Alfaraleiðin

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja Reykjanesskagans.
Um Alafaraleiðina fóru Alfaraleidin-27allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim vörðum sem enn standa og skýrum kennileitum.

Sudurgata-221

Leiðin lá frá botni Hafnarfjarðar þar sem Hafnarfjarðarkirkja sem stendur á Hamarskotsmöl. Þar eru ekki lengur nein merki um þessa fornu leið. Mannvirki, gatnagerð og umbreytingar sem fylgt hafa uppbyggingu bæjarins hafa fyrir löngu eytt öllum minjum um hana. Það eina sem er eftir er nafnið Suðurgata sem minnir á forna tíma. Þessi sama gata nefndist áður fyrr Suðurvegur. Þegar komið er upp steyptar tröppur, þar sem áður var Illabrekka, er brún Vesturhamars og þar liggur Suðurgatan að mestu á sama stað og gamli Suðurvegurinn var. Gamla leiðin lá sniðhalt framhjá Kaldárbrunni áleiðis að gömlu Flensborg við Ásbúðarlæk.

Alfaraleidin-25

Þessi leið er ekki lengur fær en hægt er að fara niður af Suðurgötunni um Flensborgarstíg, mjóan og beinan stíg sem liggur að Íshúsi Hafnarfjarðar. Farið er yfir Strandgötuna og stefnt á Hvaleyrabraut og henni fylgt að Hvaleyri. Gamla leiðin lá yfir Ásbúðarlæk á vaði, framhjá Ásbúð, gamalli verbúð frá Ási sem var í landi Ófriðarstaða. Stefnt var yfir ásinn ofan Óseyrartúngarðs að Skiphóli, sem var áberandi kennileiti á móts við þann stað þar sem seinna var Lýsi og mjöl. Norður frá Skiphól lá eyrarsker þar sem Eyrarskersgarður eða syðri hafnargarðurinn var lagður eftir seinni heimstyrjöld.

Alfaraleidin-26

Fylgt er Hvaleyrarbraut og farið vestur með Hvaleyrarlóni eða Hvaleyrartjörn og stefnt á bátaskýlin neðan undir Sandskörðum við lónið. Þar er hægt að fara gömlu leiðina upp Sandbrekkur, slakkann milli Hvaleyrarholts og Suðurtúngarðs en svo nefndist vörslugarður Hvaleyrartúnsins sem enn sést. Þegar komið er efst í Sandskörðin blasir Flókavarða við á vinstri hönd, eftirlíking norsku Flókavörðunnar í Smjörsundi, en þaðan lagði Hrafna-Flóki upp í för sína til Íslands. Farið er framhjá golfskála Keilis, niður í Stóru Sandvík, þar sem Sædýrasafnið var til húsa. Norðarlega í fjörunni eru Hvaleyrarklettar, en vestar eru Þvottaklettar þar sem Hvaleyrakonur skoluðu léreft sín í ómenguðu jarðvatni sem rennur úr Kaldárbotnum í sjó fram, og þurrkuðu þvottinn á klettunum. Þarna er nú golfvöllur en hægt að fylgja göngustíg nærri fjörunni. Vestan Þvottakletta var Litla Sandvík og ofan klettanna var Hvaleyrarsandur eða Sandurinn sem er alveg horfinn vegna æfingasvæðis golfara. Þarna var mikill fjörusandur sem seldur var sem pússningasandur þegar Hafnarfjarðarbær byggðist sem hraðast uppúr miðri 20. öldinni. Mjög gekk á þennan sand og var lítið eftir af honum þegar Sædýrasafnið var sett þarna á laggirnar í lok sjöunda áratugar 20. aldar.
Alfaraleiðin liggur fram hjá byggingum sem hýstu hluta Sædýrasafnsins en tilheyra nú golfklúbbnum Alfaraleidin-34Keili. Framundan blasir strítumynduð varða [landamerki] við sjónum í vesturátt. Stendur hún á áberandi hraunklöpp um miðbik nýjasta áfanga golfvallar Keilis sem tekinn í notkun 1996. Leiðin lá skáhalt yfir völlinn og stefndi í næstu vörðu sem er suðvestar og nær Reykjanesbraut. Vörður þessar vísa veginn og þegar komið er yfir golfvöllinn er slóðinni fylgt þar sem hún stefnir til suðvesturs undir Reykjanesbrautina. Handan brautarinnar stendur þriðja varðan nærri austurjaðri Nýjahrauns eða Brunans, en nyrsti hlutinn nefnist Kapelluhraun. Þar sem farið var upp á Kapelluhraunið var Stóravarða eystri sem vísaði á Brunaskarð eystra, austurmörk slóðans í gegnum þetta illvíga hraun sem eitt sinn var.

