Guðfinna Ragnarsdóttir skrifaði um “Laugarnesið” í rit Ættfræðingafélagsins árið 2017:
“Það lætur ekki mikið yfir sér Laugarnesið, þessi snubbótti tangi sem teygir sig til norðvesturs út í flóann í átt að Engeynni. En þar leynist bæði löng og merk saga, saga kvenna og karla, saga atburða og örlaga, saga biskupa og valda, saga mennta og menningar, saga stríðs og átaka, saga hernáms og fátæktar, saga sjúkdóma og erfiðleika, saga lista og listamanna og inn á
milli, þótt ekki fari hátt, saga alþýðunnar, sem háði þar sitt stríð öld fram af öld. Ströndin við Laugarnesið er einnig einstök náttúruparadís. Þar er eina ósnortna fjaran sem eftir er á norðurströnd Reykjavíkur frá Örfirisey að Grafarvogi. Þar móka selir á steinum, tjaldurinn hoppar í fjörunni, krían gargar og mávurinn sveimar yfir hafsbrúninni í leit að æti. Í norðrinu rísa Esjan og Skarðsheiðin og vinalegt Akrafjallið teygir sig til vesturs.
Hún var víðlend, jörðin Laugarnes, þegar hún var og hét. Svo víðlend að hún tók yfir meirihluta þess svæðis sem Reykjavík stendur á í dag. Sjálfsagt hefur það verið Ingólfur okkar Arnarson og hans lið sem fyrst bjó á þessu svæði. Það er gaman að eiga eina ljósa mynd af þessum frumbyggjum Reykjavíkur, og þar með Laugarness, mynd sem sýnir okkur sonarson Ingólfs, Þorkel mána, sem lét á banadægri bera sig út í sólskinið og fól sál sína þeim guði sem hefði skapað sólina, og var hann þó maður heiðinn. Þormóður, sonur Þorkels, varð svo allsherjargoði þegar kristni kom á Ísland. Þeir Þorkell og Þorgeir Ljósvetningagoði lögsögumaður voru þremenningar, en ömmur þeirra voru systur, dætur Hrólfs rauðskeggs.
Það er líka gaman að geta þess að laugarnar góðu sem komu við sögu nafngiftar Reykjavíkur gáfu einnig ótal öðrum örnefnum svæðisins nafn: Laugarnes, Laugamýri, Laugaholt, Laugalækur og einnig seinni tíma nöfn eins og Laugarás og Laugardalur.
Jarðabókin
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín veitir góða lýsingu á Laugarnesi sem og öðrum jörðum á Íslandi í byrjun 18. aldar. Jörðin er 20 hundruð að dýrleika, kirkjukúgildi 3 og leigukúgildi 3. Kvikfénaður 4 kýr, 2 kvígur mylkar, 1 kálfur, 16 ær, 15 sauðir veturgamlir, 4 lömb, 2 hestar, 2 hross. Fóðrast kunna 6 kýr. Heimilismenn 7. Torfrista, stunga og móskurður nægilegt í heimalandi. Rekavon lítil. Hrognkelsaveiði má vera, ef iðkuð væri með neti. Túnið spillist stórlega af vatnsgangi. Engjar litlar, spillast af vatni. Vatnsból erfitt. Heimræði er hér varla að kalla; þó er það um vor og haust, þegar fiskur gengur grunnt inn á fjörðinn. En um vertíð, ef heima skal lenda, er langræði meira en hófi sætir, og fyrir þá grein hefir jörðin um langar stundir átt og brúkað skipauppsátur og verbúð.
Laugarnes og Engey voru fyrstu jarðirnar sem fóru undan landnámi Ingólfs, en það mun hafa verið innan við öld eftir landnám. Einhvern tíma fyrir 1575 byggðust svo jarðirnar Bústaðir og Kleppur út úr Laugarnesjörðinni. Kleppsjörðin stóð nokkru sunnan við núverandi Kleppsspítala. Jörðinni fylgdu miklar kvaðir og búskapur var erfiður. Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að túnin fordjarfist stórlega af sjávargangi og á 18. öld varð að flytja Kleppsbæinn vegna sjávargangs. Bústaðir, sem sneru mót suðri og sól, voru mun betri jörð, enda oft tvíbýlt
þar.
