Gvendarsel

Ákveðið var að skoða a.m.k. þrjú sel á Reykjanesi. Fyrir valinu urðu Vífilsstaðasel, Gvendarsel og Flekkuvíkursel. Þessi sel eru ekki beinlínis hvert ofan í öðru, en eiga það öll sameiginlegt að tiltölulega stutt er að ganga í þau frá vegi.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekið var upp línuveginn í Vífilsstaðahlíð og spölkorn inn fyrir háhæðina. Vífilsstaðaselið er skammt innan við Vífilsstaðahlíðina þar sem hún er hæst á milli og vestan við Grunnuvötn. Á kortum er það sýnt norðar og vinstra megin við línuveginn, en er í raun hægra megin í grasigróinni hvilft inni á milli holta, opinni til norðvesturs. Tóftirnar eru norðaustan undir holtinu. Svo virðist sem kví hafi verið sunnan við þær. Ofan og norðar við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Vel gróið er í hvilftinni. Selstígurinn lá frá Vífilsstöðum um Ljósukollulág þarna skammt norðvestan í hlíðinni. Þá má einnig sjá götu niður og norður frá Gunnuvötunum, í lægðinni milli Vífilsstaðahlíðar og Sandhlíðar að austanverðu.
Þá var haldið að Gvendarseli utan í Gvendarselshæðum suðaustan við Kaldársel. Ekið var eftir línuvegi frá Bláfjallavegi og inn með hæðunum að vestanverðu, ofan Undirhlíða. Gvendaselsgígar eru norðar.
Gömul gata liggur frá Kaldárseli um Kúadal og Kýrskarð, upp með norðanverðri Gvendarselshæð og áfram til suðurs með henni austanverðri, Um Slysadal, Leirdal og Fagradal.

Gvendarsel

Gvendarsel í Gvendarselshæðum ofan Kaldársels.

Selið er vestan í hæðinni, undir háum klettavegg þar sem hann er hæstur. Klettur slútir þar fram og myndar þak á eina tóftina. Þar mun hafa verið svonefndur Gvendarhellir. Önnur tóft er skammt ofar undir veggnum. Á bak við og inn á milli er skarð í klettana og er hleðsla í enda þess. Vestan við selið er hlaðinn stekkur að hluta. Þeir, sem skrifað hafa um Gvendarsel, hafa álitið að þar hafi í rauninni aldrei verið sel, enda “engin merki þess.” Ef draga á ályktun af tóftunum er líklegt að annað hvort hafi staðið til að hafa þarna selstöðu eða að hún hafi verið þar í skamman tíma. Afstaða tóftanna er sú sama og í flestumöðrum seljum á Reykjanesskaganum. Talið er að nafngiftin sé Guðmundar Símonarsonar, bónda á Setbergi, fósturfaðir Guðmundar Tjörva Guðmundsssonar síðar bónda í Straumi.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Loks var haldið að Flekkuvíkurseli ofan við Hrafnhóla á Vatnsleysuströnd. Farið var eftir línuveginum vestan Afstapahrauns. Selið er undir og norðan við ás, Seláss eða Flekkavíkuseláss í u.þ.b. 5 mínútna gang frá línuveginum á móts við Bræðravörðurnar þar norðan við veginn. Þessar vörður eru hægra megin þegar línuvegurinn er ekinn til vesturs. Þetta eru tvær stórar vörður, sem standa mjög þétt saman. Bræður sjást mjög vel ffá Reykjanesbraut þegar ekið er upp hæðina suður frá Kúagerði. Frá selinu eru vörðurnar í stefnu á Stóra-Hrafnhól en hann stendur rétt neðan við brautina (hægra megin). Um er að ræða miklar tóftir á nokkrum stöðum. Við selið að ofanverðu og inn í holtið skerast grasbollar beggja vegna.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Ásinn greinist samkvæmt gömum landamerkjalýsingum í Vestri-Flekkuvíkuselás og Nyrði-Flekkuvíkurselsás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins rétt neðan við vatnsbólið eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft.
Vatnsstæðið er á ásnum ofan og norðan við þær. Norðan við tóftirnar er hlaðinn stekkur. Austan við stekkinn er greinilega mjög gömul tóft. Enn austar, í hraunhólsbolla, eru hleðslur, líklega stekkur. Gæti verið frá gamla selinu, sem er þar skammt norðar. Talið er að síðast hafi verið haft í seli þarna um 1891 eða ’92. Líklegt er þó að selið hafi staðið upp enn um sinn og menn og fé leitað þar skjóls, eða þangað til það hrundi endanlega veturinn 1916.
Veður var frábært þennan dag – sól og blíða.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.
-Íslandskort 1942.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.