Alfaraleidin-28

Gatan sést ekki lengur í Kapelluhrauni nema á u.þ.b. 10 m kafla við kapelluna því stórvirkar vinnuvélar hafa eytt þeirri merku vegaframkvæmd sem þarna var unnin fyrir margt löngu. Ekki er vitað hvenær gatan í gegnum Nýjahraun var rudd, en það hefur trúlega átt sér stað seint á 12. öld eða snemma á 13. öld. Nýjahraun rann í miklum eldsumbrotum sem áttu sér stað 1151 úr gígaröð í Undirhlíðum. Hefur hraunið tálmað för manna í útverin á Vatnsleysuströnd og Suðurnesjum, sem voru flest í eigum biskupsstólsins í Skálholti, kirkna og klaustra. Viðeyjarklaustur átti Hvaleyri og er hægt að ímynda sér að leiguliðar klaustursins sem byggðu Hvaleyri fyrir 7 öldum hafi verið skikkaðir til að ryðja braut í gegnum eldhraunið  og opna leiðina milli verstöðvanna og Innnesjanna. Það eina sem vitnar um þessa miklu framkvæmd er kapelluhóllinn sem stendur eins og illa gerður hlutur í sköfnu og sléttuðu hrauninu. Á þessum hól stendur húslaga rúst sem er um 2m x 2,2m í ummál og opnast til vesturs eins og kirkja. Þetta eru taldar vera leifar kapellu heilagrar Barböru. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður fann lítið leirlíkneski heilagrar Barböru við fornleifauppgröft í kapellunni árið 1950 og hefur hún verið friðlýst síðan 1955.
Alfaraleidin-29Frá kapellunni lá slóðin til suðvesturs nokkru sunnan við skúrbyggingu sem er nærri vesturbrún Kapelluhrauns. Farið er sunnan við hrauntappa sem enn stendur uppúr berangrinu og niður af Brunanum um Brunaskarð vestra, sem ekki sést móta fyrir lengur, en þar birtist Alfararleiðin á nýjan leik sunnan við Gerðið. Liggur nú leiðin að suðurenda Gerðis- og Þorbjarnarstaðatjarna. Syðst í Þorbjarnarstaðatjörn er fallega hlaðinn hringlaga brunnur þar sem íbúar Þorbjarnarstaða sóttu  drykkjarvatn um aldir. Út í tjörnina liggur upphlaðið spor í framhaldi af Brunngötunni sem hefst við traðarhlið Þorbjarnarstaða. Á þessum stað er tjörnin réttilega kölluð Brunntjörn, ein margra slíkra sem finna má í Hraunum og allar með samskonar nafn. Fram undan hrauninu seytlar fram ferskvatn í suðurjaðri tjarnarinnar þar sem brunnurinn er. Mun vatnið eiga upptök sín í Undihlíðum og Kaldárbotnum.
Alfaraleidin-30Alfaraleiðin liggur sunnan tjarnarinnar framhjá myndarlegum hraunhólum sem nefnast Hólar. Þar sem fyrrum stóð varða, en hún var rifin í byrjun 20. aldar. Farið er yfir Stekkagötuna sem liggur með austurtúngarð Þorbjarnarstaða í áttina að Stekknum undir Stekkahæðinni eystri, einnig nefnd Hádegishæð enda eyktarmarki frá Gerðinu, en þar var Hádegisvarða.
Liggur Stekkagatan framhjá Stekknum og Stekkahæð vestri, suður með Hólunum yfir í Selhraun og áfram suður í Straumssel. Alfararleiðin er mjög greinileg þar sem farið er yfir Stekkagötuna og stefnan tekin á Miðmundarhæðarvörðu sem stendur á háum klapparhól Miðmundarhæð. Vestan hæðarinnar er þvergata sem nefnist Hraungata eða Hraunavegur, sem er ennfremur hluti Straumsgötu sem liggur frá Hraunabæjunum um skarð áleiðis að Skotbyrginu sunnan þess, áfram suður í Grenigjár og þaðan suður í Katla og Straumssel. Hraungatan liggur um skarð sem blasir við á vinstri hönd í suðurátt. Vestan skarðsins er lítil varða og vörðulagaður steinn austan þess.
Alfaraleidin-36Enn vestar er önnur varða, nokkuð stærri sem vísar á Mosastíginn. Alfaraleiðinni er fylgt til vestur en hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókótt þar sem hún þræðist um skorninga á milli hraunstrauma. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd.  Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Framundan er Gvendarbrunnshæð og er stefnan tekin á hana. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Hér er gott að staldra við um stund og hvílast rétt eins og gert hefur verið öldum saman. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli, fyrir flestum veðrum ef á þarf að halda.

