Færslur

Ármúlaskóli

Við Ármúlaskóla í Reykjavík er álfhóll. Hóllinn er aflíðandi brekka norðaustan við skólann með lágu klettabelti er vísar í áttina að honum. Við norðvesturhornið er einnig stakur steinn, sem látinn hefur verið óhreyfður. Á hann er klappað ártalið 1941. Á þessu svæði munu hafa verið grjótnámur á árunum 1940-1950 skv. upplýsingum Minjasafns Reykjavíkur.
Letursteinn“Auk Grásteins við Vesturlandsveg (Grafarholti) eru fjórar álfabyggðir skráðar í Fornleifaskrá Reykjavíkur, álfabyggð við Ármúlaskóla (nr. 105), álfhóll sunnan við fjölbýlishúsið við Vesturberg 2-6, huldumannasteinar við Háaleitisbraut 9 og álfhóll við Breiðagerðisskóla. Til að mynda var skipulagi breytt vegna álfhólsins við Vesturberg.”
“Trúin á huldufólk og álfa er jafngömul þjóðinni og ekki útdauð enn. Dæmi eru um að gerð séu kort af álfabyggðum og sjáendur kvaddir til áður en ráðist er í bygginga- eða vegaframkvæmdir til þess annað hvort að ganga úr skugga um hvort jarðbúar sitji í fleti fyrir eða hvort unnt sé að ná samningum við þá um raskið, sem af framkvæmdunum hlýst.
Ekki er fátítt að álfasögur verði til, þegar stórvirkar vinnuvéla bila eða virðast ekki vinna á steinum og klettum. ÁletrunGott dæmi um það er álfhóllinn við Álfhólsveg í Kópavogi. Var vegurinn fremur látinn sveigja fram hjá hólnum en að hann yrði fjarlægður. vegagerðin hefur enda ítrekað á undanförnum árum verið vöruð við að raska ákveðnum blettum vegna álagatrúar og reynt að taka tillit til þess.
Staðir tengdir þjóðtrú, þar á meðal ætluð híbýli álfa, voru ekki sérstaklega verndaðir með lögum fyrr en árið 1990 að ný þjóðminjalög tóku gildi. Tilgangur þeirra er að tryggja eins og bezt verður á kosið varðveislu menningarsögulegra minja þjóðarinnar, þar á meðal fornleifa.”

Álfhóll

Erla Stefánsdóttir, sjáandi, sagði eftirfarandi um álfa í viðtali við Lesbók Morgunblaðsins 1986:
“Þar eru til fjölmargar tegundir álfa, þannig að þetta mál er kannski ekki svo einfalt, sagði Erla. Mér finnst huldufólkið hafa sérstöðu og líklega eiga flestir við huldufólkið þegar talað er um álfa. Huldufólkið er nefnilega ekki ólíkt mannfólkinu, það virkar dálítið þunglamalegt. Þetta er lágvaxið fólk og yfirleitt mjög skrautgjarnt.
Í þessu sambandi verður svo að hafa annað í huga, tíminn, sem okkur þykir svo sjálfsögð vídd í tilveru okkar, getur spilað dálítið með okkur þegar álfar eru annars vegar. Þó tíminn sé óhjákvæmileg staðreynd í daglegu lífi okkar er hann blekking frá öðru sjónarmiði og Guð, skapari alls, er handan tíma og rúms. Næmt fólk skynjar iðulega það sem lðið er, sér þá kannski fyrri kynslóðum bregða fyrir við ýmis störf. Ég heldÁlfar að slíkar fortíðarsýnir hafi oft verið misskildar og sjáendurnir álitið að um álfa eða huldufólk væri að ræða. Þannig hafa sennilega margar af þessum sögum orðið til um að huldufólks stundi búskap, færi í kaupstað o.s.frv. Sumt huldufólk virðist að vísu fást við svipuð störf og við mennirnir, en ég held þó að líf þess sé töluvert öðruvísi og meira í samræmi við náttúruna.”
Þessar verur virðast vera á þróunarleið til hliðar við mannþróunina. Sjálfsagt stefna þær allar að auknum þroska eins og við. Huldufólkið er líkt mannfólkinu að því leyti að það virðist vera miklar félagsverur – ég sé það aldrei eitt sér heldur lifir það alltaf saman í bæjum. Álfar búa hins vegar margir einir sér og eins eru tvívarnir, sem eru mjög háþróaðar verur, venjulega út af fyrir sig.
Ef til vill er auðveldast fyrir menn að komast í snertingu við huldufólkið af öllum þessum verum þar sem því virðist svipa til okkar að mörgu leyti, eins og ég sagði áðan. Huldufólkið virðist þurfa að hafa töluvert fyrir lífi sínu, það stritar eins og við og allmikill munur virðist vera á efnum þess sem ráða má af klæðnaði og híbýlum.”
Kannski álfaranir eða huldufólkið í álfhólnum við Ármúlaskóla stundi eitthvert nám þar með öðrum nemum?

