Brunnar eru bæði vestan og norðan við Flekkuvíkurhúsið. Nyrðri brunnurinn er sjávarmegin við húsið. Hann er dýpri og virðist nýrri.
Hinn brunnurinn er suðaustan við húsið, í túninu nálægt gömlu heimreiðinni. Túnið er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.
Árni Óla (1961) fjallar m.a. um letursteininn á Flekkuleiði “Rúnasteinn í Flekkuvík“, í bókinni Strönd og Vogar. Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs Arnarsonar, Reykjavík, bls. 207-215.