Vatnsendahæð

Sigurður Harðarson, rafeindavirki, sendi FERLIR eftirfarandi stórmerkilega samantekt um “Íslensku útvörpin” í framhaldi af heimsókn á Langbylgjustöðina á Vatnsenda, sem nú stendur til að rífa – sjá HÉR.
FERLIR þakkar Sigurði fyrir þennan mikilsverða fróðleik….

Íslensku útvörpin

LW sendir 1965

LW sendir 1965 á Vatnsendahæð.

“Íslendingar framleiddu útvarpstæki á árunum 1933 til 1949 þegar erfitt var að flytja inn vörur vegna kreppunnar og seinni heimsstyrjaldarinnar. Þessi merkilega saga verður rakin hér í stuttu máli. Ekki hafa fundist haldbærar heimildir um þessa framleiðslu nema nokkur viðtöl við menn sem unnu við þetta á þessum árum, auglýsingar og verðlistar yfir lampa og íhluti. Skoðuð hafa verið tæki sem enn eru til og þau borin saman við innflutt til að gera sér grein fyrir smíðinni. Hvergi hefur fundist verðlisti yfir íslensku tækin, aðeins þau innfluttu.
Saga útvarpsins er heillandi því útvarpið rauf einangrun og færði mönnum strax í upphafi fréttir og fróðleik. Við vitum kannski ekki með vissu hver setti saman fyrsta útvarpstækið, en vitum þó að árið 1893 sýndi uppfinningamaðurinn Nikolai Tesla þráðlaust útvarp í St. Louis, Missouri.
Þrátt fyrir þessa sýningu er Guglielmo Marconi sá aðili sem oftast er álitinn faðir og uppfinningamaður þráðlausra útvarpssendinga.
Fyrstu útvarpssendingar í heiminum eru taldar vera þegar Bandaríski uppfinningamaðurinn Lee De Forest útvarpaði tveim óperum í tilraunaskyni 1910. Þá notuðu menn kristaltæki sem þurftu aðeins loftnet og gott jarðsamband ásamt heyrnatóli. Aðeins einn gat hlustað í einu.
Daglangar útsendingar nokkurra útvarpstöðva í Bandaríkjunum hófust 1916 og stóðu allt upp í sex tíma samfleytt í tilraunaskini. Frakkar gerðu fyrstu opinberar tilraunir með útsendingar útvarps 24. des. 1921. Frá París hófust síðan reglulegar fréttasendingar 1925. Effelturninn var notaður sem loftnet útvarpsstöðvarinnar.
Í Bretlandi hófust útvarpsútsendingar árið 1922 með stofnun breska ríkisútvarpsins BBC í London. Útsendingarnar dreifðust fljótt um Bretland.
29. október 1923 var fyrst sent út útvarpsdagskrá í Þýskalandi frá Vox-Haus í Berlín.

Loftnetsstaugin á Seyðisfirði

Útvarp

LW Vatnsendir 1965 – stjórnborð.

Fyrstir Íslendinga til að hafa þráðlaus fjarskipti eru félagarnir Þorsteinn Gíslason og Friðbjörn Aðalsteinsson á Seyðisfirði á heimasmíðuð sendi og viðtæki árið 1913.
Þorsteinn varð síðan fyrstur Íslendinga til að ná útvarpssendingum frá Þýskalandi, London og París. Árið 1919 reisir Þorsteinn 25 m hátt mastur við íbúðarhús sitt á Seyðisfirði og náði þá tilraunasendingum útvarpsstöðva í Evrópu og sendingum loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík á sín heimasmíðuðu viðtæki. Tæki þessi eru ennþá til á Tækniminjasafninu á Seyðisfirði.

Útvarp

Marconi sendirinn frá 1951 á Vatnsendahæð.

Veturinn 1920 gerir Otto B. Arnar loftskeytafræðingur fyrstur manna tilraun með útvarpssendingar á Íslandi, þá nýkominn frá námi hjá uppfinningamanninum Lee De Foster í Bandaríkjunum. Fyrst er vitað til þess að hér á landi hafi verið seld útvarpstæki 1924.

Útvarp

Fyrstu útvarpssendingar í heiminum eru taldar vera þegar Bandaríski uppfinningamaðurinn Lee De Forest útvarpaði tveim óperum í tilraunaskyni 1910. Þá notuðu menn kristaltæki sem þurftu aðeins loftnet og gott jarðsamband ásamt heyrnatóli. Aðeins einn gat hlustað í einu.

1926 tekur til starfa fyrsta útvarpsstöð Íslendinga. Otto B. Arnar stofnaði félagið HF útvarp og útvarpaði í tvö ár, en varð að hætta vegna fjárskorts.
Útsendingar náðust langt út á haf og allt austur í Rangárvallasýslu.
Sendirinn var staðsettur í húsi Loftskeytastöðvarinnar á Melunum í Reykjavík. Ekki er vitað hvað varð um þennan sendi eftir að stöðin hætti starfssemi.
1927 setur breski trúboðinn Arthur Gook upp útvarpsstöð á Akureyri með styrk frá breskri ekkju. Stöðin var það aflmikil að sendingar náðust í Kanada, Kaliforníu og í Ástralíu þegar skilyrði voru hagstæð.

