Álfar

Í Eimreiðinni 1895 fjallar Finnur Jónsson um “Álfatrúna á Íslandi”.

Orðið þjóðtrú er notað um trúarviðhorf af ýmsu tagi sem falla að jafnaði utan viðurkenndra trúarbragða en eru þó bundin menningu, siðum og venjum fólks. Oft er þetta trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri sem birtist í sambandi við ýmislega reynslu sem fólk skýrir fyrir sér með tilvísun til trúarinnar.

Orðið “þjóð” í þjóðtrú vísar til fólks en ekki hugmynda um þjóðir og þjóðríki. Þjóðtrú Íslendinga er því ekki mjög ólík þjóðtrú annarra “þjóða” heldur saman sett úr hugmyndum sem bárust hingað á landnámsöld, bæði frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum, í bland við nýsköpun og aðlögun sem hér hefur átt sér stað. Helst má segja að útilegumannatrúin hafi séríslensk einkenni og margt í álfa- og huldufólkstrúnni ber fremur keim af gelískri þjóðtrú meðal Íra og Skota en því sem þekkist meðal Norðmanna. Þessi menningarblanda er í ágætu samræmi við það sem ritheimildir segja um uppruna landsmanna og fellur vel að þeim erfðarannsóknum sem sýna að hér hefur blandast fólk af ólíku þjóðerni frá öndverðu.

Hin síðari ár hefur nokkuð verið deilt um einlægni fólks í sambandi við þjóðtrú. Árni Björnsson hefur sett fram þá hugmynd að fólk hafi alla tíð fyrst og fremst sagt þjóðtrúarsögur sér til skemmtunar á meðan tiltölulega fáir hafi lagt raunverulegan trúnað á þær. Á móti því hefur Valdimar Hafstein skrifað að margt bendi einmitt til að að þjóðtrúin sé einlæg og hafi beinlínis áhrif á gjörðir fólks.

