Eftirfarandi frásögn Pálma Hannessonar um hvarf Ólafs Þorleifssonar frá Miðhúsum á Vatnsleysuströnd árið 1900 birtist í Faxa árið 1968:
“Á Vatnsleysuströnd ganga hraun út í sjó, sem kunnugt er, og liggur byggðin fast með sjónum fram. Áður fyrr, meðan sjór var sóttur á opnum bátum, var þar fjölbýlt mjög og útróður mikill. Nú er þar færra um, en þó allþéttbýlt, og standa bæirnir í hverfum, samtýnis. Suður frá byggðinni heitir Strandarheiði, flatlendi mikið, er hallar hægt til norðurs, frá Fagradalsfjalli að sjó. Öll er hún hraunum hulin, en hraunin forn og víða grasi gróin eða lyngi. Fyrrum óx þar einir til mikilla muna, en hrísrif var stundað frá flestum bæjum á Ströndinni, því að lítið féll þar til af eldiviði, og eyddist þá einirinn. Vestan við Strandarheiði heitir Vogaheiði eftir Vogum (Kvíguvogum). Gjár og hraunsprungur eru víða á heiðinni. Snúa þær allar frá suðvestri til norðausturs, og hefur landið sigið um sumar þeirra. Hrafnagjá heitir sú, er næst verður byggðinni, og er hún mest. Sunnan við hana er Huldugjá, þá Klyfgjá, sú er hér hefur fengið nafn sitt, en kunnugir telja þó, að það muni stafa frá hrísflutningum þeim, er áður getur.
Sauðland er gott á Strandarheiði, og gengur fé þar úti framan af vetri, þegar tíð er góð, en vitja verður þess öðru hverju, einkum ef áfelli gerir, og er þá oft smalað til heimalanda eða húsa.
Árið 1900 bjó sá maður að Miðhúsum í Hlöðuneshverfi, er Ólafur hét Þorleifsson. Kona hans hét Valgerður Bjarnadóttir, og áttu þau tvö börn ung. Ólafur var nær fertugu, er hér var komið, fæddur 10. júlí 1861 að Austurkoti í Brunnastaðahverfi og alinn þar upp hjá móður sinni, Valgerði Guðnadóttur, er talin var merkiskona, en föður sinn missti hann árið 1896.
Laugardaginn 22. des. þetta ár bjóst Ólafur til heimanferðar til þess að leita kinda, er hann átti uppi í heiði, Vogaheiði eða Strandarheiði, og bjóst hann við að þurfa að fara allt upp að Fagradalsfjalli, en þangað er talinn þriggja stunda gangur. Lagði Ólafur af stað um dagmálabil. Var þá útsynningsstormur og éljagangur, en snjór talsverður á jörðu.
Þegar leið á daginn, harðnaði veðrið, og var þó ratljóst talið til kvölds. Uggðu menn því eigi um Ólaf, enda var hann gagnkunnugur á heiðunum og talinn mikill dugnaðarmaður. Leið svo dagurinn. En um kvöldið, er bóndi var eigi kominn, þótti sýnt, að honum hefði hlekkzt á með einhverjum hætti. Var þá sent til Teits, bónda á Hlöðunesi, bróður Ólafs, og Jóns Jónssonar Breiðfjörð, hreppstjóra á Brunnastöðum. Teitur brá við skjótt, sendi í liðsbón um alla sveitina og varð vel til manna. Næsta morgun í dögun var hafin leit með 30—40 manns, er þeir Teitur og Jón hreppstjóri stjórnuðu. Daginn áður höfðu Vogamenn verið í samalamennsku uppi á Vogaheiði. Kom það nú upp, að þeir hefðu séð til Ólafs um hádegisbil hjá Kálffelli, en svo nefndist hóll sunnanvert á heiðinni skammt frá Fagradalsfjalli. Héldu nú sumir leitarmanna þangað, en hinum var skipað í flokka, og leituðu þeir heiðarnar báðar frá bæjum suður að Fagradalsfjalli. Hjá Kálffelli fundust för Ólafs. Hafði hann setzt þar niður og skotið undir sig staf sínum til þess að blotna ekki. Síðan var slóðin rakin um sinn, en með því að Vogamenn höfðu lagt þarna leið sína sama dag, reyndist eigi unnt að halda henni til lengdar, hversu mjög sem reynt var, og höfðu þeir bræður Ólafs, Teitur og Kristinn, lagt sig mjög í líma um það. Veður var gott þenna dag, og þótti leitast vel, en allt kom það fyrir ekki. Næsta dag, sem var aðfangadagur jóla, var leitað að nýju og enn milli jóla og nýárs tvo daga í röð hið minnsta, en ekki urðu menn neins vísari að heldur um afdrif Ólafs. Hitt var af líkum ráðið, að hann hefði villzt og orðið úti, þótt undarlegt þætti. Eitthvað mun hafa verið leitað meira, einkum næsta vor, er snjóa leysti, en allt var það unnið fyrir gýg sem fyrr. Leið svo tími fram, og fyrntist smátt og smátt yfir atburði þessa, eins og gengur. Hvarf Ólafs Þorleifssonar virtist mundu verða eitt þeirra leyndarmála hins óbyggða auðnageims, sem aldrei verður uppvíst um, en hverfa óráðin í fjarska tímans.