Útvarp

Mynd frá 1930- fyrsti sendirinn á Vatnsendahæð.

Gook flutti inn talsvert af útvarpstækjum fyrir Akureyringa, bæði kristaltæki og lampatæki. Stöðin hætti útsendingum eftir tvö ár þar sem leyfi fyrir útsendingum hennar fékkst ekki framlengt. Loftnetsstangir Cook. Þá var búið að samþykkja lög á Alþingi um stofnun RUV.
Innflutningur á viðtækjum var ekki mikill enda kostaði útvarp á bilinu 260 til 550 krónur á meðan verkamannalaun voru aðeins 1 kr. á tímann og bændur fengu 40 til 80 aura fyrir eitt kíló af nautakjöti. Það hefði því tekið verkamanninn tvo til þrjá mánuði að vinna fyrir einu útvarpstæki og bóndinn þurft að selja rúmlega hálft tonn af kjöti.
Ríkisútvarpið er stofnað 1930 og hóf útsendingu 20. desember sama ár. Upphaflega átti að senda út dagskrá frá Alþingishátíðinni en vegna tafa á afhendingu búnaðar var það ekki hægt.
Fyrsti langbylgjusendirinn á Vatnsendahæð við Reykjavík var 16 Kw en stækkaður í 100 Kw 1938.
RUV fékk sama ár einkarétt á innflutningi og sölu viðtækja og stofnuð var Viðtækjaverslun Ríkisins 1931. Árið eftir er sett á laggirnar Viðtækjavinnustofa Ríkisins til að sjá um viðhald útvarpstækja og tók hún til starfa 1. október það ár. Tveim árum síðar, eða 1933 bætist við Viðtækjasmiðja.
Þar voru hönnuð og smíðuð ódýr útvarpstæki til að mæta Langbylgjustöðin Vatnsenda þörfum landsmanna svo ná mætti sendingum RUV.
Fyrst voru framleidd mjög einföld tæki sem náðu aðeins endingum RUV í Reykjavík og nágrenni. Tækin voru eingöngu drifin af rafhlöðum sem hægt var að hlaða. Flestir sveitabæir voru án rafmagns. Á örfáum bæjum voru þó komnar lágspenntar vindmyllur á þessum tíma. Menn fóru því jafnvel fótgangandi dagleið með rafgeymi á bakinu til að fá hann hlaðinn.

Útvarp á hvert heimili
Útvarp.Viðtækjastofa Ríkisútvarpsins var með sérstaka þjónustu í mörg ár til að hlaða rafgeyma fyrir útvarpsnotendur. Þetta ár 1933 er mikið auglýst slagorðið “Útvarp á hvert heimili“. Í blöðum og bæklingum.
Algengasta gerð tvöfaldrar rafhlöðu voru 1,5 v. og 90 volt.Í Árbók Félags útvarpsnotenda í janúar 1932 er kynnt að Viðtækjaverslun Ríkisins ætli að gefa mönnum kost á að kaupa útvarpstæki með afborgunum. „Sömu leiðis verði rafgeymar og þurrafhlöður á kostnaðarverði“. Í sömu grein segir „Þá mun Viðtækjaverslunin taka upp þá nýbreytni að flytja inn tæki óuppsett. Geta menn þá sjálfir ráðið gerð skápanna. Geta þá með þessum hætti tækin orðið notendum ódýrari og jafnframt skapast vinna í landinu sem óþarft er að borga útlendingum fyrir“.
ÚtvarpÁrið eftir er rifist um hátt afnotagjald sem var kr. 30 á ári. Skrifað er um í blöðum að nær væri að hafa þetta lágan nefskatt. Almennasta verð ódýrra tækja sé 140 til 170 kr. Rekstrakostnaður slíkra tækja sé á ári með afnotagjaldi 75 til 90 kr. „Þá upphæð geti fátækur fjölskyldufaðir með mikla ómegð ekki greitt. Útvarp geti því ekki orðið það menningartæki sem því sé ætlað“.
Þar sem útvarpstæki kostuðu mikið var oft lagður strengur milli húsa frá útvarpstæki í hátalara næsta húss. Eigi að síður þurfti að greiða fullt afnotagjald eins og af útvarpstækinu.
Þegar fyrsta útvarpstækið kom til Húsavíkur var lögð lína milli fimm húsa frá tækinu.
Fyrstu útvörpin sem smíðuð voru hjá Viðtækjasmiðjunni höfðu tvo lampa og voru aðeins fyrir heyrnartól.

