Færslur

Sjáið tindinn, þarna fór ég!

Eftirfarandi viðtal um Esjuna og nágrenni tók Anna G. Ólafsdóttir við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing, fyrir Morgunblaðið sunnudaginn 20. september 1998:

Fátt þykir Reykvíkingum betra en að hafa óskert útsýni yfír Esjuna. Anna G. Ólafsdóttir grófst fyrir um hin ólíku svipbrigði fjallsins í spjalli við Ingvar Birgi Friðleifsson, jarðfræðing og skólastjóra Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna. Ingvar Birgir þekkir Esjuna manna best því hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði fjallsins fyrir aldarfjórðungi.

Æ fleiri Reykvíkingar geta tekið sér orð borgarskáldsins Tómasar Guðmundssonar „Sjáið tindinn, þarna fór ég!“ í munn og litið stoltir í átt til Esjunnar í norðri. Reykvíkingur er varla nema hálfur Reykvíkingur án þess að hafa klifið Esjuna minnst einu sinni. Esjan er í tísku og sprækustu íþróttamenn hafa lagt af sprikl í yfirfullum íþróttasölum til að geta sveigt kroppinn og andað að sér fersku lofti í Esjuhlíðum.
Langalgengast er að lagt sé upp frá Skógrækt ríkisins við Mógilsá og fetað eftir gönguslóða upp hlíðina með stefnu á Þverfellshorn í norðri. Gönguleiðin er falleg og hefur þann ótvíræða kost að vera flestum fær. Engu að síður er ekki nema eðlilegt að eftir nokkrar ferðir upp og niður svipaða leið vakni áhugi á nánari kynnum við Esjuna enda sé fortíð fjallsins margbrotnari en í fyrstu virðist.
Einna nánust kynni við Esjuna hefur haft Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, en hann skrifaði doktorsritgerð um jarðfræði Esjunnar árin 1970 til 1973. Ingvar Birgir segist hafa dvalist nánast öllum stundum þegar veður leyfði í Esjunni í þrjú sumur. Hann leynir ekki aðdáun sinni á fjallinu og viðurkennir með fjarrænt blik í augum að tilfinningin fyrir því að koma aftur á fallegan reit í Esjunni eftir 25 ára fjarveru sé að mörgu leyti eins og að hitta aftur gamla kærustu.
Esja

Blaðamaður getur ekki orða bundist og spyr hvort að hann geti greint breytingar í fjallinu á þessu tímabili. Ekki stendur á svarinu hjá Ingvari Birgi. „Esjan breytist miklu hægar en kærusturnar en samt finnast alltaf á henni nýjar hliðar.“
Eins og maðurinn er landið nefnilega lifandi og tekur breytingum í tímans rás. Esjan er þar engin undantekning og veitir með fjölbreytileika sínum ágæta innsýn í stórbrotna jarðfræði Íslands. Ef grafist er fyrir um fortíð Esjunnar er eðlilegt að byrja á því að rifja upp hvernig eins konar flekar mynda jarðskorpuna. Ein af höfuðflekamótunum á Atlantshafshryggnum kljúfa ísland frá suðvestri til norðausturs. Flekana rekur til vesturs og austurs frá flekamótunum og er rekhraðinn að jafnaði talinn vera um einn sm á ári í hvora átt. Þó þarf ekki að óttast að landið klofni í tvo eða fleiri hluta því að við gos á gosbeltinu á flekamótunum fylla gosefni í skarðið. Á norðanverðu landinu fara flekamótin í gegnum Þingeyjarsýslu og valda því að sýslan tútnar smám saman út. Á sunnanverðu landinu horfir svolítið öðruvísi við því að flekaskilin klofna í tvær kvíslar: að vestanverðu í Gulibringusýslu og Árnessýslu og austanverðu í Rangárvallasýslu og Austur-Skaftafellssýslu.

Uppruninn á Þingvöllum
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbelti því sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og hefur mjakast í takt við rekhraðann í átt til vesturs. Elsti hluti Esjunnar að vestanverðu er 2,8 milljóna ára gamall og hefur því ferðast tæplega 30 km frá Þingvöllum. Einn yngsti hluti fjallsins er Móskarðshnúkar, um 1,8 milljóna ára gamlir, en þá hefur rekið um 18 km frá gosbeltinu í Þingvallavatni.
Á sama tíma og landið rak til vesturs hélt gosvirknin áfram inni í sjálfu gosbeltinu á flekamótunum. Vestan við gosbeltið er röð af megineldstöðvum sem hafa myndast í því. Fyrst er að telja eldstöðvar í Hafnarfjalli og Skarðsheiði en þær voru virkar fyrir um 4,5 milljónum ára. Hvalfjarðareldstöðin aðeins austar tók svo við fyrir um 3 milljónum ára. Smám saman dó virknin þar út og Kjalarneseldstöðin tók við og átti stóran þátt í myndun Esjunnar. Kjalarneseldstöðin var virk í um hálfa milljón ár þar til landrekið olli því að virknin dofnaði. Stardalseldstöðin tók því næst við og Hengillinn með háhitasyæði allt um kring er megineldstöð í gosbeltinu í dag.
Esjan myndaðist í rauninni við stöðuga eldvirkni í um milljón ár fyrir 2 til 3 milljónum ára. Mótunin var hins vegar langt frá því að vera lokið fyrir um tveimur milljónum ára. Jökulskeið koma á um 100.000 ára fresti og áttu eftir að marka landslagið með ýmsum hætti. Allra stærstu jöklarnir skófu út Hvalfjörðinn, sundin og fjalllendið á höfuðborgarsvæðinu. Minni jöklar skófu ofan af sjálfu fjallinu og minnstu jöklarnir skófu út dali í fjallið eins og verið væri að taka með óskipulögðum hætti tertusneiðar af stórri lagköku.
Ingvar Birgir segir að til að einfalda jarðsöguna líki hann mótun Esjunnar stundum við æviskeið konu um sjötugt. „Barnvöxtinn tekur hún út á Kjalarnesi, um fermingu gengur yfir merkilegt vaxtarskeið með kvikuhlaupum og háhitavirkni í Skrauthólum og Þverfelli. Hátindi líkamlegs þroska nær hún liðlega tvítug með myndun Móskarðshnúka en þá er hún bústin og heit. Æskublóminn fer því næst að dvína, holdin tálgast utan af henni hér og þar, þó háhitavirknin í Stardalsöskjunni endist nokkuð lengi. Hún eldist illa og varta sprettur út úr henni á Mosfelli um sextugt. Önnur sprettur svo upp í Sandfelli í Kjós nokkrum árum síðar.“

Spennandi gönguleiðir
Eins og áður segir hefjast Esjugöngur gjarnan við Mógilsá. Ingvar Birgir segir ágætt að meginstraumurinn fari þar um. „Þarna hefur verið komið til móts við almenning með ágætis bílastæði og stigum yfir girðingar landeiganda á leiðinni upp á Þverfellshorn. Göngugarpar taka gjarnan eftir hvítu bergi í sprungum í gilinu og upp með Mógilsánni. Hvíta bergið er kalk og þarna var kalk tekið í fyrstu sementsgerðina á Íslandi. Kalkið var flutt á bátum yfir til borgarinnar og heitir Kalkofnsvegur, þar sem Seðlabankinn og bílageymslan undir honum eru nú, eftir kalkgerðinni. Eins hafa niðurstöður rannsókna gefið til kynna að þarna sé að finna vott af gulli og er í björtu veðri hægt að sjá glampa á steina í fjallinu. Þar glittir hins vegar því miður aðallega í glópagull. Gangan tekur dálítið á en er nánast öllum fær langleiðina upp á Þverfellshorn eða þangað til komið er að klettabelti síðustu 20 til 30 m. Lofthræddum gæti orðið um og ó og vafalaust væri til bóta að setja þarna upp reipi til stuðnings eða einfaldlega fyrir lofthrædda að vita af.“
Hins vegar segist Ingvar Birgir undrast að sumir skuli hafa áhuga á því að fara sömu gönguleiðina oft og jafnvel mörgum sinnum í hverjum mánuði. „Af Þverfellshorni er frábært útsýni yfir Sundin og yfir Reykjanesið. Aftur á móti þarf að ganga töluvert langa leið uppi á sjálfu fjallinu til að njóta útsýnisins til norðurs. Að fara hjá Skrauthólum upp á Kerhólakamb eða fjalllendið þar fyrir vestan gefur mun víðari sjóndeildarhring. Eins er hægt að fara upp á Móskarðshnúka til að sjá yfir höfuðborgarsvæðið, suðurfyrir og austur í gosbeltið á Þingvöllum, Kjósina og norður um allt. Löngu er orðið tímabært að varða þarna fleiri
gönguleiðir fyrir göngufúsa.“
Aðrir eiga eflaust eftir að halda áfram að skeiða sömu leið upp á Pverfellshorn. „Kunningi minn er einn af þeim,“ segir Ingvar Birgir og gefur til kynna að kunninginn hafi reynt að útskýra fyrir honum hvað lægi að baki atferlinu. „Hann sagðist hafa farið í World Class og hamast þar í svitaskýi frá sér og öðrum áður fyrr. Á meðan hann nyti líkamsræktarinnar einn í Esjunni þyrfti hann hins vegar aðeins að þola svitalyktina af sjálfum sér. Hann andaði að sér fersku útilofti og nyti fegurðarinnar í umhverfinu. Síðast en ekki síst þyrfti hann ekki að velta því fyrir sér hvaða stefnu bæri að taka heldur skeiða einfaldlega ósjálfrátt upp sömu leið eins og af gömlum vana.“

Flestar gerðir gosbergs

Esjan

Kolbeinn leiðir gönguna. Stefán Eiríksson og aðrir virðast eftirbátar…

Ekki er að undra að Esjan sé talsvert notuð í kennslu því þar er að finna flestar gerðir íslensks gosbergs. „Ísland er að 90 hundraðshlutum basalt og því er efniviðurinn nánast allur sá sami. Lögun og ásýnd fer einfaldlega eftir því við hvaða aðstæður gosin hafa orðið. Ef gos verður á þurru landi myndast gígaröð og hraunið rennur í nokkra metra þunnu lagi yfir stórt svæði eins og til dæmis í Heiðmörk eða kringum Reykjavík. Ef gosið verður á hinn bóginn í sjó, stöðuvatni eða undir jökli verða mun meiri átök. Glóandi kvikan, hátt í 1.200 gráðu heit, snarkólnar og veldur gufusprengingu. Basaltblandan þeytist í háaloft, rignir aftur niður á jörðina og myndar hrúgur. Gott dæmi um hvort tveggja er þegar Surtsey myndaðist. Eftir að Surtsey var orðin svo há að sjórinn náði ekki lengur inn í gíginn hvarf feikimikill gufustrókur og basaltkvika með nákvæmlega sömu samsetningu fór allt í einu að mynda þunnt hraunlag,“ útskýrir Ingvar Birgir.
Hann rifjar upp að á milljón ára myndunarskeiði Esjunnar hafi gengið yfir um 10 jökulskeið. „Gosin urðu því gjarnan undir jökli og mynduðu stóra móbergshrauka eins og við sáum beinlínis í sjónvarpinu þegar gaus í Vatnajökli fyrir tveimur árum. Á hlýskeiðum hörfuðu jöklarnir og eftir stóðu fallega mynduð móbergsfjöll. Ef gos urðu á hlýskeiðum tóku við hraunlög og eftir því sem hlýskeiðin voru lengri og gosvirknin meiri grófst meira og meira af móberginu undir hraunlög. Með þversniði af Esjunni væri því auðveldlega hægt að greina heilu móbergsfjöllin inni í sjálfu fjallinu. Móbergið gefur Esjunni sérstakan blæ og ekki síst vestast. Þar hefur bergið orðið fyrir áhrifum frá feikilega stórum kvikuþróm frá tímum Kjalarneseldstöðvarinnar. Kvikuþrærnar teygðu sig upp og hituðu bergið í efstu lögum jarðskorpunnar. Bergið er mestmegnis úr gleri og svo viðkvæmt að við 100 til 200 gráðu hita fara sum efnanna að leysast upp og bergið fær á sig ljósan blæ.
Þegar Þórbergur kvað „Esjan er yndisfögur utan úr Reykjavík. Hún ljómar sem litfríð stúlka í ljósgrænni sumarflík,“ er hann að lýsa ljósu skriðunum þarna.“
Ingvar Birgir segir fróðlegt að líta upp í hlíðarnar í vestanverðri Esjunni. „Athyglisvert er að sjá hvernig dökk hraunlögin liggja neðan og ofan við móbergið. Ef vel er að gáð sést sumstaðar hvernig jarðhitasprungur ná upp í gegnum móbergið og hraunlögin þar fyrir ofan. Hraunlögin eru þéttari fyrir og hafa því ekki ummyndast eins og móbergið. Fjallið er ekki heldur frítt við líparít. Líparítið kom upp í gosi í hringlaga sprungu utan við Stardalsöskjuna fyrir um 2 milljónum ára. Hringsprungan sker Þverárkotsháls, fer um suðurhlíðar Móskarðshnúka, klórar utan í Skálafell og aðeins í hæðina Múla fyrir austan Stapa. Oftar en einu sinni hefur gosið í hringsprungunni og ágætt er að sjá hvað kom út úr gosunum í Móskarðshnúkum. Ekki verður heldur undan skilið að stórir líparítgangar fara í gegnum Þverárdal, yfir Grafardal og ná langleiðina upp á hátind Esjunnar“, segir hann og tekur fram að hægt sé að sjá líparítið langar leiðir. „Oft finnst fólki að sólskin sé austast í Esjunni af því að Móskarðshnúkarnir eru svo ljósir.“
Ágæt dæmi um innskotsberg eru að sögn Ingvars Birgis í Þverfelli í Esjunni og á Músarnesi á Kjalarnesi. Á Músarnesi séu skemmtilegar gönguleiðir við allra hæfi. „Ekið er að Brautarholti á Kjalarnesi og falast eftir leyfi landeiganda að fara niður í fjöruna þar. Mjög skemmtileg fjara er norðanmegin Músarnessins og gaman að ganga um klettaborgirnar. Eins er hægt að skoða Presthúsatanga á austanverðu Kjalarnesinu.
Skemmtileg ganga er frá Skrauthólum og upp á Kerhólakamb í vestanverðu fjallinu. Önnur skemmtileg ganga er frá Skeggjastöðum inn í hjarta Stardalseldstöðvarinnar í farvegi Leirvog inn að Tröllafossi. Auðvelt er að greina móberg sem myndaðist í öskjuvatni Stardalsöskjunnar og sjá hvernig hraunlögin undir móberginu halla inn að öskjumiðjunni. Svo hefur kvika troðið sér inn í móbergið og myndað grófkornótt innskot.
Fyrir þá sem ekki eru mjög uppteknir af jarðfræðinni getur verið gaman að sjá þarna hrafhslaup með ungum og tilheyrandi á sumrin,“ segir Ingvar Birgir og bætir því við að til að sjá enn meiri fjölbreytileika í landslagi sé gaman að halda áfram fram hjá Hrafnahólum. „Inn eftir Þverárdal er hægt að keyra hvaða bíl sem er að Skarðsá og þaðan er hægt að ganga upp í stórt innskot sem heitir Gráhnúkur og virða fyrir
sér falleet stuðlaberg. Afram er svo hægt að ganga upp á gígtappann Bláhnúk og alla leið upp á Móskarðshnúka.“ „Önnur auðveld leið er með gamla þjóðveginum upp í Svínaskarð. Efst úr Svínaskarði er svo auðvelt að ganga á austasta Móskarðshnúkinn. Þaðan er frábært útsýni til suðurs, austurs og norðurs. Stardalshnúkur er svo í sérstöku uppáhaldi hjá klifrurum. Þarna er einna fallegast innskot á vestanverðu landinu. Bergið er fallega stuðlað og svo grófkristallað að þarna eru góðar festur fyrir þá sem stunda fjallaklifur með reipum.“

