Landnám

“Fornleifafræðingar segjast hafa fundið skýrar vísbendingar um að Færeyjar hafi verið byggðar nokkrum öldum fyrr en til þessa hefur verið talið. Uppgötvunin er sögð kalla á endurskoðun á viðurkenndum hugmyndum um landnám eyja í Norður-Atlantshafi, þeirra á meðal Íslands.

refagildra-991

Fréttir um þetta birtust fyrst fyrir um tveimur árum en nú hefur fræðigrein verið birt um rannsóknina í vísindatímariti. Það voru fornleifafræðingar frá Durham-háskóla í Bretlandi og Þjóðminjasafni Færeyja sem kynntu þessar niðurstöður sínar á dögunum.
Þær byggjast á aldursgreiningu á móösku sem blandast hafði brenndum beinaleifum og byggi. Þetta eru talin ótvíræð merki um mannabyggð og segir Mike Church, fornleifafræðingur við Durham-háskóla, að slík blanda verði ekki til nema af mannavöldum. Mannvistarleifarnar fundust á Sandey og benda til að eyjan hafi verið byggð löngu fyrir tíma víkinga og þar hafi bygg verið ræktað.
Samkvæmt Færeyingasögu byggði Grímur Kamban fyrstur manna Færeyjar, í kringum árið 825, nærri hálfri öld áður en Ingólfur Arnarson er, samkvæmt opinberri söguskoðun, talinn hafa orðið fyrsti landnámsmaður Íslands. „Það liggja nú fyrir skýrar vísbendingar um landnám manna í Færeyjum 300-500 árum áður en víkingar komu þangað á 9. öld,” hefur UPI-fréttaveitan eftir Mike Church.
sveppir-991„Þótt við vitum ekki hvaða fólk settist hér að, né hvaðan það kom, er þó ljóst að það stundaði mótekju, skar hann, þurrkaði og brenndi, sem gefur til kynna að það hafi búið hér í nokkurn tíma,” segir Símun V. Arge, frá Þjóðminjasafni Færeyja, sem er meðhöfundur. Hann segir þetta benda til að fólkið hafi ekki verið til skammvinnrar dvalar.
Mike Church segir að þessir fyrstu íbúar Færeyja hljóti að hafa haft getu til að byggja báta sem gátu siglt yfir úthaf. Þeir hljóti einnig að hafa komið undirbúnir til að nema ný lönd. Þeir hljóti að hafa vitað af eyjunum og skipulagt leiðangra sína fyrirfram. Landnámið hafi ekki verið tilviljun.
Rannsókn vísindamannanna er sögð kalla á endurskoðun á fyrri hugmyndum um eðli, umfang og tímasetningu landnáms manna á eyjum Norður-Atlantshafs. Í grein í breska blaðinu The Independent er þetta sagt benda til að mörghundruð árum fyrir tíma víkingaferða hafi aðrir hópar sæfara úr Norður-Evrópu haft getu til víðtækrar landkönnunar yfir úthaf.
galgaklettar-991Blaðið segir einn möguleikann þann að hér hafi verið á ferð kristnir einsetumunkar frá Skotlandi eða Írlandi og er vitnað er til fornra írskra heimilda. Þannig hafi írskur munkur, Dicuil, skrifað í kringum árið 825, um afskekktar eyjar norðan við Bretlandseyjar, þótt hann hafi ekki sérstaklega lýst Færeyjum. Þá hafi Brendan biskup, sem uppi var á árunum 484 til 578, lýst siglingu til eyja í hafinu í norðri.
Helstu ritaðar heimildir um landnám Íslands, Landnáma og Íslendingabók Ara fróða, geta þess einnig að írskir munkar, papar, hafi verið komnir til Íslands á undan norrænum víkingum. Þeir hafa þó ekki öðlast þann sess í Íslandssögunni að teljast landnámsmenn.”

Heimild:
-http://www.visir.is/hverjir-byggdu-faereyjar-longu-a-undan-vikingum-/article/2013130829568