Færslur

Hellisheiði

“Það var fyrir löngu síðan, að maður einn úr austursýslunum, … lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hriíðn svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leið.

Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hanns sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.

Hellisheiði

Hellisheiði – götur.

Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan.

Hellisheiði

Hellisheiði – forna gatan.

En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni. Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.” Frásögn Sigurðar Árnasonar.

Heimild:
-Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Bieringstangi

Árni Óla fjallar um “Tanga-Hvíting” í bók sinni “Strönd og Vogar“:

Strönd og Vogar“Sú er sögn, að eitt sinn hafi komið erlent skip til Voga, seint á vetri eða að vorlagi. Var þá harðindatíð og frost mikil, svo allar fjörur voru sem klakabólstur og lagís víða með ströndum fram. Þrír menn af skipi þessu ætluðu að fara inn á Bieringstanga. Gengu þeir á skipsbátinn og reru inn eftir. En fram undan tanganum lentu þeir í lagíshröngli. Munu þeir ekki hafa verið ís vanir, enda fór svo, að bátnum hvolfdi og drukknaði einn þeirra.
Þessi maður gekk þegar aftur og gerði af sér ýmsan óskunda á tanganum og voru menn hræddir við hann. Var hann kallaður Tanga-Hvítingur, vegna þess að hann var með hvíta húfu á kolli. Mun og ekki hafa verið trútt um, að menn héldi að hann drægi að sér fleiri sjódauða menn, og að draugarnir yrði margir um skeið.
Símon Dalaskáld reri margar vertíðir syðra og mun það hafa verið veturinn 1865, eða þar um bil, að hann reri á Bieringstanga, og mun þá hafa verið á útgerð Bjama á Esjubergi. Þótti þá draugagangur þar með meira móti. Út af því orkti Símon „Rímur af Bieringsborgar-bardaga”. Þær sem til í Landsbókasafni, en þó eigi heilar, því að 14 vísur vantar framan af fyrstu rímu, en alls voru rímurnar átta. Símon gerir þar draugana að Tyrkjum, er komið hafi á flota miklum til að herja á „Bieringsborg“. En kempurnar, sem fyrir voru, lögðu til orustu við þá.
Fyrir þeim voru tveir konungar, Magnús á Lykkju á Kjalarnesi og Bjarni á Esjubergi, en hinn þriðji var hersir, Þórður Þórðarson frá Kistufelli. Þar sem og nefndir synir Magnúsar, Tómas og Eyjólfur.

Þessir höfðu mikla makt,
málma tamir sköllum.
Borgin stóð með býsna prakt
blómlegum á völlum.
Um þann tíma ekki rór
— eyddist friður blíður —
upp á ríki Strandar stór
stríddi Tyrkjalýður.

BieringstangiOrustan varð hin grimmasta og er getið margra manna, er vel gengu fram, svo sem Erlings hreppstjóra á Geitabergi, afa Ásmundar Gestssonar kennara, Halldórs frá Kollafirði, Þorsteins frá Þúfnalandi, Þórðar frá Snartarstöðum. Símon kemur þar og sjálfur við sögu. Taldi hann fyrst úr að barizt væri, en er orustan var sem mannskæðust, varð hann hræddur:

„Ekkert stendur illum fjendum mót,
föllum vér í banabað,
bölvað er að vita það.“
Síðan kastar sverði hastarlega,
og af klökkum öldujó
ofan sökk í djúpan sjó.

Bieringstangi

Bieringstangi – tóft.

Gat hann þó svamlað til lands, en vermenn unnu frægan sigur á illþýðinu.
Eigi lauk þó draugaganginum á Bieringstanga með þessu. Tanga-Hvítingur var þar enn á sveimi og gerði mönnum glettur. Vildu menn þó fegnir losna við hann. Eitt sinn skaut Gunnar bóndi í Halakoti silfurhnapp á hann, og var það talið óyggjandi, ef um venjulega drauga var að ræða. Hvíting mun og hafa brugðið illilega er hann fékk í sig silfurhnappinn, því að hann sundraðist við það í tómar eldglæringar. En svo skreið hann saman aftur og hélt uppteknum hætti allt fram um 1890. En þá hvarf hann.”

