Færslur

Hellugata

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall á Reykjanesi blasir við vegfarendum sem um Reykjanesbrautina fara ef horft er til suðurs og er þá vestan við Keili að sjá. Ef ekið er til Fagradalsfjalls frá Grindavík er beygt til vinstri af aðalveginum inn í bæinn við vegvísi sem á stendur Krýsuvík. Síðan er beygt aftur til vinstri og ekið eftir Ísólfsskálavegi í átt að Festarfjalli.

Grindavík

Festarfjall.

Vestan við Festarfjall er gaman að staldra við og horfa á fjallið. Festin er ljós berggangur sem liggur upp klettavegginn. Undir fjallinu er falleg fjara og þar hafa verið tekin atriði í kvikmyndum. Héðan ökum við inn fyrir Festarfjall yfir Siglubergsháls. Þegar yfir hann er komið sjáum við tún og haga sem tilheyra bænum Ísólfsskála, þar sem búskapur er nú aflagður, en bærinn notaður sem sumarhús.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall.

Fagradalsfjall að vestanverðu: Inn með hálsinum til vinstri liggur slóð (GPS N63 51 065 W22 19 507) til norðurs, fyrst yfir gróið land og síðan í hrauni (Beinavörðuhraun) að suð-vesturhorni Fagradalsfjalls sem heitir Kast. Í vesturbrún Kastsins fórst bandarísk herflugvél að gerðini B-24D í maí 1943 og með henni fjórtán menn. Þeirra á meðal var Andrews, yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu í síðari heimstyrjöldinni. Einn maður komst af lítt slasaður. Þegar komið er að fjallinu er komið á slóðamótum (GPS N63 52 852 W22 19 434).

Sé ekið til hægri liggur leiðin með fjallinu til suðurs að Selskál. Úr Selskál er ágæt gönguleið í Görn, dal austan við Kastið.
Við ökum til vinstri því við ætlum norður fyrir Fagradalsfjall. Ökum fyrst fyrir háls sem kemur suð-vestur úr fjallinu og svo á milli hrauns og hlíðar með fjallið á hægri hönd og Skógarfellshraunið á þá vinstri. Síðan höfum við Sandhól á vinstri hönd og Stóra Skógarfell sjáum við lengra út í hrauninu. Hér og þar nær hraunið alveg upp að fjallinu en yfirleitt er dálítið vik á milli hrauns og hlíðar. Hér er dálítill gróður, aðallega þó lyng og mosi. Þegar komið er undir norðurenda fjallsins er komið í grösugan slakka og heitir þar Fagridalur. Er líklegt að héðan dragi fjallið nafn sitt.
Fagridalur er slakki milli tveggja hrauna. Skógarfellshraun er að vestanverðu en Þráinsskjaldarhraun (Kálfellsheiði) að norðan og austan. Hefur það hraun næstum kaffært Fagradals-Vatnsfell og Fagradals-Hagafell norðaustan við Fagradalsfjall. Hér eru slóðamót. Annar liggur þvert yfir gróðurlendið með fjallinu, en hinn stefnir niður Fagradal eftir grastorfunni og er þá komið á leirsléttur. Hér er gömul göngu- og reiðleið til Voga og heitir hún

Sandakravegur.

Sandakravegur

Sandakravegur.

Lengra úti í hrauninu var skotæfingasvæði stórskotaliðs Varnarliðsins. Slóð liggur áleiðis norður eftir Sandakravegi. Ef haldið er áfram slóðina með fjallinu eru slóðamót strax og komið er yfir fyrstu grastorfuna. Í stað þess að aka slóðina áfram yfir mosa og síðan grastorfuna með fjallinu er beygt niður melinn og síðan neðan við hóla (Nauthóla ?) að austurhlíð Fagradals, og síðan upp í átt að skarðinu sem er á milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Hér er mikið úrrennsli og jarðvegsrof. Þegar slóðin sveigir upp með Nauthólunum að austaverðu sjást ummerki Dalsels á hægri hönd í grastorfunni. Þar rétt fyrir ofan liggja leifar Short-Sunderland flugbáts sem fórst í fjallinu á stríðsárunum. (Í Langhól sem er hæsti tindur Fagradalsfjalls). Einn maður lést í slysinu, tveir á sjúkrahúsi og tíu slösuðust. Leið í Fagradal er um sex kílómetrar.
Fagradalsfjall að austanverðu. Á móts við bæinn á Ísólfsskála er beygt (GPS N63 51 175 W22 18 313) af Ísólfsskálavegi til vinstri, í norður upp með vesturhlíðum fjallsins Slaga. Þegar innfyrir Slaga er komið opnast útsýni til norðurs að fjöllum sem ganga suður úr Fagradalsfjalli, Borgarfjalli og Langahrygg austar. Á milli þeirra er dalur sem heitir Nátthagi, en þar er varla nokkur hagi lengur vegna gróðureyðingar. Nú komum við að slóðamótum. Leiðin til vinstri liggur í Nátthaga eða norður með Borgarfjalli. Sú slóð verður mjög ógreinileg þegar komið er norður fyrir Borgarfjall í Nátthagakrika, og þaðan að slóðinni yfir Beinavörðuhraunið.
Við höldum áfram í austur um Stóra og Litla Leirdal. Vörðubrot eru við veginn því hér er um gamla þjóðleið að ræða, alfaraleið þar til að bílvegurinn var lagður í hraununum. Síðar komum við að Drykkjarsteini sunnan við veginn, sem vestan frá séður er eins og móbergsklöpp. Austanmegin er hann tæp mannhæð, með holum sem í safnast regnvatn.
Síðan er ekið yfir lágan háls og er þá tún framundan í dalverpi. Skála-Mælifell er á hægri hönd en Langihryggur á þá vinstri. Þar fórst bandarískur flugbátur af Marinergerð á stríðsárunum og með honum ellefu menn. Leifar bátsins er þar enn að finna, svo sem hreyfill í gili austan við Langahrygg (var fjarlægður árið 2021).

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Nú liggur vegurinn skáhalt upp klif. Þegar upp er komið opnast útsýni um hraun sem þekur svæðið milli Fagradalsfjalls og Núpshlíðarháls (Vesturháls) í austri. Lág fjöll standa upp úr hrauninu í dalnum milli Fagradalsfjalls og Núpshlíðarháls. Syðst er Höfði en norðar Sandfell og Hraunsels-Vatnsfell. Hér skilja leiðir. Gamli vegurinn stefnir í austur í Méltunnuklif en slóðin sem við fylgjum stefnir meira í norðurátt. Þegar ekinn hefur verið skammur spölur sjáum við hvar ljósleiðaralögn liggur þvert yfir okkar leið og skömmu síðar (GPS N63 51 624 W22 15 453) komum við að ógreinilegri slóð sem liggur upp á fjallið á vinstri hönd.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur.

Við höldum áfram í norður milli hrauns og hlíðar með Höfða á hægri hönd en Einihlíðar á þá vinstri. Svo sjáum við keilulagað fjall á vinstri hönd og er þar Stóri-Hrútur. Á þá hægri er Sandfell. Stóri-Hrútur sést frá höfuðborgarsvæðinu og ber hann þá við himin austan við Keili. Þegar komið er norður fyrir Stóra-Hrút komum við að slóð á vinstri hönd og liggur hún í Meradali, nokkuð djúpan hringlaga dal með gróðurtorfum og leirsléttum í botni. Nokkru norðar er önnur slóð, sem einnig liggur í sömu átt og nær hann til útsýnisstaðar á brún dalsins. Þaðan sést í norðurátt annað af tveimum Hraunsels-Vatnsfellum (hitt er í hvarfi norðan við það). Vestan við það eru Meradalahlíðar, þar næst Kistufell og loks sjálft Fagradaldalsfjallið og þar ber hæst Langhól sem er toppur fjallsins, 391 metra hár gígur. Í suðurátt er Stóri-Hrútur og í austri Sandfell. Við höldum áfram í norður, förum á milli Hraunsels-Vatnsfells og Sandfells. Við norðurenda Sandfells eru slóðamót (GPS N63 53 386 W22 12 944) á hraunkambi.

Litli-Hrútur

Litli-Hrútur og nágrenni.

Slóðin til hægri liggur yfir hraunið að Núpshlíðarhálsi. Við ökum til vinstri yfir hraun að hlíðum Hraunsels-Vatnsfells, með hlíðum þess og höfum nyrðra Hraunsels -Vatnsfellið á hægri hönd. Vegur verður hér góður um stund þar til við komum innundir Meradalahlíðarnar. Þá er farið upp á háls og eftir honum og hverfur slóðin þá nánast. Næst er farið niður brekku, ofan í dalkvos með vatnsstæði í botni, áfram upp ógreinilega slóð að norðanverðu, með strítulagað fjall á vinstri hönd sem heitir Litli-Hrútur. Slóðin endar austan við Litla-Hrút á kambi milli tveggja jarðfalla. Framundan í hraunbreiðunni sést til Keilis, austan við hann er Driffell og svo Núpshlíðarháls. Hér verðum við að snúa við og aka til baka eftir um 12 kílómetra akstur frá Ísólfskálavegi.

Norður fyrir Fagradalsfjall (aðeins fyrir breytta jeppa).

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fyrir sunnan Litla Hrút er skarð milli hans og Merahlíða. Hægt er að aka upp í skarðið úr dalkvosinni sem áður er getið, en engin slóð er sjáanleg vegna úrrennslis úr Litla-Hrúti. Þegar í skarðið er komið blasir hraunslétta við. Lág brekka er niður úr skarðinu að vestanverðu. Slóð liggur út á sléttuna (hjólför eru í stefnu beint yfir sléttuna en enda fljótt í hrauni) en sveigist svo suður með hlíðunum í átt að Kistufelli (GPS N63 54 958 W22 13 308), ýmist milli hrauns og hlíðar eða í hrauni. Síðan er stefnan tekin í vestur í átt að Langhóli, upp lága öldu og verður slóðin þá mjög ógreinileg. Undir Langhóli verður slóðin greinilegri og er hlíðunum fylgt norður fyrir hann í skarðið milli Fagradalsfjalls og Fagradals-Vatnsfells. Varast skal að fara slóðina í átt að Fagradals-Vatnsfelli því hún endar þar. Mikið úrrennsli er í skarðinu og er mikilvægt að athuga slóðina vel þar sem leiðin liggur niður stutta brekku. Þegar niður hana er komið (GPS N63 55 025 W22 17 129) er ekið á rauðamöl og sandi niður á leirslétturnar í Fagradal og komið þar á slóðina sem liggur vestur og suður með fjallinu. Hringurinn er um 25 kílómetrar.

Fagradals-Vatnsfell

Fagradals-Vatnsfell.

Fagradalsfjall frá Bratthálsi á Langhóli: Ekið er af slóðinni fyrir austan Fagradalsfjall, sem áður er lýst (GPS N63 51 624 W22 15 453). Ekið er upp brekkur um ógreinilegan og grýtta slóð austan Langahryggs og farið milli hans og Stóra-Hrúts. Þrætt er um skorninga og dalskvompur, skemmtilega og fjölbreytta leið. Þegar komið er norður fyrir Stóra-Hrút sést dalur á vinstri hönd sem heitir sá Geldingadalur með stefnu sunnan frá Borgarfjalli og norður í átt að Langhóli. Í botni hans eru gróðurtorfur og leirsléttur. Þegar kemur inn undir Langhól er komið að slóðamótum. Slóð liggur til hægri fram á brúnir Meradala. Slóðin sem við erum á stefnir upp grýtta brekku og er líklega ekki rétt að reyna við þá leið nema á breyttum jeppum. Síðan liggur slóðin vestur fyrir Langhól og endar þar. Þá tekur skamma stund að ganga upp að útsýnisskífunni á toppnum og er vel þess virði að skoða sig um þar . Langhóll er gígur og er grágrýtisþekja fjallsins þaðan komin. Frá Ísólfsskálavegi að Langhóli eru um tíu kílómetrar.

Langhóll – Meradalir.

Langhóll

Á slysstað á Langhól.

Frá Langhóli er ekið til baka sömu leið nema áhugi sé á að fara í Meradali. Þegar komið er að slóðamótunum sem fyrr var getið er ekin slóð fram á brúnirnar og borgar sig að ganga fram á þær og skoða leiðina áður því hún er ógreinileg í brúninni og ekki til fyrirmyndar að búa til margar slóðir. Næst er ekið yfir lítinn stall fram á næstu brún og blasa þá Meradalir við og fjöllin sem að liggja. Niður í dalina er mjög löng og brött brekka. Síðan liggur slóðin þvert yfir dalbotninn á sandi og leirsléttum upp og yfir hálsinn fyrir austan og komum við þá fljótlega á slóð sem liggur austan Fagradalsfjalls. Þaðan er greið leið niður á Ísólfsskálaveg eða að Núpshlíðarhálsi.
Sandfell – Núpshlíðarháls – Reykjanesbraut: (Breyttir bílar) Frá slóðamótum norðan við Sandfell (GPS N63 53 386 W22 12 944) liggur slóð þvert yfir hraunið að Núpshlíðarhálsi (Vesturhálsi) um talsvert seinekinn veg í mosavöxnu hrauni. Því miður hafa ekki allir vegfarendur farið eftir þeirri reglu að aka ekki utan slóðar og eru þarna því víða hjólför utan eiginlegrar slóðar. Þegar komið er austur að Núpshlíðarhálsinum sést að hraunið liggur sums staðar alveg að hálsinum er þar kallað Þrengsli. Slóð liggur með hálsinum, ýmist milli hrauns og hlíðar eða úti í hrauninu, og er hægt að aka í suðurátt með hálsinum (og skoða rústir Hraunsels sem er skammt fyrir sunnar hálsinn), mjög stirðan veg, niður á gamla veginn austan við Méltunnuklif. Þegar þar er komið er hægt að aka hvort heldur sem er í vestur yfir Leggjabrjótshraun að Méltunnuklifi og þaðan niður á Ísólfsskálaveg (GPS N63 51 424 W22 14 840) eða beygja til vinstri og aka eftir gamla veginum yfir suðurenda Núpshlíðarháls og á Djúpavatnsleið, skammt fyrir sunnan Stóra Hamradal (GPS N63 51 581 W22 12 184).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – þverskorinn gígur ofan Fagradals.

Frá slóðamótum Sandfells – Núpshlíðarháls er einnig hægt að aka stirðan veg, norður um Selsvelli. Selsvellir er líklega stærsta samfellda graslendi Reykjanesskaga. Á hól vestur á völlunum eru töluvert margar rústir selja. Þar norðan við í átt að Oddafelli er Hverinn eini, sem nú er kulnaður. Því miður er hér skemmdur grassvörður eftir bíla sem ekið hefur verið um svæðið í bleytutíð. Þegar komið er norður fyrir Selsvelli er komið að slóðamótum. Til vinstri liggur slóð þvert yfir hraunið að suðurenda Oddafells. Ekið er upp á fellið og eftir því endilöngu. Brekkan sunnan í fellinu er erfið og má lítið útaf bera svo að bílar komist þar upp. Er því betra að aka Oddafellið frá norðri og er þá ekið á fellið af veginum við Höskuldarvelli, þar sem hann beygir þvert yfir vellina. Eknar eru aflíðandi brekkur upp á fellið. Þar er sums staðar ummerki eftir jarðhita. Gaman er að virða Keili fyrir sér vestan við Oddafellið og er stutt að ganga þangað á götu sem sést vel í hrauninu. Oddafell hækkar og rís upp í kamb og liggur slóðin eftir kambinum suður um fellið og er þar ekki mögulegt fyrir bíla að mætast á löngum kafla. Víðsýnt er af Oddafelli þó ekki sé það nema 220 metrar yfir sjávarmáli enda ekki margt sem skyggir á útsýnið.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

En snúum aftur að slóðamótunum. Slóðin liggur áfram um litla hálsa undir Grænavatnseggjum. Brátt komum við að slóðamótum þar sem slóð liggur til hægri upp brekkur að Spákonuvatni og Grænavatni. Aka verður þaðan sömu leið til baka.
Við höldum áfram slóðina sem stefnir norður og sjáum þá Sogselsgíginn framundan á hægri hönd. Þar eru ummerki eftir þrjú sel. Í austurátt eru Sogin, einstök fyrir litadýrð sína. Þaðan er skemtileg gönguleið yfir að Djúpavatni. Nú ökum við niður að Höskuldarvöllum og norður með hlíðum Trölladyngju þar til að við komum að vegamótum.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Til hægri er vegur að Eldborg. Þar eru miklar efnisnámur og sést þar vel þversnið gígsins. Slóð liggur norður fyrir Eldborg og sést þaðan lágt fell sem heitir Lambafell. Þangað er stutt að ganga. Sé gengið með því er komið að náttúrufyrirbæri sem kallað er Lamafellsklof (Lambafellsgjá) sem er þröng gjá þvert í gegnum fellið.
Aka verður til baka að vegamótunum, síðan þvert yfir Höskuldarvellina að norðurenda Oddafells. Þaðan liggur rudd leið meðfram Sóleyjakrika sem er nyrsti hluti gróðurlendisins. Þaðan er ekið norður Afstapahraunið, í gegnum miklar malarnámur og síðan út á Reykjanesbrautina rétt vestan við Kúagerði (Vegvísir Höskuldarvellir). Raflína liggur þvert á leiðina í námunum og er línuvegur með henni, sem oft er lokað. Vegalengd Sandfell – Reykjanesbraut er 25-26 kílómetrar.

Sprungan í Kleifarvatni.

Hellan

Hellan.

