Urriðakot

“Fornleifarannsóknir hafa staðið yfir á Urriðakoti á síðustu árum vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu. Urriðakot á sér ekki langa sögu í heimildum en bæjarins er fyrst getið á 16. öld. Átti því enginn von á því þarna myndu koma í ljós svo umfangsmiklar fornminjar sem raun ber vitni.

Urridakot-fornleifauppgroftur-22

Við uppgröftinn hafa fundist skáli, fjós, geymsla, búr og soðhola frá landnámi fram á 11. öld. Nánari aldursgreining þarf að fara fram til að hægt sé að segja hvort minjarnar séu frá fyrstu tíð landnáms. Frá miðöldum – eða rétt eftir 1226 – hafa fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma. Það kann að hafa staðið ofan við uppgraftarsvæðið.
Varðveisluskilyrði eru ekki góð, torfið niðurbrotið, svæðið uppblásið svo að mannvistarlög eru hvergi þykk og jarðvegur súr þannig að lífrænar leifar varðveitast illa. Hvorki hafa fundist margir gripir né bein nema brunnin. Merkilegir gripir hafa þó fundist á svæðinu, fyrst og fremst snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með áletruðum rúnum. Fátítt er að finna gripi með rúnaristum á Íslandi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur.
Margt bendir til þess að þarna hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta. Er það mjög áhugavert þar sem ekkert sel hefur verið að fullu rannsakað á Íslandi.”
Urridakot-fornleifauppgroftur-23Þegar uppgröfturinn við Urriðavatn var skoðaður virtist a.m.k. tvennt augljóst. Rétt mun vera að þarna kann (og reyndar mjög líklega) hafa verið gömul selstaða, líklega frá 13. eða 14. öld. Miðaldalagið frá 1226 er undir veggjunum (sagt með fyrirvara um að aldursgreiningar sýna liggi fyrir). Enn eldri “Íveruskáli”, 12 metra langur, hefur líklegast verið tímabundinn nytjastöð frá ríkum þjóðveldisaldarhöfðingja, hugsanlega frá Hofstöðum. Við hliðina á skálanum er fjós frá sama tímabili, auk tveggja annarra húsa. Gólfið í fjósinu hefur verið flórað að hálfu. Haðinn garður vestan “beitarhússins” styður þá tilgátu. “Soðholan” er væntanlega leifar samkomuhalds í eldra selinu. Eldhús yngra selsins hefur verið grafið upp og má sjá eldstæðið. Um er að ræða fyrsta eldhúsið í seli, sem grafið er upp í heild, á Reykjanes-skaganum.
Urridakot-fornleifauppgroftur-24Neðri tóftin, tvískipta eru líklega leifar af stekk. Efstu tóftirnar tvær eru sennilega baðstofa og búr).
 Bæði rýmastærðin og staðsetningin á selstöðinni er dæmigerð fyrir selstöður á Reykjanes-skaganum; norðaustan við vatn í aflíðandi brekku sem skjól fyrir austanáttinni (rigningaráttinni).
Selin voru tímabundnar og sérhæfðar nytjastöðvar til ýmissa nota, útstöðvar frá bæjunum. Á Reykjanesskaganum má í dag (2011) sjá a.m.k. 270 aðrar selstöður.

Ragnheiður Traustadóttir, fornleifafræðingur, segir fundinn hafa komið verulega á óvart, enda á Urriðakot sér ekki langa sögu í heimildum en bæjarins er fyrst getið á 16. öld. „Fyrsta könnun var gerð í Urriðakoti 2007 en í fyrra átti að klára verkefnið. „Þá ákvað ég að opna á milli svæðanna sem voru til skoðunar. Ekkert sást á yfirborði og engar heimildir eru um eitt eða neitt á svæðinu en þarna fannst glæsilegt fjós frá landnámstíð.“

