Bessastaðanes er bæði opið og aðgengilegt. Engar hömlur eru á umferð gangandi fólks um Nesið svo framarlega að hófsemi sé gætt. Útsýni er þarna tilkomumikið og auk þess má sjá, ef vel er að gáð, ýmsar minjar frá fyrri tíð. Við skoðun á svæðinu nú komu t.a.m. í ljós nokkrar áður óskráðar minjar, s.s. athvarf, byrgi og garðar. Og til fróðleiks má geta þess að skófir á jökulsorfnum klöppunum eru ekki hvítar eða gular (húsaglæða), líkt og annars staðar, heldur kóngabláar.
Í örnefnalýsingu Kristjáns Eldjárns um Bessastaði frá árinu 1973 segir m.a.: “Örnefnalýsing þessi er þannig gerð, að fyrst var athuguð nýleg skrá Örnefnastofnunar eftir Gísla Sigurðsson í Hafnarfirði, þar sem þó er ekki getið heimilda og sitthvað er talið með, sem í raun réttri eru ekki örnefni. Tekin var upp gömul landamerkjaskrá Bessastaða og farið gegnum Dægradvöl Benedikts Gröndals og hliðsjón höfð af uppdrætti af Álftanesi í Sjósókn, endurminningum Erlends Björnssonar, Breiðabólsstöðum, skráðri af Jóni Thorarensen, Reykjavík 1945, bls. 35. (Kortið er þó ekki rétt í öllum greinum og er reyndar varhugavert.)
Fleiri rit voru ekki könnuð, en allt var að lokum vandlega borið undir Björn Erlendsson á Breiðabólstöðum, sem fæddur er þar 1898 og hefur átt þar heima alla tíð. Fórum við tvisvar yfir allt efnið, haustið 1972 og 7. júní 1973. Sjálfur hef ég svo skoðað staðhætti og ummerki eftir föngum.
Örnefnin eru fá og strjál, enda er landið ekki sérlega stórt, fremur kennileitasnautt og mjög búið að breyta því með framræslu, sléttun og ræktun og vegagerð, einkum hið næsta húsunum. Á þetta síðasta verður að leggja mikla áherzlu, og á slíkt auðvitað við um marga aðra bæi, jafnvel flesta. Gömul ummerki kringum húsin á Bessastöðum eru lítil sem engin, og er þar orðin mikil breyting á síðan Benedikt Gröndal þekkti þar bezt til um miðja síðastliðna öld. Gömul verksummerki í landi Bessastaða eru yfirleitt fá, jafnvel inni í nesinu, þar sem land er þó mjög ósnert.
Það sem ég hef einkum tekið eftir er það sem nú skal greina: Tæpum 300 m fyrir innan hliðið milli túns og ness, hægra megin við veginn inn í nesið, er grunnur undan einhvers konar húsi, um 7×8 m, allstórir steinar í, og svipur fornlegur. Ekki er þetta kallað neitt sérstakt. Rétt austan við sjómerki sem mikið ber á lengra inni í nesinu (þetta er nýlegt siglingamerki), er mikil upphækkun, sem tekur sig út sem talsverður þúfnaklasi, 15–25 m í þvermál, en bersýnilega virðist þetta vera af manna völdum. Þótt ekki sé kringlótt, get ég varla ímyndað mér annað sennilegra en að hér hafi verið stór fjárborg eða fjárskjól. Og sú skýring á áreiðanlega við aðra svipaða upphækkun, en minni og reglulegri, um 125 m suðvestur frá sjómerkinu, 10–12 m í þvm.
Hvort tveggja hefur þetta verið gert úr torfi eingöngu, og virðist allgamalt. Þá er það Skothúsið, sem seinna getur, og niðri í Rana eru á einum eða tveimur stöðum lítt forvitnilegar minjar eftir einhvers konar kofa. Og má þó ekki gleyma Skansinum, sem er vitanlega mesta mannvirkið frá fyrri tíð. Ég læt þessa getið um rústir eða ummerki mannabyggðar, af því að ég hef lengi reynt að hafa augun opin fyrir slíku og undrazt, hve fátæklegt þetta er. Ég hefði búizt við fleiri merkjum eftir búskaparumstang inni í nesinu en raun ber vitni. Á túninu sunnan við staðinn er brunnur, sem notaður var fyrir ekki alls löngu.
