Mynd af mönnum á hestum á leið yfir Kapelluhraun birtist í The Illustrated London News árið 1866.
Þeim sem ferðuðust um Ísland þótti hvað einkennilegast og ógnvænlegast að fara um landsvæði sem voru þakin hrauni, “þar sem ekki óx strá, ekki var vatnsdropa að finna, hvergi var fugl á flugi og ekkert lífsmark sjáanlegt”. Í þessu sambandi töluðu margir um leiðina frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur og álitu að erfitt hlyti að vera fyrir aðra að gera sér í hugalund hvernig umhverfið þar liti út. Sennilega líkist það einna helst skriðjökli í sínu úfnasta formi eða jafnvel stórsjóum sem hvirfilvindur hefur farið um en svo skyndilega orðið að steini. Yfir þennan óveg gat þó hinn “vitri íslenski smáhestur” komist klakklaust.
Samkvæmt lýsingum margra erlendra ferðamann á leið um landið var það hræðilegt á að líta. Leiðin til Krýsuvíkur var oft tekin sem dæmi um hræðilega hraunauðn. Einn ferðamannanna gat t.d. um konuhræ við leiðina, sem enginn virtist hafa áhuga á að færa til graftrar.
Í dag eru hraunin eitt helsta aðdráttarafl ferðamanna.
-Ísland – framandi land – Sumarliði Ísleifsson – 1996