Heimild:
-Árbók fornleifafélagsins 1998, bls. 158.
-Erla Stefánsdóttir, Morgunblaðið 24. ágúst 1986.

Álfhóllinn

Oddur sterki

Sigurbjörn Hjaltason, bóndi á Kiðafelli í Kjós, vakti fyrir nokkru athygli FERLIRs á steini nokkrum er vera átti í Reykjavík og minna átti á Odd sterka af Skaganum. Skv. hans upplýsingum gæti steinninn verið á fyrrum athafnasvæði Glóbus við Lágmúla. Ábendingin virtist lítt áhugaverð í fyrstu, en þegar betur var að gáð reyndist hún hin markverðasta – eins og svo oft vill verða.
Oddur sterkiMagnús Ingþórsson, framkvæmdarstjóri Glóbus, nú Vélaver, var spurður um steininn. Hann kannaðist strax við “Odd sterka”, stein í porti ofan og innan við þar sem Glóbus var við Lágmúla, aftan við Ármúla 5. Líklega hefði verið um að ræða álfabyggð og þess vegna hefði steininum verið þyrmt. Annars kynnu gamalreyndir starfsmenn Samvinntrygginga(VÍS) að kunna betri skil á steininum og sögu hans. Við umleitan hjá tryggingarfélaginu var gefið samband við Svein nokkurn. Hann sagði Benedikt Sigurðsson, þáverandi fjármálastjóra Samvinnutrygginga, hafa bannað að hróflað yrði við steininum þegar hús félagsins var í byggingu. Ástæðan hafi sennilega verið sú að um væri að ræða einn álfasteininn af nokkrum í röð þarna í holtunum.

