Fornagata
Minjagildi fornleifa hefur jafnan flækst fyrir fólki, ekki einungis nútímafólki heldur og flestum forfeðrum og -mæðrum þess. Svo mun og líklega verða um ókomna framtíð.
SandakravegurSegja má að gildið hafi jafnan ákvarðast af viðhorfi, mati og skoðun viðkomandi hverju sinni. Þannig voru t.a.m. samtímabúskaparhættir fyrrum ekki metnir til jafns við “fornar búskaparaðferðir” þótt í rauninni hafi verið lítill munur þar á – allt fram undir lok 19. aldar eða jafnvel byrjun þeirrar 20. Hið forna var einkum tengt við “áþreifanleg orð” fornsagnanna, s.s. Íslendingabókar og Landnámu sem og afsprengi þeirra. Gamlar götur þóttu t.d. ekki í frásögu færandi – enda þá í hinni sömu “eðlilegu” notkun og ávallt fyrrum. Það var ekki fyrr en samgöngur breyttust allverulega með tilkomu sjálfrennireiðarinnar og allrar þeirra nauðsynlegu úrbóta á samgönguleiðum er hún krafðist, að fyrrum gengnar götur urðu “fornleifar” án sérstaks skilnings fólks. Skipti þá engu hvort þær voru farnar -um sumur eða að vetrarlagi. Gott dæmi um slíka götu á Reykjanesskaganum er Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan milli Hvalsness og Keflavíkur. Hina[r] fornu fyrrum götu[r] má enn sjá liðast hlykkjótta[ar] um móa Miðnesheiðarinnar. Vetrarleiðin, sem var notuð síðar og þá væntanlegan um tiltölulega skamman tíma, er vandlega vörðuð með vel varðveittum vörðum. Utan beggja leiðanna liggja úrbætur til handa hestvagninum og síðar sjálfrennireiðinni, fyrst mjór og grófur kanthlaðinn malarvegur um holt og hæðir annars vegar og síðar malbikaður, rennisléttur og tvíbreiður, hins vegar. Framtíðin mun eflaust og án nokkurs vafa bæta enn við þá samgönguþróun. Þess vegna skipta gömlu göturnar svo miklu máli – til framtíðarinnar litið.

