Landnámssýning

Eftirfarandi umfjöllun um fyrirhugaða sýningu á víkingaaldarskála við Aðalstræti í Reykjavík er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006.

Fornminjar hafa fundist við Aðalstræti og næsta nágrenni. Forsaga staðarins er nokkur sem og eldri rannsóknir á svæðinu. Hér verður m.a. fjallað um sannfræði upplýsinganna, upprunaleika minja og helgi þeirra.
Fornleifar í Kvosinni fundust þegar fyrir 1950. Áður var vitað að slíkar minjar kynnu að leynast á svæðinu m.a. vegna texta Landnámu um búsetu Ingólfs Arnarssonar og síðari tíma texta um að “öndvegissúlur hafi sést í eldhúsi í Reykjavíkurbænum” fram á 19. öld. Örnefnin Ingólfsnaust og Ingólfsbrekka bentu m.a. til staðsetningar bæjar Ingólfs, elsta bæjar Reykjavíkur. Þegar grafið var fyrir Tjarnargötu 4 (Happrætti Háskóla Íslands) á fimmta áratug 20. aldar, komu í ljós miklar fornminjar, dýrabein o.fl., en fáir voru upprifnir af því sem þá bar fyrir augu. Þá var líkt og nú gerist. Matthías Þórðarson skoðaði svæðið, en ekki var gerð gagnmerk rannsókn á leifunum, sem þá fundust, enda enginn sérstakur áhugi þá á að varðveita minjar tengdar Ingólfi heitnum, hvað þá að varðveita þær til sýningarhalds. Sennilega hefur mest af gamla bænum verið mokað burtu umrætt sinni – því miður.
Áskorun embættismönnum borgarinnar kom fram árið 1959 um að friða svæði á horni Túngötu og Aðalstræti – “því þar væri að finna leifar af bæ Ingólfs, hins fyrsta landnámsmanns”. Helgi Hjörvar gaf m.a. út bók með greinum þar sem fram kom að hann vildi staðsetja Alþingi Íslendinga á fyrrgreindum stað, “enda vel við hæfi”.
Fornleifarannsóknir fóru fram á svæðinu 1962. Við C14 greiningar komu í ljós mjög gamlar minjar. Uppgröftur Else Nordahl í Aðalstræti 14 og 18 og jafnframt Suðurgötu 3 og 5 fóru fram á árunum 1971-75. Hún var mjög varfærin í túlkun niðurstaðna sinna og þær skyldu því lítið eftir sig. Málið í heild hlaut litla athygli og engir minnisvarðar voru reistir á vettvangi, þrátt fyrir tilefni til þess. Ummerki fundust um landnámsbyggð.
Uppgreftir í Aðalstræti 12 og 8 og Suðurgötu 7 gáfu einnig til kynna ummerki eftir landnámsbyggð á svæðinu.
Ummerki um landnámsbyggð, allt frá elstu tíð, s.s. leifar af skálum, en fáir gripir. Skálarnir voru litlir, 12-14 m langir og eldri byggingar höfðu greinilega raskað þeim eldri.
Útbreiðsla minjanna má greina með lagni. Elstu minjar eru þar sem nú er Herkastalinn og hús Happdrættis Háskóla Íslands. Meginsvæðið nær þó lengra til norðurs að Ingólfstorgi og jafnframt lengra til suðurs. Lýsingar Matthíasar eru slíkar að líkur benda til þess að þarna hafi elstu minjarnar verið. Herkastalinn er grunnt grafinn svo ekki er með öllu útilokað að þar undir kunni að leynast minjar er gætu gefið bæjarstæðið til kynna. Hér er þó ekki komin endanleg mynd á svæðið því enn eru reitir á svæðinu, sem enn hafa ekki verið grafin upp, bæði lóðir og götur.
Alls staðar þar sem grafið hefur verið hafa fundist einhverjar minjar frá fyrstu tíð. Hið merkilega er að eftir rannsóknina á 8. áratugnum var mokað yfir rústirnar og hvergi sjást ummerki eftir uppgötvanir þær, sem þá voru gerðar.
