Kirkjusandur

Samkvæmt sumum heimildum náði Kirkjusandur frá Laugarnesi að Fúlalæk en aðrar heimildir segja að hann hafi náð allt vestur að Rauðarárvík.

Kirkjusandur

Kirkjusandur.

Fúlilækur var þar sem Kringlumýrarbrautin er nú og er hann með öllu horfinn eins og reyndar sandfjaran sem Kirkjusandur dregur nafn sitt af en hún er komin undir uppfyllinguna sem Sæbrautin er er á. Kirkja var í Laugarnesi allt frá árinu 1170 og til loka 18. aldar og ef til vill er sandurinn kenndur við hana en hann gæti líka dregið nafn af kirkjunni í Vík. Sú kirkja stóð þar sem nú er Fógetagarðurinn við Aðalstræti og var hún undanfari Dómkirkjunnar. Í Oddgeirsmáldaga frá árinu 1379 segir að Jónskirkja í Vík eigi allan  reka á Kirkjusandi.
Útræði hefur líklega verið frá fornu fari frá Kirkjusandi og á tuttugustu öldinni voru þar fiskverkunarhús. Um aldamótin 1900 voru Th. Thorsteinsson og Íslandsfélagið með fiskverkun á sandinum og voru þar tvær bryggjur. Seinna voru Júpiter og Mars með frystihús þar en Ísfélagið frá Vestmannaeyjum keypti húseignir þeirra og tók við rekstrinum eftir gosið í Heimaey. Á Kirkjusandi eru einnig bækistöðvar strætisvagna höfuðborgarsvæðisins og Sambands íslenska samvinnufélaga var þar með mikil umsvif þar eftir miðja síðustu öld. Þar voru aðalskrifstofur SÍS í byggingu þar sem nú eru aðalstöðvar Glitnis og þar var einnig byggt stórhýsi sem átti að verða sláturshús og kjötvinnsla en hýsir nú myndlistadeild Listaháskóla Íslands.
Á meðfylgjandi mynd má m.a. sjá holdsveikraspítalann á Laugarnesi (lengst til vinstri) og Laugarnesbæinn, fjærst.

Heimild:
-Hverfablaðið Laugardalur 2007.

Hús á Kirkjusandi og í Laugarnesi á fyrri hluta síðustu aldar