Handrit

Eftirfarandi er úr grein Orra Vésteinssonar er birtist í Lesbók MBL laugardaginn 3. mars árið 2001:

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli eldra.

“ÖLLUM fornleifum fylgir sá kostur að þær eru áþreifanlegar og ótvíræðar að vissu marki. Rituð heimild getur verið tilbúin eða ýkt, en sverð er sverð og spjót er spjót, hvorki meira né minna,” sagði Kristján Eldjárn í lokaorðum rannsóknar sinnar á íslenskum kumlum og haugfé árið 1956. Það er ekki laust við að það hlakki aðeins í Kristjáni, og í þessum orðum má sjá yfirlýsingu um að fornleifar séu – vegna áþreifanleika þeirra – betri heimildir um fortíðina en ritheimildir. Kristján átti að vísu aðeins við að spjót og sverð frá víkingaöld væru betri heimildir um spjót og sverð frá víkingaöld heldur en ritheimildir frá miðöldum sem geta um slík vopn. Gripurinn er betri heimild um sjálfan sig en lýsing á honum. Sjálfur taldi Kristján að fornleifar gætu ekki orðið undirstaða sjálfstæðrar söguritunar – þær gætu aldrei orðið annað en hjálpargögn til nánari útskýringar sagnfræðilegum álitamálum.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

En til hvers grafa menn þá eftir fornleifum og hætta lungum sínum við að handfjalla þær á rykugum söfnum? Hvað er vert að vita um sverð og spjót víkingaaldar annað en það sem fram kemur í ritheimildum: að þau voru til og notuð til að drepa menn? Þurfum við gripinn sjálfan til að skilja það?
Menn hafa fyrir löngu komist að því að af fornleifum er hægt að draga ályktanir um ýmislegt annað en þær sjálfar. Það er að segja sverð er ekki bara sverð það er líka afurð ákveðinnar tækni, járnvinnslu og járnsmíða, það er verslunarvara og það getur falið í sér tákn um hugmyndafræði, stéttaskiptingu eða áhuga á ofbeldi til dæmis. Eitt stakt sverð getur gefið okkur ýmislegt til kynna um þessi atriði en mörg sverð frá löngum tíma og stóru svæði eru heimildasafn sem felur í sér möguleikann á sjálfstæðri söguritun.

Herdísarvík

Herdísarvík – stoðhola í elstu bæjartóftinni.

Á 19. öld áttuðu menn sig á því að í fornleifum væru faldar heimildir um liðna tíð og vildu sporna við því að þær væru bræddar niður af fjárplógsmönnum eða að þær yrðu arinskart smekklausra minjagripasafnara sem ekkert skynbragð báru á íslenska sögu eða menningu. Heimildagildi fornleifa má telja að hafi verið álitið tvennslags á 19. öld. Annars vegar var mikill áhugi á fornleifum sem höfðu verið eign eða á einhvern hátt tengdust frægum einstaklingum – margir vildu finna öxina Rimmugígi, einn fann steininn sem Ingjaldsfíflið var bundið við og skyr Bergþóru var rannsakað af færustu efnafræðingum Kaupmannahafnarháskóla. Þessi áhugi er auðvitað enn við lýði og er skemmst að minnast leitar að höfuðbeinum Egils Skallagrímssonar. Okkur finnst líka sjálfsagt að geta skoðað skrifpúlt Jóns Sigurðssonar á Þjóðminjasafninu. Ef við leiðum hugann að því þá er auðvitað ólíklegt að það að geta horft á og jafnvel stolist til að snerta þetta skrifpúlt auki skilning okkar á sjálfstæðisbaráttu Íslendinga eða kjörum íslenskra fræðimanna í Kaupmannahöfn á 19. öld. Gildi skrifpúltsins er fyrst og fremst tilfinningalegt – það færir okkur nær sögupersónunni og tíma hans og er jafnframt tákn fyrir heilmikla sögu sem sögð er á bókum og skiptir okkur máli.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Hin hliðin á heimildagildi fornleifa sem þróaðist á 19. öld var af sama meiði en snerist ekki um einstaklinga eða atburði heldur um meira abstrakt hugmyndir, um þjóðfélagsskipan, efnahagsástand, verslunarsambönd og þess háttar.
Fyrir Kristjáni Eldjárn var haugfé ekki heimild um einstaklinginn sem átti það heldur um tímasetningu landnáms og kristnitöku. Það var jafnframt tákn fyrir ákveðið tækni- og menningarstig, um heiðni og víkingaöld, og skýr vísbending um þjóðerni landnámsmanna. Um miðja 20. öld hafði akademísk fornleifafræði þróast frá einfaldri þróunarhyggju þar sem forngripum var raðað í tímaröð til að sýna fram á framþróun mannsins frá apa til séntilmanns, í átt að því sem kalla má menningarfornleifafræði. Menn höfðu komist að því að mannskepnan hafði ekki þróast í takt um alla jörð, heldur voru einstakir hópar mislangt á veg komnir á mismunandi tímum. Fornleifafræðingar fóru þá að leggja áherslu á að skilgreina þessa hópa, safn gripa með ákveðin einkenni sem finnast á sama svæði á sama tímabili, og túlkuðu slík söfn sem mismunandi þjóðir eða samfélög.