Heimild:
-Strönd og Vogar – Árni Óla, Tanga-Hvítingur, 1961, bls. 266.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Einbúi

“Einbúi er hóll austan í Digraneshálsi. Um hólinn lágu landamerki jarðanna Breiðholts, Bústaða, Digraness og Fífuhvamms. Í hólnum sjást leifar tilhöggvinna grágrýtissteina sem ætlaðir voru í undirstöður undir járnbraut sem fyrirhugað var að leggja þar sem Reykjanesbrautin liggur nú. Um var að ræða atvinnubótavinnu á kreppuárunum.

Einbúi

Einbúi.

Talið er að í hólnum hafi búið álfur eða huldumaður. Því til stuðnings er eftirfarandi frásögn frá því þegar verið var að grafa fyrir grunni á aðliggjandi lóð.
Þegar verið var að grafa fyrir húsgrunni á lóð við hólinn Einbúa var húsbyggjandinn beðinn að fara ekki nálægt hólnum. Það vildi samt svo óheppilega til að jarðýtustjórinn bakkaði að hólnum en í því draps á vélinni. Það var sama hvað hann reyndi, ýtan vildi ekki í gang aftur og var flutt á verkstæði. Þar varð þó ekkert um viðgerðir því ýtan rauk í gang í fyrstu tilraun.”

Einbúi

Einbúi.

Vatnsleysa

Í “Þjóðsögum um Suðurnes”, sem Hildur Harðardóttir hefur tekið saman er að finna söguna “Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu”.
Skammt sunnan við bæinn á Stóru-Vatnsleysu eru minjar af bæ, sem byggður var ofan á hálfkirkju, sem þar var. Sæmundur á Vatnsleysu staðfesti þessa frásögn þegar FERLIRsfélagar heimsóttu hann einn daginn. Gekk hann með þeim um sögusviðið:

Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu

Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Tóftir sögusviðsins – kirkjan og bærinn fyrrum.

“Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.
Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinn í fyrrum grafreit við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn. Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa. Sögusviðið merkt með gulum hring.

Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum
þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu.
Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.
“Varð þér ekki bilt við?” spurði Guðmundur. “Ekki svo mjög,” svaraði hann.
“Maður er orðinn þessu svo vanur,” bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár.
Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu; tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.”

Heimild:
-Þjóðsögur um Suðurnes, Hildur Harðardóttir, Draugagangur á Stóru-Vatnsleysu – ÞJÓÐTRÚ 171.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – fornleifaskráning.

 

Festarfjall

Í Faxa 1985 fjallar Ingvar Agnarsson um Festarfjall:

I
Útlit og myndun
Festarfjall
Lóðrétt rís Festarfjall upp frá flæðarmáli, þar sem öldur úthafsins brotna á ströndinni og skella á klettum fjallsins í fjöruborði og mynda sumstaðar hella og skúta.
Þetta sífellda gnauð hafsins við rætur fjallsins veldur því, að stöðugt hrynur úr því, og allt það efni sem niður hrynur, hreinsar hafið burt úr fjörunni og ber með sér út í djúpið, þar sem lygnara er. Skemmtilegt er að virða fyrir sér þetta stórbrotna fjall, skoða lögun þess og línur og reyna að gera sér nokkra grein fyrir myndunarsögu þess. Við sjáum í raun inn í miðju þessa fjalls, því eitt sinn var það miklu meira um sig. En sjórinn hefur mulið niður allan suðurhelming þess svo nú sjáum við þversnið af fjallinu allt frá tindi þess, sem er 193 m hár og niður að sjó. Og hér gefur á að líta: Fjallið er að mestu leyti móbergsfjall, og þá sennilega myndað við eldgos undir jökli. En ekki er hér um eindregna móbergsmyndun að ræða. Sýnist mér, að skipta megi myndun fjallsins í nokkra hluta eða þætti.
Festarfjall
Fyrst er þykkur móbergsstabbi frá sjó og upp undir þriðjung af hæð fjallsins, en þar gengur blágrýtislag lárétt frá austri og næstum þvert í gegnum fjallið, en endar þar snögglega við breiða gjá er gengur upp fjallið. Vantar aðeins spölkorn á, að það nái út úr því að vestanverðu. Undir þessu blágrýtislagi er lag af rauðri eldfjallaösku eða gjalli. Þetta hraunlag hlýtur að hafa runnið á hlýskeiði, og sennilega eftir að jökull hefur sorfið ofan af upphaflegri móbergsmyndun fjallsins, svo að það hefur verið orðið allt að því lárétt, a.m.k. á þessum kafla sem hraunlagið hefur runnið yfir. En þessi hluti móbergsins undir blágrýtislaginu er hluti af miklu víðáttumeira móbergssvæði, bæði austan og vestan við Festarfjall. Á einum stað gengur berggangur sem kallast Festi lóðrétt upp í gegnum móbergsstabbann frá fjöru og endar uppi við blágrýtislagið. Þessi gangur er um 1—1,5 m þykkur og er myndaður úr þunnum lóðréttum flögum, en ystu flögurnar, þær er snerta móbergsveggina beggja vegna eru þó dálítið stuðlaðar lárétt.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur Íslands, í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli. Uppgötvaði m.a. berggang Lyngfells í ferðinni.

Eftir myndun þessa hraunlags í neðri hluta fjallsins hafa jöklar aftur fært hér allt í kaf og á því ísaldarskeiði, líklega því síðasta, hefur svo aftur farið að gjósa á svipuðum slóðum og fyrra skiptið, og nú undir þessum nýja jökulskildi. Og hér hefur hlaðist upp móbergsfjall ofan á blágrýtislaginu og eldra móberginu, sem undir því liggur. Nú verður þessi nýi móbergsstabbi svo hár að hann nær alla leið upp úr jöklinum. Og eftir það getur hraunið, sem vellur upp úr gígnum, runnið óhindrað án þess að breytast í móberg í köldu jökulvatninu. Hin hraða kólnun gosefnanna á sér ekki lengur stað. Og blágrýtishetta myndast efst á þessu fjalli, sem nú hefur skotið kryppunni upp úr hinum mikla frera, tindur Festarfjalls ber þessu vitni enn í dag. Því efsti hluti fjallsins, sem reyndar er lítill um sig, er þakinn blágrýtishellu í nokkrum goslögum þó og undir henni er allþykkt lag af rauðu gjalli eða eldfjallaösku. Hér mun vera um svokallaða stapamyndun að ræða, en skv. kenningum Guðmundar Kjartanssonar, jarðfræðings, eru slík fjöll mynduð undir jökli (eða í vatni), nema efsti hlutinn, sem upp úr hefur komið.

Festarfjall

Festarfjall og nágrenni – loftmynd.

Nefna mætti ýmis stapafjöll, eins og t.d. Hrútfell, Herðubreið, Hrafnbjörg, Eiríksjökul og m.fl. sem talin eru mynduð undir jökli og Surtsey sem nýlega myndaðist í sjó.
Ef þessi tilgáta mín er rétt, um myndun Festarfjalls, þá er hér um að ræða eitt af þessum merkilegu fjöllum, sem myndast hafa á þennan sérstaka hátt, og sem svo mjög einkenna landslag á Íslandi.
Og ef Festarfjall hefur hlaðist upp í tveim aðaláföngum á tveim ísaldarskeiðum eins og hér var gert ráð fyrir þá mun hér vera um nokkra sérstöðu að ræða meðal íslenskra stapafjalla.