Í afsals- og veðmálabók Gullbringu- og Kjósarsýslu er svohljóðandi landamerkjaskrá Bessastaða með Lambhúsum, dagsett á Bessastöðum 31. maí 1890, undirskrifuð af Grími Thomsen og samþykkt af fyrirsvarsmönnum Eyvindarstaða og Brekku: “Þessi eru landamerki Bessastaða með Lambhúsum eftir fornum skjölum og brúkun frá ómunatíð: Bessastaðir eiga að austan, norðan og sunnan allt að sjó (Skerjafirði og Lambhúsatjörn), en milli Lambhúsa og Eyvindarstaða eru landamerki að norðan og norðaustan bein lína úr Grásteini á Brekkugranda eftir vörðum, sem þar eru hlaðnar fyrir utan Lambhúsaveitu og í miðjan Bessahólma, sem og heyri undir Bessastaði. Að sunnanverðu eiga Bessastaðir (Lambhús) að Grásteini á fyrrtéðum granda.”
Hefst nú hin eiginlega örnefnalýsing.Þegar ekið er Álftanesveg af Hafnarfjarðarvegi, sést hvernig Álftanes í þrengri merkingu takmarkast af Lambhúsatjörn að austan og Skógtjörn að vestan, en milli þeirra er tiltölulega mjótt eiði, sem vegurinn liggur eftir,þó miklu nær Lambhúsatjörn. Farið er fram hjá eyðibýlinu Selskarði (eða Selsgarði) á hægri hönd, við endann á Lambhúsatjörn, en fyrir vestan Lambhúsatjörn er mýri, sem heitir Álamýri og nær að Skógtjörn. Vegurinn sem um hana liggur áleiðis til Garðahverfis er kallaður Álamýrarvegur. Öll þessi nöfn eru óviðkomandi Bessastöðum.
Þegar komið er um 65 m fram hjá Selskarði, liggur vegurinn upp á hrygg, sem stundum er á þessum stað kallaður Brekkugrandi oftar þó Bessastaðagrandi en líklega oftast aðeins Grandinn (en í rauninni er þetta aðeins svolítill spotti af hinni miklu jökulruðningsöldu, sem Bessastaðir og margir aðrir bæir á Álftanesi standa á og nær alla leið inn Bessastaðanes og endar við Skerjafjörð, en heldur svo áfram í Kársnesi beint á móti. Á Grandanum standa stórir steinar upp úr, en einn er eftirtakanlega hár og reisulegur, nokkuð vestur frá hliðinu heim að Bessastöðum og heitir hann Grásteinn ágætt kennileiti. Í hann eru klappaðar holur í röðum, og ber það til þess, að þegar vegurinn var lagður út nesið, var fyrst ætlunin að hann lægi yfir þann stað þar sem steininn stendur. Þetta var fyrir minni Björns Erlendssonar. Var þá búizt til að kljúfa steininn og holurnar gerðar. Einhver álög voru á steininum. Þegar svo átti að fara að reka fleygana og kljúfa steininn, slasaðist einn maðurinn. Var þá hætt við verkið, sem betur fór, því að steininn er hinn ágætasti og sögufrægur, sbr. Dægradvöl.
Eins og fram kemur í landamerkjaskránni eru merki milli Eyvindarstaða og Bessastaða bein lína úr Grásteini í miðjan Bessahólma og milli Brekku og Bessastaða úr Grásteini í Lambhúsatjörn. Á þessari öld mun þó einhver smátota hafa verið seld vestan af þessari keilu,og er því Grásteinn varla í landi Bessastaða nú, en þetta skiptir litlu máli hér.
