Í Stardal, dalnum ofan bæjarins Stardals í Kjalarneshreppi, eru a.m.k. fornar tóftir á tveimur stöðum; selstaða ofan Stardalsáar og u.þ.b. 14 metra langur skáli ofan dalsins (í Skálafelli). Við síðarnefndu tóftina má einnig sjá tóftir af öðrum minjum. Bendir það til þess að báðir staðirnir hafi verið fornir nytjastaðir. Vestari hluti dalsins er mýrar og keldur, en sá austari er öllu þurrari; svonefndir Akurvellir.
Ari Gíslason skráði örnefni í Stardal. “Austasta jörð í Kjalarneshreppi. Upplýsingar um jörðina og nágrennið gaf Jónas Magnússon, verkstjóri og bóndi þar. Einnig er sóknarlýsing Bókmenntafélagsins 1840 höfð til hliðsjónar og aukið skýringum eftir henni. Þess skal geta, að á austurjaðri landsins er ekki farið eftir merkjum jarðarinnar, heldur farið þar austur á heiðina smávegis. Er það sökum þess, að Jónas er þar allra manna kunnugastur, og sé ég ekki ástæðu til að skilja það frá að sinni.
Þetta er fallegur dalur, sléttlendur og grasgefinn í botni. Er þetta því mikið engjaland og dalurinn, sem gefið hefur bænum nafn sitt. En áður mun bærinn hafa heitið Múli. Hallur goðlaus bjó í Múla. Gæti það hafa verið hér og nafnið svo breytzt, er jörðin fór í eyði og var lengi í auðn. Inni í Stardal virðast vera byggðarleifar, og til er nafn á einu slíku, Akurvellir, innarlega í dalnum, milli Bolagils og Beinagils. Þarna voru tættur, sem áin er að rifa niður. Neðan við Flágil voru einnig tættur sýnilegar, hvort sem það er eftir bæ eða sel.”
Í annarri örnefnalýsingu framangreinds Jónasar Magnússonar segir m.a.: “Þessa örnefnaskrá hefur samansetta Egill Jónasson Stardal f. 14. sept. 1926 í Stardal, sonur Jónasar Magnússonar, bónda þar og Kristrúnar Eyvindsdóttur k. h. Höfundur er alinn upp á þessum stað. Hér er notast við þá þekkingu sem hann nam af föður sínum frá barnæsku en Jónas dvaldi frá fjögurra ára aldri í Stardal til elliára, var bóndi þar frá 1914 til 1965 að hann afhenti jörðina syni sínum Magnúsi sem nú býr þar. Magnús Sigurðsson, faðir Jónasar, bjó einnig í Stardal, frá árinu 1894 til dauðadags árið 1910, en faðir hans Sigurður Guðmundsson frá Breiðavaði í Langadal í Húnavatnssýslu eignaðist jörðina og bjó þar á undan um nokkurt skeið eða frá 1871- 1888. Fyrir daga Sigurðar árin 1850-1871, sat og átti jörðina annar Húnvetningur, Jónas Jónasson frá Gafli í Svínadal, og voru þeir Sigurður og Jónas áður kunnir að norðan.
Jörðin hefur þannig verið í eigu sömu fjölskyldu síðan 1871 og þar á undan í eigu vinafólks hennar í nær aldarfjórðung eða frá 1850. Líklegt verður að telja að flest merkustu örnefni hafi varðveist mann fram af manni á þessu tímabili en ógjörningur er að segja um aldur þeirra fyrir þann tíma, nema þeirra fáu sem varðveist hafa í rituðum eldri heimildum. Þessi skrá hefur verið borin undir bræður skrásetjara, Magnús Jónasson, bónda og eiganda jarðrinnar, og Eyvind Jónasson verkstjóra, Glæsibæ 3 Reykjavík. Auk þess hefur verið haft til hliðsjónar handrit um örnefni í eigu Magnúsar Jónassonar, samið eftir lýsingu og drögum að örnefnaskrá Jónasar Magnússonar. Þá hefur verið stuðst við skrá í eigu Örnefnastofnunar sem samin er af Ara Gíslasyni, að því hann segir eftir forsögn Jónasar Magnússonar, en sú skrá er full af missögnum og auk þess er þar grautað saman örnefnum jarðarinnar og annarra jarða eða landareigna utan marka hennar án þess að sjáist glöggt hvað sé hvað.”
Hvað sem framangreindu líður eru mjög fornar tóftir í Stardal ofanverðum, jafnvel þær elstu hér á landi, sem ástæða er til að rannsaka m.t.t. aldurs og notagildis.
Heimildir:
-Örnefnalýsingar fyrir Stardal – ÖÍ.