Tveggja lampa tæki fyrir heyrnatól

Útvarp

Þessi fyrsta útgáfa náði ekki sendingum RUV til dæmis á Vestfjörðum. Þá var bætt við einum lampa í viðbót sem gerði tækið næmara og um leið komu þau með innbyggðum hátalara. Til að auðkenna tækin var fyrsta gerðin skýrð Suðri og næsta gerð fékk nafnið Vestri. Mest var framleitt af þeirri gerð. Árið 1938 var búið að framleiða 550 tæki og 200 fyrir skip, en þau tæki voru í málmkassa á meðan hin voru í trékössum. Eftirspurnin var mikil en erfitt var að fá íhluti frá Evrópu í smíðina þegar nær dró stríðsbyrjun sem hamlaði framleiðslunni. Þá var brugðið á það ráð að fá íhluti frá Ameríku og því eru tækin eftir 1940 blönduð evrópskum og amerískum íhlutum. Að jafnaði unnu 3–5 menn að þessari smíði. Viðtækjasmiðjan hætti störfum 1949 og þá var búið að framleiða nálægt 2000 viðtækjum eftir því sem næst verður komist.
Á Austfjörðum var erfitt að nota Vestra því þar voru sendingar erlendra útvarpsstöðva mjög sterkar og því var brugðið á það ráð að smíða vandaðri tæki sem gátu frekar einangrað sendingar RUV frá erlendu stöðvunum. Sú útgáfa fékk nafnið Austri. Þau tæki voru framleidd að mestu eftir pöntunum. Áfram var smíðin þróuð eftir því sem á leið. Smíðuð voru sérstök lítil tæki sem fengu heitið Sumri og var ætluð fyrir sumarhús í nágrenni Austri Reykjavíkur, enda fjölgaði þeim mikið upp úr 1940. Ástæða þess í mörgum tilfellum var að menn byggðu sér þessa bústaði til að eiga athvarf ef loftárás yrði gerð á Reykjavík.

Útvarp

Tvö tæki eru til í dag sem keypt voru eingöngu í slíka bústaði sem voru rétt ofan við Reykjavík. Allt voru þetta tæki sem gengu fyrir tvískiptum rafhlöðum, annar hlutinn var fyrir glóð og hinn fyrir háspennuna á lampanna. Með því að skoða öll þau tæki sem vitað er um kemur í ljós að hönnun Vestra var seinna notuð við smíði Suðra og Sumra sem fyrst voru aðeins tveggja lampa tæki. Sumarbústaður ofan við Rauðhóla Síðustu árin sem þessi framleiðsla var í gangi kom þriggja lampatæki sem heitir Sindri. Það var svipað uppbyggt og Vestri, en með vibrator spennugjafa sem gekk fyrir rafgeymi 6 – 12 eða 32 volta eftir auglýsingum að dæma frá þessum tíma. Þurfti þá ekki lengur tvískiptar rafhlöður. Nú dugði einn rafgeymir. Á þessum tíma var eingöngu farið að notast við efni frá USA vegna stríðsins, þétta, viðnám og lampa.

Sumri, tveggja lampa
Útvarp

Auglýsing í blaðinu „Útvarps tíðindi“ í ferbrúar 1947 er svohljóðandi: „Viðtækjasmiðja Ríkisútvarpsins smíðar eftir pöntun eftirfarandi gerðir af viðtækjum: Þriggja lampa tækið „Sindri“, fyrir 6, 12 og 32 volta rafgeyma, sparneytið og traust viðtæki sem gefur góð tóngæði. Þriggja lampa tækið „Suðri“ fyrir þurrrafhlöður með spari stilli sem gefur 30% möguleika á sparnaði rafhlöðunnar. Fjögra lampa super viðtækið „Austri“ fyrir 6, 12 og 32 volta rafgeyma spennu“. Eitt tæki hefur fundist af Sindra og er það fyrir 12 volta spennu.
Sama ár og smíði íslensku tækjanna hófst veitti Alþingi Blindrafélagi Íslands styrk til að eignast 10 útvarpstæki til að lána eða leigja blindum gegn vægu verði svo þeir gætu notið dagskrár RUV. Styrkurinn var kr.1500 sem gefur okkur vísbendingu um að hvert tæki hafi kostað kr.150.- Þetta er það eina sem hefur fundist um verð þessara íslensku tækja, ef rétt er. Á aðalfundi Blindrafélagsins 1935 er kynnt ákvörðun Alþingis að afhenda félaginu önnur 10 viðtæki og blindir fái undanþágu frá greiðslu afnotagjalda.
Eftir að innflutningur hófst frá Bandaríkjunum og Kanada komu tilbúnar einingar sem flýtt hafa fyrir samsetningu tækjanna. Vibrator spennugjafinn er ein af þeim, en hann framleiddi háspennu fyrir lampana. Við það losnuðu menn við tvískiptar rafhlöður. Ekki hafa fundist heimildir né tæki frá þessari íslensku framleiðslu sem hafa haft spennugjafa fyrir 220 volta rafmagn þéttbýlisins. Vibrator eining í útvarpi Á fyrstu árunum var sérstaklega tekið fram þegar innflutt tæki voru auglýst að lampar fylgdu með ásamt hátalara, sem hét „GELLIR“ í þá daga. Sendistöðin á Vatnsenda var stækkuð 1938 úr 16 kw. í 100 kw. Það breytti miklu fyrir afskekkta sveitabæi á landinu. Þrátt fyrir að erlendum útvarpsstöðvum fjölgaði eftir stríð með auknum sendistyrk nýttust þessi einföldu útvarpstæki ágætlega, sérstaklega inn til sveita. Ég veit dæmi þess að svona tæki var í notkun til ársins 1955 á sveitabæ í Húnavatnssýslu. Öll þessi tæki, hvort sem þau voru innflutt eða heimasmíðuð, þurftu loftnet sem var langur vír, 30 – 50 m ýmist milli húsa eða frá húsi í staur. Sumir notuðu efsta vír í nærliggjandi girðingu og fl. Í einstaka tilfellum stálust menn til að nota aðra símalínuna sem lá að bænum fyrir loftnet.