Þegar komið er að Kleifarvatni frá höfuðborgarsvæðinu er ekið af Krýsuvíkurvegi til austurs að norðurenda vatnsins við skilti sem á stendur Kleifarvatn. Ekið er með vatninu eftir eiði milli vatns og Lambhagatjarnar og síðan í fjörunni með hlíðum Lambhaga. Til að komast hjá hliðarhalla meðfram vatninu (GPS N63 56 432 W21 57 500) er ekið yfir nes, sem skagar suður í vatnið og síðan áfram í fjörunni að austanverðu og fram á enda tangans. Þar sést sprunga sem liggur frá vatninu upp á tangann og fossar vatnið ofan í sprunguna (GPS N63 56 237 W21 57 229).
Á leið til baka væri hægt að aka austur fyrir Lambhaga og síðan norðan við Lambhagatjörn, með Vatnshlíðinni út á Krýsuvíkurveg. Eftir að minnka tók í Kleifarvatni varð í fyrsta sinn unnt að aka hringinn í kringum vatnið. Við suðurenda þess hafa tvö hverasvæði komið í ljós. Þessar leiðir eru einungis færar jeppum. JSv.

Krýsuvíkurberg.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg.

Ekið er af Ísólfsskálavegi rétt vestan við kirkjuna í Krýsuvík við vegvísi sem á stendur Krísuvíkurberg. Ágætur vegur liggur hér niður með Vestari læk, framhjá tóftum af eyðbýlinu Fitjum vestan við Selöldu, og þaðan fram á bergið við Hælisvík. Frá Hælisvík er ekið upp brekku upp á malarkamb sem gengur niður frá Krísuvíkurheiði og fram á bjargbrún. Staður þessi heitir Skriða. Hér í bjarginu er Ræningjastígur, eini staðurinn í bjarginu þaðan sem hægt er að ganga niður í fjöru. Slóðin liggur austur bjargbrúnina framhjá vita og er bjargið hér hæst um 36 metrar. Slóðin versnar eftir því sem austar dregur. Bjargbrúnin er allvel gróin en mikil jarvegseyðing er ofar í Krýsuvíkurheiðinni. Þegar komið er austur í Keflavík er Krýsuvíkurhraun framundan. Hægt er að aka ógreinilegan slóða og torfarinn, upp með hrauninu og í gegnum hlið hjá fjárrétt og þaðan uppá Krýsuvíkurveg neðan við Stóru Eldborg, sem blasir hér við undir fjallinu Geitahlíð.

Slóð austan Eldborgar.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ekið er frá Krísuvík í austur er farið Stóru Eldborg heitir Geitahlíð. Ekið er fram á brekkubrún á Deildarhálsi. Skammt fyrir ofan veginn, undir hlíðinni, eru dysjar Krýsu og Herdísar og er gulur hæll sem merkir ljósleiðaralögn framhjá Litlu Eldborg á hægri hönd og Stóru Eldborg á þá vinstri. Fjallið fyrir ofan í hlíðinni fyrir ofan dysjarnar (Þjóðsaga segir frá landamerkjadeilu og bardaga þeirra). Ekið er um sex til sjöhundruð metra austur veginn frá brekkubrúninni er komið að slóð sem liggur hjá Bálkahelli. Ekið er af Krýsuvíkurvegi til suðurs (GPS N63 51 327 W21 58 196). Slóðin er ógreinileg og frekar erfið yfirferðar og því varla nema fyrir breytta bíla. Þegar ekinn hefur verið um 1,1 kílómetri (GPS N63 50 919 W21 57 479) er Bálkahellir á hægri hönd. Gengið er að hrauntotu sem teygir sig í suður og er hægt að ganga þvert yfir hraunið um lægð sem í því er og koma þá að efsta opi hellisins (GPS N63 50 841 W21 58 133) um fjögur hundruð metra frá slóðinni. Einnig er hægt að ganga niður fyrir hraunið og koma þar að hellinum. Bálkahellir, sem er falleg hraunrás, fannst fyrir tilviljun í júní 2001.
Annar hellir, Ásgrímshellir er aðeins vestar. Það þarf að hafa mjög góð ljós sé áhugi á að skoða hellinn. Hann skiptist í nokkra hluta. Sums staðar hefur hrunið úr lofti en annars staðar er gengið á nokkuð sléttu gólfi. Hraunstrá hanga úr lofti og er afar mikilvægt að brjóta þau ekki né annað sem í hellinum kann að vera. Það tekur náttúruna óratíma að forma stutt hraunstrá. Slóðin liggur fram að sjó og eru þar fallegar hraunmyndanir. Slóðin endar í GPS N 63 50 350 W21 57 240. Leiðin frá vegi að þeim punkti er um 2,2 kílómetrar.

Suðurstrandarvegur – Herdísarvíkurhraun – Háberg.

Herdísarvíkurbjarg

Herdísarvíkurbjarg.

Ekið er af Suðurstrandarvegi í suður (GPS N63 51 943 W21 52 795) til móts við Lyngskjöld. Fáum metrum austar er vegur í átt að Lyngskyldi. Vegalengd frá Suðurstrandarvegivegi að Háabergi er um það bil tveir kílómetrar.

Suðurstrandarvegur –  Selvogsrétt – Slysavarnarskýli.

Hnúkar

Hnúkar.

Ekið er af Suðurstrandarvegi á Selvogsheiði í norður (GPS N63 52 202 W21 33 874) í átt að Hnjúkum. Þegar komið er að Hjúkunum er sveigt vestur fyrir þá og ekið niður brekkur að norðanverðu og komið að Selvogsrétt (GPS N63 53 021 W21 36 253), sem nú er aflögð. Eldri rétt er í suðvestur uppi á Vörðufelli. Skammt hér vestan við eru nokkuð fjölbreyttar mannvistarleifar, seljarústir, fjárhellar, réttir, kvíar, gerði og vörður sem áttu að villa sjóræningjum sýn. Það átti að líta svo út að her manna væri á Vörðufelli. Frá réttinni liggur slóðin stuttan spöl að girðingu og hliði, sem mikilvægt er að loka á eftir sér.
Önnur slóð liggur í austur með girðingunni að fjárhúsum frá Hlíðarenda. Sé farið um hliðið liggur slóðin að og yfir Strandagjá og síðan að slysavarnarskýli undir Heiðinni Há (GPS N63 53950 W21 36 327). Skammt vestan við skýlið er Kjallarahellir. Fara verður sömu leið til baka. Vegalengd frá vegi að skýli er um 4,5 km.

Ísólfsskáli.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Ef ekið er með túngirðingu í átt til sjávar, austan við Ísólfsskála, er komið að slóð sem ýtt hefur verið í gegnum hraunið í austurátt. Við enda slóðarinnar eru mjög sérkennilegar hraunmyndanir. Hér heitir Veiðibjöllunef. Slóðin er um 1,1 kílómetri að lengd.

Vegur frá Svartsengi að Reykjanesi.
Ekið er um hlað á milli bygginga Hitaveitu Suðurnesja og áfram vestur með hitaveitupípu sem kemur úr vestri. Hlið er á veginum og skilti hjá sem á stendur, Eldvörp 5,5 kílómetrar. Hliðið er stundum lokað en hægt mun vera að fá lykil lánaðan á skrifstofu Hitaveitunnar. Skömmu eftir að ekið er í gegnum hliðið er komið að vegi sem verið er að leggja frá Bláa lóninu vestur fyrir Þorbjarnarfell, og niður á Reykjanesveg við Grindavík (GPS N63 51 034 W22 26 404). Þarf þá ekki að fara um hjá Hitaveitunni frekar en maður vill.
Við ökum nú um Skipastígshraun og komum fljótlega að vörðum sem marka Skipastíg, eina af mörgum fornum leiðum yfir Reykjanesskaga. Nú komum við að þar sem heitavatnspípan þverbeygir í suður að borholu (GPS N63 52 172 W22 28 688). Áfram liggur leiðin um Bræðrahraun þar til komið er að róti í hrauninu þvert á veginn (GPS N63 52 051 W22 29 249), líklega ljósleiðaralögn. Næst komum við að margföldum vegamótum.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Fyrst er gömul slóð þvert yfir veginn (eftir Varnarliðið), sem liggur frá Stapafelli að fjarskiptastöð Varnarliðsins fyrir ofan Grindavík. Þessi slóð liggur samsíða gömlum vörðuðum vegi, Árnastíg, frá Stapafelli suður að veginum sem við erum á, en þar skiljast þeir að. Árnastígur stefnir meira í suður, niður með Sundvörðuhrauni og endar við eyðibýlið að Húsatóftum (Golfvöllur). Nálægt Sundvörðu eru minjar um verustaði manna. Enn ein gatnamót eru hér (GPS N63 51 996 W22 30 804), vegur liggur í suðvestur frá veginum um 1,2 km í Eldvörp þar sem Hitaveitan er búin að bora sína öflugustu holu. Eldvörp er gígaröð, sem stefnir frá Rauðhóli, frá suðvestri í norðaustur.

Sandfellshæð

Sandfellshæð, sandfell, Lágafell og Þórðafell.

Við höldum áfram veginn, förum í gegnum gígaröðina og tökum stefnu á fjall framundan sem heitir Sandfell. Norðan við það er Lágafell og enn norðar Þórðarfell en þar norðvestan við eru Súlur og Stapafell. Þar eru miklar malarnámur.
Þegar gegnum Eldvörpin er komið er sveigt úr vestlægri stefnu í suðvestlæga og ekið niður með hrauninu sem hefur runnið úr Eldvörpum (Eldvarpahraun). Þegar við höfum ekið 2-3 km frá beygjunni höfum við Rauðhól á vinstri hönd og hæð á þá hægri sem heitir Sandfellshæð og er þar mikill gígur sem heitir Sandfellsgígur. Svo þverum við eina af hinum fornu leiðum.

Sýrfell

Sýrfell.

Þessi stígur er úr Junkaragerði og stefnir héðan norður fyrir Rauðhól og þaðan niður að Húsatóftum. Nú erum við farin að sjá stikur, bláar í toppinn en þær marka gönguleið frá Reykjanesi að Þingvallavatni. Næst komum við að þar sem hlið hefur verið sett á veginn (GPS N6350 767 W22 38 303), annað af tveimur í suðurenda vegarins. Alla leiðina hefur vegurinn legið á mosagrónum hraunum, oftast á helluhrauni, en nú hverfur mosinn og við tekur sandur og hraungarðar og erum við nú í Sýrfellshrauni, en sunnar förum við um Stampahraun. Fellið Sýrfell blasir við framundan og við norðurendan þess er hlið. Slóð liggur norður fyrir Sýrfell og suður með því að vestanverðu, en við förum að austanverðu. Komum við þá að dæluskúr og vegamótum (GPS N63 50 200 W22 39 329). Önnur slóðin liggur áfram austan við Rauðhóla inn á veginn til Grindavíkur (GPS N63 49 575 W22 40 431), en hin fer suðurfyrir Sýrfell og niður með Rauðhólum að vestan og endar hún á veginum til Grindavíkur, skammt austan við afleggjarann að Reykjanesvita og Saltverksmiðjunni, sem blasir hér við (GPS N63 49 659 W22 40 487).
Rétt er að ítreka að aka ekki utan slóða og ganga vel um gróður og mannvirki.. Vegalengd: 16-17 km.

Kaldársel – Helgafell – Valahnjúkar – Bláfjallavegur.

Kaldársel

Gengið um Kaldárselssvæðið.

Við kirkjugarðinn í Hafnarfirði er beygt af Reykjanesbraut inn á Kaldárselsveg. Ekið er framhjá húsinu í Kaldárseli í átt að girðingu sem umlykur vatnsból Hafnfirðinga. Við girðinguna er beygt til hægri út á hraunklöpp og ekið yfir Kaldá. Þaðan liggur seinfarinn vegur í hrauni. Farið er um grindarhlið á girðingu (GPS N64 01 257 W 21 52 074) uns komið er að slóð á hægri hönd (GPS N64 01 142 W21 51 691) sem liggur uppá Undirhlíðar.
Undirhlíðar: Slóðin er nokkuð niðurgrafin í brekkunni upp á Undirhlíðarnar og kann að reynast erfið. Betra og skemmtilegra er að koma að eftir línuveginum sem liggur sunnan við Helgafellið (GPS N64 00 240 W21 52 648) og aka þar niður því úsýnið er skemmtilegra þegar ekið er frá suðri til norðurs. En víkjum aftur á slóðina frá Kaldárseli. Þegar ekinn hefur verið skammur spölur er komið að slóð til hægri (GPS N64 01 110 W 21 51 385) sem liggur suður með Helgafelli og í kringum það.

Skúlatún

Skúlatún. Helgafell að handan.

Í kringum Helgafell: Ekin er greiðfær slóð í suður með vesturhlíð Helgafells. Sunnan við Helgafell er komið í hraun og verður leiðin seinfarin um sinn. Síðan liggur slóðin alveg að hlíðinni og verður betri yfirferðar. Komið er að línuvegi (GPS N64 00 231 W 21 51 140) eftir um 2,8 km akstur frá slóðamótum. Með línuveginum til suðurs liggur leið meðal annars vestur á Undirhlíðar (GPS N64 00 240 W21 52 648), en einnig suður á Bláfjallaveg (GPS N63 59 649 W21 53 427). Þangað er um 2,6 km. Sé línuvegurinn á hinn bóginn ekinn til norðurs er komið að keðju (GPS N64 00 812 W21 49 394) sem lokar veginum inn á vatnsverndarsvæði höfuðborgarinnar.
Við ökum ágætan jeppaslóða með fjallinu. Sums staðar þarf að þræða milli stórra steina sem hrunið hafa úr fjallinu. Á móts við skarðið milli Helgafells og Valahnjúka eru slóðamót. Hægt er að loka hringnum í kringum Helgafell með því að fara slóðina upp í skarðið og þaðan vestur á slóðamótin sunnan við fellið. Einnig er hægt að beygja til hægri inn á slóð sem liggur norður fyrir Valahnjúka.

Norður fyrir Valahnjúka.

Valaból

Valaból.

(GPS N64 00 937 W21 50 115). Ekin er slóð til hægri norður fyrir Valahnjúka, þar til komið er að slóðamótum (GPS N64 01 272 W21 49 694). Til hægri liggur leið að grindarhliði (GPS N64 01 351 W21 49 404) á girðingu, sem umlykur höfuðborgarsvæðið, og áfram upp á hæðir í átt að Húsfelli. Komið er að vörðu innundir Húsfelli (GPS N64 01 745 W21 48 391) og er þar staðar numið. Þaðan er ágætt útsýni yfir nánasta umhverfi. Slóð sést liggja norður af hnjúknum að norðrenda Húsfells. Sé hún ekin er fljótlega komið að lyngbrekku. Þar verður slóðin ófær vegna vatnsrofs.
Nú snúum við til baka að slóðamótunum og í leiðinni skoðum við ummerki eftir gömlu þjóðleiðina frá Hafnarfirði í Selvog. Leið þessi var einnig farin í Brennisteinsfjöll, en þangað var sóttur brennisteinn til útflutnings. Fóru þá langar lestir burðarhesta hér um. Frá slóðamótunum höldum við niður með Valahnjúkum uns komið er að afgirtum trjáreit. Valabóli. Í honum er Músahellir. Bandalag íslenskra Farfugla settu á hann hurð og glugga og innréttuðu að einhverju leyti,og notuðu til gistingar. Þeir ræktuðu einnig trjáreitinn Nú er Músahellir því miður í niðurnýðslu. Frá Valabóli er ekið yfir lágan háls vestan í Valahnjúkum og er þá komið á slóð frá Kaldárseli (GPS N64 01 112 2151 360). Vegalengdir eru hér ekki miklar.

Bláfjallavegur – Undirlíðar – Slysadalir – Breiðdalur – Vatnsskarð.

Breiðdalur

Breiðdalur.

Ekið er af Reykjanesbraut við Hafnarfjörð inná Strandgötu og síðan framhjá íþróttamannvirkjunum við Ásvelli og suður Krísuvíkurveg, sem ekinn er þar til komið er að gatnamótum og er þá beygt til vinstri. Á vegvísi stendur Bláfjöll. Ekið er að Undirhlíðum og uppá þær. Hér er mikið malarnám, en utan við það kjarr og jafnvel skógrækt með hlíðunum. Þegar upp er komið liggur slóð af Bláfjallavegi til hægri (suðurs), fyrir ofan Undirhlíðar (GPS N63 59 641 W21 53 434) og liggur hún í Slysadali. Síðan liggur leiðin yfir lágan háls og ofan í Breiðdal sem er svipaður Slysadölum; flatbotna, með grastorfum og leirsléttum og án frárennslis. Ekið er með hlíðum dalanna en ekki á grastorfunum.

Slysadalur

Slysadalur.

Úr Breiðdal er ekið upp hjá Breiðdalshnjúki og er þá komið að slóðamótum og grindarhliði við girðingu höfuðborgarsvæðisins. Leiðin yfir grindarhliðið liggur m.a. í Fagradal, sem skerst inn í Lönguhlíð, sem hér er skammt austan við okkur. Slóð liggur af Fagradalsleiðinni til vinstri norður með girðingunni og síðan með hlíðum Lönguhlíðar. Endar hún á Bláfjallavegi (GPS N63 58 923 W21 50 140). Stuttur spölur er frá girðingarhliðinu að Krísuvíkurvegi innan við Vatnsskarð (GPS N63 57 829 W21 56 425). Vegvísir er á gatnamótunum sem vísar á Breiðdal.
Héðan er hægt að aka hvort sem vill til vinstri til Kleifarvatns eða hægri yfir Vatnsskarð, til baka í átt að Hafnarfirði. Gróðureyðing er hér nokkur, en nú er verið að græða svæðið upp (Gróður í landnámi Ingólfs). Vegalengd frá Bláfjallavegi að Krýsuvíkurvegi er rúmir 4 kílómetrar.

Vesturlandsvegur – Úlfarsfell.

Esja

Esja.

