Bláfjallahellar

Ætlunin var að skoða hellana í Strompahrauni vestan Bláfjalla. Hellarnir eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna. Skoðaðir voru 11 hellar, auk eins, sem ekki hafði verið skráður; Djúpihellir – Langihellir – Goðahellir – Rótarhellir – Tanngarðshellir – Hurðarbakshellir – Ranghali (Gljái) – Rósahellir – Smáhellir – Krókudílahellir – Rósarhellir – Smáhellir – Bátahellir – (Litla Gatið).

Langihellir

Í Langahelli.

1. Langihellir700 metra langur. Hann er vestan við Djúpahelli. Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru innig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.

Blafjallahellar-223

Í Rótarhelli.

2. Rótahellir er um 210 metra langur. Þegar komið er niður um gatið, sem er hraunketill, tekur við víð rás. Þröng rás liggur inn úr henni og þarf að skríða á nokkurra metra kafla. Þá er komið inn í helgidóminn. Langar rætur teygja sig niður úr loftinu. Þverhellir er þar fyrir innan svo og við rás með nokkrum þrengri. Innan við eina rásina tekur við víður hellir, sem lokast þar. Rótarhellir er nyrstur Bláfjallahella.

Blafjallahellar-222

Í Tanngarðshelli.

3. Tanngarðshellir er um 190 metra langur. Hann er á milli Krókudílahellis og Rótahellis. Farið er niður og inn í sæmilega vítt op til norðurs. Þar skammt fyrir innan er tanngarðurinn utan í nokkuð stórum flór. Farið er yfir haft og þá blasir við fallegur flór og mikil litadýrð. Í lofti eru separ. Hellirinn endar í stórum geimi. Þótt hann sé ekki langur er hann einstaklega fallegur.
Fara þarf varfærnum skrefum hellinn – líkt og um alla aðra slíka á svæðinu.

Blafjallahellar-225

Í Djúpahelli.

4. Djúpihellir er um 150 metra langur. Farið er inn um mjög stórt op í jarðfalli. Hrun er í hellinum, en vegna þess hversu stór hann er kemur það ekki að sök. Dagsbirta kemur niður í hvelfinguna um op á loftinu. Farið er yfir jarðfall og niður og inn um hrunda rás. Þá er komið inn í aðra hvelfingu á þremur hæðum. Liggja hraunrásir þar út frá á hverri hæð, en engin þeirra virðist afgerandi. Lofthæð þarna er a.m.k. 15 metrar.

5. Ranghali (Gljái) er um 100 metra langur. Annað nafn á hellinum er Gljái, en þegar komið er niður um opið eru glansandi hraunfletir utan við þrengri rás. Þegar henni er fylgt er komið inn í víðara rými, en hellirinn endar í hruni. Fallegt sepaloft er í inni hellinum.

Blafjallahellar-224

Í Rósahellir.

6. Rósahellir er um 70 metra langur. Hann er rétt vestan við vestari veginn að skíðasvæðunum og um 15 metra ofan við Kóngfellhraunið. Um miða vegu greinist hann í tvennt, en vinstra rásin nær ekki nema um 20 metra. Hægri rásin nær um 30 metra inn og á gólfi hennar eru fallegt rósamynstur á gólfi.

7. Bátahellir er stuttur, ekki nema um 30 metra langur. Hann er opinn í báða enda, en á gólfi hans mótar fyrir þremur aflöngu bátalaga hraunmyndun. Myndrænt fyrirbæri, líkt og Tanngarðshellir.

8. Smáhellir er fremur stuttur, eða um 20 metra langur. Þegar inn er komið tekur við þröng op, en þar fyrir innan er fallegt hýsi. Falleg hraunrás kemur út úr vegg hellisins innst í honum.

Blafjallahellar-226

Í Krókudílahelli.

9. Krókudílahellir er sérkennilegur, en fremur stuttur. Opið liggur upp úr geimi, til vinstri og upp þegar inn er komið. Þegar í gegnum hana er komið liggur þverrás þar fyrir innan. Þegar beygt er til vinstri má sjá stallaðan hraunflór og er hann eins og krókudílahaus í laginu. Fyrir innan endar hellirinn í þröngri rás.

10. Goðahellir er nyrsti hluti Djúpahellisrásarinnar (auk Bátshellis). Þegar komið er niður í hellinn tekur við mikið gímald. Hellirinn er um 100 metra langur. Farið er inn um þrengsli í botni hans og er þá komið í fremur lágt rými með fallegri brúnni glermyndaðri hrauntjörn á gólfinu.

11. Hurðarbakshellir er stuttur afgangur vestan við Goðahelli. Hann er þó vissulega skoðunarinnar virði.

12. Litla Gatið er fremur lítið, svo til beint niður í jörðina, u.þ.b. hálf mannshæð. Rásin, sem liggur til suðurs, er um 12 m löng, en með fallegum myndunum; tveimur brúnleitum litlum hraunfossum og flór í smækkaðri mynd.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Tanngarðshellir

Í Tanngarðshelli.