Þegar á Grandann kemur, skiptist vegurinn í þrennt, í vestur, í norður og í austur eða heim að Bessastöðum. Liggur vegurinn heim á staðinn eftir jökulruðningnum, sem nú er hryggur með vel ræktuðu túni, sem fyrrum var tún Lambhúsa, hjáleigunnar frá Bessastöðum. Norðan við hrygginn, eða milli Bessastaða og Eyvindarstaða, er víðáttumikill mýrarslakki, Eyvindarstaðamýri sem virðist taka á sig nafnið Breiðamýri þegar kemur lengra vestur eftir.
Björn Erlendsson virðist telja að nafnið Breiðamýri geti jafnvel átt við alla Eyvindastaðamýri einnig, en það örnefni er þó ekki hér talið með örnefnum Bessastaða. Úr mýrinni var áður afrennsli gegnum Grandann út út í horn Lambhúsatjarnar, svo sem 2–3 faðma fyrir utan núverandi hlið heim á staðinn. Þetta var niðurgrafinn lækur, sem illt gat verið að komast yfir vegna bakkanna, en vatn var lítið. Þó hét þetta Lambhúsaá. Hún sést ekki nú. Kennd var hún við Lambhús, smábýlið þar sem lektor Bessastaðaskóla bjó, en það var nokkru vestar en miðja vega frá kirkju að hliði og liggur vegurinn yfir bæjarstæðið nú. Sáust byggingarleifar og aska þegar vegur var endurbættur 1972–73, og þá fannst þar fallega tilhöggvinn steinn, sem nú er á Bessastöðum og hefur líklega verið stjórasteinn. Sjá má af landamerkjaskránni, að sá hluti Eyvindarstaðamýrar, sem næst hefur legið Lambhúsum, hefur heitið Lambhúsaveita, en það nafn er nú gleymt, enda öll mýrin þurrkuð og ræktuð og Lambhús horfin.
Bessastaðaland takmarkast að sunnan af Lambhúsatjörn, sem er fjörður inn úr Skerjafirði og gætir þar mjög flóðs og fjöru, en að norðan af Bessastaðatjörn, sem einnig var eins konar fjörður eða vík þangað til 1953 að gerður var stíflugarður mikill fyrir framan hana, svo að nú er þar ferskt vatn og gætir ekki flóðs og fjöru. Að austan er svo Skerjafjörður. Einu nafni er allt þetta land kallað Bessastaðanes, en oft er það nafn helzt haft um landið innan við staðinn, í daglegu tali “Nesið”, “inni í Nesi”. Heima við bæjarhúsin, norður af flötinni milli húss og kirkju, þar sem fánastöng stendur nú, er hóll með snarbrattri brekku norður af, og segir B.Gr. (og B.E.) að þetta heiti Bessastaðahóll, og voru nýsveinar látnir velta þar niður heldur ómjúklega á dögum skólans.
Á öllum jökulruðningnum sem áður var nefndur er þetta greinilegasta hólmyndunin, og mundi það ef til vill segja sína sögu um nafn bæjarins. Frá kirkju og vestur að Lambhúsum var nefndur Langivöllur, og var það þó einkum sunnan megin, en nú er þetta nafn haft um allt vesturtúnið.
Í norður og norðaustur af Bessastaðahól, niðri við tjörnina, voru áður fyrri allmikil ummerki eftir ýmiss konar búsumstang, og lýsir B.Gr. því nokkuð, en öll merki mega heita þar horfin meðal annars af því að sjór hefur brotið þarna mikið land, og er því erfitt að marka nákvæmlega fyrir hvar hvað eina var. Traðir lágu ofan að smiðju og þar var Sjóbúðarflöt og þar var Skevingstún og þar voru Akrarnir á móts við bæinn, en það voru “stórir ferhyrndir blettir, mig minnir tveir samfastir með lágum torfgarði á milli, mátti vel sjá móta fyrir “akurreinum” eða löngum þverdældum” (B.Gr.).
