Færslur

Laugarnes

Á Laugarnesi í Reykjavík er skilti. Yfirskriftin á skiltinu er; “Velkomin á Laugarnes“.

Laugarnes

Laugarnes – skilti.

Á skiltinu má lesa eftirfarandi texta: “Laugarnes er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hér er eina náttúrumyndaða fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Fjaran er mikilvæg fyrir fuglalíf, þar sem á svæðinu verpa nokkrar fuglategundir.
LaugarnesMenningarlandslagið í Laugarnesi hefur mótast af búsetu í margar aldir og hver kynslóð hefur markað sín spor í landið.
Búið er í fjórum húsum á svæðinu auk þess sem Listasafn Sigurjóns Ólafssonar er starfrækt hér.

Hernámið
LaugarnesBreski herinn gekk á land í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn.
Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn. Eitt þeirra var hér vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur.
LaugarnesÁrið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns.
Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganum bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.”

Skammt frá skiltinu er annað upplýsingaskilti um fyrrum holdveikraspítalann á Lauganesi – sjá HÉR.

Laugarnes

Laugarnes – búsvæði Hrafns Gunnlaugssonar.

 

Oddfellow - skjöldur

Guðfinna Ragnarsdóttir skrifaði um “Laugarnesið” í rit Ættfræðingafélagsins árið 2017:

Guðfinna Ragnarsdóttir

Guðfinna Ragnarsdóttir.

“Það lætur ekki mikið yfir sér Laugarnesið, þessi snubbótti tangi sem teygir sig til norðvesturs út í flóann í átt að Engeynni. En þar leynist bæði löng og merk saga, saga kvenna og karla, saga atburða og örlaga, saga biskupa og valda, saga mennta og menningar, saga stríðs og átaka, saga hernáms og fátæktar, saga sjúkdóma og erfiðleika, saga lista og listamanna og inn á
milli, þótt ekki fari hátt, saga alþýðunnar, sem háði þar sitt stríð öld fram af öld. Ströndin við Laugarnesið er einnig einstök náttúruparadís. Þar er eina ósnortna fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Þar móka selir á steinum, tjaldurinn hoppar í fjörunni, krían gargar og mávurinn sveimar yfir hafsbrúninni í leit að æti. Í norðrinu rísa Esjan og Skarðsheiðin og vinalegt Akrafjallið teygir sig til vesturs.
Reykjavík - jarðir Hún var víðlend, jörðin Laugarnes, þegar hún var og hét. Svo víðlend að hún tók yfir meirihluta þess svæðis sem Reykjavík stendur á í dag. Sjálfsagt hefur það verið Ingólfur okkar Arnarson og hans lið sem fyrst bjó á þessu svæði. Það er gaman að eiga eina ljósa mynd af þessum frumbyggjum Reykjavíkur, og þar með Laugarness, mynd sem sýnir okkur sonarson Ingólfs, Þorkel mána, sem lét á banadægri bera sig út í sólskinið og fól sál sína þeim guði sem hefði skapað sólina, og var hann þó maður heiðinn. Þormóður, sonur Þorkels, varð svo allsherjargoði þegar kristni kom á Ísland. Þeir Þorkell og Þorgeir Ljósvetningagoði lögsögumaður voru þremenningar, en ömmur þeirra voru systur, dætur Hrólfs rauðskeggs.
Það er líka gaman að geta þess að laugarnar góðu sem komu við sögu nafngiftar Reykjavíkur gáfu einnig ótal öðrum örnefnum svæðisins nafn: Laugarnes, Laugamýri, Laugaholt, Laugalækur og einnig seinni tíma nöfn eins og Laugarás og Laugardalur.

Jarðabókin

Laugarnes

Laugarnes og Laugarnesstofa.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín veitir góða lýsingu á Laugarnesi sem og öðrum jörðum á Íslandi í byrjun 18. aldar. Jörðin er 20 hundruð að dýrleika, kirkjukúgildi 3 og leigukúgildi 3. Kvikfénaður 4 kýr, 2 kvígur mylkar, 1 kálfur, 16 ær, 15 sauðir veturgamlir, 4 lömb, 2 hestar, 2 hross. Fóðrast kunna 6 kýr. Heimilismenn 7. Torfrista, stunga og móskurður nægilegt í heimalandi. Rekavon lítil. Hrognkelsaveiði má vera, ef iðkuð væri með neti. Túnið spillist stórlega af vatnsgangi. Engjar litlar, spillast af vatni. Vatnsból erfitt. Heimræði er hér varla að kalla; þó er það um vor og haust, þegar fiskur gengur grunnt inn á fjörðinn. En um vertíð, ef heima skal lenda, er langræði meira en hófi sætir, og fyrir þá grein hefir jörðin um langar stundir átt og brúkað skipauppsátur og verbúð.

Laugarnes

Laugarnes og Engey voru fyrstu jarðirnar sem fóru undan landnámi Ingólfs, en það mun hafa verið innan við öld eftir landnám. Einhvern tíma fyrir 1575 byggðust svo jarðirnar Bústaðir og Kleppur út úr Laugarnesjörðinni. Kleppsjörðin stóð nokkru sunnan við núverandi Kleppsspítala. Jörðinni fylgdu miklar kvaðir og búskapur var erfiður. Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að túnin fordjarfist stórlega af sjávargangi og á 18. öld varð að flytja Kleppsbæinn vegna sjávargangs. Bústaðir, sem sneru mót suðri og sól, voru mun betri jörð, enda oft tvíbýlt
þar.

Laugarnes

Reykjavíkurkort frá 1944. Sjá má Fúlalæk ofan Fúlutjarnar.

Fúlilækur
Það var hinn frægi Fúlilækur sem myndaði vesturlandamæri Laugarnesjarðarinnar. Hann kom upp í Kringlumýrinni, rann til norðurs niður holtið, breiddi sem snöggvast úr sér í Fúlutjörninni niður við ströndina, rétt áður en hann liðaðist gegnum fjörukambinn og sameinaðist sjávaröldunum. Hann er nú löngu horfinn undir malbik Kringlumýrarbrautarinnar. Hann var hinn versti farartálmi þegar hann var vatnsmikill, og fræg er sagan um vinnukonuna sem drukknaði í honum með þvottinn sinn á bakinu.
LaugarnesFrá upptökum Fúlalækjar lágu landamærin síðan til suðurs, alla leið í klettinn Hanganda innst í Fossvoginum.AusturlandamæriLaugarnesjarðarinnar hafa fram eftir öldum verið Elliðaárnar, enda átti kirkjan ítök í laxveiðinni þar öld fram af öld.
Það saxast svo hægt og bítandi af landnámi Ingólfs og á 13. öldinni eru fimm jarðir á Seltjarnarnesinu: Nes, Vík, Laugarnes, Kleppur og Gufunes. Frægasti ábúandi Laugarness var Hallgerður langbrók sem bjó þar eftir víg Glúms, manns síns. Sagnir eru um að hún hafi látist þar og sé grafin þar og sé leiði hennar jafngrænt vetur sem sumar. Ekki fundust þó við eftirgrennslan nein merki Hallgerðar.

Kirkjan

Laugarnes

Laugarnes.

Það er svo kirkjunni og kirkjuskjölunum að þakka að við getum rakið sögu Laugarness allt til okkar daga. Öldum saman var Laugarnes, ásamt Engey, í eigu sömu ættarinnar, s.k. Möðruvallaættar. Það er í Kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 sem fyrst er getið kirkju í Laugarnesi.
Saga Laugarneskirkjunnar, líkt og saga flestra annarra guðshúsa þessa lands, endurspeglar bágborið ástand og afkomu þjóðarinnar, sjúkdóma, hallæri, eldgos og aðra óáran sem yfir þjóðina dundi. 1234 á kirkjan rétt á fjórðungi allra laxa í Elliðaánum, Viðeyingar annað eins og Reykvíkingar afganginn. Þetta voru mikil hlunnindi, sem áttu eftir að reytast af kirkjunni í aldanna rás. Sömuleiðis kúgildin. Árið 1379 á kirkjan tíu hundruð í metfé, tvenn messuklæði, þrenn altarisklæði, einn kaleik, tvær kertastikur, kantarakápu, tvær klukkur stórar, glóðarker, sacarium, mundlaug og kross. Þá á hún einnig fjórðung reka á móts við Nes, Engey og Laugarnes „utan Seltjörn og Laugar“. 1575 er altarisklæðið sagt gamalt og því tjáslað saman, hökullinn er gamall, kaleikurinn ærulaus, metaskálar tómar, og járnkarlinn sem á að pota Laugarnesingum sex fet niður, á köldum frostavetrum, er lítill.