Spurningum ósvarað
Eins og áður segir er Ingvar Birgir skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna og fram kemur að doktorsverkefnið hafi á sínum tíma tengst jarðhita. „Ein aðalástæðan fyrir því hversu nákvæmlega ég rannsakaði fjallið var að ég hafði áhuga á að vita meira um í gegnum hvaða jarðlög verið væri að bora eftir heitu vatni i þéttbýlinu hér sunnanlands. Eini munurinn á jarðlögunum í Esjunni og í borholum eftir heitu vatni fyrir Reykvíkinga, Seltirninga og íbúa í Mosfellssveit er að hægt er að sjá jarðlögin í fjallinu með berum augum í giljum og klettaveggjum en jarðlögin í holunum koma aðeins upp í svarfi. Að mörgu leyti er því hægt að skilja betur eðli jarðhitans á höfuðborgarsvæðinu með því að skoða Esjuna.“
Ingvar Birgir segir að þó hann haldi að með rannsóknum sínum hafi hann getað dregið fram helstu einkenni í myndunarsögu fjallsins sé enn mörgum spurningum ósvarað. „Eftir að styrkari stoðum hefur verið rennt undir framhaldsnám í jarðfræði við Háskóla íslands er ekki ólíklegt að fleiri fari að rannsaka jarðlög í megineldstöðvum eins og í Esjunni. Ný greiningartækni er spennandi kostur og gefur ítarlegri upplýsingar en hægt var að nálgast á áttunda áratugnum.“

Heimild:
-Morgunblaðið, sunnudagur 20. september 1998, bls. 22-23.

Esjuberg

Þegar Kjalnesingasaga er lesin má m.a. berja augum eftirfarandi:
„Andríður reisti bæ í brautinni og Buahellir-22kallaði Brautarholt því að skógurinn var svo þykkur að honum þótti allt annað starfameira. Andríður setti þar reisulegt bú saman.
Þann vetur er Andríður bjó fyrstan í Brautarholti andaðist Helgi bjóla í Hofi. Það þótti mönnum hinn mesti skaði því að hann var hinn vinsælasti maður.
Um vorið skiptu þeir bræður föðurarfi sínum. Hafði Þorgrímur föðurleifð þeirra og mannaforráð því að hann var eldri, en Arngrímur útjarðir. Hann reisti bæ við fjörðinn er hann kallaði Saurbæ. Hann fékk borgfirskrar konu er Ólöf hét. Þau gátu tvo sonu saman er hétu Helgi og Vakur. Þeir urðu fræknir menn en ekki miklir á vöxt.
Þorgrímur reisti bú um vorið að Hofi. Var það brátt stórkostlegt enda stóðu margar stoðir undir, vinir og frændur. Gerðist hann héraðsríkur.
Andríður og Þuríður (frá Þormóðsdal) höfðu búið nokkura vetur í Brautarholti gátu þau son saman. Sá var vatni ausinn og kallaður Búi. Hann var brátt mikið afbragð annarra manna ungra, meiri Buahellir-23og sterkari en aðrir menn og fríðari að sjá.
Esja bjó að Esjubergi sem fyrr var sagt. Hún bauð til fósturs Búa syni Andríðs og fæddist hann upp að Esjubergi. Búi var kallaður einrænn í uppfæðslu. Hann vildi aldrei blóta og kveðst það þykja lítilmannlegt að hokra þar að. Hann vildi og aldrei með vopn fara heldur fór hann með slöngu eina og knýtti henni um sig jafnan.
Það vor er Búi var tólf vetra en Þorsteinn son Þorgríms var átján vetra stefndi Þorsteinn Búa um rangan átrúnað til Kjalarnessþings og lét varða skóggang. Þessa sök sótti Þorsteinn og varð Búi sekur skógarmaður. Eigi lét Búi sem hann vissi og öllum ferðum sínum háttaði hann sem áður. Hann fór jafnan í Brautarholt að finna föður sinn og móður og svo gerði hann enn. Af þessu öllu saman urðu fáleikar miklir millum húsa.
Buahellir-24Búi dvaldist nokkurar nætur í Brautarholti og er hann bjóst heim kom Þuríður móðir hans að honum og mælti: „Það vildi eg son minn að þú færir eigi svo óvarlega. Mér er sagt að Þorsteinn hafi hörð orð til þín. Vildi eg að þú létir fara með þér hið fæsta tvo vaska menn og bærir vopn en færir eigi slyppur sem konur.“
Búi segir: „Skyldur er eg að gera eftir þínum vilja en þungt er fóstru minni að annast slíka fleiri sem eg er. En vant er að sjá þótt fund okkarn Þorsteins beri saman hverjir frá kunna að segja þótt eg eigi við liðsmun nokkurn. Mun eg fara að sinni sem eg hefi ætlað.“
Eftir það fer Búi leið sína austur með sjá og þegar fékk Þorsteinn njósn af. Þeir tóku þá vopn sín og urðu saman tólf. Búi var þá kominn á hæð þá er heitir Kléberg er hann sá eftirförina. Nam hann þá staðar og tók að sér steina nokkura. Þeir Þorsteinn fóru mikið og er þeir komu yfir læk þann er þar var þá heyra þeir að þaut í slöngu Búa og fló steinn. Sá kom fyrir brjóstið á einum manni Þorsteins og fékk sá þegar bana. Þá sendi Búi steina nokkura og hafði mann Buahellir-25fyrir hverjum. Voru þeir Þorsteinn þá mjög komnir að Búa. Sneri Búi þá af hæðinni annan veg. Var þá leitið eitt í millum þeirra. Í því laust yfir myrkri því að hvergi sá af tám sér.
Nú líður á til vetrar. Þá fer Búi einn aftan seint út í Brautarholt og var þar um nóttina. Um morguninn fyrir dag var hann á fótum. Sneri hann þá austur á holtið þar er hann sá gjörla til bæjarins að Hofi. Veður var heiðríkt og bjart. Hann sá að maður kom út snemma að Hofi í línklæðum. Sá sneri ofan af hliðinu og gekk stræti það er lá til hofsins. Kenna þóttist Búi að þar var Þorsteinn. Búi sneri þá til hofsins og er hann kom þar sá hann að garðurinn var ólæstur og svo hofið. Búi gekk þá inn í hofið. Hann sá að Þorsteinn lá á grúfu fyrir Þór. Búi fór þá hljóðlega þar til er hann kom að Þorsteini. Hann greip þá til Þorsteins með því móti að hann tók annarri hendi undir knésbætur honum en annarri undir herðar honum. Með þeim hætti brá hann Þorsteini á loft og keyrði höfuð hans niður við stein svo fast að heilinn hraut um gólfið. Var hann þegar dauður. Búi bar hann þá út úr hofinu og kastaði honum undir garðinn. Síðan sneri hann inn aftur í hofið. Hann tók þá eldinn þann hinn vígða og tendraði. Síðan bar hann login um hofið og brá í tjöldin. Las þar brátt hvað af öðru. Logaði nú hofið innan á lítilli stundu. Búi sneri þá út og læsti bæði hofinu og garðinum og fleygði lyklunum í logann. Eftir það gekk Búi leið sína.
Buahellir-26Sneru Esja og Búi þá fyrir ofan garð með fjallinu og þar yfir ána og síðan gengu þau einstigi upp í fjallið og til gnípu þeirrar er heitir Laugargnípa. Þar varð fyrir þeim hellir fagur. Var það gott herbergi. Þar var undir niðri fögur jarðlaug. Í hellinum voru vistir og drykkur og klæði.
Þá mælti Esja: „Hér muntu nú fyrst verða að byggja.“
Helga Þorgrímsdóttir, kona Búa, bjó að Esjubergi með börnum þeirra Búa. Þá stóð enn kirkja sú að Esjubergi er Örlygur hafði látið gera. Gaf þá engi maður gaum að henni. En með því að Búi var skírður maður en blótaði aldrei þá lét Helga húsfreyja grafa hann undir kirkjuveggnum hinum syðra og leggja ekki fémætt hjá honum nema vopn hans.“
En hver voru viðbrögð sagnfræðinga við framangreindri sögn? Hér er eitt dæmi: „Þessi saga er nú svo að segja tómur skáldskapur og ekkert í Buahellir-27henni bygt á fornum arfsögnum. Hún er saman sett á öndverðri 14. öld; það er því ómögulegt, að skoða hana sem sjálfstætt heimildarrit. Höfundurinn hefir notað eitthvert Landnámuhandrit og tekið úr því nafn Helga bjólu til að byrja með og segir frá Örlygi og Pátreki byskupi eftir þeirri bók, en breytir til eftir eigin geðþótta og býr til nýja menn og tengdir, sem aldrei hafa átt sér stað: lætur t. d. Helga vera giftan dóttur Ingólfs landnámsrnanns og eiga við henni tvo sonu; alt þetta er tilbúningur. Hann hefir þekt fleiri rit eða heyrt úr þeim; hann nefnir Konofogor konung á Írlandi; svo nefnist smákonungur einn í Óláfs sögu helga, er Eyvindr úrarnorn barðist við. Þaðan er nafnið komið inn í Kjalnesingasögu. Hér þarf ekki vitnanna við. Þegar svo á stendur, er það hæpið, að ég ekki segi ómögulegt, að hofslýsingin í þessari sögu sé forn sagnararfur, sem hafi gengið ætt frá ætt og loks hafnað í sögunni. Þegar lýsingín svo er krufin til mergjar, sannast það til hlítar, at svo er ekki máli farið. Lýsingin er blátt áfram »lærður« samtíningur úr öðrurn og eldri ritum, aukinn af höfundi sögunnar eftir hans eigin ímyndun og hugarburði.“
Buahellir-28Og hér er lýsing fornfæðings á aðstæðum að Esjubergi: „Þaðan fór eg út að Esjubergi. Þar fyrir austan bæinn sést móta fyrir ferhyrndri girðingu gamalli, sem er kölluð kirkjugarðr, og þar á kirkjan að hafa staðið til forna; enn lítið eða ekkert sést þar fyrir kirkjunni inni í garðinum. Að Esjubergi var reist einhver hin fyrsta kirkja á Íslandi. Síðan fór eg út að Hofi til að leita eftir leifum þeim, sem þar kynni að finnast af Kjalarnesshofi hinu mikla, sem þar stóð: Kjalnesingasaga segir um hof þetta, bl. 402 : „Hann (Þorgrímr) var blótmaðr mikill; lét hann reisa hof mikit í túni sínu, þat var c fóta langt, en sextugt á breidd“. Melabók segir, I.n. 1843, 3352 6 : „Hof í Vatnsdal ok Hof á Kjalarnesi hafa hér á landi stærst verit, einkum(?) stórt hundrað fóta á lengd, þat syðra var ok L X fóta breitt“.
Litlar eða engar leifar sjást nú af hofi þessu; austan til við bæinn í túninu hefir verið gamall heygarðr, sem nú hefir að mestu leyti verið gjörðr úr kálgarðr, þar suðr af gengr langr hóll og nokkuð mjór fram í mýrina, sem nú er kallaðr Goðhóll; á hofið að hafa staðið þar eftir munnmælum; framan til í hólnum er bergklöpp, og þvers fyrir framan hann er kelda eða fen, sem kölluð er blótkelda, enn niðr á hólnum sjálfum sjást engin merki til tóttar. Niðr frá kálgarðinum sést fyrir dálítilli girðingu, sem auðsjáanlega er ekkert úr hofinu, heldr eitthvað nýjara; þar fyrir neðan, ofan til á Goðhólnum, er eins og lægð og þar umhverfis lægðina, er eins og votti fyrir einhverri upphækkun. Eg kannaði það alt með stálstaf mínum, og fann þar grjót á þrjár hliðar djúpt niðr, enn að ofan er eins og hin girðingin liggi fram undir lautina. Breiddin milli þess, er eg fann grjótið niðri í, er hér um bil 40 fet. Eg get alls eigi sagt, hvort þetta eru nokkur Buahellir-29mannaverk eða ekki, enn sé það, þá eru þau gömul. Eg skal og geta þess, að að Hofi eru allar byggingar bygðar nær því úr tómu torfi, þvíað þar er nær engan stein að fá. í nánd. Þetta eru allar þær leifar, sem eg gat séð á þessum stað, ef það annars getr heitið því nafni. Það er eigi óhugsanda, að þetta kynni að vera endin á hofinu, enn hinn hluti hofsins sé undir girðingunni og heygarðinum, sem áðr er um talað. Enn eitt er hér, sem sýnist nokkuð óeðlilegt, sem er, að hofið hefir þá staðið í nokkrum halla, nl. endi þess undan brekkunni, ef þetta skyldi vera leifar af hofsendanum; annars þykir mér jafnvel eðlilegra, að hofið hafi staðið lengra upp frá Goðhólnum, þar sem gamli heygarðrinn var, því að þar fyrir gæti vel heitið Goðhóll þar niðr undan, sem gengr fram í mýrina fram að Blótkeldunni. Það væri helzt tiltök að rannsaka, þar sem eg þóttist finna grjótið niðri í; kæmi þá í Ijós, hvort þar eru nokkur mannaverk eða ekki. Eg skal geta þess, að fram á Goðhólnum hefir hofið ekki getað staðið, nema það hafi verið gjört af timbri, eða tóttin þá síðar sléttuð út.“