Fúlilækur
Það var hinn frægi Fúlilækur sem myndaði vesturlandamæri Laugarnesjarðarinnar. Hann kom upp í Kringlumýrinni, rann til norðurs niður holtið, breiddi sem snöggvast úr sér í Fúlutjörninni niður við ströndina, rétt áður en hann liðaðist gegnum fjörukambinn og sameinaðist sjávaröldunum. Hann er nú löngu horfinn undir malbik Kringlumýrarbrautarinnar.
Hann var hinn versti farartálmi þegar hann var vatnsmikill, og fræg er sagan um vinnukonuna sem drukknaði í honum með þvottinn sinn á bakinu.
Frá upptökum Fúlalækjar lágu landamærin síðan til suðurs, alla leið í klettinn Hanganda innst í Fossvoginum.AusturlandamæriLaugarnesjarðarinnar hafa fram eftir öldum verið Elliðaárnar, enda átti kirkjan ítök í laxveiðinni þar öld fram af öld.
Það saxast svo hægt og bítandi af landnámi Ingólfs og á 13. öldinni eru fimm jarðir á Seltjarnarnesinu: Nes, Vík, Laugarnes, Kleppur og Gufunes. Frægasti ábúandi Laugarness var Hallgerður langbrók sem bjó þar eftir víg Glúms, manns síns. Sagnir eru um að hún hafi látist þar og sé grafin þar og sé leiði hennar jafngrænt vetur sem sumar. Ekki fundust þó við eftirgrennslan nein merki Hallgerðar.
Kirkjan
Það er svo kirkjunni og kirkjuskjölunum að þakka að við getum rakið sögu Laugarness allt til okkar daga. Öldum saman var Laugarnes, ásamt Engey, í eigu sömu ættarinnar, s.k. Möðruvallaættar. Það er í Kirknatali Páls Jónssonar Skálholtsbiskups frá því um 1200 sem fyrst er getið kirkju í Laugarnesi.
Saga Laugarneskirkjunnar, líkt og saga flestra annarra guðshúsa þessa lands, endurspeglar bágborið ástand og afkomu þjóðarinnar, sjúkdóma, hallæri, eldgos og aðra óáran sem yfir þjóðina dundi. 1234 á kirkjan rétt á fjórðungi allra laxa í Elliðaánum, Viðeyingar annað eins og Reykvíkingar afganginn. Þetta voru mikil hlunnindi, sem áttu eftir að reytast af kirkjunni í aldanna rás. Sömuleiðis kúgildin. Árið 1379 á kirkjan tíu hundruð í metfé, tvenn messuklæði, þrenn altarisklæði, einn kaleik, tvær kertastikur, kantarakápu, tvær klukkur stórar, glóðarker, sacarium, mundlaug og kross. Þá á hún einnig fjórðung reka á móts við Nes, Engey og Laugarnes „utan Seltjörn og Laugar“. 1575 er altarisklæðið sagt gamalt og því tjáslað saman, hökullinn er gamall, kaleikurinn ærulaus, metaskálar tómar, og járnkarlinn sem á að pota Laugarnesingum sex fet niður, á köldum frostavetrum, er lítill.
Kúgildin
Brynjólfur biskup Sveinsson vísiterar í Laugarnesi 1642. Þá er þar einn hökull gamall og altarisklæðið á flækingi ásamt sloppi gömlum og slitnum. Kúgildin, sem upphaflega voru tíu, eru nú aðeins þrjú. Þetta þykir biskupnum miður og lætur nótera það í Kirkjustólinn. Nítján árum seinna þegar biskupinn leggur leið sína aftur í Laugarnesið eru þau enn ófundin! 1659 þegar ný kirkja var reist í Laugarnesi var ekki úr miklu að moða, því allar jarðir sem kirkjunni tilheyrðu voru í konungseign, nema Laugarnesið, og voru því undanþegnar tíundargjöldum.
