum en hún segir að þar í grennd hafi sést til huldukonu einnar og mun það hafa verið á sama tíma á hverjum degi. Sást hún ganga frá Þinghólnum í átt að Borgarholtinu.
Kópavogur var einn af fjórum þingstöðum Gullbringusýslu og fyrir margar sakir þeirra frægastur. Mikill fjöldi mála voru tekin fyrir á Kópavogsþingi og dómar felldir. Mun nálægð við Bessastaðavaldið hafa ráðið þar miklu um.Â
Elstu varðveittu rituðu heimildirnar um þing í Kópavogi eru frá 1523. Árið 1574 gaf Friðrik II Danakonungur út tilskipun þess efnis að Alþingi skyldi flutt í Kópavog en til þess kom þó aldrei. Merkasti atburður sem tengist þingstaðnum er erfðahyllingin 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III Danakonungi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir. Síðasta aftakan sem fór fram á þinginu í Kópavogi var þann 15. nóvember 1704. Þá voru Sigurður Arason og Steinunn Guðmundsdóttir frá Árbæ tekin af lífi fyrir morð. Var hann höggvinn skammt norðan við þinghúsið en henni drekkt í Kópavogslæk. Árið 1753 var þinghald aflagt í Kópavogi.
Á fyrri hluta aldarinnar bjó sérkennileg kona á Skjólbraut í vestanverðum Kópavogi. Var hún komin nokkuð á efri ár en heilsuhraust þó og skörp í hugsun. Ekki var hún þekkt fyrir annað en að vera góðhjörtuð og hjálpleg á allan hátt en mörgum þótti hún dularfull enda vissu menn að hún var skyggn. Sagði hún stundum sögur af sérkennilegum atburðum og var fullviss um tilvist huldufólks.
Það var á flestra vitorði að gamla konan hefði séð álfa og huldufólk. Eitt þótti öðru merkilegra en það var að um sama leyti hvern einasta dag sá hún huldukonu á gangi. Var huldukonan í svörtu pilsi og með gráa hyrnu á höfði. Ætíð gekk hún sömu leið sem lá frá Þinghól og upp að Borgarholtinu í austri þar sem Kópavogskirkja stendur nú. Hvarf hún gömlu konunni þar sjónum.
Ekki hefur heyrst af öðru fólki sem sá þessa dularfullu konu á gangi og ekki eru allir á sama máli um hver hún var. Telja sumir að hún tengist dysjum sem eiga að vera víða í grenndinni. Þeir eru þó fleiri sem segja að þarna hafi verið huldukona á ferð og hafi hún annaðhvort búið í Þinghólnum sjálfum eða í Borgarholtinu.