II.
Fjara og brim undir Festarfjalli

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Skemmtilegt er að koma í fjöruna undir Festarfjalli, þegar sól skín í heiði, enda eru margir farnir að leggja þangað leið sína á góðviðrisdögum á sumrum. Hjón koma þarna með börn sín, sem hlaupa glöð um sandinn. Og séð hef ég fólk steikja kjöt á grilltækjum sínum og nokkrar fjölskyldur safnast saman og halda einskonar útihátíð þarna undir gnæfandi björgunum, sem enduróma af undirleik öldunnar, þar sem hún freyðir við sandinn og leikur sér við að væta litla fætur, sem fara í eltingarleik við hana. En sá leikur er auðvitað ekki hættulaus og betra að gæta varúðar; í norðanátt er þarna ávallt logn, en nær aldrei mun vera bárulaust með öllu, og stundum duna öldurnar við ströndina með miklum gný, þótt logn sé um allan sjó. Þarna mætist hrikalegt landslag og stórbrotnar haföldur, og hefur landið orðið að láta undan síga í þeim átökum. Staðhættir allir bera þess ljós merki.

Festarfjall

Festarfjall – brim.

Ekki er hættulaust að ganga undir þessum hrikabjörgum. Varð ég vitni að því eitt sinn, er ég var þarna staddur, ásamt mörgu öðru fólki, að stórgrýtisskriða hrundi úr björgunum nálægt Festi, ganginum sem áður var lýst, og dreifðist um allstórt svæði í fjörunni með miklum gný. Rétt áður var þarna fólk á ferli, hjón frá Keflavík. Þau heyrðu drunur rétt fyrir aftan sig og varð heldur en ekki hverft við. Þarna munaði litlu að stórslys yrði.
Ekki veit ég hvort svona skriðuföll gerast oft. Helst mundi það vera í rigningu, því bergið er nokkuð laust í sér. En einnig er hér talsvert af sjófugli í klettunum og kunna þeir að koma grjóthruni af stað.

III.
Nauðsyn undirstöðuþekkingar í jarðfræði

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellir.

Þegar ferðast er um byggðir og óbyggðir landsins, er nauðsynlegt að þekkja helstu örnefni og setja á sig helstu útlitseinkenni og legu hins fjölbreytta landslags á hverjum stað. Þar er um að ræða aðalatriði landafræðinnar. Ekki er síður áhugavert, að kynna sér þá þætti landsins, sem tilheyra jarðfræðinni, myndun og þróunarsögu landslagsins á hverjum stað.
Í barnaskólum er snemma byrjað á að kenna landafræði, og er það vel. En ekki er síður mikilvægt að kunna nokkur skil á jarðfræðilegum atriðum. Þegar ferðast er um landið, mundi það mjög auka á ánægju hvers og eins að geta skoðað og hugleitt það sem fyrir augu ber, út frá jarðfræðilegum skilningi, og þeirri þekkingu sem þegar er fyrir hendi í þeirri grein, en þar hefur orðið um miklar framfarir að ræða, allt frá síðustu aldamótum. Kennslu um helstu atriði jarðfræðinnar þyrfti að taka upp í öllum skólum, miklu fyrr en nú er gert.” – IA

Í Lesbók Morgunblaðsins 06.11.1949 er í “Fjaðrafoki” vitnað í lýsingu Jóns Trausta á Fagradalsfjalli:

Festarfjall – nafnið

Festarfjall

Festarfjall – málverk.

“Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur.
Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum.
Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.” – (Jón Trausti).

Í Rauðskinnu er sagan af festinni í Festarfjalli:

Festarfjall – þjóðsagan

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

“Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.” – Rauðskinna I 45

Heimildir:
-Faxi, 6. tbl. 01.08.1985, Festarfjall – Ingvar Agnarsson, bls. 260 og 276.
-Lesbók Morgunblaðsins, 41. tbl. 06.11.1949, Fjarðrafok, bls. 508.
-Rauðskinna I 45.

Festarfjall

Festarfjall – sjávarhellar.

