Færslur

Vatnsleysa

Í “Þjóðsögum um Suðurnes“, sem Hildur Harðardóttir hefur tekið saman er að finna söguna “Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu”.
Skammt sunnan við bæinn á Stóru-Vatnsleysu eru minjar af bæ, sem byggður var ofan á hálfkirkju, sem þar var. Sæmundur á Vatnsleysu staðfesti þessa frásögn þegar FERLIRsfélagar heimsóttu hann einn daginn. Gekk hann með þeim um sögusviðið:

Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir sögusviðsins – kirkjan og bærinn fyrrum.

“Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa 1935.

Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn í fyrrum grafreit við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa.

Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Sögusviðið merkt með gulum hring.

Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum
þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu.
Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – túnakort 1919.

“Varð þér ekki bilt við?” spurði Guðmundur. “Ekki svo mjög,” svaraði hann.
“Maður er orðinn þessu svo vanur,” bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár.
Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu; tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.”

Heimild:
-Þjóðsögur um Suðurnes, Hildur Harðardóttir, Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu – ÞJÓÐTRÚ 171.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni.

 

Esjuberg

Í skýrslu um “Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar” árið 2020 eru fornleifalýsingar. Ein þeirra getur um Esjuberg, sbr. eftirfarandi:

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

“Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Finna má dóm í Íslensku fornbréfasafni sem kveðinn var upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu.
Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem eru á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til þess að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi var á Esjubergi, sennilega komin 1912.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnarsonar bunu. Landnámabók segir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, en Patrekur hafði sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð heilögum Kolumba.
Kirkja Örlygs er talin vera fyrsta kirkjan á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.
Esjuberg
Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð á tímabilinu 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og segir „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina. Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið lögð niður vegna skriðufalla.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, svo um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg kemur fram í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Esjuberg kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs. Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknaðist jarðardýrleiki beggja með heimajörðinni. Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerði lýsingu Kjósarsýslu 1746 var þingstaður á Esjubergi. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum árið 1816 þegar jörðin var seld úr eigu konungs var 2100 ríkisdalir.

Esja

Meintur kirkjuhóll á “Kirkjuflöt” ofan Leiðvalla.

Þegar Jarðatal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.
Innan úttektarsvæðisins sem skráð er undir Esjuberg er einstakur minjastaður sem var þingstaður en hann er horfinn. Aðrar minjar eru herminjar á Leiðhömrum, ekki er talið líklegt að þær verði fyrir áhrifum framkvæmdarinnar.
Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi við Kollafjörð norðanverðan. Ef loftljósmynd frá 1946 er borin saman við nýlegar loftmyndir má sjá að á svæðinu hafa orðið miklar breytingar vegna landsigs, sandnáms og vegagerðar. Vegna þessara þátta hafa grjóteyrin og tjörnin horfið.

Esjuberg
Staðhættir
: „Vestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil.“ Leiðvöllur er örnefni sem var á malarkambi niður við sjó út með Kollafirði norðanverðum, á mörkum jarðanna Esjubergs og Mógilsár.

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Örnefnið bendir til þess að þarna hafi verið haldin héraðsþing að loknu alþingi. Ofar var Leiðtjörn og kirkjuflöt var ofan við hana en þar var sagt að hefði verið bænhús eða kirkja og viðirnir í hana verið fluttir um Leiðvöll. En talið hefur verið líklegra að sagnir eigi við um kirkjuna á Esjubergi.

Örnefnin Leiðvöllur, Leiðtjörn og Leiðhamrar sem þarna eru gefa vísbendingar um að þarna hafi verið haldin leiðamót, leiðaþing eða héraðsþing. Leiðvöllur er fornt nafn og merkir „völlur þar sem haldin eru leiðamót“. Staðurinn gæti því hafa dregið nafn sitt af leiðaþingi sem haldið var að loknu Alþingi til að greina frá störfum þess og birta tilkynningar.
Lengi hefur verið talið að Kjalarnesþing, sem var sett á fyrir stofnun Alþingis um 930, og talið undanfari þess, hafi fyrst verið á Leiðvelli. Fram kemur í Íslendingabók að fyrir stofnun Alþingis að áður „… vas þing á Kjalarnesi, þat es Þorsteinn Ingólfsson landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir es at því hurfu.“

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Í Landnámu er tekið í sama streng og staðkunnugur höfundur Kjalnesinga sögu virðist hafa horft á tóftir búðanna sem sáust enn suður við sjóinn um 1300. Þorsteinn Ingólfsson var útnefndur allsherjargoði á Alþingi og báru afkomendur hans titilinn eftir það svo það er ekki ólíklegt að hann hafi sett það. Þegar kristni var lögfest árið 1000 var Þormóður Þorkelsson sonarsonur hans allsherjargoði.
Þegar Kristian Kålund kom á Leiðvöll 1873 taldi hann staðinn svara til lýsinga í Kjalnesinga sögu um Kjalnesingaþing, flöt og löng grasræma á norðurströnd Kollafjarðar. Eyrin var þá að mestu þakin sjávarmöl og sjór gekk stundum yfir hana. Kålund taldi lítil og óglögg merki búðartófta að sjá þar, helst vestast og innst á eyrinni undir hallanum. Þar voru ef til vill nokkrar lágar upphækkanir sem gátu líka verið grónar skriður eða þúfur.
Sigurður Vigfússon forngripavörður kom á Leiðvöll 20. júlí 1880. Þá blasti við honum breið grjóteyri sem gekk út í sjó með malarkamb fyrir framan og langs fyrir ofan eyrina lá síki. Austan og uppaf því var lítil graseyri sem hét Kirkjuflöt og þar sáust leifar af lítilli tóft. Það var eina mannvirkið sem hann fann þrátt fyrir mikla leit.”

Heimild:
-Breikkun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi milli Varmhóla og vegamóta Hvalfjarðarvegar – fornleifalýsing; Esjuberg, 2020.

Esjuberg

Esjuberg neðan við Grund – útialtari; til minningar um fyrstu kirkjuna hér á landi.

Esjuberg

Fyrir neðan bæinn Grund á Kjalarnesi, vestan Esjubergs, er “útialtari“. Á skilti við altarið má lesa eftirfarandi texta, auk svilitlum viðbótafróðleik:

“Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera”.