Álfatrúin á Íslandi
Álfar“Fornfræði — það er margt, sem felst í þessum tveimur orðum. Þau geta náð yfir forna sögu, fornt mál, fornan kveðskap o. fl., ekki sízt þó allt það, sem heyrir undir fornan átrúnað eða trú, eða það sem vjer nefnum nú heiðni og hjátrú. Þau eru forn, afargömul, þessi fræði; en þau eru líka opt ekki eingöngu forn, þ. e. þau hafa lifað sínu lífi um margar aldir og enda stundum allt fram undir eða jafnvel fram á vora daga, og eimir eptir af mörgu enn í dag sumstaðar, þótt blöðin, skólarnir, í stuttu máli »sú meiri upplýsing« — eins og Fjölnir komst forðum að orði — hafi gert sitt til að svæfa og kyrkja þau. Það sem hefur haldizt lengst við á Íslandi af heiðnum átrúnaði, er álfatrúin, og munum vjer hjer skýra frá sögu hennar í mjög stuttu máli; en vísum annars til Ísl. þjóðsagna og ævintýra um allar sjerstakar álfasögur. Það er í rauninni ekki minna vert en að kunna sögurnar sjálfar, að draga út úr þeim mynd af efni þeirra, sem sje ein og heilleg.
Trúin á álfa er afargömul og ekki til orðin á Norðurlöndum; sjálft orðið álf- er álitið að vera sama og orð eitt í sanskrít (rbhú), er merkir »íþróttarmann, völund«; það er dverga-hugmyndin, er þar kemur fram, en hún kemur ekki þessu máli við. En hvað eru álfar þá í raun rjettri?
ÁlfarMörg rök má færa til þess, að álfar sjeu upphaflega ekkert annað en sálir andaðra manna, og trúin á þá er trúin á líf sálnanna eptir líkamlegan dauða hvers manns. Því var t. d. Óláfr á Geirstöðum kallaður Geirstaðaálfur eptir dauða sinn. Snorri Sturluson talar um tvær aldir í Heimskringlu formála sínum og nefnir þær brunaöld og haugaöld. Þetta er rjett að því leyti sem brunaöld (líkabrennuöldin) var eldri og gekk á undan hinni, er haugar voru gerðir og lík mann lögð í þá óbrennd. En lengra aftur í tímann var ekki von til, að minni manna næði.
Haugaöldin er mjög gömul. Um leið og haugurinn varð bústaður líksins, varð hann og bústaður sálarinnar, er var ódauðleg. Þess vegna höfðu haugbúarnir (draugarnir) nokkurs konar líf eftir dauðann. Haugarnir vóru opt ættahaugar, og gátu margir verið lagðir í einn haug. Af trúnni á líf sálnanna spratt svo trúin á mátt þeirra til að vernda lifandi menn og styrkja þá til velmegunar og hamingju. Synirnir trúðu þvi eðlilega, að feður þeirra (afar og forfeður) ljeti sjer annt um þá eins eptir líkamlegan dauða sinn sem áður, og þeir fóru að tilbiðja feður sína þ. e. sálirnar, andirnar, og skoða þær sem góða anda og verndarverur; andirnar (haugbúarnir) voru því upprunalega sjerstök ættagoð; en trúin breiddist út og varð almenn og menn fóru almennt að dýrka þessar verur, sem höfðu fengið nafnið álfar.
ÁlfarÍ hinni fornu goðafræði eru álfar stundum nefndir og þá alloptast svo, að þeir eru settir í náið samband við æsi eða goðin sjálf; »æsir og álfar« eru eins og ein heild. Álfheim gáfu æsir Frey að tannfje í árdaga; hafa menn því snemma hugsað sjer sjerstakan heim, er þeir byggðu, enda segir Snorri í sinni bók (Eddu), að »einn sé staðr á himni, er heitir Álfheimr; þar byggja Ljósálfar — þeir eru fegri en sól«; »ljósálfar« eru kallaðir hjer til greiningar frá »dökkálfum« það eru dvergarnir, og þeir eru svartari en bik. Það sem hjer kemur fram, er yngsta stigið í heiðinni trú á álfa. Þeir voru hugsaðir sem ljósar og ljúfar verur (loptandar), sem vildu ekki annað en gott og unnu öllu því, sem var gott og fagurt.
Í Alvíssmálum er kafli úr máli þeirra, eða taldir nokkurir hlutir og sagt, hvað álfar nefni þá; öll þessi nöfn eru yndisleg, ljúf og blíð og sýna tilfinningu fyrir fegurð náttúrunnar; jörðin heitir »gróandi«, himininn »fagraræfr«, sólin »fagrahvel«, skógurinn »fagrlimi«, lognið »dagsevi«, nóttin »svefngaman«, vindurinn »dynfari« o. s. frv. Þeir eru auðvitað fagrir ásýndum, og þegar menn hugsuðu sjer þá klædda, vóru þeir í fegurstu og dýrustu guðvefjarklæðum, bláklæddir, en einkum þó rauðklæddir; því sagði Skarphjeðinn: »sjáið þjer rauðálfinn, sveinar«. Þeir eru auðugir af gulli og gersemum, eins og Freyr og Njörður, og gátu því gefið mönnum fullsælu fjár. Þeir hata allt óhreint; því segir um Helgafell — en á því var sá átrúnaður, að þangað færi menn í fellið eptir dauðann, einkum niðjar Þórólfs Mostrarskeggs —, að enginn mátti þangað óþveginn líta og eigi skyldi þar »álfrek ganga« (forn og dýrmæt altansklæði (frá kaþólskum tímum), sem enginn veit neitt um upprunann, verða í þjóðtrúnni að álfagjöfum).

Álfar

Grásteinn í Grafarvogi – heimili álfa.

Nöfn með orðinu álf- í þóttu fögur og farsælleg (Álfgeir, Álfhildur o. fl.) og »vel þykir kent til álfa« (t. d. að kalla mann »brynjálf« í skáldskap) segir Snorri.
Álfadýrkun og álfablót hafa verið almenn um öll Norðurlönd; það er um þau talað í fornum sögum bæði í Norvegi og Svíþjóð, og sýnist svo, sem það hafi verið helzt konur, er stóðu fyrir þeim. Líkt hefur verið haft á Íslandi, enda segir í Kormákssögu frá veizlu, er ger hafi verið álfum til heilbrigðis manni, og hafi blóði fórnardýrsins verið roðið á álfahólinn. Ætíð þótti það hollara að hafa vináttu þeirra en styggja þá; það gat orðið til óleiks og óláns. Það er auðvitað, að úr því að álfar eru taldir með ásum, hafa menn hugsað sjer, að þeim hafi ekki verið mikið gefið um siðaskiptin forðum daga, og kemur í ljós á einum stað fögur, en angurblíðu-blandin hugmynd um það; svo segir, að maður einn hafi vaknað snemma og allt í einu hlegið; hafi hann þá verið spurður, hvað honum væri hlátursefni, og segist hann sjá mart skoplegt — maðurinn á að hafa haft ófreskisgáfu—: »margur hóll opnast og hvert kvikindi býr sinn bagga og gerír fardaga«; þetta vóru álfar og er auðsjeð, að þeir vildu flýja kristnina. En þeir flýðu ekki landið og það fór ekki fyrir þeim sem fjelögum þeirra, Óðni og þeim ásum, aðalgoðunum; þau hurfu, dóu smámsaman; Hvítakristr sigraði. Vilji maður halda landsvist, verður hann að hlýða landssið og hlíta landslögum — og það kjöru álfar, eins og síðar skal verða á drepið.