Gunnuhver

Í “Íslenskar þjóðsögur og ævintýri” Jóns Árnasonar, sem bókaútgáfan Þjóðsaga gaf út 1954 eru fjórar sögur um Gunnuhver á Reykjanesi:

Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur Jónsson lögréttumaður bjó á Kirkjubóli á Rosmhvalanesi; hann dó 1706. Hann átti illt útistandandu við kerlingu eina sem hét Guðrún Önundardóttir, út af potti sem hann átti að hafa tekið af henni, líklega upp í skuld. Kerling tók sér það svo nærri að hún heitaðist við Vilhjálm.
Þegar hún var grafin var Vilhjálmur þar við, en leið hans lá um Skagagnn sem kallaður er fyrir utan Útskála. Hann fór heimleiðis um kvöldið, en fannst daginn eftir dauður á Skagagnum og var þá allur blár og beinbrotinn. Lík hans var flutt í bænhúsið á Kirkjubóli og Gísli prestur á Útskálum fenginn til að vaka yfir því á næturnar, því allir þóktust vita að Gunna hafði drepið hann og væri nú afturgeingin. Þóktist prestur eiga fullt í fangi að verja líkið fyrir kerlingu að ei drægi hún það úr höndum sér. Afturgangan magnaðist síðan mjög og nú dó ekkja Vilhjálms snögglega; var Gunnu það kennt. Fólk sem fór um Skagann villtist sumt, en sumt varð vitstola. Varð allt af völdum Guðrúnar og sáu menn nú óvætt þenna fullum sjónum. Gjörði þá Gunna skaða mikinn svo ekki var viðvært mönnum né málleysingjum.
Þegar í slíkt óefni var komið og enginn gat stemmt stigu fyrir afturgöngunni, þá voru tveir menn nokkuð kunnandi sendir til fundar við séra Eirík á Vogsósum til að biðja hann hjálpar. En með því prestur var ekki altént vanur að taka slíkum málum greiðlega, þá voru þeir látnir færa honum nokkuð af brennivíni, því allir vissu að honum þókti það gott. Sendimenn fóru nú á fund Eiríks prests og gjörðu allt eins og og fyrir þá var lagt. Tók hann þeim vel, en þegar þeir fóru á stað aftur fékk hann þeim hnoða og sagði að þeir skyldu láta Gunnu taka í lausa endann á hnoðinu. Sagði hann að hnoðað mundi þá sjálft velta þangað sem hún ætti vera að ósekju. Sneru sendimenn heim við þetta og gjörðu allt sem prestur hafði fyrir þá lagt. En undireins og Gunna hafði tekið í lausa endann á hnoðinu valt það afs tað, en hún fór á eftir. Sást það seinast til hvort tveggja, hnoðað og Gunna, steyptist ofan í hver þann suður á Reykjanesi sem síðan er kallaður Gunnuhver. Hefir síðan ekki orðið meint af afturgöngu Gunnu.
Sumir segja að hnoðað færi ofan í hverinn, en Gunna héldi í endann; var endinn svo langur að gunna gat staðið hálfbogin uppi á hverabarminum og trítlar hún þannig eintatt til og frá kringum hverinn á blábrúninni hálfborgin, því hún vill fyrir hvern mun síst fara ofan í vilpu þessa.

Guðrún Önundardóttir

Gunnuhver

Gunnuhver.