Hjá Sjóbúðarflöt var tóft sem víst var kölluð Sjóbúð, og enn fremur mun þarna hafa verið uppsátur, Bessastaðavör. Af öllu þessu sést aðeins votta fyrir leifum af gömlum garði sem sjór hefur brotið af meðan enn flæddi inn í tjörnina. Þessi nöfn mega nú heita óþekkt. Norður frá bústjórahúsi (sem nú er) var hólmynd í túninu og nefndist Smiðjuhóll og minnir á smiðjuna, en sést ekki lengur. Þarna norður frá ráðsmannshúsi og bílstjórahúsi nær sjó heitir nú Prentsmiðjuflöt, sem er nafn frá dögum Skúla Thoroddsens, enda sér þar enn steyptan grunn undan prentsmiðjuhúsi hans.
Í Bessastaðatjörn er áðurnefndur hólmi, þar sem æður verpur, og kalla landamerkjaskrá og B.Gr. hann Bessahólma, en stundum er hann kallaður Bessi, trúlega hvort tveggja stytting úr Bessastaðahólmi, sem stundum heyrist. B.E. segir að Bessahólmi sé langalgengast og séu það munnmæli, að Bessi bóndi á Bessastöðum sé heygður þar. Í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar var hólminn mikið stækkaður til suðurs með því að aka að honum grjóti og hnausum á ís. Lítill hólmi er nær Eyvindarstöðum og var hann einnig gerður að undirlagi Ásgeirs Ásgeirssonar, sem kallaði hann Kóra eftir fæðingarstað sínum Kóranesi á Mýrum. Ásgeir lét líka grafa skurð þvert yfir tangann norður af bílstjórahúsi og búa þannig til ey eða hólma, sem kallast Sandey en nýtt er þetta nafn að sjálfsögðu.
Allt hefur þetta verið gert vegna æðarfuglsins. Ósinn út úr tjörninni hét Dugguós en hann er nú úr sögunni, síðan stíflan var gerð. Áður fyrri, meðan enn fjaraði í tjörninni, kom upp með fjöru klettabelti eða brík frá tanganum áðurnefnda (nærri Prentsmiðjunni) og að Stekkjarmýrarhól í Breiðabólsstaðalandi og var þessi leið oft farin, ekki sízt ríðandi. Þetta var kallaður Steinboginn. Þetta er rangt sýnt á korti í Sjósókn.
Suður frá bæ voru áður mikil svöð, en nú eru þar ræktuð tún. Er mér ekki kunnugt um nein nöfn þar nema Kringlumýri sem Björn Erlendsson segir að hafi verið suðaustur frá útihúsunum sem nú eru eða vestur frá Músavík.
Vafalaust er nú erfitt að takmarka hana vegna ræktunarbreytinga. Niður af henni eru tveir tangar út í Lambhúsatjörn, sem nú eru alltaf kallaðir Tangarnir, Vestaritangi og Eystritangi, og er þar mikið æðarvarp, en stóra víkin austan við þá heitir Músavík (eða Músarvík). Nesið austan við víkina heitir Rani og nær alla leið að ósnum þar sem mætast Skerjafjörður og Lambhúsatjörn, og allra fremst á Rananum heitir Ranatá hefur B.E. eftir Jakob bróður sínum, sem er eldri en hann.
Efst á Rana, eða þar sem allrahæst ber á Bessastaðanesi, er hóll, sem heitir Skothús, og segir B.Gr. nokkuð frá því. Þar hefur verið eitthvert mannvirki, en engar sagnir eru um það.