Buahellir-30„Búi heitir fellið, sem gengur út úr Esjunni upp af Esjubergi. Búi er samstofna við orðið bóndi og búandi. Mér er ókunnugt um þetta orð sem örnefni annars staðar nema í samsetningum: Búastaðir er bær í Vopnafirði og Einbúi er algengt nafn á einstökum hólum. — Í Noregi bera margir bæir nafnið Buen, en þar er það “ yfirleitt talið merkja búð, samanber verbúð og búseta. Í miðaldaheimildum er nokkrum sinnum getið manna, segir t.d. um nafnið Búi, en aldrei | hefur það verið algengt manhsnafn. Það mun sæmilega öruggt, að Búi Andríðsson, sem um getur í Kjalnesingasögu, sé þjóðsagnapersóna eins og ástmær hans. Fríður Dofradóttir úr Dofrafjöllum í Noregi. Það er líklegt, að fjallið Búi sé kennt við vætti — verndarvætti þeirra á Esjubergi hafi búið í fjallinu. Á Vestfjörðum eru allmörg örnefni kennd við dísir: Landdísabrekka, Landdísahóll, Landdísalækur og Landdísasteinn, en þar hefur einnig verið landbúi eíns og Landbúasteinn í landi Gilsbrekku í Súgandafirði gefur til kynna. Buahellir-31Dísa- og landvættatrú íslendinga að fornu þarfnast nánari rannsókna en hingað til hafa verið unnar. Slík rannsókn gæti leítt í ljós, hvort telja beri Búa til landvætta. — Þess ber að gæta, að orðið landbúi er einnig til að forna í merkingunni búandi og leiguliði.“
Sjá meira um Búa og Búahelli HÉR og HÉR
Sjá einnig kafla Kjalnesingasöguhttp://www.snerpa.is/net/isl/kjalnes.htm
Þegar Kjalnesingasaga er lesin þarf að huga að því hvort eggið gæti hafa komið á undan hænunni og hvort Íslendingasögurnar gæti hafa orðið einhverjum innblástur í þjóðsögur um Íslendinga. Íslendingasögurnar voru ritaðar á 12. öld, en Kjalnesingasaga á 14. öld. Sögulegar skáldsögur hafa tíðkast í seinni tíð og hafa án efna tíðkast fyrrum, sbr. álfa-, huldufólks-, trölla-, útilegumanna- og kynjasögurnar fyrrum gefa svo vel til kynna. Sögurnar eiga oftast uppruna sinn í nærumhverfinu þar sem þekktra örnefna er getið til að nánari staðsetningar. Í sögunum er bæði reynt að útskýra örnefnin eða gefa þeim sennilegar skýringar. Kjalnesingasaga er afbrigði slíkra sagna.
Buahellir-32Ljóst er að bæjarnöfnin, s.s. Hof, Brautarholt, Saurbær, Esjuberg, Kollafjörður, Vatn og Korpúlfsstaðir voru til í kjölfar landnáms hér á landi. Réttra landnámsmanna er víðast hvar getið með stuðningi Landnámu- og Íslendingabókar, en þegar kemur að umhverfislýsingum fæðist fyrsta eggið. Fjallið Esja er sagt nefnt eftir hinni fjölkyngnu Esju á Esjubergi, en líklegra er þá að bærinn hafi verið nefndur eftir fjallinu. Engar vísbendingar er að finna um að nefnd Esja hafi fest þar búsetu eftir Örlyg Hrappson. Örlygur var kristinn líkt og Kolli, skipsfélagi hans er byggði Kollafjörð og nágranni hans, Helgi Bjóla, í Hofi.
Og eggin eru fleiri er koma á undan hænunum í Kjalnesingasögu; Búi sprettur úr einu egginu, Ólöf væna úr öðru, Kolfinnur á Vatni úr því þriðja og svo mætti lengi telja. Allir spinnast þræðir afkvæma og forfeðra saman í útskýranlega frásögn af því hvernig kristið samfélag í nýjum heimi þurfti að víkja fyrir heiðnu nútímafjölmennningar- samfélagi þar sem krafa er gerð um að hinir fáu verði eins og allir hinir. Þetta er stutt tímabil í Íslandssögunni, en afdrifarríkt. Sagan er í rauninni kennslubók í einelti og afleiðingum þess.
Buahellir-33Búi fæddist að Brautarholti, en er alinn upp af fóstru sinni, Esju, að Esjubergi. Rudd skógargata er millum bæjanna. Á miðri leið er Hof. Þar búa örlagavaldarnir, einkum eftir trúarskiptin á þeim bænum. Búi, líkt og margir nærþenkjandi Íslendingar, lætur sér umbúnaðinn og valdboðin litlu máli skipta. Hann fer sínar leiðir og leiðir hjá sér dægurþrætur þeirra er öllu og öllum vilja stýra og stjórna. Þó kemur að því að hann telur sig knúinn að verjast eineltinu – og það gerir hann það með afdrifarríkum afleiðingum; drepur húsráðanda á Hofi og brennir hofið (reyndar eftir sá hinn sami hafði áður árangurslaust reynt að drepa búa með ofurefli liðs). Á leiðinni að Esjubergi kemur hann við á „Hólum“ og lýsir þar víginu á hendur sér. Líklegar er þar um „Skrauthóla“ frekar en „Sjávarhóla“ að ræða, enda um mun eldra jarðarmark að ræða.
Buahellir-34Esja felur Búa í helli í Esjunni sbr. 4. kafla Kjalnesingasögu: „Sneru þau þá fyrir ofan garð með fjallinu og þar yfir ána og síðan gengu þau einstigi upp í fjallið og til gnípu þeirrar er heitir Laugargnípa. Þar varð fyrir þeim hellir fagur. Var það gott herbergi. Þar var undir niðri fögur jarðlaug. Í hellinum voru vistir og drykkur og klæði.“
Í örnefnalýsingu fyrir Esjuberg er getið um „Laugalæk“ austan og neðan við bæinn. Á mörkum Móa heitir lækurinn Móalækur.“ Í örnefnalýsingu fyrir Móa er sagt að lækurinn sé á mörkunum og ofan við beygju á honum sé „Gvendarbrunnur“. Í dag er land þarna allt umturnað frá því sem var, komin slétt tún og reglulegir skurðir á milli sléttanna. Erfitt er því nú að staðsetja bæði „Laugalæk“ og „Gvendarbrunn“ af nákvæmni. Engrar volgrur eða líklega laug er nú að finna undir Laugargnípu. Að sögn nálægra íbúa sjást þar aldrei votta fyrir gufum á vetrum. Bóndinn á Völlum lét t.a.m. bora fyrir heitu vatni fyrir nokkrum árum, en án árangurs.
Buahellir-35Í dag eru Búi, Búahellir og nú síðast Búahamar á landakortum vestan Gljúfurdals, vestan Grundarár. Tóftir bæjarins eru austan árinnar, en útihúsin vestan hennar. Mjög líklegt verður að telja að Grundará hafi áður heitið Laugará og þá runnið, líkt og árfarvegurinn bendir til, niður með vestanverðum Árvelli og austan Esjubergs. Síðan hafi áin breytt um farveg, líkt og ár eiga tilhneigingu til, og þá runnið vestar, niður með Grund og klofið útihúsin frá bænum, líkt og nú má sjá. Í Árbókinni 1703 segir að skriður hafi hlaupið á Esjuberg 1602 og síðan aftur 1608. Skriðurnar ofan Esjubergs benda augljóslega til þess að áin, hvaða nafni, sem hún hefur verið nefnd á hverjum tíma, hefur hlaupið útundan sér ofar en einu sinni og oftar en tvisvar. Af þeim ástæðum hefur fyrsti landnámsbær Örlygs Hrappsonar verið færður niður á sléttlendið og þá líklegast að Hofi. Víst er að að „hin fyrsta kirkja á Íslandi“ hefur mjög ólíklega verið reist í skriðunum neðan Gljúfurdals, að fenginni reynslu. Ef svo ólíklega hefur verið gæti kirkjustæðið og kirkjugarðurinn hafa verið suðaustan við núverandi bæ bæ (6413111-02146192), en ekki vestan hans eins og sýnt er á kortum.
Buahellir-36Af framangreindri lýsingu í Kjalnesingasögu um „Búahelli“ má leiða líkum að nefnt einstigi hafi átt að vera beint ofan við núverandi Esjubergsbæ – í og undir Lauganípu. Þar má sjá árfarveg koma nánast þvert á bergið og sameinast núverandi Grundará. Vatn hefur hins vegar þá áráttu að leita stystu leiða niður á jafnsléttu undan halla. Skv. þeirri kenningu hefur vatnið úr „einstiginu“ runnið áleiðis niður að Esjubergi. Til að komast yfir gilfarveginn hefur það þurft að renna upp á við á kafla, en það verður að teljast ólíklegur kostur.
Niðurstaðan um „Búahelli“, skv. Kjalnesingasögu, er sú að um þjóðsagna- og draumkennda lýsingu sé að ræða með hliðsjón af hugmyndum og tilgangi skráarritara. „Staðsetningin“ á hellinum, skv. sögunni, á að vera í Laugagnípu, en einhverra hluta vegna hefur áhugasamt fólk fært staðsetninguna yfir Grundarána og þá hafi það orðið til þar í hömrunum örnefnið „Búi“, „Búahamar“ og „Búahellir“. Líklega er það vegna þess að eina sýnilega litla „svartholið“ í nágrenninu er þar í hömrunum, en ef grannt er skoðað hefur hvorki nokkrum manni geta tekist að klifra þangað upp án klifursbúnaðar né geta dvalið þar í grunnri holunni vegna gólfhallans.
Sjá meira um Esjuberg HÉR og HÉR.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, Björn Þorsteinsson, Nokkrir örnefnaþættir, 12. júlí 1964, bls. 629-630.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Hofalýsingar í fornsögum og goðalíkneski eftir Finn Jónsson, 13. árg, 1898, bls. 32-33.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Rannsókn á blóthúsinu að Þyrli og fleira i Hvalfirði og um Kjalarnes, eftir Sigurð Vigfússon, 1880, 1. árg. 1880-1881-, bls. 66-69.

Esja

Esja (oftast með greini, Esjan) er fjall á Kjalarnesi, sem nú er innan borgarmarka Reykjavíkur, og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins. Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar. Hæsti kambur á Esju miðri, séð úr Reykjavík, heitir Kerhólakambur.

esja-2

Í Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkur að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“.

„Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.

Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.

esja-3

Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).

Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.

Talgusteinn

Líklegasta skýringin á örnefninu Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.“

Heimildir m.a.:
-Wikipedia.
-Vísindavefur HÍ.

Esja

Um var að ræða FERLIRsferð nr. 1500.
Ákveðið var að ganga mögulegar leiðir upp og niður EsjuleidEsjuhlíðar, auk hinnar alþekktu gönguleiðar með Mógilsá á Þverfellshorn. Fyrst verður fjallað svolítið um þá síðastnefndu, bæði vegna hversu vinsæl hún er og fjölfarin, en jafnframt ofmetin í ljósi annarra möguleika. Um er að ræða gönguleið frá bílastæðinu við Mógilsá. Reyndar getur verið hringleið eða upp og niður sömu leið. Vegalengdin jafngildir um 1 til 3 klst göngutíma, allt eftir því hversu langt er farið upp og hversu hratt. Hlíðin er aflíðandi neðst með hömrum efst og hækkun upp að Steininum er 597 metra hæð. Búið er að leggja ágæta göngustíga upp fjallið ef frá er talin malarflöturinn. Ferðahraðinn og aldur þeirra sem leggja á Esjuna er misjafn. Á meðan sumir dóla sér upp í rólegheitunum, þá reyna sumir að hlaupa upp í einum rykk. Einnig er hægt að velja um svo kallaða Skógarleið og er þá gengið í gegnum skóginn á leið upp Esjuna. Þeirri leið verður lýst hér á eftir.
SteinninnEftir stutta göngu frá bílastæðinu er komið að göngubrú áður en gengið er upp Þvergil sem er skammt frá Búðarhömrum. Þar fyrir ofan er svo Smágil. Hér greinist leiðin í tvennt. Velja margir að fara fara brattari leiðina fyrst og taka svo hina leiðina til baka. Slóðinn sem genginn er eftir er í misjöfnu ástandi. Í Einarsmýri er jarðvegurinn blautur sem er að koma undan snjónum og getur verið óskemmtilegt svæði til yfirferðar.
Gamla leiðin, liggur upp Langahrygg sem einnig er nefndur Gljúfradalsháls. Gengið er í bröttum skriðum uns komið er í mýrina. Handan hennar tekur svo bratti Þverfellshorns við. Leiðin hentar þeim sem vilja fara hratt yfir.
Gengid um skoginnSteinninn er sá viðkomustaður sem flestir stefna á og þeir sem treysta sér lengra taka því næst stefnuna á toppinn eða sjálft Þverfellshornið.
Upp að Steini er um 6,6 km upp í 597 m hæð með hækkun um 587 m. Töluverður bratti er frá Steininum upp að klettabeltinu, aðallega er um tvær leiðir úr að velja, sú fyrri sem að við fórum var nánast beint upp klettabeltið þar sem fylgt vegvísum, tröppum og keðjum. Seinni leiðin er aðeins vestar en þar sem var mikill snjór á þeirri leið og sér í lagi í kverkinni og við ekki með neinn búnað til að ganga á snjónum. Þessi kafli leiðarinnar getur verið erfiður fyrir óvana og lofthrædda. Að vetrarlagi þarf að fara að öllu með gát. Árið 1979 féll á þessum slóðum snjóflóð og létust 2 menn.
GenginÁ forsíðu Þjóðviljans 8. mars 1979 mátti lesa eftirfarandi frétt: „Tveir piltar fórust i snjóflóði í hlíðum Esju síðdegis Í fyrradag. Þeír hétu Stefán Baldursson, Tómasarhaga 22, 18 ára, og Sveinbjörn Beck, Brávallagötu 18, 17 ára gamall.
Um kl. 19.50 í fyrradag kom til kynning til lögreglunnar í Hafnarfirði frá 18 ára pilti, sem staddur var á bænum Leirvogstungu. Hann hafði farið með félögum sínum i fjallgöngu á Esju. Þeir voru á niðurleið, er snjóskriða féll á tvo þeirra nálægt Þverfellshorni. Hinn þriðji hafði dregist nokkuð afturúr á göngunni og varð það honum til lífs.
Hannes Hafstein framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins sagði að lögreglan hefði hringt þangað kl. rúmlega átta um kvöldið. Var þá gengid 2kölluð út björgunarsveitin Kyndill i Mosfellssveit, Björgunarsveitin Ingólfur, Flugbjörgunarsveitin og Hjálparsveit skáta og sendu þær menn strax á vettvang. Skömmu síðar voru björgunarsveitir i nágrenni Reykjavíkur kallaðar út og tóku alls um 200 manns þátt í leitinni.
Slysið varð milli kl. 18 og 18.30, þegar piltarnir þrír voru á niðurleið. Sá sem var efstur í hlíðinni og af komst, sá þegar hengjan brast og hélt þegar af stað til byggða að leita hjálpar. Snjódyngjan sem féll var 3-400 metra löng og 10-15 metra breið og var hún sumsstaðar ákaflega djúp. Lík annars piltsins fannst um kl. 1 um nóttina og lík hins um kl. 3.30. Björgunarstarf var erfitt, snarbratt og mikill kuldi. Varalið var kallað út til starfa um þrjúleytið um nóttina og var það á leið á slysstað, þegar síðara líkið fannst.
Gangan-3Piltarnir sem létu lífið i snjóflóðinu voru vanir fjallgöngumenn og annar þeirra var félagi í björgunarsveit í Reykjavík.“
Í DB þann 7 mars birtist eftirfarandi forsíðufrétt: „TVEIR 18 ÁRA PILTAR FÓRUST í SNJÓFLÓÐI — sá þriðji komst af í Esju í gær. Tveir 18 ára piltar úr Reykjavík létu lífið í snjóflóði í Esjunni síðla dags í gær. Þeir voru þar í skemmti- og æfingagöngu á fjallið. Voru þeir tveir, sem fórust, ívið á undan hinum þriðja, enda betur búnir og vanir göngumenn, annar félagi í björgunarsveit í Reykjavík. Er sá sem á eftir fór kom yfir hæðarbungu í göngunni á eftir félögum sínum, sá hann þá hvergi en sá nýfallna snjóskriðu. Hafði hún fallið ofarlega úr Gengid-4Þverfelli og fallið niður þröngt og bratt gil niður í Dýjakróka austan Gljúfurdals upp og NA af Esjubergi. Hróp, köll og eftirleit þess sem á eftir fór báru ekki árangur. Hélt hann þá rakleitt til bíls þeirra félaga sem stóð vestan Mógilsár og ók að Leirvogstungu þaðan sem hjálparkall barst kl. 7.50. Björgunarmenn úr Kyndli í Mosfellssveit fóru þegar á staðinn. Síðar bættist þeim liðsauki frá Ingólfi í Reykjavík, Flugbjörgunarsveitinni, björgunarsveitum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og skátum frá sömu stöðum. Kyndilsmenn lögðu þegar á fjallið og fóru eins langt og þeir gátu á snjósleðum í fylgd með þeim var pilturinn sem slapp við snjóflóðið. Vísaði hann veginn en komst ekki alla leið upp aftur sakir þreytu.
AningSnjóskriðan fannst án leitar. Reyndist hún um 400 m löng að sögn Erlings Ólafssonar formanns Kyndils, sem var einna fyrstur á slysstað. Hún var ekki nema 7—15 m að breidd og misdjúp eftir gilskorningnum.
Upphaf hennar var yfir bröttu gili ofarlega í Þverfelli. Leit var þegar hafin að piltunum tveimur og dreif að svo mikinn fjölda björgunarmanna að snjóskriðan var fljótlega yfirfarin. Undir kl. eitt fannst lík annars piltanna neðst í skriðunni á um 1,5 m dýpi. Lík hins fannst ekki fyrr en klukkan langt gengin fjögur í nótt og hafði þá snjóskriðan verið grandskoðuð. Leitaraðstæður voru erfiðar, snarbratt að slysstað og kuldi mikill, 15—20 stiga frost þar uppi.
Geitholl-2Erlingur Ólafsson sagði að snjór í  skriðunni hefði ýmist verið kögglóttur, og voru sumir kögglarnir á stærð við bíla, eða lausamjöll sem harðnaði fljótt og fraus saman. Erlingur sagðist ekki vita til að snjóflóð hefðu valdið mannskaða í Esju fyrr, þó oft mætti sjá þess merki að þau hefðu fallið. Á venjulegum gönguleiðum í Esju er ekki hætta á snjóflóðum en þau falla í þröngum og bröttum giljum með miklum hraða og kynngikrafti er hengjur bresta. Björgunarstarfið gekk mjög vel og var öllum er þátt tóku í til sóma. Var samstarf gott milli sveita. Yfirstjórn var í bíl við Mógilsáin menn með talstöðvar um alla fjallshlíðina.“
Þá er takmarkinu náð; Þverfellshornið sjálft. Þessi vinsælasta leiðin á Esju frá Mógilsá er auðrötuð enda mörkuð af sérstökum göngustíg á fjallinu. HaraldurEfst eru nokkur klettaþrep sem auðvelt er að klífa en rétt er að fara varlega vegna hættu á grjóthruni frá fólki sem kann að vera fyrir ofan. Lofthræddum er bent á að ganga aðeins vestan við hornið og finna sér leið þar upp. Á útsýnisskífunni er gott að átta sig á örnefnum, enda útsýnið stórkostlegt ofan af Þverfellshorni yfir Stór-Reykjavíkursvæðið. Um klukkustundar gangur er frá vörðunni að Hábungu Esju sem rís hæst 914 m.
Það var sumarið 1994 að gerð var þessi nýja gönguleið upp að Þverfellshorni. Hún klofnar frá gömlu leiðinni og stefnir yfir Mógilsá og þar upp austan árinnar. Þar er ekki eins bratt og á gömlu leiðinni og því aðeins léttari. Göngustígarnir koma aftur saman fyrir neðan hamrana í Þverfellshorni.
Haraldur-2Hægt er að fá göngukort af Esjunni hjá Ferðafélagi Íslands, Mörkinni 6. Hafa ber þó í huga að gönguleiðakortið er arfavitlaust og því í beinlínis lífshættulegt að taka það of alvarlega. T.d. eru sýndar gönguleiðir upp Rauðhamar, Virkið, Gunnlaugsskarð og Kistufell. Allar þessar leiðir eru einungis fyrir klettaklifrara með fullkomnasta búnað sem völ er á.
Sagt er að fjallið sé ekki sigrað fyrr enn hinum eina sanna tindi er náð. Það er reyndar ekki rétt.
Í þessari tímamótaferð var gengið um Skógræktarstöðina á Mógilsá. Aðspurður um staðsetningu Gosmokkurgamla bæjarins að Mógilsá og Kollafirði svaraði hann: „Kollafjarðarbærinn var skammt frá útihúsunum sem standa enn að hluta. Mógisárbærinn var örskammt frá planinu þar sem lagt er af stað í Esjugöngur.“
Í Alþýðublaðinu 16. ágúst 1967, segir m.a.: „Haraldur vígir skógræktarstöð – Haraldur ríkisarfi Noregs vígði í gær tilraunastöð skógræktarinnar að Mógilsá í Kollafirði, Móðargjöf Norðmanna til Íslendinga, en sem menn muna, færði faðir hans Ólafur V. Noregskonungur Íslendingum eina milljón króna norskra að gjöf, er hann kom hingað í heimsókn árið 1961. Til raunastöðin að Mógilsá er reist fyrir þetta fé. Stöðvarstjóri að Mógilsá er Haukur Ragnarsson, skógfræðingur, menntaður í Noregi.
AningarstadurLaust fyrir kl. 16.00 í gærdag hélt ríkisarfinn frá Reykjavík upp að Mógilsá í Kollafirði ásamt fylgdarliði sínu forseta Íslands hr. Ásgeiri Ásgeirssyni, landbúnaðarráðherra, Ingólfi Jónssyni og skógræktarstjóra, Hákoni Bjarnasyni o. fl. Uppi í Kollafirði var búið að koma fyrir stólum á grasflöt úti fyrir stöðinni og bauð stöðvarstjórinn, Haukur Ragnarsson gesti velkomna: Þarna voru saman komnir fyrirmenn í héraði og ýmsir skógræktaráhugamenn.
Hákon Guðmundsson yfirborgardómari formaður nefndar þeirrar, sem annaðist framkvæmdir að Mógilsá lýsti tildrögum að byggingunni, en uppdrætti gerðu þeir Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins og Gunnlaugur Pálsson arkitekt í samráði við tilraunastjóra Skógræktar ríkisins Hauk Ragnarsson, sem sá um framkvæmdir, Esjuskogaren yfirsmiður var Hlöðver Ingvarsson. Byggingarfram-kvæmdum lauk á síðasta ári og nam byggingarkostnaður alls 5 milljónum íslenzkra króna.
Hákon sagði, að staður þessi hefði verið valinn með tilliti til þess, að hann væri heppilegur til rannsókna, því að hægt væri að athuga gróðurskilyrði trjáplantna í misjafnri (hæð yfir sjávarmáli. Í lok ræðu sinnar afhenti Hákon landbúnaðarráðherra stöðina, en þakkaði Haraldi ríkisarfa þann heiður að vígja rannsóknarstöðina og bauð hann hjartanlega velkominn. Ríkisarfi Noregs svaraði og gat þess að rannsóknir á skógrækt hefðu átt erfitt uppdráttar í Noregi í fyrstu og því hefðu Norðmenn viljað sína vinsemd sína í verki með því að stuðla að byggingu þessarar rannsóknarstöðvar á Íslandi. Minntist hann sérstaklega fyrrverandi sendiherra á Íslandi Torgeirs Anderíen Ryst sem mun hafa átt hugmyndina að þessari gjöf. Ríkisarfinn óskaði að lokum öllum þeim heilla, sem starfa eiga við stöðina.
Landbúnaðarráðherra veitti skógræktarstöðinni móttöku og lýsti því yfir að byggingarnefndin hefði lokið störfuni og landbúnaðarráðuneytið myndi setja stöðinni reglur til að starfa eftir, að tillögum þar til skipaðrar nefndar sérfróðra manna. Ingólfur Jónsson þakkað þann vinarhug, sem lægi að baki gjöfinni og bað ríkisarfann að skila þakklæti til föður síns konungsins. Að Skograektræðu landbúnaðarráðherra lokinni var litazt um á staðnum og þágu gestir veitingar.“
Í Tímanum þennan sama dag sagði: „Krónprinsinn vígði þjóðargjöf Norðmanna – Í dag vígði Haraldur krónpríns Skógræktarstöðina að Mógilsá á Kjalarnesi, en hún er sem kunnugt er reist fyrir þjóðargjöf Norðmanna er Ólafur konungur afhenti Íslendingum er hann var hér í opinherri heimsókn árið 1961. Vígsluathöfnin að Mógilsá fór fram undir beru lofti fyrir utan stöðvarhúsið, og kom Haraldur krónprins akandi ásamt forseta Íslands og fylgdarliði að Mógilsá rétt um klukkan fjögur. Að Mógilsá var samankominn fjöldi gesta. Framámenn í landbúnaðarmálum, sveitarhöfðingjar á Kjalarnesi, forustumenn í skógræktarmálum, landbúnaðarráðherra auk innlendra og erlendra fylgdarmanna Haraldar krónprins í hinni opinberu heimsókn hér. Glaðasólskin var, en nokkur strekkingur utan af Kollafirði.
Hákon Guðmundsson yfínborgardómari, formaður Skógræktarfélags Íslands hélt fyrst ræðu, þar sem Esjuhlidar-2hann rakti tildrög Skógræktarstöðvarinnar að Mógilsá. Er skógræktarstöðin reist fyrir 4/5 hluta þjóðargjafarinnar, sem Ólafur Noregskonungur afhenti Íslendingum árið 1961. Byggingakostnaður við stöðina að Mógilsá nemur nú fimm milijónum króna, en eftir er að ráðstafa 300 þús. kr. norskum af gjöfinni. Sérstök stjórnarnefnd skipuð ambassador Noregs, Hákoni Guðmundssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands og Hákoni Bjarnasyni, skógræktarstjóra, ráðstafaði þjóðargjöfinni, en Haukur Ragnarsson, tilraunastjóri sá um byggingafram-kvæmdir að Mógilsá. Húsin eru teiknuð af Herði Bjarnasyni húsameistara ríkisins og Gunnlaugi Pálssyni arkitekt, en yfirsmiður var Hlöðver Ingvarsson byggingameistari.
Hákon lauk ræðu sinni með því að þakka norskum einstaklingum og norsku þjóðinni í heild stuðning við íslenzka skógrækt fyrr og síðar, jafnframt því sem hann afhenti landbúnaðrráðherra stöðina til umráða og varðveizlu. Að lokum ávarpaði hann prinsinn á norsku, og bauð hann hjartanlega velkominn að Mógilsá.
Haraldur krónprins ávarpaði því næst viðstadda, og sagði m. a. samband Íslands og Noregs væri gott, og ekki hvað sízt á skógræktarsviðinu. Lýsti hann þeirri von sinni að Mogilsárstöðin yrði íslenzkri skógrækt lyftistöng og aflgjafi.“
Framangreind orð voru rifjuð upp af tilefni af tímamótaferð FERLIRs, ekki síst í ljósi þess Hofsoleyinhversu vel rannsóknir á Mógilsá hafa gengið æ síðan. Að baki skógræktarstöðinni er nú Trjágarður er m.a. státar af hinum ýmsu ávaxtatrjám. Því fengu FERLIRsfélagar að kynnast að þessu sinni. Gátur þeir tekið sér epli, banana, appelsínur og fleiri sortir áður en haldið var upp í gengnum skóginn áleiðis í Esjuhlíðar; um Efri-Kálfsdal, Langahrygg, Hvítárbotna, Geithól og upp að Rauðhamri þar sem áð var að þessu sinni. Vitað er að jólasveinninn dvelur í Esjunni milli hátíða og brást hann ekki göngumönnum að þessu sinni. Til baka var haldið niður með Rauðhólsurðum, Rauðhól, ofan við Kögunarhól og niður um Skóglendið þar neðra að áfangastað.
Þessi leið er hvorki merkt né á gönguleiðakortinu fyrrnefnda, en sennilega bæði sú greiðasta á Esjuna og sú skemmtilegasta. Hófsóleyin var byrjuð að blómstra við bæjarlækinn snemmmaí.
Sjá meira HÉR og HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimidlir m.a.:
-Kjartan Pétur Sigursson.
-Bjarki Bjarnason.
-Þjóðviljinn 8. mars 1979.
-DB, 7. mars 1979.
-Alþýðublaðið 16.08.1967, bls. 3.
-Timinn 16.08.1967.