Áletrunin

Benedikt sagði hins vegar aðspurður að ekki hefði verið um að ræða álagastein eða álfabyggð, a.m.k. ekki svo honum væri kunnugt um. Hins vegar hefði Hákon Hertervig, arkitekt, sagt honum að Oddur sterki af Skaganum, þekkt persóna í Reykjavík, hafi sofið undir steininum eina nótt eða fleiri. Sá hefði og klappað nafn sitt á steininn svo og ártal. Hákon þessi hafi verið merkilegur arkitekt og lagt áherslu á önnur gildi en bara peninga. T.d. fékk hann verðlaun fyrir arkitektúrinn að Ármúla 3, sem þótti framúrstefnulegur. Sjálfur hefði Benedikt lagt áherslu á að steininum yrði hlíft. T.a.m. hefði hann sett inn í leigusamning við Vélaver, sem þarna hefði haft aðstöðu, að hreyfa mætti við öllu á svæðinu, en bara ekki steininum þeim. Ekki mundi hann hver áletrunin hefði verið á steininum, en ártalið hafi líklega verið 1931. Taka yrði það þó með fyrirvara.
Áletrun á steininum er augljóslega “Oddur Sigurgeirsson”. Undir nafninu er orð og ártal. Ártalið er 1927. Erfitt er að segja með vissu fyrir hvað neðri áletrunin stendur nákvæmlega. Fjarlægja þarf mosa og skófir við hagstæðari aðstæður svo ganga megi úr skugga um úrlæsið.
Í endurminningum nokkrum um Odd sagði m.a.: “Hásetar Stjána bláa voru líka nafnkunnir menn. Annar var Sæmundur sífulli. Nafnið þótti hann bera með rentu. Hinn hásetinn var Oddur sterki af Skaganum. Einnig hann kafnaði ekki undir nafni. Hann þekkti ég persónulega, því að hann hafði róið áður með fóstra mínum eitt vor. Bezti karl, en dyntóttur, tortrygginn og skrítinn, enda heyrnardaufur og heyrði því ekki alltaf, hvað sagt var í kringum hann. Hann átti það til að fá æðisköst. Þá steytti Ártalið hann stundum hnefa að okkur strákunum og froðufelldi. Þá vorum við fljótir að ,,missa niður hjartað” og „hverfa ofan í skóna okkar“. Þegar Oddur var fullur, var hann kunnur að sníkjum sínum: „Gef mér 10 aura, greyið, ég ætla að kaupa mér brennivín fyrir þá“.”
Í kvæðinu “Níu litlir jólasveinar” segir m.a. í einu erindinu:
“Allir eru á kúskinnsskóm, já, það er segin saga, sumir hafa meira skegg en Oddur sterki af Skaga.”
En hver var þessi Oddur sterki af Skaganum?
Guðjón Friðriksson skrifaði um Odd sterka í Lesbók Mbl. 1995. Hér er úrdráttur úr greininni. Inn í hana eru fléttaðar frásagnir og tilkynningar úr öðrum blöðum: “Oddur ssterki af Skaganum var einn hinna kynlegu kvista í Reykjavík á fyrri hluta aldarinnar. Bágindi hans voru afleiðing af slysi en samtíðin áleit hann hálfgerðan vanvita og börn gerðu at í honum.
Eitt af því sem setti mestan svip á mannlífið í Reykjavík á árum áður vour einkennilegir menn og konur, fátæklingar sem voru sérkennilegir að einhverju leyti eða höfðu orðið Bakkusi að bráð. Oftar en ekki urðu þessir einstaklingar fyrir aðkasti og voru lagðir í einelti af krökkum sem eltu þá með ópum, hæðisorðum og óhljóðum. Sjálfum er mér í barnsminni hending sem ég lærði á götunni og hljóðaði svo: “Oddur af Skaganum með rauða kúlu á maganum”.
Þekktasta myndinÞetta var ómur af því sem krakkarnir sungu yfir hausamótunum á einni þekktustu persónu bæjarins, Oddi Sigurgeirssyni, sem kallaður var “hinn sterki af Skaganum”.
Oddur var fæddur í Pálshúsum við Bræðraborgarstíg í Reykjavík 29. október 1879 og var launbarn. Faðir hans var Sigurgeir Guðmundsson, giftur á Akranesi, sem var á vetrarvertíð í Reykjavík er Oddur kom undir. Móðir hans var Jórunn Böðvarsdóttir vinnukona. Þegar Oddur var á þriðja ári dó móðir hans og var barnið þá flutt til föður síns sem kom því fyrir hjá bróður sínum, Kristjáni Guðmundssyni á Sólmundarhöfða á Akranesi. Þar ólst Oddur upp en varð fyrir því slysi rúmlega þriggja ára gamall að fá högg á höfuðið þannig að hann missti heyrnina um tíma og var heyrnardaufur æ síðan. Þetta setti mark sitt á drenginn. Þegar hann óx upp hlógu menn að honum og héldu sumir að hann væri aumingi vegna þess hve erfitt hann átti um mál. Á efri árum notaði Oddur þar til gert látúnshorn sem hann stakk í eyrað þegar hann þurfti að heyra hvað aðrir sögðu.”
Í Alþýðublaðinu 15. apríl 1935 mátti lesa eftirfarandi tilkynningu: “Ég tapaði hlustarhorninu mínu silfurbúna, sem Ólafur Porsteinsson læknir gaf mér í vetur. Það hefir hlotið að vera í morgun þegar ég fór út úr strætisvagni á Hringbrautinni milli Hverfisgötu og Pólanna, á staðnum, þar sem maðurinn drap manninn um árið. Númerið á vagninum var 977 og ég er búinn að fara ’50 ferðir með; honum, en hefi aldrei tapað horninu mínu áður. Finnandinn er beðinn að skila horninu á Alþýðublaðið. Oddur Sigurgeirsson af Skaganum.
Aðeins fimmtán ára gamall fór Oddur út á lífið á eigin vegum. Það var töggur í honum þrátt fyrir allt. Hann var afbragðs sjómaður. Hann reri fyrst á opnum bátum en var síðan á skútum árum saman og var þá ýmist kallaður Oddur sjómaður eða Oddur sterki. Oft leitaði hann huggunnar hjá Bakkusi á skútuárum sínum og drakk þá illa.

