Öskjuhlíð

Í Morgunblaðinu árið 1997 er fjallað um “Öskjuhlíð – margþætta útivistarperlu“:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð og nágrenni – örnefni.

Öskjuhlíðin er ein meginprýði Reykjavíkur, en samt mun staðreynd að tvö orð munu öðrum fremur koma upp í huga margra er nafnið ber á góma: Perlan og ólifnaður. Það er mikil einföldun, því Öskjuhlíðin er ein glæsilegasta útivistarperla höfuðborgarbúa, auk þess að vera lifandi og nærtæk kennslustofa í jarðfræði, fuglafræði og grasafræði íyrir fólk á öllum aldri. Guðmundur Guðjónsson fletti upp á ýmsum staðreyndum um Öskjuhlíðina.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

“Ímynd Öskjuhlíðarinnar hefur farið batnandi hin síðustu ár og má segja að ekki hafi veitt af, en margt hefur verið gert til að laða fremur fólk að í stað þess að fæla frá sem orðsporið gerði um skeið.
Ef litið er fram hjá Perlunni, er það skógurinn sem við mönnum blasir í Öskjuhlíð og gefur henni þann sterka svip sem raun ber vitni. Það er og skógurinn sem laðar að borgarbúa til útivistar, auk þess að þar er afar skjólsælt í sólaráttinni úr norðri.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Skógurinn er síðari tími fyrirbæri, en Öskjuhlíðin sjálf á sér allmiklu lengri sögu, en í rúnum hennar er rist fjölbreytt jarðsaga seinni hluta ísaldar á Íslandi. Þannig var Öskjuhlíðin eyja fyrir 10.000 árum er sjávarstaða var hærri en hún er í dag. Sæbarðir og slípaðir hnullungar og jökulurð sem liggur eins og baugur á þykkum fingri í 43 metra hæð yfir sjó er til vitnis um þær umbyltingar og breytingar sem orðið hafa á landinu í aldanna rás.
Bergrunnur Öskjuhlíðar er hið svokallaða Reykjavíkurgrágrýti sem er hraun sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Síðar meir sótti kuldinn í sig veðrið og jöklar huldu landið á nýjan leik og er þeir hopuðu með hlýnandi veðri skapaðist Öskjuhlíðin í þeirri mynd sem þekkt er í dag.

Jökulrispur

Jökulrispur.

Jökulskrapaðar grágrýtisklappir víða á svæðinu segja þessa sögu og annað kennileiti er til marks um nýjar breytingar með hlýnandi veðri. Þá hopaði jökullinn og elti. Mynduðust þá Fossvogsbakkarnir við norðanverðan Fossvog, en í þeim eru steingerðar leifar skelja, kuðunga og fleiri sjávardýra er þá voru uppi. Yfirleitt lifa sömu tegundir enn í dag þannig að ástandið til lands og sjávar á þessum tíma hefur verið líkt og nú. Álitamál er hins vegar hvort að þessi lög hafi orðið til á síðasta hlýskeiði ísaldar eða í lok síðasta jökulskeiðs sem hófst fyrir 70.000 til 120.000 árum og lauk fyrir um 10.000 árum. Land reis þegar jökullinn gaf eftir og þá færðust fjörumörkin heldur betur upp á við eins og frá var greint hér áðan.
Það hefði verið fróðlegt yfir Reykjavíkursvæðið að líta á þessum tímum. Þá voru Öskjuhlíð og Háaleyti eyjar og topparnir á Laugarási og Rauðarárholti sker! Á næstu þúsund árum lækkaði sjór hins vegar á ný og núverandi fjörumörk náðust. Við erum ekki að tala um langan tíma í jarðsögulegum skilningi þó mannsaldrarnir séu óteljandi og því er óhætt að segja að mikið hafi gengið á.

Tré, plöntur og fuglar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Á fimmta áratugnum fór að vakna til vitundar með þjóðinni nauðsyn á opnum svæðum, útivistarsvæðum, þar sem menn gætu unað, enda færðist mjög í aukana nokkuð sem áður var framandi með mönnum hér norður í höfum, þ.e.a.s. frístundir.
Heiðmerkursvæðið var friðað árið 1948 og menn létu ekki þar við sitja, heldur litu í kring um sig eftir fleiri valkostum. Ræktunarsaga Öskjuhlíðar hófst um þetta leyti og árið 1950 fór Einar G.E. Sæmundsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, með tilbúinn áburð og mokaði honum á melkoll einn ofarlega í Öskjuhlíðinni. Árangurinn lofaði góðu og í kjölfarið var farið að sá grasfræi og gera hinar og þessar athuganir á svæðinu. 1951 kom fyrsta ákvörðunin um ræktun trjáa og þá í norður- og vesturhlíðum Öskjuhlíðar. Fleira var og í farvatninu, m.a. göngustígagerð og verndun svæðisins. Frá upphafi hefur Hitaveita Reykjavíkur staðið straum af kostnaði við ræktunina, en Skógræktarfélag Reykjavíkur haft umsjón með henni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Hundruð þúsunda trjáa hafa verið gróðursett í Öskjuhlíð sem er að stórum hluta skógi vafin. Skilyrði virðast góð, enda reyndust hæstu plöntur við mælingu árið 1991 vera yfir 9 metrar. Var það sitkagreini, en bergfurur voru þá um 5 metrar og aspir um 7 metra háar. Auk þess er birki algengt og í góðri grósku. Alltaf eru að finnast nýjar plöntur í Öskjuhlíð, svona ein og ein, en árið 1993 höfðu fundist 135 tegundir háplantna sem er um þriðjungur íslensku flórunnar.

Brandugla

Brandugla.