Ef ekið er frá Reykjavík er beygt af Vesturlandsvegi til hægri þegar komið er yfir brúna á Úlfarsá, (Korpu) og ekinn vegur upp hjá Lambhaga (Úlfarfellsvegur). Eftir að ekinn hefur verið dálítill spölur, liggur vegurinn undir raflínu og er þá slóð á vinstri hönd (GPS N64 08201 W21 43 756), sem liggur hjá Leirtjörn og uppundir eggjar Úlfarsfells. Við höldum áfram Úlfarfellsveginn þar til að við höfum trjáreit á hægri hönd, og er þá slóðinn upp á Úlfarsfellið vinstra meginn vegar (GPS N64 08 217 W21 43 299), og stefnir skáhallt frá vegi upp lágan háls. Fljótlega versnar slóðinn, og verður grýttur. Leiðin liggur inn dal og sveigir svo upp brekkur í mörgum sveigum, þar til komið er efst í dalinn.

Úlfarsfell

Úlfarsfell.

Hér eru slóðamót, til vinstri er farið upp nokkuð bratta brekku, fram á vesturbrún fellsins í 291 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er mjög skemmtilegt útsýni yfir Reykjavíkursvæðið, og sundin. Hér er varða með vindpoka, og smá grastorfa, sem tyrfð hefur verið. Á grasinu setja flugdrekamenn saman flugdreka sína, og hlaupa síðan fram af fellinu til að svífa niður. Við skulum því ekki aka út á torfuna. Við förum aftur á slóðamótin, og ökum beint áfram upp aflíðandi brekku og komum svo á önnur slóðamót. Til hægri er farið upp á hæsta tind Úlfarfells, 295 metra yfir sjávarmáli Hér uppi er grjótbyrgi síðan hermenn stóðu hér vörð á stríðsárunum (einnig eru slík ummerki í vesturbrún fellsins). Héðan er mikið útsýni og sést héðan betur í austur, og norður, en af vesturbrúninni. Síðan er farið aftur á slóðamótin og nú geta þeir sem eru á breyttum bílum farið slóða austur fyrir hákollinn og niður fellið að austanverðu grýtta og erfiða slóð, sem getur verið blaut neðst, og komið niður hjá Skyggni (Stóra disknum), fjarskiptastöð Símans,og síðan út á Úlfarsfellsveg. Munið að loka hliðum.

Hafravatnsvegur-Hafrahlíð.

Hafravatnsrétt

Hafravatnsrétt.

Ekið er af Hafravatnsvegi við Hafravatn, ómerktan veg skamt austan við Hafravatnsrétt (GPS N64 07 680 W21 38 871). Ekið er upp stutta brekku framhjá sumarbústöðum. Þegar uppá brekkubrúnina er komið er beygt til vinstri inn á slóða sem liggur upp í fellinn (GPS N64 07 692 W21 38 871). Eftir stuttan spöl er komið að slóðamótum (GPS N64 08 028 W21 38 295). Slóðinn sem á vinstri hönd liggur niður í dalkvos, og síða upp brekkur að endurvarpa á brún Hafrahlíðar. Er þar skemmtilegt úsýni. Hinn slóðinn liggur upp að Borgarvatni, sunnan við Reykjaborg. Hjólför liggja útí blauta mýri og hafa hjólin skorið sig niður og myndað ljót sár. Óþarft er að aka þarna, og er stutt að ganga að vatninu. Aka verður sömu leið til baka.

Vesturlandsvegur-Blikdalur.
Slóðar liggja beggja vegna Árskarðsár upp í Blikdal, sem er í vesturenda Esjunnar. Slóðin sunnan ár er þurrari, og er ekið á hann af Vesturlandsvegi af melunum skammt sunnan ár. (GPS N64 15 029 W21 50 045). Fljótlega komum við á slóðamót. Við förum slóðann sem liggur til hægri og komum fljótlega að girðingu, og förum þar í gegnum hlið (GPS N64 16 032 W21 49 776). Við lokum hliðinu á eftir okkur. Slóðinn liggur að hlíðum Esjunnar og sveigist síðan upp brekku og inn yfir Sneiðingakletta og inn á háls, sem gengur norður í dalinn og þar rennur Árskarðsá í gljúfrum og fossum fram úr dalnum. Ekið er inn dalinn eftir grónum skriðum, nálægt árgljúfrunum, og sumstaðar liggur slóðinn nokkuð tæpt fyrir enda gilja sem ganga upp frá gljúfrum Blikdalsár, eins og áin heitir hér inni í dalnum. Svo fer að sjást inn í dalbotninn og er hér líklega besti útsýnisstaðurinn (GPS N64 16 074 W021 48 380).

Blikdalur

Tóft í Blikdal.

Blikdalur er fallegur fjallasalur, hömrum girtur. Að norðanverðu er Lokufjall vestast, með Hestabrekkur niður að á. Svo kemur Selfjall og Leynidalur. Fyrir botni dalsins eru Fossurðir. Þar vestan við að sunnanverðu, eru Skollabrekkur sem eru bakhliðin á Þverfellinu sem við sjáum úr Reykjavík. Síðan er Hrútadalur sem nær upp að Kerhólakambi sem einnig blasir við frá höfuðborgarsvæðinu. Þar vesturaf er fjallið kallað Lág-Esja og lækkar það svo í aflíðandi kambi niður í dalsmynnið. Slóðinn er í grónu landi og er blautur og staksteinóttur. Slóðir geta batnað, ef ferðalangar kasta steinum úr götu sinni, sérstaklega þeim sem geta verið dekkjum og undirvagni bílanna hættulegir. Aka verður sömu leið til baka.

Vesturlandsvegur – Svínaskarð.

Svínaskarð

Svínaskarðsvegur.


Ekið er af vesturlandsvegi (GPS N64 11 690 W21 41 845) af Esjumelum í austur, veg sem liggur hjá skemmum sem meðal annars eru notaðar af Fornbílaklúbbnum, og áfram austur melana, þar til komið er að gatnamótum. Annar vegurinn liggur nánast beint áfram, en hinn beygir til vinstri, og eru vegstikur með honum. Við ökum þann veg framhjá afleggjara að Völlum, og síðan framhjá afleggjara að Norður-Gröf. Næst höfum við veiðihús við Leirvogsá á hægri hönd. Við erum nú í nafnlausum dal á milli Esjunnar og Mosfells og ökum upp með Leirvogsá. að norðanverðu. Svo er ekið yfir Grafará á vaði, og svo liggur leiðinn hjá Þverárkotshálsi. Þegar fyrir hann er komið sést Þverárkot á vinstri hönd.Við ökum þvert yfir eyrar Þverár, yfir hana og komum svo að hliði á girðingu á vinstri hönd. Við förum í gegnum hliðið (GPS N64 12 623 W21 34 819) og ökum slóða sem liggur að nokkrum sumarbústöðum, sem eru dreifðir upp dalinn að austanverðu. Svo komum við að Skarðsá sem kemur úr Svínaskarði, förum yfir hana og framhjá efsta bústaðnum. Versnar nú vegurinn til muna. Leiðin um Svínaskarð var mikið farin áður en bílar komu til sögunar, enda mun styttra að fara Svínaskarð og Reynivallaháls en að fara út fyrir Esju.
Nú á tímum eru það aðallega hestamenn sem fara skarðið á hestum sínum, sér til skemmtunar. Hér er mjög fallegt. Þverárdalurinn hömrum girtur, en austan við hann eru Móskörð, og Móskarðshnjúkar, sem sjást vel frá höfuðborgarsvæðinu, og virðast alltaf vera baðaðir sól. Austan við þá er Svínaskarðið og þar fyrir austan gnæfir Skálafell. Sunnan við það er Stardalshnjúkur. Okkur á hægri hönd eru síðan Haukafjöll. Ekið er yfir nokkur lækjargil, og getur þurft að fara úr bílnum til að laga veg og leggja grjót í verstu skvompurnar.

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði.

Þegar upp í skarðið er komið, í 481 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við mikið útsýni til suðurs, og vesturs. Þegar komið er norður á brún skarðsins, sést yfir Svínadalinn, norður um Kjós og Hvalfjörð. Þegar horft er niður í Svínadalinn, sést hvernig slóðinn fer í mörgum hlykkjum niður með giljunum, í snarbratta. Þetta er ekki fýsilegur slóði til að aka bílum eftir, en þó hefur það verið gert, en ekki er mælt með því. Ef menn reyna, og sleppa óskaddaðir niður í Svínadal, er þrautin ekki unnin, því þar taka við mýrar með tilheyrandi bleytum. Betra er að aka sömu leið til baka niður Þverárdal. Hægt er að aka til baka hjá hlaði á Hrafnhólum, yfir brú á Leirvogsá, og síðan hjá Skeggjastöðum í átt að Þingvallavegi. Vegur merktur Tröllafoss liggur til vinstri, og er hægt að aka hann í átt að Tröllafossi og ganga síðan síðasta spölinn að fossinum. Vegalengd um 6 kílómetrar frá hliði og upp í skarð.

Suðurlandsvegur – Selfjall.
Ekið er af Suðurlandsvegi til suðurs við Lækjarbotna við vegvísi sem á stendur Sumarhús (GPS N64 04 847 W21 40 069). Síðan er ekið áfram veginn um Lækjarbotna, þar til komið er að efnisnámum. Þar er beygt til vinstri, og farið á grindahliði í gegnum girðingu (GPS N64 04385 W21 40 771). Síðan er ekið upp með girðingunni að hlíð Selfjalls, og beygt þar til hægri eftir slóða á Selfjall. Þegar upp er komið, taka við dalskvompur með litlum gróðurtorfum og rofabörðum. Slóðir liggja upp á alla toppa fjallsins, og austur í skarð á milli Selfjalls og Sandafells. Úr því skarði má aka eftir línuvegi, til norðurs, á Suðurlandsveg. Ekki er hægt að aka suður á Bláfjallaveg ofan við Undirhlíðar. Er vegurinn lokaður með læstri slá.

Suðurlandsvegur-Bláfjallavegur við Undirhlíðar.

Lækjarbotnar

Vegur ofan Lækjarbotna.

Ekið er af Suðurlandsvegi fyrir ofan Lækjarbotnabrekkuna (Fossvallaklif), afleggjara til suðurs merkur Waldorfskólinn (GPS N64 04 534 W21 38 779) og er þá komið á gamla Suðurlandsveginn. Hann er síðan ekinn í austur Fossvellina, framhjá Fossvallaréttinni, uns komið er að raflínu sem kemur úr norðri og stefnir í skarð á milli Selfjalls og Sandafells. Línuvegur er með raflínunni, og er hann ekinn í suð-vestur í skarðið. Þegar í skarðið er komið, sést slóði sem kemur frá hægri niður brekku í Selfjallinu. Hér er búið að loka línuveginum með slá. Áfram er hægt að ganga línuveginn um hrikalega úfið Hólmshraun. Fjall er á hægri hönd sem heitir Húsfell. Hér hefur veginum verið lokað með slá yfir veginn. Síðan förum við yfir gamla, varðaða leið sem lá úr Hafnarfirði til Selvogs, og er kölluð Selvogsgata. Næst höfum við Valahnjúka á hægri hönd, og síðan Helgafell. Á vinstri hönd eru Strandatorfur og Kaplatóur. Þegar komið er suður fyrir Helgafell, er komið fram á Undirhlíðar. Hér eru slóðamót. Annar slóðinn liggur til suðurs á veg sem liggur af Krísuvíkurvegi til Bláfjalla (GPS N63 59 641 W21 53 434), en hinn slóðinn liggur til norðurs um brúnir Undirhlíða, stirðan veg, og niður að Kaldárseli. Skemmtilegt útsýni er af leiðinni þó ekki liggi hún hátt.

Suðurlandsvegur – Lyklafell – Línuvegur.

Lyklafell

Vegur við Lyklafell.

Ekið er af Suðurlandsvegi til norðurs (GPS N64 04 973 W21 37 785), ómerktan afleggjara austan við Gunnarshólma. Ekið er yfir brú á Hólmsá (Norðurá), framhjá sumarhúsum. Þegar innar dregur versnar vegurinn og verður að jeppaslóða sem leiðir okkur að eyðibýlinu Elliðakoti, sem er hér undir heiðarbrúninni. Áður var þessi bær í alfaraleið, því leiðir lágu hér niður af heiðunum, og sést enn varða á brúninni skammt austan bæjarins. Slóðinn liggur vestur fyrir bæjarrústirnar en sveigist þar upp á heiðarbrúnina. Þegar slóðinn hefur verið ekinn stuttan spöl, komum við að slóðamótum (GPS N64 05 434 W21 37 785). Liggur slóði til vinstri, norður að Selvatni, og á sumarbústaðaveg austan við vatnið. Þessi slóði er erfiður vegna úrrennslis. Við höldum áfram slóðann í austur sem er hér orðin að línuvegi. Slóðinn liggur um gróið land, og er hér blautt í rigningatíð. Síðan hækkar landið og verður slóðinn þá grýttari.

Elliðakot

Elliðakot.

Næst komum við að girðingu og er á henni grindarhlið (GPS N64 05 196 W21 36 380). Hér sjáum við vörður á hinum forna Dyravegi sem lá um Elliðakot til Dyrfjalla, og þaðan í Grafning. Við erum nú líklega á Fossvallaheiði, en Miðdalsheiði er norðan við okkur. Eftir að hafa ekið tæpa fjóra kílómetra frá Suðurlandsveginum, komum við að spennistöð (GPS N64 04 861 W21 34 471), og eru hér þrjár raflínur sem koma úr austri. Ein raflínan sveigir hér í suður,og er góður vegur með henni á Suðurlandsveg (GPS N64 04 241 W21 36 560). Héðan er líka góður línuvegur með raflínunum austur um öxl Lyklafells, og þaðan austur að Húsmúla. Þessi vegur væri fólksbílafær, ef ekki væru árfarvegir Fossvallakvíslar og Lyklafellsár (Engidalsár) á leiðinni. Einnig eru úrrennsli þvert á veginn á nokkrum stöðum. Svo liggur vegurinn inn í hraun, og um það þar til komið er austur undir Húsmúla. Hér er vegur til hægri út á gamla Suðurlandsveginn. (GPS N64 03 777 W21 27 963).

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Nokkrir afleggjarar eru af línuveginum á gamla Suðurlandsveginn austar. Svo liggur línuvegurinn framaf hrauninu og erum við þá komin á enda hans (GPS N64 02 957 W21 24 535). Á vinstri hönd er Húsmúlinn, en nær sést tóft sæluhússins sem Húsmúlinn á að draga nafn sitt af. Vestan við tætturnar er Draugatjörn. Grjótgarðar hafa verið hlaðnir í kring um tjörnina, en lítil rétt er í hraunjaðrinum. Þar vestur af eru vörður sem vísa veg um Bolavelli á Dyraveg, og á Mosfellsheiði. Í austur sést Hengillinn ofan við Húsmúlann. Þar austur af er Sleggjubeinsdalur, Skarðsmýrarfjall, og síðan Hellisskarð á milli Skarðsmýrarfjalls og Stóra Reykjafells. Vestanundir Hellisskarði stóð gistihúsið Kolviðarhóll. Gamla þjóðleiðin um Hellisheiði lá um skarðið, og þar upp sjáum við raflínurnar hverfa. Vegalengd um 16 kílómetrar frá Suðurlandsvegi.

Suðurlandsvegur – Jósefsdalur.

Ólafsskarð

Vegur um Ólafsskarð.

Ekið er af Suðurlandsvegi á móti Litlu Kaffistofunni (GPS N64 03 467 W 21 30 882), eftir gamla Suðurlandsveginum þar til komið er að afleggjara til vinstri (GPS N64 03 391 W21 30 886). Leiðin liggur nú í átt að Blákolli og Sauðadalahnjúkum, en sveigir síðan upp í skarð á milli Sauðadalahnjúka og Vífilsfells. Úr skarðin er oft gengið á Vífilsfell. Svo opnast útsýni inn í dalinn og fjöllin sem umliggja hann, Sauðdalahnjúkar til austurs, síðan Ólafsskarðshnjúkar, en Vífilsfell að vestan. Í Jósefsdal er oft mikill snjór að vetrum. Var þar byggður skíðaskáli árið 1936 af skíðadeild Ármanns. Skálinn var svo rifinn upp úr 1970 eftir að Ármenningar færðu sig í Bláfjöllin. Þjóðsaga er um nafn dalsins, og er hún um Jósef sem bjó í dalnum. Bær hans á að hafa sokið í jörð vegna þess hve hann blótaði óskaplega. Aka verður sömu leið til baka.

Suðurlandsvegur – Leiti.
Ekið er eftir Suðurlandsvegi framhjá Litlu Kaffistofunni, áfram upp Draugahlíðabrekkuna (sem er brekkan fyrir ofan Litlu Kaffistofuna), uns komið er á móts við nokkuð háan hnjúk á hægri hönd sem heitir Blákollur.. (GPS N64 02 655 W21 27 874) Ekið er frá þjóðveginum í suður að norðausturhorni Blákolls og austan með hlíðum hans í suður. Í austur sjáum við Lambafellshnjúk og Lambafell. Sunnar og nær í hrauninu er gígur, Nyrðri Eldborg.(GPS N64 01 468 W21 29 825) Þaðan er Kristnitökuhraun talið hafa runnið árið 1000. Það hefur verið tekið efni úr henni og er svöðusár eftir. Slóði liggur héðan að Eldborg (GPS N64 02 020 W21 29 100), en austan við hann er hrauntröð. Við höldum okkur við hlíðina og eftir að Blákoll sleppir, höfum við Sauðadalahnjúka okkur á hægri hönd.

Ólafsskarð

Ólafsskarð.

