Þegar gengið var um Hafnarfjarðarhraun (Flatahraun – Garðahraun) milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar (Hagavíkurlækjar) mátti sjá gamla götu liggja frá Hagavíkurvaðinu skáhallt upp á og inn á hraunið til suðurs.
Á hrauninu ofan við vaðið er tvíhólfa hleðsla á grónum hólkolli og svo virðist sem jarðlægar af stærri tóft sé þar skammt neðar (vestar). Þessar hleðslur eru greinilega gamlar, en gætu hafa verið gerðar úr stórri vörðu á hraunbrúninni því þar er upphaf Urriðakotsstígs, öðru nafni Hagakotsstígur, er lá frá Hofstöðum um Hagakot að Urriðakoti. Niðurstöður nýjustu uppgrafta að Urriðakoti bendir til forna selstöðva, jafnvel allt frá því skömmu eftir landnám og fram yfir miðaldir; í fyrstu kúasel og síðan væntanlega fjársel.
Þegar gatan var gengin áleiðis að Urriðakoti kom í ljós að um kjörinn kúastíg var um að ræða; nánast sléttlendi að fara um að því er virðist torfarið hraun. Stígurinn hefur verið ruddur á köflum og sjást glögg ummerki þess. Vörður hafa verið á hraunklettum á a.m.k. tveimur stöðum, en nú eru á þeim einungis steinn við stein, en undir klettunum má sla leifar þeirra.
Fljótlega eftir að komið er upp á hraunbrúnina að norðanverðu mátti sjá beinlínulaga grjóthleðslu undir liðna girðingu. Grjót hefur verð tekið úr hleðslunni á kafla og hlaðið úr því lítill skjólveggur. Skammt sunnar, austan stígsins, má sjá veglega, en tiltölulega nýlegt, hlaðið skjól. Þarna gæti fyrrum hafa verið skjól fyrir vegavinnumenn er unnu að gerð járnbrautavegarins, sem fer þvert yfir Urriðakotsstíginn til austurs og vesturs að Miðaftanshól og áfram áleiðis niður að Einarssreit á Flötunum ofan Hafnarfjarðar.Stígurinn liggur að áberandi og formfögrum klapparhól í hrauninu skammt norðan Reykjanesbrautar. Kollur hans er líkur vörðu, en er af náttúrulegum völdum. Í næsta áberandi hraunhól skammt norðaustar eru hleðsluleifar, að því er virðist af skjóli.
Stígurinn liggur vestan við fyrrnefnda hólinn og áfram til suðurs, áleiðis að vörðu sunnan Reykjanesbrautar. Á þeim kafla og þar fyrir sunnan hefur landinu verið raskað varanlega og því engin ummerki eftir stíginn eftirleiðis allt að Urriðakotstóftunum.
Urriðakots- / Hagakotsstígsins er getið í örnefnalýsingum fyrir Urriðakot, sbr. lýsingu Gísla Sigurðssonar: “Úr Hraunkrikanum lá Urriðakotsstígur (99) eða Hagakotsstígur (100). Úr Kaffigjótu lá Kirkjustígurinn (102) eða Stórakróksstígur (103) yfir í Stórakrók og þaðan yfir hraunið á Garðaholt heim að kirkju.”
Einnig má sjá hennar getið í örnefnalýsingu Svans Pálssonar, sbr.: “Á móts við Brekkutögl liggur stígur út í hraunið, sem nefndur var Hagakotsstígur (71). Um hann var farið milli Urriðakots og Hagakots, en Hagakot var skammt norðan við Vífilsstaðalæk, en suður af Hofsstöðum.”
Þegar Urriðakotsstígurinn var genginn var ljóst, þrátt fyrir að því er virtist úfið hraun, að þarna var um greiðfæru að ræða og í rauninni ákjósanlegustu leiðina á milli þessarra tveggja staða, þ.e. fyrrum höfuðbólsins og selstöðunnar forðum.
Heimild:
-Örnefnalýsing, Urriðakot, Gísli Sigurðsson.
-Örnefnalýsing, Urriðakot, Svanur Pálsson.