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Hér í landi Esjubergs verður reist útialtari sem minnismerki um merkan kristinn kirkjustað. Sagnir herma að fyrsta kirkja á Íslandi fyrir kristnitöku hafi verið reist á Esjubergi á Kjalarnesi. Mun það hafa verið um árið 900. Ekki er vitað hvar í landi Esjubergs kirkjan stóð. Næsta líklegt er að skriðuföll í Esju hafi spill vegsummerkjum eftir hana en þau breyttu ásýnd jarðarinnar og huldu flestar minjar á Esjubergi sem þar höfðu staðið um aldir og m.a. svonefnda kirkjurúst.

Esjuberg

Esjuber – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Fornleifarannsókn fór fram árið 1981 á þeim stað á Esjubergi þar sem menn töldu að kirkja hefði staðið og kirkjugarður. Ekkert fannst sem gat staðfest að kirkja hefði staðið á þeim stað.

Í Landnámu (Sturlubók) segir að Örlygur Hrappsson hafi fengið frá Patreki Suðureyjarbiskupi “kirkjuvið ok járnklukku ok penárium ok mold vígða” til að nota í kirkju sem reisa skyldi þar [sem] hann næmi land og eigna hinum helga Kolumba. örlygur reisti kirkju á Esjubergi.

Esjuberg

Esjuberg – örnefni.

[Í 1, kafla Kjalnesingasögu segir: “Maður hét Örlygur. Hann var írskur að allri ætt. Í þann tíma var Írland kristið. Þar réð fyrir Konofogor Írakonungur. Þessi fyrrnefndur maður varð fyrir konungs reiði.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Hann fór að finna Patrek biskup frænda sinn en hann bað hann sigla til Íslands “því að þangað er nú,” sagði hann, “mikil sigling ríkra manna. En eg vil það leggja til með þér að þú hafir þrjá hluti. Það er vígð mold að þú látir undir hornstafi kirkjunnar og plenarium og járnklukku vígða. Þú munt koma sunnan að Íslandi. Þá skaltu sigla vestur fyrir þar til er fjörður mikill gengur vestan í landið. Þú munt sjá í fjörðinn inn þrjú fjöll há og dali í öllum. Þú skalt stefna inn fyrir hið synnsta fjall. Þar muntu fá góða höfn og þar er spakur formaður er heitir Helgi bjóla. Hann mun við þér taka því að hann er lítill blótmaður og hann mun fá þér bústað sunnan undir því fjalli er fyrr sagði eg þér frá. Þar skaltu láta kirkju gera og gefa hinum heilaga Kolumba. Far nú vel,” sagði biskup, “og geym trú þinnar sem best þóttú verðir með heiðnum.”

Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.”]

Esjuberg

Esjuberg – uppfærð örnefni.

Í kirknaskrá Páls Jónssonar, biskups, frá 1200, er getið kirkju á Esjubergi: “Kirkja at Esjubergi.

Þá er og getið um kirkju á Esjubergi í Kjalnesingasögu frá 14. öld: “Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni.

Þrátt fyrir áþreifanleg ummerki um kirkju á Esjubergi hafi ekki enn fundist á Esjubergi hafa Kjalnesingar hin síðari ár haft um hönd helgihald á staðnum í júnímánuði ár hvert.

Tilgangurinn með uppsetningu útialtaris og minnismerkis í landi Esjuergs er að vekja verðskuldaða athygli á merkum kristnum sögustað. Útilaltarið verður notað við kristið helgihald og ýmsar athafnir eons og brúðkaup pg skírnir.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

Fyrsta skóflustunga var tekin að altarinu 8. maí 2016 af biskupi Íslands, prófasti Kjalarnesprófastsdæmis, formanni Sögufélagsins Steina, formanni sóknarnefndar Brautarholtssóknar og einu fermingarbarni vorsins 2016.

Esjuberg

Esjuberg – útialtari.

[Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir tók þar skóflustungu að útialtari ásamt sr. Þórhildi Ólafs. prófasti Kjalarnessprófastsdæmis, Hrefnu Sigríði formanni Sögufélagsins Steina, Birni Jónssyni formanni sóknarnefndar Brautarholtskirkju og fermingarbarninu Benedikti Torfa Ólafssyni.
Prófasturinn sr. Þórhildur Ólafs, leiddi helgistundina að keltneskum sið.]

Altarið sjálft verður sótt í Esjubergsnámur og upp úr því mun standa um tveggja metra hár keltneskur kross.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft forystu í máli þessu í samvinnu við ýmsa aðila.

[Guðni Ársæll Indriðason smíðaði mót fyrir krossinn sem rísa mun í miðju útialtarisins. Ákveðið er að hafa þrenningartákn, keltneska fléttu öðru megin og þrjá fiska hinu megin. Bjarni hefur verið í sambandi við Steinsmiðjuna S. Helgason sem ætla að sjá um smíðina á plötunum sem síðan verða festar á krossinn.]

Þetta söguskilti er sett upp hér til bráðabirgða en veglegra skilti verður síðar komið fyrir.

Esjuberg
[Kirkja Örlygs hefur sennilega aldrei verið við bæinn Esjuberg, miklu frekar í landi Esjubergs, er náði allt vestur í Kolafjörð. Þegar möguleg staðsetning framangreindrar kirkju gæti hafa verið þarf því að líta gagnrýnum augum í fyrirliggjandi örnefnalýsingar m.t.t. áttalýsinga, og horfa sérstaklega til örnefnanna “Leiðhamar” og “Leiðvöllur”, sbr.:

Esja

Meintur kirkjuhóll á “Kirkjuflöt” ofan Leiðvalla.

Vesturmörkin [austurmörkin], milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan [austan] hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.)

Upp af Leiðvelli var Kirkjuflöt. Þar er líklegt að kirkja Örlygs hafi verið reist í árdaga, þ.e. á Kirkjuflöt. Nánast öllu svæðinu ofan Leiðvallar hefur nú verið raskað með námugreftri. Upp af  Kirkjuflöt var Kirkjunýpa, gamalt örnefni, sem nú virðist vera horfið.
Esjuberg

Kjalarnes

FERLIR skoðaði Esjuberg og nágrenni m.t.t. mögulegra sögulegra minja, s.s. fyrrum fyrstu kirkju á Íslandi árið 910 og þingstað Kjalnesinga:

Esjuberg – sagan

Esjuberg

Esjuberg á Kjalarnesi.

