Ingólfur

Eftirfarandi frásögn um sjósókn í Reykjavík birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1991:
“Ósagt skal látið hvernig skipakostur var til sóknar við Flóann á Þjóðveldisöld, þegar bændur voru öflugir og gátu efnt til stærri skipa en á svörtu öldinni, sem heimildir ná til. Litlar heimildir eru um sjósókn úr Reykjavík fyrri alda, sem var spildan frá Rauðará að austan út að Eiðisgranda (Seli) að vestan, en vitað að hún var samskonar og sókn Kjalnesinga og Hafnfirðinga sem traustar heimildir eru til um. Það var sótt frá þessum stöðum, og eins Laugarnesi og eyjunum við Reykjavík á smáfleytum, mest eins til tveggja manna förum, á grynnstu mið, við innanverðan Faxaflóa. Ekki er það umdeilanlegt að sjósókn hefst hérlendis frá Reykjavík.
sjo-9Ingólfur Arnarson, svo sem aðrir landnámsmenn, varð að lifa með sitt fólk af fiskveiðum meðan hann var að koma upp bústofni. Landnámsmenn gátu ekki haft með sér hingað út kvikfénað sér til lifibrauðs, fyrr en sá litli kvikfénaður, sem þeir hafa getað flutt með sér tók að fjölga sér.
Fyrsta verk Ingólfs hefur verið að senda þræla sína á sjó á eftirbátnum, en svo hétu þeir bátar, sem landsmenn drógu með sér, en einnig höfðu þeir léttbát, litla skektu, sem þeir höfðu um borð til að skjóta út. En þótt svo sé að fyrst hefjist sjósókn hérlendis í Reykjavík þá er sem að ofan segir hljótt um Reykjavík í fyrri alda sjósóknarsögu og ber margt til þess.

Reykjavík

Reykjavík 1789.

Um aldir verður enginn stórbóndi í Reykjavík sjálfri, það er strandlengjunni sjálfri meðfram víkinni, Rauðará – Eiðisgrandi, nema þá Víkurbóndinn á bæ Ingólfs í Grjótanum, aðrir bændur hafa búið kotabúskap, fáliðaðir og efnalitlir til stórrar útgerðar, og þeirra fangaráð var að nýta innmiðin á þeim fleytum, sem þeir gátu efnað til. Byggð var strjál og fámenn, 100 til 150 manns á svæðinu Rauðará – Sel og Lækurinn klofið byggðina, en hann hefur verið stór og illfær fyrrum, og það getað gert mönnum óhægt með að róa í samlögum og manna sexæringa, enda kærðu innmiðamenn sig ekki um stóra báta. Sú var trú manna að eitt eða tvö færi á borð væru fengsælli í slítingsfiski á grunnslóð en mörg færi á borð.

Reykjavík

Reykjavík 1836.

Þegar Reykjavík varð verzlunarstaður á 17. öld og síðan iðnaðar á 18. öld, dró þetta hvorttveggja náttúrlega úr sjósókn, kotbændur og þurrabúðarmenn hafa leitað í pakkhús- og eyrarvinnu við höfnina og síðan iðnaðarvinnu við Innréttingarnar.
Allt fram til 1870 eða þar um bil var útgerð Björns í Brekkukoti dæmigerð reykvísk útgerð á árabátaöldinni. Þeirri útgerð er lýst í Ferðabók Eggerts og Bjarna og einnig í bók Horrebows. Menn reru frá Kjalarnesi og „í Reykjavík á ströndinni inná móts við Viðey í Laugarnes og Engey sækja menn sjó allt árið á smábátum.” Mest var róið í tveggja manna förum en „hinir stærstu eru fjögra manna för en eins manns för þeir minnstu.”

Reykjavík 1911

Reykjavík um 1780.

Á útnesjum, þar sem verstöðvar mynduðust reru menn stærri bátum. Reykjavík var aldrei verstöð á áraskipaöldinni. Þangað komu menn ekki með báta sína til veiða né reistu verbúðir, og aðrir staðir geta ekki með réttu nafni kallazt verstöðvar. Það hefur alltaf komið eitthvað af aðkomumönnum úr nærsveitunum til vorróðra í Reykjavík, þótt fleytur væru smáar, en sóknin verið frá heimabæjunum og Reykjavík alltaf á árabátatímanum verið heimver, og þar hvorki verbátar né verbúðir. Á Seltjarnarnesi aftur á móti reru menn snemma úr veri og þar náðist snemma að myndast útvegsbændastétt, sem sótti útá Svið á sexæringum. Sá var munurinn þar á fyrir Reykvíkingum og Seltyrningum, að það var þriggja kortera róður úr vörum í Reykjavík, út á móts við yztu varir á nesinu.
reykjavik 874Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir að allt gildi hið sama um útgerð Reykvíkinga sem Kjalnesinga: „Á Kjalarnesi var sjór sóttur allt árið. Bátar eru hér litlir. Hinir stærstu eru fjagra manna för, en eins manns för hinir minnstu,” og segla og reiðabúnaði og sjósókn er lýst svo, og gildir sú lýsing einnig um reykvísku sjósóknina. „Segl Kjalnesinga eru úr þunnum, fíngerðum ullardúk, sem ofin er með líkum hætti og léreft. Dúkur þessi kallast einskefta og notar bændafólk hana í skyrtur. Aðeins eitt segl er á hverjum bát, og er það haft fjórðungi mjórra að ofan en neðan. Siglutréin eru misjafnlega löng, en venjulegast er, að þau séu 2Á af bátslengdinni. Í siglutoppinum er lítið hjól. Á því leikur strengur til þess að reisa og fella seglið. Siglan er fest í eina af fremstu þóftunum og bundið með taugum í framstafn og til hliðanna. Stýrið er fest á tvo króka, efst á því er þverfjöl sem stjórntaumarnir eru festir í. Þeir eru notaðir hér í stað stýrissveifar. Í akkerisstað nota menn kollóttan, harðan stein, og er gat í gegn um hann. Í gatið er rekið þvertré, sem taugin er bundið við og festir útbúnað þennan í botninn.

