Vatnsleysuströnd

Þetta var fyrirsögn á frétt á mbl.is þann 8. desember 2004 kl 15:06. Fréttin fjallar um að þrjú hross hafi á undanförnum dögum drepist úr miltisbrandi á bænum Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd. Fyrsta hrossið drapst sl. fimmtudag, tvö á sunnudag og fjórða hrossinu á bænum hefur verið lógað. Hross í nágrenni Sjónarhóls hafa verið sett í aðhald og fylgst verður með heilsufari þeirra.

Miltisbrandur

Á nágrannabæ eru einnig fáeinar sauðkindur og hefur héraðsdýralæknir gefið fyrirmæli um að þær verði hýstar. Að sögn embættis yfirdýralæknis og sóttvarnarlæknis hefur rannsókn á blóðsýni úr hrossunum á Tilraunastöðinni að Keldum leitt í ljós að um miltisbrand er að ræða.

Bóndinn á Minna-Knarrarnesi, Birgir Þórarinsson, og eigandi hrossanna telur landbrot í landi Sjónarhóls síðastliðinn vetur líklegustu skýringuna á því hvernig miltisbrandur barst í hrossin. Að sögn Birgis er hugsanlegt að þegar land náði lengra fram hafi sýktar skepnur verið urðaðar á þessum stað en miltisbrandsgró geta lifað áratugum, jafnvel öldum saman í jarðvegi.
“Það eina sem menn vita er að sjórinn braut bakkann neðan bæjarins síðastliðinn vetur í landi Sjónarhóls og að ekkert annað jarðrask hefur verið þarna.”

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landbúnaðarráðuneytið hefur að tillögu yfirdýralæknis fyrirskipað bann við flutningi búfjár til og frá bænum, brennslu á hræunum á staðnum, auk hreinsunar og sótthreinsunar á svæðinu. Umferð fólks og dýra um svæðið er einnig takmörkuð um sinn.
Miltisbrandur er bráður og oftast banvænn bakteríusjúkdómur sem öll dýr með heitt blóð geta tekið. Hann er algengastur í grasbítum. Hann greindist síðast á Íslandi árið 1965.
Sjúkdómnum veldur, Bacillus anthracis, sem er grómyndandi baktería. Gróin geta lifað í áratugi eða jafnvel aldir í jarðvegi. Oftast kemur sjúkdómurinn upp í tengslum við jarðrask og því er sjúkdómurinn staðbundinn.

Skepnur smitast við að drekka mengað vatn, bíta mengað gras eða við að éta mengað kjöt- og beinamjöl.
Meðgöngutími sjúkdómsins er 1–3 sólarhringar, sauðfé og nautgripir drepast oft skyndilega án þess að hafa sýnt einkenni um sjúkdóm, hross drepast oftast 2- 3 dögum eftir að fyrstu einkenni sjást.
Sjúkdómurinn smitar ekki manna á milli. Þeir sem meðhöndla sýkt dýr eða afurðir sýktra dýra eru í mestri hættu á smiti og því er langalgengast að fólk smitist eftir snertingu við sýkt dýr.
Einkenni miltisbrands í fólki ráðast að nokkru af því hvernig smitið berst. Sýkillinn berst á þrjá vegu inn í líkamann: gegnum rofna húð með sýkingu í húð, gegnum meltingarveg með sýktri fæðu sem leiðir til meltingarfærasýkinga og um öndunarfæri sem veldur sýkingu í lungum. Bakterían berst í eitilvef og þaðan út í blóð. Lungnasýkingin er alvarlegasta sjúkdómsmyndin. Húðsýkingin er langalgengast sjúkdómsmyndin meðal manna en hún er jafnframt mildasta formið og leiðir til dauða í 10-20% tilvika ef hún er ekki meðhöndluð.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðir og Móakot fjær.

Í tilkynningu frá lanbúnaðarráðuneytinu segir að afar ólíklegt sé að smit verði í mönnum nema bein snerting við sýkt dýr hafi orðið. Engin hætta sé á smiti hjá einstaklingum sem átt hafa leið hjá svæðinu.
Sjórinn er smám saman að brjóta af ströndum Reykjanesskagans og draga hann til sín. Víða má sjá í gamlar hleðslur, bein og annað undan bökkum þegar ströndin er gengin.
Miltisbrandur er ein þeirra vá, sem fornleifafræðingar þurfa jafnan að gæta varfærni við þegar grafið er í fornar dysjar, kuml eða svonefnda “álagbletti” því þar er líklegt að grafið hafi verið sýkt dýr, en síðan saga verið búin til um staðinn varnaðarins vegna.

Vatnsleysuströnd

Ásláksstaðir á Vatnsleysuströnd.