Kúgildin
Laugarnes
Brynjólfur biskup Sveinsson vísiterar í Laugarnesi 1642. Þá er þar einn hökull gamall og altarisklæðið á flækingi ásamt sloppi gömlum og slitnum. Kúgildin, sem upphaflega voru tíu, eru nú aðeins þrjú. Þetta þykir biskupnum miður og lætur nótera það í Kirkjustólinn. Nítján árum seinna þegar biskupinn leggur leið sína aftur í Laugarnesið eru þau enn ófundin! 1659 þegar ný kirkja var reist í Laugarnesi var ekki úr miklu að moða, því allar jarðir sem kirkjunni tilheyrðu voru í konungseign, nema Laugarnesið, og voru því undanþegnar tíundargjöldum.

Laugarnes

Laugarnesspítali.

Þegar Brynjólfur vísiterar Laugarnesið í hinsta sinn, árið 1670, er nýja kirkjan illa farin af fúa, kúgildin enn á flandri og auk þess vantar kistu eina gamla. En menn hafa sjálfsagt haft annað að gera á þeim hörmungatímum sem þá gengu yfir þjóðina en eltast við horfin kúgildi og fúnar kistur. En það sem verra er, nú er laxveiðin endanlega gengin úr greipum þeirra Laugarnesmanna og Bessastaðamenn búnir að kasta eign sinni á þessi fornu hlunnindi.
1703 sýnir manntalið okkur að 27 manns eru í Laugarnesi og jörðin enn í einkaeign. 1725 reis af grunni ný og vönduð kirkja og þá dró einnig til tíðinda í eignamálunum. Kirkjan, sem hafði verið í eigu sömu ættar öld fram af öld, etv. allt frá landnámi, komst nú í annarra eigu. Sjálfur biskupinn, Jón Árnason, tók jörðina upp í skuld. Við tóku mörg góð ár, en 1758 þegar Finnur Skálholtsbiskup kemur í sína fyrstu vísitasíu, er kirkjan að falli komin.

Bænabríkin
LaugarnesKirkjan átti þó sína velgjörðarmenn en það voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sem höfðu átt athvarf í kirkjunni þegar þeir dvöldu hjá Skúla fógeta í Viðey, sem þá var orðin kirkjulaus. Þeir gáfu Laugarneskirkjunni forláta altaristöflu eða bænabrík. Á hana er letrað: Til maklegrar skylduendurminningar er þessi tafla gefin heilagri Maríukirkju að Laugarnesi af þeim B. og E. 1757. Þessi altaristafla, sem síðar lenti í kirkjunni að Stað í Grindavík, er eini gripurinn sem varðveist hefur úr gömlu Laugarneskirkjunni. Hún er nú varðveitt á Þjóðminjasafninu.
Þegar Laugarneskirkjan seig saman undan feysknum fjölum sínum árið 1794, voru horfnar sjö af þeim kirkjum sem röðuðu sér með Sundunum fyrir siðaskiptin. Aðeins voru eftir kirkjurnar í Vík, Viðey og Gufunesi.Allt frá miðöldum til loka 18. aldar höfðu kirkjuklukkur Laugarneskirkju kallað fólk á tíu bæjum til messu, en það voru bæirnir Laugarnes, Kleppur, Rauðará, Bústaðir, Breiðholt, Digranes, Hvammkot, Kópavogur, Vatn og Hólmur. Þær hafa mátt hljóma hátt og skært, kirkjuklukkurnar, svo kallið bærist.

Kirkjusandur

Kirkjusandur og Laugarnes um 1920.

Ein ástæða þess að Laugarneskirkjan var lögð niður var að á sama tíma reis af grunni í hjarta bæjarins, á gamla Reykjavíkurtúninu, á Austurvelli, ný og vegleg dómkirkja sem var vígð 1796. Laugarneskirkjan var þá sameinuð Dómkirkjusókninni í Reykjavík. Eins og söfnuðinum var vísað á önnur mið, dreifðust hinar fátæklegu eigur kirkjunnar út um borg og bý. Kirkjuklukkurnar, sem hringt höfðu til tíða og messugjörða öldum saman, voru seldar hæstbjóðanda, og hvar þær svo að lokum hringdu sig inn í eilífðina veit enginn lengur. En á tímum allsleysis var fleira verðmætt en kirkjugripirnir. Hver fjöl, jafnvel þótt fúin væri og lasburða, var seld hæstbjóðanda á uppboði. Þannig keypti Brynjólfur Einarsson lögréttumaður af Kjalarnesi Laugarneskirkjuna, eins og hún lagði sig, á 17 ríkisdali og 56 skildinga. Það segir margt um ástand timbursins í kirkjunni að á sama tíma var timbrið úr Neskirkju selt á 125 ríkisdali!

Hannes

Laugarnes

Það var svo eftir jarðskjálftana miklu 1784 sem menn fóru að hugsa sér til hreyfings með biskupssetur, því Skálholtsstaður var í rúst. Reykjavík hafði þá öðlast kaupstaðarréttindi og til stóð að flytja bæði biskupssetrið og Skálholtsskólann til Reykjavíkur, auk Alþingis. Innan lóðamarka kaupstaðarins voru þá 39 hús og 167 íbúar. Hannes Finnsson Skálholtsbiskup kom að skipulagningu hins nýja biskupsseturs. Hann var bæði mjög efnaður og framsýnn maður og hann gerði sér lítið fyrir og keypti Skálholtið og fékk konungsleyfi til að sitja þar áfram í sinni biskupstíð.
Laugarnesið hafði hann erft árið 1787 eftir fjarskylda frænku sína, Elínu Hákonardóttur, og hafði því ekkert á móti því að biskupssetrið yrði þar. Ekkert varð þó úr flutningi biskupsstólsins og sat Hannes í Skálholti til dauðadags árið 1796. Hann hafði þá verið sjö ár í hjónabandi með seinni konu sinni, Valgerði Jónsdóttur. Á þeim var 32 ára aldursmunur. Hún var 18 ára og hann fimmtugur þegar þau gengu í hjónaband.
Hún varð því ekkja 25 ára gömul. Þau Hannes voru frændsystkin, skyld að öðrum og þriðja. Valgerður fæddist 1771 á Seljalandi undir VesturEyjafjöllum. Foreldrar hennar voru efnafólk og faðirinn sýslumaður. Fyrri kona Hannesar var Þórunn, dóttir Ólafs Stephensens stiftamtmanns í Viðey, en hún var aðeins 16 ára er þau Hannes giftust. Hana missti hann rúmlega tvítuga.

Hannes Finnsson

Hannes Finnsson, biskup.

Þau Hannes og Valgerður eignuðust fjögur börn sem öll komust upp. Eldri dóttur sína skírðu þau Þórunni, eftir fyrri konu Hannesar. Hún giftist Bjarna Thorsteinssyni amtmanni og þeirra sonur var Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor. Engan hefði grunað að Þórunn Hannesdóttir, síðasta biskupsdóttirin í Skálholti, ætti eftir að verða tengdamóðir bláfátækrar stúlku, barnabarns Eiríks Hjörtssonar, ungs bónda í Laugarnesbænum, sem um aldamótin 1800 stóð þar í kirkjugarðinum yfir moldum konu sinnar og ungrar dóttur á helköldum vetrardegi. Slík blöndun æðri og lægri stétta var nánast óhugsandi.
Þessi fátæka, unga stúlka hét Guðríður Eiríksdóttir og var frá Stöðlakoti við Bókhlöðustíg. Hún átti eftir að verða seinni kona Steingríms Thorsteinssonar og eiga með honum fimm mannvænleg börn.