Þar sem jökulaldan endar við Skerjafjörð heitir Svartibakki en norðan við hann er mýri sem heitir Litlamýri. Nyrzt í Nesinu heitir Sauðatangi, nokkuð löng og ekki vel afmörkuð strandlengja. Nyrzt og vestast við Dugguós er svo Skansinn eða Bessastaðaskans, hið gamla virki (sjá Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnasögu Íslendinga, Saga VI, 1968, bls. 122–38), og sér þar einnig rústir af smábýlinu Skans með túngarði. Árið 1901 keypti Tryggvi Gunnarsson Skansinn og girti þvert yfir í beina línu frá Bessastaðatjörn og í Skerjafjörð. Í yfirlýsingu um þetta 5. marz 1928 segir Theodóra Thoroddsen að þessi girðing hafi legið “eftir því sem ég man bezt, úr Bessastaðatjörn fyrir innan Skansinn þvert yfir nesið í svokallaða (sic) Skólanaust.” Örnefnið Skólanaust er nú óþekkt, en einmitt þar sem þessi girðing hefur endað eru sýnilegir um 1 m langir endar af tveimur veggjum samhliða, sem sjór hefur að mestu brotið. Gætu þetta vel verið leifar af nausti, enda hefur B.E. eftir Jakob bróður sínum að kallað hafi verið Bátanaust rétt hjá Skansinum. Gæti verið eitt og hið sama (Ath. B.E. hefur naust í kvk. eins og Theodóra).
Hið gamla skipalægi Seilan er fram af Skansinum og Dugguósi. Við skipti milli Bessastaða og Breiðabólstaða fyrir allfáum árum féll dálítill hluti Breiðabólstaðaeyrar, næst Dugguósi, í hlut Bessastaða. Heitir það Eyraroddi. Öll þau örnefni þessarar lýsingar sem nú er hægt að staðsetja, hafa verið færð inn á uppdrátt, sem fylgja á lýsingunni.
Ath.: Ekki er nú vitað hvar Grímur Thomsen lét heygja hest sinn Sóta, framar en segir í Sjósókn, bls. 46, “í túninu fyrir norðaustan staðinn”. Í umtali er þetta stundum kallað Sótaleiði, sem virðist mega telja með örnefnum.
Ókunnugt er mér, hvar Fálkahúsið stóð, svo og allt annað um fyrri tíðar húsaskipan á Bessastöðum.”
Í Árbók hins Ísl. fornleifafélags árið 1981, bls. 141-147, segir m.a. um einstakar fornminjar á Nesinu: “Af horfnum minjum á Bessastöðum má t.d. nefna tóftir smábýlisins Lambhúsa, sem voru miðja vega milli kirkjugarðs og heimreiðarhliðs, svo og „akrana”, sem Benedikt Gröndal segir frá, í túni fyrir sunnan staðarhúsin. Enn fremur traðir og garða o.fl. sem Gröndal nefnir einnig í Dægradvöl. Þó virðist það vera vonum minna sem horfið hefur, þótt nú sé ógerningur að segja nákvæmlega til um slíkt. Einhverjar útihúsatóftir hafa eflaust verið sléttaðar út. Þær mannaminjar sem enn eru við lýði og sýnilegar eru, mega heita færri en ætla mætti að óreyndu á höfuðbóli. Skulu þær nú taldar upp og þeim lýst í stuttu máli og vísast um leið til uppdráttarins á bls. 134.
1. Túngarður. Eins og sjálfsagt er var garður kringum túnið, ýmist úr torfi eða grjóti, og lætur Gröndal hans lítillega getið. Búið er fyrir löngu að slétta yfir hann að langmestu leyti. Sjá má móta fyrir honum vestur frá staðnum þar sem hann skildi milli túnsins í Lambhúsum og Langavallar og hefur hann teygt sig þar niður í fjöru við Lambhúsatjörn. Einnig sést hann, ef vel er að gáð, innan við staðinn, þar sem hann hefur legið nokkurnveginn þvert yfir milli tjarnanna, Bessastaðatjarnar að norðan og Lambhúsatjarnar að sunnan. Þarf þó að standa vel á um árstíð og birtu til þess að hann megi greina þar.