Þannig liðu þrír áratugir. Aldamótakynslóðin týndi tölunni, og miklar breytingar urðu á högum manna, ekki sízt á Vatnsleysuströnd, þar sem hinn forni bátaútvegur lagðist niður að mestu. Þá var svo til einhvern dag á öndverðri jólaföstu árið 1930, að fé var smalað um Strandarheiði.
Að áliðnum degi voru þar þrír menn á ferð með kindahóp, er þeir ráku heim á leið. En er þeir voru komnir að Klyfgjá, vildi svo til, að þrjár kindur hrukku ofan í hraunsprungu, sem verður skammt frá aðalgjánni. Sprunga þessi er um 50 metra löng og á að gizka alin á breidd, þar sem kindurnar fóru niður, en barmar þverbrattir og ókleifir með öllu. Dagur var liðinn að kvöldi, og gátu þeir félagar ekkert að gert til þess að ná fénu að sinni. Var það því ráð þeirra, að hlaða vörðu við sprunguna. Síðan héldu þeir heim.
Daginn eftir fóru þeir félagar aftur upp að gjánni og höfðu með sér vænan kaðal og annað, er með þurfti. Einn þeirra, Rafn Símonarson frá Austurkoti, seig í sprunguna, og reyndist hún 30 metra djúp, þar sem kindurnar höfðu fallið í hana. Hafði ein þeirra rotazt, en hinar voru lifandi og náðust upp jafngóðar. En nokkrir vafningar urðu þó við þetta allt, svo að Rafni vannst tóm til að kanna sprunguna. Kemur hann þá auga á stafbrot, er stóð upp úr rifu ofarlega í sprungunni, og þykir honum augljóst, að það hljóti að vera þangað komið af mannavöldum.
Litast hann nú betur um og finnur þá annað stafbrot neðar. Rafn hafði heyrt um hvarf Ólafs Þorleifssonar og kemur nú í hug, að hér muni vera stafur hans í tvennu lagi og muni þá eigi langt að leita hinzta náttstaðar sjálfs hans. En snjór var fallinn í sprunguna, og þótti Rafni því örvænt um, fleira fyndist þar um sinn. Hirti hann því stafbrotin, og héldu þeir félagar heim við svo búið.
Í þennan tíma bjó Agúst Guðmundsson að Halakoti, fróður maður og langminnugur. Kom Rafn að máli við hann um kvöldið og spurði, hvort hann myndi eftir stafnum, sem Ólafur í Miðkoti hafði átt og haft með sér, þegar hann varð úti. Ágúst lýsti stafnum þegar, og bar lýsingunni saman við brotin, sem Rafn hafði fundið. Þótti þá sýnt, að Ólafur hefði fallið í sprunguna um kvöldið í útsynningsbylnum, verið á réttri leið og kominn miðja vegu heim frá Fagradalsfjalli. Var nú ekki meira að gert um sinn. En um vorið, þegar leyst hafði snjó úr gjám, var þar til tekið, sem fyrr var frá horfið. Fóru þá fjórir menn af Vatnsleysuströnd suður að Klyfgjá, og var Rafn Símonarson einn þeirra.
Seig hann í hraunsprunguna sem fyrr og fann þar á snös eða stalli skammt niður frá brún bein Ólafs Þorleifssonar og fötin, sem hann hafði verið í. Annar lærleggurinn var brotinn en fætur og fótleggir höfðu fallið lengra niður í sprunguna. Rafn tíndi nú saman beinin og lét þau í kassa, en þeir félagar fluttu þau síðan heim að Austurkoti. Þannig komust leifar Ólafs Þorleifssonar heim á æskuheimili hans eftir 30 ára töf. Var nú gerð lítil kista að beinunum, en að því búnu voru þau jarðsett að Kálfatjarnarkirkju. Margt var um þetta talað, eins og vænta má. Enginn veit þó með vissu, hvernig endadægur Ólafs Þorleifssonar hafi að höndum borið, nema hvað augljóst er, að hann hefur fallið í sprunguna hjá Klyfgjá. Hitt var helzt af líkum ráðið, að hann hefði ekki hrapað til botns, heldur stöðvazt á stallinum, þar sem beinin fundust, reynt síðan að vega sig upp á stafnum með því að skorða hann um sprunguna þvera, en stafurinn þá stokkið í tvennt, enda var hann ekki sterkur. Þá, fremur en í fyrri byltunni, virðist hann hafa lærbrotnað, þótt hvort tveggja sé að vísu til. En úr því að svo var komið, voru sundin lokuð, Ætla má, að Ólafur hafi þá setzt á stallinn og beðið þess, er verða vildi. Löng og dapurleg hefur sú vist að vísu orðið slösuðum manni, unz óminni dauðans kom yfir hann.
Það var haft eftir manni einum, sem var í leitinni að Ólafi árið 1900, að þeir félagar nokkrir hefðu farið fast við endann á sprungunni, en engin missmíð séð þar og ekkert heyrt, er vakti athygli þeirra. Kallað hefðu þeir þó öðru hverju. Saga þessi er skráð að mestu eftir heimildum frá Ágústi Guðmundssyni í Halakoti á Vatnsleysuströnd.” Pálmi Hannesson rektor.
Heimild:
-Faxi, 28. árg. 1968, bls. 219-221.
Ólafsvarða.