Laugarnes

Búseta hófst í Laugarnesi skömmu eftir landnám. Samkvæmt Jarðabókinni frá 1703 voru þá í Laugarnesi fjórar hjáleigur og íbúar 28. Búskapur var þá mestur hjá bóndanum í sjálfu Laugarnesi en í kotunum var hokurbúskapur. Tvö hjáleigukotanna stóðu hvort við sína vörina, Norðurkotsvör og Suðurkotsvör. Norðurkot var áður kallað Sjávarhólar en Suðurkot, sem    var nær Kirkjusandi, var kallað Naustakot. Bóndinn þar var formaður á báti Laugarnesbóndans. Þriðja hjáleigan, Barnhóll, stóð við samnefndan hól.
LaugarnesFjórða hjáleigan var á hlaðinu hjá Laugarnesbænum. Laugarnesstofa var byggð árið 1825 sem embættisbústaður biskups. Þá var hjáleigubúskapur í Laugarnesi lagður af. Meðan stofan var heimili biskups bjuggu um 20 manns þar. Eftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu ,,Sameigendur Lauganess“ en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885. Rekstur jarðarinnar var með svipuðu móti og áður, en þá bjuggu á jörðinni Jón Þórðarson og kona hans Þorbjörg Gunnlaugsdóttir. Hann stundaði miklar jarðarbætur, slétti tún og hlóð upp mikla túngarða. Auk þess byggði hann nýtt íbúðarhús. Síðustu ábúendur Laugarnes jarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Lauganesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. Með tímanum færðist borgarbyggðin smám saman austur á bóginn og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð.
Eftir að Laugarneskampi  var breytt í íbúðabyggð  bjuggu þar mest um 300 manns á árunum 1952-1957. Laugarnesbærinn var rifinn 1987.

Laugarneskampur

Í Laugarneskampi um 1950.

Breski herinn gekk á landi í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn. Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn.
LaugarnesEitt þeirra var vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum. Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1996 skrifar Margrét Hallgrímsdóttir um Laugarnesið:

Laugarnes

Laugarnes – MWL.

“Stóran hluta af menningarsögu okkar má finna í mannvistarleifum og örnefnum. Byggð hefur verið í Reykjavík frá því land var numið og eru skráðar fornleifar í Reykjavík hátt á annað hundrað. Vitað er um mun fleiri minjastaði og má þar sérstaklega nefna eyjarnar í Kollafirði. Tvisvar hefur verið gerð fornleifaskrá yfir minjar borgarinnar og síðast 1994-1995. Um þessar mundir er unnið að annarri endurskoðun skrárinnar.
Fornleifaskrá Reykjavíkur hefur legið til grundvallar minjavörslu höfuðborgarinnar og í nýútkomnu Aðalskipulagi Reykjavíkur er sérstök áhersla lögð á varðveislu menningarminja í Reykjavík, húsa og fornleifa.

Laugarnes

Laugarnes – spítalinn.