Mikið fuglalíf þrífst einnig í hlíðinni, bæði í skóginum og á annars konar búsvæðum sem þar er einnig að finna. Hátt í 100 tegundir fugla hafa sést í Öskjuhlíð og um tugur verið árvissir varpfuglar. Sumir varpstofnarnir eru mjög stórir, s.s. stofnar skógarþrastar og auðnutitlings. Þannig voru um 120 þrastarpör er skarinn var talinn af kunnáttumönnum sumarið 1992. Þá voru auðnutitlingspör um 60 talsins. Sama sumar voru talin vera 5 stokkandarpör verpandi, tvö tjaldspör, þrjú sandlóupör, þrjú heiðlóupör, sjö til tíu stelkspör, tíu til fimmtán hrossagaukspör, fimmtán til tuttugu þúfutitlingspör og tvö til fimm starapör, auk þrasta og auðnutitlinga sem áður er getið um. Þá hefur hrafn oft verpt eða reynt varp. Hann er þó ekki árviss varpfugl.
Auk varpfugla má sjá margt skrítið og skemmtilegt. Þannig vita trúlega fáir að allt að 3-4 branduglur veiða mýs í Öskjuhlíð á vetrum, einkum í skóginum vestan í hlíðinni og algengt er að sjá kanínur á flækingi. Uppruni þeirra mun sá að gæludýraeigendur missa áhugann eða sjá aumur á dýrunum í prísundinni og gefa þeim frelsi með það að leiðarljósi að betra sé að lifa skemur í frelsi en lengi í prísund.

Minjar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Auk skóglendis með tilheyrandi fuglalífi og tækifæri til náttúruskoðunar á mjög víðu sviði er að finna á þessum slóðum margskonar minjar, ekki síst frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Má þar nefna skotgrafir, víghreiður og fleira sem átti að skjóta þýska hernum skelk í bringu ef hann vogaði sér að renna hýru augu hingað norður. Á þennan hátt mætti lengi halda áfram, því það er í raun ótæmandi að nefna hvað hægt er að skoða í Öskjuhlíð. Það er því ekki að undra þótt þeim fjölgi mjög frá ári til árs sem eyða æ fleiri auðnustundum í og við Öskjuhlíð.”

Í Morgunblaðinu árið 2013 er fjallað um “Stríðsminjar á hverju strái”:

Öskjuhlíðin er ævintýraland;  menningarsaga frá merkum tímum, skotbyrgi og niðurgrafin stjórnstöð. Hlíðin er vinsælt útivistarsvæði.

“Í Reykjavík eru sérstæðar söguslóðir inni í miðri borg. Stundum þarf nefnilega ekki að leggja land undir fót eða heimsækja staði þar sem hin opinbera saga hefur gerst eða er uppfærð á safni svo hverfa megi inn í nánast aðra og framandi veröld. Og það er gott innlegg í græna framtíð að labba um fallega staði í næsta nágrenni við sig og hverfa aftur til fortíðar og forvitnilegra sagna.

Til að verjast Þjóðverjum

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Þeir sem fara um Bústaðaveginn veita líklega ekki mikla athygli tveimur steyptum skotbyrgjum skammt fyrir vestan Veðurstofuna. En þarna blasa þau við og eru um 100 metra frá vegarbrún. Eru að hálfu niðurgrafin en undir steyptu skyggni er allstór rauf, þar sem byssumenn búnir til bardaga höfðu gott útsýni út yfir Fossvog og Skerjafjörð.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940. Herliðið með þúsundum dáta tók brátt til óspilltra mála við framkvæmdir, meðal annars við flugvallargerð í Vatnsmýri. Völlurinn var tekinn í notkun sumarið 1941 og hafði mikla þýðingu fyrir breska herliðið. Hlutverk þess var fyrst og síðast að verjast Þjóðverjum og í því efni var flugvöllur nauðsyn. Þó sást á stríðsárunum aðeins tvisvar til þýskra flugvéla frá Reykjavík. Eigi að síður þótti allur varinn góður. Því voru reist skotbyrgi víða um Öskjuhlíð og raunar víðar um bæinn.

Flóð brennandi eldsneytis

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – veggur til varnar olíuleka.

Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir ofan Keiluhöllina er stór steinsteypt virkisborg, að mestu niðurgrafin. Borgin er átta metrar á hvern kant og inn í byrgið er gengt um yfirbyggðar töppur sem eru hvorar á sínum gafli. Og þar inni ætlaði yfirstjórn herliðs Breta að hafast við ef kæmi til stórfelldrar árásar á flugvöllinn. Svo fór ekki, en rammgert byrgið stendur þó enn. Betra er þó að fara með gát smokri fólk sér þar niður og þá er nauðsynlegt að hafa vasaljós.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – neyðarstjórnstöð.

Stærsta mannvirkið frá stríðstímum, sem enn stendur í Öskjuhlíðinni, er grjótveggur sem er vestarlega í hlíðinni, út undir Nauthólsvík. Hann var reistur árið 1944, er nokkuð á annað hundrað metrar á lengd og tveir til þrír metrar á hæð. Er úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Virkið þurfti líka að vera traust, að baki því voru þrír stórir eldsneytisgeymar og áttu veggir þessir að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loftárás yrði gerð á takana. Þeir voru teknir niður fyrir margt löngu, en veggurinn stendur enn falinn inni í þykku skógarrjóðri. Væri vel þess virði að við hann yrði komið upp merkingum eða söguskilti sem og við aðrar stríðsminjar í Öskjuhlíð.”

Heimildir:
-Morgunblaðið 01.06.1997, Öskjuhlíð – margþætt útivistarperla, bls. 6B-7B.
-Morgunblaðið 25.04.2013, Stríðsminjar á hverju strái, bls. 9.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – upplýsingaskilti.