Laugarnes

 Laugarness var fyrst getið í Njálu og á þeirri frásögn má sjá að þegar á 10. öld hefur landi þess verið skipt úr landnámsjörðinni Reykjavík og verið sjálfstæð jörð. Laugarnesjörðin var ein sú stærsta á Reykjavíkursvæðinu, breið landspilda sem náði allt suður í Fossvog.
Laugarnes- loftmyndTalið er að Hallgerður [Höskuldsdóttir] langbrók hafi sest að í Laugarnesi eftir víg Gunnars að Hlíðarenda í Fljótshlíð en jörðina hafði hún fengið eftir Glúm, fyrri mann sinn. Glúmi þessum hafði orðið það á að “drepa til hennar hendi sinni” en eins og kunnugt er launaði Hallgerður ekki barsmíðar með góðu. ,,Broeður þrír eru nefndir til sögunnar; hét einn Þórarinn, annar Ragi, þriði Glúmr. Þeir váru synir Óleifs hjalta ok váru virðingamenn miklir ok vel auðigir at fé. Þórarinn átti þat kenningarnafn, at hann var kallaðr Ragabróðir. Hann hafði lögsögu eptir Hrafn Hoengsson; hann var stórvitr maðr. Hann bjó at Varmaloek, ok áttu þeir Glúmr bú saman. … Þeir broeðr áttu suðr Engey ok Laugarnes …”. Eftir að Glúmur hafði gengið að eiga Hallgerði langbrók gaf Þórarinn Ragabróðir upp búið á Varmalæk fyrir þeim Glúmi og Hallgerði. Á Þórarinn að hafa mælt ,,…en ek mun fara suðr í Laugarnes ok búa þar. En Engey skulu vit eiga báðir saman.”

Laugarnes

Laugarnes – minnismerki um kirkju.