Loks er svo þess að geta að enn er dálítill krókóttur partur eftir órofinn meðfram Bessastaðatjörn innanverðri, og má glöggt sjá að tjörnin hefur brotið hann niður, þar sem að húsunum veit, meðan enn gætti þar flóðs og fjöru. Þá má og sjá móta fyrir garðinum þvert yfir, rétt ofan við Prentsmiðjuflöt, sem nú heitir. Hefur þá verið, og er reyndar enn, allmikið athafnasvæði utan hans næst tjörninni. Í sambandi við túngarðinn og reyndar einnig túngarð Lambhúsa skal bent á að allir þessir garðar sjást einkar vel á uppdrætti Björns Gunnlaugssonar frá 1831, þeim sem hér er birtur, þótt ónákvæmur sé á ýmsa grein. Hann er eigi að síður mjög mikilsverður. M.a. sést hvar sjávargatan lá niður að Bessastaðatjörn.
2. Prentsmiðjutóft. Á áðurnefndu athafnasvæði er vestast steinsteyptur ferkantaður grunnur undan prentsmiðjuhúsi Skúla Thoroddsen, frá því skömmu eftir síðastliðin aldamót. í því húsi varð prentsmiðjudanskan til. Grunnurinn er um 7×9 m að ummáli, ekki hár.
3. Húsatóftir á áðurnefndu athafnasvæði utan túns við Bessastaðatjörn. Austan við prentsmiðjugrunninn er garðspotti og stefnir þvert á sjávarbakkann, en austan við hann grasigrónar húsatóftir tvennar, að því er virðist, og stutt á milli, en erfitt er sökum mikils gróðurs að greina skilsmynd á þeim. Þær eru frammi á allháum sjávarbakka. Efalítið standa þær í sambandi við athafnasemi við sjóinn og tengjast örnefnum eins og Sjóbúð, Sjóbúðarflöt og Bessastaðavör.
4. Húsgrunnur, að því er helst virðist, gerður af allstóru grjóti og gamalgróinn á milli, er rétt við veginn á hægri hönd þegar ekið er inn í Bessastaðanes, um 300 m innan við hliðið. Ekkert nafn er á þessu og engar sagnir. Grunnurinn er ferkantaður, um 5×9 m. Þarna mun varla hafa verið peningshús, heldur timburhús til einhverra annarra nota á staðnum.
Ekki er óhugsandi að þarna hafi Fálkahúsið verið, en helst til langt virðist það þó frá staðnum, enda er þetta ágiskun einber. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.
5. Skansinn, Bessastaðaskans (Ottavirki) er við Skerjafjörð þar sem Dugguós var áður en stíflan var gerð milli Bessastaðatjarnar og sjávar. Skansinn er virki, í stórum dráttum fjórir moldarveggir, sem upphaflega hafa verið mjög háir, en eru nú ávalir og grasi grónir. Mannvirki þetta var reist seint á
17. öld til varnar gegn aðvífandi ófriðarmönnum eins og t.d. Tyrkir voru. Annars skal Skansinum ekki lýst hér, heldur vísað til ritgerðar sem að miklu leyti fjallar um hann, sjá Kristinn Jóhannesson, Þættir úr landvarnarsögu Íslendinga, Saga VI, 1969, bls. 122. Skansinn var formlega friðlýstur með skjali dags. 25. okt. 1930 og friðlýsingarmerki sett upp þann 5. júní 1965.
Í Skansinum var smábýli, hjáleiga frá Bessastöðum, „kotrass auðvirðilegur”, segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl. í Sjósókn segir Erlendur Björnsson á Breiðabólstöðum frá síðustu hjónunum sem í Skansinum bjuggu og syni þeirra Ólafi, sem kallaður var Óli Skans. Skansinn mun hafa farið í eyði fyrir aldamót, en seinna fékk Gísli Jónsson listmálari leyfi til að byggja sér þar hús og sér enn leifar af steyptum veggjum þess upp við suðurhlið virkisins. Minjar býlisins eru fyrst og fremst túngarður úr grjóti, girðir af hornið milli Skerjafjarðar og Bessastaðatjarnar, enn fremur útihúsarústir uppi á sjálfum Skansinum, gamallegar grónar tóftir í þýfðu túninu og við túngarðinn, loks brunnhola að því er virðist.