Oddur

Einn vetur reru þeir saman í Kotvogi hann og Stjáni blái (Kristján Sveinsson). Þessa menn gerði Örn Arnarson skáld síðar ódauðlega, annars vegar í kvæðinu um Stjána bláa og hins vegar í Odds rímum.
Áður en Oddur náði fertugsaldri gjörbreyttist líf hans. Hann veiktist, var lagður á skurðarborð og mikill holskurður gerður á honum. Eftir það þoldi hann ekki strit og vosbúð og varð hálfgerður flækingur á götum Reykjavíkur. Hann átti hest og stundum fór hann í ferðalög og heimsótti gamla skútufélaga sína út um sveitir.
Oddur var smámæltur og hafði skrýtinn talanda, lá hátt rómur eins og títt er um suma menn sem heyra illa. Hjartalag hans var gott og samstöðu sýndi hann með fátækum verkamönnum og sjómönnum. Hann fylgdist með baráttu þeirra fyrir betri kjörum og gekk sjálfur í Sjómannafélag Reykjavíkur og Alþýðuflokkinn.
OddurÁrið 1924 bjó Oddur Sigurgeirsson í dimmu kjallaraherbergi á Spítalastíg 7. Uppi á lofti bjó Hallbjörn Halldórsson prentari, einn af leiðtogum Alþýuflokksins. Oddur var dubbaður upp í að gefa út blöð og hét annað þeirra Harðjaxl réttlætis og laga en hitt Endajaxl, tímarit gefið út af Hjarðjaxlaflokknum. Íhaldinu var sendar svæsnar pillur undir nafnleynd. Fór brátt að  hitna í kolunum. Haustið 1924 birtist leiðari í Morgunblaðinu sem hét Skúmaskotsmenn. Þar voru menn skammaðir fyrir að nota Odd sem skálkaskjól. Sjálfur var Oddur hrekklaus maður.
Nokkru fyrir Aþingishátíðina 1930 gáfu nokkri vina hans honum formannsbúning, eftirlíkingu af búningi landnámsmanna ásamt tilheyrandi vopnabúnaði. Oddi þótti mikið til koma og var tekin mynd af honum í búningnum ásamt Kristjáni konungi X. á Alþingishátíðinni. Síðan sýndi hann sig iðulega á götum Reykjavíkur í honum og bar þá tré-atgeir og skjöld, íklæddist rauðum kyrtli, var með rautt sítt herðaslá og hjálm, líklega ú blikki.”
“Tildrögin voru þau að “Lárus Jóhannesson hafði að sögn, ákveðið með sjálfum sér, að koma í veg fyrir það áform ungmennafélaga að karlmenn tækju upp þann hátt að klæðast litskrúði. Er mælt að hann hafi kallað Odd Sigurgeirsson á fund sinn og falið klæðskera að sníða honum litklæði og sæma hann vopnum og skildi. Var honum jafnframt fenginn góðhestur með vænum reiðtygjum. Steig nú riddarinn á bak fáki sínum og þeysti sem hann mátti um malargötur höfuðstaðarins. Taldi Lárus að með þessu væri tryggt að enginn úr flokki betri borgara léti sér til hugar koma að klæðast slíkum búningi sem Oddur af Skaganum skrýddist nú á þeysireið sinni um götur Reykjavíkur.

