Esja

Um var að ræða FERLIRsferð nr. 1500.
Ákveðið var að ganga mögulegar leiðir upp og niður EsjuleidEsjuhlíðar, auk hinnar alþekktu gönguleiðar með Mógilsá á Þverfellshorn. Fyrst verður fjallað svolítið um þá síðastnefndu, bæði vegna hversu vinsæl hún er og fjölfarin, en jafnframt ofmetin í ljósi annarra möguleika. Um er að ræða gönguleið frá bílastæðinu við Mógilsá. Reyndar getur verið hringleið eða upp og niður sömu leið. Vegalengdin jafngildir um 1 til 3 klst göngutíma, allt eftir því hversu langt er farið upp og hversu hratt. Hlíðin er aflíðandi neðst með hömrum efst og hækkun upp að Steininum er 597 metra hæð. Búið er að leggja ágæta göngustíga upp fjallið ef frá er talin malarflöturinn. Ferðahraðinn og aldur þeirra sem leggja á Esjuna er misjafn. Á meðan sumir dóla sér upp í rólegheitunum, þá reyna sumir að hlaupa upp í einum rykk. Einnig er hægt að velja um svo kallaða Skógarleið og er þá gengið í gegnum skóginn á leið upp Esjuna. Þeirri leið verður lýst hér á eftir.
SteinninnEftir stutta göngu frá bílastæðinu er komið að göngubrú áður en gengið er upp Þvergil sem er skammt frá Búðarhömrum. Þar fyrir ofan er svo Smágil. Hér greinist leiðin í tvennt. Velja margir að fara fara brattari leiðina fyrst og taka svo hina leiðina til baka. Slóðinn sem genginn er eftir er í misjöfnu ástandi. Í Einarsmýri er jarðvegurinn blautur sem er að koma undan snjónum og getur verið óskemmtilegt svæði til yfirferðar.
Gamla leiðin, liggur upp Langahrygg sem einnig er nefndur Gljúfradalsháls. Gengið er í bröttum skriðum uns komið er í mýrina. Handan hennar tekur svo bratti Þverfellshorns við. Leiðin hentar þeim sem vilja fara hratt yfir.
Gengid um skoginnSteinninn er sá viðkomustaður sem flestir stefna á og þeir sem treysta sér lengra taka því næst stefnuna á toppinn eða sjálft Þverfellshornið.
Upp að Steini er um 6,6 km upp í 597 m hæð með hækkun um 587 m. Töluverður bratti er frá Steininum upp að klettabeltinu, aðallega er um tvær leiðir úr að velja, sú fyrri sem að við fórum var nánast beint upp klettabeltið þar sem fylgt vegvísum, tröppum og keðjum. Seinni leiðin er aðeins vestar en þar sem var mikill snjór á þeirri leið og sér í lagi í kverkinni og við ekki með neinn búnað til að ganga á snjónum. Þessi kafli leiðarinnar getur verið erfiður fyrir óvana og lofthrædda. Að vetrarlagi þarf að fara að öllu með gát. Árið 1979 féll á þessum slóðum snjóflóð og létust 2 menn.
GenginÁ forsíðu Þjóðviljans 8. mars 1979 mátti lesa eftirfarandi frétt: “Tveir piltar fórust i snjóflóði í hlíðum Esju síðdegis Í fyrradag. Þeír hétu Stefán Baldursson, Tómasarhaga 22, 18 ára, og Sveinbjörn Beck, Brávallagötu 18, 17 ára gamall.
Um kl. 19.50 í fyrradag kom til kynning til lögreglunnar í Hafnarfirði frá 18 ára pilti, sem staddur var á bænum Leirvogstungu. Hann hafði farið með félögum sínum i fjallgöngu á Esju. Þeir voru á niðurleið, er snjóskriða féll á tvo þeirra nálægt Þverfellshorni. Hinn þriðji hafði dregist nokkuð afturúr á göngunni og varð það honum til lífs.
Hannes Hafstein framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins sagði að lögreglan hefði hringt þangað kl. rúmlega átta um kvöldið. Var þá gengid 2kölluð út björgunarsveitin Kyndill i Mosfellssveit, Björgunarsveitin Ingólfur, Flugbjörgunarsveitin og Hjálparsveit skáta og sendu þær menn strax á vettvang. Skömmu síðar voru björgunarsveitir i nágrenni Reykjavíkur kallaðar út og tóku alls um 200 manns þátt í leitinni.
Slysið varð milli kl. 18 og 18.30, þegar piltarnir þrír voru á niðurleið. Sá sem var efstur í hlíðinni og af komst, sá þegar hengjan brast og hélt þegar af stað til byggða að leita hjálpar. Snjódyngjan sem féll var 3-400 metra löng og 10-15 metra breið og var hún sumsstaðar ákaflega djúp. Lík annars piltsins fannst um kl. 1 um nóttina og lík hins um kl. 3.30. Björgunarstarf var erfitt, snarbratt og mikill kuldi. Varalið var kallað út til starfa um þrjúleytið um nóttina og var það á leið á slysstað, þegar síðara líkið fannst.
Gangan-3Piltarnir sem létu lífið i snjóflóðinu voru vanir fjallgöngumenn og annar þeirra var félagi í björgunarsveit í Reykjavík.”
Í DB þann 7 mars birtist eftirfarandi forsíðufrétt: “TVEIR 18 ÁRA PILTAR FÓRUST í SNJÓFLÓÐI — sá þriðji komst af í Esju í gær. Tveir 18 ára piltar úr Reykjavík létu lífið í snjóflóði í Esjunni síðla dags í gær. Þeir voru þar í skemmti- og æfingagöngu á fjallið. Voru þeir tveir, sem fórust, ívið á undan hinum þriðja, enda betur búnir og vanir göngumenn, annar félagi í björgunarsveit í Reykjavík. Er sá sem á eftir fór kom yfir hæðarbungu í göngunni á eftir félögum sínum, sá hann þá hvergi en sá nýfallna snjóskriðu. Hafði hún fallið ofarlega úr Þverfelli og fallið niður þröngt og bratt gil niður í Dýjakróka austan Gljúfurdals upp og NA af Esjubergi.