Innan við túngarðinn, þar sem hann kemur út í Skerjafjörð, er grjótveggur samsiða honum, 5-6 m bil á milli, og endar snögglega 25 m frá sjó. Helst dettur manni í hug að með þessum garði hafi átt að skýla bátum sem á land voru dregnir, sbr. það sem segir í örnefnalýsingunni að kallað hafi verið Bátanaust rétt hjá Skansinum. ,,í Skansinum var lendingin frá Bessastöðum,” segir Erlendur Björnsson í Sjósókn. Allar minjar um búskap í Skansinum eru friðlýstar með honum.
6. Skólanaust (?). Skammt fyrir innan Skansinn sjást tveir lágir veggspottar hlið við hlið, 1 m langir og eru sýnilega leifar af lengri veggjum sem sjórinn er búinn að brjóta niður. Þetta gætu verið leifar af svonefndu Skólanausti, sjá Örnefnaskrá, og mundu þá skólapiltar hafa geymt þar bát sinn.
7. Mannvirki nokkurt um 70 m suðaustur frá nýlegu sjómerki innarlega í Bessastaðanesi, á smáþýfðri grund. Þetta er töluverð upphækkun, mjög þýfð ofan, að öðru leyti eins og um 1 m hár pallur. Til að sjá er þetta eins og stór þúfnaklasi, enda hefur öðru hverju blásið í jaðrana en gróið upp aftur. Upphækkun þessi, sem greinilega er af mannavöldum, er 25 m á lengd og 15 m á breidd, nokkurn veginn eins og sporbaugur, en helst óregluleg á suðurhlið, enda er svo að sjá að þar hafi verið inngangur í það sem þarna hefur verið, sennilega sauðaborg eða hrossaskjól, því að kindur og hross gengu mjög úti í Bessastaðanesi fyrrum, en fátt um náttúrleg afdrep. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.
Aths.: Gísli Sigurðsson í Hafnarfirði sagði mér 1.10.1976 að mannvirki þetta mundi ekki vera eldra en frá 1914, eða þar um bil. Einhver sagði honum að maður sem þá var á Bessastöðum hefði hlaðið þarna skjól handa útigangshrossum. Þetta gæti verið rétt þótt maður hefði frekar haldið að minjarnar væru eldri. Læt þetta fylgja með til minnis. K.E.
8. Mannvirki annað (sauðaborg) um 120 m vestur frá nr. 7 og svipað útlítandi, upphækkaður pallur þýfður, kringlóttur, 14 m í þvermál, í aflíðandi brekku móti vestri. Dyr hafa verið á vesturhlið. Allt um kring mótar fyrir veggjum sem upphækkuðum kraga. Varla kemur annað til mála en að þetta hafi verið sauðaborg, gerð að öllu eða mestu leyti úr torfi eins og nr. 7.
9. Sauðaborg, undirstöður hennar, innarlega í Bessastaðanesi, þar sem hallar til Skerjafjarðar, andspænis Kópavogskaupstað. Borgin hefur verið hlaðin úr grjóti, a.m.k. undirstöðurnar, kringlótt, um 10 m í þvermál. Þetta er skýrt, en svo virðist sem innan í þessum hring sé annar minni, 4-5 m í þvermál. Má vera að þessi innri hringur sé undirstaða borgar sem hlaðin hefði verið úr grjótinu úr eldri og stærri borg, en slíkri tilgátu ber að taka með varúð. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.
10. Skothúsið, hóll með sýnilegum tóftum á, þar sem hæst ber í Bessastaðanesi, eða eins og Gröndal segir í Dægradvöl: ,,Þar hæst á bungunni er kringlóttur grasblettur og rúst eftir gamalt byrgi, þar sem fálkarar hafa líklega legið við fyrrum, það var kallað „skothúsið”, og er þaðan víðsýni mikið og fagurt.” (2. útg. 1965, bls. 4).
Hvað sem líður ummælum Gröndals um fálkana, má telja mjög sennilegt að þarna hafi verið skotbyrgi. Gæsir eru t.d. tíðir gestir í nesinu. Hóllinn sem tóftirnar eru á, er 9 m í þvermál við grunninn, sýnist að upphafi hafa verið náttúruverk en þó má vera að hann hafi smám saman hækkað af mannavöldum. — Friðlýst að ósk staðarhaldara 1976.