Þegar Brynjólfur vísiterar Laugarnesið í hinsta sinn, árið 1670, er nýja kirkjan illa farin af fúa, kúgildin enn á flandri og auk þess vantar kistu eina gamla. En menn hafa sjálfsagt haft annað að gera á þeim hörmungatímum sem þá gengu yfir þjóðina en eltast við horfin kúgildi og fúnar kistur. En það sem verra er, nú er laxveiðin endanlega gengin úr greipum þeirra Laugarnesmanna og Bessastaðamenn búnir að kasta eign sinni á þessi fornu hlunnindi.
1703 sýnir manntalið okkur að 27 manns eru í Laugarnesi og jörðin enn í einkaeign. 1725 reis af grunni ný og vönduð kirkja og þá dró einnig til tíðinda í eignamálunum. Kirkjan, sem hafði verið í eigu sömu ættar öld fram af öld, etv. allt frá landnámi, komst nú í annarra eigu. Sjálfur biskupinn, Jón Árnason, tók jörðina upp í skuld. Við tóku mörg góð ár, en 1758 þegar Finnur Skálholtsbiskup kemur í sína fyrstu vísitasíu, er kirkjan að falli komin.
Bænabríkin
Kirkjan átti þó sína velgjörðarmenn en það voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson sem höfðu átt athvarf í kirkjunni þegar þeir dvöldu hjá Skúla fógeta í Viðey, sem þá var orðin kirkjulaus. Þeir gáfu Laugarneskirkjunni forláta altaristöflu eða bænabrík. Á hana er letrað: Til maklegrar skylduendurminningar er þessi tafla gefin heilagri Maríukirkju að Laugarnesi af þeim B. og E. 1757. Þessi altaristafla, sem síðar lenti í kirkjunni að Stað í Grindavík, er eini gripurinn sem varðveist hefur úr gömlu Laugarneskirkjunni. Hún er nú varðveitt á Þjóðminjasafninu.
Þegar Laugarneskirkjan seig saman undan feysknum fjölum sínum árið 1794, voru horfnar sjö af þeim kirkjum sem röðuðu sér með Sundunum fyrir siðaskiptin. Aðeins voru eftir kirkjurnar í Vík, Viðey og Gufunesi.Allt frá miðöldum til loka 18. aldar höfðu kirkjuklukkur Laugarneskirkju kallað fólk á tíu bæjum til messu, en það voru bæirnir Laugarnes, Kleppur, Rauðará, Bústaðir, Breiðholt, Digranes, Hvammkot, Kópavogur, Vatn og Hólmur. Þær hafa mátt hljóma hátt og skært, kirkjuklukkurnar, svo kallið bærist.
Ein ástæða þess að Laugarneskirkjan var lögð niður var að á sama tíma reis af grunni í hjarta bæjarins, á gamla Reykjavíkurtúninu, á Austurvelli, ný og vegleg dómkirkja sem var vígð 1796. Laugarneskirkjan var þá sameinuð Dómkirkjusókninni í Reykjavík. Eins og söfnuðinum var vísað á önnur mið, dreifðust hinar fátæklegu eigur kirkjunnar út um borg og bý. Kirkjuklukkurnar, sem hringt höfðu til tíða og messugjörða öldum saman, voru seldar hæstbjóðanda, og hvar þær svo að lokum hringdu sig inn í eilífðina veit enginn lengur. En á tímum allsleysis var fleira verðmætt en kirkjugripirnir. Hver fjöl, jafnvel þótt fúin væri og lasburða, var seld hæstbjóðanda á uppboði. Þannig keypti Brynjólfur Einarsson lögréttumaður af Kjalarnesi Laugarneskirkjuna, eins og hún lagði sig, á 17 ríkisdali og 56 skildinga. Það segir margt um ástand timbursins í kirkjunni að á sama tíma var timbrið úr Neskirkju selt á 125 ríkisdali!
