FERLIR hefur áður skoðað fornar leiðir upp frá Elliðakoti að Hellisskarði, bæði norðan og sunnan Lyklafells,sem og Dyraveg að Nesjavöllu.
Við þá skoðun kom í ljós augljós vörðuð leið frá Lyklafelli að Draugatjörn nokkru sunnar en gamla reiðleiðin lá að Húsmúla og með honum sunnanverðum áleiðis að Hellisskarði. Þessi leið mun hafa verið vetrarleið frá Hellisskarði og áleiðis að Lyklafelli. Suðaustan þess greindist leiðin; annars vegar áfram að fellinu þar sem hægt var að velja um a.m.k. tvær hinna framangreindu leiða niður að Elliðakoti og hins vegar leið um Bolavelli áleiðis niður í Lækjarbotna þar sem hún sameinaðist annarri leið ofan úr Ólafsskarði. Sú leið lá um Sandskeið, Jósepsdal og greinist efra við Leiti; annars vegar ofan við hraunkantinn að Geitafelli og áfram niður í Ölfus og hins vegar yfir hraunið niður með Sandfelli og um vestanverð Krossfjöll að Breiðabólstað í Ölfusi. Neðan við Sandskeið (Neðri-Fóelluvötn) eru tóftir af sæluhúsi á klapparhól.
Hér er athyglinni beint að leiðinni um Lækjarbotna, Lakheiði og Bolöldur áleiðis að Draugatjörn. Ofan við Lækjarbotna er fyrrnefnd Lakheiði. Austar eru Fossvellir. Um þá rennur Fossvallaá ofan af Vatnavöllum. Forn leið lá fyrrum um Lækjarbotna og áfram um Bolöldur frá Ölduhorni til norðausturs áleiðis að Lyklafelli. Þessi leið var vörðuð að hluta á 19. öld suðvestan Húsmúla að Draugatjörn. Þaðan lá leiðin áfram um vellina að Kolviðarhóli og í Hellisskarð þar sem hún sameinaðist Hellisheiðarvegi. Einn FERLIRsfélaga (nú er svo komið að allnokkrir félaganna eru orðnir þrautþjálfaðir og þar með sjálfbærir), Jón Svanþórsson og félagar hans, hafa að undanförnu gengið þessar leiðir, hnitað inn vörður og önnur mannvirki og lagt mat á aðstæður. Auk þess hefur Jón tekið fjölda mynda og sent á vefsíðuna. Hér er afrakstur einnar slíkrar ferðar.
“Sendi þér nokkrar myndir sem ég tók á sunnudaginn. Þær eru af letursteini ofan við Fossvelli (vegendi 1887). Stóra varðan á brúninni er Landmælingavarða frá 1959. Gata ofan Lögbergs. Grunnar húsana á Lögbergi og hleðslur fyrir ofan þær (frá stríðsárunum?). Einnig eru síðustu myndirnar þaðan af djúpri rás sem E.J.Stardal heldur að sé eftir hesthófa (Árbók FÍ Þættir um Nágrenni Reykjavíkur 1985 bls 139.): “Við Lækjarbotna sunnan við Nátthagavatn stóð lengi vel veitingahús sem nefndist Lögberg. Ofan við húsið í Lækjarbotnum lá þjóðgatan yfir og utan í klapparhól þar sem hófar lestarhesta liðinna alda hafa barið sex til átta þumlunga djúpa slóð niður í stálhart bergið. –
Ummerki þessi eru örskammt norðan við núverandi hraðbraut Suðurlandsvegar.”
Svo eru myndir frá göngu minni frá veginum undir Húsmúla í vörðuleiðina. (Tókst að finna tvær vörður til að loka því.)
Athyglivert er að lesa í Árbók FÍ 1936 bls.87: “Landið stígur nú snögglega og allt verður hrjóstugra. Ofan við brúnina eru Fossvellir og Fossvallaklif þar fyrir ofan. Í klifinu er steinn með ártalinu 1887 sem sýnir hvenær vegurinn var lagður.” Auk þess: “Mosfellsveit er nú lokað land fyrir göngumenn, því dómsmálaráðuneytið hefir fyrir nokkrum árum staðfest samþykkt sem leggur allt að 1000 kr.sekt við því, að ganga þar utan vega “án leyfis landráðanda” Gildir það jafnt uppi á heiði sem niðri í byggð og jafnt á sumri sem vetri.”
Ég kem svo og tala betur við þig og læt þig hafa hitin á vörðurnar og annað er fyrir augu bar.
Frábært veður.
Kveðja.
Jón Sv.”
Heimildir m.a.:
-Árbók FÍ 1936 bls.87
-Árbók FÍ Þættir um Nágrenni Reykjavíkur 1985 bls 139.