Oddur

Þegar nær leið Alþingishátíðinni óttuðust góðborgarar og embættismenn að Oddur Sigurgeirsson eða aðrir af kynlegum kvistum höfuðstaðarins kynnu að valda veisluspjöllum eða aðhafast eitthvað það í návist erlendra þjóðhöfðingja, sem ekki sæmdi slíkum mannfagnaði. Var því brugðið á það ráð að koma Oddi fyrir í gæslu utanbæjar. Oddur hafði átt það til að hrópa háðsyrði um Kristján Danakonung hinn níunda og jafnframt hyllt róttæka foringja jafnaðarmanna, Ólaf Friðriksson og Hendrik J. Ottósson.” Allt kom þó fyrir ekki, þeir hittust og vel fór á með þeim. Oddur sagði frá því að kóngurinn hefði gefið sér 10 krónur.
“Á árunum í kringum 1930 og 1934 bjó Oddur í litlum steinbæ sem Höfn nefndist og var þar sem hús Fiskifélagsins við Skúlagötu stendur nú. Þegar Höfn var rifin ákváðu vinir hans að reisa honum nýtt hús við flughöfnina inn við Klepp. Var húsið kallað Oddhöfði og í því var ein stofa með eldavél. Þar hafði blaðamaður Alþýðublaðsins viðtal við hann haustið 1935. Þar sagðist hann una hag sínum velk, vera sjálfs síns herra og þykja vænst um hundinn sinn og hestinn.
Og í lok viðtalsins segir; “Það er Odduráreiðanlegt, að þegar Oddur Sigurgeirsson kveður okkur og flytur til Valhallar til Þórs, en hann er upppáhald gmla mannsins, þá sjá margir eftir honum, miklu fleiri en menn gera sér nú grein fyrir.” Í tilkynningu í blaðinu 19. september þetta ár mátti lesa eftirfarandi: “Nú er ég búinn að fá nýtt hús, Oddhöfða við Kleppsveg. En mig vantar ráðskonu frá 1. okt. Hún verður að vera bráðmyndarleg en má ekki vera yngri en 45 ára. Oddur Sigurgeirsson af Skaganum.
“Þess ber að geta að Oddur ánafnaði samtökum sjómanna digrum sjóði í erfðaskrá sinni. Lét hann Hrafnistu njóta eigna sinna.”
Margar skoplegar lýsingar Odds voru hafðar eftir honum um afreksverk hans og hreysti. Hann á að hafa sagt um áflog sem hann lenti í. „Þá kom hann á móti mér með hnífinn í annarri og hnefann í hinni. Svo lagði hann á flótta. Ég á undan og hann á eftir.“
Í Alþýðublaðinu 29. okt. 1949 var afmælisgrein um Odd sjötugan. Í niðurlagi hennar sagði: “Já, þannig var æska hans, hún var hörð fyrir veikan drenginn móðurlausan á hörðum árum. Og nú er drengurinn orðinn sjötugur, gengur um stræti stórrar borgar, lágur, þrekinn, síðhærður og skeggprúður, hreinlegur og góðlegur – og bókstaflega öllum þykir vænt um hann.”
Síðasta árið sem Oddur sterki af Saganum lifði var hann á Elliheimilinu Grund og þar lést hann 7. maí 1953.”