Hannes
Það var svo eftir jarðskjálftana miklu 1784 sem menn fóru að hugsa sér til hreyfings með biskupssetur, því Skálholtsstaður var í rúst. Reykjavík hafði þá öðlast kaupstaðarréttindi og til stóð að flytja bæði biskupssetrið og Skálholtsskólann til Reykjavíkur, auk Alþingis. Innan lóðamarka kaupstaðarins voru þá 39 hús og 167 íbúar. Hannes Finnsson Skálholtsbiskup kom að skipulagningu hins nýja biskupsseturs. Hann var bæði mjög efnaður og framsýnn maður og hann gerði sér lítið fyrir og keypti Skálholtið og fékk konungsleyfi til að sitja þar áfram í sinni biskupstíð.
Laugarnesið hafði hann erft árið 1787 eftir fjarskylda frænku sína, Elínu Hákonardóttur, og hafði því ekkert á móti því að biskupssetrið yrði þar. Ekkert varð þó úr flutningi biskupsstólsins og sat Hannes í Skálholti til dauðadags árið 1796. Hann hafði þá verið sjö ár í hjónabandi með seinni konu sinni, Valgerði Jónsdóttur. Á þeim var 32 ára aldursmunur. Hún var 18 ára og hann fimmtugur þegar þau gengu í hjónaband.
Hún varð því ekkja 25 ára gömul. Þau Hannes voru frændsystkin, skyld að öðrum og þriðja. Valgerður fæddist 1771 á Seljalandi undir VesturEyjafjöllum. Foreldrar hennar voru efnafólk og faðirinn sýslumaður. Fyrri kona Hannesar var Þórunn, dóttir Ólafs Stephensens stiftamtmanns í Viðey, en hún var aðeins 16 ára er þau Hannes giftust. Hana missti hann rúmlega tvítuga.
Þau Hannes og Valgerður eignuðust fjögur börn sem öll komust upp. Eldri dóttur sína skírðu þau Þórunni, eftir fyrri konu Hannesar. Hún giftist Bjarna Thorsteinssyni amtmanni og þeirra sonur var Steingrímur Thorsteinsson skáld og rektor. Engan hefði grunað að Þórunn Hannesdóttir, síðasta biskupsdóttirin í Skálholti, ætti eftir að verða tengdamóðir bláfátækrar stúlku, barnabarns Eiríks Hjörtssonar, ungs bónda í Laugarnesbænum, sem um aldamótin 1800 stóð þar í kirkjugarðinum yfir moldum konu sinnar og ungrar dóttur á helköldum vetrardegi. Slík blöndun æðri og lægri stétta var nánast óhugsandi.
Þessi fátæka, unga stúlka hét Guðríður Eiríksdóttir og var frá Stöðlakoti við Bókhlöðustíg. Hún átti eftir að verða seinni kona Steingríms Thorsteinssonar og eiga með honum fimm mannvænleg börn.
Voldug og rík
Valgerður biskupsfrú var systir Jóns Johnsen lögsagnara á Stóra-Ármóti, en hann var umboðsmaður konungsjarða í Árnessýslu. Hún naut hans vel í viðskiptum sínum þegar hún eftir lát Hannesar sankaði að sér jörðum, enda varð hún ein efnaðasta og voldugasta kona landsins. Ólafur Stephensen stiftamtmaður, fyrrverandi tengdafaðir Hannesar manns hennar, var henni einnig afar hollur ráðgjafi. Í tíu ára ekkjudómi sínum eftir lát Hannesar eignaðist hún 22 jarðir og rekaítök á tíu rekafjörum austan úr Öræfum og vestur á Strandir. Hún reisti einnig kirkju í Skálholti og var sú kirkja kölluð Valgerðarkirkja. Allt þetta sýnir að hér var enginn meðalmaður á ferð.
