Í “Fornleifaskráningu Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur á jörðinni Ártún á Kjalarnesi” segir m.a.:
“Sem fyrr liggur land Ártúns að jörðinni Bakka að sunnan og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni. Að norðan liggur land Ártúns að jörðinni Dalsmynni, sem varð til árið 1930 þegar jörðinni Saurbæ var skipt, og að Melagerði og Melavöllum.
Að sögn Ásthildar Skjaldardóttur bónda á Bakka voru Melagerði og Melavellir byggðir út úr Ártúni en bræðurnir Bjarni og Gunnar Þorvarðarsynir, sem voru bændur á Bakka frá árinu 1950 til 1997, seldu landspildur fyrir Melagerði árið 1975 og Melavelli árið 1979. Efrimörk jarðarinnar eru við mynni Blikdals sem er stór grösugur dalur í vestanverðri Esju. Dalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.
Saga Ártúns
Ártún var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“
Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda.
Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar. Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð.
Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross.
Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni.
Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.
Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám.
Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.
Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.
Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda.
Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn.
Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.
Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús.
Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg. Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.
Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“
Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954.
Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.
Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946. Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðin seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.
Flestar stríðsminjarnar á jörðinni eru holur sem rutt hefur verið upp úr í kringum þær. Að sögn Kristrúnar voru stærri holurnar notaðar fyrir loftvarnarbyssur en þær minni notuðu hermenn til að fela sig í og strengdu yfir þær græn net.
Hlutverk Ártúns sem kvikmyndaver við upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi er athyglisvert. Það hefur trúlega haft áhrif á staðarval við upptökur á kvikmyndum að einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað rétt ofan við bæinn.
Í Ártúni er um að ræða minjaheild búsetuminja sem samanstendur af bæjarhól með híbýlum og skepnuhúsum. Aðgengi að minjunum er gott svo ef vilji væri fyrir hendi mætti gera það enn betra og einnig mætti setja fram upplýsingar með sögu staðarins í máli og myndum. Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni sýna einstakt búsetulandslag í næsta nágrenni Reykjavíkur.
Búsetuminjar sem er að finna á jörðinni eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Minjarnar hafa ekki orðið fyrir raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni og eru einstakar vegna þess að þær eru vel varðveitt minjaheild innan vébanda höfuðborgarinnar.”
Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.