Esjuberg

Í skýrslu um “Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar” árið 2020 eru fornleifalýsingar. Ein þeirra getur um Esjuberg, sbr. eftirfarandi:

“Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.
Esjuberg
Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni. Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.
Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum, ekki er talið líklegt að þær verði fyrir áhrifum framkvæmdarinnar.
Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi við Kollafjörð norðanverðan. Ef loftljósmynd frá 1946 er borin saman við nýlegar loftmyndir má sjá að á svæðinu hafa orðið miklar breytingar vegna landsigs, sandnáms og vegagerðar. Vegna þessara þátta hafa grjóteyrin og tjörnin horfið.

Esjuberg
Staðhættir
: „Vestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil.“ Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi niður við sjó út með Kollafirði norðanverðum, á mörkum jarðanna Esjubergs og Mógilsár.
Örnefnið bendir til þess að þarna hafi verið haldin héraðsþing að loknu alþingi. Ofar var Leiðtjörn og kirkjuflöt var ofan við hana en þar var sagt að hefði verið bænhús eða kirkja og viðirnir í hana verið fluttir um Leiðvöll. En talið hefur verið líklegra að sagnir eigi við um kirkjuna á Esjubergi. Örnefnin Leiðvöllur, Leiðtjörn og Leiðhamrar sem þarna eru gefa vísbendingar um að þarna hafi verið haldin leiðamót, leiðaþing eða héraðsþing. Leiðvöllur er fornt nafn og merkir „völlur þar sem haldin eru leiðamót“. Staðurinn gæti því hafa dregið nafn sitt af leiðaþingi sem haldið var að loknu Alþingi til að greina frá störfum þess og birta tilkynningar.
Lengi hefur verið talið að Kjalarnesþing, sem var sett á fyrir stofnun Alþingis um 930, og talið undanfari þess, hafi fyrst verið á Leiðvelli. Fram kemur í Íslendingabók að fyrir stofnun Alþingis að áður „… vas þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfsson landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu.“101 Í Landnámu er tekið í sama streng og staðkunnugur höfundur Kjalnesinga sögu virðist hafa horft á tóftir búðanna sem sáust enn suður við sjóinn um 1300. Þorsteinn Ingólfsson var útnefndur allsherjargoði á Alþingi og báru afkomendur hans titilinn eftir það svo það er ekki ólíklegt að hann hafi sett það. Þegar kristni var lögfest árið 1000 var Þormóður Þorkelsson sonarsonur hans allsherjargoði.
Þegar Kristian Kålund kom á Leiðvöll 1873 taldi hann staðinn svara til lýsinga í Kjalnesinga sögu um Kjalnesingaþing, flöt og löng grasræma á norðurströnd Kollafjarðar. Eyrin var þá að mestu þakin sjávarmöl og sjór gekk stundum yfir hana. Kålund taldi lítil og óglögg merki búðartófta að sjá þar, helst vestast og innst á eyrinni undir hallanum. Þar voru ef til vill nokkrar lágar upphækkanir sem gátu líka verið grónar skriður eða þúfur.
Sigurður Vigfússon forngripavörður kom á Leiðvöll 20. júlí 1880. Þá blasti við honum breið grjóteyri sem gekk út í sjó með malarkamb fyrir framan og langs fyrir ofan eyrina lá síki. Austan og uppaf því var lítil graseyri sem hét Kirkjuflöt og þar sáust leifar af lítilli tóft. Það var eina mannvirkið sem hann fann þrátt fyrir mikla leit.”

Heimild:
-Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar – fornleifalýsing; Esjuberg, 2020.

Esjuberg

Esjuberg neðan við Grund – útialtari; til minningar um fyrstu kirkjuna hér á landi.