Voldug og rík
Valgerður biskupsfrú var systir Jóns Johnsen lögsagnara á Stóra-Ármóti, en hann var umboðsmaður konungsjarða í Árnessýslu. Hún naut hans vel í viðskiptum sínum þegar hún eftir lát Hannesar sankaði að sér jörðum, enda varð hún ein efnaðasta og voldugasta kona landsins. Ólafur Stephensen stiftamtmaður, fyrrverandi tengdafaðir Hannesar manns hennar, var henni einnig afar hollur ráðgjafi. Í tíu ára ekkjudómi sínum eftir lát Hannesar eignaðist hún 22 jarðir og rekaítök á tíu rekafjörum austan úr Öræfum og vestur á Strandir. Hún reisti einnig kirkju í Skálholti og var sú kirkja kölluð Valgerðarkirkja. Allt þetta sýnir að hér var enginn meðalmaður á ferð.

LaugarnesSteingrímur Jónsson, seinni maður Valgerðar, var fræði- og lærdómsmaður. Hann hafði verið skrifari Hannesar biskups í Skálholti, en Hannes átti mikið safn gamalla rita. Steingrímur var mikill gáfumaður og einstakur námsmaður, hann lauk embættisprófi í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn með ágætiseinkunn sumarið 1803. Hann var fyrsti rektor Bessastaðaskóla, prestur og prófastur í Odda og loks biskup yfir Íslandi. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, prófastur á Mýrum í Álftaveri, síðar í Holti undir Eyjafjöllum, og kona hans, Helga Steingrímsdóttir. Hún var systir eldklerksins Jóns Steingrímssonar.
Steingrímur biskup átti mikið safn handrita og bóka og var stórvirkur rithöfundur. Hann var frábærlega vel að sér í sögu landsins og einn lærðasti maður Íslands um sína daga. Jón Sigurðsson forseti var biskups skrifari hjá þeim hjónunum í Laugarnesi árin 1831-32, eftir að hann varð stúdent. Steingrímur biskup var einn helsti ættfræðingur landsins. Ættartölubækur hans í ellefu bindum, flestar með hans eigin hendi, eru stórmerkileg rit. Í Laugarnesi var geymt mesta safn íslenskra handrita sem þá var til í landinu. Bókaog handritasafn Steingríms varð síðar uppistaða Landsbókasafnsins.

Biskupsstofan

Laugarnes

Laugarnes – Biskupsstofa.

Þau Valgerður og Steingrímur giftu sig árið 1806, og árið 1809, þegar Valgerður er 38 ára, fæðist einkasonurinn Hannes Johnsen Steingrímsson, síðar kaupmaður í Reykjavík, heitinn eftir Hannesi biskupi.

Lauharnes

Laugarnes 1952.

Steingrímur tók við biskupsembættinu 14. júní 1825. Þau fluttust þó ekki inn í Laugarnes fyrr en vorið 1826, þegar biskupsstofan var tilbúin. Þá vantaði, segir sagan, enn bæði glugga og hurðir í húsið. Þar bjuggu þau þar til Steingrímur lést 14. júní 1845. Hinn nýi biskupsbústaður var jafnan nefndur Laugarnesstofan, Biskupsstofan í Laugarnesi eða aðeins Stofan. Það var mikið hús, eitt fárra steinhúsa á landinu, en ekki var það að sama skapi vandað, þótt konungurinn styrkti byggingu þess.
Steingrímur gerði samning 7. apríl 1825 við danskan múrara frá Kaupmannahöfn um smíði stofunnar. Sá hét Fredrik August Maltezow. Vinnulaun hans áttu að vera tveir ríkisdalir á dag, auk fæðis, ókeypis ferð og fæði til Íslands og heim aftur, nægilegt öl daglega, og peli af brennivíni, bæði á leiðinni og allan vinnutímann. Stofan var hlaðin úr múrsteini, með helluþaki, en
mikið af því fauk í ofviðri 1848. Kvistur var á stofunni með svonefndu skútaþaki, og segja fróðir menn að hafi verið fyrsti kvistur á húsi hér á landi. Það kom brátt í ljós að margir gallar voru á Biskupsstofunni og hélt hún hvorki vindum né vatni. 1839 seldi Steingrímur bænum jörðina, en um það hafði áður verið samið. Valgerður lést 1856 hjá Sigríði dóttur sinni og manni hennar Árna Helgasyni prófasti í Görðum á Álftanesi. Hún hafði þá verið ellefu ár í ekkjustandi.

30 ár
Laugarnes
Næsti biskup í Laugarnesi var dómkirkjupresturinn í Reykjavík, Helgi Guðmundsson Thordersen. Ragnheiður, kona Hannesar ráðherra Hafstein, var sonardóttir hans. Helgi biskup undi ekki í Laugarnesi nema í 10 ár. Undir eins og hann varð biskup, sótti hann um að mega búa í Reykjavík, en ekki í Laugarnesi, en honum var neitað um það. Hann flutti ekki úr Laugarnesi fyrr en árið 1856, en þá hafði Laugarnes verið biskupssetur í rétt 30 ár.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Biskupsstofan mun hafa staðið vestan til á nesinu, rétt suður af Listasafni Sigurjóns. Hún var rifin til grunna, þegar Holdsveikraspítalinn var reistur árið 1898. Hún var síðast notuð handa frönskum, bólusjúkum sjúklingum. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins var Stofan gerð að bólusóttarsjúkrahúsi. Franskur sjómaður, segir sagan, deyr úr bólu „á bóluspítalanum“ (Biskupsstofunni) að Laugarnesi 2. apríl 1872, og er greftaður daginn eftir í Laugarneskirkjugarði. Það mun vera síðasta gröfin sem tekin er í þeim gamla garði í Laugarnesinu. Árið áður hafði annar franskur sjómaður látist úr bólu 23. apríl, einnig hann var jarðaður strax daginn eftir.

Holdsveikraspítalinn

Oddfellow - skjöldur

Skjöldur Holdsveikraspítalans í Laugarnesi.  Við vígslu Laugarnesspítala 27. ágúst 1898 festi Dr. Petrus Beyer þetta skilti yfir dyrum spítalans með þremur nöglum og viðhafði um leið eftirfarandi formála: “Ég rek fyrsta naglann í vináttunar nafni, því að hús þetta er sprottið af vinarþeli því, er hin danska þjóð ber til hinna íslensku bræðra sinna. Drottinn veit það, að sama hugarþel verði jafnan ríkjandi meðal þessara bræðraþjóða meðan heimurinn stendur. Ég rek annan naglann í kærleikans nafni með því að hús þetta, sem sprottið er af bróðurkærleiksþeli því, er allir menn eiga að vera gagnteknir af, á að vera hæli þar sem vináttuþel þróast, líknarhendur hjúkra sjúkum og allir eiga að leitast við að inna kærleiksverk af hendi. Ég rek þriðja naglann í sannleikans nafni, af því að þetta hús á að vera sannur vottur um hið innilega samband, sem er milli íslensku og hinnar dönsku þjóðar, og af því að hin íslenska þjóð á einnig að geta séð á þessu verki, sem hér hefur verið af hendi innt, að hin danska þjóð er sannur vinur hennar, því sá er vinur, sem í raun reynist.” Bretar hernámu Ísland 9.maí 1940, og skömmu eftir hernámið fóru þeir að svipast um eftir húsnæði er þeir gætu fengið til afnota hér á landi. Voru þá mjög fáir sjúklingar eftir á Laugarnesspítalanum og samþykkti ríkisstjórnin að láta flytja þá á Kópavogshælið, sem áður hafði verið notað fyrir berklasjúklinga og leigja Bretum Laugarnesspítala. Var þeim flutningum lokið um haustið 1940 og fékk þá breski herinn húsið til afnota. En hinn 8. apríl 1943 barst sú harmafregn um bæinn eins og eldur um sinu að kviknað væri í Laugarnesspítala. Brann húsið þá til kaldra kola á svipstundu og varð ekki við neitt ráðið og var því mikill sjónarsviptir fyrir bæinn. Skilti þessu varð svo bjargað úr brunarústum og ber það þess glöggt merki að hafa gengið í gegnum mikla eldraun. Og er vel viðeigandi að hafa það sem grip NR. 1 í minjasafni Oddfellowa.

Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku þjóðarinnar til Íslendinga að frumkvæði dönsku Oddfellowreglunnar. Hann var reistur í nafni vináttu, kærleika og sannleika og vígður 27. júlí 1898. Byggingin var úr timbri á tveim hæðum um 2000 m² að stærð. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi. Hann var starfræktur til ársins 1940, er hann var fluttur í Kópavog. Spítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi verið um 237 holdsveikir menn á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota.
LaugarnesÞegar spítalinn var fluttur lagði breski herinn bygginguna undir sig og síðar sá bandaríski. Spítalinn brann til kaldra kola 7. apríl árið 1943. Einu menjarnar um brunann er skjöldur sem festur var yfir aðalinngangi spítalans. Hann er varðveittur hjá Oddfellowreglunni.

Hjáleigurnar
Fjórar hjáleigur fylgdu lengi Laugarnesi: Norðurkot, Suðurkot, Barnhóll og nafnlaus hjáleiga austan við bæinn. Suðurkot var niður við sjóinn, beint vestur af síðasta bæjarstæðinu, Suðurkotsvörin er nokkru sunnan við Suðurkotið. Suðurkot var einnig kallað Naustakot. Norðurkot var norðvestur af síðasta bæjarstæðinu og Norðurkotsvörin þar rétt austan við. Norðurkot var einnig kallað Sjávarhólar. Hverri hjáleigu fylgdi 1 kúgildi. Landskuld eftir hvert þeirra var 40 álnir. Allar þessar hjáleigur voru enn byggðar 1801, en 1835 eru þær komnar í eyði og munu ekki hafa byggst eftir það.
Við manntalið 1762 er tvíbýli í Laugarnesi og heimilisfólk alls 14 á báðum búum. Árið 1784 er enn tvíbýli í Laugarnesi. Heimilismenn eru þá 15 alls. Við manntalið 1801 er þar einnig tvíbýli og heimilisfólk alls 17. 1847 er Laugarnes sem fyrr talið 20 hundruð að dýrleika, en 1861 var það 31,3 hundruð. Síðasti torfbærinn í Laugarnesi var rifinn 1885. Hann mun hafa staðið þar sem gamla kirkjan var, eða litlu ofar. Enn sér greinilega móta fyrir kirkjugarðinum.

Sameigendur
LaugarnesEftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu “Sameigendur Lauganess” en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885.
Síðustu ábúendur Laugarnesjarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson söðlasmiður og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Laugarnesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. 1948 flutti Sigurður Ólafsson söngvari og kona hans Inga Valfríður Einarsdóttir frá Miðdal, systir Guðmundar listmálara og myndhöggvara, í Laugarnes, og bjuggu þar á fjórða áratug ásamt börnunum sínum sex og frægu, ljósu hrossunum sínum, þar á meðal hinni landsfrægu Glettu. Yngri dóttir Sigurðar og Ingu er Þuríður söngkona og listmálari.
Með tímanum færðist borgarbyggðin austur á bóginn, erfðafestulöndum var úthlutað og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð. Á stríðsárunum voru einnig mörg hús flutt í Laugarneshverfið þegar flugvöllurinn var byggður í Skerjafirði.

Kampurinn
Laugarnes
Á stríðsárunum var reist stórt braggahverfi á Laugarnestanganum, kallað Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska setuliðið við Laugarneskampi, sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans. Síðasti bragginn í Laugarnesi var rifinn árið 1980.
Í dag er búið í fjórum húsum á svæðinu. Einn íbúanna er Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar. Hún er fædd á Fjóni og nam höggmyndalist við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannhöfn.
Við hlið Listasafnsins býr Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður og í þriðja húsinu, sem stendur enn sunnar á nesinu býr listakonan Kogga, Kolbrún Björgólfsdóttir, en eiginmaður hennar var Magnús Ólafur Kjartansson myndlistarmaður.Laugarnes

Saga Laugarnessins er orðin löng, saga þessa grágrýtistanga sem forðum myndaðist við eldgos í Mosfellsheiðinni eins og allur berggrunnur borgarinnar og eyjarnar allar. Þar birtist okkur saga þjóðarinnar í hnotskurn öld fram af öld. Kirkjugarðurinn, eina mannanna verkið sem enn sér glöggt stað aftan úr öldum, geymir íbúa þessarar jarðar í að minnsta kosti 800 ár. En allt er breytingum háð. Engir bátar liggja lengur í vörunum, söngur Sigurðar er þagnaður, líkt og hófatak Glettu, en listverk Sigurjóns prýða nesið þar sem aldan skellur á ströndinni, blíð og stríð, líkt og hún hefur gert frá ómuna tíð.”

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins – 2. tölublað (01.04.2017), Guðfinna Ragnarsdóttir; Laugarnesið, bls. 3-8.

Laugarnes

Lauganes – minnismerkið um Holdsveikispítalans.

Laugarnes

Búseta hófst í Laugarnesi skömmu eftir landnám. Samkvæmt Jarðabókinni frá 1703 voru þá í Laugarnesi fjórar hjáleigur og íbúar 28. Búskapur var þá mestur hjá bóndanum í sjálfu Laugarnesi en í kotunum var hokurbúskapur. Tvö hjáleigukotanna stóðu hvort við sína vörina, Norðurkotsvör og Suðurkotsvör. Norðurkot var áður kallað Sjávarhólar en Suðurkot, sem    var nær Kirkjusandi, var kallað Naustakot. Bóndinn þar var formaður á báti Laugarnesbóndans. Þriðja hjáleigan, Barnhóll, stóð við samnefndan hól.
LaugarnesFjórða hjáleigan var á hlaðinu hjá Laugarnesbænum. Laugarnesstofa var byggð árið 1825 sem embættisbústaður biskups. Þá var hjáleigubúskapur í Laugarnesi lagður af. Meðan stofan var heimili biskups bjuggu um 20 manns þar. Eftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu ,,Sameigendur Lauganess“ en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885. Rekstur jarðarinnar var með svipuðu móti og áður, en þá bjuggu á jörðinni Jón Þórðarson og kona hans Þorbjörg Gunnlaugsdóttir. Hann stundaði miklar jarðarbætur, slétti tún og hlóð upp mikla túngarða. Auk þess byggði hann nýtt íbúðarhús. Síðustu ábúendur Laugarnes jarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Lauganesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. Með tímanum færðist borgarbyggðin smám saman austur á bóginn og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð.
Eftir að Laugarneskampi  var breytt í íbúðabyggð  bjuggu þar mest um 300 manns á árunum 1952-1957. Laugarnesbærinn var rifinn 1987.

Laugarneskampur

Í Laugarneskampi um 1950.

Breski herinn gekk á landi í Reykjavík þann 10. maí 1940. Hann lagði undir sig ýmsar byggingar fyrir starfsemi sína auk þess sem reistar voru tjaldbúðir víðsvegar um bæinn. Síðar voru reistir hermannaskálar eða svokallaðir braggar á vegum hernámsliðsins. Í Reykjavík risu um 80 braggahverfi sem hýstu um 12.000 hermenn.
LaugarnesEitt þeirra var vestast á Laugarnesi, Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska seturliðið við Laugarneskampi sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum. Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1996 skrifar Margrét Hallgrímsdóttir um Laugarnesið:

Laugarnes

Laugarnes – MWL.

“Stóran hluta af menningarsögu okkar má finna í mannvistarleifum og örnefnum. Byggð hefur verið í Reykjavík frá því land var numið og eru skráðar fornleifar í Reykjavík hátt á annað hundrað. Vitað er um mun fleiri minjastaði og má þar sérstaklega nefna eyjarnar í Kollafirði. Tvisvar hefur verið gerð fornleifaskrá yfir minjar borgarinnar og síðast 1994-1995. Um þessar mundir er unnið að annarri endurskoðun skrárinnar.
Fornleifaskrá Reykjavíkur hefur legið til grundvallar minjavörslu höfuðborgarinnar og í nýútkomnu Aðalskipulagi Reykjavíkur er sérstök áhersla lögð á varðveislu menningarminja í Reykjavík, húsa og fornleifa.