Útvarp

Vestri.

Ein gerðin af Vestra er einmitt með þéttum í seríu við loftnetsinntakið sem hefur verið bætt við, hugsanlega til að deyfa ekki sambandið á símalínunni. Það er þó ágiskun undirritaðs.
Einnig seldi Viðtækjaverslunin lausa þétta sem hægt var að tengja milli loftnets og útvarpsins, kannski í þessum tilgangi. Seldir voru einnig svokallaðir „Ljósnetsþéttar“ sem ætlaðir voru til að nota mætti rafleiðslur hússins sem loftnet. Þetta var ekki hættulegt því tækin voru eingöngu tengd við rafhlöður, ekki rafstraum hússins. Í blöðum og bæklingum eru víða góðar leiðbeiningar hvernig best er að ganga frá loftneti fyrir útvörpin. Hjá Viðtækjavinnustofunni starfaði maður að nafni Gunnar Sörensen í mörg ár, eingöngu við uppsetningu loftneta.
Margar sögur eru til af því hvernig menn björguðu sér í þeim málum. Jóhann Örn símaverkstjóri sagði undirrituðum frá að á bæ innarlega í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu var útvarpið tengt inn á símalínuna og truflaði sambandið, sérstaklega þegar spiluð var tónlist. Þá heyrðist jafnvel betur í sendingum RUV en á milli símtækja. Skúli Pálson símaverkstjóri á Blönduós var oft búinn að reyna að standa bóndann að verki en tókst ekki því hann var ávalt búinn að aftengja tækið þegar Skúli kom á staðinn. Á endanum fékk Skúli þessi Jóhann Örn til að fara á ómerktum bíl og þá sást hvað var í gangi. Ekki fylgdi sögunni hvort bóndinn setti upp sérstakt loftnet eftir þetta.

Þéttir fyrir afturverkun
ÚtvarpTæknilega ástæðan fyrir þessu er að tækin eru mjög einföld og merkið var látið fara tvisvar í gegnum sama stigið. Þetta er kallað „Afturverkun“.
Þegar styrkur útsendingar og skilyrði voru góð gat í útvarpstækinu magnast upp styrkur sem lak svo til baka út í loftnetsrás tækisins sem heyrðist þá vel í símtækjum nærliggjandi bæja.
Þar sem ekki var útvarpað allan sólahringinn var slökkt á tækjunum milli dagskráliða og loftnetin oftast aftengd með sérstökum rofa sem Viðtækjaverslunin seldi og hétu „Grunntengisnari“.
(Í dag köllum við þetta hnífrofa). Því var útvarpið ekki að trufla símasambandið nema einstaka sinnum. Önnur ástæða rofans var til að verja tækin skemmdum í eldingaveðri.
Þó svo Langbylgjusendirinn á Vatnsenda hafi verið stækkaður 1938 úr 16 Kw í 100 Kw dugði það ekki fyrir norður og austurland þar sem útvarpstöðvum fjölgaði ört í Evrópu og styrkur sendanna jókst. Því var gripið til þess ráðs að setja upp á Eiðum útvarpssendi á miðbylgju, 488 metra tíðni. Byggt var hús útbúið vönduðu viðtæki og sérstöku loftneti fyrir viðtöku frá Reykjavík um 700 metra frá sendinum á Eiðum. Sendirinn var tekinn í notkun 27. sept.1938 og breytti miklu fyrir austfirðina, sérstaklega á Djúpavogi og Þórshöfn. Þá hafði Viðtækjasmiðjan framleitt Vestra með bæði lang og miðbylgju. Þannig Vestrar hafa fundist og eru til á söfnum. Vestrarnir heita því, Vestri L3 og Vestri ML. Vestrinn, ML er með aukarofa umfram hinn til að skipta milli bylgjusviða. Austrarnir sem smíðaðir voru fyrir Austfirðinga eru bæði með lang- og miðbylgjum. Á framhlið þeirra er stilliskífa sem er ekki á neinum af hinum gerðunum.
Í blaðinu Útvarpstíðindi í mars 1940 er viðtal við Jón Alexandersson yfirmann Viðtækjasmiðjunnar. Hann segir frá því að sérstakur Vestri sé nú framleiddur fyrir Austfirði. Einnig kemur fram í viðtalinu að tilbúinn sé hönnun á Austra, en framleiðsla sé ekki hafin vegna skorts á íhlutum til smíðinnar.
Undirritaður á Austra sem framleiddur er í lok sama árs, eingöngu með íhlutum frá USA.
Það virðist því hafa ræst úr þessum skorti þegar leið á árið.

