Reykjavík

“Vaktarabærinn, nú Garðastræti 23 í Reykjavík, er elsta timburhúsið í Grjótaþorpi. Það varð það 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
VaktarabærinnÁrið 2008 samþykkti Borgarráð að kaupa Vaktarabæinn fyrir 25 milljónir króna. Vaktarabærinn er rúmlega 170 ára gamall. Mjög hefur þrengt að húsinu og hefur það staðið autt á síðustu árum. Vilji borgaryfirvalda er til að það standi áfram enda kaupir Reykjavíkurborg húsið til að endurnýja það og vernda á þeim stað sem það stendur. Húsið er um 80 fermetrar en lóðin tvöfalt stærri. Vaktarbærinn er nefndur eftir höfundi hússins, Guðmundi „vaktara” Gissurarsyni. Árið 2000 spurðust eigendur hússins fyrir um það hjá borgaryfirvöldum hvort leyft yrði að rífa Vaktarabæinn og byggja, í samræmi við deiliskipulag frá 1981, nýtt íbúðarhús á lóð nr. 23 við Garðastræti. Með fylgdi umsögn Árbæjarsafns, en málinu var vísað til Borgarskipulags þar sem það virðist hafa dagað uppi til þessa dags.

Vaktarabærinn

Það eru ekki mörg ár síðan húsavernd og rannsóknir á byggingarsögu voru taldar lítið annað en sérviska og furðulegheit og jafnvel litnar hornauga af ráðamönnum sem töluðu með fyrirlitningu um danskar fúaspýtur. „Framfarasinnar” létu einnig hafa eftir sér að niðurrif gamalla bygginga væri mikilvægur þáttur í þéttingu byggðar í eldri hverfum þéttbýlisstaða og ekki síður forgangsverkefni en uppbygging nýrra hverfa. Verkalýðsforingjar fussuðu yfir þessu uppátæki og bentu á að ekki væri ástæða til að halda upp á húsnæði sem hefði bæði verið kalt og saggasamt og átt sinn þátt í bágu heilsufari alþýðunnar. En nú er öldin önnur, sem betur fer.

Guðmundur

Byggingarsagan er orðin mikilvægur þáttur í rannsóknum á menningararfi þjóðarinnar og sveitarstjórnir og bæjaryfirvöld keppast við að hlúa að gömlum byggingum og gera þær þannig úr garði að þeir sem eiga leið um staldri við til að skoða þær. Verndun Vaktarabæjarins er því ánægjulegt skref.
Vaktarabærinn var bæði geymsla og íbúðarhús en hefur verið geymsla síðustu áratugina. Það er líklega byggt fyrir 1840 og því a.m.k. 170 ára gamalt. Vaktarabærinn er fyrsta timburhúsið í þessum hluta Grjótaþorps og er byggingarefnið timbur með járnklæðningu.
Vaktarabaerinn-1

