Gengið var um Háabjalla, Snorrastaðasel og upp að Pétursborg á Huldugjárbarmi.
Ein heimild kveður á um að tóftirnar norðan stærstu tjarnarinnar hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Í elstu heimildum eru þrjár aðaltjarnir Snorrastaðatjarna nefndar Snorrastaða-Vatnagjár eða einungis Vatnagjár. Munu þær oftlega hafa gengið undir því samheiti.
Svæðið er stórbrotið dæmi um misgengi og gliðnun jarðskorpunnar á sprungurein og því einstaklega áhugavert jarðfræðifyrirbæri. Þar sem þátttakendur áðu í borginni sáu þeir hvar þrír yrðlingar léku sér neðan Huldugjárinnar, sem hún stendur upp á eins og kastali líkust. Fjárhústóftir eru sunnan hennar.
Pétursborg var fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni, bónda þar (1839-1904) og er hann sagður hafa hlaðið borgina. Hæðin er um 180 cm og snúa dyr mót suðri. Þrjár tóftir eru við borgina.
Þá var Hólsselið skoðað sem og Ólafsgjá. Í bakaleiðinni var komið við í Hrafnagjá – lengstri gjáa á Reykjanesi. Hrafnagjá er misgengissprunga með fjölbreyttum gróðri. Þar sem veggurinn er hæstur ofan við Voga er hann u.þ.b. 30 metra hár. Hrafnagjá er mjög djúp á köflum. Fjölskrúðugur gróður, s.s. burkni, blágresi og brönugrös er í og við gjána og þar verpir hrafn ár eftir ár í hæsta bergveggnum.
Veður var með eindæmum gott – sól og 18° hiti. Gangan tók 2 og 1/2 klst.
Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.