Laugarnes

Laugarnes – spítalinn.

Laugarnes sem hér er átt við, er sjálf táin þar sem bærinn Laugarnes stóð fyrrum og listasafn Sigurjóns Olafssonar stendur nú. Afmarkast þetta svæði af tollvörugeymslum við Héðinsgötu í vestri, og Sæbraut í suðri og hafinu, Kollafirðinum. Strandlengjan með nánasta umhveríi á þessu svæði er sú eina í borgarlandinu og á Seltjarnarnesinu hinu forna, norðanmegin, sem enn er ósnortin og upprunaleg. Er Laugarnesið á náttúruminjaskrá og strandlengjan friðlýst. Gróðurfar, sérlega umhverfis mýrina hjá Norðurkoti, og á holtinu norðaustan við hana, er með því fjölbreyttasta sem til er innan borgarmarkanna.
LaugarnesÚtsýni frá Laugarnesinu er fagurt og fuglalíf fjölbreytt og því möguleikar á áhugaverðri útivist fyrir almenning þar sem fer saman fjölbreytt og óspillt náttúra og minjar.
Elstu öruggu heimildir ritaðar um mannavist í Laugarnesi eru í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar í Skálholti, sem talin er frá því um 1200.
Kirkjan í Laugarnesi var lögð niður árið 1794, þegar sóknin var sameinuð dómkirkjusókninni í Reykjavík. Rústir kirkjunnar og kirkjugarðsins eru friðlýstar.
Gera má ráð fyrir að búskapur í Laugarnesi sé jafn gamall byggð í landinu, eða allt að því. Bæjarhóll Laugarnesbæjarins er stór og eru varðveittar þar rústir langvarandi búsetu.
Í  Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru þrjár hjáleigur nefndar frá Laugarnesi. Eru þær Barnhóll, Norðurkot og Suðurkot. Í manntali frá sama ári eru hins vegar fjórar hjáleigur taldar til, og eru þær; Barnhóll, Naustakot (Norðurkot), Á Fitinni (Suðurkot) og Á hlaðinu. Sú síðast talda mun hafa verið heima við bæinn. Rústirnar eru enn greinilegar. Sama er að segja um varirnar Norðurkotsvör (Norðurvör) og Suðurkotsvör (Suðurvör). Síðustu bæjarhúsin voru rifm árið 1987, en eiginlegur búskapur hafði lagst af allnokkru fyrr.
LaugarnesTil gamans má geta þess að Laugarness er getið í Njálu, en á landnámsöld mun Ragi sonur Ólafs hjalta hafa eignast Laugarnesið, en hann mun hafa numið land fast á hæla Skalla-Gríms. Eftir því sem Njáls saga hermir hefur Laugarnes því orðið sjálfstæð jörð nokkrum áratugum eftir að land byggðist. Þar segir að Þórarinn Ragabróðir, sem var lögsögumaður eftir Hrafn Hængsson, hafi búið í Laugarnesi. Þórarinn fór með lögsögu 950-969. Mágkona Þórarins, Hallgerður Höskuldsdóttir, betur þekkt undir viðurnefninu langbrók, er sögð hafa búið í Laugarnesi og þaðan lagt upp í ferð til Þingvalla þar sem hún er sögð hafa hitt fyrir Gunnar á Hlíðarenda.” Munnmæli herma að hún hafi flust aftur í Laugarnes eftir víg Gunnars og borið þar beinin, sbr. örnefnið Hallgerðarleiði. Legstaður hennar er talinn hafa verið í hinum friðlýsta Laugarneskirkjugarði eða utan hans við gatnamót Laugarnesvegar og Kleppsvegar. Þegar unnið var að gatnagerð á þessu svæði var hóllinn fjarlægður og kom þá í ljós að hann var leifar rauðablásturs.

Laugarnes

Laugarnesstofa um 1830.

Á Laugarnesi eru þó ekki eingöngu varðveittar minjar búskapar. Árið 1787 er Hannes biskup Finnson talinn eigandi Laugarness og að honum látnum giftist ekkja hans séra Steingrími Jónssyni, er síðar varð biskup. Við það eignaðist hann Laugarnes. Árið 1824 fékk Steingrímur því framgengt að veitt var álitleg fjárhæð til að byggja embættisbústað handa honum. Voru til þess fengnir danskir iðnaðarmenn, sem fengu öl eftir þörfum og pela af brennivíni á dag til að ljúka verkinu. Húsið var hið veglegasta að útliti, en þó sagt bæði illa byggt og lekt. Laugarnesstofa var svipuð Viðeyjarstofu að útliti, en minni og með stórum kvisti á framhlið.
Árið 1838 keypti konungur Laugarnes af biskupi og var tilgangurinn m.a. að hafa þar biskupssetur til frambúðar. En næsti biskup á staðnum, Helgi Thordersen, kvartaði undan staðnum og benti á að farartálmar á leið hans til Reykjavíkur væru slíkir, að ekki væri forsvaranlegt að búa á staðnum. Fluttist hann á brott árið 1856 og lauk þá sögu biskupa í Laugarnesi. Stofan stóð þó eftir, en var auðveld bráð eyðingaraflanna og var stuttu síðar „heríileg að sjá, flestir gluggar brottnir, og ótérlegt inn að líta.”
LaugarnesSíðasta hlutverk Stofunnar var hlutverk sjúkrahúss, en 1871 voru geymdir þar nokkrir bóluveikir franskir sjómenn og báru nokkrir þeirra beinin í Laugarnesi. Stofan var rifm þegar danskir Oddfellowar gáfu Íslendingum holdsveikraspítala, sem var fullbyggður árið 1898. Spítalinn var stórt timburhús eins sjá má á gömlum ljósmyndum, sem teknar voru frá Kirkjusandi. Líklegt má telja að spítalinn hafi verið stærsta hús landsins á þeim tíma. Húsið var tvílyft me ð stuttum álmum til endanna. Laugarnesspítali stóð á flötinni austan við Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og sneri framhlið í suður. Starfaði spítalinn í hartnær hálfa öld.
Árið 1940 lagði breski herinn hald á spítalann. Mikið hverfi bragga reis þar allt í kring á þeim slóðum sem listasafnið nú er. Spítalinn brann árið 1943 er hann var í notkun breska setuliðsins.

Laugarnes

Laugarnes – Holdsveikraspítalinn.

Engin greinileg merki sjást lengur um þessar byggingar, en fullvíst má telja að jörðin geymi síðustu leifar þessa tímabils í sögu Laugarness þótt þar hafi orðið nokkurt rask vegna braggabyggðar stríðsáranna. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari (d. 1982) fékk til umráða einn herskála í Laugarnesi árið 1945 og setti þar upp vinnustofu sína. Það var grunnurinn að Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, sem stofnað var árið 1984

