Vaktarabærinn

Framkvæmdum við endurgerð Vaktarabæjarins, næstelsta timburhúss Grjótaþorpsins, lýkur á næstu tveimur mánuðum að sögn Þorsteins Bergssonar, framkvæmdastjóra Minjaverndar.
VaktarabaerinnReykjavíkurborg keypti húsið árið 2008 og afsalaði því til Minjaverndar sem hefur haft veg og vanda af framkvæmdunum sem hófust fyrir nokkrum árum. Vaktarabærinn, sem stendur við Garðastræti 23, var byggður á árunum 1844 til 1848. Húsið, sem er friðað, var upphaflega byggt sem pakkhús við gamla Vaktarabæinn, sem var torfbær. Vaktarabærinn dregur nafn sitt af Guðmundi vaktara Gissurarsyni, sem bjó þar. Húsinu var breytt úr pakkhúsi í íbúðarhús um árið 1886. Þá keyptu hjónin Sesselja Sigvaldadóttir og Stefán Egilsson húsið og bjuggu þar ásamt börnum sínum, sem öll fæddust í húsinu. Þeirra á meðal voru tónskáldið ástsæla Sigvaldi Kaldalóns og bróðir hans stórsöngvarinn Eggert Stefánsson. Þorsteinn segir að búið hafi verið í húsinu til ársins 1960 en síðan þá og þar til framkvæmdir við endurgerð þess hófust hafi það verið í niðurníðslu og meðal annars notað sem málningarskúr. Hann segir enn óvíst hvað gert verður við húsið að loknum endurbótum. Ýmsar hugmyndir séu uppi, ein sé sú að leigja húsið ferðamönnum. Elsta timburhús Grjótaþorpsins er hús Innréttinganna við Aðalstræti 10. Það var reist árið 1764.

Heimild:
-Fréttablaðið 2. sept. 2010, bls. 1.

Vaktarabærinn

Vaktarabærinn.