Endurbygging Aðalstrætis 16 og uppbygging á reitnum Aðalstræti 14-18 hafa nú að mestu farið fram. Áður voru gerðar fornleifarannsóknir á útmánuðum 2001. Í ljós komu minjar frá Innréttingatíma og síðar, auk skála frá 10. öld. Skálinn var nánast heill og dæmigerður fyrir sinn tíma. Það gerði hann hentugan til sýningarhalds. En var hann “Ingólfsbær”? Fjölmiðlar voru a.m.k. upprifnir af þeirri mögulegu staðreynd. Því verður þó ekki hnikað að skálatóftin getur ekki verið eldri en frá miðbiki 10. aldar og síðar. Við norðurenda skálans fundust veggjabrot er bendir til að sé eldra en textalandnám segir til um, þ.e. fyrir 870. Því er hér um að ræða einn tveggja staða á landinu, sem benda til eldra landnáms en textaheimildir kveða á um. Hinn er Húshólmi í Ögmundarhrauni, í umdæmi Grindavíkur.
Einkenni skálans voru bogadregnir útveggir, langeldur í miðju hans, inngangur á öðrum langvegg og þrískipting byggingarinnar. Hið óvenjulega voru bakdyr og forskáli til hliðar er síðar kom í ljós. Langeldurinn er óvenju vel hannaður. Það bendir til þess að fólkið hafi litið stórt á sig. Skálinn er hins vegar lítill á íslenskan fornaldaskálamælikvarða. Um hefur verið að ræða meðalheimili og þar hefur verið búið í u.þ.b. 70 ár. Skálinn hefur að öllum líkindum verið yfirgefinn um 1000.
Þrjár rostungstennur fundust í skálanum. Fleiri slíkar hafa fundist í Reykjavík. Þessum var stungið undir hellu og geymdar þar. Hafa ber í huga að fyrst var, skv. heimildum, farið til Grænlands 983 svo rostungurinn gæti hafa verið veiddur hér á landi. Það eitt ætti að vera nokkuð merkilegt.
Glerbort úr litlum bikar fannst í tóftinni. Það á sér hliðstæðu úr öðrum víkingaaldargripum. Þetta mun þó vera elsta glerbrot úr uppgrefti á Íslandi. Glerið gæti verið stöðutákn og til merki um sambönd og ríkidæmi ábúandans.
Borgarstjórn ákvað að varðveita skálann. Rökin voru afgerandi, en ekki einhlít. Hönnun fyrirhugaðs hótels var því breytt og gert ráð fyrir að hægt væri að sýna þessar minjar. Sumir vildu þó ganga lengra og byggja sérstaka sýningaraðstöðu þeim til handa. Það þótti hins vegar of dýr framkvæmd. Því varð þessi málamiðlun niðurstaðan. Borgarsjóður ber kostnað af sýningarrýminu, en hann má áætla um 500 milljónir króna.
Rústin var hulin eftir uppgröftin og framhaldsrannsókn síðan gerð 2003. Sýningarundirbúningurinn hófst 2004, en sýningin er í rauyn tækifæri til að upplýsa hvernig fornleifar líta út. Með því er ekki verið að útiloka að eldri minjar kunni að leynast á svæðinu, jafnvel undir skálanum, þótt litlar líkur bendi þó til þess.
Forvarsla skálans varð erfitt viðfangsefni því ekki hafði verið tekist á við slíkt viðfangsefni hér á landi fyrr. Áætlað var að þurrka tófina, en hún myglaði. Í ljós kom að vatnslind er undir henni miðri. Efnið er í rauninni mold, sem verður að ryki við þornun. Niðurstaðan var að baða hana í sílikoni. Það hefur ekki verið gert áður svo hér er um tilraun að ræða. Óvíst er hver árangurinn kann að verða. Forvarslan nær í fyrstu til ytri gerðar tóftarinnar, en síðar verður hugað að miðju hennar.
Sérsýning verður því í fyrirhöguðu hóteli um landnám í Reykjavík.
Skálinn verður aðalsýningargripurinn. Áhersla verður lögð á fornleifarnar fremur en söguskýringu. Skýr aðgreining verður milli hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Um er að ræða málamiðlanir.