Laugarnes sem hér er átt við, er sjálf táin þar sem bærinn Laugarnes stóð fyrrum og listasafn Sigurjóns Olafssonar stendur nú. Afmarkast þetta svæði af tollvörugeymslum við Héðinsgötu í vestri, og Sæbraut í suðri og hafinu, Kollafirðinum. Strandlengjan með nánasta umhveríi á þessu svæði er sú eina í borgarlandinu og á Seltjarnarnesinu hinu forna, norðanmegin, sem enn er ósnortin og upprunaleg. Er Laugarnesið á náttúruminjaskrá og strandlengjan friðlýst. Gróðurfar, sérlega umhverfis mýrina hjá Norðurkoti, og á holtinu norðaustan við hana, er með því fjölbreyttasta sem til er innan borgarmarkanna.
LaugarnesÚtsýni frá Laugarnesinu er fagurt og fuglalíf fjölbreytt og því möguleikar á áhugaverðri útivist fyrir almenning þar sem fer saman fjölbreytt og óspillt náttúra og minjar.
Elstu öruggu heimildir ritaðar um mannavist í Laugarnesi eru í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, sem talin er frá því um 1200.
Kirkjan í Laugarnesi var lögð niður árið 1794, þegar sóknin var sameinuð dómkirkjusókninni í Reykjavík. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru friðlýstar.
Gera má ráð fyrir að búskapur í Laugarnesi sé jafn gamall byggð í landinu, eða allt að því. Bæjarhóll Laugarnesbæjarins er stór og eru varðveittar þar rústir langvarandi búsetu.
Í  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru þrjár hjáleigur nefndar frá Laugarnesi. Eru þær Barnhóll, Norðurkot og Suðurkot. Í manntali frá sama ári eru hins vegar fjórar hjáleigur taldar til, og eru þær; Barnhóll, Naustakot (Norðurkot), Á Fitinni (Suðurkot) og Á hlaðinu. Sú síðast talda mun hafa verið heima við bæinn. Rústirnar eru enn greinilegar. Sama er að segja um varirnar Norðurkotsvör (Norðurvör) og Suðurkotsvör (Suðurvör). Síðustu bæjarhúsin voru rifm árið 1987, en eiginlegur búskapur hafði lagst af allnokkru fyrr.
LaugarnesTil gamans má geta þess að Laugarness er getið í Njálu, en á landnámsöld mun Ragi sonur Ólafs hjalta hafa eignast Laugarnesið, en hann mun hafa numið land fast á hæla Skalla-Gríms. Eftir því sem Njáls saga hermir hefur Laugarnes því orðið sjálfstæð jörð nokkrum áratugum eftir að land byggðist. Þar segir að Þórarinn Ragabróðir, sem var lögsögumaður eftir Hrafn Hængsson, hafi búið í Laugarnesi. Þórarinn fór með lögsögu 950-969. Mágkona Þórarins, Hallgerður Höskuldsdóttir, betur þekkt undir viðurnefninu langbrók, er sögð hafa búið í Laugarnesi og þaðan lagt upp í ferð til Þingvalla þar sem hún er sögð hafa hitt fyrir Gunnar á Hlíðarenda.” Munnmæli herma að hún hafi flust aftur í Laugarnes eftir víg Gunnars og borið þar beinin, sbr. örnefnið Hallgerðarleiði. Legstaður hennar er talinn hafa verið í hinum friðlýsta Laugarneskirkjugarði eða utan hans við gatnamót Laugarnesvegar og Kleppsvegar. Þegar unnið var að gatnagerð á þessu svæði var hóllinn fjarlægður og kom þá í ljós að hann var leifar rauðablásturs.

Laugarnes

Laugarnesstofa um 1830.

Á Laugarnesi eru þó ekki eingöngu varðveittar minjar búskapar. Árið 1787 er Hannes biskup Finnson talinn eigandi Laugarness og að honum látnum giftist ekkja hans séra Steingrími Jónssyni, er síðar varð biskup. Við það eignaðist hann Laugarnes. Árið 1824 fékk Steingrímur því framgengt að veitt var álitleg fjárhæð til að byggja embættisbústað handa honum. Voru til þess fengnir danskir iðnaðarmenn, sem fengu öl eftir þörfum og pela af brennivíni á dag til að ljúka verkinu. Húsið var hið veglegasta að útliti, en þó sagt bæði illa byggt og lekt. Laugarnesstofa var svipuð Viðeyjarstofu að útliti, en minni og með stórum kvisti á framhlið.
Árið 1838 keypti konungur Laugarnes af biskupi og var tilgangurinn m.a. að hafa þar biskupssetur til frambúðar. En næsti biskup á staðnum, Helgi Thordersen, kvartaði undan staðnum og benti á að farartálmar á leið hans til Reykjavíkur væru slíkir, að ekki væri forsvaranlegt að búa á staðnum. Fluttist hann á brott árið 1856 og lauk þá sögu biskupa í Laugarnesi. Stofan stóð þó eftir, en var auðveld bráð eyðingaraflanna og var stuttu síðar „heríileg að sjá, flestir gluggar brottnir, og ótérlegt inn að líta.”
LaugarnesSíðasta hlutverk Stofunnar var hlutverk sjúkrahúss, en 1871 voru geymdir þar nokkrir bóluveikir franskir sjómenn og báru nokkrir þeirra beinin í Laugarnesi. Stofan var rifm þegar danskir Oddfellowar gáfu Íslendingum holdsveikraspítala, sem var fullbyggður árið 1898. Spítalinn var stórt timburhús eins sjá má á gömlum ljósmyndum, sem teknar voru frá Kirkjusandi. Líklegt má telja að spítalinn hafi verið stærsta hús landsins á þeim tíma. Húsið var tvílyft me ð stuttum álmum til endanna. Laugarnesspítali stóð á flötinni austan við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og sneri framhlið í suður. Starfaði spítalinn í hartnær hálfa öld.
Árið 1940 lagði breski herinn hald á spítalann. Mikið hverfi bragga reis þar allt í kring á þeim slóðum sem listasafnið nú er. Spítalinn brann árið 1943 er hann var í notkun breska setuliðsins.