Bærinn á Esjubergi stendur á skriðuvæng upp undir rótum Esju. Mörk jarðarinnar eru á móti Skrauthólum að vestan og Mógilsá að austan. Á Esjubergi voru áður fyrr samþykktir og kveðnir upp dómar. Í Íslensku fornbréfasafni má finna dóm sem var kveðin upp 1480 og þar var þingstaður 1541 og 1746 þegar Jón Oddsson Hjaltalín gerði Lýsingu Kjósarsýslu. Örnefnin Leiðhamar og Leiðvöllur, sem er á mörkum Mógilsár og Esjubergs, benda til að þar hafi verið haldin leiðmót, leiðarþing eða héraðsþing sem haldið var að afloknu Alþingi þar sem greint var frá störfum þess og birtar tilkynningar. Þá var fyrsta símstöðin í Kjalarneshreppi á Esjubergi, sennilega 1912.

Esjuberg

Esjuberg.

Esjuberg var landnámsjörð Örlygs gamla Hrappssonar Bjarnasonar bunu. Landnámabóksegir frá því að Helgi bjóla Ketilsson hafi gefið frænda sínum, bræðrungi, Örlygi Hrappssyni hluta af landnámi sínu, frá Mógilsá að Ósvífslæk. Landnáma getur þess einnig að Örlygur hafi búið á Esjubergi og látið gera þar kirkju sem fóstri hans Patrekur biskup í Suðureyjum hafði sagt fyrir um, og að Patrekur hafi sent hann með kirkjuviði, járnklukku, plenáinum og vígða mold til að setja undir hornstafina. Kirkjan gæti hafa verið tileinkuð Kolumba en Örlygur og frændur hans trúðu á hann. Kirkja Örlygs er talin vera sú fyrsta á Íslandi. Kirkjunnar er einungis getið í kirkjuskrá Páls biskups frá því um 1200.

Esjuberg

Margt er á huldu á og við Esjuberg.

Reyndar segir frá kirkjunni í Kjalnesingasögu sem er talin rituð 1300-1320. Þar segir frá því að Helga Þorgrímsdóttir, eiginkona aðalsöguhetjunnar Búa, hafi látið grafa hann undir syðri kirkjuveggnum og „[þ]á stóð enn kirkja sú at Esjubergi, er Örlygr hafði látit gera“. Eftir þessu að dæma hefur kirkjan ekki verið uppistandandi á ritunartíma sögunnar um 1300 og gæti hafa verið niðurlögð á fyrri hluta 13. aldar. Hvers vegna er ekki vitað og margt getur komið til greina.

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Kirkjur voru stöðutákn svo höfðingi gæti hafa dáið eða misst stöðu sína til annars. Kirkjan gæti líka hafa verið niðurlögð vegna skriðufalla?
Jarðarinnar er getið nokkrum sinnum í skjölum sem varða hvalreka Viðeyjarklausturs á milli Esjubergs og Valagnúpa, fyrst í skrá varðandi hvalskipti á Rosmhvalanesi um 1270, aftur um 1270 í bréfi Runólfs ábóta í Viðey um hvalrekann, og aftur 1285 um skipti á hvalreka á milli Valagnúpa og Esjubergs. Esjuberg er í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395.
Nafnið kemur fram í skýrslu Hannesar Pálssonar umboðsmanns og kapelláns Danakonungs, um allskonar óskunda og yfirgang, rán, vígaferli og löglausa verslun Englendinga á Íslandi á árunum 1420-1425.
Árið 1480 var úrskurðað í Esjubergsdómi í eignarmálum Soffíu Loftsdóttur og Gunnlaugs Teitssonar. Árið 1497 gaf Böðvar prestur Jónsson vitnisburð um reka Viðeyjarklausturs á milli Klaufar og Esjubergs.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Á Esjubergsþingi þann 30. september 1541 var felldur dómur um lögmæti bréfs Alexíusar ábóta í Viðey um jarðirnar Skrauthóla og Bakka í Brautarholtssókn. Þá kemur jörðin fram í fógetareikningum 1547-1552. Á Esjubergi voru kveðnir upp dómar um beit og fjárrekstur 1565-1566.
Jarðarinnar er getið á minnisblöðum Vigfúsar Jónssonar sýslumanns Kjalarnesþings árið 1569 og þjófnaðardómur var kveðinn upp þar 14. janúar 1657.
Jörðin var ein af jörðum Viðeyjarklausturs 1686-1695 og þá metin á 40 hundruð.

Esjuberg

Esjuberg – tóft á Bænhúshól.

Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704 var Esjuberg í eigu konungs en jarðardýrleiki óviss. Kvaðir voru meðal annarra um mannslán á vertíð suður á Stafnes. Þá var hægt að fórðra sjö kýr, tólf lömb og þrjá hesta. Jörðin hafði þá haft til langs tíma fría afrétt fyrir hesta og geldnaut á Mosfellsheiði. Torfrista og stunga var góð en mótak til eldiviðar slæmt. Silungsveiði hafði jörðin í Leirvogsá lengst af. Rekavon var nokkur og skelfiskfjara var á Leiðvallargranda. Selstöðu átti jörðin undir Svínaskarði að sunnan og þar var berjalestur nokkur. Helstu ókostir voru að úthey voru lítil og skriður ógnuðu bæði mönnum, húsum og skepnum. Stórviðrasamt var á Esjubergi og stóð mönnum og skepnum ógn af skriðum sem ollu þar tjóni. Tvær hjáleigur voru þá á Esjubergi. Litla-Esjuberg sagt afbýli heima við bæ og Árvöllur önnur hjáleiga og reiknast jarðardýrleiki beggja í heimajörðinni.

Esjuberg

Esjuberg – meint kirkjutóft sunnan við bæinn.