Gengid-4

Hróp, köll og eftirleit þess sem á eftir fór báru ekki árangur. Hélt hann þá rakleitt til bíls þeirra félaga sem stóð vestan Mógilsár og ók að Leirvogstungu þaðan sem hjálparkall barst kl. 7.50. Björgunarmenn úr Kyndli í Mosfellssveit fóru þegar á staðinn. Síðar bættist þeim liðsauki frá Ingólfi í Reykjavík, Flugbjörgunarsveitinni, björgunarsveitum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og skátum frá sömu stöðum. Kyndilsmenn lögðu þegar á fjallið og fóru eins langt og þeir gátu á snjósleðum í fylgd með þeim var pilturinn sem slapp við snjóflóðið. Vísaði hann veginn en komst ekki alla leið upp aftur sakir þreytu.
Snjóskriðan fannst án leitar. Reyndist hún um 400 m löng að sögn Erlings Ólafssonar formanns Kyndils, sem var einna fyrstur á slysstað. Hún var ekki nema 7—15 m að breidd og misdjúp eftir gilskorningnum.
AningUpphaf hennar var yfir bröttu gili ofarlega í Þverfelli. Leit var þegar hafin að piltunum tveimur og dreif að svo mikinn fjölda björgunarmanna að snjóskriðan var fljótlega yfirfarin. Undir kl. eitt fannst lík annars piltanna neðst í skriðunni á um 1,5 m dýpi. Lík hins fannst ekki fyrr en klukkan langt gengin fjögur í nótt og hafði þá snjóskriðan verið grandskoðuð. Leitaraðstæður voru erfiðar, snarbratt að slysstað og kuldi mikill, 15—20 stiga frost þar uppi.
Erlingur Ólafsson sagði að snjór í  skriðunni hefði ýmist verið kögglóttur, og voru sumir kögglarnir á stærð við bíla, eða lausamjöll sem harðnaði fljótt og fraus saman.
Geitholl-2Erlingur sagðist ekki vita til að snjóflóð hefðu valdið mannskaða í Esju fyrr, þó oft mætti sjá þess merki að þau hefðu fallið. Á venjulegum gönguleiðum í Esju er ekki hætta á snjóflóðum en þau falla í þröngum og bröttum giljum með miklum hraða og kynngikrafti er hengjur bresta. Björgunarstarfið gekk mjög vel og var öllum er þátt tóku í til sóma. Var samstarf gott milli sveita. Yfirstjórn var í bíl við Mógilsáin menn með talstöðvar um alla fjallshlíðina.”
Þá er takmarkinu náð; Þverfellshornið sjálft. Þessi vinsælasta leiðin á Esju frá Mógilsá er auðrötuð enda mörkuð af sérstökum göngustíg á fjallinu.
Haraldur

