Ármúli

Á bak við Ármúla 32 í Reykjavík skagar óraskað holtasvæði inn á malbikað bílastæði þrátt fyrir að bæði er full þörf fyrir svæðið undir bílastæðið og ekki er að sjá annað en að holtið hafi annars staðar verið lagt undir byggingarm götur og bílastæði. En ástæða er fyrir öllu og er þessi bleðill engin undantekning. HuldumannasteinninnÁ honum eru tveir klapparsteinar og er annar öllu hærri og stærri. Klofið hefur verið framan af honum. Þegar samantekt Þórunnar Traustadóttur um steininn var skoðuð kom eftirfarandi í ljós:
“Fyrir 60 – 70 árum síðan, meðan Reykjavík var enn smábær og byggðin mest vestan Rauðár, fékk Þorbjörn nokkur Jónsson leigða lóð á Grensási rétt fyrir ofan Múla (nálægt Ármúla 32) þar sem hann rak síðar hænsnabú. Það var mikið grjót á landinu og fékk hann nokkra menn til liðs við sig til þess að fjarlægja það. Það gekk sæmilega, þeir þurftu að sprengja hluta af grjótinu því það var svo stórt. Einn steinninn var þó öðrum stærri og undan honum kom örlítil uppspretta. Það leið að því að mennirnir hugðust fjarlægja þennan stein og boruðu því í hann eina holu til þess að koma fyrir sprengiefni en þeir ætluðu að sprengja hann næsta dag. En um nóttina dreymdi Þorbjörn mann einn og var sá frekar höstugur og spurði hvers vegna Þorbjörn gæti ekki látið bæinn sinn í friði. Þorbjörn kannaðist ekkert við manninn og spurði hvar hann ætti heima. Sagðist maðurinn þá eiga heima í steininum og bætti við ,,Ef þú hróflar nokkuð við steininum, þá mun illa fara”.

Huldumannasteinninn

Þegar Þorbjörn vaknaði morguninn eftir ákvað hann að láta steininn óáreittan því hann væri hvort eð er ekki fyrir neinum.
Árið
1940 keyptu bakarar hænsnabúið af Þorbirni og réðu danskan mann, Einar Tönsberg, til þess að veita því forstöðu. Um leið og Þorbjörn afhenti hænsnabúið varaði hann við því að hrófla við steininum og sagði að þarna væri álagasteinn. Nú leið nokkur tími en þá ákváðu bakararnir að færa út kvíarnar og stækka og hreinsa hjá sér túnið því enn var talsvert grjót í landinu og svo var það stóri steinninn í miðri lóðinni. Einar Tönsberg mundi vel sögu Þorbjörns og minnti á að þetta væri álagasteinn og varaði við því að við honum yrði hróflað. Bakararnir brostu góðlátlega og vildu ekki trúa að neitt slæmt mundi gerast þó þeir létu sprengja steinninn. Þetta var um vorið 1942 og þann 20. maí voru boraðar tvær holur í steininn því fljótlega átti að sprengja hann.
HuldumannasteinninnEn þá brá svo við að hænurnar hættu að verpa. Eiginkona Einars, Ingibjörg hafði fært nákvæmt bókhald um varpið í hænsnabúinu svo þau sáu á örfáum dögum að eggjum í búinu fækkaði úr tæplega 400 eggjum í ekki neitt.
Nú voru góð ráð dýr. Fyrst hélt Einar að eitthvað væri að fóðrinu eða alvarlegur sjúkdómur kominn upp hjá hænunum. Hann fékk til sín dýralækni og lét rannsaka fóðrið en allt reyndist í besta lagi. Hænurnar voru einfaldlega komnar í verkfall.
Einari var títt hugsað til steinbúans þessa dagana. Hann mundi vel aðvörunarorð Þorbjörns og reyndi allt sem hann gat til þess að fá bakarana til þess að breyta ákvörðun sinni og leyfa steininum að standa. Loks tók hann þá ákvörðun að hreyfa ekki við steininum en þá höfðu hænurnar verið í verkfalli í tvær vikur. Það var eins og við manninn mælt, þegar Einar hafði ákveðið sig voru 5 egg í hænsnahúsinu næsta morgun. Síðan jókst varpið jafnt og þétt og tveimur vikum síðar var ástandið í hænsnahúsinu orðið eðlilegt á ný.

Huldumannasteinninn

Nú eru liðin mörg ár og hænsnabúið löngu horfið. Þarna eru nú margskonar verkstæði og þjónustufyrirtæki og líklegt má telja að eigendur þeirra hafi lítið orðið varir við huldumanninn en steinninn stendur enn og ber merki borgarminja og það er hægt að skoða hann á lóðinni milli Ármúla 32 og Síðumúl 17. Mikið væri gaman ef þessu heimili huldumannsins væri sýnd meiri virðing og aðeins snyrt í kring hjá blessuðum karlinum.
Frásögn þessi er unnin upp úr grein eftir Árna Óla sem birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 1949 og síðar í bókinni “Horft á Reykjavík” sem Ísafoldarprentsmiðja h.f. gaf út 1963.
Einnig ræddi undirrituð við Ingibjörgu Tönsberg, eiginkonu Einars Tönsberg og kann ég henni bestu þakkir fyrir leiðbeiningarnar.”

Heimild:
-http://www.ismennt.is/not/thtraust2/HA-huldum.htm

Huldumannasteinninn