Þegar Jón Oddson Hjaltalín gerir lýsingu Kjósarsýslu 1746 þingstaður á Esjubergi 1746. Kaupverð Esjubergs með Grund (Austurbæ) og Árvöllum var 2100 ríkisdalir þegar jörðin var seld úr eigu konungs 1816. Þegar Jarðartal Johnsens var tekið saman 1847 var Esjuberg í bændaeigu, metið á 40 hundruð og með einum ábúanda. Í neðanmálsgrein er sagt að jarðabækurnar geti ekki um hjáleigurnar nema árið 1802, en þá er getið Austurbæjar sem er líklega sama hjáleiga og sýslumaður og prestur kalla Grund. Sú hjáleiga var nefnd Litla-Esjuberg 1704. Jörðin var metin á 40 forn hundruð í Jarðarmati á Íslandi 1849-50. Hjáleigurnar lögðust báðar af eftir mikið ofanflóðaveður 2. september 1886.

Esjuberg

Esja – skriða ofan Leiðhamra.

Umhverfi við Esjuberg ber með sér merki um skriðuföll sem valdið hafa nokkrum búsifjum. Fitjaannáll 1662 segir frá því að í kjölfar mikils regns hafi miklar skriður hlaupið fram víða, bæði á tún, engjar og úthaga. Þrjár jarðir fóru sérstaklega illa út úr þessu vatnsveðri: Esjuberg, þar sem mikið tók af túninu og Vellir og Mógilsá, þar sem tók af þriðjung túna. Haustið 1668 greinir Fitjaannáll frá því að haustið hafi verið venju fremur rigningarsamt. Þá féllu víða skriður á tún og haga, sérstaklega á Esjubergi, svo bóndinn Sigurður Núpsson flutti sig þaðan í burtu. Jarðabók Árna og Páls segir frá skriðum 1704 sem „fordjarfa, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði.“

Esja

Esja ofan Leiðvalla.

Blaðið Norðanfari sagði frá skriðu sem hljóp úr Esju 4. júlí 1871 og tók af mestan part af túninu á Esjubergi og gerði usla á engi.

Esjuberg

Esjuberg – meintur kirkjugarður.

Þann 2. september 1886 gerði aftakarigningu sem olli miklum skriðuföllum. Þá urðu níu jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum og ein jörð í Mosfellssveit. Á Esjubergi fór skriða yfir hluta túnsins og 60-70 hesta af heyi. Einnig fór sandur og leir yfir mestanpart og besta part engjanna og restin varð óslæg vegna leirs í rót. Þá féll skriða á bæjarhús hjáleigunnar Grundar sem fór í eyði eftir þetta.
Litla Esjuberg var afbýli heima við bæinn þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1704, er ekki getið í öðrum heimildum. Dýrleikin reiknaðist með heimajörðinni. Kvaðir voru um skipsáróður allt árið utan sláttar. Hægt var að fóðra eina kú og fimm lömb. Afbýlið hafði torfskurð og eldiviðartak í heimalandinu.

Esjuberg
Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Esjuberg segir m.a.: “Jörð í Kjalarneshreppi, næst vestan við Mógilsá. Merkin móti Mógilsá eru frá Leiðvelli beint við vesturhorn á sléttri flöt upp í Markagil, (Stangargil eða Festargil. Vestan við Fálkaklett eftir miðju gilinu um Skarðsdali efri og Skarðsdali neðri, eins og lækurinn ræður, upp í Þverfell.

Esjuberg

Esjuberg – túnakort 1916.

Móti Móum er varða á landsuðurhorni Varmhóla, síðan vestur þá og í vörðu hæst á þeim, beina sjónhendingu í Brautarholtsborg eða beint í Villingavað á Móalæk. Þetta voru gömlu merkin. En nú ræður vegurinn milli Saltvíkur og Esjubergs. Melur er norður af Varmhólum, milli þeirra og Dyngjuholts, sem heitir Varmhólamelur.
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðvöllur hefur verið nefndur fyrr. Það er malarkambur niður við sjóinn. Áður var þar tjörn fyrir innan, en nú er þar sandnám. Vestan hans taka við hamrar, sem nefndir eru Leiðhamrar. Þeir eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi,en hitt Móum. Úr honum er línan í Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll.”

Í Wikipedia.org segir um Kjalarnesþing:

Esja

Mögulegur þingstaður fyrrum Kjalarnesþings ofan Leiðvalla.

“Kjalarnesþing var staðbundið þing sem starfaði fyrir stofnun Alþingis og var að einhverju leyti undanfari þess. Það hefur sennilega upphaflega verið á Kjalarnesi en var lengst af haldið á Þingnesi við Elliðavatn.

Þingnes

Þingnes.

Þinghald tíðkaðist meðal germanskra þjóða löngu fyrir landnám Íslands, þar á meðal í Noregi, og landnámsmenn hafa því þekkt það úr heimalöndum sínum og fljótlega séð nauðsyn þess að hafa einhvers konar sameiginlegar reglur og dómstóla. Heimildir geta um tvö staðbundin þing fyrir stofnun Alþingis, Kjalarnesþing og Þórsnesþing, en þau kunna að hafa verið fleiri. Ari fróði segir í Íslendingabók að Þorsteinn, sonur Ingólfs Arnarsonar, hafi stofnað þingið: „áðr var þing á Kjalarnesi, þat er Þorsteinn Ingólfssonr landnámamanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar ok höfðingjar þeir, er at því hurfu.“

Esjuberg

Esjuberg, kort frá 1908.

Ekki er ljóst hve stórt þingsvæði Kjalarnessþings var en það kann að hafa náð austur að Ölfusá. Sumir telja að Alþingi sé stofnað út frá Kjalarnesþingi. Þorsteinn Ingólfsson helgaði hið fyrsta Alþingi og var útnefndur allsherjargoði og þann titil báru afkomendur hans síðan.

Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur gróf í búðarústirnar á Þingnesi 1841 og aðrir rannsökuðu þær síðar en 1981 hófst þar uppgröftur á vegum Þjóðminjasafnsins og var þá grafinn upp fjöldi búðarústa, dómhringur (lögrétta) og fleira. Elstu rústirnar voru frá því um 900 en þær yngstu líklega frá því um 1200, enda hefur Kjalarnesþing áfram verið héraðsþing þrátt fyrir stofnun Alþingis.”