Reykjavík

Reykjavík fyrrum.

Þegar róið er til fiskjar, verður hver maður af skipshöfninni að hafa færi, öngul, beitu og hníf, sem kallast sax, og auk þess að vera sjóklæddur. Allir veiða á handfæri eftir beztu getu, en að loknum róðri er aflanum skipt í jafna hluti, því að annars gæti orðið of mikill munur á afla eftir heppni manna. Bátseigandinn fær einn hlut aflans, þótt hann rói ekki með.
Aðallega veiða menn þorsk, sem er algengasti fiskurinn, en auk hans veiða menn líka flyðrur, skötur og smávaxna háfa. Flyðran er úrvals matfiskur, en hinir eru einkum veiddir vegna lifrarinnar, en úr henni fæst sérlega gott lýsi. Á haustin og framan af vetri veiða menn smálúður á þar til gerða öngla. Þeir eru festir tveir og tveir á þvertein úr járni. Lúðuveiði þessi er eingöngu nærri landi, sjaldan fjær en áttung úr mílu.

Reykjavík

Reykjavík 1847.

Tittlingur, eða réttara sagt þyrkslingur, er smáþorskur. Rauði þyrsklingurinn kallast þarafiskur, af því að hann dvelst á þarabotni. Hann er oft hárauður á lit með rauðum dröfnum á kviðnum. Þetta eru einungis tilbrigði frá aðaltegundinni, þorskinum.
Á Kjalarnesi eru fiskveiðarnar auðveldari en annars staðar á Suðurlandi.” Og Horrebow segir: „Svo má heita að smábátar séu einungis í Gullbringusýslu og við Hvalfjörð. Víðast hvar á landinu eru þeir stærri og er þeim róið af 4-6 og 8-20 mönnum.” Þessar heimildir eiga hvor tveggja við 18. öldina og eru eflaust dæmi um sjósóknina í þessum byggðum um aldirnar.
Þegar kom fram um 1870 tók að færast mikið líf á árabátasóknina í Reykjavík á almennt stærri bátum, sexæringum og áttæringum og Reykvíkingar fóru að sækja á útmiðin.
sjo-10Saltfiskverkun var farin að stóraukast, en skreiðaverkun að dragast saman, og stórfiskur varð verðmætari í salt en minni fiskur. Verzlanir tóku að heimta stærri fisk til útflutnings. Upp risu í Reykjavík vestan Læks öflugir útvegsbændur í Grjótanum og á Hlíðarhúsatorfunni og vestur að Eiðisgranda, og þeir tóku að sækja á sexæringum og áttæringum útá Svið og liggja við í Garði og Leiru líkt og Seltirningar og Álftnesingar og Garðhverfingar og Hafnfirðingar. Það var mikill kraftur í þessum útvegsmönnum í Reykjavík og þróttur í árabátasókninni. Róið var í hverri vör frá Bryggjuhúsi, þar sem nú er Vesturgata 2, og vestur að Eiðisgranda, Austasta vörin, sú fram af Bryggjuhúsinu, Grófarvörin, var stærst varanna, en hana nýttu útvegsbændur í Grjótanum, Grandabótin var vestast.

Reykjavík

Reykjavík 1787 – Lievog.

Nú sést ekkert orðið af þessum vörum, sem Ágúst Jósefsson telur upp í ævisögu sinni. Austan Læks voru áfram aðallega smáfleytur og róið af því svæði almennt sem fyrr á innmiðin.
Bönn við netalögnum á tilteknum slóðum voru í gangi mishörð allt frá 1772 sem fyrr á innmiðin. Þeir, sem sóttu á grynnstu mið við Ströndina töldu netalagnir Útnesjamanna hamla göngu fisks á sín mið, og voru Hafnfirðingar, Vatnsleysustrandar- og Vogamenn harðastir grunnslóðarmanna.
Árið 1874 var bannað að leggja net í sunnanverðan Flóann fyrir 14. marz, utan línu dregin úr Hólmsbergi við Keflavík í Keilisnes, og 1885 náði bannið til 14. apríl. Við þetta misstu þeir, sem sóttu í Garðsjó að stórum hluta af vetrargöngunni á þau mið. Reykvíkingar eins og aðrir Innnesjamenn fóru ekki varhluta af þessu banni og varð af styrjöld og harðvítugust 1886.

Reykjavík 1786

Reykjavík 1786.

Uppúr 1890 hófust aflaleysisár við Faxaflóa og 1895 komu ensku togararnir til veiða í Flóann og allt þetta þrennt dró úr árabótasókn sjávarstaða við innanverðan Faxaflóa. Þá var og kominn hugur í marga að efla þilskipaútgerð, sem í gang var komin. í Hafnarfirði og Reykjavík og Seltjarnarnesi tók við ný gerð þilskipa — kútterar.
Árabátaútvegur helzt áfram víða um land í verstöðvum, sem lágu vel við árabátamiðum, þar til vélbátar leystu þá útgerð af hólmi. Allt fram um 1906 var árabátaafli landsmanna tvöfalt meiri en þilskipanna, enda voru árabátar í landinu jafnan um 2000 allt til 1905 og 8-9 þúsund manna í þeirri útgerð.”

Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 54. árg. 1991, 1. tbl., bls. 10-15.

Aðalstræti

Skálar í Aðalstræti.