Esja

Félagar í Starfsmannafélagi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gengu gamla leið á Esjuna, áleiðis upp á Þverfellshorn.

Gonguleiðin

Núverandi göngleið liggur frá bílastæðinu undir Esjuhlíðum, upp í gegnum Þvergil og áfram um Einarsmýri, en gamla leiðin lá í gegnum Skógræktina, skógsvæðin í Kálfsdal er skiptist í Neðri-Kálfsdal og Efri-Kálfsdal og áfram upp grónar brekkuskriður. Heitir sú brekka Hákinn. Ætlunin er að reyna að staðsetja hina grónu götu í hlíðunum alla leið upp fyrir Rauðhól og að Rauðhamri, upptökum Mógilsár.
Esjan stendur við Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennum höfuðborgasvæðisins. Talið er að Esjan hafi myndast á fyrri hluta ísaldar. Hún byggðist upp úr blágrýtis- og móbergslögum og talsvert er um innskot og bergganga í fjallinu. Esjan er syðsta blágrýtisfjallið á landinu. Nafn fjallsins er gjarnan rakið til móbergslaganna í fjallinu en nafnið þýðir tálgusteinn. Kalk fannst í giljunum fyrir ofan Mógilsá og árið 1873 var þar stundaður námugröftur. 

Raudhamar

Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé rakið til móbergslaganna í fjallinu en nafnið þýðir tálgusteinn.

Sjá meira um svæðið og ferðina  HÉR.

Esja

Gengið var frá Rannsóknarstöð Skógræktarinnar (áður ríkisins, nú Reykjavíkur) eftir stíg að Hvítá og að Álfakirkju. Síðan var ánni (sem er lítið meira en lækur og um leið vatnsforðabúr) fylgt upp fyrir Nípu í Hvítárbotna og Gunnlaugsskarð skoðað sem og Geithóll ofan við Botnana.
Stigur í skogiGengið var undir Rauðhamar og Mógilsá síðan fylgt til baka niður eftir með viðkomu á Rauðhól og Kögunarhól þar sem vetrarblómið og lóan blómstruðu sem aldrei fyrr.
Mógilsá er ríkisjörð í Kollafirði við rætur Esju. Þar er Rannsóknastöð Skógræktar staðsett.
Árið 1967 var ákveðið að efla rannsóknir í þágu skógræktar á Íslandi og var Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá í Kollafirði reist fyrir þjóðargjöf frá Norðmönnum sem gefin var í tilefni af heimsókn Ólafs V. Noregskonungs til Íslands árið 1961. Það er eðlilegur þáttur í rannsóknum að prófa nýjar trjátegundir og hefur mikið af því efni endað í brekkunni fyrir ofan rannsóknastöðina. Þar er því einhver fjölbreyttasti skógur landsins og margt forvitnilegt að sjá. Skógurinn er einna mestur í kringum stöðina sjálfa, en hann er í raun trjásafn með tegundum teknum víða að úr heiminum. Í skóginum eru m.a. fágætar tegundir eins og linditré, broddhlynur og risalerki, svo eitthvað sé nefnt, en flestar trjátegundir eru merkt. Öllum er frjálst aðgengi að skóginum. Fjölmargir stígar liggja um skóginn, yfir læki og bakka, skógi vaxnar hlíða í alpaumgjörð Esju, eins vinsælasta útivistarsvæðis höfuðborgarinnar. Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum en margir minni stígarnir eru í raun tilvalið tilbrigði við hefðbundna Esjugöngu.

HvitaJarðfræði Esjunnar er samofin Kjalarnesmynduninni og því sérstaklega áhugavert efni til að kynna sér enn frekar. Hér er aðeins farið létt yfir helstu jarðfræðisögu Kjalarness.
„Esjan er aðallega úr eldri grágrýtis móbergi (síð tertíer) frá ísöld. Jarðgrunnurinn í Grundarhverfi og þar í kring er frá ísaldarlokum og yngri, og þar er vatnaset. Brimnes er úr grágrúti frá ísöld, yngra en 0,7 milljón ára. Á Kjalarnesi er líka basískt innskotsberg og má finna þetta berg á Músarnesi, Mógilsá og við Esjuberg. Við Esjuna í Kollafirðinum má líka finna berghlaup.
Kjalarnes er útkulnuð eldstöð Esjan hefur myndast á einni milljón ára. Í henni eru 3 megineldstöðvar og í henni má greina 10 jökulskeið. Í fjallinu skiptast á hraun- og móbergslög og hafa efstu lögin samsvörun í yfirborðslögum á höfuðborgarsvæðinu. Ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði eru vel sýnileg í fjallinu sjálfu, ekki síst upp undir brúnum þess.
VatnsthroEldstöðvakerfi á Reykjanesskaganum. Kjalarnes- og Stardalseldstöðina hefur rekið út af gosbeltinu.
Flest fjöll á Íslandi heita nöfnum sem eru auðskilin. Akrafjall er kennt við akra, Keilir er keilulaga, Herðubreið er herðabreið og Tindfjöll eru tindótt. Nafnið Esja hefur hins vegar vafist fyrir mönnum og fleiri en ein skýring virðist til á því heiti enda er orðið Esja ekki til í íslensku máli.
Vinsælast hefur verið að kenna Esjunafnið við konu af Keltneskum uppruna sem átti að hafa búið að VatnsfordaburEsjubergi eins og kemur fram í Kjalnesingasögu en hún tók við búi af landnámsmanninum Örlygi Hrappssyni hinum Írska.
Fjallið Esja var þó ekki nefnt á nafn sem slíkt en bæjarheitið Esjuberg hefur samkvæmt þessu verið til frá upphafi og allt til þessa dags því enn er búið að Esjubergi. Hinsvegar vilja margir fræðingar frekar meina að Esjuheitið sé norrænt að uppruna og standi fyrir eldstæði eða flögusteina sem notaðir eru til slíks brúks (esje í norsku = eldstæði). Einnig getur Esja þýtt lausar aur- eða snjóskriður. Undan vestanverðri Esjunni koma gjarnan hinar ýmsu gerðir af skriðum undan bröttum hlíðunum og því ekki ólíklegt að bæjarheitið Esjuberg hafi upphaflega tengst því. Síðar meir hefur hið umfangsmikla bæjarfjall Reykvíkinga í heild sinni svo verið nefnt eftir bænum og fengið nafnið Esja.
Upprunalegt heiti fjallsins. Frá Reykjavík séð er Esjan mjög aflöng og flöt að ofan en svoleiðis fjöll eru stundum kennd við bátskjöl. Það er allavega ekkert út í hött að hugsa sér að Esjan hafi upphaflega heitið Kjölur og nesið sem gengur út frá henni nefnt Kjalarnes.
KistufellÞað er þekkt að örnefni eiga það til að flakka á milli staða og því getur verið að Kjalarnafnið hafi vikið til hliðar þegar Esjunafnið var eignað fjallinu og færst yfir á hálendið austur af Kjósinni, sem heitir einmitt Kjölur.
Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
NipaVegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá SkofirAkranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Líklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.
GunnlaugsskardDeilt hefur verið um h
æsta punkt Esjunnar. Vegna þess hve víðfeðm og flöt að ofan Esjan er þá er ekki gott að sjá hvar hæsti punkturinn liggur. Lengi vel var talið að hæsti punkturinn væri austur af Kistufelli þar sem lítill tindur skagar uppúr og blasir við úr Mosfellsdal. Tindurinn var mældur 909 metrar og þótti sjálfsagt að kalla hann Hátind. Við nákvæmari mælingar síðar, kom í ljós að hábungan ofan Gunnlaugsskarðs væri nokkrum metrum hærri eða 914 metrar og var þá nefnd því frumlega nafni Hábunga. Á Esjunni eru því bæði að finna Hábungu og Hátind.
Árið 1877 hófst kalknám í Esjuhlíðum við Mógilsá. Námurnar entust ekki lengi og vinnslunni var hætt þegar sífellt erfiðara var að nálgast kalkið. Kalkið var flutt á bátum til Reykjavíkur og brennt í ofni sem stóð nálægt þar sem nú er Seðlabankinn. Gatan þar heitir einmitt Kalkofnsvegur. Eitthvað af kalkbyggðum húsum standa enn í dag, oftast er húsið að Lækjargötu 10 nefnt sem dæmi.
GeithollEftirfarandi vísu má finna um Esjuna:
Esjan er yndisfögur
utan úr Reykjavík.
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík.
En komirðu, karl minn! nærri
kynleg er menjagná.
Hún lyktar af ljótum svita
og lús skríður aftan á.“