En fyrir hvern er sýningin? Erlenda eða innlenda ferðamenn?, skólabörn? eða alla? Er hún samkeppni eða viðbót við Þjms og aðrar sýningar? Líklega verður hún samkeppni þar sem ferðamenn í miðborginni munu geta á einum stað og á skömmum tíma geta kynnt sér upphaflega búsetu norrænna manna hér á landi, án þess að þurfa að fara í Þjms.
En hvað um Hallveigu og Ingólf? Í Íslendingabók Ara fróða frá því um 1130 segir að Ingólfur, maður norrænn, hafi fyrstur sest að í Reykjavík um 870. Yngri heimildir segja að afkomendur Ingólfs og Hallveigar konu hans hafi búið hér mann fram af manni. Þorkell máni, sonarsonur Ingólfs og Hallveigar gæti samkvæmt því hafa búið í skálanum, sem hér var reistur um 930.
Niðurstöður fornleifarannsóknarinnar varpa engu ljósi á sannleiksgildi hinna rituðu heimilda. Mörgum þykir hins vegar athyglisvert að fornleifafundurinn hér stangast ekki á við frásögn Ara fróða af landnámi Ingólfs í Reykjavík. En hafa ber í huga, að þótt elstu mannvistarleifarnar á þessum stað geti ekki verið yngri en frá því um 870 þá gætu þær vel verið nokkrum áratugum eldri.
Hugsanlega eiga líka eftir að finnast ennþá eldri merki um búsetu manna á Íslandi, því margt er enn órannsakað, bæði í Reykjavík og annars staðar á landinu, s.s. í Húshólma.
Yfirskrift sýningarinnar í kjallara hótelsins verður: Reykjavík 871±2 – Landnámssýning / The settlement exhibition.
En af hverju að sýna þessar fornleifar? Og það á þessum stað? Og með þessum tilkostnaði?
Í rauninni er þetta “helgur” staður í augum Reykvíkinga? Fyrirhuguð sýning er áhersla á fornleifarnar frekar en söguna. Skálinn er aðalsýningargripurinn og sýningin snýst um hann. Um er að ræða skýr aðgreining hefðar (sagnfræði) og fornleifaupplýsinga. Það er sérstakt.
Sýningin er fremur lítil. Tekur um 10-15 mínútur að ganga í gegnum hana, en möguleiki er á lengri viðdvöl. Fyrst, á leið niður, verður kynnt landnám á Íslandi í alþjóðlegu samhengi. Svolítill texti verður um Ingólf Arnarsson til þessa dags. Móttaka, sölubúð og tölvuver með ítarupplýsingum taka á móti gestum í kjallara. Sagt verður frá ritheimildum áveggjum, auk “panaorama” myndum er sýna umhverfið við landnám. Vandamálið er hversu lágt er til lofts. Það verður stærsti ókostur sýningarinnar. Við enda tóftarinnar verður lítil upphækkun, en þar verður möguleika að horfa yfir “sviðið”. Klefi verður þar sem hægt er að horfa í skjá og skoða endurgerð af rústinni. Hægt verður að fara í gegnum hana og skoða sig um. Margmiðlunarborð með líkan af rústinni leiðir gestina í gegnum hana. Skýringar og textar segja til um einstaka hluta hennar. Þarna gæti fólks staldrað við í allt að klukkustund.

Fimmtán textar verða á veggjum. Síðasti textinn fjallar um framangreindan texta um Hallveigu og Ingólf.
Nokkur umfjöllun hefur verið um þessa fyrirhugaða sýningu. Þráinn Bertelsson, dálkahöfundur, sagði m.a. í Fréttablaðinu 29. 08. 2001 eftirfarandi: “Ekkert land í veröldinni er svo ríkt af fornminjum að þar geti að líta bústað fyrsta nafngreinda fólksins sem tók sér bólfestu í landinu. Bæjarrústir Ingólfs og Hallveigar eru fornleifafundur sem er einstæður ekki bara á Íslandi heldur í veröldinni. … Ingólfsbær er þjóðargersemi og þjóðargersemar á að varðveita með öðrum og myndarlegri hætti heldur en í hótelkjallara, jafnvel þótt með því sé hægt að harka inn fáeinar krónur. Þarna á að rísa safn einstakt í Evrópu og minna á landnám Íslands, landkönnun í vesturátt, íslenska þjóðveldið og þróun víkingasamfélagsins til okkar daga. Þjóð sem misbýður sögu sinni með því að vísa fyrstu landnámsfjölskyldunni til dvalar í hótelkjallara verður aumkunarverð í augum alls heimsins.”