Grafsteinn

Steinninn “Oddur sterki” milli Lágmúla og Ármúla í Reykjavík er nú eini áþreifanlegi minnisvarðinn um Odd Sigurgeirsson, þennan merka mann er setti svo sterkan svip á Reykjavík á fyrri hluta 20. aldar. Líklega hefur hann sjálfur klappað letrið á steininn er hann dvaldi undir honum forðum daga. Hann er ágætur minnisvarði um þau fágæti sem “minni máttar” eru jafnan álitnir í samfélaginu hverju sinni. Í dag er gerð krafa um að allir séu steyptir í sama svart/hvíta mótið. Hin skrautlegu litbrigði mannlífsins fyrrum hafa verið gerð burtræk – því miður. Litlausi steinninn milli Lágmúla og Ármúla er áþreifanlegur vottur um það.
Fyrir skömmu [febr. 2010] barst FERLIR eftirfarandi ábending:
Ég las greinina um Odd sterka af Skaganum með ánægju. Ég fann svo litla grein í Alþýðublaðinu frá 1927 sem varpar kannski einhverju ljósi á málið.”
Litla greinin í Alþýðublaðinu hljóðar svo: “Oddur Sigurgeirsson tilkynnir: Hefi látið gera mér grafarmerki á klappirnar fyrir innan Lækjarhvamm; þessi er áletrunin: Oddur Sigurgeirsson ritstjóri, 1927. Letrið er mjög greinilegt, höggvið djúpt á klöppina, sem er hér með friðlýst á meðan ég lifi. En þá er ég hefi verið grafinn, bið ég velunnara mína og flokksbræður að kljúfa það stykki af klöppinni, sem letrið er á, og færa það á gröf mína. Þar fyrir skulu koma allir mínir eftirlátnu fjármunir, bæði í föstu og lausu. Ef þessari beiðni minni verður ekki sinnt, mun ekki heiglum hent að hitta mig á kvöldgöngu minni þeirri, er ég rölti þegar þar að kemur. Oddur Sigurgeirsson, Sólmi, Bergþórugötu 18.”
Oddur Sigurgeirsson fæddist 29.10.1979 og dó 07.05.1953. Hann er grafinn í Fossvogskirkjugarði (H-19-0003).

Heimild:
-Guðjón Friðriksson, Mbl. 5. mars 1994 – lesbók.
-Mbl. 17. ágúst 2003.
-Alþýðublaðið 29. okt. 1949.
-Alþýðublaðið 19. sept. 1935.
-Alþýðublaðið 9. mars 1927.

Neðri

Ármúli

Á bak við Ármúla 32 í Reykjavík skagar óraskað holtasvæði inn á malbikað bílastæði þrátt fyrir að bæði er full þörf fyrir svæðið undir bílastæðið og ekki er að sjá annað en að holtið hafi annars staðar verið lagt undir byggingarm götur og bílastæði. En ástæða er fyrir öllu og er þessi bleðill engin undantekning. HuldumannasteinninnÁ honum eru tveir klapparsteinar og er annar öllu hærri og stærri. Klofið hefur verið framan af honum. Þegar samantekt Þórunnar Traustadóttur um steininn var skoðuð kom eftirfarandi í ljós:
“Fyrir 60 – 70 árum síðan, meðan Reykjavík var enn smábær og byggðin mest vestan Rauðár, fékk Þorbjörn nokkur Jónsson leigða lóð á Grensási rétt fyrir ofan Múla (nálægt Ármúla 32) þar sem hann rak síðar hænsnabú. Það var mikið grjót á landinu og fékk hann nokkra menn til liðs við sig til þess að fjarlægja það. Það gekk sæmilega, þeir þurftu að sprengja hluta af grjótinu því það var svo stórt. Einn steinninn var þó öðrum stærri og undan honum kom örlítil uppspretta. Það leið að því að mennirnir hugðust fjarlægja þennan stein og boruðu því í hann eina holu til þess að koma fyrir sprengiefni en þeir ætluðu að sprengja hann næsta dag. En um nóttina dreymdi Þorbjörn mann einn og var sá frekar höstugur og spurði hvers vegna Þorbjörn gæti ekki látið bæinn sinn í friði. Þorbjörn kannaðist ekkert við manninn og spurði hvar hann ætti heima. Sagðist maðurinn þá eiga heima í steininum og bætti við ,,Ef þú hróflar nokkuð við steininum, þá mun illa fara”.