Svo orti Þórbergur Þórðarson um bæjarfjallið Esjuna.“

RaudhamarEn hvernig myndaðist Esjan? Þannig lýsir Ingvar Birgir Friðleifsson, jarðfræðingur, mynduninni, í doktorsritgerð sinni: „Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs. Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli.
ThverfellshornÁ sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.
Einfaldaðar skýringarmyndir, sem sýna hvernig Esja hefur hlaðist upp við eldgos ýmist á hlýskeiðum (þá runnu hraun) eða á jökulskeiðum (þá mynduðust móbergsfjöll við gos undir jöklum). Á fyrstu myndinni renna hraun á þurru landi. Svörtu strikin tákna bergganga, sem eru aðfærsluæðar hraunanna.
SkýringarmyndEldstöðvarnar eru vestarlega (til vinstri) og lárétt hraunlög hlaðast upp. Á annarri mynd hefur gosvirknin færst austur, jökulskeið er gengið í garð og í stað láréttra hrauna hleðst nú upp móberg í geil í ísnum. Á næsta hlýskeiði (3. mynd) hafa eldstöðvarnar enn færst austar. Lárétt hraunlög renna upp að móberginu frá næsta jökulskeiði á undan. Jarðlagastaflinn byrjar að hallast undan þunganum. Enn kemur jökulskeið (4. mynd) og nýtt móbergsfjall hleðst upp. Á næsta hlýskeiði ná hraun að renna yfir móbergsfjöllin. Á 6. mynd sést að nú gýs ekki lengur, en rof Mogilsaaf völdum ísaldarjökla og veðrunar hefur mótað Esju.
Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela. Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á Raudhollyfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.
Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegin-eldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla. En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Stardalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum. Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.
VetrarblomidEldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað Loaum eldvirkni á svæðinu þennan tíma. Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.
Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.“
JardfrædikortNánari upplýsingar er að finna í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 í grein eftir Ingvar Birgi Friðleifsson. „Jarðsaga Esju og nágrennis“, bls. 141-172.
Með því að smella á kortið má sjá það stærra þannig að hægt er að lesa skýringarnar hægra megin. Þá má skoða þversnið af Esjunni (frá NV til SA) frá Hvalfirði um Tindstaðahnúk og Hátind í Leirvogsvatn, svo og þversnið frá Móskarðshnúkum yfir Stardalsöskjuna og í Grímmannsfell. Jarðlagahallinn er til suðausturs og því er elsta bergið í Esjunni vestast (til vinstri), en jarðlögin yngjast eftir því sem austar dregur. Í langa þversniðinu má sjá hvernig móbergsfjöll eru grafin í hraunlagastafla.
Kogunarholl-2Stutta sniðið liggur þvert yfir Stardalsöskjuna. Þar má sjá hallandi bergganga úr basalti og líparíti sem stefna inn að miðju eldstöðvarinnar. Stardalshnúkur er stærsta djúpbergsinnskotið í Stardalsmegineldstöðinni. Glæsileg innskot (rauð á kortinu) er einnig að finna í Kjalarneseldstöðinni í Músarnesi (hjá Brautarholti) og í Leiðhömrum og Þverfelli norðan Kollafjarðar.“

En hvað um örnefni og kennileiti í Esjuhlíðum? Í örnefnalýsingu fyrir Kollafjarðarbæinn segir m.a.: „Upp af gamla bænum í Kollafirði er grasivaxið gil Kollsgil. Þar er sagt að Kolli landnámsmaður sé grafinn.“
GeitholarÍ örnefnaskrá má finna fleiri örnefni tengd sögum og sögnum, t.d. er ofan við Kollafjarðartún lítil lág sem nefnist Kaplalág. Hún var talin álagablettur sem ekki mátti slá því ef það var gert dræpist besti gripur í húsi. Í Geithólum eiga að vera álfabyggðir og er sagt frá því er tveggja ára drengur elti þangað konu sem hann taldi vera móður sína. Utan við Djúpagil niður við sjó er klettur sem nefnist Hengingaklettur. Neðan og austan við sandnámið, niður við sjóinn er Leiðvöllur, þar sem er talið að sé hinn gamli þingstaður Kjalnesinga. Hann fer nú á kaf í flóðum. Þá þá nefna að kalknámur voru í landi Mógilsár t.d. við botn Djúpagils en þar var stundaður námugröfur um 1876.
FornleifÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Mógilsá segir m.a.: „Jörð í Kjalarneshrepp næst vestan við Kollafjörð (jörðina). Þar gaf upplýsingar bóndinn Jón Erlendsson. Hann er fæddur 1900 á Mógilsá og var þar til 1964, en býr nú (1967) að Laugarásvegi 1, Reykjavík. „Austan við land jarðarinnar er lækur, sem heitir Hvítá. Nafn sitt hefur hann af því að hann steypist hvítfyssandi niður hlíðina. Hvítá kemur ofan úr Hvítárbotnum, en þeir eru ofan við hæð, sem á korti er 343 m., en við þessa hæð er svonefndur Lyngbrekkubolli, er síðar getur.
Þá er bezt að fara niður að sjó og byrja þar. Með fram sjónum heitir hér Kambur bæði innan frá og út með, neðan við bæ. Hvítárós kemur þar í gegnum kambinn úr tjörn, sem þar er ofan við og er aldrei nefnd annað en Tjörnin. Landið upp af henni heitir Veita, en nú skiptist hún af smálæk í Austur-Veitu og Vestur-Veitu. Lækurinn, sem skiptir þessu, heitir Grundarlækur og kemur hér ofan úr brekkunum. Ofan og austan við Veituna eru þrír bungulagaðir klapparhólar, sem heita Geithólar og eru álfabyggðir.
Gomul gataÞegar Jón Erlendsson var tveggja ára, var faðir hans að slá þarna og drengurinn hjá honum. Þá tók hann allt í einu á rás vestur yfir lækinn. Þegar faðir hans náði honum, sagðist hann vera að elta konu, sem hann sá og hélt vera móður sína. Neðan við Geithóla er túnblettur, sem heitir Geithólatún. En ofan við Geithólana er Geithólamýri. Þar er nú sumarbústaður Arons Guðbrandssonar. Upp frá Geithólamýri er svonefnd Fossbrekka, sem dregur nafn af flúð í Hvítá, sem heitir Hvítárfoss.
Brúnin út frá Hvítárfossi heitir Grjótabrún og er heldur ofan við túnið sem nú er. Svæðið fyrir ofan brúnina er allstórt lautasvæði, sem einu nafni er nefnt Kálfalágar. Þetta eru einar átta lautir, sem sumar hafa sérnöfn.
Alfakirkja-2Næst við Hvítá er allstór molabergsklettur, sem heitir Álfakirkja, móti Kaplalág í Kollafirði. Ofar er hvammur, sem heitir Kirkjuhvammur, ofan við Álfakirkjuna. Þar vestar er annar, sem heitir Fagrihvammmur. Næst Kirkjuhvammi er Djúpalaut. Enn ofar, upp með á, er Innstalaut. Eru Kálfalágar þá búnar.
Norðan við Holtið, upp af bænum og Grjótabrún, er stór dalur, sem heitir Kálfsdalur, og skiptist hann í Neðri-Kálfsdal og Efri-Kálfsdal. Fyrir ofan Kálfsdal er brekkan grónar skriður. Heitir sú brekka Hákinn og er næst austan við  DjupagilStekkjarmelana. Austan við Hákinn eru Línbrekkur, sem eru ofan við Efri-Kálfsdalinn. Þá er næst Kálfsdalslækur. Hann kemur upp ofan við Línbrekkur, rennur svo um Kálfsdali og fer í Grundarlækinn. Þessi lækur er ekki áberandi ofan til nema í leysingum. Austan við lækinn eru tvær lautir, sem heita Krókar. Allt var þetta slegið áður fyrr. Austan við og hærra en Línbrekkur er stór laut, sem heitir Línbrekknabolli, skammt vestan við Hvítá. Þar uppaf allangt ofar heita Hvítárbotnar. Þar kemur áin upp í einu lagi neðst í Hvítárbotnum. Hærra uppi við Esju neðan við háfjallið er langur klettahryggur, sem heitir Geithóll, 579 m. hár. Vestur af honum fram með háfjallinu er Rauðhamar, og rétt þar vestur af kemur Mógilsá upp.
GongustigurNeðan við Geithól og suðvestur af honum heitir Rauðhólsurð, og þar vestur við Mógilsána er Rauðhóll, sem er 441 m. hár. Hjá Geithól er gil, sem heitir Rjúpnagil. Það er upptök Kálfsdalslækjar. Svæðið frá Rauðhól niður á brúnir hjá Kögunarhól heitir einu nafni Rauðhólalautir. Vestast heita þar Fosslautir, sem eru við Mógilsárfoss. Þar var kalknáma vestan við ána. Vestast móti Mógilsárfossi, sem er efst í gljúfrunum, er hár hóll austur frá Fosslautum. Hann heitir Kögunarhóll. Langabrekka er löng brekka austur og vestur niður undan Kögunarhól frá Mógilsánni. Lág klettabrún er ofan við hana. Austur frá Löngubrekku er Sauðagil, nokkuð breitt gil með grasteigingum upp eftir. Þá er Bæjarlækur, sem kemur ofan úr Rauðhólalautum og rennur um túnið rétt við gamla bæinn. Austan við Sauðagil, beggja vegna við Bæjarlæk, heita Stekkjarmelar. Þeir eru sýnilega sig úr brúninni.
Skofir-2Pallurinn neðan þessa er nú orðinn tún. Þar voru áður nafnlausar flesjur, og grjótmói fyrir ofan. Austur á við, milli Bæjarlækjar og Grundarlækjar, heitir Grundarhóll, stór hóll, eða túnbrekkan sunnan í honum, upp af skógræktarstöðinni. Neðan við hann er slétt tún, sem heitir Grundartún og liggur að Veitunni sem fyrr getur. Ofan við gamla bæinn kemur Bæjargil. Tungan sem það myndar milli Bæjarlæks og Bæjargils heitir Hjarta. Hóll vestur af bæ heitir Fjárhúshóll eða Hóll. Þar stóðu fjárhús áður fyrr. Þessi hóll nær vestur að Mógilsá. Ofan við hólinn er Hvammur efst í túninu, sem áin er að brjóta. Þá er blettur, sem er neðan við veg, nefndur aðeins Blettur. Skriða fór yfir allt nema þennan blett. Þá er komið alla leið út að Mógilsá.
VetrarblomÚt með sjó er þá fyrst eyrin utan við Mógilsá, sem heitir Eyrar. Þá er Tæpagata, þar sem gamli vegurinn lá áður á standklettabrún. Utar er gil, sem heitir Djúpagil. Ofan við eyrarnar ofan við veg er Kvíabrekka. Kvíaklettur var klettur við Mógilsá inn með henni, vestur undan bænum. Ofan við Kvíabrekku er mýri, sem heitir Grafarmýri, og nafnlausir hólar eru þaðan vestur að Djúpagili. Þar upp af við botn Djúpagils, milli þess og Þvergils, er stór hóll, sem heitir Sandhóll. Þvergil fellur í Mógilsá. Ofar er tunga, sem heitir Smágil. Það eru smáskorningar milli Mógilsár og Þvergils. Svæðið þar ofar milli Þvergils og Mógilsár heitir Fláar. Við botn Djúpagils var kalknáma og sást áður móta fyrir garðlagi þar framan í Sandhól. Hún var Kollafjordurstarfrækt um 1876.
Ofan við Þvergil eru svonefndir Fögrudalir. Þar austur á hlíðinni upp frá Mógilsá heitir Vestri-Hákinn, snarbrött vestan við Mógilsárfoss. Svæðið upp frá Fögrudölum og Vestri-Hákinn er stór mýrarfláki, sem heitir Einarsmýri, og nær inn undir há-Esju, eitt bezta haglendi framan í fjallinu, brok og valllendi. Innan við Hákinn er gildrag niður, og brekka þar heitir Sumarkinn. Vestan við Mógilsá og ofar, en neðan við Rauðhamar er Grensöxl. Þar var gren nýlega.
Þá er aftur tekið svæðið utan við Djúpagil með sjónum neðan vegarins.
Fyrst er Stýrimannaklettur. Hann var bungumyndaður að ofan, en er nú (1967) að mestu hruninn. Við sjóinn er Djúpagilsklettur. Utar er Hengingarklettur. Því miður er ekki lengur hægt að nota hann á réttan hátt, sökum þess hve hruninn hann er.
UtsyniVestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil. (Í landamerkjabréfum er það nefnt Stangargil eða Festargil).
Ofan við Leiðtjörn er flöt, sem heitir Kirkjuflöt, en ekki er vitað um tildrög þess nafns. Svæðið frá Djúpadal að Markagili er melar og klettar og heitir Kleifar. Ofar er Kleifhóll, ofan við veginn. Grýtt brekka eða hvammur með klettum í er austanverðu í Kleifum, vestan Djúpagils og ofan við veginn. Hún heitir Stórsteinabrekka. Nokkuð upp með Markagili, upp af Kleifhól, er brekka vestan við Festi, í austurátt frá bæ sem heitir Festarbrekka, en Festi er klettarani niður fjallið milli Festarbrekku, sem áður segir, og Stórsteinabrekku.
NipulautirFálkaklettur heitir klettur upp af Stórsteinabrekku, en brúnin vestur af honum og upp af Festarbrekku, vestur að Grundará, heitir Skarðabrún, og í hana eru Skörð. Dalirnir upp af Skarðabrún heita Neðri-Skarðadalur, og Efri-Skarðadalur.
Þverfell heitir há-Esjan upp frá Mógilsá, austur að Gunnlaugsskarði, og er Þverfellshorn vestast. Merkin liggja um Skarðadali í Gljúfurdalsháls og síðan í Þverfell og Þverfellshorn.“
Þá er minnst á Nípu, vörðulagaðan klett. „Þar upp af eru Nípulautir, bezta berjalandið í landareigninni“. Sjá meira HÉR. Einnig má sjá fleiri myndir HÉR (og eiga eftir að bætast við á næstunni).
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Emil Heimir Valgeirsson.
-Ingvar Birgir Friðleifsson.
-visindavefur.is
-Guðrún Kvaran.
-Örnefnalýsing Mógilsár – Ari Gíslason.
-wikipedia.com