Steingrímur Jónsson, seinni maður Valgerðar, var fræði- og lærdómsmaður. Hann hafði verið skrifari Hannesar biskups í Skálholti, en Hannes átti mikið safn gamalla rita. Steingrímur var mikill gáfumaður og einstakur námsmaður, hann lauk embættisprófi í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn með ágætiseinkunn sumarið 1803. Hann var fyrsti rektor Bessastaðaskóla, prestur og prófastur í Odda og loks biskup yfir Íslandi. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, prófastur á Mýrum í Álftaveri, síðar í Holti undir Eyjafjöllum, og kona hans, Helga Steingrímsdóttir. Hún var systir eldklerksins Jóns Steingrímssonar.
Steingrímur biskup átti mikið safn handrita og bóka og var stórvirkur rithöfundur. Hann var frábærlega vel að sér í sögu landsins og einn lærðasti maður Íslands um sína daga. Jón Sigurðsson forseti var biskups skrifari hjá þeim hjónunum í Laugarnesi árin 1831-32, eftir að hann varð stúdent. Steingrímur biskup var einn helsti ættfræðingur landsins. Ættartölubækur hans í ellefu bindum, flestar með hans eigin hendi, eru stórmerkileg rit. Í Laugarnesi var geymt mesta safn íslenskra handrita sem þá var til í landinu. Bókaog handritasafn Steingríms varð síðar uppistaða Landsbókasafnsins.
Biskupsstofan
Þau Valgerður og Steingrímur giftu sig árið 1806, og árið 1809, þegar Valgerður er 38 ára, fæðist einkasonurinn Hannes Johnsen Steingrímsson, síðar kaupmaður í Reykjavík, heitinn eftir Hannesi biskupi.
Steingrímur tók við biskupsembættinu 14. júní 1825. Þau fluttust þó ekki inn í Laugarnes fyrr en vorið 1826, þegar biskupsstofan var tilbúin. Þá vantaði, segir sagan, enn bæði glugga og hurðir í húsið. Þar bjuggu þau þar til Steingrímur lést 14. júní 1845.
Hinn nýi biskupsbústaður var jafnan nefndur Laugarnesstofan, Biskupsstofan í Laugarnesi eða aðeins Stofan. Það var mikið hús, eitt fárra steinhúsa á landinu, en ekki var það að sama skapi vandað, þótt konungurinn styrkti byggingu þess.
Steingrímur gerði samning 7. apríl 1825 við danskan múrara frá Kaupmannahöfn um smíði stofunnar. Sá hét Fredrik August Maltezow. Vinnulaun hans áttu að vera tveir ríkisdalir á dag, auk fæðis, ókeypis ferð og fæði til Íslands og heim aftur, nægilegt öl daglega, og peli af brennivíni, bæði á leiðinni og allan vinnutímann. Stofan var hlaðin úr múrsteini, með helluþaki, en
mikið af því fauk í ofviðri 1848. Kvistur var á stofunni með svonefndu skútaþaki, og segja fróðir menn að hafi verið fyrsti kvistur á húsi hér á landi. Það kom brátt í ljós að margir gallar voru á Biskupsstofunni og hélt hún hvorki vindum né vatni. 1839 seldi Steingrímur bænum jörðina, en um það hafði áður verið samið. Valgerður lést 1856 hjá Sigríði dóttur sinni og manni hennar Árna Helgasyni prófasti í Görðum á Álftanesi. Hún hafði þá verið ellefu ár í ekkjustandi.