Álfar

Álfar ku búa í klettum.

Í ýmsum fornsögnum, sem þó eru ekki eldri en frá síðustu tímum fornaldarinnar, fer að brydda á þvi, að enn nánara samband getur komizt á milli manna og álfa, en áður hafa menn hugsað sjer, og er það mjög þýðingarmikið stig í islenzku álfatrúnni. »Ganga nauðsynja sinna«; dlfrek = það sem rekur álfa í burtu. Það einasta þýðing orðsins, sem getur komið til greina.
Það er ástarfar milli álfkonu t. d. og mennsks manns, sem jeg á við hjer, og eins hitt, að álfkona leitar hjálpar hjá mennskri konu í barnsnauð. Í álfasögunum í ísl. þjóðsögum og ævintýrum kemur hvorttveggja mjög opt fyrir, og það sem vjer hjer eptir höfum af álfum að segja, er tekið eptir og úr þessum álfasögum.
Eptir því sem tímar liðu fram, hlutu hinar upprunalegu hugmyndir um álfana að gleymast, að sama skapi sem heiðnar trúarskoðanir týndust, og breytast á margvíslegan hátt; og hefur þegar erið eitt dæmi að minnsta kosti sýnt í þá stefnu.
Um uppruna álfa fer nú tveim sögnum. Önnur er sú, að þeir sjeu systkin mannanna, börn Adams og Evu; segir sagan, að Eva hafi falið suma krakkana, þegar guð heimsótti þau Adam einu sinni, af því að þeir hafi verið óþvegnir og óhreinir; þá hafi guð sagt: »Það. sem skal hulið fyrir guði, skal hulið fyrir mönnum«; þessir krakkar hafi svo orðið forfeður huldufólksins. Hin sagan er sú, að þeir sjeu englar, sem engu ljetu sig varða aðferð Lucífers —, »vóru með hvorugum« —; þeir vóru því reknir niður á jörð og urðu álfar.
Annars er trúin sú, að álfar fæðist og deyi sem menn, en verði allt að jafna langlífari; eru þeir að því leyti, sem mörgu öðru reyndar, á æðra stigi.
Að útliti til er það allt fallegt fólk og föngulegt, svipmikið, en opt nokkuð stórskorið. Það er optast nær bláklætt (þ.e. í svörtum vaðmálsklæðum, sem er aðalbúningur Íslendinga sjálfra); þó er einstöku sinnum talað um rauð klæði; kirkjufólk er í litklæðum, og við hátíðleg tækifæri er það prýtt gulli og gersemum, kvenfólkið hefur skautafald, hempur og að öðru leyti búning sem
mennskar konur. Að búningur álfmeyja hafi yfir höfuð verið álitlegur og ekki af lakara tagi sýna t. d. þessar vísur:

Á bláu var pilsi en beltið var vænt,
bundið um enni silkiband grænt,
skautafald háan, hvítan sem ull,
á hendinni bar hún þríbrotið gull.
Blátt var pils á baugalín,
blóðrauð líka svuntan fín,
lifrauð treyja, lindi grænn,
líka skautafaldur vænn.

Stakkavík

Álfakirkjan í Stakkavík.