Efst eru nokkur klettaþrep sem auðvelt er að klífa en rétt er að fara varlega vegna hættu á grjóthruni frá fólki sem kann að vera fyrir ofan. Lofthræddum er bent á að ganga aðeins vestan við hornið og finna sér leið þar upp. Á útsýnisskífunni er gott að átta sig á örnefnum, enda útsýnið stórkostlegt ofan af Þverfellshorni yfir Stór-Reykjavíkursvæðið. Um klukkustundar gangur er frá vörðunni að Hábungu Esju sem rís hæst 914 m.
Það var sumarið 1994 að gerð var þessi nýja gönguleið upp að Þverfellshorni. Hún klofnar frá gömlu leiðinni og stefnir yfir Mógilsá og þar upp austan árinnar. Þar er ekki eins bratt og á gömlu leiðinni og því aðeins léttari. Göngustígarnir koma aftur saman fyrir neðan hamrana í Þverfellshorni.
Haraldur-2Hægt er að fá göngukort af Esjunni hjá Ferðafélagi Íslands, Mörkinni 6. Hafa ber þó í huga að gönguleiðakortið er arfavitlaust og því í beinlínis lífshættulegt að taka það of alvarlega. T.d. eru sýndar gönguleiðir upp Rauðhamar, Virkið, Gunnlaugsskarð og Kistufell. Allar þessar leiðir eru einungis fyrir klettaklifrara með fullkomnasta búnað sem völ er á.
Sagt er að fjallið sé ekki sigrað fyrr enn hinum eina sanna tindi er náð. Það er reyndar ekki rétt.
Í þessari tímamótaferð var gengið um Skógræktarstöðina á Mógilsá. Aðspurður um staðsetningu gamla bæjarins að Mógilsá og Kollafirði svaraði hann: “Kollafjarðarbærinn var skammt frá útihúsunum sem standa enn að hluta. Mógisárbærinn var örskammt frá planinu þar sem lagt er af stað í Esjugöngur.”

Gosmokkur

Í Alþýðublaðinu 16. ágúst 1967, segir m.a.: “Haraldur vígir skógræktarstöð – Haraldur ríkisarfi Noregs vígði í gær tilraunastöð skógræktarinnar að Mógilsá í Kollafirði, Móðargjöf Norðmanna til Íslendinga, en sem menn muna, færði faðir hans Ólafur V. Noregskonungur Íslendingum eina milljón króna norskra að gjöf, er hann kom hingað í heimsókn árið 1961. Til raunastöðin að Mógilsá er reist fyrir þetta fé. Stöðvarstjóri að Mógilsá er Haukur Ragnarsson, skógfræðingur, menntaður í Noregi.
AningarstadurLaust fyrir kl. 16.00 í gærdag hélt ríkisarfinn frá Reykjavík upp að Mógilsá í Kollafirði ásamt fylgdarliði sínu forseta Íslands hr. Ásgeiri Ásgeirssyni, landbúnaðarráðherra, Ingólfi Jónssyni og skógræktarstjóra, Hákoni Bjarnasyni o. fl. Uppi í Kollafirði var búið að koma fyrir stólum á grasflöt úti fyrir stöðinni og bauð stöðvarstjórinn, Haukur Ragnarsson gesti velkomna: Þarna voru saman komnir fyrirmenn í héraði og ýmsir skógræktaráhugamenn.
Hákon Guðmundsson yfirborgardómari formaður nefndar þeirrar, sem annaðist framkvæmdir að Mógilsá lýsti tildrögum að byggingunni, en uppdrætti gerðu þeir Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins og Gunnlaugur Pálsson arkitekt í samráði við tilraunastjóra Skógræktar ríkisins Hauk Ragnarsson, sem sá um framkvæmdir, en yfirsmiður var Hlöðver Ingvarsson. Byggingarfram-kvæmdum lauk á síðasta ári og nam byggingarkostnaður alls 5 milljónum íslenzkra króna.

Esjuskogar

Hákon sagði, að staður þessi hefði verið valinn með tilliti til þess, að hann væri heppilegur til rannsókna, því að hægt væri að athuga gróðurskilyrði trjáplantna í misjafnri (hæð yfir sjávarmáli. Í lok ræðu sinnar afhenti Hákon landbúnaðarráðherra stöðina, en þakkaði Haraldi ríkisarfa þann heiður að vígja rannsóknarstöðina og bauð hann hjartanlega velkominn. Ríkisarfi Noregs svaraði og gat þess að rannsóknir á skógrækt hefðu átt erfitt uppdráttar í Noregi í fyrstu og því hefðu Norðmenn viljað sína vinsemd sína í verki með því að stuðla að byggingu þessarar rannsóknarstöðvar á Íslandi. Minntist hann sérstaklega fyrrverandi sendiherra á Íslandi Torgeirs Anderíen Ryst sem mun hafa átt hugmyndina að þessari gjöf. Ríkisarfinn óskaði að lokum öllum þeim heilla, sem starfa eiga við stöðina.
Landbúnaðarráðherra veitti skógræktarstöðinni móttöku og lýsti því yfir að byggingarnefndin hefði lokið störfuni og landbúnaðarráðuneytið myndi setja stöðinni reglur til að starfa eftir, að tillögum þar til skipaðrar nefndar sérfróðra manna. Ingólfur Jónsson þakkað þann vinarhug, sem lægi að baki gjöfinni og bað ríkisarfann að skila þakklæti til föður síns konungsins. Að ræðu landbúnaðarráðherra lokinni var litazt um á staðnum og þágu gestir veitingar.”