30 ár
Næsti biskup í Laugarnesi var dómkirkjupresturinn í Reykjavík, Helgi Guðmundsson Thordersen. Ragnheiður, kona Hannesar ráðherra Hafstein, var sonardóttir hans. Helgi biskup undi ekki í Laugarnesi nema í 10 ár. Undir eins og hann varð biskup, sótti hann um að mega búa í Reykjavík, en ekki í Laugarnesi, en honum var neitað um það. Hann flutti ekki úr Laugarnesi fyrr en árið 1856, en þá hafði Laugarnes verið biskupssetur í rétt 30 ár.
Biskupsstofan mun hafa staðið vestan til á nesinu, rétt suður af Listasafni Sigurjóns. Hún var rifin til grunna, þegar Holdsveikraspítalinn var reistur árið 1898. Hún var síðast notuð handa frönskum, bólusjúkum sjúklingum. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins var Stofan gerð að bólusóttarsjúkrahúsi. Franskur sjómaður, segir sagan, deyr úr bólu „á bóluspítalanum“ (Biskupsstofunni) að Laugarnesi 2. apríl 1872, og er greftaður daginn eftir í Laugarneskirkjugarði. Það mun vera síðasta gröfin sem tekin er í þeim gamla garði í Laugarnesinu. Árið áður hafði annar franskur sjómaður látist úr bólu 23. apríl, einnig hann var jarðaður strax daginn eftir.
Holdsveikraspítalinn
Holdsveikraspítalinn var gjöf dönsku þjóðarinnar til Íslendinga að frumkvæði dönsku Oddfellowreglunnar. Hann var reistur í nafni vináttu, kærleika og sannleika og vígður 27. júlí 1898. Byggingin var úr timbri á tveim hæðum um 2000 m² að stærð. Spítalinn var þá stærsta hús sem hafði verið reist á Íslandi. Hann var starfræktur til ársins 1940, er hann var fluttur í Kópavog. Spítalinn var gerður fyrir 60 sjúkrarúm, en talið er að um aldamótin 1900 hafi verið um 237 holdsveikir menn á Íslandi. Þegar holdsveikum fækkaði var hluti byggingarinnar tekinn til annarra nota.
Þegar spítalinn var fluttur lagði breski herinn bygginguna undir sig og síðar sá bandaríski. Spítalinn brann til kaldra kola 7. apríl árið 1943. Einu menjarnar um brunann er skjöldur sem festur var yfir aðalinngangi spítalans. Hann er varðveittur hjá Oddfellowreglunni.
Hjáleigurnar
Fjórar hjáleigur fylgdu lengi Laugarnesi: Norðurkot, Suðurkot, Barnhóll og nafnlaus hjáleiga austan við bæinn. Suðurkot var niður við sjóinn, beint vestur af síðasta bæjarstæðinu, Suðurkotsvörin er nokkru sunnan við Suðurkotið. Suðurkot var einnig kallað Naustakot. Norðurkot var norðvestur af síðasta bæjarstæðinu og Norðurkotsvörin þar rétt austan við. Norðurkot var einnig kallað Sjávarhólar. Hverri hjáleigu fylgdi 1 kúgildi. Landskuld eftir hvert þeirra var 40 álnir. Allar þessar hjáleigur voru enn byggðar 1801, en 1835 eru þær komnar í eyði og munu ekki hafa byggst eftir það.
Við manntalið 1762 er tvíbýli í Laugarnesi og heimilisfólk alls 14 á báðum búum. Árið 1784 er enn tvíbýli í Laugarnesi. Heimilismenn eru þá 15 alls. Við manntalið 1801 er þar einnig tvíbýli og heimilisfólk alls 17. 1847 er Laugarnes sem fyrr talið 20 hundruð að dýrleika, en 1861 var það 31,3 hundruð. Síðasti torfbærinn í Laugarnesi var rifinn 1885. Hann mun hafa staðið þar sem gamla kirkjan var, eða litlu ofar. Enn sér greinilega móta fyrir kirkjugarðinum.