Útvarp

Sindri.

Í auglýsingu frá árinu 1942 kemur fram að Austri sé framleiddur eftir pöntunum. Hægt sé að fá hann bæði í eikar eða mahóní kössum Sennilega hefur dregið úr framleiðslu íslensku tækjanna fljótlega eftir að stríðinu lauk. Nokkur þeirra tækja sem undirritaður hefur skoðað eru stimpluð eða skrifuð dagsetning og ártal þegar tækin eru prófuð. Það eru viðgerðamiðar á botni tækjanna sem sýna hvenær þau voru í viðgerð hjá V.R. Síðasta ártalið sem fundist hefur er frá desember 1946.
Útvarp

Undirritaður og útvarpsvirkinn Helgi Jóhannesson sem býr á Akureyri hafa gert könnun og skoðað flest öll tæki sem vitað er um, bæði á söfnum og í einkaeigu. Helgi hefur einnig verið duglegur við að safna og gera upp gömul tæki sem hafa orðið eins og ný á eftir. Hann hefur því gott vit á þessum hlutum. Það hefur verið hægt að aldursgreina tækin að einhverju leyti eftir smíðinni og hvaða lampar ásamt íhlutum sem eru notaðir, þar sem við vitum að efniviður í smíðina fékkst ekki frá Evrópu eftir árið 1939. Viðtækjasmiðja Ríkisútvarpsins smíðaði fleira en útvarpstæki.

Ári áður en smiðjan er stofnuð formlega 1933 var Viðtækjaverkstæðið beðið að framleiða litlar talstöðvar fyrir fiskibáta. Tveimur árum síðar, 1934 er búið að smíða 45 talstöðvar með 4 w sendiorku í loftnet. Þessar talstöðvar reyndust mjög vel og breyttu miklu fyrir sjómenn. Þegar hér var komið er hafin smíði útvarpstækjanna og því var ákveðið að Radioverkstæði Landsímans tæki við þessari framleiðslu. Til er viðtæki frá þessum tíma sem er merkt viðtækjasmiðjunni og bætt svo við merki Landsímans sem segir okkur að Landsíminn hafi fengið hálfkláruð tæki og klárað þau. Ástæðan fyrir þessu öllu var að ekki voru framleiddar erlendis hentugar litlar talstöðvar fyrir fiskibáta. Landsíminn framleiddi talstöðvar til ársins 1980, aðallega fyrir báta og fiskiskip.
Árið 1958 var einnig hafin framleiðsla talstöðva til að nota í bílum. Landsíminn leigði út tækin sem smíðuð voru hjá þeim og er því ekki til verðskrá yfir þeirra framleiðslu frekar en íslensku útvarpstækin. Vitað er að leiga á talstöð var kr. 40 á ári 1945 en var kominn í 3 til 6 þúsund árið 1960, eftir hverslags tæki var um að ræða.

Útvarp

Austri.

