Garðaflatir

Gengið var um Búrfellsgjá, sem er í rauninni ekki gjá heldur hrauntröð. Mesta breidd hennar er um 300 metrar, en mjóst er hún 20-30 metrar. Lengd gjárinnar er um 3 og ½ km.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og Gerðið.

Góður stígur liggur í gjána. Nyrst í henni er Gjáarrétt, nokkuð heilleg og fallega hlaðin. Þessi fjallaskilarétt var byggð 1839. Hún var lögrétt Garðhreppinga, Bessastaðahreppsbúa og Hafnfirðinga fram til 1920 er hún var flutt niður í Gráhelluhraun (Hraunrétt) og síðan Kaldársel. Hraunréttin er nú horfin, en hún var þar sem nú er skeiðvöllur Sörla. Við Gjárrétt hittist fólk í réttum og gerði sér síðan glaðan dag á Garðavöllum. Gleðskapurinn var slíkur að frá honum er sprottið hugtakið “gjálífi”. Presturinn á Görðum hafði það orð um hegðan fólksins þarna á þessum tíma. Ekki ósvipað útihátíðunum í dag. Austan í gjánni, gegnt réttinni má sjá fallegan gamlan veg upp úr gjánni. Sú leið var nefnd Vatnsendavegur eða Elliðavatnsvegur. Urriðakotsvegur lá að Urriðakoti. Varð það annað heiti á Gjáarréttarvegi, sem lá niður að Vífilsstöðum.

Búrfellsgjáarrétt

Búrfellsgjáarrétt.

Vestan við réttina er Réttargerðið, skeifulaga hvilft, hömrum girt. Hlaðinn garður er fyrir anddyri hennar og hlið þar á. Fjársafnið var geymt í gerðinu um nóttina áður en réttað var. Innst í gerðinu, þar sem hamraveggurinn er hæstur, er hlaðið byrgi. Að hluta til er það fjárbyrgi, en að hluta til notuðu réttarmenn byrgið sem skjól og til gistingar. Það er enn nokkuð heillegt, en farið að láta á sjá.

Garðaflatir

Tóft á Garðaflötum.

Frá réttinni var gengið til suðausturs upp á Garðaflatir. Þar hafði FERLIR nýlega fundið tóft og var ætlunin að skoða svæðið betur. Flatirnar tilheyrðu hinu forna landi Garðakirkju á Álftanesi. Ýmsar sagnir eru til um þær. Ein er sú að þar hafi verið hinu fornu Garðar, en þeir verið færðir er “hraunið” rann. Átti fólkið að hafa flúið með logandi lukt undan hrauninu með áheiti um að nýr bær skyldi reistur þar sem ljósið slokknaði. Þar munu vera núverandi Garðar. Önnur sögn er um að Garðar hafi haft þar vetrarbeit. Þá eru til sagnir af seljum í Búrfellsgjá og minjar staðfesta selstöðusagnir Garðabæja á ellefu stöðum í Selgjá. Ekkert er minnst á þessar tilteknu tóttir á Garðaflötum í Örnefnaskrá Garðabæjar.

Fyrst var gengið að tóttinni, sem fannst nýlega. Hún er greinileg undir hæð austan við flatirnar. Austan hennar virðist vera nokkurn vegin kringlótt gerði og norðvestur frá því forn garður. Austar í kvos undir sömu hæðum virðist vera tótt og önnur skammt norðar. Norðan við þessar tóttir virðist og vera ferningslaga tótt. Ofan hennar á holti eru hleðslur. Allt bendir til þess að þarna geti verið fornar tóttir að ræða, sem ástæða er til að skoða nánar.
Veður var ágætt – sól og logn á hreyfingu.

Garðaflatir

Garðaflatir – uppdráttur ÓSÁ.