Um 1880 er húsinu breytt úr pakkhúsi í íbúðarhús og þá flytja í það hjónin Sesselja Sigvaldadóttir og Stefán Ólafsson ráðsmaður og múrari. Í húsinu fæddust sex synir þeirra, tveir létust í barnæsku en hinir urðu allir þjóðþekktir. Þeir voru Sigvaldi Kaldalóns læknir, tónskáld og ástmögur þjóðarinnar, Guðmundur Aðalsteinn einn helsti glímumaður landsins, Snæbjörn sem var landsþekktur togaraskipstjóri á Kveldúlfs-togurunum og Eggert sem var kunnur söngvari og söng víða um Evrópu og Ameríku en hélt oft söngskemmtanir hérlendis. Snæbjörn bjó lengi í Suðurgötu 13 og þar leigði Sigvaldi hjá bróður sínum áður en hann flutti til Grindavíkur
Húsið er talið einstakt í menningarsögulegu tilliti og verður gert upp í upprunalegri mynd. Borgarráð hefur afsalað Garðastræti 23, Vaktarabænum í hendur Minjaverndar hf. Húsið verður gert upp í upprunalegri mynd, en það er talið vera frá árunum 1844 – 48. Það er fyrsta timburhús Grjótaþorpsins utan Innréttinganna.
Að sögn Nikuláss Úlfars Mássonar, arkitekts hjá Árbæjarsafni, eru öll hús sem byggð eru fyrir 1850 sjálfkrafa friðuð en í lýsingu á Reykjavík frá 1848 er þessa húss fyrst getið sem skemmu úr timbri við bæinn Grjóta sem Grjótaþorpið er kennt við en holtið þótti grýtt og var grjót úr því m.a. notað við byggingu Dómkirkjunnar. Byggt hefur verið við húsið 1860 og aftur 1880 og er það þá komið í núverandi stærð.
VaktarabærinnGuðmundur vaktari Gissurarson, sem bjó í Grjóta, byggði skemmuna en síðan eignaðist það Stefán Egilsson, faðir Sigvalda Kaldalóns og Eggerts Stefánssonar. Sigvaldi fæddist í húsinu og bjó þar fyrstu átta ár ævi sinnar. Að sögn Nikuláss Úlfars var búið í húsinu fram á sjöunda áratug nýliðinnar aldar en síðan hefur það aðallega verið notað sem geymsla og nú er komin fram beiðni frá eigendum lóðarinnar um að veitt verði leyfi fyrir niðurrifi þess. Nikulás Úlfar sagði að komið hefðu fram hugmyndir um að setja upp safn helgað minningu Sigvalda Kaldalóns í húsinu. “Þetta er hús með gífurlega mikið varðveislugildi,” sagði Nikulás Úlfar.
“Varðveislugildið felst aðallega í því að þetta er að öllum líkindum fyrsta timburhúsið í Grjótaþorpi og eina húsið sem eftir er af Grjótabænum gamla, auk tengingarinnar við Sigvalda Kaldalóns.” Hann sagði að með því að endurgera húsið í upphaflegri mynd með tjargaðri timburklæðningu og hvítum gluggum yrði húsið líkt því sem flest hús voru í Reykjavík fyrir um 150 árum og væri því gífurlega góður vitnisburður um fyrstu varanlegu byggð í einkaeign.

Vaktarabærinn

Einnig væri hægt að hlúa að garði aftan við húsið með gamaldags stakketi. “Það er engin spurning að þannig væri þetta hús perla í miðborg Reykjavíkur,” sagði Nikulás og sagði að nú þegar niðurrifsbeiðni væri fram komin þyrfti borgin að taka afstöðu til hvort það hygðist friða bæinn og leysa hann til sín frá núverandi eigendum eða hvernig hún sæi framtíð Vaktarahússins fyrir sér.
Borgarráð samþykkti á fundi sínum afsal á fasteigninni Garðastræti 23 til Minjaverndar hf. og er gert ráð fyrir að kaupverð hússins verði innt af hendi með endurgerð þess í upprunalegri mynd í miðborg Reykjavíkur. Komi til þess að fram þurfi að fara fornleifarannsókn mun Reykjavíkurborg bera af henni allan kostnað. Slík rannsókn fór fram árið 2009. En þrátt fyrir opinbera kostun er niðurstaða (skýrsla) rannsóknarinnar ekki aðgengileg almenningi á Vefnum (sem verður að teljast spurningarverð).
Í rauninni hefði borgarráð átt, af virðingu sinni og sem þakklæti til handa lögreglu höfuðborgarsvæðisins, að afhenda henni aðstöðuna í Vaktarabænum til þjónustu um ókomin ár. Þar hefði getað orðið til lítil og virðingarverð hverfastöð er sameinaði sögu og framtíð borgarinnar. Ólíklegt er að Minjavernd ríksins fái þá góðu hugmynd…

Heimild m.a.:
-mbl.is, 28. febrúar 2001.
-Visir, 27. janúar 2008.
-Visir, 18. janúar 2008.
-mbl, 26. júní 2008.
-Vesturbæjarblaðið, janúar 2008.

Vaktarabærinn

Vaktarabærinn.