Skograekt

Í Tímanum þennan sama dag sagði: “Krónprinsinn vígði þjóðargjöf Norðmanna – Í dag vígði Haraldur krónpríns Skógræktarstöðina að Mógilsá á Kjalarnesi, en hún er sem kunnugt er reist fyrir þjóðargjöf Norðmanna er Ólafur konungur afhenti Íslendingum er hann var hér í opinherri heimsókn árið 1961. Vígsluathöfnin að Mógilsá fór fram undir beru lofti fyrir utan stöðvarhúsið, og kom Haraldur krónprins akandi ásamt forseta Íslands og fylgdarliði að Mógilsá rétt um klukkan fjögur. Að Mógilsá var samankominn fjöldi gesta. Framámenn í landbúnaðarmálum, sveitarhöfðingjar á Kjalarnesi, forustumenn í skógræktarmálum, landbúnaðarráðherra auk innlendra og erlendra fylgdarmanna Haraldar krónprins í hinni opinberu heimsókn hér. Glaðasólskin var, en nokkur strekkingur utan af Kollafirði.
Hákon Guðmundsson yfínborgardómari, formaður Skógræktarfélags Íslands hélt fyrst ræðu, þar sem hann rakti tildrög Skógræktarstöðvarinnar að Mógilsá.

Esjuhlidar-2

Er skógræktarstöðin reist fyrir 4/5 hluta þjóðargjafarinnar, sem Ólafur Noregskonungur afhenti Íslendingum árið 1961. Byggingakostnaður við stöðina að Mógilsá nemur nú fimm milijónum króna, en eftir er að ráðstafa 300 þús. kr. norskum af gjöfinni. Sérstök stjórnarnefnd skipuð ambassador Noregs, Hákoni Guðmundssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands og Hákoni Bjarnasyni, skógræktarstjóra, ráðstafaði þjóðargjöfinni, en Haukur Ragnarsson, tilraunastjóri sá um byggingafram-kvæmdir að Mógilsá. Húsin eru teiknuð af Herði Bjarnasyni húsameistara ríkisins og Gunnlaugi Pálssyni arkitekt, en yfirsmiður var Hlöðver Ingvarsson byggingameistari.
Hákon lauk ræðu sinni með því að þakka norskum einstaklingum og norsku þjóðinni í heild stuðning við íslenzka skógrækt fyrr og síðar, jafnframt því sem hann afhenti landbúnaðrráðherra stöðina til umráða og varðveizlu. Að lokum ávarpaði hann prinsinn á norsku, og bauð hann hjartanlega velkominn að Mógilsá.
Haraldur krónprins ávarpaði því næst viðstadda, og sagði m. a. samband Íslands og Noregs væri gott, og ekki hvað sízt á skógræktarsviðinu. Lýsti hann þeirri von sinni að Mogilsárstöðin yrði íslenzkri skógrækt lyftistöng og aflgjafi.”
Framangreind orð voru rifjuð upp af tilefni af tímamótaferð FERLIRs, ekki síst í ljósi þess Hofsoleyinhversu vel rannsóknir á Mógilsá hafa gengið æ síðan. Að baki skógræktarstöðinni er nú Trjágarður er m.a. státar af hinum ýmsu ávaxtatrjám. Því fengu FERLIRsfélagar að kynnast að þessu sinni. Gátur þeir tekið sér epli, banana, appelsínur og fleiri sortir áður en haldið var upp í gengnum skóginn áleiðis í Esjuhlíðar; um Efri-Kálfsdal, Langahrygg, Hvítárbotna, Geithól og upp að Rauðhamri þar sem áð var að þessu sinni. Vitað er að jólasveinninn dvelur í Esjunni milli hátíða og brást hann ekki göngumönnum að þessu sinni. Til baka var haldið niður með Rauðhólsurðum, Rauðhól, ofan við Kögunarhól og niður um Skóglendið þar neðra að áfangastað.
Þessi leið er hvorki merkt né á gönguleiðakortinu fyrrnefnda, en sennilega bæði sú greiðasta á Esjuna og sú skemmtilegasta. Hófsóleyin var byrjuð að blómstra við bæjarlækinn snemmmaí.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimidlir m.a.:
-Kjartan Pétur Sigursson.
-Bjarki Bjarnason.
-Þjóðviljinn 8. mars 1979.
-DB, 7. mars 1979.
-Alþýðublaðið 16.08.1967, bls. 3.
-Timinn 16.08.1967.

Esja

Esja – örnefni.