Skógræktarfélag Reykjavíkur er umsjónaraðili Esjuhlíða en félagið tók við jörðunum Mógilsá og Kollafirði árið 2000.
EsjubaeklingurSkógrækt ríkisins og fleiri hafa ræktað þar talsverðan skóg á liðnum árum og verður því ræktunarstarfi fram haldið á komandi árum. Rúm 40 ár eru síðan skógrækt hófst í landi Mógilsár og hafa plöntur dafnað vel, einkum á seinustu árum.
Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur gefið út leiðsögubækling um Esjuhlíðar.
Í bæklingum eru lýsing á þeim gönguleiðum sem eru greiðfærar og ýtarlegt kort með fræðsluefni um einstök atriði á hverri leið.
Hægt er að nálgast bæklinginn í Esjustofu og öllum helstu upplýsingamiðstöðvum ferðaþjónustunnar í borginni.
Bæklinginn unnu Bergþóra Einarsdóttir og Svala Hjörleifsdóttir, aðstoð við kortavinnslu veitti Ragnhildur Freysteinsdóttir.

Esja

Gengið var um Esjuhlíðar.
Haldið var upp frá Esjustofu, gengið í gegnum trjásafnið við KvíRannsóknarstöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá, skoðuð Álfakirkja, gengið upp með Hvítá í Hvítárbotna með viðkomu á Nípu, Rauðhóll skoðaður sem og Geithóll áður en haldið var niður með Mógilsá að gömlu Kalknámunni, farið um Kögunarhól og síðan niður með honum austanverðum að upphafsstað með viðkomu í Kvíabrekku.

Skógræktarfélag Reykjavíkur er umsjónaraðili Esjuhlíða en félagið tók við jörðunum Mógilsá og Kollafirði árið 2000. Skógrækt ríkisins og fleiri hafa ræktað þar talsverðan skóg á liðnum árum og verður því ræktunarstarfi fram haldið á komandi árum. Rúm 40 ár eru síðan skógrækt hófst í landi Mógilsár og hafa plöntur dafnað vel, einkum á seinustu árum.

Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur gefið út leiðsögubækling um Esjuhlíðar.
Í bæklingum eru lýsing á þeim gönguleiðum sem eru greiðfærar og ýtarlegt kort með fræðsluefni um einstök atriði á hverri leið.
AlfakirkjaHægt er að nálgast bæklinginn í Esjustofu og öllum helstu upplýsingamiðstöðvum ferðaþjónustunnar í borginni.
Bæklinginn unnu Bergþóra Einarsdóttir og Svala Hjörleifsdóttir, aðstoð við kortavinnslu veitti Ragnhildur Freysteinsdóttir (sjá HÉR).

Esja (oftast með greini, Esjan) er fjall á Kjalarnesi, sem nú er innan borgarmarka Reykjavíkur, og er eitt af einkennum höfuðborgarsvæðisins. Útsýni til fjallsins hefur í gegnum tíðina haft áhrif á fasteignaverð á svæðinu, og til er fólk sem segist geta spáð fyrir um veðrið út frá litunum í fjallinu. Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar. Nokkrar gönguleiðir eru upp á fjallið og þar eru vinsæl útivistarsvæði. Esja er syðsta blágrýtisfjall á Íslandi.
KogunarhollÍ Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkur að nafnið sé írskt að uppruna. Sennilegri skýring er þó að orðið sé komið úr norrænu, en það er meðal annars þekkt í Noregi, og merkir „flögusteinn“.

Fyrir 2.8 milljónum ára gaus Kjalarneseldstöðin sem bar megineldstöð gosbeltis sem liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit norður í Langjökul. Í milljón ár var eldstöðin virk en á þeim árym gengu einnig 10 ísaldir yfir.
Varda á KogunarholÁ þessu tímabili myndaðist Esjan og hluti af berggrunninum undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós. Bergið í Esjunni myndaðist því annars vegar í gosi undir jökli, en þá hleðst gosefnið upp í móberg sem er dökkt á litinn, og hins vegar úr hrauni úr megineldstöðinni sem annað hvort hlóðust upp á, eða ofan á móbergið.
Smám saman færðist mesta eldvirknin yfir í Kistufellið þar sem varð til stærðarinnar eldfjall. Þaðan runnu þunnfljótandi hraunlög sem mynduðu hraunlagsbunka sem myndar nú topp Esjunnar. Næstu milljón ár var svo Esjan sorfin til af ísaldarjöklinum í það landslag sem við þekkjum í dag.

Kvíabrekka
KalknamanÍ Kvíabrekku er mikið úral áningastaða og fjölbreytt fuglalíf. Í hlíðinni er einnig gömul hringlaga kví þar sem kindur voru mjólkaðar fyrrum.

Kögunarhóll
Í Kögunarhól telja margir vera huldufólksbyggð.

Kalknáma
Ofan við gilið í Mógilsá er gömul Kalknáma. Þaðan var byrjað að vinna kalksteindir um 1890. Kalkið var brennt þar sem nú er Kalkofnsvegur í Reykjavík. Meðal bygginga sem kalkið var notað í er Elliðavatnsbærinn.
[Það var reyndar árið 1877 að kalknám hófst í Esjuhlíðum við Mógilsá. Námurnar entust ekki lengi og vinnslunni var hætt þegar sífellt erfiðara var að nálgast kalkið. Kalkið var flutt á bátum til Reykjavíkur og brennt í ofni sem stóð nálægt þar sem nú er Seðlabankinn. Gatan þar heitir einmitt Kalkofnsvegur. Eitthvað af kalkbyggðum húsum standa enn í dag, oftast er húsið að Lækjargötu 10 nefnt sem dæmi.]

Álfakirkja
Kalknaman-2Til er þjóðsaga um lítinn dreng sem hvarf á þessu svæði.
Sagan segir að drengnum hafi fundist hann heyra móður sína kalla á sig og hafi rödd hennar borist úr klettinum. Drengurinn gekk á hljóðið en aldrei sást til hans eftir þetta. Talið er að hann hafi verið hrifinn inn í Klettinn.

Gunnlaugsskarð
Gunnlaugsskarð er í rauninni lægð á flatlendi Há-Esjunnar og liggur í 850-900 m yfir sjávGamall stigur í Esjuarmáli. Í lægðinni, vestan við Kistufell er snjóskafl sem er notaður sem mælikvarði á hitasveiflur. Frá síðustu aldarmótum hefur skaflinn alltaf bráðnað og horfið í lok sumars.

Langimelur
Langimelur myndaðist að öllum líkindum í lok síðustu ísaldar og er hjalli úr fíngerðu jökulseti. Melurinn er líklega eini sethjallinn frá ísaldarlokum á höfðuborgarsvæðinu (sjá þó Blesaþúfu) sem er enn óraskaður. Vestan hans er jarðfalladalur sem áhugavert er að skoða.
 

Á bakaleiðinni rataði FERLIR inn á gamlan gróinn stíg áleiðis upp á Esjuna, sem virtist mun greiðfærari en sá sem nú er mest genginn. Vegna þess hversu vinsæl gönguleiðin er væri ekki vanþörf á að endurvirkja gömlu stígana og merkja hin mörgu merkilegheit sem finna má í hlíðunum.
Sjá meira um jarðsögu og örnefni Esjunnar HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Árvellir

