Úlfarsfell

Á skilti við gamla bílastæðið þar sem göngustígurinn liggur upp á Úlfarsfell er eftirfarandi texti:

Úlfarsfell

Úlfarsfell – skilti.

“Úlfarsfell er vinsælt og aðgengilegt útivistarsvæði.
Höldum okkur á gönguleiðum og hlífum gróðri við óþarfa ágangi. Megin gönguleiðir að sunnanverðu eru frá bílastæðum við Úlfarsfellsveg.
Uppruni örnefnisins Úlfarsfell er ekki ljós en líkum hefur verið leitt að því að fellið og Úlfarsá séu kennd við Korpúlf sem bjó á Korpúlfsstöðum. Berggrunnur fellsins er frá miðbiki ísaldar, um tveggja milljóna ára gamalt berg og skiptast á hraunsyrpur sem myndast hafa á hlýskeiðum og móbergs- og jökulbergslög frá jökulskeiðum. Ekki er mikill gróður á efri hluta fellsins en í Hamrahlíð er gróskumikið skógræktarsvæði, graslendi og allstórar breiður af lúpínu.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – gönguhópur á fellinu.

Úlfarsfell mælist á Stórahnúki 295 metra hátt. Vestan í Úlfarsfelli er Hamrahlíð, þverhnípt klettabelti, sem er eitt af kennileitum þess svæðis. Þar fyrir ofan er Hákonn, útsýnisstaður í 280 metra hæð yfir sjávarmáli með útsýni til norðurs, vesturs og suðurs.
Fisfélag Reykjavíkur nýtir sér aðstæður á Úlfarsfelli til flugs sem eru góðar þrátt fyrir litla hæð.
Vegslóði liggur að Hákinn og er hann einungis fær fjórhjóladrifnum bílum. Að gefnu tilefni er vakin athygli á að akstur utan vega er með öllu bannaður á Úlfarsfelli og gildir bannið um öll vélknúin ökutæki einnig í snjó og á frosinni jörð”.

Úlfarsfell

Úlfarsfell – kort.

Úlfarsfell er fjall sem staðsett er í Mosfellssveit og er það 296 metra hátt. Skógrækt hefur verið í hlíðum fjallsins og hefur Skógræktarfélag Mosfellsbæjar umsjón með ræktuninni,

Úlfarsfell í Mosfellssveit kemur hvorki fyrir í Landnámabók né fornsögum eða annálum, en Úlfarsá er nefnd í Landnámabók. Úlfarsfell er nefnt í fornu skjali, Hítardalsbók frá 1367 (Íslenskt fornbréfasafn II, 220), og í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1704 (III, 310). Nafnið er vafalítið dregið af mannsnafninu Úlfar, samanber Úlfarsá, en fjórir eru nefndir með því nafni í Landnámu.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58078

Úlfarsfell

Úlfarsfell – útsýni.