Eftir víg Glúms fluttust Hallgerður langbrók í Laugarnes. Í sögunni segir: ,,Þau Hallgerður skiptu um bústaði um várit, ok fór hon suðr á Laugarnes, en hann til Varmaloekjar. Ok er Þórarinn ór sögunni.” Samkvæmt munnmælum var þúst suðaustur af bænum nefnd eftir henni og kölluð Hallgerðarleiði og um hana sagt að hún væri græn jafnt vetur sem sumur. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er þó aðeins dregið úr þeirri trú og segir þar: „ekki er það satt að leiði hennar sé jafngrænt vetur og sumar, þó sögur segi svo, en seinna fölnar þar gras á haustin, en annarstaðar á Laugarnestúnum …“
Þessi merkisþúfa er nú horfin undir Sæbrautina en þegar grafið var í hana fundust hleðslur og gjall svo líklegra er að þar hafi verið smiðja en að Hallgerður sé grafin í kirkjugarðinum í Laugarnesi sem var fyrsti kirkjugarðurinn í Reykjavík. Laugarnes var forn kirkjustaður og samkvæmt kirknatali Páls Jónssonar frá því um 1200 hefur kirkja þá þegar verið í Laugarnesi.
Laugarnes - stasetning holdveikraspítalansEkki er vitað hvenær fyrst var jarðað í kirkjugarðinum en síðast var það gert árið 1871. Þá voru grafnir þar 6 franskir sjómenn, sem létust úr bólusótt og ekki var talið fært að jarða þá “inni í borginni” vegna hættu á smiti. Þeir lágu í einangrun í gömlu biskupsstofunni í Laugarnesi. Kirkjan í Laugarbesi var rifin 1794 og sameinuð Reykjavíkurkirkju en glögglega sést enn móta fyrir veggjum kirkjugarðsins sem er friðlýstur samkvæmt þjóðminjalögum.
Um 1234, eða á ofanverðum dögum Þorvalds Gissurarsonar, áttu Laugnesingar laxveiði í Elliðaám að helmingi við Viðeyjarklaustur.
Fáum sögum fer af ábúendum í Laugarnesi eftir söguöldina en á 15. öld kemst jörðin í eigu Hólmsættarinnar og vitað er að Margrét dóttir Vigfúsar Hólm hirðstjóra gaf Þorvarði Einarssyni dóttursyni sínum jörðina 1486. Margrét slapp lifandi úr Kirkjubólsbrennu þegar menn Jóns Gerrekssonar biskups brenndu inni bróður hennar Ívar 1433. Það illvirki varð til þess að varið var að Jóni biskupi, hann settur í poka og drekkt í Brúará. Ögmundur Pálsson síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti átti jörðina um tíma og eftir hans daga var mikið deilt um eignarrétt hennar. Anna  Vigfúsdóttir frá Stóru-Borg átti jörðina um skeið og síðar Gísli Hákonarson lögmaður.
Laugarnes - kort frá 1927-'35Þegar máldagi Laugarneskirkju var gerður 1491-1518 þá átti kirkjan heimalands hálft tíu kúgildi og fimm hross, auk þess að hún átti fimmta hvern lax af veiði þeirri er Viðeyingar átti í Elliðaám, fyrir utan þann hluta er Hallotta Þorsteinsdóttir hafði gefið Viðeyjarklaustri en það var metið á fimm hundruð. Kirkjan átti tíu hundruð í metfé, þrettán bækur með tólf mánaða tíðum, tvenn messuklæði, einn kaleik og tvær stórar klukkur. Árið 1521 er Laugarnesi gefið peningar Vigfúsar Erlendssonar, kvikir og dauðir, voru virtir að honum látnum. Þann 26. nóvember 1535 var í Laugarnesi útnefndur sex manna dómur um kæru Alexíusar ábóta í Viðey á hendur Jóns Bergþórssonar um að hafa ,,farið í Elliðaá og haft klaustursins net og eignað Bústöðum fors í ánni eðr streing. Kirkjan í Laugarnesi átti um miðja 15. öld; “… litinn skog … vid landsýdri j hvaleýrar hofda”.
Á 16. öld markast saga Laugarness aðallega af deilum á milli fyrirmanna á Íslandi um eignarhald jarðarinnar. Þar voru í fararbroddi annars vegar Ögmundur Skálholtsbiskup og skyldmenni hans og hins vegar Páll lögmaður Vigfússon og fjölskylda hans.
Holdsveikraspítalinn í LaugarnesiSamkvæmt Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var Elín Hákonardóttir þá eigandi Laugarness. Elín bjó ekki í Laugarnesi heldur að Látrum við Mjóafjörð.. Fjórar hjáleigur voru á Laugarnesi, Norðurkot, Suðurkot og Barnhóll, en fjórða hjáleigan er nafnlaus í bókinni. Tólf manns bjuggu í Laugarnesi 1703.
Árið 1824 var veitt álitleg fjárhæð til að reisa embættisbústað handa biskupi í Laugarnesi. Múrarameistari og verkamenn voru fengnir frá Danmörku til þess að byggja Stofuna eins og hún var alltaf nefnd. Húsið var hriplekt og hin mesta hrákasmíð á alla vegu. Vera má að sá hluti byggingasamningsins sem kvað á um nægt öl handa verkamönnunum og einn pela af brennivíni á dag hafi átt sinn hlut í að svona tókst til með bygginguna. Steingrímur biskup Jónsson bjó í Laugarnesstofu til æviloka 1845. Með tíð og tíma grotnaði Stofan niður og var að lokum rifin þegar að því koma að reisa skyldi Laugarnesspítala.
LaugarnesstofaÁrið 1857 keyptu ellefu Reykvíkingar jörðina á uppboði. Árið 1894 var Laugarnes, ásamt Kleppi, lagt undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en hafði fram að því tilheyrt Seltjarnarneshreppi. Danska IOGT-reglan lét byggja holdsveikraspítala í Laugarnesi árið 1898. Spítalinn var rekinn til 1940 en þá lagði breska seturliðið hann undir sig og brenndi hann síðan ofan af sér 1943. Byggð fór að myndast í Laugarnesi um 1930 og á stríðsárunum var þar stór herskálabyggð sem var kölluð Laugarneskampur. Sigurjón Ólafsson myndhöggvari fékk inni í einum herskálanum eftir stríðið og var það fyrsti vísirinn að listasafni hans á nesinu.
LaugarnesspítaliLaugarnes var í ábúð nokkuð fram á nítjándu öld. Síðasti ábúandi þar var Þorgrímur Jónsson. Snemma á 20. öld hafði jörðinni verið skipt í fjölda ræktunarlanda og var á mörgum þeirra stundaður nokkur búskapur en þó lengst í Laugardal. Torfbærinn í Laugarnesi stóð til 1885, en þá var hann rifinn. Þegar nýjir ábúendur komu þangað 1885, voru þar engin nýleg hús nema bæjarhúsin, þriggja stafgólfa torfhús með tveimur rúmstæðum, búri og eldhúsi.
Laugarnesinu er ýmislegt að skoða og það er góður staður til útivistar. Þar er að finna nokkurn fjölda fornleifa, tvær af þeim eru friðlýstar, bæjarhóllinn og kirkjugarðurinn sem eru þar sem Laugarnesbærinn stóð á horninu á Héðinsgötu og Sæbraut að norðanverðu.

Laugarnes

Laugarnes – upplýsingaskilti.

Á horninu er kort þar sem sýnt er hvar gamli bærinn og hjáleigurnar á nesinu stóðu.
Árið 1993 voru gerðar jarðsjármælingar á fornleifum í Laugarnesi á vegum Árbæjarsafns og Borgaskipulags. Verkfræðistofan Línuhönnun sá um verkið og niðurstöður þessara mælinga má finna í skýrslunni ,,Jarðsjármælingar í Laugarnesi”. Í þeirri rannsókn voru jarðlög mæld á rústasvæðum. Helstu niðurstöður voru að hægt var að áætla þykkt jarðlaga (mannvistarminja) og staðsetja einstaka mannvirki í bæjarhól Laugarness: “Greina má allmikið rústasvæði sunnan til í bæjarhólnum í Laugarnesi og hugsanlega kirkjurústina í miðjum kirkjugarðinum”.
Laugarnesstofa stóð nálægt Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og einnig holdsveikraspítalinn en tilhöggnir steinar úr grunni hans marka nú bílastæði listasafnsins. Ennfremur má sjá merki um fornar leiðir og ýmsar stríðsminjar á nesinu. Í heild er litið á allt nesið sem menningarlandslag, sem segir söguna frá landnámi til dagsins í dag. Þar er líka falleg náttúra, sérkennilegar klettamyndanir og ósnert fjara sem er líklega sú eina sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur.

Heimild:
-Laugardalur, nóvember 2007, bls. 17.
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning Laugarness vegna mats á umhverfisáhrifum Sæbrautar – Byggðasafn Reykjavíkur 2003.
-Njálssaga.

Laugarnesstofa 1836