Einbúi

Einbúi er hóll sem rís austan í Digraneshálsi í austasta hluta Kópavogsbæjar fast við Reykjanesbraut. Við hólinn eru stakir steinar en þar hjá munu áður hafa legið landamerki.
Hólnum tengist sú saga að þar hafi búið álfur eða huldumaður. Ekki skal hér fullyrt um hvort hann búi þar enn. Þegar framkvæmdir stóðu yfir við byggingu iðnaðarhúss sem þar átti að rísa skammt frá er sagt að íbúi hólsins hafi látið á sér kræla. Hafi hann séð til þess að vélar biluðu með þeim hætti að ómögulegt var að beita þeim á hólinn.
Sagan segir að þegar lóðaúthlutun stóð sem hæst í Kópavogi var húsbyggjanda fengin lóð við hól í austurbæ Kópavogs sem kallaður var Einbúi. Fékk hann lóðina með því skilyrði að hann kæmi ekki nærrri hólnum er hann færi að grafa fyrir húsinu. Þótti húsbyggjanda sjálfsagt að verða við þeirri bón.
Einhvern tíma á föstudegi var komið að því að grafa fyrir grunni og fékk húsbyggjandinn jarðýtu á staðinn til að sinna því verki. Gekk verkið vel og var langt komið þegar vinnu var hætt um kvöldið. Næsta dag var haldið áfram þar sem frá var horfið en þegar nokkuð var lliðið á daginn þurfti lóðareigandinn að bregða sér frá. Varð það að samkomulagi að ýtustjórinn lyki verkinu en húsbyggjandinn tók honum vara fyrir því að fara of nærri hólnum.
Ekki hafði ýtustjórinn verið lengi að er honum varð það á að bakka utan í hólinn. Stöðvaðist jarðýtan þar við hólinn og bilaði vél hennar svo að ekki var hægt að koma henni í gang. Kallaði stjórnandi ýtunnar til viðgerðarmenn sem komu þar á staðinn. Eftir að hafa skoðað vélina voru viðgerðarmennirnir sammála um að bilunin væri mikil og alvarleg. Var því kallað á dráttarvagn og ýtan færð á verkstæði til viðgerðar.
Þegar húsbyggjandinn hafði lokið verkum sínum í bænum og kom á staðinn sá hann enga jarðýtu og greinilegt var að ekkert hafði þokast við bygginguna síðan hann fór. Segir ýtustjórinn honum hvernig komið er og verður húsbyggjandinn óánægður með gang mála. Fara þeir saman á verkstæðið. Þegar þangað kom sneri húsbyggjandinn sér að ýtustjóranum og bað hann að setjast í ýtuna og kanna hvort hún færi ekki í gang. Þrátt fyrir vantrú sína verður ýtustjórinn við óskinni og ræsir vélina. Við það hrekkur hún í gang eins og ekkert hafi í skorist. Urðu menn þá mjög undrandi en þó mest viðgerðarmennirnir sem höfðu skoðað ýtuna.
Er nú aftur farið með ýtuna út að Einbúa þar sem framkvæmdum er haldið áfram. Reyndist hún þá í góðu lagi. Fór lóðareigandinn aldrei frá verkinu eftir það og urðu upp frá því engin vandræði. Þóttust menn vissir um að íbúi hólsins hefði hér átt hlut að máli og séð til þess að Einbúinn fengi að standa óhreyfður.

Víghólar
VíghólarVíghólar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1983. Þeir eru í um 70 m hæð yfir sjó og er víðsýnt af þeim. Víghólar eru jökulsorfnar grágrýtisklappir með ávölum hvalbökum og jökulrákum sem bera vitni um legu og skriðstefnu jökulsins sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Bergið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, en þær jarðmyndanir runnu einkum sem dyngjuhraun á hlýskeiðum ísaldar fyrir um 100.000– 700.000 árum. Upptök grágrýtisins í Víghólum eru óviss, en gætu verið á Mosfellsheiði. Aldurinn er líklega 300.000–400.000 ár. Af hvalbökum og jökulrákum á Víghólum má ráða að jökullinn sem síðast gekk yfir Kópavog hafði stefnuna NV-SA. Líklega hafa ísaskil jökulsins legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út í Faxaflóa og niður í Ölfus.

Kórsnesormurinn
Skammt undan ysta odda Kársness er sker sem vel má greina þegar fjarar. Sögur eru til sem segja frá miklum ormi er bjó í skerinu. Lá hann þar á gulli og beit í sporðinn á sér. Mun skerið hafa verið nokkru stærra og meira en nú er og hafi þá frekar talist hólmi. Hólmi þessi var heimili ormsins en þar hélt hann til í hellisskúta einum sem kallaður var kór. Þar lá hann ófrýnilegur mjög og gætti fjársjóðs síns.
Sagt er að nesið allt hafi verið kennt við kór þennan. Hafi það því ekki alltaf verið nefnt Kársnes heldur kallað Kórsnes. Þá var oftar en ekki talað um kórinn í nesinu.
Nú er Kórsnesið/Kársnesið horfið undir landfyllingu – og sennilega hvílir ormurinn undir henni.
Sjá meira HÉR og HÉR.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/
-http://www.kopavogur.is/

Þinghóll

Þinghóll – minjar.