Kaupstaðavegur

Í riti fornleifafræðinganna Orra Vésteinssonar og Guðmundar Ólafssonar; “Fornleifaskráning – skilgreining, leiðbeiningar og skráningaraðferðir. Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifastofnun Íslands 1997”, kemur m.a. eftirfarandi fram um minjagildi:
“Minjar eru ólíkar bæði að eðli, útliti og ástandi og minjagildi þeirra er afar mismunandi. Skrásetjari getur á vettvangi lagt huglægt mat á minjagildi fornleifa út frá fjórum mismunandi forsendum, þ.e. menningarsögulegu-, vísindalegu-, fræðslu- og skoðunargildi.
Menningarsögulegt gildi hafa staðir eða fornleifar sem tengjast nerkum atburðum í sögu þjóðarinnar, t.d. hafsögu eða verslunarsögu. Það geta t.d. verið einstakar búskaparminjar, sögulegir merkisstaðir svo sem hof, verslunarstaðir, þingstaðir o.s.frv.
Vísindalegt gildi hafa staðir sem ætla má að geti gefið mikilsverðar fornfræðilegar upplýsingar við rannsókn án tillits til Varðayfirborðsútlits. T.d. einstakar minjar, minjasvæði, svo sem bæjarstæði, verslunar- og þingstaðir, greftrunarstaðir, o.s.frv.
Fræðslugildi hafa minjar sem varpað geta ljósi á ákveðna þætti menningarsögu þjóðarrinnar, eða eru t.d. dæmigerðir fyrir ákveðna tegund minja, á þess að þær séu einstakar í sinni röð. Þvert á móti gætu þær t.d. verið af algengustu gerð beitarhúsa á viðkomandi svæði.
Skoðunargildi hafa minjar, sem eru svo vel varðveittar, að þær hafa almennt sjónrænt gildi fyrir þá sem skoða þær, og þannig t.d. aukið skilning manna á búskaparháttum, landnotkun eða samfélagsgerð.
Minjagildið fer eftir því hve mörg ofangreind skilyrði minjarnar uppfylla. Þær geta flokkast í fjóra flokka:
A) Bestu dæmi um einstakar tegundir minja og minjasvæða. Minjar sem hafa mikið menningarsögulegt gildi, mikið vísida- og fræðslugildi og jafnframt mikið skoðunargildi.
VarðaB) Minjar sem eru góð dæmi um einstakar minjar og minjasvæði sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt gildi og fræðslu- eða skoðunargildi.
C) Minjar eða svæði sem geta haft menningarsögulegt og vísindalegt gildi og hugsanlegt fræðslu- eða skoðunargildi. T.d. skaddaðar minjar og svæði, eða minjar sem erfitt er að skilgreina fullkomlega samkvæmt öðrum flokkum.
D) Minjar sem hafa lítið sem ekkert minjagildi.”
Gamlar götur hafa minjagildi, hvort sem um er að ræða, menningarsögulegt, vísindalegt, fræðslulegt eða skoðunarlegt. Skiptir þá einu hvort þær hafi verið alfaraleiðir eða fáfarnar leiðir, jafnvel árstíðabundnar. Við þetta mætti bæta “notkunargildi” eða hagnýtt gildi, þ.e. þær eru enn nothæfar sem slíkar (fara t.d. fótgangandi milli staða eins og fyrrum).
Forn gata Nokkrar gamlar þjóðleiðir á Reykjanesskaganum þykja merkilegar fyrir það eitt að vera “ásjálegar”, þ.e. þær eru svo áberandi markaðar í slétta hraunhelluna eftir hófa, klaufir og fætur um aldir, að jafnvel blindir gætu fylgt þeim frá upphafi til enda. Aðrar götur hafa þó verið fetaðar jafn lengi, en vegna undirlagsins hafa þær ekki náð að “markaðssetja” sig með jafn áberandi hætti. Þær hafa því orðið “úrleiðis”, en verða þó óneitanlega að teljast jafn merkilegar og “systur” þeirra.
Hafa ber í huga að “gata” og “leið” þurfa ekki alltaf að vera það sama – þótt hvorutveggja geti í rauninni verið óaðskilið. Gata hefur jafnan verið túlkuð sem sýnilegt “einstigi”, jafnvel varðað eða auðkennt með öðrum hætti – oft á milli mikilvægra þéttbýliskjarna, s.s. Útnesja og Innnesja. Leið hefur á sama hátt verið skilgreind sem gata milli áfangastaða, án greinilegra auðkenna. Fólk, sem oft hefur þekkt vel til staðhátta, hefur farið þá leið sem því hentaði hverju sinni, allt eftir því hvaðan það kom eða hvert það var að fara. Þar eru göturnar fleiri og jafnvel ógreinilegri – en götur samt.

Vörðubrot

Þá eru nokkur dæmi um götukafla þar sem fleiri en ein gata eða/og leið komu saman og eru verksummerkin þar oft greinilegri en annars staðar. Má í því sambandi nefna Skógfellastíg og Sandakraveg (Sandhalaveg).
Framangreint er ekki síst sett fram til að minna á gildi hinna gömlu gatna og leiða. Gæta þarf þess t.d. vel við framkvæmdir að þeim verði ekki spillt að óþörfu – eins og því miður allt of mörg dæmi eru um. Og ekki má gleyma að vörðurnar við hinar gömlu leiðir eru einnig, margar hverjar, fornleifar.
Þegar fornleifar eru skráðar á Reykjanesskaganum vilja framangreindar fornleifar fara fyrir lítið. Vanskráningin getur valdið því að fornminjar fari forgörðum.

Leið

Hvalsnesvegur.

Heimild:
-Orri Vésteinsson og Guðmundur Ólafsson. Fornleifaskráning – skilgreining, leiðbeiningar og skráningaraðferðir. Þjóðminjasafn Íslands og Fornleifastofnun Íslands 1997.

Gata

Varða við Hvalsnesveg.