Í Vinnuskýrslu fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003):
Leiðvöllur
“Á Þingnesi við Elliðavatn er dálítil þyrping fornra rústa sem lætur ekki mikið yfir sér þegar gengið er um staðinn. Til skamms tíma var staðurinn einnig ómerktur og áttu margir jafnvel erfitt að átta sig á hvar minjarnar væru, þó að þeir gengju um svæðið.

Esjuberg

Esjuberg – Leiðvöllur 1946.

Margt bendir til þess að þessar minjar séu hins vegar með merkustu minjum landsins, og að þarna séu hugsanlega leifar Kjalarnessþingstaðar, sem var fyrsti þingstaður landsins og líklega settur á fót rétt fyrir eða um 900.
Þrátt fyrir mikilvægi Kjalarnessþings féll staðurinn algerlega í gleymsku, eins og flestir hinna fornu héraðsþingstaða og í dag er ekki vitað með vissu hvar þingið var haldið.
Með vaknandi þjóðerniskennd á 18. og 19. öld fóru ýmsir að svipast um eftir frægum stöðum sem nefndir voru í Fornsögum, þar á meðal Kjalarnesþingi. Nafnið “Kjalarnesþing” bendir óneitanlega til þess að það hafi staðið á Kjalarnesi, og þar hófu menn fyrst leit að staðnum.
Þingnes
Á 18. öld getur Árni Magnússon um örnefnið “Þingeyri” í Kollafirði. Um 1880 virðist Þingeyri týnd en í staðinn talar Sigurður Vigfússon um “Leiðvöll” á Kjalarnesi. Af lýsingunni að dæma virðist um sama stað að ræða. E.t.v. eru þessi örnefni (Þingeyri og Leiðvöllur) aðeins tilraunir viðkomandi fræðimanna á 18. og 19. öld til þess að finna Kjalarnesþingi líklegan stað og varasamt að byggja of mikið á þeim.
Spyrja má hvernig mönnum datt í hug að tengja Kjalarnesþing við stað eins og Þingnes sem er augljóslega ekki á Kjalarnesi. Meginástæðan fyrir því að farið var að leita að öðrum stöðum sem bent gætu til þinghalds á svæðinu kring um Faxaflóa er væntanlega sú að á Kjalarnesi hafa ekki fundist eða varðveist minjar sem bent gætu til þingstaðar.
Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur, vakti fyrstur athygli manna á búðarústum í Þingnesi við Elliðavatn, og getur sér til að þar sé fundinn hinn forni Kjalarnesþingstaður, sem svo lengi hafði verið týndur.

Þingnes
Í kjölfar þessa spunnust næstu áratugina miklar umræður um staðsetningu Kjalarnessþings meðal fræðimanna og stóð sú umræða meir og minna yfir fram yfir aldamótin 1900. Þá höfðu margir innlendir og erlendir fornfræðingar þess tíma heimsótt staðinn, mælt hann upp og lýst honum og sumir jafnvel grafið í rústirnar í rannsóknarskyni, eins og greint verður nánar frá hér á eftir. Rannsóknarsaga Þingness er því lengri og fjölbreyttari en en flestra annara minjastaða á Íslandi.
Allir sem könnuðu staðinn voru sammála um að þar væru um 15 – 20 rústir í þyrpingu, hringlaga mannvirki á miðju svæðinu, og að staðurinn væri líklega þingstaður. Árið 2003 hófust á nýjan leik rannsóknir á Þingnesi á vegum Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, sem liður í verklegri kennslu í fornleifafræði.

Þingnes
Í þessari ritgerð er safnað saman á einn stað helstu ritheimildum um Kjalarnesþing og Þingnes og hin merkilega rannsóknarsaga staðarins rakin frá upphafi. Til þess að gefa sem besta innsýn í umræðuna og leifa röksemdum sem notaðar voru í umræðunni að njóta sín, eru hér endurbirtar helstu greinar þeirra fræðimanna sem mest létu sig þetta mál varða. Gerð er grein fyrir hverju mannvirki fyrir sig sem rannsakað var á árunum 1981 – 2003. Rætt er um niðurstöður rannsókna í ljósi núverandi vitneskju, aldur og hugsanlegt hlutverk minjanna á Þingnesi.

Þingnes

Þingnes – upplýsingaskilti.

Í þeirri umræðu sem átti sér stað á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar um Kjalarnessþing og Þingnes komu fram flest þau rök sem halda að mestu enn í dag. Umræðurnar eru bæði skemmtilegar og áhugaverðar og mikilvægt innlegg í rannsóknarsögu staðarins. Ástæðan fyrir því að þetta mál komst yfirleitt á dagskrá á sínum tíma er sú að Kjalarnessþings er getið í Íslenskum fornritum sem hins fyrsta þingstaðar á Íslandi.

Samkvæmt frásögn Landnámu og Íslendingabókar á Þorsteinn Ingólfsson, sonur Ingólfs Arnarsonar, að hafa stofnað til þings áður en Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930. Stofnun Kjalarnessþings er sennilega einn af merkustu atburðum landnámsaldar. Þá er mönnum greinilega orðið ljóst að ekki verði búið í landinu án þess að sett séu almenn lög og samskiptareglur og helstu höfðingjar virðast taka höndum saman um að koma á fót þessum fyrstu drögum að þinghaldi í landinu.

Leiðvöllur

Leiðvöllur á Kjalarnesi.

Um þennan atburð segir svo í þriðja kafla Íslendingabókar: ,,Alþingi var sett að ráði Úlfljóts og allra landsmanna þar sem nú er, en áður var þing á Kjalarnesi, það sem Þorsteinn Ingólfssonur landnámsmanns, faðir Þorkels mána lögsögumanns, hafði þar og höfðingjar þeir er að því hurfu.”
Í neðanmálsgrein um þessa frásögn segir Jakob Benediktsson að ágreiningur hafi verið meðal fræðimanna hvort að Kjalarnesþing hafi verið héraðsþing eða vísir að allsherjarþingi. Hann tekur ekki afstöðu til þess, hvort sé rétt, en telur líklegt að á Kjalarnesþingi hafi farið fram undirbúningur að stofnun Alþingis.