Smíðasaga þessara íslensku viðtækja, Suðra, Vestra L3 og ML, Austra, Sumra og Sindra er stórmerkileg að því leyti að erfitt var að fá tæki erlendis frá og gjaldeyrir lítill í landinu. Þetta hefur því flýtt verulega fyrir að almenningur gæti notið dagskrár RUV svona snemma eftir stofnun þess.
Tækin voru framleidd í smá skömmtum eftir því sem komið hefur fram í viðtölum við starfsmenn Viðtækjavinnustofunnar. Þegar mikið var að gera við viðgerðir voru menn teknir úr smíðinni og öfugt þegar lítið var að gera var þeim fjölgað við smíðina.
Viðtækjasmiðjan og Viðtækjavinnustofan voru í raun eitt og sama fyrirtækið. Það var kannski efnað niður í 15 til 20 tæki og þau smíðuð í áföngum, útgangshlutinn fyrst og loftnetshlutinn síðar. Í lokin voru tækin sett í kassana og prófuð.
ÚtvarpHúsgagnasmiður sem vann hjá RUV á þeim tíma smíðaði alla kassana utan um þessi tæki. Kassarnir breyttust með tímanum og eru til dæmis fyrri gerðir Vestra í stærri kassa en seinni gerðirnar. Sama er með Sumra og Austra. Þar eru kassarnir ekki alltaf eins.
Eins og áður hefur komið fram virðist sem frumgerðin af Suðra sem var tveggja lampa tæki í upphafi hafi verið notuð óbreytt en endurbætt með þriðja lampanum og þá var kominn Vestri. Sú hönnun er síðan notuð áfram við smíði yngri tækjanna af Suðra, Sumra og Sindra.
Fyrst eru þessi tæki eingöngu fyrir langbylgju, enda smíðuð aðeins til að ná sendingum RUV. Seinna kemur svo Vestri með miðbylgju. Við sem erum að skoða þetta teljum að Vestri L3 þýði, „eingöngu langbylgja“ og Vestri ML sé auðkennið þar sem hann er með bæði mið og langbylgju. Hjá Helga á Akureyri er til kassi utan af Sumra með fjórum tökkum og er merktur Sumri ML 123. Það þýðir sennilega mið og langbylgja en við vitum ekki hvað 123 stendur fyrir. Einnig höfum við fundið Sumra með tveimur lömpum og annan með þremur lömpum. Þessi tveggja lampa Sumri er með raðnúmerinu 3002 sem þýðir að hann er nr. tvö í framleiðslunni og framleiddur 1943. Sama ár var hann keyptur til að hafa í sumarbústað við Rauðhólana ofan Reykjavíkur. Hinn Sumrinn er þriggja lampa og hefur raðnúmerið 3041og framleiddur í maí 1945. Það tæki var einnig í sumarbústað rétt ofan Reykjavíkur alla tíð. Íhlutir og lampar þeirra beggja er upphaflega efni frá USA. Skipt hefur verið um lampa í þeim yngri og settir Evrópulampar sem framleiddir voru eftir stríðsárin.
Útvarp
Í mörgum af þessum gömlu tækjum er sambland af Evrópu og USA lömpum eftir því hvenær þau biluðu og hvað til var á lager hérlendis.
Í flestum tilfellum er merkt við sökkla lampanna á tækjunum nöfn þeirra lampa sem notaðir voru í upphafi. Það eitt staðfestir svolítið hvenær tækið var smíðað ef ekki er stimpill eða skrifað framleiðsluárið. Sami lampi getur heitið mismunandi nöfnum eftir því frá hvaða framleiðanda.
Útvarp
Menn björguðu sér á aðdáanlegan hátt í kreppunni. Þegar lampi bilaði og ekki var til lampi með samskonar sökkli, en var að öðru leyti eins, mixuðu þeir einfaldlega nýjan lampa ofan í sökkul þess gamla til að þurfa ekki að skipta um sökkul í tækinu og umvíra það. Austri er Superheterodyne , mjög frábrugðinn öllum hinum. Hin tækin öll kallast Straight. Munurinn í stuttu máli er að Straight tækin eru nokkurs konar magnarar. Í inngangi þeirra er loftnetsaðlögunin stillt inn á tíðni sendistöðvarinnar og merkið síðan magnað í endastigið sem drífur hátalarann.
Rétt áður en það fer síðasta spölinn er merkið sent til baka inn í fyrstu rás og fer þá í gegnum sömu lampana aftur og endar með meiri styrk til hátalarans. Þetta kallast „Afturverkun“. Með þessari einföldu útfærslu er tækið ekki eins varið fyrir truflunum frá stöðvum nálægt tíðni t.d. RUV. Sem sagt, bandbreiðari en hin útfærslan. Þetta gerði ekkert til fyrstu ár útvarpsins þar sem erlendar stöðvar voru fáar.
Útvarp
Austri er með einum lampa í viðbót sem kallast ocillator (sveifluvaki). Fremsti hluti tækisins er samskonar og í hinum. Þessi ocillator býr til sína eigin tíðni sem blandast síðan tíðni sendistöðvarinnar í næsta lampa. Þar fyrir aftan eru mjög þröngar rásir sem magna mismunatíðni innkomumerkisins og ocillator merkisins sem fer áfram til hátalarans. Þar af leiðandi er tækið ekki að magna sendingar annarra stöðva til hátalarans, en bara hljóðið frá stöðinni sem stillt er á hverju sinni. Engin afturverkun er í þessari gerð. Í smíði Austra fara því talsvert fleiri íhlutir en í hin tækin. Sindri er þriggja lampa Straight tæki eins og Vestrinn, nema hann var ekki fyrir tvískiptar rafhlöður eins og komið hefur fram.
útvarpÍ honum er vibrator spennugjafi. Erlendir framleiðendur komu fyrst fram með Superheterodyne tækin árið 1933 og eftir 1934 finnast ekki Straight tæki auglýst, enda hefur það ekki gengið erlendis að nota slík tæki þó það hafi verið í lagi hér inn til sveita mikið lengur.
Í þeim hremmingum sem landinn bjó við í upphafi stríðsáranna er yfirmaður Viðtækjaverslunar Ríkisins sendur til Bandaríkjanna 1942 til að gera innkaup á amerískum útvarpstækjum þar sem ekkert fékkst frá Evrópu. Hann telur sig hafa náð samningum um kaup á 2700 tækum en ekki er vitað hvort þau skiluðu sér öll. Hörgull var á tækjum fyrir almenning vegna stríðsins við Japani og í Evrópu. Lítill hluti þeirra tækja sem til eru í dag hér á söfnum og í einkaeign eru frá USA. Flest eru Evrópu tæki framleidd fyrir og eftir stríð. Tækjunum sem komu frá USA þurfti að breyta til að ná RUV því eingöngu var notuð miðbylgja þar í landi.
Á hernámsárunum var mikið eftirlit með tæknimönnum sem höfðu eitthvað vit á sendi og viðtækjum. Til dæmis gerði herinn kröfu um að viðgerðamenn tækju mið og stuttbylgjur úr sambandi ef tæki kæmi til viðgerðar á stríðsárunum.
útvarpÞegar undirritaður hóf nám 1961 voru að koma í viðgerð tæki sem þannig var ástatt með. Það fór því smá tími í að lagfæra og breyta til baka tækinu ásamt því að gera við þau. Við þessa eftirgrennslan um hvernig framleiðslu íslensku tækjanna var háttað hefur margt fróðlegt komið í ljós.
Í Lesbók Morgunblaðsins 18. apríl 1926 er talað um að Víðvarp, (Útvarp) geti verið mikill friðarspillir þar sem fólk komi sér ekki saman um sömu dagskrá. Í sömu grein er vitnað er í viðtal við yfirmann lögreglunnar í Gautaborg sem heldur því fram að glæpum unglinga hafi fækkað mikið eftir að útvarp hóf starfsemi þar í landi. Menn hafa því ekki verið sammála um ágæti útvarps frekar en árið 2021.