Eldaskáli

Langhús – eldaskáli.

Fornleifafræði sem fæst eingöngu við að sanna eða afsanna það sem fram kemur í ritheimildum getur aldrei orðið mjög frjó. Hún verður í besta falli myndskreyting, uppfyllingar- og ítarefni sem gerir söguritið skemmtilegra, hjálpar lesandanum að sjóngera fortíðina en breytir í raun litlu um skilning hans á henni. Það er hins vegar á þessu plani sem fjölmiðlar fjalla um fornleifafundi og í huga almennings er það þetta sem fornleifafræðingar gera – þeir finna bæ Ingólfs og atgeir Gunnars og virðist engan hneyksla þótt tugum milljóna sé eytt í slík verkefni. Nú stendur yfir uppgröftur við Aðalstræti í Reykjavík og þar hafa meðal annars verið grafnar fram leifar Innréttingahúsa frá seinni hluta 18. aldar. Ein fyrsta fréttin sem greindi frá þessum uppgrefti nú í janúar fjallaði að stórum hluta um stétt sem verið hefur í húsaporti milli þriggja samtengdra Innréttingahúsa. Það sem blaðamanninum fannst merkilegt var að stéttin skyldi vera þarna – það dugði honum, og sennilega lesendum hans, að fundist hefði mannvirki sem hægt er að benda á og segja: “svona var umhorfs á Innréttingatímanum í Reykjavík – þarna gæti Skúli Magnússon hafa gengið um. Á sama plani væri svo sagnfræðingurinn sem tæki ljósmynd af stéttinni og setti hana í bók sína um sögu Innréttinganna til að brjóta upp textann eins og það er kallað.

Höggstokkur

Höggstokkur 1830.

Fyrir fornleifafræðing hefur stéttin í Aðalstræti 14 svipað gildi og einhver tiltekin setning úr miðri Íslendingasögu. Setningin ein og sér er takmörkuð heimild – af henni má kannski draga einhvern lærdóm eða fá innsýn inn í miðaldaheiminn en gildi hennar liggur fyrst og fremst í því að vera hluti af heild.
Þetta snýst því að hluta til um mælikvarða – það sem gestur sér eða er mest áberandi í fornleifauppgrefti er ekki endilega hinar merkingarbæru einingar sem fornleifafræðingurinn fæst við. Fyrir honum er uppgröfturinn allur eins og bók – og ekki frekar en að sagnfræðingur getur tjáð sig af mikilli speki um heimildirnar sem hann fæst við fyrr en hann er búinn að lesa þær þá getur fornleifafræðingurinn oft lítið sagt sem heyrir til stórtíðinda í fortíðarbransanum fyrr en hann hefur lokið við uppgröft sinn.

Málmleitartæki

Fornleifafræðingar nota málmleitartæki.

Um og upp úr 1960 uppgötvuðu fornleifafræðingar að til væru aðrar hliðar á fortíðinni en þær sem ritheimildir segja frá. Þá átti sér stað heilmikið uppgjör við menningarfornleifafræði eins og þá sem Kristján Eldjárn er fulltrúi fyrir og ungir og reiðir fornleifafræðingar – einkum í Bandaríkjunum – höfnuðu hinni sagnfræðilegu orðræðu fornleifafræðinnar og vildu byggja sér sjálfstæða orðræðu. Þessi stefna, sem kölluð er Nýja fornleifafræðin eða prósessúal fornleifafræði, sótti styrk sinn til tölfræði, félagsvísinda og landafræði. Listfræðilegum aðferðum og unun góðra gripa var kastað fyrir róða og í stað þess var hafist handa við að búa til lýsingar á horfnum samfélögum sem byggðust á mælingum, vegalengdum, fjölda eða þyngd gripa og innbyrðis afstöðu þeirra. Það er einföldun, en segja má að samhengi fornleifanna, bygginga eða gripa, hafi fengið merkingu þar sem áður var aðeins spáð í þær sem einstaklinga. Þessar nálganir hafa reynst frjóar og skilningur manna á forsögulegum samfélögum hefur aukist gríðarlega.

Gangabær

Gangabær.