Þingnes
Í Landnámabók er frásögnin með svipuðum hætti: “Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lopts ins gamla. Þeirra sonur var Þorstein, er lét setja þing á Kjalarnesi, áður Alþingi var sett”. Í Þórðarbók stendur ekki á Kjalarnesi, heldur “á Krossnesi”, sem talið er að Þórður hafi bætt inn í handritið. Í neðanmálsgrein greinir Jakob Benediktsson frá því að í viðbæti Þórðarbókar standi eftirfarandi klausa úr Melabók: ,,Þorsteinn Ingólfsson lét setja fyrstur manna þing á Kjalarnesi, áður alþingi var sett, við ráð Helga bjólu og Örlygs að Esjubergi og annarra viturra manna, og fylgir þar enn sökum (þess) því goðorði alþingishelgun”.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Kjalnesinga sögu, sem er reyndar ekki talin með áreiðanlegustu sögum, ber ekki saman við þessar frásagnir um stofnun Kjalarnesþings. Þar segir: “Þorgrímr (sonur Helga Bjólu landnámsmanns) lét setja várþing á Kjalarnesi suðr við sjóinn; enn sér stað búðanna; þar skyldi öll mál sækja og þau ein til alþingis leggja, er þar yrði eigi sótt eða stærst væri”.
Litlum sögum fer af þessu merka þingi. Aðeins eru tvær frásagnir varðveittar um mál sem borin voru upp á Kjalarnesþingi. Annars vegar er frásögn í Kjalnesinga sögu um að Þorsteinn Þorgrímsson á Hofi á Kjalarnesi, stefndi Búa Andríðssyni um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Sótti hann málið og varð Búi sekur skógarmaður. Segir sagan, að hann hafi þá verið 12 vetra. Hins vegar er um að ræða vígamál sem spunnust út af deilum Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa, sem lauk með því að Þorbjörn felldi Ófeig í Grettisgeil hjá Hæli.
Leitað var til Önundar tréfóts til þess að reifa málið. Hann fékk til liðs við sig Ólaf feilan, sonarson Auðar djúpúðgu. Í Grettissögu er frásögnin af málinu á þessa leið “og reið Ólafur suður með honum, og er Önundur hitti vini sína og mága, þá buðu þeir honum til sín. Var þá talað um málin og lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gjörð, og komu miklar bætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gjörr”. Þessir atburðir munu líklega hafa átt sér stað um 906 – 908.

Þingnes

Þingnes – Uppdráttur G.Ó.

Þegar fornritum sleppir er elstu vísbendingu fyrir því að þingstaður hafi getað verið á Kjalarnesi, líklega að finna hjá Árna Magnússyni, handritasafnara. Í riti sínu Chorographica Islandica sem er tekið er saman á löngu árabili í upphafi 18. aldar birtir hann lauslega afstöðumynd af nokkrum örnefnum í Kollafirði. Þar er örnefnið Þingeyri merkt við nes á kortinu sem gengur út í miðjan Kollafjörð að norðanveru. Í athugasemd nefnir Árni m.a. að í landi Esjubergs sé enn sýndur fyrsti þingstaður á Sandeyri í Kollafirði.

LandnámKort Árna Magnússonar af Kollafirði þar sem skráð eru örnefnin: Helguskier, ÞingEyre, Kollafiörður, og áttavísanirnar suður og austur. Engar minjar hafa fundist á þessu svæði sem bent gætu til þingstaðar.

Jónas Hallgrímsson, skáld og náttúrufræðingur fékk áhuga á að finna Kjalarnesþing hið forna. Þegar hann hefur rannsóknir sínar virðist almennt hafa verið talið að þingstaðinn væri að finna á Kjalarnesi sjálfu, en að enginn vissi nákvæmlega hvar. Honum var sagt að vestan við bæinn Móa á Kjalarnesi væru leifar þingstaðar niður við sjó, en að þar væru engar sýnilegar minjar. Það eina sem þar minni á þingstað sé örnefnið Leiðvöllur. Hann fékk síðan upplýsingar um minjasvæðið við Elliðavatn og gerði út leiðangur til þess að rannsaka staðinn árið 1841 og fann þá 18 – 20 búðir og dómhring. Rannsókn hans er afar merkileg og með nokkrum sanni má segja að þessi rannsókn marki upphaf fræðilegra rannsókna á Íslandi, þó að frumstæð sé. Mér er ekki kunnugt um aðrar eldri rannsóknir á fornleifum sem gerðar hafa verið á Íslandi af fræðimönnum.

Esja

Meintur kirkjuhóll á “Kirkjuflöt” ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar birtust í Rit eftir Jónas Hallgrímsson III. Dagbækur, yfirlitsgreinar og fleira. Annars vegar undir fyrirsögninni: ,,Tvær litlar rannsóknarferðir: 1. Þingnes í Elliðavatni”, og hins vegar ,,Uddrag af dagböger fra en rejse i Island Sommaren 1841, for saa vidt angaar Antikvariske iagttagelser”.
ÞingnesFrásagnirnar eru mjög svipaðar en til þess að halda saman öllu sem Jónas skrifaði um rannsóknina eru þær báðar birtar hér eins og þær birtust á dönsku í dagbókum hans: “Da jeg i næstafvigte Vinter for Alvor begyndte at forespørge mig om Stedet, hvor det gamle Kjalarnesþing havde staaet, saa var der ingen, som kunde give mig nogen Oplysning derom. Vel sagde man, at etsteds paa Kjalarnæsset, vesten for Gaarden Moar, ved Stranden, nok var Levninger af et Tingsted, men at man ikke saa der nogen Budetomter. Stedet kaldes desuden, vel at mærke, Leiðvöllur. Dette førte mig naturligvis til den Tanke, at Kjalnæsingerne vel i sin Tid havde holdt det aarlige »leiðarþing« paa dette Sted, men at det derfor ikke var afgjort, at Herredstinget nogen Sinde havde været der. Omtrent til samme Tid fik jeg at vide, at ved Elliðavatn, – en fiskerig Indsø, der ligger oven for Seltjarnarneset, paa de gamle Grænser af Kjosar- og Guldbringe-Sysseler og midt i Herredet Kjalarnessþing —, skulde der findes mange og anselige Tomter i et Næs, der gaar ud i bemeldte Indsø, midt i mellem Gaardene Vatns-endi og Vatn. Efter en foreløbig Undersøgelse tog jeg fra Reikevig til dette Sted om Aftenen den 20. Juni, da jeg næste Dag agtede at foretage der en Del Eftergravninger, i Haab om paa denne Maade at komme til et Resultat med Hensyn til bemeldte Tomters tidligere Bestemmelse.