Alfaraleidin-32

Þegar förinni er haldið áfram eftir slóðinni til vesturs er innan skamms komið að enn einni hliðargötunni sem sker Alfaraleiðina. Litlar vörður á sitthvora hönd sem vísa á Skógargötuna eða Rauðamelsstíg sem lá frá bænum Óttarsstöðum í norðri, milli Rauðamelanna sem nú eru horfnir. Þar sem þessi áberandi kennileiti voru áður er djúpur gígur í jörðina sem sker gamla Keflavíkurveginn í sundur. Hefur jarðvatn náð að mynda tjörn í botni námunnar sem nefnist Rauðamelstjörn. Skógargatan hét áður Óttarsstaðaselsstígur því hún liggur yfir Seljahraun og Mjósund um hlaðið á Óttarsstaðaseli og þaðan áfram suður að Hrúthólma yfir á Krýsuvíkurleið nærri Sveifluhálsi.
Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim  blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar Alfaraleidin-33er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við við á hægri hönd. Þetta er falleg lítil fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Vert er að staldra við og skoða Smalaskálahæð nánar. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir í bók sinni Íslenskum aðli. 

Gvendarbrunnur-21

Ef Alfaraleiðinni er fylgt áfram þar sem vikið var af henni við Smalaskálahæð, þá er framundan stakur hraunhóll sem minnir á höfuðfat. Farið er framhjá þessum hól á nokkuð greinilegum slóða og má sjá vörðubrot á stöku stað. Leiðin verður brátt óglögg vegna gróðurs og þessvegna getur verið erfitt að fylgja henni, enda sjást ekki mörg kennileiti sem hægt er að styðjast við. Haldið er áfram þar til fer að halla til vestnorðvesturs og lækkar þá landið smám saman. Á vinstri hönd má sjá Taglhæð, nokkuð sérstakan hraunhól, síðan er tiltölulega slétt hraun sem nefnist Sprengilendi.

Alfaraleid-4

Framundan er hæðótt hraunlandslag með einstökum vörðum sem hverfa síðan alveg þegar nær dregur Reykjanesbrautinni. Virkishólar eru sunnan Alfaraleiðarinnar sem stefnir nú að Hvassahrauni. Gatan sést mjög vel áður en komið er að undirgöngunum. Skynsamlegt er að fara í gegnum göngin undir Reykjanesbraut og stefna eftir gamla Keflavíkurveginum að Hvassahraunsrétt. Ofan hennar sést gatan enn mjög vel. Þegar þangað er komið hættir þessi þjóðleið að kallast Alfararleið og heitir eftir það Almenningsleið. Þeirri leið verður ekki lýst nánar, en hún liggur nærri sjónum framhjá Kúagerði, nokkurn vegin með veginum út á Vatnsleysuströnd, um Voga og Vogastapa og Innri Njarðvik, Fitjar, Ytri Njarðvík til Keflavíkur og þaðan suður í Sandgerði.
Kaflinn frá Hamarskotslæk í Hafnarfirði að Stekknum ofan Þorbjarnarstaða er 6.2 km.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-hraunavinir.net

Hvaleyri

Hvaleyri við Hafnarfjörð.