Það er valla efamál, að sá búningur, sem hjer er bent til, hafi verið hátíðabúnaður fyrirkvenna á fyrri öldum. Nöfn koma nokkur fyrir: Arnljótur, Finnnr, Grímur, Kári og jafnvel Davíð; Alvör, Björg, Borghildur (drottning í borg, Álfaborg), Hildur, Íma, Snotra, Úlfhildur, Una, Vandráð eða Valbjörg. Kallmannanöfnin eru lítt einkennileg; betri og fallegri eru kvennanöfnin og sýna annaðhvort lundernisfar (Alvör, Snotra, Una) eða hjálpsemi (Björg).
Helztu líkamlegu einkenni eru, að alt er það ósýnilegt fólk, en hefur þá yfirburði, að geta gert sig sýnilegt við tækifæri. Það sjer allt á jörðu og í. Allt er þetta fólk alvarlegt og hógvært, góðgjarnt og hjálpsamt, hvort sem leitað er til þess beinlinis eða ekki, og ærið er það gestrisið, vinfast og trúlynt, en um fram alt ráðvant og ærlegt; svik eru ekki fundin i þess munni. Það eru leifar af gömlu álfatrúnni, og er ekki að undra, þótt álfar sje nefndir einu nafni Ljúflingar, og þykir þeim það gott nafn; þar á mót líkar þeim ekki vel við álfanafnið, af því að það er svo opt haft í illri merkingu, og þykir sjer með því misboðið. Hefnigjarnir eru álfar stundum, ef til þeirra er illa gert eða ef þeir eru rnjög áreittir, en fáar fara sögur af því; hinar eru fleiri og langflestar, er fara af greiðvikni þeirra, þakklátsemi og rausnargjöfum, ef vel er til þeirra gert. Gjafir þeirra eru t. d. rauðleit hálfskák dýrmæt, undurofinn ljereptsklútur, svuntudúkur, skrúðklæði í kistli, prestsskrúð og línsloppur, ábreiða úr ókennilegum vefnaði, silfurbelti, gullofinn guðvefjardúkur1, gyltur silfurhnappur (lagður í barnslófa) o.fl. Bústaðir álfa eru ekki aðeins í hólum (haugum), heldur og í steinum (klettum, björgum); stór (kletta)borg verður þá höfuðstaður (Álfaborg). Híbýli þeirra eru í raun rjettri bæir, en líta út eins og steinar og hólar; inni er líkt umhorfs og í bæjum manna.
Lifnaðarhættir og atvinnuvegir eru sömu sem manna (Íslendinga sjálfra). Álfar hafa hunda, kýr og kindur, naut og hesta, fjöruga og fallega, og allt er það föngulegra og gerðarlegra en hjá mönnum. Af þessu leiðir, að þeir þurfa alla heyvinnu, þeir slá og raka, hirða og binda og safna í hlöður. Mjólkurtilbúningur fer þar fram, og opt heyrist strokkhljóð úr klettum. Þeir hafa ullarvinnu, kemba, spinna og prjóna. Þeir sem búa nálægt sjó, fara í verið og róa til fiskjar og eru að hvalskurði;- þeim hepnast ætíð vel og þeim hlekkist aldrei á. Þeir sem búa upp til sveita þar sem silungsvötn eru, róa og veiða silung. Þegar talað er um mat í hólum hjá álfum — en það er sjaldan —, er nefndur steiktur silungur (og má af því nokkuð marka, að sú saga sje til orðin í sveit) og þess utan brauð og grjónagrautur; brauðsog grautarefnið má ráða í hvaðan komið sje, sem síðar skal á minnzt. Þó er ekki laust við, að mönnum sýnist ekki maturinn í hólum girnilegur (stundum maðkaður eða allur rauður). Þess skal enn fremur getið, að álfar fara á berjamó og tína ber.

Álfakirkja

Álfakirkja – fjárskjól í neðra.

Yfir höfuð er það allt velmegandi og auðugt fólk, sem áður segir. Þó er til fátækt fólk meðal álfa, og er stundum hart í búi hjá því; ber þá við, að krakkarnir þeirra koma til manna og sníkja mat eða mjólk í nóann sinn; askarnir eru hvítir með rauðum gjörðum (það hafa þótt laglegir askar, er svo vóru gerðir).
Álfar halda fardaga og flytjast búferlúm, og er það kunnugra en frá þurfi að segja; þeir flytjast þá stundum á kerrum — sem sýnast steinar eða eru. Almennasta fardagatíðin er nýjársnótt. Um jólin og nýjársleytið hafa þeir gaman af gleði, söng og dansi, og kemur það ekki í bága við, að álfar annars sje mjög alvarlegt fólk.
Menntaðir eru álfar mjög vel, enda hafa þeir sálarhæfilegleika á æðra stigi en menn; þeir kunna á sjerstök grös til lækninga; geta látið hvali hlaupa á land með kyngi sinni, og er þá ekki furða, þótt huldumaður eigi krapta- og kyngisbók (galdrakver); álög þeirra verða að áhrinsorðum (»vertu þá aldrei óstelandi«). — Alfar kunna að skrifa; að minsta kosti er látinn skrifaður miði með barni i vöggu. Þeir hafa jafnvel prentsmiðju og prenta bækur, og er talað um sálmakver með mjög fínum stíl, er fundizt hafi við bæ einn; það var svo ólíkt öllu öðru, að það hlaut að vera komið frá álfum; og til eru brot af álfasálmum.