Laugarnes

Laugarnes – Holdsveikraspítalinn.

Engin greinileg merki sjást lengur um þessar byggingar, en fullvíst má telja að jörðin geymi síðustu leifar þessa tímabils í sögu Laugarness þótt þar hafi orðið nokkurt rask vegna braggabyggðar stríðsáranna. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari (d. 1982) fékk til umráða einn herskála í Laugarnesi árið 1945 og setti þar upp vinnustofu sína. Það var grunnurinn að Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, sem stofnað var árið 1984

Minjavarsla Laugarness
LaugarnesLaugarnesið einkennist enn af hinu gamla og óspillta svipmóti og er strandlengjan að mestu ósnortin. Ibúðarbyggð er nokkur á nesinu og hefur hlotist nokkurt rask af því. Laugarnes er á náttúruminjaskrá og er fjaran á Laugarnestanga friðlýst. Gróður í mýrlendinu umhverfis Norðurkotsvörina og á holtinu norðaustan við hana er meðal þess fjölbreyttasta sem finnst á Reykjavíkursvæðinu. Utsýni frá Laugarnesi er mjög fagurt og fjölbreytilegt. Auk hinna ómetanlegu náttúru sem þarna er að finna hefur Laugarnesið þó sérstöðu vegna sögu þess og minja.
Þarna er talið að stundaður hafi verið búskapur allt frá 10. öld og fram á níunda tug þessarar aldar. Bændur heyjuðu tún, beittu búsmala og réru til fiskjar. Norðurkotsvörin er einstök og ein fárra slíkra sem varðveist hafa í borgarlandinu. Laugarnesbændur nýttu fjörur og annað það sem náttúran færði þeim til nytja. Laugarnes er því dæmi um vel varðveitt menningarlandslag þar sem sögulegar minjar haldast í hendur við náttúru og umhverfi.
LaugarnesBæjarhóllinn og kirkjugarðurinn í Laugarnesi eru friðlýst svæði vegna sérstaks minjagildis. Friðaðar fornminjar teljast til þjóðminja, sem sérstaka þýðingu hafa fyrir menningarsögu íslendinga og skal slíkum friðlýstum minjum fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifanna. Kirkjugarðurinn er ferhyrndur og sést enn móta fyrir sáluhliði á vesturvegg hans. Þar má greina rúst síðustu torfkirkjunnar í miðjum kirkjugarðinum. Hún var lögð niður árið 1794 þegar Laugarnessókn var lögð undir Dómkirkjuna í Reykjavík. Kirkjan hefur verið torfkirkja með timburstafhi og hefur snúið frá austri til vesturs í samræmi við kirkjulög.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Enn má sjá dæmigert gamalt tún með beðasléttum frá því um aldamót vestan bæjarhólsins. Beðaslétturnar má telja vel varðveittar og eru heimildir fyrir slíkum beðasléttum allt frá víkingaöld í nágrannalöndum okkar. Einnig sést móta fyrir leifum hjáleigukotanna í Laugarnesi og er mikilvægt að lögð verði áhersla á varðveislu þeirra í tengslum við sjálft bæjarstæði Laugarnesbæjarins.
Auk þeirra rústa, sem getið er í fornleifaskrá, má nefna rúst beint vestur af grunni Laugarnesstofu (kölluð Spítalahóll hér á eftir) og aðra norðvestur af Norðurkoti. Síðarnefnda rústin er leifar skotbyrgis frá setuliðinu.