Vilhjálmur bjó á Kirkjubóli í Kirkjubólshverfi í Útskálasókn og Snjálaug kona hans. Landseti þeirra var bóndi í Sandhólakoti (nafn hans hefi ég ekki heyrt) og hét kona hans Guðrún Önundardóttir. Þau voru svo fátæk að þau áttu ekkert í landskuldina. Því tók Vilhjálmur pott upp í hana, þann eina sem þau áttu. Þessu varð Gunna Önundardóttir næsta reið, en vann ekkert á, gekk heim að Kirkjubóli og lagðist þar niður á bekk í dyrunum ma´llaus af reiði. Snjálaug færði henni messuvín. Hún saup á og spýtti síðan framan í Snjálaugu. Síðan dó kerling og var smíðað utan um hana. Líkmenn báru kistuna á öxlunum eins og þar var þá siður; stundum var hún svo létt sem ekkert væri í henni, en stundum svo þung að þeir roguðu henni varla. Hún var flutt að útskálum og jarðsungin fyrir norðan kirkjuna. En á meðan verið var að moldausa hana sáu þeir sem skyggnir voru hvar hún var milli húsanna og hjá þangkestinum uppi á garði. Erfið eftir hana var haldið á Lambastöðum. Var Vilhjálmi boðið að fylgja honum suður yfir Skagann, en hann vildi ekki. Vilhjálmur var talinn vel tveggja maka maður. Um morguninn eftir fannst hann örendur þar á skaganum beinbrotinn og illa út leikinn.
Eftir þetta var Gunna á gangi þar á Skaganum og um hverfið og villti menn, en gerði ekkert annað til meins. Þá var síra Eiríkur á Vogsósum; var honum sagt af þessu og beðinn úrræða. Hann sendi vinnumann sinn suður og fekk honum hvítan trefil og bað hann rétta Gunnu annan enda; mundi hann hitta hana í bæjardyrunum í Hofi; skyldi hann passa að vera hennar á milli og veggsins svo hún kæmist ekki út um vegginn. Maðurinn fór og hitti hana þar sem síra Eiríkur sagði. En er hún tók í trefilinn rak hún upp hljóð mikið. Teymdi hann hana fram á Reykjanes – að fyrirsögn Eiríks – og að hver einum og sleppti henni þar,og gekk hún þar í kringum hann og sögðu menn hún hefði fallið ofan í hverinn; og er sá hver síðan kallaður Gunnuhver. – Tveir eru hverirnir og er annar stærri en annar; greinir menn á um það hver hverinn það er.

Reykjanes-Gunna

Gunnuhver

Gunnuhver.

Kona hét Guðrún, nú almennt nefnd Gunna. Hún var ill í skapi og óvinsæl svo enginn vildi hafa hana nærri sér. Því bjó hún í einhýsi á Reykjanesi þar sem heitir í Grænutóft. Böndi í Höfnum hafði léð henni pott einn vetur og fór um vorið að sækja hann. Gunna skammyrti bónda, en slepti ekki pottinum og fór bóndi heim svo búinn. Hann þurfti þó á pottinum að halda því enginn gat léð honum pott og fór hann þá aftur til Gunnu, en áður en hann fór bað hann menn að vitja sín ef hann yri lengi. Því var lofað. Bóndi kom ekki heim um kvöldið og var hans leitað um morguninn eftir og fundu hann ekki. Þeir komu að Grænutóft og lá Gunna í bæli sínu og var dauð, helblá og uppblásin. Þeir vöfðu hana rekkjuvoðum og létu hana liggja og fóru aftur. Á heimléiðinni fundu þeir bónda skammt frá veginum drepinn og sundurrifinn. Þar var hjá honum potturinn mölbrotinn. Þeir fluttu lík bónda heim og var hann jarðaður. Kista var smíðuð um Gunnu og var hún flutt í henni frá Grænutóft til Kirkjuvogs, en á leiðinni þóttust sumir sjá hana dansa fyrir líkfylgdinni. Nú var kistan grafin, en Gunna gekk um allt eins og grár köttur og var engu óhætt fyrir henni. Þá var sent til Eiríks prests á Vogsósum og fékk hann sendimanni trefil og bað hann færa Gunnu og segja henni að þvætta hann. Sendimaður fer og færir Gunnu trefilinn og segir um leið og hann fleygði honum í hana: “Þetta áttu að þvætta”. “Hvur segir það?”, segir Gunna. “Eiríkur á Vogsósum,” segir maðurinn. Henni brá við og sagði: “Ekki var von á verra.” Hún fór strax af stað og að hvernum á Reykjanesi og kastaði enda trefilsins í hann, og varð hann fastur í hvernum, en hinum gat hún ekki sleppt og genur síðan kringum hverinn og er nú búin að ganga sig upp að knjám, segja menn. Nú á dögum er hverinn kallaður Gunnuhver.

Önundar-Gunnar

Gunnuhver

Gunnuhver.