Útvarp

Lampi.

Snorri B.P. Arnar auglýsir Philips B-Spennutæki með nýjum lömpum 26. jan. 1928. Lamparnir eiga að vera miklu betri en eldri lampar og fleira er minnst á. Ekki er gefið upp verð.
Auglýsing 19. mars 1929 byrjar eftirfarandi: „Hvers vegna MENDE? Vegna þess að það eru sterkustu, ódýrustu, hljómfegurstu og bestu radioviðtækin. Þau eru samt 270 kr. ódýrari en önnur sambærileg tæki“. Áfram hélt lofið og auglýsingin endar síðan á að leita skuli upplýsinga hjá Jóni Gunnarsyni hjá Eggerti Kristjánssyni og Co. 1930 koma fyrst á markað í Bandaríkjunum bílútvörp. Tveggja daga verk var að setja tækið í bíl, Taka þurfti mælaborðið í sundur til að koma fyrir tækinu og hátalara. Klippa þurfti gat á þakið fyrir loftnetið og þar sem tækin gengu fyrir eigin rafhlöðum varð að saga gat í gólfið fyrir auka rafgeyma. Handbókin sem fylgdi til leiðsagnar var 28 síður.
Fyrstu tveir bílarnir með útvarpstæki komu til landsins sama ár, 1930.
Bifreiðastöð Reykjavíkur auglýsir 30. nóv.1930. „B.S.R hefur fengið sér tvær bifreiðar með 5 lampa útvarpsviðtæki. Heyrist ágætlega á viðtækin þó bifreiðin sé á ferð. Bifreiðarnar eru báðar af gerðinni Studebaker“. Seinna var flutt mikið inn af útvarpstækjum sem smíðuð voru fyrir Buick bíla og ávallt kölluð hér „Buick tækin“. Þessi tæki voru þægileg að því leyti, allt tækið er í einu boxi og því auðveldara að setja í hvaða bíltegund sem var.
1931 er talið að til séu um 3000 útvarpstæki á landinu. Þar af 1360 í Reykjavík. 1932 eru skráðir um 5000 notendur.
Útvarp
Viðtækjaverslun Ríkisins auglýsir 21. sept. 1933. „Margar nýjar gerðir viðtækja fyrir bæjarspennuna eru nú komnar. Snúið ykkur til umboðsmanna“.
(Á sama ári hófst smíði Íslenskra útvarpstækja hjá sama aðila, eingöngu fyrir rafhlöður).
Árið 1933 voru aðeins þrír útvarpsvirkjar með réttindi. Það voru þeir Otto B. Arnar, bróðir hans Snorri P.B.Arnar og Jón Alexandersson.
ÚtvarpHjá Viðtækjaverkstæði Ríkisútvarpsins voru haldin námskeið og margir fengu réttindi þaðan.
1938 er síðan stofnað Félag Útvarpsvirkja í Reykjavík. Stofnfélagar voru 19.
20. des.1934 auglýsir Viðtækjaverslun Ríkisins í blaðinu Degi. „Nýjar tegundir útvarpstækja. Verðið er lægra en nokkru sinni áður. Fyrirliggjandi 3-4-5-6-7 lampa tæki“. (Geta má þess að þá kostuðu innflutt tæki frá 175 upp í 820 krónur. Verkamaður var með 1 krónu á tímann á þessum árum.)
Viðtækjaverslun Ríkisins auglýsir í Fálkanum 19. des. 1936. „Viðtæki á lægra verði hér á landi en í öðrum löndum álfunnar“. Myndin í auglýsingunni er af erlendu tæki.
Það kemur fram í texta auglýsingarinnar að Viðtækjaverslunin sé ekki rekin með hagnað í huga og takmarkið sé „ Viðtæki inn á hvert heimili“.
Undirrituðum dettur í hug hvort ekki sé verið að vitna í íslensku framleiðsluna án þess að þess sé getið sérstaklega þar sem áður hafði komið fram að þau væru 60% ódýrari en innflutt tæki. Hvergi hefur enn fundist verðlisti yfir þessi íslensku tæki.
Fyrstu árin er ekki viðgerðarþjónusta á landinu fyrir útvörp nema í Reykjavík. Komið var upp viðgerðarverkstæði á Akureyri 1934 og sá Grímur Sigurðsson um það verkstæði lengst af. Hann hafði starfað við útvarpsstöð Cook og var því vanur. Ísfirðingar kvarta mikið í dagblöðum um mitt árið 1940 að ekki sé þjónusta á staðnum þar sem þeir greiði 100 þúsund í afnotagjöld og 40 þúsund til Landsímans fyrir leigu á talstöðum.
„Hve lengi eigum við Vestfirðingar að vera afskiptir í þessum málum“, skrifa þeir.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – langbylgjustöðin.