Þegar þeim sleppir erum við komin að Ólafsskarði, kennt við Ólaf bryta í Skálholti sem sögur eru til um. Hér liggur gömul þjóðleið upp úr Jósefsdal, nefnd Ólafsskarðsvegur og við fylgjum honum nokkurn veginn fyrst um sinn. Hér er skáli (kallaður Skæruliðaskálinn). Áfram höldum við og höfum nú Ólafsskarðshnjúka á hægri hönd. Þegar þeim sleppir, förum við með austurhlíðum Bláfjalla, og komum að þar sem er eins og svolítið horn út frá fjöllunum. Þetta er eldgígur sem heitir Leiti og er Leitahraun þaðan runnið. Það er talið hafa runnið niður í Elliðavog í Reykjavík. Skammt austar í hrauninu er annar gígur, Syðri Eldborg, óspjölluð og fögur. Í suðri er stakt fell nærri Bláfjöllum, sem heitir Fjallið Eina. Svolítið austar er Rauðhóll og þar suðuraf er stórt fjall sem heitir Geitafell en austar er Sandfell út við Þrengslaveg. Hér endar slóðinn og verður að fara sömu leið til baka.

Suðurlandsvegur – Milli Hrauns og Hlíða.

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni.

Ekið er af Suðurlandsvegi, veg til norðurs skammt fyrir ofan Skíðaskálann í Hveradölum (GPS N64 01 128 W21 22 866). Einnig er hægt að fara inn afleggjaran á Skíðaskálanum í Hveradölum og áfram inná gamla veginn upp með Stóra Reykjafelli í austur að fyrnefndum vegi. Síðan er ekið á gamla Hellisheiðarveginum austur með ás sem gengur austur frá Stóra Reykjafelli. Hér er svokölluð Flengingarbrekka. Þegar komið er austur fyrir ásinn er beygt inn á slóða í norður og farið upp brekkur. Þegar upp er komið er sveigt í vestur inn fyrir gíghóla sem mikið efni hefur verið tekið úr. Síðan er sveigt til norðurs og farið þvert fyrir Hellisskarð að Skarðsmýrarfjalli. Síðan er ekið með hlíðum Skarðsmýrarfjalls í austurátt. Ekið er framhjá nokkrum skíðaskálum. Leið þessi er kölluð vegurinn milli hrauns og hlíða. Brátt er komið að hálsi sem gengur austur úr hlíðinni og skiptast þar leiðir.
Innstidalur: Til vinstri er farið ef fara á í Innstadal. Er þá farið inn með hlíðinni fyrir ofan svokölluð Þrengsli í Miðdal. Tveir skálar eru hér, báðir læstir og í einkaeigu. Jarðhiti er í dalnum og fyrir ofan innri skálann er einn öflugasti gufuhver landsins. Við hann hafa menn baðað sig í volgum læk. Varasamt er að ferðast um hverasvæði þegar snjór er yfir, því hitinn hefur brætt stórar hvelfingar í snjóinn, þó ekki sjáist það á yfirborðinu og skænið ber jafnvel ekki gangandi mann. Dalurinn er alveg afluktur nema þar sem við ókum inn í hann, en þó er annað skarð suðvestur ur honum sem heitir Sleggjubeinsskarð. Hægt er að aka fram í skarðið og er þaðan mikið útsýni á björtum degi. Mjög bratt er niður úr skarðinu og ekki fært nema gangandi manni. Aka verður sömu leið úr dalnum til baka.
Að Hengladalsá: Ef haldið er áfram frá þeim stað sem leiðir skiptust er ekin slóði á milli Hengilsins og Litla Skarðsmýrarfjalls, um Fremstadal að Hengladalsá. Hægt er að fara niður með ánni að slóða sem hefur verið ruddur í gegnum hraun sem Orustuhólshraun nefnist. Áður en komið er að slóðanum í hrauninu er farið undir rafmagnslínu. Þegar út úr hrauninu er komið, er komið að Suðurlandsvegi skammt fyrir ofan Kamba.

Reykjadalur

Reykjadalur – Klambragil.

Að Klömbrugili og Ölkelduhálsi: Ef farið er beint yfir Hengladalsá er ekinn ógreinilegur og grýttur slóði upp nokkkuð bratta en stutta brekku,sem heitir Svínahlíð. Er upp er komið erum við á lágri heiði sem heitir Bitra. Framundan er rafmagnslínan sem áður er getið. Ef farið er beint áfram undir línuna er komið að efstu drögum Reykjadals. Gil gengur þar í norðvesturátt sem heitir Klömbrugil. Greinileg gata er á einstigi niður í gilið. Mikill jarðhiti er í gilinu og Reykjadalnum. Reykjadalsá er hér volg og baðar fólk sig stundum í henni. Skáli er efst í Reykjadal ætlaður göngufólki, og eru hér merktar gönguleiðir um Grafningsfjöll. Ef farið er norður veg með rafmagnslínunni í átt að Ölkelduhálsi er komið að lokunum sem Orkuveita Reykjavíkur hefur sett á veginn sem er með línunni. Mikill jarðhiti er í Ölkelduhálsi, og þar um kring er hættulegt svæði þegar snjór er á jörðu. Til baka er hægt að aka línuveginn og stefna síðan yfir Hengladalsá á móts við slóðann í hrauninu.

Suðurlandsvegur – Grafningsháls.

Grafningsháls

Grafningsháls.

Ekið er af Suðurlandsvegi við bæinn Gljúfurholt í Ölfusi í norður. Þegar komið er innundir fjöllin er Sogn á vinstri hönd, síðan er farið yfir Gljúfurá framhjá bænum Gljúfri. Svo liggur vegurinn uppá mel innundir krikanum við Ingólfsfjall. Hér er beygt til norðurs upp melinn í gegnum hlið á girðingu hjá raflínu sem kemur norðan af Grafningshálsi. Slóðin liggur upp melinn á milli tveggja áa Hvammsá austan við og Æðargil að vestan. Slóðin svegir síðan niður að Æðargilinu og eftir því um Djúpgrafning á Grafningsháls (Einnig er hægt að fara með raflínunni um Kallbak)og erum við þá á vatnaskilum. Síðan liggur leiðin niður að norðan verðu á veg við bæinn Stóra-Háls í Grafningi. Vegalengd 7-8 kílómetrar frá vegi við hliðið og á veg í Grafningi.

Þorlákshöfn – Nes í Selvogi.

Nessel

Nessel.

Ekið er í gegnum þorpið í Þorlákshöfn, eftir aðalgötunni Óseyrarbraut til enda. Síðan beygt til vinstri inn á Egilsbraut og til vinstri eftir Hafnarbergi, framhjá sundlauginni að fiskeldisstöð sem stendur niður við sjóinn. Ekið er þar um hlað inn á slóða sem liggur vestur með ströndinni. (Skammt ofan við fiskeldið er upphleyptur vegur sem ætla mætti að væri upphaf að slóðanum en svo er ekki). Slóðinn verður ógreinilegri eftir því sem vestar er haldið og sumstaðar er rétt að stoppa og skoða framhaldið til að gera ekki marga slóða. Slóðinn liggur mjög nálægt sjónum á nokkuð grónu landi. Örnefni eru nokkur. Keflavík austast, Háaleiti, Viðarhellir við Bjarnarvík, Strákahæðir. Slóðinn verður greinilegri eftir að vestar dregur að Nesvita. Síðan liggur leiðin um land Ness og þaðan upp á Krísuvíkurveg. Veglengd um 20 kílómetrar.

Þrengslavegur – inn með Litla-Meitli að Eldborg.

Eldborg

Eldborg í Þrengslum.

Ekið er af Þrengslavegi í austur við suðurhorn Litla-Meitils (GPS N63 57 721 W21 27 046) í gegn um dálítitlar malarnámur, og síðan milli hrauns og hlíða. Eftir að hafa ekið dálítinn spotta komum við að trjáreit. Hér girti og plantaði Einar Ólafsson sem lengi vann í Rafgeymaþjónustunni Pólum, barrtrjám og Birki. Girðingaefni og plöntur bar hann á sjálfum sér frá þjóðveginum því engan bíl átti hann. Við ökum nú í norð-austur inn með hlíðinni og komum á töluvert víðáttumiklar grassléttur. Síðan liggur slóðinn austur fyrir Litla-Meitil og við blasir Eldborg og ástæða slóðans. Hér eru efnisnámur en langt virðist vera síðan þær voru í notkun. Menn hafa verið að aka á Eldborgina og er slóði þar upp. Æskilegra væri að menn gengju þar upp og virtu fyrir sér útsýnið. Í vestur sést Litli-Meitill þar norðanvið er Stóri-Meitill síðan er Lágskarð. Austan við Lágskarðið er Stóra-Sandfell. Sunnan við það er Sanddalur og Sanddalahlíðar og loks Langahlíð. Forn þjóðleið, Lágskarðsleið, var upp með Lönguhlíð norður um Lágskarð í átt að Kolviðarhól og fer Suðurlandsvegur yfir götuna neðst í Hveradalabrekkunni. Aka verður sömu leið til baka. Vegalengd 3-4 kílómetrar.

Gamli vegurinn yfir Hellisheiði – Núpafjall.

Þrengsli

Í Þrengslum.

Ekið er af veginum yfir Hellisheiði til suðurs skömmu eftir að komið er upp fyrir Hveradalabrekkuna (Skíðaskálabrekkuna) (GPS N64 01 113 W21 21 603) inná gamla veginn yfir Hellsheiði við Smiðjulaut. Síðan er ekið eftir honum rúma 5 kílómetra þar til komið er að vegamótum. Er þá tekinn vegurinn til hægri stuttan spöl. Það er líklega eldri vegur, yfir Hellisheiði sem lá suður fyrir Urðarás (Hurðarás?).Síðan er beygt inn á veg frá stríðsárunum. Sem liggur til hægri upp á lágt fjall sem heitir Núpafjall (GPS N64 00 385 W21 15 150). Núpafjall stendur á hálendisbrúninni fyrir ofan Ölfusið 313 metra yfir sjávarmáli, en rís einungis um 50 metra yfir heiðina og er því mun myndarlegra austan frá séð og mikill útsýnisstaður. Fljótlega er komið að vegamótum. Liggur vegur til hægri en rofnar fljótlega og er þar alveg ófært. Vegur þessi lá vestur af fjallinu, niður í dalkvos. Sjást þar leifar af mörgum byggingum. Þarna var herkampur á stríðsárunum. Hermennirnir höfðu eftirlit með veginum yfir Hellisheiði en á fjallinu voru loftvarnabyssur til að verja flugvöllinn í Kaldaðarnesi. Ef haldið er áfram veginn suður fjallið, endar hann í grösugri kvos sunnan undir því, en hjólför liggja fram á brúnir í grónu hrauni. Aka verður sömu leið til baka af Núpafjalli, en síðan er hægt að aka gamla veginn um Kamba. Ef menn kæra sig ekki um það, er hægt að fara inn á veginn sem liggur um Urðarhálsinn og er þá afleggjari í norður (GPS N64 00 461 W21 15 304) sem endar hann á malbikaða veginum um Hellisheiði (GPS N64 00 774 W21 15 377).

Gamli Þingvallavegurinn á Mosfellsheiði 1890 – 1930.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Ekið er austur Suðurlandsveg frá Reykjavík og beygt til norðurs hjá Geithálsi og sem leið liggur áfram hjá vegvísi Hafravatnsvegar á vinstri hönd og upp brekkur með Krókatjörn á vinstri hönd. Þegar komið er uppá heiðarbrúnina er afleggjari á vinstri hönd og skilti þar sem á stendur Reiðvegur og annað skilti sem sýnir að vegurinn er botnlangi (GPS N64 06 460 W21 37 016). Svo er þó ekki því hér er um gamla Þingvallaveginn að ræða, skemmtilega leið en grýtta og torfarna.
Vegurinn var lagður á árunum 1890 – 1896, í upphafi sem reið- og hestvagnavegur en síðar sem bílvegur, eða allt frá 1913 til 1930. Þá var nýr Þingvallavegur lagður upp úr Mosfellsdal. Þá var hætt að halda gamla veginum við, sem er mikil synd, því þetta er mjög víðsýn og falleg leið. Þessi gamla leið til Þingvalla er greiðfær til að byrja með enda allnokkuð ekinn af sumarbústaðaeigendum og liggja afleggjarar því víða af honum.
Við ökum með brúnum Seljadals og sjáum hinum megin dalsins, þ.e. norðan við hann, fellabálk mikinn sem heitir ýmsum nöfnum Austasti hluti hans og sá hæsti heitir Grímannsfell. Svo komum við að hliði (GPS N64 06 976 W21 34 694) á girðingu. Þetta er girðing í kringum höfuðborgarsvæðið og verður að passa vel að loka því á eftir sér. Nú fer vegurinn að versna, verður grýttur og varla fær nema breyttum jeppum. Fallegar vörður hafa verið hlaðnar með veginum og vatnsræsi hlaðin úr hellugrjóti og þarf að krækja fyrir þau. Steinar með kílómetratölum standa við veginn með fimm kílómetra millibili. Við veginn stóð veitingahús í eina tíð og sæluhús nokkru norðar á heiðinni. Þegar norðar dregur komum við að raflínu. Nú batnar vegurinn á ný enda þjónar hann hér eftir sem línuvegur.

Þingvallavegur

Brú á Gamla Þingvallaveginum.

Svo komum við að árfarvegi og er brú (GPS N64 08 963 W21 34 694) á honum með steinstólpum á öllum hornum. Brúargólfið hefur verið endurnýjað því brúin er hluti línuvegarins.
Þar sem vegurinn liggur hæst um heiðina, um 300 metra hæð yfir sjávarmáli, er Grímannsfell vestan við okkur og Borgarhólar austan vegar og liggur þangað ógreinileg slóð frá veginum. Borgarhólar er leifar gíga, sem Mosfellsheiðin er upprunnin úr og eru þeir hæsti hluti heiðarinnar. Hæst er Borg, 410 metra yfir sjávarmáli. Sjálfsagt er að ganga á Borgarhóla og njóta útsýnisins og er gott að hafa landakort meðferðis. Við snúum til baka út á veginn og erum stödd á Háamel. Nú fer heiðinni að halla norður af og er hér gott úsýni. Athygli vekur hve vegurinn er beinn, varla hlykkur á nema þar sem nauðsyn ber til.

Þingvallavegurinn gamli

Sæluhúsatóft við gamla Þingvallaveginn.

Hafnarfjörður

Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1966, “Við veginn” – Magnús Jónsson, bls. 21:

“Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnugt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða að miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötuna af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá. Þó varð ekki komizt hjá víðtækara verki, þar sem brunahraun þöktu stór landsvæði. En þar hafa menn lyft huganum frá bakraun og tilbreytingarlausum átökum við hnullunga og eggjagrjót með myndum þjóðsagna: Ósk um að berserkir — sem tæpast voru mannlegar verur — fengju rutt vegi um þessa farartálma á svipstundu svo að segja. Samkvæmt þjóðtrúnni gerðist slíkt bæði í Berskerkjahrauni á Snæfellsnesi og í Ögmundarhrauni, sem snemma í byggðarsögu landsins rann í sjó fram milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Er þar auðséð, hvar hægt en óstöðvandi hraunrennslið hefur umkringt mannvirki, — en það er önnur saga.
En hvað sem líður fyrstu myndun lestaveganna í hraununum, þá voru þeir „framtíðarvegir‘, sem fullnægðu kröfum kynslóðanna, sem ekki þekktu annað betra. Öðru máli var að gegna með mýrarkenndan jarðveg. Verið gæti, að margur lestarmaður hafi með nokkurri furðu hugleitt þá tilhögun skaparans, að nautgripunum skyldi veitast svo furðu auðvelt að ösla um þau fen og foræði, sem klyfjahestarnir hans urðu að krækja fyrir, já, oft um langan veg, þótt ekki bæru þeir alltaf þunga úttekt úr kaupstaðnum. „Betri er krókur en kelda“, segir máltækið. Og því er það, að einhverjir fyrstu lagðir vegir voru hinar svonefndu brýr, sem lagðar voru stytztu leið yfir mýrarfláka víða um land. Er eitt slíkt örnefni til hér í nágrenni Hafnarfjarðar, sem er „Dysjabrú’. Er það vegarkaflinn þaðan sem hrauninu sleppir og að Garðaholti. Þetta mannvirki er að sjálfsögðu kennt við Dysjar, eitt þekktasta býli Garðahrepps.

Í þéttbýlinu

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þegar halda skyldi t. d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús — nánast þar sem nú er Strandgata 21 — var æði stutt bilið á milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfelld möl, allt að Hamrinum syðri. Þótt sjávarmöl sé þreytandi manna- og hestafótum, hefur hún ýmsa kosti. Leikvöllur barnaskólans frá 1902 var t. d. þakinn þykku lagi af henni. Varð sársaukinn hverfandi lítill, þótt dottið væri á hnéð í áflogum, þar sem hver steinn var svo afsleppur að hann ýttist frá. Fátt er líka heppilegra til að drýgja með steinsteypu en hrein möl úr fjörunni. En nú er velmegunin svo mikil, að sjaldan er talað um að drýgja nokkurn skapaðan hlut í þeirri merkingu. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallann í átt til sjávar. Fljótlega hallaði því undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Algengt vegarstæði er „milli hrauns og hlíða“, t.d. upp í Kaldársel, en hér hefur það sennilega verið bezt „milli mýrar og malar“, ef svo mætti segja. Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörtskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.

Byggðin að baki

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í Hafnarfjarðarhrauni. Er m. a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna. — Nokkurn veginn sézt hvar lestavegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel. Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, — lá þar upp fyrir hann.

Selsvellir

Alfaraleiðin.

Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum. Enn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961 er ýtarleg grein um mannvirki þetta eftir Ólaf Þ. Kristjánsson skólastjóra. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku. Þar sem, eins og áður er sagt, að hraunið rann eftir landnámstíð, verður manni ósjálfrátt að tengja þennan dýrling einnig bæn gegn eldgosum og hraunrennsli.

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegurinn vestan Straums.