Minjavarsla Laugarness
LaugarnesLaugarnesið einkennist enn af hinu gamla og óspillta svipmóti og er strandlengjan að mestu ósnortin. Ibúðarbyggð er nokkur á nesinu og hefur hlotist nokkurt rask af því. Laugarnes er á náttúruminjaskrá og er fjaran á Laugarnestanga friðlýst. Gróður í mýrlendinu umhverfis Norðurkotsvörina og á holtinu norðaustan við hana er meðal þess fjölbreyttasta sem finnst á Reykjavíkursvæðinu. Utsýni frá Laugarnesi er mjög fagurt og fjölbreytilegt. Auk hinna ómetanlegu náttúru sem þarna er að finna hefur Laugarnesið þó sérstöðu vegna sögu þess og minja.
Þarna er talið að stundaður hafi verið búskapur allt frá 10. öld og fram á níunda tug þessarar aldar. Bændur heyjuðu tún, beittu búsmala og réru til fiskjar. Norðurkotsvörin er einstök og ein fárra slíkra sem varðveist hafa í borgarlandinu. Laugarnesbændur nýttu fjörur og annað það sem náttúran færði þeim til nytja. Laugarnes er því dæmi um vel varðveitt menningarlandslag þar sem sögulegar minjar haldast í hendur við náttúru og umhverfi.
LaugarnesBæjarhóllinn og kirkjugarðurinn í Laugarnesi eru friðlýst svæði vegna sérstaks minjagildis. Friðaðar fornminjar teljast til þjóðminja, sem sérstaka þýðingu hafa fyrir menningarsögu íslendinga og skal slíkum friðlýstum minjum fylgja 20 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum fornleifanna. Kirkjugarðurinn er ferhyrndur og sést enn móta fyrir sáluhliði á vesturvegg hans. Þar má greina rúst síðustu torfkirkjunnar í miðjum kirkjugarðinum. Hún var lögð niður árið 1794 þegar Laugarnessókn var lögð undir Dómkirkjuna í Reykjavík. Kirkjan hefur verið torfkirkja með timburstafhi og hefur snúið frá austri til vesturs í samræmi við kirkjulög.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Enn má sjá dæmigert gamalt tún með beðasléttum frá því um aldamót vestan bæjarhólsins. Beðaslétturnar má telja vel varðveittar og eru heimildir fyrir slíkum beðasléttum allt frá víkingaöld í nágrannalöndum okkar. Einnig sést móta fyrir leifum hjáleigukotanna í Laugarnesi og er mikilvægt að lögð verði áhersla á varðveislu þeirra í tengslum við sjálft bæjarstæði Laugarnesbæjarins.
Auk þeirra rústa, sem getið er í fornleifaskrá, má nefna rúst beint vestur af grunni Laugarnesstofu (kölluð Spítalahóll hér á eftir) og aðra norðvestur af Norðurkoti. Síðarnefnda rústin er leifar skotbyrgis frá setuliðinu.

Niðurstaða og tillaga að varðveislu
Laugarnes
Reykjavík er menningarlandslag í heild sinni. Þar eru fornleifar á annað hundrað stöðum. Þar á meðal eru merk svæði, sem hafa sérstakt gildi fyrir menningarsögu Islendinga. Slík svæði hafa verið skilgreind sem menningarlandslag eða búsetulandslag. Laugarnes er dæmi um heilsteypt búsetulandslag með sérstakt varðveislugildi. Í minjavörslu Reykjavíkur hefur oft reynst flókið að standa vörð um þá heild sem þar er varðveitt. Í Laugarnesi má rekja söguna til aldamótanna 1200 og sennilega lengra aftur. Saga Laugarnessins snertir byggðasögu landsins, kirkjusögu, sjúkrahúsasögu, sögu Reykjavíkur og sögu hernáms á Islandi.

Laugarnes

Laugarnes og Kirkjusandur.

Á tánni var ekki aðeins lögbýlið Laugarnes, þar voru einnig hjáleigur, og kotið Suðurkot um tíma og þar var kotið Norðurkot, sennilega bæði stærra í sniðum og með lengri búsetu. Auk býlanna var kirkja og kirkjugarður í Laugarnesi um aldir og á síðustu öld risu þar biskupssetur og spítali. Minjar þessara mannvirkja eru varðveittar enn. Á nesinu er fjölbreytt náttúra, bæði dýra og gróðurs, og þar er ein af fáum ósnertum fjörum Reykjavíkur. Bæði fjaran og bæjarhóll Laugarness eru friðuð. Sérstakt náttúrufar og fagurt útsýni tilheyrir hinu forna sögubóli Laugarness. Hjáleigurústirnar, Norður- og Suðurkotsvör, túnið með beðasléttunum og fjaran eru mikilvægir hlutar eins elsta bæjarstæðis á íslandi, rétt eins og hinar friðlýstu minjar bæjarhólsins og kirkjugarðsins.

LaugarnesÞessi atriði eru öll hluti af samspili, sem gerir Laugarnesið að heilsteyptu menningarlandslagi. Ómetanlegt er að slíkar heildir varðveitist innan höfuðborgar og því mikilvægt að ásjóna Laugarness raskist ekki. Er það mat undirritaðrar að stuðla beri að varðveislu Laugarness, sem heilsteypts búsetulandslags vegna ómetanlegs samspils náttúru og sögulegra minja. Laugarnesið hefur sérstöðu í menningarsögu Reykjavíkur. Því ber að varðveita það í núverandi mynd, sem næst ósnortið þótt snyrta þurfi svæði og bæta merkingar. Er það minjavörslu svæðisins til framdráttar að gera svæðið að aðgengilegu útivistarsvæði fyrir almenning þar sem minjar ekki síður en náttúra gefa svæðinu gildi. Það eykur virðingu og áhuga fólks á gildi slíkra svæða. Þannig yrði Laugarnestáin gerð að útivistarsvæði fyrir almenning, þar sem minjarnar í samspili við náttúru og útsýni fengju notið sín.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1996 – Margrét Hallgrímsdóttir, “Menningarlandslagið Reykjavík og búsetulagið Laugarnes”, bls. 141-148.

Laugarnes

Laugarnesstofa.

Rauðablástur

Í Morgunblaðinu 1971 er fjallað um “Rauðablástur“:

Mýrarrauði

Mýrarrauði.

“Rauðablástur er aðferð til að bræða járn úr mýrarrauða yfir viðarkolaglóð í sérstökum ofni. Talið er að Íslendingar hafi unnið sitt járn sjálfir þar til farið var að flytja inn Ásmundarjárn um miðja 15. öld. Rauðablástur á Íslandi lagðist af þegar vinnsla járngrýtis hófst á Norðurlöndum.
Rauðablástur fór þannig fram að þurrkuðum mýrarauða var blandað saman við viðarkol. Kveikt var í blöndunni í ofni og við brunann afoxaðist járnið úr (vötnuðu) járnoxíði í járnmálm sem er bráðinn og seytlaði niður í botn ofnsins.

Mýrarrauði

Mýrarrauði – járn.

Járnvinnsla er elzta iðn sem um getur hér á landi. Í Landnámu er þess getið um Björn landnámsmann í Dalsmynni í Norðurárdal, að hann hafi fyrstur manna blásið rauða á Íslandi, og þess vegna hafi hann verið kallaður Rauða-Björn.
Jám var þá unnið úr mýrarauða og var það kallað rauðablástur. Enginn vafi er talinn á því, að allir hinir norrænu landnámsmenn hafi kunnað rauðablástur, því að hann var stundaður á öllum Norðurlöndum. Þykir því líklegt, að rauðablástur hafi þegar í öndverðu verið tekinn upp um land allt, og mjög óvíst að Rauða-Björn hafi orðið fyrstur til þess, því að sagt er að hann hafi komið út seint á landnámsöld. En í Egils sögu er þess getið um Skallagrím, að hann hafi verið járnsmiður mikill, haft rauðablástur og sjálfur framleitt járn til smíðanna.

Mýrarrauði

Mýrarrauði – járn.

Rauðablástursofnar hafa fundizt mjög víða um land og heimildir eru um, að rauðablástur hafi verið stundaður á fleiri bæjum en þar, sem ofnar hafa fundizt.
Samhliða þessari iðju varð einnig að stunda aðra, en það var viðarkolagerð, vegna þess að járnið varð að bræða úr rauðanum við viðarkolaeld. Og kolagerð kunnu landnámsmenn líka. En vegna þess, að þetta hvort tveggja fór saman, hefir verið seilzt til þess að hafa rauðablástursofnana, þar sem nægur skógur var, þvá að mikil kol þurft til rauðablástursins.

Rauðablástur

Rauðabástur; tilgátuuofn.

Það er álit fróðra manna, að fornbændur hafi framleitt mikið járn, jafnvel eins mikið og þeir þurftu árlega til smíða. Járnið mun þó aldrei hafa verið gott, því að framleiðsluaðferðin var einföld og tæki til hennar mjög fábrotin. Rauði finnst mjög víða í byggðum, en varla á hálendinu. Hann er í kögglum eða í heilum, en er mjög blandaður leir, jurtaefnum, söltum o.fl. og er mikil vinna að ná hreinu járni úr honum.