Sameigendur
Eftir að biskup flutti frá Laugarnesi 1856 var Laugarnesjörðin seld félaginu “Sameigendur Lauganess” en það réði til sín ábúanda sem sá um að reka jörðina, leigja hagagöngu og selja hey til skepnueigenda í Reykjavík auk þess að selja mó úr Laugamýri og Kirkjumýri. Jörðin varð síðan eign Reykjavíkurbæjar 1885.
Síðustu ábúendur Laugarnesjarðarinnar voru hjónin Þorgrímur Jónsson söðlasmiður og Ingibjörg Kristjánsdóttir sem fluttu að Laugarnesi 1915 með stóran barnahóp. Þau sáu um rekstur á jörðinni og leigu á hagabeit fyrir bæjabúa. 1948 flutti Sigurður Ólafsson söngvari og kona hans Inga Valfríður Einarsdóttir frá Miðdal, systir Guðmundar listmálara og myndhöggvara, í Laugarnes, og bjuggu þar á fjórða áratug ásamt börnunum sínum sex og frægu, ljósu hrossunum sínum, þar á meðal hinni landsfrægu Glettu. Yngri dóttir Sigurðar og Ingu er Þuríður söngkona og listmálari.
Með tímanum færðist borgarbyggðin austur á bóginn, erfðafestulöndum var úthlutað og Laugarnesjörðin var tekin undir íbúðabyggð. Á stríðsárunum voru einnig mörg hús flutt í Laugarneshverfið þegar flugvöllurinn var byggður í Skerjafirði.
Kampurinn
Á stríðsárunum var reist stórt braggahverfi á Laugarnestanganum, kallað Laugarneskampur. Árið 1941 tók síðan bandaríska setuliðið við Laugarneskampi, sem hýsti þá aðallega sjúkradeildir hersins auk skála hjúkrunarkvenna, yfirmanna og annarra hermanna. Kampurinn samanstóð af 100 bröggum og öðrum byggingum.
Þegar umsvif bandaríska hersins drógust saman um 1945, var kampurinn nýttur sem íbúðarhúsnæði fyrir Íslendinga. Á árunum 1951-1957 voru íbúar flestir í kampinum eða um 300 manns. Þessi byggð setti um tíma mikinn svip á Laugarnesið en er nú horfin með öllu. Í einum bragganna bjó Sigurjón Ólafsson myndhöggvari með fjölskyldu sinni. Þar var byggt listasafn sem ber nafn hans. Síðasti bragginn í Laugarnesi var rifinn árið 1980.
Í dag er búið í fjórum húsum á svæðinu. Einn íbúanna er Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns Ólafssonar. Hún er fædd á Fjóni og nam höggmyndalist við Konunglegu listaakademíuna í Kaupmannhöfn.
Við hlið Listasafnsins býr Hrafn Gunnlaugsson kvikmyndagerðarmaður og í þriðja húsinu, sem stendur enn sunnar á nesinu býr listakonan Kogga, Kolbrún Björgólfsdóttir, en eiginmaður hennar var Magnús Ólafur Kjartansson myndlistarmaður.
Saga Laugarnessins er orðin löng, saga þessa grágrýtistanga sem forðum myndaðist við eldgos í Mosfellsheiðinni eins og allur berggrunnur borgarinnar og eyjarnar allar. Þar birtist okkur saga þjóðarinnar í hnotskurn öld fram af öld. Kirkjugarðurinn, eina mannanna verkið sem enn sér glöggt stað aftan úr öldum, geymir íbúa þessarar jarðar í að minnsta kosti 800 ár. En allt er breytingum háð. Engir bátar liggja lengur í vörunum, söngur Sigurðar er þagnaður, líkt og hófatak Glettu, en listverk Sigurjóns prýða nesið þar sem aldan skellur á ströndinni, blíð og stríð, líkt og hún hefur gert frá ómuna tíð.”
Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins – 2. tölublað (01.04.2017), Guðfinna Ragnarsdóttir; Laugarnesið, bls. 3-8.