Vart er hægt að hugsa sér meiri andstæður en hljóðlátt bænarandarp innan veggja þessa litla frumstæða húss og svo þau gífurlegu umsvif nútímans, sem fyrirhuguð eru svo að segja á þessum stað, þar sem er álverksmiðjan. Er þá að engu orðin hin kyrrláta fegurð byggðarlagsins í Hraununum, sem svo er nefnt. Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn — reiðgötuna, — nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti — steypti — er fáa metra neðan við.
Í Hraununum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður. Er nú aðeins Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýzkubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfið vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m. a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleið.

Efst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við nú erum komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámunum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði en rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga, og bendir m.a. til þess hið langa nafn hreppsins, sem við nú nálgumst, Vatnsleysustrandarhrepps. En hér hvílumst við (til næstu jóla?) Hér hefur líka Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftir að hafa vígt vatnslind þessa, öldum og óbornum til blessunar. Og hér umhverfis vatnsbólið sat einn bekkur úr Barnaskóla Hafnarfjarðar fyrir 30 árum, ásamt kennaranum, Friðrik Bjarnasyni. Fölleitur, brúneygur drengur úr þeim hópi hefur stundum farið þangað síðan.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1966, Við veginn – Magnús Jónsson, bls. 21.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Gamli barnaskólinn fyrir miðju.

Fornagata

Fé hefur frá landnámi verið brautryðjendur í að leggja götur um holt og hæðir og hafa því ómetanlega reynslu. Gott var fyrir vegamálastjóra síðari tíma að hafa slíka ráðgjafa. Fjárgöturnar mörkuðu fyrstu þjóðleiðirnar fyrrum og því miður reyndist öðrum vegfarendum lengi framan af erfitt að finna aðrar greiðfærari leiðir.

Straumsselsstígur

Fornaselsstígur og Gjáselsstígur – dæmi um gleymdar menningarminjar.

Selstígar frá örófi alda voru fjárgötur. Stígar um fjöll og hlíðar voru fjárgötur. Maðurinn fetaði sig eftir þeim því þær voru þær einu merkjanlegar sem til voru. Það var ekki fyrr en löngu seinna að mennirnir fóru að leggja vegi, en þá jafnan á milli fjárgatnanna. Það var ekki fyrr en með tilskipunum konungs eftir miðja 19. öld að byrjað var markvisst að leggja brautir eða vegi millum helstu þéttbýlis- og verslunarstaðanna.
Enn í dag byggjast merktar gönguleiðir fyrir fólk ofan byggða á gömlu fjárgötunum. Í Þórsmörk t.d. er leiðin á milli Bása og Skóga gömul fjárgata. Oft vill gleymast, þrátt fyrir sögulegar staðreyndir, að kindin á miklu mun auðveldar með að fóta sig í bröttum skriðum og hlíðum fjalla en maðurinn. Þrátt fyrir það hefur áhugafólk um úrbætur á ferðamannastígum þráast við að feta sporið út fyrir kindagötunar, en reynt að halda í fyrri hefðaleiðir þeirra.
Fjárgötur eru jafnan krókóttari en leiðir mannanna, sem hafa haft tilhneigingu til að stytta leiðir á milli einstakra staða og sníða þá að fótum og fararskjótum sínum, í fyrstu hesta, síðar vagna og loks bíla…

Sjá meira um fornar leiðir á Reykjanesskaganum HÉR og HÉR.

Selsvellir

Selsvallaselsstígur.

Hellisheiðarvegur

Í Tímann árið 1955 ritaði Ólafur Ketilsson “Ágrip af sögu Austurvegar síðastliðin 30 ár”. Ólafur Ketilsson, eða Óli Ket, eins og hann var jafnan nefndur, var víðfrægur rútubílstjóri millum m.a. höfuðborgarinnar og uppsveita Árnessýslu.

“Hæstvirtir alþingismenn.

Ólafur Ketilsson

Ólafur Ketilsson.

Fyrir 69 árum var unnið við þær framkvæmdir í landi voru, að staðsetja og leggja veg frá Reykjavík og áleiðis austur í Árnessýslu. Sú vegalagning var unnin samkvæmt kröfum og tækniþekkingu yfir standandi tíma, svo sem venja er til, en þekking og þörf hinna fyrri tíma var m.a. sú, eftir því sem sagt er, að staðsetja veginn og leggja hann þar, sem jarðlag var sléttast, án þess að hirða um beygjur, króka og brekkur, því að flutningatæki voru þá baggahestar og reiðhestar.
Það má segja að vegurinn væri lagður eftir kröfu síns tíma. Nokkru síðar urðu flutningatækin kerrur, sem hestum var beitt fyrir, en þá komu fljótlega fram kröfur um það að brekkur mættu ekki verða brattari en aðeins einn metri móti hverjum fimmtán til átján lengdarmetrum, þar sem því var við komið, utan þar sem lagt var f fjalllendi og öðru óhagstæðu landi.
Árin 1920 til 1922 hófst svo bílaöldin og bætt við kröfur tímans um vaxandi hraða.
Enn fremur varð fljótt þörf á því að geta ekið eftir veginum allt árið. Kom þá fljótt í ljós hversu óhagstæður hinn gamli vegur var vegna króka og snjóþyngsla, þar sem víða fylltist af snjó strax í fyrstu éljum. Gerðust kröfur manna strax háar um endurbætur og breytingar á vegstæðinu og veginum. Reyndist þá Smiðjulautin svonefnda verst vegna snjóþyngsla, enda mun vegurinn hafa verið færður þar til, og nýr byggður í staðinn um árið 1925, en hefir verið endurbættur 6 eða 7 sinnum síðan.
Ólafur Ketilsson
Á árunum 1926 til 1930 voru gerðar mjóar vetrarbrautir í Sandskeiðsbrekku, Bolaöldum, á Hellisheiði, í Kömbum og víðar. Árið 1930 til 1938 var gerður nýr vegur milli Baldurshaga og Hólms, ennfremur vetrarbrautir ofan Lögbergs, í Bolaöldum, svo og í Svínahrauni, ásamt nokkrum vetrarbrautum á Hellisheiði sjálfri, austan Smiðjulautar, við Útileguskafl, Urðarás og víðar. Á þeim árum var vegurinn og breikkaður og færður til, vestan Baldurshaga, milli Hólms og Baldurshaga, neðan Gunnarshólma, í Sandskeiðsbrekku, vestri og eystri, í Bolaöldum, í Svínahrauni í Hveradalsbrekkum, á Hellisheiði, við Urðarás og miklar breytingar gerðar í Kömbum og víðar og víðar, sem ekki er hægt upp að telja. Árin 1938 til 1944 var vegurinn breikkaður og færður til, meðal annars frá Reykjavík upp íyrir Ártúnsbrekku, við Rauðavatn, milli Baldurshaga og Hólms, skammt frá Gunnarshólma, í Lögbergsbrekku ofan Lögbergs, á Sandskeiði, í Sandskeiðsbrekkum báðum, neðan til í Svínahrauni, mjög mikið í Hveradalabrekkum, á Hellisheiði, við Urðarás og í Kömbum. Margt voru þetta breytingar, sem ökumenn töldu nauðsynlegar eins og þá stóð viðhorfið í vegamálum.
Ólafur Ketilsson
Þá var nýlega hafin lagning á svonefndum Krýsuvíkurvegi, sem okkur var kunnugt um að ekki mundi verða góður né hagstæður til aksturs vegna þess hve langur hann mundi verða. Ennfremur valið á vegarstæðinu. Var okkur kunnugt þar sem sóst er eftir að finna sem flestar brekkur bæði brattar og krókóttar. Enda varð það líka staðreynd þá er honum var lokið að brattinn varð mestur og beygjurnar flestar til samanburðar við aðra okkar austurvegi.
Ég tel líka rétt að geta þess að á umtöluðu tímabili hófst breikkun og endurbætur á Ölfusvegi og brúm. Það skeði rétt eftir að bílar frá þeim Churchill og Thoraren sen mættust á einni brúarmænunni og brotnuðu báðir mjög mikið þá er þeir duttu út af brúnni og niður í skurð.
1944 til 1954 hafa árin liðið, svo sem venja er, og endurbætur á austurvegi halda áfram þrátt fyrir nýjar ákvarðanir og ný vegalög. En ekki hefir ykkur, hæstvirtir alþingismenn, frekar enn öðrum líkað gamla vegstæðið, né gamli vegurinn, þrátt fyrir allar endurbæturnar.

Klifhæð

Letursteinninn á Klifhæð.

Á tímabilinu 1944 eða 1945 settuð þið ný lög um það, að leggja skyldi nýjan veg (Austurveg) alla leið frá Rauðavatni til Selfoss, á næstu 7 árum, og leggja gamla veginn niður. Á þeim árum létuð þið vegamálastjóra gera kostnaðaráætlun um sama veg. Kostnaðaráætlunin reyndist það há að ykkur hefir víst svimað við, og það svo, að þið hafið hvorki látið framkvæma verkið né leggja nýjan Austurveg, ekki heldur endurskoða kostnaðaráætlunina. Við þetta situr enn í dag. Má það furðu gegna að hæstvirtir alþingismenn hlíti ekki sinum eigin lögum, þrátt fyrir marg endurteknar áminningar frá okkur kjósendum, en ætlist svo til að við hlíðum öllu því, sem þið setjið sem lög.
Árin líða 1944 til 1954. Á þessu tímabili hefir enn á ný, á þessum sömu stöðum verið bætt og bætt, bót við bót, vestan Rauðavatns, milli Baldurshaga og Hólms, en þar hefir snjórinn verið dýpstur á veginum síðastliðna vetur, þrátt fyrir bætur þriðja til fjórða hvert ár hin síðastliðnu þrjátíu. Endurbæturnar halda áfram, norðan Hólms, við Geitháls, móts við Geitháls, austan við Geitháls, í Lögbergsbrekku og það oft, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, ofan Lögbergs, margendurtekið, þar hefir staðið margra ára styrjöld við símamálastjóra og símastrengi. Endurbæturnar halda áfram, við ártalasteininn 1887 er vegurinn orð inn fimmfaldur, móts við Neðrivötn margendurbættur, við 20 km. steininn er vegurinn fjórfaldur, í Sandskeiðabrekku vestri er búið að gera 10 eða 12 áhlaup til lögunar á beygjunni, en er þó nær vinkilbeygja enn, á Sandskeiðinu er búið að endurbyggja veginn mörgum sinnum á sama stað. Þar hafa hver orðið fyrir öðrum, símastrengurinn og vegurinn orðið að stórtjóni.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Í Sandskeiðsbrekku er vegurinn orðinn fimmfaldur, í Bolaöldum er hann margfaldur, í Svínahrauni hafa verið gerð stór áhlaup, við Reykjafjall hefir verið kostað nokkru til. Í Hverabrekku hefir enn verið bætt og settur upp minnisvarði (Geirfuglaskeri) móti Skíðaskála og á Hellisheiði, teknar af beygjur og aðrar búnar til, við Urðarás og víðar. Í Kömbum hefir veginum verið breytt úr 33 beygjum í aðeins 11 beygjur. Þetta hefir verið bætt og margt fleira á þessum mörgu árum, gæti því margur haldið að komið væri nóg þegar árið 1953 var liðið, en það reyndist ekki.
Bæturnar héldu áfram á næsta ári. Vinnuaðferðum og afköstunum skal hér lýst með nokkrum orðum.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Mánudaginn 2. ágúst byrjaði vegagerð ríkisins vinnu við endurbætur vegarins skammt fyrir ofan Lækjarbotna á Austurvegi. Unnið var við það alla vinnudaga svo sem venja er. Vinnuaðferðin var hin sama og svo oft áður, ekið möl á venjulegum bílum norðan úr Rauðhólum, en burðarmagn malarbílanna er 3 tonn (en aðrir aðilar nota við flutninga á sama vegi 8 til 12 tonna bíla, og jafnvel stærri). Mokað var á með vélskóflu og rótað út af þrem eða fjórum mönnum. Enn fremur var öllum bílunum ekið til Reykjavíkur á hverju kvöldi, og á vinnustað á hverjum morgni, fyrir háa greiðslu.
Á þessum umrædda stað var vegurinn hækkaður allt frá 25 cm. og upp í 70 til 80 cm. Vegalengdin sem þessi hækkun var gerð á er sennilega um 300 metrar. Þessi vegarstúfur er því ekki langur miðað við alla vegalengdina austur yfir Hellisheiði, því að það eru margir kílómetrar.
Það mun hafa verið þriggja vikna verk að hækka þennan bút. Mun það því hafa kostað ærið fé, og væri því ekki þörf fyrir ráðamenn að kynna sér vel hvað þessi vegstúfur hefir kostað. Ekki væri siður þörf á að kynna sér hvert gildi þessi hækkun hefir á vegi sem er að verða 69 ara. Varla er það svo hátíðlegt afmæli að svona miklu þurfi að kosta til. Annað mál væri ef um sjötugsafmæli væri að ræða, þá veitti ekki af að halda sér til.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur ofan Hveragerðis.

Þess er rétt að minnast að svona vinnuaðferð má teljast alveg sérstök, þar sem um er að ræða mjög gott ýtuland, en slík verkfæri eru ekki einu sinni notuð til að hækka undir þar sem breikkað er, heldur ekið möl og aftur möl. Verður malarlagið því á annan metra að þykkt, þar sem breikkað hefir verið líka. En hver teningsmetri af aðkeyrðu efni kostar yfir 30 krónur, en þar sem ýtt væri upp með jarðýtu kostað teningsmetrinn aðeins 4 til 5 krónur. Þarna geta menn séð hagsýni vegagerðarinnar, en svona vinnuaðferð er búið að viðhafa í mörg ár öðru hvoru á austurvegi, en það er þó sá vegur, sem á að leggjast niður innan fárra ára og nýr að koma í staðinn, og mun koma.
Svo sem áður er sagt þótti ykkur kostnaðaráætlun vegamálastióra um nýjan veg of há, en hefir auðvitað verið miðuð við svona vinnubrögð eins og þau hafa verið á þessum umrædda vegbút. Svo há þótti kostnaðaráætlunin að hin hæstvirta fjárveitinganefnd Alþingis hefir ekki enn þann dag í dag, fengist til að byrja á fjárveitingu til vegarins. En í svona vegbúta veita alþingismenn fé, ár eftir ár, svo tugum þúsunda skiptir. án þess að fyrirskipa eða láta framkvæma nauðsynlegar endurbætur og vegalagningar eftir tækni og þekkingu nútímans, eins og tíðkast mun í nágrannalönd um okkar. Nei, ekki er svo gjört, heldur halda bæturnar áfram. Þá er þeirri 300 metra bót var lokið, seint í ágúst, var enn byrjað a nýrri bót milli Lögbergs og Sandskeiðs. Unnið var við þessa bót svo lengi sem sumarið entist, og jafnvel fram á vetur. Enginn veit hvort því verki er lokið eða ekki, né hvenær næsta bót verður sett utan á eða ofan á umræddan vegstúf.

Hellisheiðarvegur

Austurvegurinn 1900.

Löngu áður en því verki var lokið, var byrjað á einum vegbút móti Vorsabæ í Ölfusi. Unnið var við þetta verk fram á vetur og byggður nokkur bútur, en það er vitað mál að því verki er ekki nærri lokið, það sögðu þeir sem þar unnu að þessi bútur ætti að verða 950 m. langur, að báðum beygjum meðtöldum.
Nú hafið þið heyrt (og jafnvel séð) hvað gerst hefir til endurbóta á Austurvegi í heilan mannsaldur. Ég vona líka að þið hafið fylgst með hverju sinni hvernig bæturnar minnka snjólögin á veginum, að því hefir verið stefnt annars var fjöldi bótanna óþarfur.
En hvað skeður? 8. nóvember síðastl. gerði snjóél með stinningskalda á suðvestan. Hinn sama dag, var tilkynnt í ríkisútvarpinu um hádegið að Hellisheiði væri ófær bifreiðum. Hvað hafði skeð?
Það hafði fallið snjór á hinn gamla veg í 4 til 6 tíma og hann orðið ófær bifreiðum um leið. Þrátt fyrir allar endurbæturnar síðastl. 30 ár.
Hvað er fram undan næst?
Ég leyfi mér hér með að spyrja:
Í fyrsta lagi: Hvað hafa þær bætur kostað, sem gerðar voru í sumar á austurvegi?
Í öðru lagi: Í hve mörg ár enn, er hugsað um að halda áfram með þennan bótaklasa?
Í þriðja lagi: Hvað veldur því að ekki er lagður hinn nýi austurvegur? Svar óskast.
Staddur á bættum vegbút, 12. desember 1954.” – Ólafur Ketilsson.