Esja

Esja – stekkur ofan Leiðvalla.

Niðurstöður Jónasar hleyptu af stað miklum vangaveltum og nokkrum deilum um staðsetningu Kjalarnessþings sem stóðu fram yfir aldamótin 1900, en lognuðust svo útaf vegna skorts á frekari sönnunargögnum. Það kann að þykja einkennilegt að ekki hafi fundist nein ný sönnunargögn sem skorið gætu úr þessari deilu þegar þess er gætt að enginn staður á Íslandi hefur verið rannsakaður jafn oft og rústirnar í Þingnesi.
ÞingnesÞarna grófu nefnilega bæði íslenskir og erlendir fornfræðingar þess tíma hver á fætur öðrum án þess að takast að ráða gátu staðarins. Ástæða þess er sú að hann er óvenju erfitt viðfangsefni, eins og vikið verður að síðar. Af helstu fræðimönnum sem þarna grófu auk Jónasar má nefna Angus Smith, skoskan fornfræðing sem rannsakaði staðinn árið 1872; Sigurð Vigfússon árið 1889; Daniel Bruun og Björn M. Olsen árin 1896 – 1897.
Að auki könnuðu allir helstu fornfræðingar landsins staðinn og gerðu athuganir á honum. Þar á meðal Kristian Kaalund, Sigurður Guðmundsson, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur frá Minna Núpi.
Sú umræða um Kjalarnesþing sem spratt af rannsóknum Jónasar er mjög skemmtileg og er afar áhugavert að kynnast hugmyndum og sjónarmiðum þesarra fræðimanna sem um hann fjölluðu fyrir rúmum hundrað árum.
Þrátt fyrir að ályktanir og niðurstöður taki gjarnan mið af því að verið er að reyna að útskýra hvernig Kjalarnesþing sé upp við Þingnes en ekki á Kjalarnesi, er engin ástæða til að rengja glöggskyggni rannsóknarmanna í lýsingum sínum á sjálfum minjunum.”

Esja

Minjakort Minjasafns Reykjavíkur. Hér er Kirkjuflöt ranglega staðsett.

Af framangreindu mætti ætla, í fljótu bragði, að kirkja Örlygs gamla hafi verið á Esjubergi. Ef betur er lesið er ljóst að hún var á flöt; Kirkjuflöt “ofan við Leiðvöll” í Kollafirði.
Á örnefnamynd Minjasafns Reykjavíkur er Kirkjuflöt staðsett beint ofan við Leiðvöll, þar sem nú eru malargryfjur. Ljóst má þó vera að þar hafi aldrei verið flöt sú, sem fjallað er um. “Ofan við Leiðvöll” hefur miklu líklegra verið á reiðleiðinni þaðan áleiðis að Esjubergi. Þar ofan við er sléttur gróinn melur, skammt ofan Leiðhamra. Á flötum melnum er aflangur gróinn hóll, sem snýr frá austri til vesturs. Ekki mótar fyrir veggjum í hólnum. Skammt norðan við hann eru tóftir fjárhúss (heykuml, hús og gerði).

Esjuberg

Forn gata ofan Leiðvalla að Esjubergi.

Telja má ólíklegt að Örlygur gamli hafi ráðið að reisa fyrstu kristnu kirkjuna heima við bæ sinn á Esjubergi þrátt fyrir almenna stundarsátt millum trúarbragða á þeim tíma. Slík framkvæmd gat boðið hættunni heim. Hafa ber í huga að Ísland var heiðið á þessum tíma og þótt kristið fólk hafi sest hér að, ekki síst á Kjalarnesi, verður að teljast hæpið að hann hafi viljað storka örlögunum með svo augljósum hætti, en afráðið þess í stað að láta reyna á þolgæði samlandanna og reist hið táknræna trúboð við alfaraleið á ystu mörkum landnámsins þar sem ólíkar hefðir blönduðust sameiginlegum hagsmunum, þ.e. mikilvægum siglingum millum anda. Örlygur hefur ólíklega afráðið að reisa kirkjuna á meintum stað Kjalarnesþings ofan Leiðvalla, sem stofnað hafði verið nokkrum árum fyrr. Minjastaður meintar kirkju er í skjóli fyrir erfiðum vindáttum ofan af Esjunni. Skammt sunnan við meintan minjastað er orpinn hóll, mögulega dys. Kjalnesingasaga segir að Búi hafi verið grafinn sunnan við kirkjuna, sem þá hafði verið aflögð.
Í Esjunni ofan við meint kirkjustæði er örnefnið “Kirkjunýpa”, sem hingað til hefur ekki ratað í nútíma örnefnalýsingar einhverra hluta vegna.

Telja má sennilegt að kirkjan á Kirkjuflöt ofan Leiðvalla hafi síðar verið flutt að bænum Esjubergi, líkt og lesa má í síðari heimildum.  Þar fór fram fornleifauppgröftur fyrir nokkrum árum, en skilaði ekki tilhlíðanlegum árangri. Sú, eða þær kirkjur, sem nálægt bænum kunna að finnast, geta því varla talist til elstu kirkju landsins.
EsjubergVitað er að hvorki timburkirkjur né torfkirkjur hafi varað til eillífðar, heldur þvert á móti; þær hefur þurft að endurbyggja með reglulegu millibili, mögulega á 20-50 ára fresti.
Skammt sunnar í hlíðinni, allnokkuð ofan Leiðvallar, er óglöggt minjasvæði. Sést þar móta fyrir veggjum.