Um svipað leyti fór fram umleitan og skoðanakönnun á nýtingu fornleifanna við Aðalstræti. Spurt var: Á að byggja yfir landnámsbæinn í Aðalstræti? Já sögðu 33%, nei sögðu 67%.
Skoðanakönnun þessi var birt á www.visir.is og í Fréttablaðinu 12.11.2001.
Gunnar Smári Egilsson, dálkahöfundur, skrifaði eftirfarandi um sýninguna í DV þann 15.01. 2002: “Það hefur heldur enginn efast um að landnámsskáli hafi verið í Aðalstræti. Þær rústir sem menn hafa nú grafið upp bæta þar engu við – það er líklegra að þær skyggi á hugmyndir okkar af bænum en auðgi þær.
GrafiðOg þótt við drögum túrista að rústunum mun það ekki auðga líf þeirra – eða skilning þeirra á sjálfum sér eða okkur. Það er því óþarfi að byggja viðhafnarskála kringum heimsókn túristanna að rústunum. Eðlilegast er að moka yfir grjótið og halda lífinu áfram.”
Varðveisla skálans er véfengjanleg sem og túlkun fornleifafræðinga. Skörð hafa myndast í veggi tóftarinnar, hún varð hvít að lit, kostnaður varð mikill, lágt er til lofts og erfitt er fyrir gesti að skynja tóftina. Til hvers er þá sýningin? Forvarsla varð bæði kostnaðarsöm og hæpin þar sem umbreyting á eðli efnisins (torf í plast) er að ræða. Önnur áferð og litbrigði gefa varla rétta sýn á minjarnar sem slíkar. Og hvað er þá upprunalegt? Staðurinn, formið, steinefnin? Nóg er eftir til að hægt sé að halda því fram að tóftin sé upprunaleg. En hvers vegna ekki að hlaða veggina á nýtt og jafnvel skipta um þá reglulega? Hversvegna ekki að lækka rústina svo hægt verði að sjá yfir hana? Hér er einungis fárra álitamála getið.
Ljóst er að fornleifar frá landnámsöld í Kvosinni eru helgistaðir íslensks þjóðernis. Helgin er aðdráttarafl. Fjármagn skortir ei. Áhugi ferðamanna mun vissulega verða fyrir hendi – a.m.k. sumra.
Hvert er þá hlutverk fornleifafræðinga í þessu öllu saman? Hver er ábyrgð þeirra? Fornleifafræðingar hljóta að spyrja sig; hvað er hægt að tala um og hvað ekki? Sýningin opnar a.m.k. á aðrar túlkanir og aðra sýn á landnámið en tíðkast hefur. Hugsanlega gæti hún breytt ríkjandi skoðunum. Fleira kemur og til greina.
Hið sérstæða, og þó, er að enginn höfundur er að fyrirhugaðri sýningu í kjallara hótelsins. Leiktjaldahönnuður sér um útlit og verkefnastjóri stýrir hópi vísindamanna um álitamál og textagerð. Enginn ber heildarábyrgð á sýningunni sem slíkri. Ritstjóri er yfir sýningarbók og bæklingi (textum) og umskrifari fer yfir og gengur frá textum. Ljóst er að vandað verður til útlits og allra formlegheita. Forðast þarf alla meinbugi því þeir munu verða öðrum eftirminnilegri en kostirnir og megináherslur.
Segja má að í gegnum tíðina, m.a. vegna meðvitunar- og eftirtektarleysis, hafi Reykvíkingar gloprað niður tækifærinu til að uppgötva að nýju hinn raunverulega forna landnámsskála Ingólfs Arnarssonar.
Gaman verður að sjá hvernig til tekst.

Framangreint er byggt á fyrirlestri OV í fornleifafræði við Háskóla Íslands 2006. Texti er á ábyrgð ritara.

Landnámssýning

Landnámsýningin.