Á Mbl.is 15. ágúst. 2013 segir af “Merkum Íslendingi”; Ólafi Ketilssyni:

Ólafur Ketilsson

“Ólafur Ketilsson sérleyfishafi fæddist á Álfsstöðum á Skeiðum 15.8. 1903, og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Ketill Helgason, bóndi á Álfsstöðum, og k.h., Kristín Hafliðadóttir húsfreyja.
Ketill var sonur Helga, b. í Skálholti og Drangshlíð undir Eyjafjöllum Ólafssonar, og Valgerðar Eyjólfsdóttir, frá Vælugerði í Flóa.
Kristín var dóttir Hafliða Jónssonar b. á Birnustöðum, frá Auðsholti í Biskupstungum, og Sigríður Brynjólfsdóttir frá Bolholti á Rangárvöllum.
Systkini Ólafs urðu níu en átta þeirra komust á legg. Meðal þeirra voru Brynjólfur, lengi starfsmaður hjá Reykjavíkurborg; Valgerður, húsfreyja á Álfsstöðum; Helgi, bóndi á Álfsstöðum: Sigurbjörn, skólastjóri í Ytri-Njarðvík; Kristín Ágústa, húsfreyja í Forsæti; Hafliði, bóndi. á Álfsstöðum, og Guðmundur, mjólkurfræðingur hjá Mjólkurbúi Flóamanna.
Kona Ólafs var Svanborg Þórdís Ásmundsdóttir, húsfreyja, frá Neðra-Apavatni í Grímsnesi, og eignuðust þau þrjár dætur og einn kjörson.
Ólafur Ketilsson
Ólafur var á togurum nokkrar vetrarvertíðir og eftirsóttur háseti enda þrekmaður, rammur að afli. Hann tók bílpróf 1928, festi kaup á vörubifreið sama vor og ók um skeið fyrir kaupfélagið á Minni-Borg í Grímsnesi.
Ólafur fékk sérleyfi fyrir fólksflutninga til Laugarvatns, Gullfoss og Geysis 1932 og hélt uppi áætlunarferðum milli Reykjavíkur og Laugarvatns í marga áratugi. Hann varð með tíma

num góðkunn þjóðsagnapersóna fyrir hnyttin tilsvör og sérlega gætilegan akstur. Þá átti hann stundum í útistöðum við embættismenn kerfisins sem honum fannst svifaseint og stirt.
Ólafur var lengst af búsettur í Svanahlíð á Laugarvatni en síðustu árin bjó hann í íbúð sinni í Sunnuhlíð í Kópavogi.
Árið 1988 komu út æviminningar Ólafs, Á miðjum vegi í mannsaldur.
Ólafur lést 9.7. 1999.”

HÉR má lesa meira um Óla Ket.

Heimildir:
-Tíminn, 13. tbl. 18.01.1955, Ágrip af sögu Austurvegar síðastliðin 30 ár, Ólafur Ketilsson frá Laugarvatni, bls. 4 og 6.
-Mbl.is, 15. ágúst. 2013, Merkir Íslendingar, Ólafur Ketilsson – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1476103/
-https://skemman.is/bitstream/1946/22419/1/BA_ritgerd_Oli_Ket.pdfÓlafur Ketilsson

Skólavarðan

Í Þjóðólfi 1868 má lesa eftirfarandi um “Skólavörðuna og hinn nýja aðalvegur upp úr Reykjavík”:

Skólavarðan

Skólavarðan.

“Ferðamenn,er komu austan og norðan yfir heiðarnar síðan um mánaðamótin, furðaði á því, er þeir mist af hæðunum suðr af Grímmansfelli, (niðr af Seljadalnum) og af hæðunum ofaneptir Fóelluvötnunum, að allir sáu þeir hvítan dýl bera við vestrloptið hér fremst suðr á nesjunum, og engi sem ekki er áttaviltr, en veit góða grein á því að Álptanes er sunnar, en Seltjarnarnes norðar, og þekkir nokkuð afstöðu og kennileiti beggja nesjanna, gat verið í neinum vafa um það, að þessi hinn hvíti og bjarti dýll væri framarlega á Seltjarnarnesi. »En hvað er það, hvenær og hvernig er þetta komið þarna er ber svona skært við vestr-sjóndeildarhringinn á sama stað«? Ekki er mann lengi að bera hvort heldr eptir alfaravegunum ofan Mosfellssveitina eða ofan úr Vötnunum, þó að fátt þyki gott eða greitt af þeim veginum að segja nú sem stendr, niðr á móts við Árbæ, og sér maðr þá, að þetta, er sýnist í fjarska sem að ljós dýll einn lítill beri við sjóndeildarhringinn,— að þetta er hin ný uppbygða skólavarða á Arnarhólsholtinu hér fyrir austan Reykjavíkr-bæinn.
Skólavarðan þó þó», sagði annar af 2 mönnum lausríðandi, á skinnsokkum og með keðjubeizli og króksvipu í hendi er hann stefndi út frá nára sér, er þeir komu ofan eptir hæðunum milli Rauðavatns og Árbæjar 29. þ. mán., — »Skólavarðan, laxi góðr, ekki vel; sú gamla, sem var vel stæðileg, var rifin í grunn niðr fyrir fám árum og það fyrir ekki neitt; var bygð upp aptr fyrir 200 —300 rd. samskot, og hrundi svo sjálf öldúngis órifin; það hrun var ekki af manna höndum gjört og kostaði ekki neitt, eins og þú og hver maðr hefir getað lesið í «Norðanfara, til mikils sóma fyrir hann og fyrir höfuðstað landsins« — svo eg held þú vaðir reyk; hver hefði kannske átt að slá þeim Mósis-sprota á helluna, að þaðan skyldi spretta upp slíkr almúraðr og fágaðr kastali er gnæfir við skýin? eða hvaða Jovis-almætti skyldi hafa megnað því, að þessi altýgjaða Minerva stendr þarna áðr en nokkurn varði og þar sem ekki var annað fyrir en sorgleg grjólhrúga ofaná grjóturð».

Skólavarðan

Skólavarðan.

Vér yfirgefum nú þetta «tveggja manna tal», og hverfum til sjálfrar hinnar nýu skólavörðu þar sem hún nú stendr albúin einsog nýbygðr nýuppmúraðr kastali, einsog fuglinn Fönix risinn úr öskunni. — það er ekki að undra, þóað detti ofanyfir ferðamenn að sjá þetta sannarlega vandaða og snotra steinsmíði svona allt í einu albúið áðr en nokkurn varði, og hafi ekki getað átt þess neina von, því Reykvíkínga sjálfa rekr þar í ramma stanz. Vér staðarbúar höfum að vísu séð menn standa þar að vinnu öðru hverju í sumar, séð þángað ekið kalki, séð verið að leggja þar stein og stein í veggina, en þetta virtist svo áhugalítið og sem í hjáverkum gjört, einkum fram eptir slættinum, að menn sögðu hér alment að þetta væri fremr gjört til dundrs sér, og til þess það skyldi sýnast sem hér stæði til að byggja eitthvað upp aptr svona til málamyndar, heldren hitt, að mönnum væri eðr gæti verið nokkur alvara með, að koma skólavörðunni upp að nýu; — því hvaðan ætti nú að taka fé til þess? — sögðu menn; ~ 2-300 rd. samskotin fyrri hefði gengið öll til að byggja upp hrundu vörðuna og hefði enda eigi hrokkið til; engin nefndi ný samskot, enda mundi það hafa lítið upp á sig, þegar svona hefði tekizt slysalega til fyrir hin; og hvaða Crösus mundi svo vekjast upp er vildi og gæti lagt í sölurnar jafnmikið fé og þyrfti til vandaðrar kalkmúraðrar vörðu? Þess vegna hugðu allir, að hér yrði ekkert úr; engi vissi heldr til að neinn væri forgaungumaðr verksins fremr einn en annar. Svona gekk fram yfir Ágúst-lok; að vísu smáhækkuðu múrveggirnir og fór að draga undir dyrahvelfinguna, og þá fóru menn þó smám saman, einkum eptir það verkamönnum var fjölgað þegar kom fram í f. mán. og farið var að leggjast fast á verkið, að gánga úr skugga um það, að hér hlyti að vera einhver hulin hönd og eigi févana, er bæði stjórnaði verkinu og hratt því svo áfram að stórum fór nú að muna með hverjum degi, og jafnan voru borguð tregðuð fyrirstöðulaust hin umsömdu verkalaun.

Skólavarðan

Skólavarðan.

Skólavarðan er nú albúin um þessa daga. Hún er ferstrend að utan og jafnbol, hátt á 9. alin utanmáls hver hlið, og stendr á stöpli; hún er hol eðr húsbygð innan, og eru portdyr á að vestan, bogadregnar eðr með hvelfingu að ofan, með traustri og vandaðri hurð fyrir; tvennir eru vænir gluggar á, annar á norðr hlið hinn á austr hlið. Innan er hver hlið að eins nökkuð á 5. alin, því veggirnir eru fullra fimm feta þykkir neðst og smá þynnast þegar ofar dregr, en þó hvergi þynnri en um 4 fet. Traust lopt er við efstu veggjabrúnir uppi yfir innra rúminu ; upp þángað liggja að innan þægir hliðarstigar, uppí uppgángsop á miðju lopti og er hetta yfir er upp undan má gánga og upp á loptið eðr »sjónarpallinn«, — því þaðan er næsta víðsýnt yfir allt, — og er hún til varnar því að niðr í húsið rigni eðr framan í þá er upp á pallinn gánga, en um hverfis hann allan efst á veggjunum og utan á ytri brún þeirra eru traust tréverks-handrið, til varnar því, að menn geti hrotið ofan fyrir. Varðan er 15 álnir á hæð frá stöpli, að meðtöldum handriðunum; til hennar kvað nú vera búið að kosta hátt á lOOO rd.

Skólavarðan

Skólavarðan.

Það er nú eigi orðið neitt launúngarmál, að bæarfógeti vor herra A. Thorsteinson kanselíráð hefir einn gengizt fyrir byggingu þessari og lagt fyrir um alla tilhögun og fyrirkomulag, og lagt út allt fé til efnis og verkalauna; en hvort það er af hans ramleik sjálfs að nokkru eðr öllu, það er enn öllum hulið, en mun von bráðar opinbert verða.

Skólavörðurstígur

Skólavörðustígur.

Hinn nýi alfara vegr upp úr bænum eðr réttara sagt ofan í bæinn, af Öskjuhlíðarveginum ofan að bakarastígnum, er bæjarstjórnin hefir gjöra látið á þessu sumri, og búið er að vísu að fullgjöra svo, að hann er miklu færari og betri en hinn gamli vegrinn ofan hjá Vegamótum, er í öllu tilliti verðr þess að á hann sé minst, eigi sízt í sambandi með skólavörðunni, þar sem hvorttveggja er bæði nýsmíði og má segja fremr stórvirki eptir fámenni og fátækdóm þessa staðar, og af því að þessi hinn nýi vegr er nú lagðr upp holtið skamt eitt fyrir norðan troðningabrúna (hérna megin Öskjuhlíðar) í útnorðr til skólavörðunnar, og fast fram hjá sjálfri henni og þaðan ofan eptir öllu holtinu að bakarastígnum, rétt fyrir norðaustan vindmylnuna. Að þessu leyti má nú segja, að hvort vegsami annað: þessi hinn nýi, mikilfengi og breiði upphækkaði vegr skólavörðuna, og hún aptr veginn.
Engir ferðamenn, er fara þenna nýa veg, og það gjöra allir síðan hann varð vel fær með hesta, telja né geta talið nein tvímæli á því, að þetta sé nauðsynja-vegabót, eigi sízt í samanburði við gamla veginn, eins og hann var orðinn í rigninga sumrum. Nýi vegrinn er allr upphækkaðr með steinlögðum brúnum, vönduðum að verki og völdu grjóti, en vantar enn yfir-ofaníburðinn yfir allt frá skólavörðunni og ofaneptir; er hann samt þegar orðinn góðr vegr og verðr bezti vegr, þegar fullgyggðr er, til yfiferðar með hesta, en vagnvegr verðr hann aldrei nema erfiðr og óþægr bæði frá bæ og að, sakir brekkunnar bæði vestan og sannanvert í holtinn, eins og líka sýnir sig nú þegar, þar sem varla nokkrnm af hinum mörgu er þessi vegrinn liggr óneitanlega miklu beinna og betr við til mókeyrslu, heldren hinn gamli gjördii, hefir þókt annað fært en að reiða mó sinn á hestum austan úr mýrinni og af þerriholtunum, uppundir skólavörðuna, en hugsa sjálfsagt til að keyra hann þaðan á vagni ofaneptir öllum hallandanum í bæinn, en reynist brattan að austanverðu lítt fær eða ófær fyrir vagn, þó verður hún það þó margfalt fremr uppeptir héðan að neðan uppá móts við skólavörðuna; og virðist þetta hafa verið fremr vanhugað hjá bæjarstjórninni, við að ákveða þessa nýju vegarstefnu, svo framt menn vildi heldr styðja að því en nýða það úr, að þægir vagnvegir kæmist hér smám saman á sem víðast og þar með brúkun og afnot vagna til ómetanlegs léttis við alla flutninga, en til þess er þó og verðr einkaleiðin sú, að leggja vegina sem hagfeldast og sem kostr er á, með því að kasta af sér brekkunni eða draga úr henni sem mest hvar sem því verðr við komið; hér er gjört þvertímóti með þenna veg, það sjá allir; menn hafa stefnt honum uppá holtið, þar sem það einmitt er hæst og brettan er lengst og erfiðust uppá hæðina.

Skólavörðustígur

Skólavörðustígur.

Undanfarnar bæarstjórnir hafa allajafna verið samdóma þessari um það, að gamli vegrinn væri óbrúkandi, lægi illa og yrði aldrei endrbættr til hlítar, og að nýjan alfaraveg, upphækkaðan, þyrfti að leggja nokkuð við sunnar austr úr holtinu, frá sporði vegabótabrúarinnar (þess vegna einmitt var ný brú lögð þarna, þar sem hún er, með ærnum kostnaði þegar (1843—45) þar yfir norðrtaglið á holtinu, sem alls engi bratti er til, heldr allt sem næst lárétt norðrfyrir Steinkudys; þar suðrmeð hæðinni kemr nokkurra faðma slakki, sem auðgjört er að hlaða af sér með upphækkun vegarins; það er auðsætt, að þarna má leggja hinn hægasta og þægasta vagnveg og þar til svo, að miklu fleiri af bæjarmönnum gæti notað veginn þar heldren þarsem hann er nú lagðr. Og sú mun reyndin á verða, að aldrei mun sá vegrinn þurfa meira að kosta heldr að mun minna en þessi nýi, er þegar mun vera búið að kosta til um 1300 rd. Sú mun reyndin á verða, segjum vér, og það innan 20 ára hér frá, því hagsmunirnir af góðum og greiðum vagnvegum hér og almenn nauðsyn mun opna augu komandi bæjarstjórnar og knýa til, að kosta þar til alfara vagnvegar sem góðr vagnvegr getr orðið og sem flestum til gagns.”

Heimild:
-Þjóðólfur 08.10.1868, Skólavarðan og hinn nýi aðalvegr upp úr Reykjavík, bls. 178-180.

Skólavarðan

Skólavarðan 1926.