Heimildir:
-Bæir á Kjalarnesi – ritgerð.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kjalarnes%C3%BEing
-Vinnuskýrsla fornleifa 2004 lýsir Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, Kjalarnesþingi (Rannsóknarsaga 1841-2003).
-Gamli Kjalarnesvegur – Minjasafn Reykjavíkur.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Esjuberg.

Esja

Esjan ofan Leiðvallar. Svæðinu neðanverðu hefur verið mikið raskað í gegnum tíðina.

Esjuberg

Á vefsíðu kirkjunnar 18. júní 2021 má lesa eftirfarandi um “útialtari” á Esjubergi:

“Sunnudaginn 20. júní verður útialtarið á Esjubergi, Kjalarnesi, vígt af biskupi Íslands, sr. Agnesi M. Sigurðardóttur. Með henni þjóna sóknarpresturinn sr. Arna Grétarsdóttir og sr. Hans Guðberg Alfreðsson, prófastur Kjalarnessprófastsdæmis. Kór Reynivallaprestakalls syngur og organisti er Guðmundur Ómar Óskarsson. Athöfnin hefst kl. 14.00.

Esjuberg

Esjuberg – Biskup Íslands vígir útialtarið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur haft veg og vanda af útialtarinu og mun formaður félagsins, Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, flytja ávarp við vígsluna.

Útialtari

Útialtarið.

Hátt í fjórir áratugir eru liðnir frá því að fyrst var hreyft þeirri hugmynd að koma upp á Esjubergi minnismerki í tilefni þess að sagnir herma að þar hafi verið reist fyrsta kirkjan á Íslandi og þá þegar fyrir kristnitöku árið 1000. Það var svo árið 2014 að var flutt tillaga á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar af tveimur Kjalnesingum um að reist yrði útialtari að Esjubergi. Tillögunni var vel tekið á þinginu en henni var vísað heim í hérað. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi tók svo málið í sínar hendur og hefur haft yfirumsjón með verkinu. Allar götur síðan hefur Sögufélagið Steini unnið jafnt og þétt að uppbyggingu útialtarisins. Þjóðkirkjan, ýmis félagasamtök, sjóðir og fjöldi einstaklinga hafa lagt fram fé til þess að þetta minnismerki yrði að veruleika. Stjórnarmenn í Sögufélaginu og velunnarar þess hafa lagt fram mikla vinnu við útialtarið. Fyrsta skóflustungan að útialtarinu var tekin 8. maí 2016.

Esjuberg

Biskup Íslands og sr. Arna Grétarsdóttir sóknarprestur Reynivallarprestakalls.

Nú er útialtarið tilbúið og er mannvirkið hið glæsilegasta. Útialtarið er hringur, með fjórum inngöngum sem snúa til höfuðátta, veggir eru hlaðnir af hleðslumeisturum sem og sæti. Upp úr níu tonna altarissteininum rís tveggja metra keltneskur kross sem steyptur var af hagleiksmanninum Guðna Ársæl Indriðasyni. Krossinn ber ýmis keltnesk tákn og á ytra borði hans eru steinvölur sem börn úr Klébergsskóla tíndu úr fjörunni á Kjalarnesi sem og steinar frá skosku (keltnesku) eyjunum Lindisfarne og Iona.

Útialtarið á Esjubergi er einstakur kristinn helgistaður og þar verða eflaust ýmsar athafnir hafðar um hönd, eins og skírnir, hjónavígslur og helgistundir.

Hvar er útialtarið?

Esjuberg

Esjuberg – skilti til leiðbeiningar að útialtarinu.

Þegar komið er upp úr Kollafirði blasir við skilti sem á stendur Kerhólakambur og einnig Útialtarið – og slaufumerkið um að þar sé að finna athyglisverðan stað til að skoða. Á vígsludaginn verður fánaborg við innkeyrsluna og ætti hún ekki að fara fram hjá neinum. Mælt er með því að fólk leggi bílum sínum til hliðar við innkeyrsluna og gangi að altarinu, en það eru 0.7 km. Spáð er ágætisveðri.” – hsh

Á MBL.is 19. júní 2021 var eftirfarandi umfjöllun um útialtarið á vefmiðlinum:

Biskup vígir keltneskt útialtari á Esjubergi
Talið er að fyrsta kristna kirkja Íslands hafi staðið við Esjuberg og á hún að hafa verið reist um árið 900 en hennar er getið í íslenskum ritheimildum. Þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkjuna og nú á sunnudag mun biskup Íslands vígja útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi.

Esjuberg

Sr. Hans Guðberg Alfreðsson prófastur Kjalarnesprófastdæmis.

„Þjóðkirkjan hefur talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar, en ekkert bólaði á framkvæmdum,“ segir Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins. „Þá fékk okkar litla sögufélag þá fáránlegu hugmynd að þetta væri verðugt verkefni fyrir félagið að halda á lofti nöfnum Kelta í íslenskri sögu,“ segir Bjarni í léttum tón í Morgunblaðinu í dag.

Og þann 21. júní s.á. mátti lesa:

Kjalarnes

Kjalarnes – útialtari; minnismerki.

“Biskup Íslands vígði á sunnudag útialtari að keltneskri fyrirmynd á Esjubergi. Sögufélagið Steini á Kjalarnesi hefur undanfarin ár staðið að því að reisa minnisvarða um kirkju sem talin er hafa verið fyrsta kristna kirkja Íslands, reist árið 900 og stóð við Esjuberg.

Kirkjunnar var getið í íslenskum ritheimildum en þrátt fyrir fornleifarannsóknir á svæðinu hafa aldrei fundist ummerki um kirkjuna, en regluleg skriðuföll úr Esjuhlíðum hafa hulið svæðið.

Eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins sagði Bjarni Sighvatsson, varaformaður félagsins, að „þjóðkirkjan hafði talað um það í áratugi að gera eitthvað þarna til að minnast þessa atburðar en ekkert hafði bólað á framkvæmdum“.”

Heimildir:
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2021/06/18/Vigt-a-sunnudaginn/
-Mbl.is Innlent | Morgunblaðið | 19.6.2021 og
Innlent | mbl | 21.6.2021 | 21:02

Esjuberg

Esjuberg – útialtarli.