Reykjavík

“Svo segja heimildir, að vorið 874 hafi fyrsta skip svo vitað sé siglt inn á Reykjavík.
Þarna var Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði í Firðafylki í Noregi á ferð með fjölskyldu sína, húsdýr og húsbúnað. grofin-22Sagan segir, að áður hafi þrælar Ingólfs, þeir Vífill og Karli, fundið öndvegissúlur hans reknar á þessum slóðum. Ingólfur hefur svo valið vik eitt inn af víkinni, sem síðar var nefnt Grófin, sem besta lendingarstaðinn vegna aðstæðna eða nálægðar við ákjósanlegt bæjarstæði. Þar hafa þau Hallveig og Ingólfur svo gengið á land ásamt föruneyti sínu, kannað betur staðinn, gengið suður með klapparholtinu (Grjótaþorpi) upp af vikinu, komið þar að allstórri tjörn (Tjörnin) og valið sér bæjarstæði skammt frá norðurenda hennar. Bærinn fékk síðar nafnið Vík (Tjarnarg. 4, Suðurgata 3—5, Aðalstræti 14—16—18) í Reykjavík. Við leiðina sem Ingólfur fór úr vikinu (Aðalstræti í dag) stóð Ingólfsnaust (versl. Geysir) fram á 18. öld og Ingólfsbrunnur, Aðalstræti 9 fram á 20. öld.

Reykjavík

Reykjavík – merki í gangstétt við gatnamót Aðalstrætis, Hafnarstrætis og Vesturgötu.

Fyrstur ættmenna sinna í Noregi og annarra norrænna manna settist Ingólfur að á Íslandi. Trúlega hefur hann flutt búslóð sína á land í Grófinni vestur af Vesturgötu 2 (Álafossbúðin) í dag. Það má því með sanni segja að íslenskt þjóðfélag hefji feril sinn í Grófinni. En hafa skal það sem sannara reynist. Setlög Tjarnarinnar bíða eftir því að þau verði rannsökuð og saga mannvistar í gömlu Reykjavík verði lesin úr þeim betur og betur eftir því sem vísindunum fleygir fram.”
Miðja Reykjavíkur er við húsið Vesturgötu 2, sem var byggt árið 1863. Það hefur verið kallað Bryggjuhúsið og hýst margvíslega starfsemi í tímans rás. Út frá miðju Reykjavíkur eru öll götunúmer miðuð. Sá endi gatna sem er nær Bryggjuhúsinu er upphafið og þá eru oddatölurnar vinstra megin við götuna og sléttar til hægri. Þannig hefur þetta verið í 161 ár – og verður væntanlega ekki breytt í bráð.

Heimild:
-Morgunblaðið – Það gerðist í Grófinni, 23. nóv. 1984, bls. 19.

Reykjavík

Reykjavík 1876.