Þingvellir

Guðmundur Davíðsson ritaði um “Vegakerfið á Þingvöllum” í Alþýðublaðið árið 1940:
“Nokkru fyrir aldamótin síðustu var gerður akvegur frá Reykjavík til Þingvalla. Hann er lagður, eins og kunnugt er yfir há-Kongsvegur-231Mosfellsheiði, bak við alla bæi í Mosfellssveit og kom því sveitinni að engum notum. Hann var nokkurskonar öræfavegur. Meðfram honum var nálega hvergi snöp handa ferðamannahestum um há sumarið og undir snjó lá hann allan veturinn. Nú er hætt að nota hann að mestu. En í annan stað er búið að gera veg gegnum Mosfellssveit, yfir lág heiðina og til Þingvalla. Hann var lagður í tilefni af Alþingishátíðinni 1930.
Þegar búið var að leggja háheiðarveginn austur á bak við Skálabrekku var um tvær leiðir að velja með hann ofan á Þingvelli. Annaðhvort varð að fara með hann skáhalt austur aið Þingvallavatni og upp með því, nálægt gömlu þingmannaslóðunum, upp á Þingvelli, eða norðaustur fyrir neðan túnið á Kárastöðum og ofan í Almannagjá, og var sú leið valin. Verkfræðingurinn, sem þá var, áleit að heppilegra væri að leggja veginn upp með vatninu, og mældi þar fyrir honum. En þetta fór öðruvísi en ætlað var. Ráðin voru tekin af verkfræðingnum. Honum var boðið að hætta við að fara með veginn þessa leið, en taka hina leiðina, þar sem vegurinn liggur nú, ofan í Almannagjá. Að þessu lágu þau atvik, sem nú skal greina. Bóndanum, sem þá var á Kárastöðum, var það ljóst — að loku var skotið fyrir það, að hann hefði mikinn hagnað af greiðasölu, ef vegurinn lægi fjærri bænum upp með vatninu. Hann gerði sér vonir um, að gestir, á leið til Þingvalla, mundu frekar slæðast heim að bæ sínum, ef vegurinn lægi rétt hjá túninu. Bóndi fór því á fund prestsins á Þingvelli og fékk hann á sitt mál til að fá ráðstöfun verkfræðingsins breytt. Prestur talaði við landshöfðingja um þetta mál. Eftir þessa krókaleið, á bak við verkfræðinginn, bar bóndi sigur úr býtum. Þannig varð hagnaðarvon, lítilsiglds kotbónda, af greiðasölu, orsök til þess að skemmdar voru ýmsar merkar sögumenjar á Þingvöllum og stór spillt útliti staðarins. Í tilefni af veginum voru hús reist á óheppilegum stöðum innan fornu þinghelginnar, gerð spjöll á jarðvegi og fornum búðarleifum, vegir lagðir og troðnir stígar um vellina þvera og endilanga.
Ríkið hefir orðið að kosta stórfé til” að afmá lýtin á Þingvöllum, þó aldrei verði það hægt um sum þeirra, einungis fyrir glappaskot að leggja veginn um Almannagjá, en ekki upp með Þingvallavatni, eins og upphaflega var ráð fyrir gert.
Árið 1896 var farið með veginn ofan í Almannagjá um svonefndan Kárastaðastíg. Þar var áður einstígi upp úr gjánni. — Sögulegast við hann er það, að sagt er, að Flosi Þórðarson og Eyjólfur Bölverksson hafi gengið þarna upp á efri gjábakkann árið 1012, er Eyjólfur þáði mútu til að taka að sér vörn í brennumálinu. En það atvik varð einn aðdragandinn að bardaga á Alþingi. Þegar vegurinn var lagður, voru klappirnar þarna sprengdar og rifnar niður. Miklu stórgrýti Kongsvegur-233var rutt óreglulega í neðri vegkantinn. Meðfram berginu var gerð mikil uppfylling undir veginn og aflíðandi halli ofan í gjána. Niðri í Almannagjá voru leifar af stórri fornmannabúð, sem giskað var á að Gestur Oddleifsson, spekingurinn frá Haga á Barðaströnd, hafi átt. Þær voru þurrkaðar út með öllu.
Þegar komið var með veginn að Drekkingarhyl var þar öllu umturnað. Sprengt úr gjábakkanum og stórgrýti dembt ofan í hylinn þar, sem hann var dýpstur. Trébrú var síðan lögð yfir gljúfrið þar, sem áin féll úr hylnum og ofan á vellina. Vegurinn var lagður stuttan spöl austur fyrir brúna, var þá hætt við hann í það sinn. Það mátti afsaka, að vegurinn var lagður eftir gjánni og jarðrask, sem af því stafaði, ef ekki hefði verið um aðra leið að gera, en það var síður en svo, eins og áður er sagt. Oft kemur fyrir að vegurinn í gjánni verður ófær af snjó frá hausti og fram á vor, kemur hann þá engum að gagni. Konungskomu ár var 1907. Í tilefni af því var þá byrjað á veginum aftur, þar sem áður var fráhorfið. Nú var gerð skörp beygja á veginn og hann lagður þvert yfir miðja Neðri vellina (Lögréttuvöllinn forna) og suður með hraunjaðrinum fyrir endann á Flosagjá, en þar var gerð einhver sú krappasta bugða, sem til er á þjóðvegi hér á landi.
Tveimur vögnum með hestum fridrik VIII - 231fyrir, varð ekki ekið eftir bugðunni, hvorum á eftir öðrum, nema maður fylgdi hverjum hesti til að koma í veg fyrir útaf keyrslu. Þarna hefir bifreiðum verið ekið útaf veginum, minnsta kosti 5 sinnum síðan 1930, þó hefir ekkert slys hlotizt af. Trébrú var lögð yfir Nikulásargjá. Hún var látin víkja fyrir steinsteypubrú laust fyrir 1930. Eftir að gjáin var brúuð 1907, var farið að grýta ofan í hana peningum. Síðan fékk hún nafnið „Peningagjá.”
Veginum var haldið áfram frá gjánni, austur hraunið að Vellankötlu. Þar hvíldist vegagerðin í 30 ár. En vegurinn frá Þingvöllum þangað austur var lagður í eins dags nauðsyn, eða eingöngu til þess, að hægt væri að aka konungi yfir hraunið, sem þó aldrei þurfti á að halda. Vegurinn var í síðan kallaður “Konungsvegur”. Þar, sem vegurinn var lagður með hraunjaðrinum, frá Neðri völlunum, sást á stöku stað votta fyrir leifum af fornum búðum. En menjar þeirra hurfu algerlega eftir að vegurinn kom. Á þessari leið var Brennugjá. Henni var einnig að mestu leyti spillt með því að hlaða veginn upp þvert yfir hana, þar sem hún opnast úr hrauninu fram að Öxará.
Um 1920 var loksins farið að byrja á að hlynna eitthvað að Þingvöllum. Vegurinn, sem lagður var 1907 þvert yfir Neðri vellina var tekinn í burtu og lagður í víðri bugðu á klöpp milli Efri og Neðri vallanna, þar sem lítið bar á honum. Var síðan sléttað rækilega yfir vegarstæðið á völlunum og öll sár grædd, sem af því stöfuðu.
Thingvallavegur gamli-231Gistihúsið „Valhöll” var rétt austan við Neðri vellina, við hina svonefndu Kastala, árið 1898. Var talið víst að því hafi verið hlassað þarna of n í æfa gamla búðartóft. Þetta var mjög óheppilegur staður. Þarna var gert ýmiskonar jarðrask, sem enn sjást merki, og áberandi óþrifnaður dreifðist út frá húsinu í allár áttir. Enginn vegur var lagður sérstaklega heim að húsinu, en þar mynduðust útflattir troðningar eftir bifreiðar, hesta og gangandi fólk. Rétt fyrir Alþingishátíðina, þegar húsið hafði staðið þarna í 30 ár, var það flutt vestur fyrir Öxará, þar sém það stendur nú. Jafnað var yfir gamla grunninn og þakinn með torfi og reynt að bæta úr áberandi jarðraski kringum hann.
,,Konungshúsið” var reist 1906 vestan við Efri vellina upp við hallann gegnt Öxarárfossi. Móttökunefnd konungskomunnar valdi því þennan stað, vegna þess, að fossniðurinn heyrðist þarna svo vel heim að húsinu. Heppilegra var þó að láta það standa austan við vellina. Þaðan mátti sjá fossinn hverfa ofan í gjána og líka heyra í honum. Þessi ráðstöfun hafði í för með sér að lagður var götuslóði eftir eridilöngum Efri völlunum heim að húsinu. Nokkrurn árum síðar var hann aflagður, en gerður vegur ofan frá húsinu þvert austur yfir vellina, og beygður í rétt horn með hraunjaðrinum heim að „Valhöll.” „Konungshúsið” var flutt um sama leyti og „Valhöll” vestur fyrir Öxará, eftir að hafa staðið þarna í liðlega 22 ár, en þvervegurinn var látinn óhreyfður. Nú er hann eingöngu notaður af gangandi fólki, sem þarna á leið upp í Almannagjá.
Enn hefst nýr þáttur í vegagerð á Þingvöllum í tilefni af undirbúningi Alþingishátíðarinnar 1930. Þá var lagður akvegur norður Efri vellina, eftir endilöngum Leirum og upp fyrir Almannagjá um svo nefndan Leynistíg, var hann látinn koma á Kaldadalsveginn fyrir sunnan Ármannsfell. Annar akvegur var lagður frá „Konungsveginum” fyrir austan Þingvallatúnið og vestur með suðurjaðri þess, yfir nýgerða steinsteypubrú á Öxará og heim á hlað í „Valhöll.” Fyrir vestan brúarsporðinn var enn lögð akbraut suður á móts við „Konungshúsið.” Braut þessi var byrjun á vegi, sem gert var ráð fyrir að síðar yrði lagður með Þingvallavatni, eða sömu leið og áætlaða vegarstæðið frá 1896. Gamla tröðin heim að Þingvallabænum var endurbætt um þetta leyti og gerð fær bifreiðum, en steinlagður, vegspotti, sem lagður var, fyrir nokkrum árum heim túnið á bak við kirkjuna, tekinn í burtu. Þá var gerður steinlagður göngustígur ofan með kirkjugarðinum, að norðanverðu fram á Öxarárbakkann, og nokkrum árum síðar haldið áfram með hann suður að Öxarárbrú, enda var þá búið að leggja niður tröðina, sem frá fyrri tímum lá frá bænum suðaustur í gegnum túnið. Er nú þarna opin leið fyrir þá, sem koma norðan frá völlunum vilji þeír stytta sér Ieið, heldur en að fara hringinn austur fyrir túnið og heim að „Valhöll.”
Eru nú taldir allir vegir á Þingvöllum, sem gerðir hafa verið af mannahöndum í seinni tíð. Flestar götuslóðir, troðnar af hestafótum á víð og dreif um Þingvelli, voru nú lagðar niður og græddar út. Þær gátu ekki lengur fullnægt farartækjum eða umferðarþörfinni. Dagar þeirra voru því taldir, hvort sem var.
konungshusid-231Þingvellir eru viðkvæmari staður, ef svo mætti segja, en nokkur annar blettur á Íslandi. Við svo að segja hvert skref þar, eru tengdir einhverjir sögulegir viðburðir frá fyrri tímum. Öll nýbreytni á þessum stað í vegagerð, húsabyggingum eða öðrum mannvirkjum, sem til lýta mega teljast, er hliðstæð því að skafa út letur á fornu og dýrmætu skinnhandriti og krota í staðinn aðra óskylda stafi.
Fyrir austan Öxará hefir miklu verið kostað til að bæta úr lýtum, sem stöfuðu frá ýmsum nýgerðum mannvirkjum, akvegir færðir til og vegarstæðin grædd út, vellirnir sléttaðir, hús, sem þarna voru til óprýðis, flutt á ánnan stað að undanskildu einu, timburkofanum við Efri vallargjána, sem enn hefir ekki verið þokað. Ýmislegt fléira er eftir að taka þarna í burtu, sem lítil prýði er að. Eitt af því er girðingafarganið á völlunum.
Þegar eftir Alþingishátíðina kom það brátt í ljós, að engin leið var að halda völlunum óskemmdum vegna bifreiðaumferðar. Ekið var yfir þá þvert og endilangt og rist ofan í þá djúp hjólför. Þá var það ráð tekið að girða þá með vírneti og gaddavír. Þetta var neyðarúrræði, en varð ekki komizt hjá því. Til þess að hægt sé að losna við girðingarnar á völlunum verður fyrst að breyta þar vegi og umferð frá því, sem nú er. Skal nú skýrt frá, hvernig það má gera.
Það stendur til að krappa bugðan við Flosagjá, frá 1907, verði bráðlega tekin af með því að sveigja veginn í víðari bugðu örfáum vegagerd fyrrum-233metrum norðar, þvert yfir gjána. Verður þá að sprengja allmikið úr öðrum gjábakkanum og auk þess að flytja að mikið grjót til að fylla upp gjána, sem þarna er hyldjúp. Efnið í uppfyllinguna hefir mönnum dottið í hug að sprengja úr berghlein í Almannagjá rétt við alfaraveginn. Ef að þessu yrði horfið, væru gerðar hér tvenns konar skemmdir. bæði þar, sem efnið er tekið, og á staðnum, sem það er látið. Um það verður ekki deilt, að stór lýti yrðu á báðum stöðunum. Þegar vegurinn var færður af Neðri völlunum, var gengið svo vel frá vegarstæðinu, að hvergi sást hvar það hafði legið. Við Flosagjá verður ekki hægt að fara eins að. Krappa bugðan , myndi verða látin standa óhreyfð þó að hin kæmi. Þá yrðu þarna framvegis tvær bugður, hvor við hliðina á annari, til stórra lýta í augum allra, sem um veginn fara.
Bugðan á veginum við Flosagjá eins og hún er nú veldur engum öðrum farartækjum slysahættu nema bifreiðum. Er þá hægt að gera hana óskaðlega hvað þær snertir með öðrum hætti en að breyta henni?
Hér að framan hefi ég bent á, að allur bifreíðaakstur ætti að leggjast niður eftir vegum um Þingvelli, frá nýju þjóðleiðinni eftir að hún er komin. Ef þetta yrði framkvæmt, hyrfi bifreiðaumferð um kröppu bugðuna við Flosagjá. Hún er þá orðin hættulaus og því óþarft að breyta henni, en gangandi fólki veldur hún engum slysum.”
G.D.

Heimildir:
-Alþýðublaðið 5. mars 1940, bls. 2-3.
-Alþýðublaðið 6. mars 1940, bls. 3-4.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Ögmundarstígur

Eftirfarandi frásögn um vegi á Suðurlandi birtist í Fjallkonunni árið 1896:
“Gamall Íslendingur í Ameríku, Björn Björnsson, í British Columbia, hefir sent Fjallk. langar ritgerðir um vegi á Suðurlandi og koma hér kaflar úr þeim: Í grend við Beykjavík liggja 15 fornir vegir:
svinaskard-2211. Kjalarnesvegrinn, sem liggur innan úr Kjós út með Hvalfirði fyrir framan Esju og yfir Kleifar að Kollafirði.
2. Svínaskarðsvegurinn. Þessir báðir vegir liggja vesutr og norðr um land.
3. Stardalsvegur eða Bringnavegur, er geta komið saman við Illuklif fyrir ofan Leirvogsvatnsenda efri og þar á Mosfellsheiðarveginn.
4. Seljadals (eða Seljadalsbrúna) vegurinn er liggur yfir Mosfellaheiði og Borgarhólaheiði.
5. Jórutindsvegur. Hann liggr frá Nesjum í Grafningi við Þingvallavatn og upp í Folaldadali, sem kallaðir eru — þar eru aðalslægjur frá Nesjum — svo liggur vegurinn hjá Jórutindi, sem er milli Folaldadalanna og þar yfir Sköflungahrygg. Er þá komið á Borgarhólaheiði. Þessa leið fer Nesjabóndi til flestra aðdrátta, og það er heybandsleið hans, er hann sækir norður í Sauðafellsflóa. Hann fer eina ferð á dag með heybandið.
6. Dyravegur. Hann liggur frá Nesjavöllum í Grafningi; sá bær er fullan mílufjórðung frá Þingvallavatni og stendur á sléttum völlum sem ligggja inn undir Hengladali. Flestir Grafningsmenn fara Dyraveg. Hann er upp í hæð í fjallgarðinum að austanverðu, sem nefnd er Flög; þá kemr önnur hæð, sem nefnd er Hella; hún er æðibrótt og í hana klöppuð spor fyrir menn og hesta. Þaðan liggur vegurinn ofan í smádali og á milli tveggja standbjarga, sem mynda hlið, og eru það Dyr þær, sem vegurinn er við kendur. Þá er er riðið eftir dal, þar til brekka kemur og tekur þar við Borgarhólaheiði. Þessi vegur liggur síðan niður lágheiðina hjá Litlumýri og Langamel og niður að Lyklafelli, og á veg þann er liggur úr Fóelluvötnum upp á norður-Bolavelli.
sporhella-2217. Sleggjubeins-dalavegur. Hann liggur sunnan við Húsmúla, efst af suður-Bolavöllum upp úr Sleggjubeinsdölum og yfir lága hæð eða háls og upp í Hengladali. Þar er æðigóð ölkelda og ágæt brennisteinsnáma, — ég veit ekki betur enn að ég hafi fundið hana fyrstur — og flutti ég úr henni nokkra hestburði brennisteins, sem álitinn var bezta tegund. Lét Jón Hjaltalín landlæknir Sverri steinhöggvara gera þennan veg eitt sinn löngu eftir að ég fann námuna og tók brennisteininn, einmitt til að geta hagnýtt sér þetta ágæta ölkelduvatn; lét Hjaltalín flytja þaðan nokkra hestburði af ölkelduvatni heim til sín. Þessa leið fór ég með Hjaltalín og má fara austanundir Henglafjöllum og ofan í Grafning ef vill, eða ofan að Reykjakoti í Ölfusi.
8. Hellisheiðarvegurinn.
lakastigur-2219. Lágaskarðs-vegurinn. Hann liggur líka um Svínahraun og eins má fara upp norður-Bolavelli og með Húsmúlanum og svo af suður-Bolavöllum á Lágaskarðsveginn. Það er æðihár háls eða hæð Bolavallamegin en brattara hinum megin og liggur vegurinn ofan í djúpan sanddal, sem liggur milli hrauns og Lönguhlíðar.
10. Ólafsskarðs-vegurinn. Hann liggur suðvestur af Fóelluvötnum yfir svokallað Sandskeið og upp með Vífilsfelli, sunnan við endann á neðri Bolaöldu, enn yfir endann á efri Bolaöldu, upp hjá Sauðadölum og svo inn í Jósepsdal. Það er falleg, stór flöt í dalnum og hamrar inst. Þar átti tröllskessa að hafa búið í fyrndinni. Þetta dalverpi er við Vífilsfell að vestanverðu. Vífilsfell er líkast því að það væri hornsteinn við Bláfjöllin er liggja fast við þar að sunnanverðu eða suðvestan, og má þar ganga upp á Vífilsfell; það gerði Vífill, er haun fór að gá til veðurs, hvort fært væri að róa til Sviðs. Hafa menn oft farið þangað með kíki í fögru veðri til að leita að skepnum; það er ekki bratt upp úr dalnum, farið utan í smáakriðu austanvert við dalinn, enn þegar komið er upp í skarðið, sem er örstutt, þá skiftast vegir; annar liggur þá nálægt í suðaustur; það er góður vegur og liggur ofan í sanddalinn milli Hrauns og Hlíða, enn hinn liggur suðvestr með Bláfjöllum, mjög grýttur enn sléttur. Hann liggur suðvestur á Þúfnavelli og ofan á Hlíðarbæi í Ölfusi.
grindaskord-22311. Grindaskarðavegur. Hann liggur aðallega úr Hafnarfirði, enn víðar má komast á hann, ef vill. Þessi vegur fer fyrst úr Hafnarfirði upp með Hamarskotslæk og upp yfir Öldur, lágar hæðir fyrir austan Hamarskot og Jófríðarstaði og svo upp með Setbergshlíð, hjá Kershelli og yfir Mygludali, er liggja milli Húsafells og Helgafells, síðan um smáöldur og þá um hraunsléttur, þar til kemr í Kristjánsdali, er liggja með fjallgarðinum milli Hrauns og Hlíðar, fyrir neðan Þríhnúka og Kóngsfell, og má og er farið með hesta alla leið hvort heldur með Bláfjalladrögunum austur í Vífifellskrók eða um Rauðuhnúka og hraunmegin við Sandfell og Selfjall og niður í Skógarhlíðarkrika, efst í Elliðavatnsheiðinni, — enn úr Kristjánsdölum fer maður upp Grindaskörð; þau eru ekki brött; skarðið sjálft örmjótt varp, enn dalur fyrir ofan skarðið; þar skiftast vegir og liggur annar austur yfir eða norðan á heiðinni há, og austur á Þúfnavelli — á þeirri heiði hefi ég séð fallega hjörð hreindýra, marga tugi — enn hinn vegurinn liggur í hásuður til Selvogs; eftir litla samveru veganna skiljast þeir aftur, og liggur þá aðalvegurinn til Selvogs, enn hinn á bak Lönguhlíð í brennisteinsnámur þær, er heyra Herdísarvík og Krýsivík.
12. vegurinn liggur úr Grindaskarðaveginum suður úr Mygludölum, og er sléttara að fara fyrir ofan Helgafell eða milli Helgafells og hraunsins, er svo kallað Skúlatún stendur í; segja sumir, að það séu þær réttu Gullbringur; það er æðifallegur blettur innan í hrauninu, óbrunninn. Beztur er vegurinn og sléttastur mitt á milli Bakhlíða og Lönguhlíðar; er þar frægasta akbrautarstæði, ef stefnt er innan við endann á Lönguhlíð. Þar næst kemur Kleifarvatn; það er stórt stöðuvatn, enn flestum vötnum óþarfara meðan ekki er flutt í það silungsveiði eða æðarvarpshólmar búnir til í því, sem hætt er við að dragist. Það minkar eða fjarar í nokkur ár og vex svo aftur. Ekki er hægt að hafa akbraut með vatninu, nema sprengdur væri berghamar, sem liggur við það. Svo er alsléttur vegur til Krýsivíkur.
13. vegurinn liggur út úr Grindaskarðaveginum að Kaldárseli og yfir Kaldá neðan undir Undirhlíðum,
sem kallaðar eru, suður að Vatnsskarði, er fara má á áðurnefndan veg við vatnið. Líka má fara suður á Ketilsstíg eða hvort er vill, suður á Velli eða í Grindavík.
14. vegurinn liggur úr Hafnarfirði upp frá Flensborg hjá Stórhöfða, þar út í hraunið og upp hjá Háfjallinu eina; það er örstuttur vegur yfir hraunið, og svo með fjallinu yfir á Ketilsstíg.
15. vegurinn liggur af Vatnleysuströnd upp heiðina og upp á Velli og Móhálsa til Krýsivíkur, allgóður vegur og stuttur.
Af öllum þessum vegum er langverst að leggja veg um Hellisheiði, hvað akstur og bratta snertir.”