Guðrún hefur kona heitið og mun hafa verið ekkja er þessi frásaga gjörðist. Hún mun hafa búið einhvörsstaðar suður með sjó, í Garðinum eða þar nálægt. Kort hét maður er búið hefur einhvörstaðar þar á Suðurnesjum; hann átti jörðina sem Guðrún bjó á. Guðrún var heldur fátæk en rík og þó ekki betri til útláta en efna. kort var maður örlyndur og frjálslegur, nokkuð harður í lund, en fékk þó fremur gott orð. En Guðrún var almennt kölluð skaphörð og mjög óvinsæl. Svo var sagt að hún hafi verið almennt nefnd Önundar-Gunna (en af hvaða Önundi hún hafi tekið það nafn eða hvört það hefur verið maður hennar vita menn ekki) og með því nafni var hún alþekkt. Svo fóru skipti þeirra Korst og Önundar-Gunnu að hún galt ekki með skilum eftir ábúðarjörð sína, en Kort þoldi það illa og svo kom loks að Kort tók með kappi jarðargjald sitt. Eitthvört sinn tók hann pott af Gunnu, en hún vildi ekki láta hann lausan, en þó er þess ekki getið að hún hafi viljað láta annað af heni í hans stað; því tók Kort pottinn hvað sem Gunna sagði. En það fékk henni svo mikils að það dró henni snögglega til dauða.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Svo er sagt að þegar gunna var grafin þá hafi hún sést á gangi og verið að gægjast fram úr húsasundunum, og hafi hún þá ávarpað þá sem voru að taka gröfina með þessum orðum: “Ekki þarf djúpt að grafa því ekki á lengi að liggja”. Efrisdrykkja skal hafa verið haldin eftir Gunnu og er svo sgat að Kort hafi verið einn meða borðsgesta, en er fólk fór að fara vildu menn að Kort færi ekki einn, því menn hugðu Gunna mundi vilja vitja hans og er þess þó getið að Kort hafi verið hið mesta karlmenni. Varð þá Kort samferða einhvörjum boðsmanni þar til hann átti allskammt heim til sín; var þá komin dimma og bauð maðurinn honum að fylgja honum alla leiðina heim, en Kort vildi ekki. Kort kom eigi heim um nóttina, en að morgni var hans leitað. Sáust þá augljós merki til að Gunna hafi hott hann þegar maðurinn var nýskilinn við hann. En það þóktust menn sjá að þau höfðu glímt fjarska lengi og loks fannst kort dauður og mjög illa útleikinn.
Eftir þetta gerði Gunna ýmsar óspektir svo eigi leið á löngu að maður var sendur til séra Eiríks á Vogsósum og skyldi hann biðja prest að sjá fyrir Gunnu. Prestur tók því vel og kvað nauðsyn til að bera að ráða bót á slíku. Bað hann þá sendimann bíða litla stund, fór inn og kom innan skamms aftur; fékk hann þá sendimanni hvítan trefil langan og var pappírsmiði festur á annan endann. Sagði prestur svo fyrir að maðurinn skyldi rétta seðilinn að Gunnu; kvað hann Gunnu mundu við honum taka og skyldi hann síðan teyma hana á treflinum að hver þeim sér á Reykjanesi og sleppa þar. Kvað hann eigi mundi meira við þurfa. Síðan fór sendimaður, fékk sér menn til fylgdar, færði Gunnu seðilinn og tók hún strax við, en mælti um leið og hún leit á: “Á helvíti átti ég von, en ekki þessu.” Var hún síðan leidd þangað sem ákveðið var; varð hún þar eftir æpandi og stökk einart kringum hverinn, dró eftir sér trefilinn, en hélt á seðlinum og komst aldrei burt þaðan, og þóktust margir menn sjá hana þannig á hlaupum kringum hverinn lengi síðar og sumur bættu því við að hún væri búin að ganga sig upp að knjánum.

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, 3. bindi 1955, safnað hefur Jón Árnason III, nýtt safn; Bókaútgáfan Þjóðsaga 1954, bls. 508-510.

Gunnuhver

Gunnuhver.