Urridakot-fornleifauppgroftur-26

Ragnheiður segir að við uppgröftinn hafi einnig fundist skáli, geymsla, búr og soðhola frá landnámi fram á 11. öld en nánari aldursgreining þarf að fara fram “til að hægt sé að segja hvort minjarnar séu frá fyrstu tíð landnáms. Frá miðöldum – eða rétt eftir 1226 – hafa þá fundist leifar af búri, eldhúsi og skemmu, en ekki hefur komið í ljós neitt íveruhús frá þeim tíma en það kann að hafa staðið ofan við uppgraftarsvæðið. Fáir en merkilegir gripir hafa fundist á svæðinu, fyrst og fremst snældusnúðar, annar skreyttur og hinn með rúnum. Fátítt er að finna gripi með rúnaristum á Íslandi. Auk þess hafa fundist tvær perlur frá víkingaöld, bökunarhellur, brýni, innflutt frá Noregi, járnhnífar, naglar og ýmsar bronsþynnur, að sögn Ragnheiðar sem segir margt benda til að í Urriðakoti hafi verið seljabúskapur en ekki föst búseta, en ekkert sel hefur verið að fullu rannsakað á Íslandi.
Urridakot-fornleifauppgroftur-3Um minjarnar segir Margrét Valmundsdóttir, fornleifafræðingur, þetta: “Í ljós hafa komið leifar skála frá þeim tíma sem land byggðist. Elstu mannvistarleifarnar liggja beint ofan á landnámslaginu [gjósku sem féll árið 871 +/- 2 ár] og svo höfum við grafið upp lítinn skála af elstu gerð sem er að minnsta kosti frá 11. öld, ef ekki eldri.”
Margrét segir að ekki fari á milli mála að minjarnar séu mjög gamlar þótt nákvæmri aldursgreiningu sé enn ólokið og uppblástur og seinni tíma framkvæmdir hafi raskað þeim nokkuð.
Nokkrir fornir gripir hafa fundist svo sem skreyttur snældusnúður úr íslenskum sandsteini, brýni og innflutt bökunarhella frá Noregi. Skálinn hefur ekki verið nema 10 metrar á lengd, byggður úr torfi. Ekki hafa fundist eldstæði í honum en eldunaraðstaða kann að hafa verið í öðru smágerðu mannvirki litlu neðan við hann. Það er frá sama tíma og geymir leifar af eldstæði, móösku og brenndum beinum.
Urridakot-fornleifauppgroftur-25“Það er ekki ólíklegt að þetta hafi verið sel. Þarna hafi ekki verið föst búseta. Mannvistarlög eru þunn og við höfum ekki fundið öskuhaug enn þá. Mögulega var selstaða í Urriðakoti frá landnámi fram á 15. öld þegar þarna reis bær og menn fóru að búa þarna árið um kring.”
Urriðakot er fyrst nefnt í jarðaskiptabréfi árið 1563 og er þá ein nítján jarða sem konungur fær í skiptum fyrir jafnmargar sem renna til Skálholtsstóls. Nú eru komnar fram vísbendingar um að jörðin hafi verið nytjuð því sem næst samfellt frá því að land var numið uns hún fór í eyði um 1960 en býlið þar brann skömmu síðar.”
Þegar minjasvæðið var skoðað með Ragnheiði mátti glögglega sjá hversu flókinn og merkilegur fornleifauppgröfturinn er. Innan um miðaldaminjar má bæði sjá, að öllum líkindum, selstöðu frá þjóðveldisöld og aðra dæmigerða frá 13. öld. Athygli vekur hversu eldri selstaðan hefur verið stór og umfangsmikil. Gæti niðurstaðan varpað nýrri sýn á þessa tegund búskaparhátta, sem hingað til hefur verið lítt rannsakaðir hér á landi.

Heimild:
-http://www.visir.is/ovaentur-fornleifa-fundur-i-urridakoti/article/2011705189893
-http://www.pressan.is/Menning/LesaMenningafrett/vikingar-fyrstu-ibuarnir-i-urridakoti–enn-finnast-landnamsminjar-i-gardabae
-http://www.pressan.is/Menning/LesaMenningafrett/djoflavorn-a-snaeldusnudnum-sem-fannst-i-gardabae—serfraedingur-rynir-i-runirnar
http://www.ni.is/midlun-og-thjonusta/hrafnathing/greinar/nr/13520

Urriðakot

Urriðakot – Yfirlit fornleifarannsókna.