Heimild:
-Fjallkonan 13, árg. 43. tbl. 1896, bls. 174-175.

Svínaskarð

Dys í Svínaskarði.

 

Gamli Þingvallavegur

Eftirfarandi lýsing á örnefnum á Mosfellsheiði eftir Hjört Björnsson má lesa í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937-1939:
Mosfellsheidi-552“Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum. Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum.
Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður” — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, Mosfellsheidi-553þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, en breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari”; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari” þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði. Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þur á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Mosfellsheidi-554Þingvallavatn.
Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum. Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni.

Mosfellsheidi-555

Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og því næst norðanundir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning. Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „í Keldunni”, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar. Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal.
Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Mosfellsheidi-556Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita. Vestan í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa nú að eins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt.
Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Mosfellsheidi-557Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð. Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðan undir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu Mosfellsheidi-558veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa. Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfeli allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.
Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar Mosfellsheidi-559nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar all-langt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vinstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum. Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. 

Mosfellsheidi-560

Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn. Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað. Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum.” Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Örnefni á Mosfellsheiði, Hjörtur Björnsson, 46. árg. 1937-1939, bls. 164-165.

Þingvallavegur

Yfirgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.

Þingvallavegur

Gamla reiðleiðin til Þingvalla frá Reykjavík lá um Seljadal.
Þar má enn sjá leifar götunnar. Vagnvegur var síðan lagður í og við reiðleiðina á síðari hluta 19. aldar. Árið 1901 var byrjað á vagnvegi upp frá Fridrik 8Reykjaveg ofan Seljadalsbrúna, sunnan Seljadals, og upp á Háamel þar sem göturnar mættust austan hans. Þeirri framkvæmd lauk 1906. Seljadalsleiðin var öll vel vörðuð, en hin ekki. Við Þrívörðuhæð skiptast aftur vagnvegirnir og gamla reiðleiðin. Árið 1906 var síðan byrjað á leið frá Þingvöllum að Geysi og Gullfossi – til handa voru danska kóngi.
Gamli Þingvallavegurinn, sem liggur yfir háheiðina, var lagður á árunum 1890-96. Byrjað var á honum af Suðurlandsvegi við Geitháls. Vegalagningin miðaðist þá að sjálfsögðu við umferð hestvagna og ríðandi fólks. Vegurinn var lagður nær á sömu slóðum sem hinar fornu ferðamannaslóðir lágu um, en þó ívið sunnar eins og fyrr sagði. Eftir lagningu hans beindist nær öll umferð um heiðina að þessum vegi. Vörður voru hlaðnar við hann á allri heiðinni til leiðbeiningar ferðamönnum.

Thingvallavegur gamli - 218

Byggt var nýtt sæluhús við veginn í stað gamla hússins, sem stóð talsvert austar og norðar, á sýslumörkunum. Talsverðar endurbætur voru gerðar á þessum vegi vegna konungskomunnar 1907. Sumarið 1913 var í fyrsta sinn ekið bifreið eftir þessum vegi til Þingvalla og var notast við hann sem bílveg eftir það í hálfan annan áratug.
Þegar fjallað er um Konungsveginn frá Reykjavík að Þingvöllum og áfram að Geysi og Gullfossi gleymst oft fyrrnefndur fyrsti hluti hans, þ.e. um Mosfellsheiði að Þingvöllum. Enn má glögglega sjá leifar vegarins. Leiðin frá Elliðakoti um Djúpadal að Vilborgarkeldu var genginn eitt kvöldið árið 2012, 105 árum eftir að Friðrik VIII. Vegarlengdin er um 21 km. Danakonungur reið þessa götu er sérstaklega hafði verið lögð af því tilefni. Ætlunin var m.a. að skoða handverkið við vegagerðina; vörður, ræsi, brýr, kanthleðslur, púkk, steinhlaðið sæluhús og leifar hins gamla veitingastaðar, Heiðarblómsins.

Thingvallavegur gamli - 202

Árið 1904, þegar Íslendingar fengu heimastjórn, má segja að hestvagnaöld hefjist; það sama ár fór sá þekkti vagnasmiður, Kristinn Jónsson á Grettisgötunni, að framleiða sína vagna. Tveimur árum síðar var lagt í stórvirki: Konungsvegurinn lagður með hökum og skóflum til Þingvalla og þaðan austur að Geysi, því von var á Friðriki konungi 8. sumarið eftir. Gert var ráð fyrir að kóngur kysi að aka í yfirbyggðum hestvagni, en svo fór að hann vildi heldur fara ríðandi og aðeins ferðakamarinn var á hjólum í konungsfylgdinni austur að Geysi. Nú sést lítið eftir af konungsveginum, sem var þó þjóðleið til Geysis og Gullfoss.
Lagning Konungsvegarins reyndi ekki aðeins á þolgæði og útsjónarsemi vegargerðarmanna sem unnu verk sitt með skóflu, haka og hestvagni heldur þurfti líka að seilast djúpt í landssjóðinn en sennilega er Konungsvegurinn dýrasti vegur sem lagður hefur verið á Íslandi ef miðað er við hlutfall af útgjöldum landssjóðsins.
Thingvallavegur gamli - 204Ráðist var í vegaframkvæmdina 1906 og lauk fyrir komu konungs 1907. Lög um landsreikning voru samþykkt fyrir árin 1906/07 í einu lagi og var kostnaður við vegabætur 220.257 krónur, stærsti hluti Konungsvegur en heildarútgjöld landssjóðs voru liðlega 3.1 milljón. Konungsvegurinn er sennilega ein dýrasta vegaframkvæmd Íslandssögunnar u.þ.b. 14% af ársútgjöldum ríkisins á þeim tíma og kostaði líka ómælt strit og dugnað vegagerðarmanna við frumstæð skilyrði.
“Erfitt er nútímamönnum að gera sér í hugarlund hvernig hingaðkoma konungs 1907 var. Gríðarlegt tilstand var: stór hluti af fjárlögum þessa árs var lagður í vegagerð um Suðurland en til stóð að konungur færi þar um í vagnalest. Var vögnum safnað af öllu landinu til að flytja föruneyti konungs.
Thingvallavegur gamli - 203Þegar til kom vildi Friðrik sitja hest og fór því föruneyti hans ríðandi að mestu. Hingað kom í sveit konungs mikill fjöldi danskra blaðamanna og fyrirmenna úr dönsku opinberu lífi. Alþingi bauð hingað 30 dönskum þingmönnum og endurgalt þar með heimboð íslenskra þingmanna frá árinu áður en þá fóru 35 af 40 alþingismönnum til Hafnar í heimsókn.
Hingað til lands kom konungur með föruneyti á þremur skipum. Var lagt upp frá Tollbúðinni hinn 21. júlí og var mikill mannfjöldi við strandlengjuna til að kveðja konung, þúsundir manna segja samtímaheimildir. Var sægur skipa sem fylgdi skipunum þremur, Birma, Atlanta og Geysi, á leið. Fyrri skipin voru fengin að láni frá Austur-Asíufélaginu, því aldna félagi sem hafði um aldaskeið einokun á viðskiptum Dana við Asíulönd. Birma var þeirra stærst, 5.000 smálestir að stærð. Tvö hundruð manns voru um borð, tuttugu þjónar, hljómsveitarmenn, kokkar auk gestanna og áhafnar.

Thingvallavegur gamli - 205

Fyrsti áfangi ferðarinnar voru Færeyjar og þangað kom konungsflotinn 24. júní. Reru heimamenn tugum báta undir flöggum til móts við flotann. Dvaldi konungur með fylgdarliði sínu í Færeyjum í þrjá sólarhringa, fór víða um eyjarnar, skoðaði atvinnulíf og híbýli manna. Lagt var upp til Íslands að morgni 27. júlí. Sóttist ferðin það vel að skip konungs máttu liggja heilan dag undan Akranesi til að ná réttum komudegi til Reykjavíkur.
Íbúar Reykjavíkur voru um tíu þúsund sumarið 1907. Þar var uppi fótur og fit hinn 29. júlí; menn voru þegar teknir að flagga og mátti víða sjá hvítbláinn við hún innan um Dannebrog. Konungur skyldi gista í húsi Lærða skólans, en gestum var víða komið niður; á Hótel Reykjavík og Hótel Íslandi. Móttökunefnd hafði aðsetur í Iðnaðarmannahúsinu. Skipað hafði verið við lægi undan landi en svo stór skip sem voru í fylgd konungs voru fátíð hér og engin höfn enn í bænum. Skyldi konungur stíga á land að morgni 30. júlí kl. 10 og skyldi bátur hans leggja að gömlu steinbryggjunni.
Thingvallavegur gamli - 206Þann dag voru allir í bænum í sparifötunum og komnir niður í Pósthússtræti þar sem nú er Tryggvagata að hylla konung.
Erlend fyrirmenni og innlend í einkennisbúningum, karlar í jakkafötum og sumir á fornklæðum, konur á skautbúningum, upphlut og dönskum búningum, börnin þvegin og snyrt og stóðu hvítklæddar ungmeyjar í röð sitthvorum megin við gönguleið konungs: pláss var tekið frá fyrir fimmtíu innlenda og erlenda ljósmyndara. Er skipafloti konungs seig inn sundin var skotið úr fallbyssum af frönsku herskipi er hér lág við festar. Hannes Hafstein hélt þegar til skips konungs og stundvíslega kl. 10 lagðist konungsbáturinn að steinbryggjunni, þeir konungur og Hannes stigu á land og Hannes bauð kóng sinn velkominn með handabandi: „Velkominn til þessa hluta ríkis yðar, herra konungur!“
“Hér á landi dvaldi konungur ásamt fylgdarliði til 15. ágúst. Hann fór um Suðurland ríðandi, sigldi síðan flota sínum vestur fyrir land, tók land á Ísafirði, fór síðan norður fyrir og kom við á Akureyri og loks austur um með lokaáfanga á Seyðisfirði.
Hvarvetna sem Friðrik áttundi fór kom hann fram við háa og lága sem jafningja sína, gaf sig að múgamönnum rétt sem embættismönnum. Hann var forvitinn um hagi fólks, alúðlegur og alþýðlegur. Víst er að móttökur þær sem hann fékk hér á landi hafa hlýjað honum um hjartarætur. Samtímaheimildir danskar eru fullar af hrifningu, geðshræringum, yfir viðtökum. Enda fór svo að konungur hreyfði í för sinni sjálfstæðismálum þjóðarinnar, nánast í blóra við ráðherra sína.”

Thingvallavegur gamli - 207

“En hann gaf íslenskum almenningi annað sjálfstæði ekki minna að virði: hann veitti þeim tækifæri í samtakamætti að skarta öllu sínu með þeim árangri að þeir fengu hrós fyrir og gátu verið stoltir af; bara konungsvegurinn austur var gríðarstórt afrek og synd að hann skuli ekki betur varðveittur og nýttur.
Margt af viðbúnaði hér var með séríslenskum hætti; til fundar við konung riðu bændur í Eyjafirði hópreið til Akureyrar og sátu einungis hvíta hesta. Er margt í lýsingum gestanna með sérstökum sakleysisbrag. Því heimsókn konungs var ekki síður landkynning sem beindist einkum gagnvart Dönum sjálfum og hefur vafalítið átt sinn þátt í hinni djúpstæðu lotningu sem hefur um langan aldur ríkt í Danmörku fyrir Íslandi, sögu og náttúru.”

Örn H. Bjarnason skrifaði m.a. um Konunsveginn:
 “Í lok júlí 1907, um miðjan þingtíma Alþingis, komu gestirnir til Reykjavíkur á tveimur skipum og herskip til fylgdar.

Thingvallavegur gamli - 208

Fyrir Íslendinga var konungskoman stór stund. Barnungur sjónarvottur minntist þess síðar hvað honum fannst „skrúðganga gegnum bæinn, með konung og Hannes Hafstein í fylkingarbrjósti, óumræðilega stórkostleg, og sólin aldrei hafa skinið yfir jörðina með þvílíkri birtu.“
Konungskoman var líka stórframkvæmd fyrir Íslendinga, sem vildu tjalda því sem til var að veita gestunum viðeigandi og eftirminnilegar móttökur. Frá Reykjavík var farið með gestina í vikuferð á hestum um Suðurland. Hátíð var haldin á Þingvöllum, líkt og við fyrstu konungsheimsókn til Íslands 1874, með nær sex þúsundum gesta.
Ferðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.
Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand Thingvallavegur gamli - 210leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir. Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.
Thingvallavegur gamli - 211Hófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.
Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi. Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.

Thingvallavegur gamli - 212

Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Danielsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.

Thingvallavegur gamli - 209

Leifar Heiðarblómsins.

Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna.
Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.
Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel.
Thingvallavegur gamli - 213Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs. Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.
En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.
Thingvallavegur gamli - 214Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.
En við vorum stödd á Þingvöllum. Þar höfðu miklar vegabætur farið fram sem og annars staðar á leið konungs.

Thingvallavegur gamli - 215

Árið 2000 voru líka lagðir vegir á Þingvöllum. Það tengdist Kristnitökuhátíðinni. Þetta voru mjög snotrir vegir út um alla móa, en lágu svo sem ekkert sérstakt að mér fannst. Áhugavert þótti mér að sjá hvílíkri tækni vegakarlar bjuggu yfir þegar þeir mokuðu þessum sömu vegum upp á vörubíla aftur og keyrðu í burtu. Þarna hófst nýr kafli í samgöngusögu þjóðarinnar. Það er ekki enn búið að moka í burtu Kóngsveginum gamla en slitróttur er hann orðinn á köflum.”
Á háheiðinni er enn að finna tóftir veitingahússins Heiðarblómsins sem rekið var þarna á heiðinni á árunum 1925-1930. Rekstri þar var hætt um leið og vegurinn lagðist af í kjölfar Alþingishátíðarinnar 1930, en af því tilefni var nýr malarvegur lagður um Mosfellsdal til Þingvalla.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 40 mín.
Sjá meira HÉR, HÉR og HÉR.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. september 1991, bls. 3.
-Morgunblaðið, 3. mars 2007, bls. 32.
-Morgunblaðið 15. júní 2007, bls. 40.
-Fréttablaðið, 31. maí 2007, bls. 64.
-heimastjorn.is/heimastjornartiminn/thingmannaforin-og-konungskoman/index.html
-hugi.is. Gamlar götur – Konungskoman 1907, Örn H. Bjarnason.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða framundan.

Kross

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Hjalli-2Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.
Þegar svæðið ofan við Þóroddsstaði var skoðað kom m.a. í ljós hringlaga gerði. Að sögn bóndans hafði svæðið allt verið sléttað út fyrir allnokkru og því erfitt að gera sér grein fyrir gamla bæjarstæðinu af einhverjum áreiðanleik.
Hjalli-3Um hlaðið á Þóroddsstöðum liggur Suðurferðagata um 8 km að þjóðvegi 1 á Hellisheiði. Leiðin er svo kölluð vegna þess að hún var flutningaleið til Reykjavíkur og frá. Hún var einnig nefnd Skógargata, því að þar fóru Hjallamenn í Grafning til hrísrifs. Frá Þóroddsstaðahlaði þarf að stefna fyrst vestar en í meginstefnu, yfir gaddavír og að vörðubroti (N63°7´55 / V21°16´42). Hér er beygt til hægri, farið yfir Hvanngil ofan gljúfra, og stefnt milli Fremra- og Efra-Háleitis. Norðan Háaleita er best að fylgja vesturbrún Þurárbrunans, sem rann um Krists burð, og þvert yfir hann (beygja við N64°00´06 / V21°16´55) þar sem hann er mjóstur, á móts við miðja Hverahlíð. Þá er stutt að Lofti, þar sem einn farvegur Hengladalsár rann undir þjóðveg 1 (við 40 km steininn).
Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910.
Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar.
Leiðin er ágætis dæmi um veg frá síðustu öldum þar sem hún er sýnileg. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.
-Eiríkur Einarsson. Örnefnaskrá. Hellisheiði. Örnefnastofnun.
-Örnefnaskrá. Örnefnalýsing Þóroddsstaða. Örnefnastofnun.
-Hengill og umhverfi – Fornleifaskráning 2008, Kristinn Magnússon.

Hjallakirkja

Í Hjallakirkju.