Álfar

Álfakirkja í Esju.

Að álfar myndi eina þjóðríkisheild, er víst, og eiga þeir sjer álfaþing, og hafa lög — Huldumannalög—, en aðeins eitt lagaákvæði þekkist úr þeim, og er það ekki óskynsamlegt (að rík álfamær, sem láti tælast af auðvirðilegum manni, skuli giptast honum og missa arfs síns). Álfar eiga tvo kónga; það hefur þótt hefðarlegra og æðra, að þeir hjetu svo, en lögmenn, eins og þeir íslenzku. Kóngarnir áttu að fara sitt árið hvor til Norvegs og gera þar grein fyrir hag ríkis og þjóðar fyrir yfirkóngi allra álfa, er þar var. Það er auðsjeð, að þessi hugmynd er ekki yngri en 1400. Annars fara litlar sögur af þingum og málaþrasi álfa, eða öllu heldur engar, svo að vjer vitum.
Það er sögn um álfa, að þeir sje sumir heiðnir og illir; en þessu er víst ekki svo varið; illir eru þeir að minsta kosti ekki, enda koma þeir aldrei svo fram, nema þegar þeir eru reittir til reiði og þykkju.
En hitt er satt, að heiðin trú hefur haldizt um margar aldir hjá þeim og ef til vill aldrei dáið út með öllu. Því er þeim illa við kristilegt atferli; »ekki þurftirðu að krossa þetta ólukkukindin« sagði álfkona við konu, er krossaði mjólkina. Mennsk kona nefnir Jesús í álfhól; þá skreiðist gömul kelling fram og sópar allt húsið innan, og ekki þolir huldufólk ætíð að heyra guðsnafn; heldur ekki vildi huldumaður, sem var unnusti mennskrar stúlku, kyssa hana, eptir að hún hafði verið til altaris; það var kominn svartur, blettur á tunguna á henni. En það má það eiga, huldufólkið, að trúarofstæki er ekki til hjá því; það á viðskipti við kristna menn, kemur enda í kirkju með þeim, en þolir ekki blessunina; og ekki þótti álfameyjunni neitt að því að elska Ólaf liljurós:

Þar stóð úti ein álfamær,
sú var ekki Kristi kær.
Ekki vil jeg með álfum búa — segir Ólafur —
heldur vil jeg á Krist minn trúa.
Þótt þú viljir með álfum búa — svarar hún —
þó mátt þú á Krist þinn trúa.

Álfar

Álfur á Reykjanesi.

Þetta umburðarlyndi er fagur vottur um lund álfa, og mættum við mennirnir þakka fyrir, ef við værum ætíð svo sjálfir. Hins vegar er mart af álfum kristið ; hafa þeir líklega snúizt til siðbótar nokkuru eptir 1000, og efalaust hafa þeir og tekið þátt á siðabót Lúters. Þeir hafa kirkjur — og snúa dyrna r ætíð í austur— og presta; guðsþjónustan fer fram eins og hjá mönnum, en allajafna með meiri viðhöfn, öll kirkjan er ljósum lýst og prýdd, presturinn hefur hreimsætustu rödd o. s. frv. Biskup eiga þeir einn og býr hann í Blábjörgum; biblía þeirra er sú sama sem manna og sálma hafa þeir líka eða eins. Prestar eru stundum ekki ánægðir með brauð sín og geta þá haft brauðaskipti. Þess var áður getið, að álfar dæju sem menn, og er því ekki furða, þótt þeir eigi sjer kirkjugarða.
Að álfar geti ekki fremur en mennskir menn látið sjer nægja með afurðir landsins sjálfs, er svo sem auðvitað; enda var áður nefnt brauð og grjón hjá þeim; þeir verða því að hafa skip í förum, kaupmenn og verzlunarstaði. Um einn huldukaupmann er að minnsta kosti talað á Hofsós. Einu sinni viltist bóndi, sem ætlaði í kaupstaðinn, í hríð og kom að bæ, sem hann átti ekki von á; en þegar til kom, var þetta kaupmannssetur og búð; kaupmaðurinn var frakkaklæddur og tók bónda vel og bauð honum kaup við sig; reyndist þá svo, að þar vóru betri vörur og þar að auk miklu ódýrari en hjá Hofsóskaupmanninum. Kaupmaður hresti bónda með ágætu víni úr flösku og gaf í kaupbæti sjal handa konunni og brauðkökur handa krökkunum. Ekki er talað um kaffi, sykur og tóbak hjá álfum; en ef til vill hafa þeir getað drukkið te; að minsta kosti er talað um tekönnu, sem álfar hafi gefið.
Að lyktum skal þess getið, að álfar eiga mikil mök við menn og hænast jafnvel eptir því; sýnist það fara sífellt í vöxt, eptir því sem stundir líða. Margar fara sögur af ástum milli álfa og manna og eru þær með mörgu móti; hjónabönd og barneignir koma opt fyrir. Ástir álfa eru heitar og sterkar, tryggðin óbilandi; þeir deyja heldur og springa af harmi, ef þeir fá ekki að lifa með þeirri mennskri konu, sem þeir hafa fengið ást á. Og ætíð er það auðnuvegur að halda vinfengi við þá.