Huldumannasteinninn

Þegar Þorbjörn vaknaði morguninn eftir ákvað hann að láta steininn óáreittan því hann væri hvort eð er ekki fyrir neinum.
Árið
1940 keyptu bakarar hænsnabúið af Þorbirni og réðu danskan mann, Einar Tönsberg, til þess að veita því forstöðu. Um leið og Þorbjörn afhenti hænsnabúið varaði hann við því að hrófla við steininum og sagði að þarna væri álagasteinn. Nú leið nokkur tími en þá ákváðu bakararnir að færa út kvíarnar og stækka og hreinsa hjá sér túnið því enn var talsvert grjót í landinu og svo var það stóri steinninn í miðri lóðinni. Einar Tönsberg mundi vel sögu Þorbjörns og minnti á að þetta væri álagasteinn og varaði við því að við honum yrði hróflað. Bakararnir brostu góðlátlega og vildu ekki trúa að neitt slæmt mundi gerast þó þeir létu sprengja steinninn. Þetta var um vorið 1942 og þann 20. maí voru boraðar tvær holur í steininn því fljótlega átti að sprengja hann.
HuldumannasteinninnEn þá brá svo við að hænurnar hættu að verpa. Eiginkona Einars, Ingibjörg hafði fært nákvæmt bókhald um varpið í hænsnabúinu svo þau sáu á örfáum dögum að eggjum í búinu fækkaði úr tæplega 400 eggjum í ekki neitt.
Nú voru góð ráð dýr. Fyrst hélt Einar að eitthvað væri að fóðrinu eða alvarlegur sjúkdómur kominn upp hjá hænunum. Hann fékk til sín dýralækni og lét rannsaka fóðrið en allt reyndist í besta lagi. Hænurnar voru einfaldlega komnar í verkfall.
Einari var títt hugsað til steinbúans þessa dagana. Hann mundi vel aðvörunarorð Þorbjörns og reyndi allt sem hann gat til þess að fá bakarana til þess að breyta ákvörðun sinni og leyfa steininum að standa. Loks tók hann þá ákvörðun að hreyfa ekki við steininum en þá höfðu hænurnar verið í verkfalli í tvær vikur. Það var eins og við manninn mælt, þegar Einar hafði ákveðið sig voru 5 egg í hænsnahúsinu næsta morgun. Síðan jókst varpið jafnt og þétt og tveimur vikum síðar var ástandið í hænsnahúsinu orðið eðlilegt á ný.

Huldumannasteinninn

Nú eru liðin mörg ár og hænsnabúið löngu horfið. Þarna eru nú margskonar verkstæði og þjónustufyrirtæki og líklegt má telja að eigendur þeirra hafi lítið orðið varir við huldumanninn en steinninn stendur enn og ber merki borgarminja og það er hægt að skoða hann á lóðinni milli Ármúla 32 og Síðumúl 17. Mikið væri gaman ef þessu heimili huldumannsins væri sýnd meiri virðing og aðeins snyrt í kring hjá blessuðum karlinum.
Frásögn þessi er unnin upp úr grein eftir Árna Óla sem birtist í Morgunblaðinu 1. ágúst 1949 og síðar í bókinni “Horft á Reykjavík” sem Ísafoldarprentsmiðja h.f. gaf út 1963.
Einnig ræddi undirrituð við Ingibjörgu Tönsberg, eiginkonu Einars Tönsberg og kann ég henni bestu þakkir fyrir leiðbeiningarnar.”

Heimild:
-http://www.ismennt.is/not/thtraust2/HA-huldum.htm

Huldumannasteinninn