Niðurstaða og tillaga að varðveislu
Laugarnes
Reykjavík er menningarlandslag í heild sinni. Þar eru fornleifar á annað hundrað stöðum. Þar á meðal eru merk svæði, sem hafa sérstakt gildi fyrir menningarsögu Islendinga. Slík svæði hafa verið skilgreind sem menningarlandslag eða búsetulandslag. Laugarnes er dæmi um heilsteypt búsetulandslag með sérstakt varðveislugildi. Í minjavörslu Reykjavíkur hefur oft reynst flókið að standa vörð um þá heild sem þar er varðveitt. Í Laugarnesi má rekja söguna til aldamótanna 1200 og sennilega lengra aftur. Saga Laugarnessins snertir byggðasögu landsins, kirkjusögu, sjúkrahúsasögu, sögu Reykjavíkur og sögu hernáms á Islandi.

Laugarnes

Laugarnes og Kirkjusandur.

Á tánni var ekki aðeins lögbýlið Laugarnes, þar voru einnig hjáleigur, og kotið Suðurkot um tíma og þar var kotið Norðurkot, sennilega bæði stærra í sniðum og með lengri búsetu. Auk býlanna var kirkja og kirkjugarður í Laugarnesi um aldir og á síðustu öld risu þar biskupssetur og spítali. Minjar þessara mannvirkja eru varðveittar enn. Á nesinu er fjölbreytt náttúra, bæði dýra og gróðurs, og þar er ein af fáum ósnertum fjörum Reykjavíkur. Bæði fjaran og bæjarhóll Laugarness eru friðuð. Sérstakt náttúrufar og fagurt útsýni tilheyrir hinu forna sögubóli Laugarness. Hjáleigurústirnar, Norður- og Suðurkotsvör, túnið með beðasléttunum og fjaran eru mikilvægir hlutar eins elsta bæjarstæðis á íslandi, rétt eins og hinar friðlýstu minjar bæjarhólsins og kirkjugarðsins.

LaugarnesÞessi atriði eru öll hluti af samspili, sem gerir Laugarnesið að heilsteyptu menningarlandslagi. Ómetanlegt er að slíkar heildir varðveitist innan höfuðborgar og því mikilvægt að ásjóna Laugarness raskist ekki. Er það mat undirritaðrar að stuðla beri að varðveislu Laugarness, sem heilsteypts búsetulandslags vegna ómetanlegs samspils náttúru og sögulegra minja. Laugarnesið hefur sérstöðu í menningarsögu Reykjavíkur. Því ber að varðveita það í núverandi mynd, sem næst ósnortið þótt snyrta þurfi svæði og bæta merkingar. Er það minjavörslu svæðisins til framdráttar að gera svæðið að aðgengilegu útivistarsvæði fyrir almenning þar sem minjar ekki síður en náttúra gefa svæðinu gildi. Það eykur virðingu og áhuga fólks á gildi slíkra svæða. Þannig yrði Laugarnestáin gerð að útivistarsvæði fyrir almenning, þar sem minjarnar í samspili við náttúru og útsýni fengju notið sín.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1996 – Margrét Hallgrímsdóttir, “Menningarlandslagið Reykjavík og búsetulagið Laugarnes”, bls. 141-148.

Laugarnes

Laugarnesstofa.