Útvarpið kom sér fljótlega upp umboðsmönnum víða á landinu og gátu sumir þeirra gert við einfaldar bilanir, ráðlagt meðferð tækjanna og sett upp loftnet.Í útvarpstíðindum 2. tölublaði 1946 er verið að afsaka að fyrstu útvarpstæki sem eru á leið til landsins frá Evrópu eftir stríð séu í raun úrelt hönnun. Það sé 10 mánaða bið í að nýrri útgáfur verði á markaði hérlendis. Framleiðsla viðtækja til afnota fyrir almenning hafi ekki verið leyfð á Englandi og í Ameríku fyrr en eftir uppgjöf Japana á síðastliðnu sumri, en þó með miklum takmörkunum.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – viðtæki.

Í Útvarpstíðindum 1948 er sagt frá þeim nýungum að útvarpsframleiðendur á Englandi hafi fengið húsgagnasmiði í lið með sér við að hanna kassa utan um tækin. Þessi samvinna leiddi til fjörbreyttara útlits tækja árin á eftir.
Á fyrstu árum útsendingar útvarpsins þurfti nokkrum sinnum að skipta um senditíðni vegna truflana frá erlendum stöðvum. Einkum voru það rússneskar stöðvar og þegar stöðin í Luxemburg var stækkuð. Þetta olli sérstaklega gömlu fólki erfiðleikum sem ekki kunni að breyta stillingum tækja sinna. Fyrst var sent út á 1100 metrum, síðar á 1400,1638, 1639 og 1648 metrum. Viðtækjasmiðjan var lögð niður 1949 og framleiðslu útvarpstækja þar með hætt. Viðgerðavinnustofu Ríkisins var lögð niður 1960.
1967 er einkasala ríkisins á innflutningi og sölu útvarpstækja afnumin og Viðtækjaverslun Ríkisins þar með lögð niður á sama tíma, eftir 37 ára starfssemi.

Vatnsendahæð

Útvarpshúsið á Vatnsendahæð – teiknað af Guðjóni Samúelssyni.

Haldin var útsala á þeim lager sem til var og sagt er að valdir vinir hafi fengið tæki fyrir lítið.
Hugmyndin af þessari samantekt varð til þegar nokkrir eldri rafeindavirkjar stofnuðu „Hollvinafélag um sögu útvarpstækni á Íslandi“ í þeim tilgangi að bjarga útvarpstækjum og öðrum búnaði sem notaður hefur verið við útvarpssendingar frá því RUV var stofnað 1930, finna þeim varanlegan stað til varðveislu og sýningar fyrir almenning um ókomna framtíð.
Eftir 10 ár verður opinber útvarpsrekstur 100 ára og því dýrmætt að saga þess sé varðveitt.
Efni þetta er mikið til sótt í gömul tímarit og blaðagreinar frá því um aldamótin 1900 og síðar. Viðtöl við þá örfáu sem unnu hjá V.R. og enn eru á lífi. Síðan hefur undirritaður ásamt Helga Jóhannessyni rafeindavirkja á Akureyri skoðað tæki og getið í eyðurnar hvernig þessi framleiðsla fór fram. Myndirnar eru teknar af undirrituðum og sóttar í bækur og blöð. Markmið félagsmanna er að varðveita söguna og sem mest af gömlum tækjum sem sýna þróun útvarpstækja sem notuð hafa verið á Íslandi frá stofnun RUV árið 1930 til ársins 2000.”

Svar Sigurðar við viðleitni FERLIRs til birtingar efnisins var eftirfarandi: “Þú mátt nota þetta efni að vild því ég er bara ánægður að hafa getað náð þessum upplýsingum saman. Hvergi hefur verið skrifað um þessa merkilegu smíði svo ég viti og ég ekki fundið neitt nema smá brot sem ég tíndi saman ásamt því að vera  búinn að ræða við nokkra gamla menn sem unnu við þessi tæki en eru nú eru látnir. Ég og vinur minn höfum gert upp tæki sem við höfum komist yfir og þannig getað lýst þeim. Ég hef hjá mér nú allar gerðirnar og ætla að hafa tækin til sýnis á Skógarsafni í sumar. Útvarpið hefur ekki sýnt þessu neinn áhuga og kannski vita þeir sem ráða ekki af þessu þó ég hafi gefið safnstjóra RUV eintak.
Ef þig vantar fleiri myndir á ég mikið safn. – Kv. SH.

Apríl 2021.
F.h. Hollvinafélagsins,
Sigurður Harðarson, rafeindavirki

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – fornleifar…