Reykjavík

Laugarnes 1836.

Menn vita nú ekki glögglega hvernig rauðablæstrinum hefir verið hagað vegna þess hve langt er síðan hann lagðist niður, en þetta þykjast menn vita: “Hlaðinn var á bersvæði allstór ofn úr grjóti, ýmist hringlaga eða ferhliða. Síðan var grjóthleðslan þéttuð vandlega innan með leiri eða deigulmó. Þegar ofninn var fullger varð að kynda hann rækilega til þess að hita hann og varð að vera mikil glóð í honum þegar bræðslan hófst. Þá var viðarkolum og muldum rauða mokað í ofninn sitt á hvað og til þess að örva eldinn og hitann, var blásið í ofninn með físibelgjum. Bráðnaði þá járnið úr, en sorinn og gjallið varð eftir. Þegar járnið kólnaði var það tekið úr ofninum með töngum og síðan var gjallið hreinsað úr honum og fleygt í hrúgu.” Þessar gjallhrúgur vísa mönnum venjulega á þá staði, þeir sem rauðablástur hefir farið fram. Og fundarstaðir eru orðnir margir, eins og áður er sagt og nálgast nú líklega hundraðið.

Laugarnes

Laugarnes.

Rauðablástur var stundaður allt fram á 16. öld, eða þar til Þjóðverjar fóru að flytja erlent járn hingað. Þetta járn var miklu betra en hið íslenzka og tók því brátt að dofna yfir rauðablæstri hér.
Járnvinnslan lagðist niður og aðferðin gleymdist. Þó getur Eggert Ólafsson þess, að Jón Halldórsson prófastur í Hítardal hafi látið vinna járn úr rauðum hraunsteini, og hefir það líklega verið laust eftir 1700. Seinasti maðurinn, sem talið er að hafi stundað rauðablástur, var Einar bóndi í Kollsvík, en Einar var uppi á fyrri hluta 19. aldar.

Kollsvík

Kollsvík.

Hér í Reykjavík hefir einnig verið rauðablástur í fomöld. Var það svo að segja segja af tilviljun, að bræðsluofninn fannst. Í sunnanverðu Laugarnestúni var stór þúfa eða lítill hóll og bar nafnið Hallgerðarleiði. Fylgdi sú sögn, að þetta væri legstaður Hallgerðar langbrókar, sem eitt sinn átti Laugarnes og sagt var að hefði dáið þar. Nú var það um 1920 að slétta átti túnið. Þá átti Ólafur Þorgrímsson lögfræðingur heima í Laugarnbesi hjá föður sínum. Honum þótti leitt til þess að vita, að Hallgerðarleiði hyrfi alveg án þess að rannsakað væri hvort sögnin um það hefði við nokkuð að styðjast. Þess vegna réðst hann í að grafa upp ,,leiðið“.

Laugarnes

Laugarnesstofa.

Kom hann þá brátt niður á steinahleðslu, sem sýndi, að þarna var eitthvert mannvirki. Vildi hann þá ekki grafa þar meira að sinni. Og nú var Matthías Þórðarson þjóðminjavörður kvaddur á vettvang til þess að skera úr um hvers konar mannvirki þetta væri. Hann þurfti ekki nema að horfa á þetta til þess að sjá, að hér var um gamlan rauðablástursofn að ræða.
Þetta var merkilegur fornleifafundur, því að hann sýndi það ótvírætt, að í fornöld hefir allt Laugarnesið verið þakið skógi, því að rauðablástursofnar voru ekki settir annars staðar en þar, sem nægur kolskógur var fyrir. Og þetta gefur bendingu um, að öll holtin, sem Reykjavík stendur nú á, hafi verið skógi klædd í fomöld.
Þessi rauðablástursofn er nú horfinn, en hann mun vera undir malbikinu sem næst því, er nú mætast Laugarnesvegur og Kleppsvegur.”

Heimild:
-Morgunblaðið 5. febr. 1971, Rauðablástur, bls. 7.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Rau%C3%B0abl%C3%A1stur

Rauðablástur

Gjall eftir rauðablástur.

Laugarnes

Á Laugarnesi í Reykjavík er upplýsingaskilti:

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

LaugarnesLaugarnesLaugarnesLaugarnesLaugarnes  LaugarnesLaugarnes Laugarnes

Laugarnes

 Laugarness var fyrst getið í Njálu og á þeirri frásögn má sjá að þegar á 10. öld hefur landi þess verið skipt úr landnámsjörðinni Reykjavík og verið sjálfstæð jörð. Laugarnesjörðin var ein sú stærsta á Reykjavíkursvæðinu, breið landspilda sem náði allt suður í Fossvog.
Laugarnes- loftmyndTalið er að Hallgerður [Höskuldsdóttir] langbrók hafi sest að í Laugarnesi eftir víg Gunnars að Hlíðarenda í Fljótshlíð en jörðina hafði hún fengið eftir Glúm, fyrri mann sinn. Glúmi þessum hafði orðið það á að “drepa til hennar hendi sinni” en eins og kunnugt er launaði Hallgerður ekki barsmíðar með góðu. ,,Broeður þrír eru nefndir til sögunnar; hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriði Glúmr. Þeir váru synir Óleifs hjalta ok váru virðingamenn miklir ok vel auðigir at fé. Þórarinn átti þat kenningarnafn, at hann var kallaðr Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eptir Hrafn Hoengsson; hann var stórvitr maðr. Hann bjó at Varmaloek, ok áttu þeir Glúmr bú saman. … Þeir broeðr áttu suðr Engey ok Laugarnes …”. Eftir að Glúmur hafði gengið að eiga Hallgerði langbrók gaf Þórarinn Ragabróðir upp búið á Varmalæk fyrir þeim Glúmi og Hallgerði. Á Þórarinn að hafa mælt ,,…en ek mun fara suðr í Laugarnes ok búa þar. En Engey skulu vit eiga báðir saman.” Eftir víg Glúms fluttust Hallgerður langbrók í Laugarnes. Í sögunni segir: ,,Þau Hallgerður skiptu um bústaði um várit, ok fór hon suðr á Laugarnes, en hann til Varmaloekjar. Ok er Þórarinn ór sögunni.” Samkvæmt munnmælum var þúst suðaustur af bænum nefnd eftir henni og kölluð Hallgerðarleiði og um hana sagt að hún væri græn jafnt vetur sem sumur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þó aðeins dregið úr þeirri trú og segir þar: „ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar, þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin, en annarstaðar á Laugarnestúnum …“
Laugarnes - stasetning holdveikraspítalansÞessi merkisþúfa er nú horfin undir Sæbrautina en þegar grafið var í hana fundust hleðslur og gjall svo líklegra er að þar hafi verið smiðja en að Hallgerður sé grafin í kirkjugarðinum í Laugarnesi sem var fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík. Laugarnes var forn kirkjustaður og samkvæmt kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 hefur kirkja þá þegar verið í Laugarnesi. Ekki er vitað hvenær fyrst var jarðað í kirkjugarðinum en síðast var það gert árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt og ekki var talið fært að jarða þá “inni í borginni” vegna hættu á smiti. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Kirkjan í Laugarbesi var rifin 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju en glögglega sést enn móta fyrir veggjum kirkjugarðsins sem er friðlýstur samkvæmt þjóðminjalögum.
Um 1234, eða á ofanverðum dögum Þorvalds Gissurarsonar, áttu Laugnesingar laxveiði í Elliðaám að helmingi við Viðeyjarklaustur.
Fáum sögum fer af ábúendum í Laugarnesi eftir söguöldina en á 15. öld kemst jörðin í eigu Hólmsættarinnar og vitað er að Margrét dóttir Vigfúsar Hólm hirðstjóra gaf Þorvarði Einarssyni dóttursyni sínum jörðina 1486. Margrét slapp lifandi úr Kirkjubólsbrennu þegar menn Jóns Gerrekssonar biskups brenndu inni bróður hennar Ívar 1433. Það illvirki varð til þess að varið var að Jóni biskupi, hann settur í poka og drekkt í Brúará. Ögmundur Pálsson síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti átti jörðina um tíma og eftir hans daga var mikið deilt um eignarrétt hennar. Anna  Vigfúsdóttir frá Stóru-Borg átti jörðina um skeið og síðar Gísli Hákonarson lögmaður.
Laugarnes - kort frá 1927-'35Þegar máldagi Laugarneskirkju var gerður 1491-1518 þá átti kirkjan heimalands hálft tíu kúgildi og fimm hross, auk þess að hún átti fimmta hvern lax af veiði þeirri er Viðeyingar átti í Elliðaám, fyrir utan þann hluta er Hallotta Þorsteinsdóttir hafði gefið Viðeyjarklaustri en það var metið á fimm hundruð. Kirkjan átti tíu hundruð í metfé, þrettán bækur með tólf mánaða tíðum, tvenn messuklæði, einn kaleik og tvær stórar klukkur. Árið 1521 er Laugarnesi gefið peningar Vigfúsar Erlendssonar, kvikir og dauðir, voru virtir að honum látnum. Þann 26. nóvember 1535 var í Laugarnesi útnefndur sex manna dómur um kæru Alexíusar ábóta í Viðey á hendur Jóns Bergþórssonar um að hafa ,,farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing. Kirkjan í Laugarnesi átti um miðja 15. öld; “… litinn skog … vid landsýdri j hvaleýrar hofda”.
Á 16. öld markast saga Laugarness aðallega af deilum á milli fyrirmanna á Íslandi um eignarhald jarðarinnar. Þar voru í fararbroddi annars vegar Ögmundur Skálholtsbiskup og skyldmenni hans og hins vegar Páll lögmaður Vigfússon og fjölskylda hans.
Holdsveikraspítalinn í LaugarnesiSamkvæmt Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Elín Hákonardóttir þá eigandi Laugarness. Elín bjó ekki í Laugarnesi heldur að Látrum við Mjóafjörð.. Fjórar hjáleigur voru á Laugarnesi, Norðurkot, Suðurkot og Barnhóll, en fjórða hjáleigan er nafnlaus í bókinni. Tólf manns bjuggu í Laugarnesi 1703.
Árið 1824 var veitt álitleg fjárhæð til að reisa embættisbústað handa biskupi í Laugarnesi. Múrarameistari og verkamenn voru fengnir frá Danmörku til þess að byggja Stofuna eins og hún var alltaf nefnd. Húsið var hriplekt og hin mesta hrákasmíð á alla vegu. Vera má að sá hluti byggingasamningsins sem kvað á um nægt öl handa verkamönnunum og einn pela af brennivíni á dag hafi átt sinn hlut í að svona tókst til með bygginguna. Steingrímur biskup Jónsson bjó í Laugarnesstofu til æviloka 1845. Með tíð og tíma grotnaði Stofan niður og var að lokum rifin þegar að því koma að reisa skyldi Laugarnesspítala.
LaugarnesstofaÁrið 1857 keyptu ellefu Reykvíkingar jörðina á uppboði. Árið 1894 var Laugarnes, ásamt Kleppi, lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en hafði fram að því tilheyrt Seltjarnarneshreppi. Danska IOGT-reglan lét byggja holdsveikraspítala í Laugarnesi árið 1898. Spítalinn var rekinn til 1940 en þá lagði breska seturliðið hann undir sig og brenndi hann síðan ofan af sér 1943. Byggð fór að myndast í Laugarnesi um 1930 og á stríðsárunum var þar stór herskálabyggð sem var kölluð Laugarneskampur. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fékk inni í einum herskálanum eftir stríðið og var það fyrsti vísirinn að listasafni hans á nesinu. Laugarnes var í ábúð nokkuð fram á nítjándu öld. Síðasti ábúandi þar var Þorgrímur Jónsson. Snemma á 20. öld hafði jörðinni verið skipt í fjölda ræktunarlanda og var á mörgum þeirra stundaður nokkur búskapur en þó lengst í Laugardal. Torfbærinn í Laugarnesi stóð til 1885, en þá var hann rifinn. 26 Þegar nýjir ábúendur komu þangað 1885, voru þar engin nýleg hús nema bæjarhúsin, þriggja stafgólfa torfhús með tveimur rúmstæðum, búri og eldhúsi.
Laugarnesinu er ýmislegt að skoða og það er góður staður til útivistar. Þar er að finna nokkurn fjölda fornleifa, tvær af þeim eru friðlýstar, bæjarhóllinn og kirkjugarðurinn sem eru þar sem Laugarnesbærinn stóð á horninu á Héðinsgötu og Sæbraut að norðanverðu.

Laugarnesspítali

Á horninu er kort þar sem sýnt er hvar gamli bærinn og hjáleigurnar á nesinu stóðu.
Árið 1993 voru gerðar jarðsjármælingar á fornleifum í Laugarnesi á vegum Árbæjarsafns og Borgaskipulags. Verkfræðistofan Línuhönnun sá um verkið og niðurstöður þessara mælinga má finna í skýrslunni ,,Jarðsjármælingar í Laugarnesi”. Í þeirri rannsókn voru jarðlög mæld á rústasvæðum. Helstu niðurstöður voru að hægt var að áætla þykkt jarðlaga (mannvistarminja) og staðsetja einstaka mannvirki í bæjarhól Laugarness: “Greina má allmikið rústasvæði sunnan til í bæjarhólnum í Laugarnesi og hugsanlega kirkjurústina í miðjum kirkjugarðinum”.
Laugarnesstofa stóð nálægt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og einnig holdsveikraspítalinn en tilhöggnir steinar úr grunni hans marka nú bílastæði listasafnsins. Ennfremur má sjá merki um fornar leiðir og ýmsar stríðsminjar á nesinu. Í heild er litið á allt nesið sem menningarlandslag, sem segir söguna frá landnámi til dagsins í dag. Þar er líka falleg náttúra, sérkennilegar klettamyndanir og ósnert fjara sem er líklega sú eina sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur.

Heimild:
-Laugardalur, nóvember 2007, bls. 17.
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning Laugarness vegna mats á umhverfisáhrifum Sæbrautar – Byggðasafn Reykjavíkur 2003.
-Njálssaga.

Laugarnesstofa 1836

Laugarnes

“Í Laugarnesi voru fyrrum 3 hjáleigur. Hét ein þeirra Suðurkot og var niður hjá víkinni, um það bil sem nú er Afurðasalan.
Önnur Barnholl-321hjáleigan hét Sjávarhólar, en var oftast kölluð Norðurkot. Stóð hún úti á Laugarnesstöngum, þar sem nú er braggahverfið. Nú sjást engar minjar þessara býla. Þriðja hjáleigan hét Barnhóll og stóð hjá samnefndum hóli fyrir ofan túnið í Laugarnesi.
Þegar íbúðarhúsið Hólar var reist, var það í Barnhólstúninu gamla. Þetta hús reistu þeir synir Bjarna heitins Jenssonar læknis, Jens bókhaldari og Ingólfur kaupmaður. Hefir Ingólfur skýrt mér svo frá, að þar sem húsið stendur hafi ekki verið nein gömul mannvirki. En vestar í lóðinni sem þeir fengu, og sunnan undir Barnhólnum, þar sem nú er kartöflugarður, voru gamlar húsarústir, og þegar farið var að stinga þær upp, varkomið niður á flórað gólf. Það var látið óhreyft, en mold úr rústunum sett þar yfir. Var þessi mold svo frjó, að ekki þurfti að bera í garðinn fyrstu árin. Er sennilegt að flóraða gólfið hafi verið úr fjósi og þar hafi gamall áburður verið bæði úti og inni, og blandast saman við moldina.
Barnhóll stendur enn óhaggaður í túni Hóla og geymist þar eitt af fáum örnefnum á þessum slóðum.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 18. september 1960, bls. 446.

Reykjavík

Laugarnes 1836.