Stapagata

Utan í sunnanverðum Stapanum að austanverðu er ferkantaður garður, nú hálffallinn. Lögð hefur verið mikil vinna í gerð hans á sínum tíma og vandað virðist hafaverið til verka. Hið skrýtna er að garðurinn hefur verið hlaðinn utan í og á holt í hlíðinni.
Atvinnubótavinnukálgarður á StapanumÞau, sem þekkja vel til á þessum slóðum, og fædd eru undir Stapanum norðanverðum, segja að um hafi verið að ræða atvinnubótavinnukálgarð. Töluverður jarðvegur hefur verið inni í garðinum, sem nú hefur horfið með uppblæstri. Svo gæti það og hafa verið að moldin hafi verið flutt í hann annarsstaðar frá og hún síðan blásið burt. Garðurinn liggur nú vel við sólu í skjóli við kletta.
Á skömmum tíma var Ísland að breytast úr bændasamfélagi í nútíma þjóðfélag, fólk streymdi úr sveitunum á mölina og fjölmenn stétt verkamanna varð til. Stórstígar framfarir urðu í sjávarútvegi með tilkomu þilskipa og síðar togara; sjávarútvegurinn var að taka við af kvikfjárræktinni sem helsti atvinnuvegur þjóðarinnar.
Á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar jókst dýrtíðin og auður færðist á fárra manna hendur, örbirgðin fór vaxandi.
Atvinnubótavinnan var aðallega á millistríðsárunum þótt hún hafi vissulega einnig verið fyrr og þá á vegum hreppanna, einkum í kringum aldarmótin 1900. Í umfjöllun sýslunefndar um þessa hreppsgarða var m.a. lagt til að þessir skikar verði keyptir af landeigendum fyrir jarðræktarstyrk úr landssjóði. Það voru horfellistímar þarna fyrir aldamótin og oft talað um hallærislán til þess að fólkið hefði ofan í sig.  Fróðlegt væri að skoða svolítið nánar þessa atvinnubótavinnukálgarða, sem ummerki eru svo víða um enn þann dag í dag.
Atvinnubótavinnukálgarður á StapanumAtvinnubótavinnan á kreppuárunum milli stóru styrjaldanna á 20. öld var til að mæta miklu atvinnuleysi er víða landlægt, ekki einungis hér á landi heldur og víða um heim. Íslendingar fóru ekki varhluta af áhrifum kreppunnar, sem m.a. komu fram í bágbornu efnahagsástandi og víða mátti greina viðnámsaðgerðir gegn þessum vágesti í þjóðlífi okkar. Atvinnuleysisvofan sótti Íslendinga heim, líkt og aðrar þjóðir, og fjöldi fólks mátti sætta sig við það böl sem atvinnuleysinu fylgdi.
Skiptar skoðanir voru um viðnámsaðgerðir stjórnvalda og komu þær einkum fram í því hvernig kveða ætti niður draug efnahagskreppu og atvinnuleysis. Ein leiðin út úr atvinnuleysinu var atvinnubótavinnan.
Einn þáttur þessarar atvinnubótavinnu fór fram í Flóanum í Árnessýslu á síðari hluta fjórða áratugarins. Þar átti að þurrka og ræsa fram landspildu í eigu ríkisins og var ætlunin að koma þar á fót samvinnubyggðum. Þeirri vinnu var snemma gefið viðurnefnið Síberíuvinnan.
Atvinnubótavinnan á kreppuárunum var að mörgu leyti lík betrunarvist þar sem ætlast var til að menn gerðu nákvæmlega ekkert annað en láta sér leiðast og brjóta svo dálítið af grjóti með sleggju þess á milli. Ýmist voru hlaðnir garðar, endurbætur gerðar á gömlum þjóðleiðum eða unnið að bryggjugerð þar sem grjót var sótt í gamla garða, vörður og önnur mannvirki, sem höfðu þjónað tilgangi sínum. Þannig má segja að meira slæmt hafi verið gert í að spilla menningarleifum en að bæta við mannvirkjum til nýtilegra hluta. Bryggjurnar voru þó undantekning þar á, þótt þær hafi kallað á mesta raskið, því þær voru nauðsynlegrar í ljós þeirrar þróunnar er orðið hafði á bátaútgerðinni. Tilkoma vélanna gerði tilkall til stærri og þyngri báta, sem ekki var lengur hægt að draga í naust.
Almennt fannst fólki atvinnubótavinnan illa skipulögð, tilgangslaus og niðurlægjandi. Til merkis um þörfina, en jafnframt niðurlæginguna, standa m.a. garðarnir víða um land, t.a.m. þessi á Stapanum.

Stapinn

Stapinn – atvinnubótagarður.