Og lesendum þarf ekki að koma á óvart að þar sem til varð prósessúal fornleifafræði þá er nú komin póst-prósessúal fornleifafræði, en hún hafnar kerfisáráttu og talnagleði forvera sinna og leggur áherslu á túlkun og hinar huglægu breytur í mannlegu samfélagi.
Lítil merki hafa sést um þessa þróun á Íslandi, enda hefur ekki verið sama þörf á nýjum aðferðum hér þar sem við höfum þegar ágæta mynd af fortíð lands og þjóðar byggða á ritheimildum. Íslenskir fornleifafræðingar hafa fyrst og fremst fengist við að finna svör við sagnfræðilegum spurningum, fylla út í hina sagnfræðilegu mynd og framleiða myndefni. Þeir hafa sýnt furðulega lítinn áhuga á að búa til sjálfstæða orðræðu um fyrstu tvær aldir Íslandssögunnar – sem þó er forsögulegur tími og nokkuð ljóst að aðrar heimildir en fornleifar eru ekki líklegar til að bæta við þekkingu okkar um hann – og ekki sýnt minnstu tilhneigingu til að búa til sjálfstæða orðræðu fornleifafræði hins sögulega tímabils eftir 1100.

Torfbær

Torfbær.

Meðal hefðbundinna verkefna íslenskra fornleifafræðinga er að velta fyrir sér þróun íslenska torfbæjarins. Það er að segja hvað olli því að íveruhús manna breyttust smátt og smátt frá einföldum skálabyggingum til gangabæja með mörgum litlum herbergjum? Það er nokkuð samdóma álit þeirra sem um þetta hafa fjallað að í þessari þróun megi sjá merki um hnignun, einkum í hinum síðari stigum hennar, og hafa menn jafnvel reynt að tengja þessa þróun við hag þjóðfélagsins á sviðum eins og verslun og sjálfstæði; stór og einföld hús eru þá á tímum sjálfstæðis og frjálsrar verslunar en húsin minnka og skiptast meira niður eftir því sem stjórn landsins og verslun við það kemst meira og meira í hendur útlendinga. Ástæðurnar fyrir þessari þróun húsagerðar sem helst hafa verið nefndar eru annars vegar kólnandi veðurfar á síðmiðöldum og fram yfir 1800 og hins vegar þverrandi aðgangur að góðu byggingarefni. Meiningin er þá sú að menn vildu hafa byggt sér stóra og einfalda skála en bara gátu það ekki vegna ytri aðstæðna og urðu að láta sér nægja þrönga torfkofa í staðinn. Síðan hefur það farið eftir því hvort menn eru hallari undir vistræðilegar eða efnahagslegar skýringar á harmsögu þjóðarinnar hvora orsökina menn telja mikilvægari.

Bæjarhús

Einföld bæjarhús.

Fyrsta viðbragð prósessúal fornleifafræðings við slíkum hugmyndum væri að spyrja hvort þær ættu í raun við rök að styðjast. Hann myndi fara með reglustiku og mæla út flatarmál allra þessara bæja frá mismunandi tímum. Hann myndi þá komast að því að stórir gangabæir frá því eftir siðaskipti eru síst minni að flatarmáli en hinir stóru skálar landnámsaldar. Rýmið er raunar í mörgum tilvikum mun meira í gangabæjunum – því er bara skipt meira niður. Prósessúal fornleifafræðingurinn er hallur undir félagsfræðilegan þankagang og myndi í framhaldi af þessu spyrja hvort ekki væri nær að líta á þessa þróun sem merki um ákveðna aukningu lífsgæða. Það er snyrtilegra og skipulegra að aðgreina rými fyrir geymslu, svefn, eldamennsku, vinnu og gestamóttöku en að hafa þetta allt í einu herbergi – innan um húsdýrin jafnvel.

Hofstaðir

Garðabær – Hofsstaðir fyrrum…

Póst-prósessúal fornleifafræðingurinn gæti hugsað sér að líta á þessa þróun táknrænt. Til dæmis þannig að samfélagið hafi verið flóknara á 16. öld en á þeirri 10. og að það endurspeglist í því hvernig menn raða niður híbýlum sínum. Hann gæti hins vegar líka bent á að viðtekinn heimilishiti er afstæður, hann er menningarleg breyta. Það hlýtur að hafa verið kalt í stóru skálunum á Hofstöðum, Skallakoti eða Ísleifsstöðum og breytir litlu þótt það hafi verið einni gráðunni heitara að meðaltali á landnámsöld. Kannski fóru menn að gera auknar kröfur um meiri hita á heimilum, kröfur um aukin þægindi – og gætu þær hafa verið alveg óháðar hitasveiflum í náttúrunni – sem leiddu til þess að híbýlum var breytt þannig að þau héldu betur hita. Það má jafnvel túlka þetta sem tákn um velmegun – áherslur á lífsþægindi af þessu tagi koma yfirleitt ekki upp á yfirborðið nema í samfélögum þar sem afkoman er trygg og menn öruggir um sinn hag.”

-Lesbók – laugardaginn 3. mars, 2001
-Orri Vésteinsson

Handrit

Handrit.