11. Grjótgarður hlaðinn er rétt fyrir norðan Skothúsið, tveir armar 5 og 9 m og gleitt horn á milli. Þetta er tvíhlaðinn veggur úr býsna stórgerðu grjóti. Það er eins og þetta séu leifar af rétt og búið að flytja burtu mikið grjót fyrir löngu. Annars er út i bláinn að giska á hvað þetta hefur upphaflega verið.
12. Tóftarbrot smá og ógreinileg eru á Ranatá framarlega. Tilgangslaust að giska á hvað verið hafi. [Líklega er annað hvort um að ræða skjól fyrir yfirsetumann er fylgdist með því að ær og sauðir flæddi ekki á skerjunum á og við Ranatá eða vatkmann yst á Nesinu, nema hvorutveggja hagfi verið.]
13. Tóftarbrot lítilfjörlegt er einnig fremst á Vestaritanga. Rennur mjög saman við þýfið þar og verður ekki séð til hvers verið hefur. [Gæti hafa verið sjóbúð eða fangageymsla fyrir þá er fluttir voru til aftöku yfir í Gálgakletta handan Lambhúsatjarnar.]
Hér með lýkur upptalningu sýnilegra minja í Bessastaðalandi. Á skránni eru sjóvarnargarðar við Lambhúsatjörn ekki meðtaldir enda að verulegu leyti nýir, ekki heldur brunnur eða brunnar staðarins, sem verið hafa í notkun til skamms tíma. Sumar minjarnar eru formlega friðlýstar, aðrar ekki.”
Árni Hjartarson fjallar um aldur jökulgarðsins á Álftanesi í Náttúrufræðingnum árið 1992. Þar segir m.a.: “Ysti sjáanlegi og ótvíræði jökulgarðurinn á höfuðborgarsvæðinu er Álftanesgarðurinn. Þorleifur Einarsson (1968, 1991) telur hann vera frá eldra-dryas. Aldur þessa kuldastigs er 11.800-12.000 BP. Hið íslenska heiti þess hefur verið dregið af Álftanesgarðinum og nefnt Álftanesstig. Garðinn má rekja þvert yfir Álftanes, um Bessastaði og í sjó við Bessastaðanes.
Fram undir síðustu ár mátti sjá hvar garðurinn tók land handan Kópavogs, yst á Kársnesi, þar sem bátahöfnin er nú. Aldursgreiningarnar frá Kópavogi og Suðurnesi staðfesta það sem aldursgreiningarnar á Fossvogssetinu gáfu raunar sterka vísbendingu um, að Álftanesgarðurinn sé frá lokum yngra-dryas eða preboreal.
Álftanesgarðurinn markar ekki ystu stöðu Suðvesturlandsjökulsins á yngra-dryas. Jökulruðningurinn á Fossvogssetinu við Skerjafjörð og aldursgreiningarnar frá Suðurnesi Seltjarnarness sýna að jökullinn hefur náð mun lengra út á yngra-dryas. Ystu mörk hans eru óþekkt enn sem komið er en vafalaust liggja þau nokkuð undan landi á botni Faxaflóa. Engar lífrænar leifar hafa fundist í Álftanesgarði og bein aldursgreining á honum er ekki fyrir hendi. Aldurinn liggur þó á bilinu 9.500-10.200 BP. Hugsanlega er hann á sama aldri og Búðaröðin á Suðurlandi, 9.700 BP (Árni Hjartarson og Ólafur Ingólfsson 1988).”
Sjá meira um Nesið HÉR. Og Skansinn HÉR.
Heimildir m.a.:
–Örnefnalýsing KE fyrir Bessastaði – 7.6. 1973
-Árbók hins ísl. fornleifafélags 1981, bls. 141-147.
-Náttúrufræðingurinn, 62. árg. 1992, bls. 214-215, Ísaldarlok á Íslandi – Árni Hjartarson.