Álftanes

Álfasteinarnir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Á annan hátt kemur sambandið milli álfa og manna í ljós, og er það allmerkilegt atriði. Álfkonur leita opt til mennskra kvenna í barnsnauð, og eru þær þá sóttar í hólinn; þurfa þær ekki annað en fara höndum (trúin á læknishendur) um álfkonuna og verður hún þegar ljettari; hið síðasta stig í þessari trú er, að álf kona jóðsjúk þurfi ekki annað en leggjast í rúm mennskrar konu„ og á slíkt að hafa við borið árið 1770. Allur þess konar greiði og hjálp er launuð með ríkmannlegum gjöfum og þakklátsemi. Að síðustu skal þess getið, að álfar hænast mjög eptir börnum manna og leitast opt við að heilla þau eða lokka þau með sjer burt frá bænum, þegar enginn gætir þeirra (hvernig stendur á þeirri trú er mér með öllu óljóst). Ef börnin sýna mótþróa, svo að álfurinn nær þeim ekki, sinnist honum opt og slær þá barnið á kinnina, og fær það þá bláan blett á hana. Svona skýrðu menn þessa óskiljanlegu meðfæddu bletti, sem einstöku menn höfðu og hafa. Stundum vilja álfar ná í börnin með því að hafa skipti á þeim og álfabörnum (sem reyndar optast eru gamlir álfar — »átján barna faðir í Álfbeimum); skiptir þá svo um, að börn, sem áður vóru spök og gæf, verða nú óspök og láta öllum illum látum; það eru umskiptingarnir, sem allir þekkja.
Svona var álfatrúin á Íslandi til skamms tíma og saga hennar í stuttu máli. Nú er hún að mestu eða öllu dauð á Íslandi; menntunin, skólarnir og framfarirnar hafa orðið henni að fjörlesti, og álfarnir hvílast nú í kirkjugörðum sínum og rísa aldrei upp aptur. »Allrar veraldar vegur víkur að sama púnkt«. »Íslenzkar þjóðsögur« er grafskriptin.
Þessi álfatrú er í mörgu lærdómsrík. Hún er nokkurs konar skáldskapur þjóðarinnar, en með öllu ósjálfráður; sveigist hún stöðugt meir og meir að því að verða mynd af íslenzku mann- og þjóðfjelagslífi; álfarnir verða æ mennskari og mennskari í öllu sína eðli og athæfi; því er það svo mikils vert, að geta fylgt henni, þrætt hana svo að segja fet fyrir fet. Og hún truflast ekki eða blandast af neinum utan að komandi eða útlendum áhrifum; frá því á 14. öld að minnsta kosti er hún alíslenzk og heldur áfram að vera það til endaloka. Heiðin trú fór — að vorri hyggju — sama veginn síðustu aldirnar, sem hún lifði; en þar eru nú margar skoðanir um, hvernig henni hafi verið varið, og er það mikið mein, að svo skuli vera. En um álfatrúna á Íslandi er enginn efi eða óvissa. Af allri hjátrú liðinna tíma er hún fegursti og ljúfasti þátturinn, og hún er sá sanni spegill, er þjóð vor getur sjeð sig sjálfa í, sitt líf og sinn hugsunarhátt.” – Finnur Jónsson.

Heimild:
-Eimreiðin, 2. tbl. 01.07.1895, Álfatrúin á Íslandi, Finnur Jónsson, bls. 93-103.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=2342
Álfar