Vatnsleysa

Í “Þjóðsögum um Suðurnes”, sem Hildur Harðardóttir hefur tekið saman er að finna söguna “Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu”.
Skammt sunnan við bæinn á Stóru-Vatnsleysu eru minjar af bæ, sem byggður var ofan á hálfkirkju, sem þar var. Sæmundur á Vatnsleysu staðfesti þessa frásögn þegar FERLIRsfélagar heimsóttu hann einn daginn. Gekk hann með þeim um sögusviðið:

Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir sögusviðsins – kirkjan og bærinn fyrrum.

“Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.
Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn í fyrrum grafreit við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn. Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Sögusviðið merkt með gulum hring.

Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum
þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu.
Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.
“Varð þér ekki bilt við?” spurði Guðmundur. “Ekki svo mjög,” svaraði hann.
“Maður er orðinn þessu svo vanur,” bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár.
Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu; tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.”

Heimild:
-Þjóðsögur um Suðurnes, Hildur Harðardóttir, Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu – ÞJÓÐTRÚ 171.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – fornleifaskráning.