Ætlunin var að skoða fornminjar við Grundará undir Kerhólakambi Esju, öðru nafni Búa. Þar mun móta fyrir görðum Grundar, Esjubergs og Árvalla sem og tóftum bæjanna og öðrum mannvirkjum frá fyrri tíð. Þessar minjar virðast vera lítt þekktar þrátt fyrir að skammt frá hafi um langan aldur verið ein fjölfarnasta þjóðleið landsins (Vesturlandsvegurinn).Forn gata ofan Esjubergs - Búi fjær
Í Kjalnesingasögu segir frá Esju á Esjubergi. Ofan núverandi bæjarstæðis þess bæjar er að sjá bæði forna garða og tóftir. Tilgangurinn var m.a. að skoða hvorutveggja og auk þess átti að freysta uppgöngu um einstigi þess fræga Búahellis (sem sumir segja að sé ekki til) í Búa.
Þá lágu fyrir heimildir um kirkju að Esjubergi. Sumir segja hana hafa verið þá fyrstu hér á landi. Á túninu átti, skv. fyrirliggjandi upplýsingum, að móta fyrir ferköntuðum garði og tóft.
Áður en lagt var af stað var auk þessa lagst yfir örnefnalýsingar af Esjubergi með góðri aðstoð frá Jónínu Hafsteinsdóttur á Örnefnastofnun Íslands. Í þeim kemur m.a. fram að (hafa ber í huga að þjóðvegurinn hefur verið færður, t.d. liggur hann nú undir Leiðhamra, en ekki upp Kleifina svonefndu og inn með Esjurótum eins og áður var): „
Vesturmörkin, milli Esjubergs og Skrauthóla, eru um Gvendarbrunn í Flóðará og beint upp Esju. Milli Móa og Saltvíkur eru merkin Móalækur um Gvendarbrunn og upp í há-Esju um Laugarnípu, sem er há nípa upp af Árvelli. Leiðhamrar eru þrír talsins. Austasti hluti þeirra tilheyrir Esjubergi, en hitt Móum. Úr honum er línan Stekkur frá Grund neðan Gljúfurdalsí Varmhóla, þar sem þeir eru hæstir, en það er hólaþyrping hér upp af. [Aths. Odds Jónssonar við Esjuberg – Dys var upp af Varmhólum.] Upp af Leiðhömrum er mýri, þar sem tekinn var upp mór frá Esjubergi. Upp af Leiðvelli er flöt, er nefnist Kirkjuflöt. Þar var sagt, að hefði verið bænhús eða kirkja. Viðurinn í hana átti að hafa verið fluttur um Leiðvöll. [Hér er komin önnur vísbending um hugsanlega staðsetningu kirkju í landi Esjubergs.]
Ofan við veg er landið miklu breiðara, enda á Esjuberg land ofan vegar með Flóðará. Við gamla veginn, þegar kemur upp úr Kleifunum í Mógilsárlandi, er dys, sem nefnd er Dyngja. Þar átti að kasta steini í, er farið var framhjá. [Athugasemdir Sigríðar Gísladóttur, húsfreyju á Esjubergi við örnefni jarðarinnar. Sigríður er uppalin á Esjubergi og hefur átt þar heima óslitið frá árinu 1957. Dysin er/ var í landi Esjubergs. Var eyðilögð með stórvirkum vinnuvélum vorið 1981.]
Holtið, sem það er í, heitir Dyngjuholt. Austur af Dyngjuholti er mýri, sem kölluð er Dyngjumýri. Þar var tekinn mór, fyrst frá Grund og síðar frá Esjubergi, og sjást grafirnar þar vel ennþá.
Stekkur frá Árvöllum - Lauganípa fjærEinu sinni endur fyrir löngu stálu tveir strákar messuklæðum úr Móakirkju og skáru þau niður í skóna sína. Þeir voru síðan hengdir í Sjálfkvíum í Móanesi og dysjaðir þar allri alþýðu til viðvörunar. Sjálfkvíar eru klettar niður við sjó [skammt neðan við núverandi þjóðveg]. Dálítið bil er á milli þeirra, og fellur sjór þar inn um flóð.
Austur af bænum á Esjubergi er hóll í túninu, sem heitir Bænhúshóll. Rétt hjá, var sagt, að væri kirkjugarður, og mótaði fyrir honum í æsku G. S.  Austur af bænum og túninu er eyðibýlið Grund. Það tók af í skriðuhlaupi seint á 19. öld. Á Grund var byggt fjárhús og fjárrétt, þar sem fjósið hafði áður staðið.
Mýrin fyrir vestan melinn, niður af Stekkjarhól, heitir Grundarflóð. Þar vestur af heitir Hólmi. Austan og neðan við Esjuberg er Laug. Úr henni kemur lækur, sem heitir Laugarlækur, en heitir Móalækur, þegar kemur niður að Móum. Austur af Grund er hóll, sem heitir Grundarhóll, rétt austur af Grundarbæ.
Neðan við gamla veginn uppi í brekkunni rétt utan við Stekkjarhól er Rauðistígur og Rauðastígsbrekkur, 3 brekkur niður af Rauðastíg. Um Rauðastíg er hægt að fara upp klettana um smágil. Er þá komið upp á Skörð upp á Gljúfurdal. Farið er á tveim stöðum upp á Gljúfurdal, upp af Grund  um Grundarsneiðingu og upp af Árvelli um Árvallasneiðingu. Í Gljúfrinu er grjótdrangur, sem nefnist Hryggur.
Vestur af bæ og heldur ofar er eyðibýlið Árvöllur. Utan við Árvöll er dalur, sem heitir Árvallardalur. Í honum er blettur, sem kallaður er Jarðföll, eins og uppgrónar torfur og vatnspyttir á milli. Austan við bæinn heita Skörð og Skarðabrún. Skörðin ná frá Festi í Mógilsárlandi að Búa, sem er hnúkurinn austan við Gljúfurdalsmynnið rétt upp af Grund. Þar undir er Búahellir framan í klettunum, en niðri í Gljúfrunum heitir Litlibúi. Það er hólhnúkur upp af Stórabúa, en þaðan er nokkuð langt upp í Þverfell.
Að vestan var línan um Gvendarbrunn, sem var uppsprettulind rétt neðan við gamla veginn fyrir vestan Árvallardal. Þar eru merki milli Esjubergs og Skrauthóla.“
Kirkjutóftin á Esjubergi?Í Jarðabókinni 1703 kemur fram að skriða hafi spillt jörðinni og auk þess að; „Skriður fordjarfa tún, engjar og úthaga merkilega, so að hætt er bæði mönnum, húsum og fjenaði… Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur góður… Afbýlismaður heima við bæinn þar sem kallast Litla Esjuberg.“ Um Arvöllur segir m.a.: „Skriða fordjarfar so sem sagt er um heimajörðina“.
Bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir eru aldir upp að Esjubergi. Gísli sagði tóftir Árvalla vera ofan við Esjubergsbæinn, en leifar Grundar væru varla sýnilegar því bærinn hefði farið undir skriðu.  Tóftin við Grundarána væri sennilega rétt.
Árni sagði bæjartóftirnar ofan við Esjuberg standa í svonefndu Árvallatúni. Tóftirnar beggja vegna Grundaáar væru sennilega leifar Grundar. Áin hefði áður runnið til vesturst með fjallsrótunum, en í miklum skriðum um 1830 hefði hún breytt sér og Grund þá lagst í eyði. Þá sagði hann máttlitla fornleifarannsókn hafa farið fram í garðinum vestan við Esjuberg, en Túngarður á Esjubergihann vissi ekki hvað hefði komið út úr því. Gísli taldi hins vegar að þar hefðu fundist bein.
Í  Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er einnig nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið er að skýringu á nafninu.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi.
Brautarholtskirkja á Kjalarnesi telja menn afkomanda fyrstu kirkju á Íslandi, þeirrar kirkju sem suðureyski landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson reisti á Esjubergi skömmu fyrir árið 900 og frá segir í Landnámu og víðar.
Í samantekt um „Rannsóknir og rannsóknaskýrslur fornleifadeildar og Þjóðminjasafns 1974 – 2004“ kemur fram að GÓ hafi annast rannsóknir 1981 á Esjubergi á Kjalarnesi. Um hafi verið að ræða rannsókn á svonefndri kirkju Örlygs. Að þessum upplýsingum fengnum var leitað til Guðmundar og hann spurður um niðurstöður rannsóknarinnar. Þær helstu eru tíundaðar hér á eftir.
Í Landnámu (Sturlubók segir í 12. kafla: „Örlygur hét son Hrapps Bjarnarsonar bunu; hann var að fóstri með hinum (helga) Patreki byskupi í Suðureyjum. (Hann) fýstist að fara til Íslands og bað, að byskup sæi um með honum. Byskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenárium og mold vígða, er hann skyldi leggja undir Minjar í túninu suðvestan Esjubergshornstafina. Byskup bað hann þar land nema, er hann sæi fjöll tvö af hafi, og byggja undir hinu syðra fjallinu, og skyldi dalur í hvorutveggja fjallinu; hann skyldi þar taka sér bústað og láta þar kirkju gera og eigna hinum helga Kolumba.
Með Örlygi var á skipi maður sá, er Kollur hét, fóstbróðir hans, annar Þórólfur spör, þriðji Þorbjörn tálkni og bróðir hans, Þorbjörn skúma; þeir voru synir Böðvars blöðruskalla.
Þeir Örlygur létu í haf og fengu útivist harða og vissu eigi, hvar þeir fóru; þá hét Örlygur á Patrek byskup til landtöku sér, að hann skyldi af hans nafni gefa örnefni, þar sem hann tæki land. Þeir voru þaðan frá litla hríð úti, áður þeir sáu land, og voru komnir vestur um landið. Þeir tóku þar, sem heitir Örlygshöfn, en fjörðinn inn frá kölluðu þeir Patreksfjörð. Þar voru þeir um vetur, en um vorið bjó Örlygur skip sitt; en hásetar hans námu þar sumir land, sem enn mun sagt verða.
Örlygur sigldi vestan fyrir Barð; en er hann kom suður um Snæfellsjökul á fjörðinn, sá hann fjöll tvö og dali í hvorutveggja. Þar kenndi hann land það, er honum var til vísað.
Hann hélt þá að hinu syðra fjallinu, og var það Kjalarnes, og hafði Helgi bræðrungur hans numið þar áður.
Örlygur var með Helga hinn fyrsta vetur, en um vorið nam hann land að ráði Helga frá Mógilsá til Ósvíf(ur)slækjar og bjó að Esjubergi. Hann lét þar gera kirkju, sem mælt var.
Árvellir - loftmyndÖrlygur átti margt barna; hans son var Valþjófur, faðir Valbrands, föður Torfa, annar Geirmundur, faðir Halldóru, móður Þorleifs, er Esjubergingar eru frá komnir. Þeir Örlygur frændur trúðu á Kolumba. Dóttir Örlygs hins gamla var Vélaug, er átti Gunnlaugur ormstunga, sonur Hrómundar í Þverárhlíð; þeirra dóttir var Þuríður dylla, móðir Illuga hins svarta á Gilsbakka.“
Esjuberg er, eins og að framan er lýst, getið í Landnámu sem jörð landnámsmannsins Örlygs Hrappssonar. Á Esjubergi stóð kirkja samkvæmt kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá því um 1200. Esjuberg var á meðal jarða Viðeyjarklausturs eins og sjá má af skrá frá árinu 1395 um kvikfé og leigumála á jörðum klaustursins. Jarðarinnar er getið í fógetareikningunum frá 1547-1552 og er þá komin í eigu konungs.
Lögfesta fyrir Esjuberg var lesin upp á manntalsþingi þann 9. júní 1801 en inntak hennar ekki skráð.
Björn Stephensen dómsmálaritari bjó á Esjubergi frá því um 1814 til dauðadags, þann 17. júní 1835. Eftir hann liggur Grund - loftmyndlýsing á landamerkjum Esjubergs og Mógilsár. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 kemur fram að hjáleigur Esjubergs eru tvær; Grund (Austurbær) og Árvöllur, báðar 10 hundruð að dýrleika. Neðanmáls er greint frá því að engar upplýsingar er að finna í jarðabókum um hjáleigurnar nema hvað 1802 er Austurbæjar getið getið sem Johnsen telur að sé sama jörð og sýslumaður og prestur kalla Grund.
Í fasteignamatinu 1916-1918 eru Árvellir og Grund taldar með Esjubergi.
Í opinberri Skrá um friðlýstar fornleifar frá 1990 segir um framangreindar kirkjuminjar að Esjubergi: „Esjuberg. I) Kirkjugrunnur forn, skamt austur frá bænum
. Sbr. Árb. 1902: 33-35. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 17.11.1938. II).“
Einnig er tiltekin „Grjótdys, sem kölluð hefur verið Dyngja, við gamla reiðveginn, á mel 2 km austur frá bænum. Skjal undirritað af KE 28.07.1964. Þinglýst 04.08.1964.“ [Þá dys segir SG hafa verið eyðilagða 1981, líkt og að framan greinir].
Gísli upplýsti í samtalinu að framangreind Dyngja hefði verið mokað í burtu á örskotsstund þegar byrjað var að nota malarnámusvæðið austan við Leiðhamra við norðanverðan Kollafjörð. Hann vissi ekki til þess að nokkur maður, hvað þá stofnun, hefði æmt eða skræmt vegna þessa.
Örnefnalýsingarnar af Esjubergi gáfu von um hugsanlega lausn að aldagamalli gátu, þ.e. hvar hin fyrsta kirkja hér á landi var reist. Svæðið umhverfis Bænhúsahól hefur verið rannsakað (GÓ 1981), en svo virðist sem ekkert hafi verið litið á Kirkjuflöt ofan Leiðhamra. Þar á loftmynd er að sjá Malartökusvæðið ofan við Leiðhamra - gamla þjóðleiðin sést til hægrigamla tóft. Þá staðfesta bræðurnir Árni og Gísli Snorrasynir frá Esjubergi tilvist Grundar, er mun hafa farið undir skriðu um 1830. Við hana sjást enn minjaleifar, auk þess sem Grundarhóll (41) staðfærir fyrrum bæjarstæðið nokkuð örugglega. Leiðinlegast er þó að Dyngjunni, gamalli vegdys á friðlýsingarskránni, var raskað með einu vélskóflutaki, án þess að nokkur æmti né skræmti, hvorki fólk né tilheyrandi stofnun (sjá athugasemdir við örnefnalýsinguna). Dæmigert – jafnvel nú á dögum.
Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1902 er rakin frásögnin í 12. kafla Landnámu. Þá segir: „Í túninu á Esjubergi, austur frá bænum er rúst, sem frá ómunatíð hefur verið kölluð kirkjutóft eða stundum bænhústóft. Og girðing sem, sem er áföst við hana, er kölluð kirkjugarður. Rústin snýr frá austri til vesturs, nál. 4 fðm. löng og nær 3 fðm. breið. Hornin eru hér um bil rétt. Utantil er hleðsla, eigi mjög aflöguð; enda er hæðin aðeins tvö steinalög, eð sumstaðar þrjú, hvert ofan á öðru. Grjótið er hnöllungagrjót, en þó eigi mjög hnöttótt og sumt er með nokkrum köntum.  Að ofan er rústin ávöl af grjóti. Lítur út fyrir, að ofan á hana hafi verið kastað lausum steinum, annaðhvort sem fallið hafi úr henni sjálfri – Grjóthraukur í gerðinuhafi hún verið hærri, – eða sem skriðuhlaup hefði kastað þangað. Eigi haggaði eg við rústinni, er eg skoðaði hana í voru (1901). Var það bæði, að þá var annríkt hjá mönnum og verkamenn óhægt að fá, enda ilt að gjörða vegna rigninga. Þóttist eg sjá, að það mundi mikið verk, en ósýnt um árangur. Þó lét eg grafa með öllum vesturgaflinum, í þeirri von, að þar sæi merki dyra. En þeirra sást enginn vottur. Undirstaðan sýndist óhögguð yfir um þvert og lá á skriðugrjóti – sem þar er alstaðar undir jarðvegi… eins og rústin kom mér fyrir sjónir, gat eg varla talið hana líklega til að vera hústóft. Hitt gæti verið, að hér hefði verið hærri bygging; hústóft, nfl. staðið ofan á því sem nú er eftir. Þó leizt mér svo á brúnir rústarinnar að þær mundu ójafnari en þær eru, ef ofan á þeim hefði verið hærri hleðsla, sem hefði fallið. Eg hefi síðan hugsað um þetta, og hefir nú komið í hug, að rústin muni vera upphækkun eða „grunnur“ undan kirkjunni Örlygs, og hafi hún verið gjör af viði einum, – eins og t.a.m. skáli Gunnars á Hlíðarenda…
Girðingin, sem kölluð er kirkjugarður, er fyrir austan rústina; er austurgafl hennar áfastur suðvesturhorn girðingarinnar. Hún er 11 faðma breið frá austri til vesturs, og 12 fðm. löng frá norðri til suðurs. Sér glögt til hennar öllum megin; hefir þó skriða runnið fram á norðurvegg hennar. Framhald af honum gengur vestur á móts við kirkjutóftina og verður þar smá-girðing við norðurgafl tóftarinnar, 4 fðm. frá austri til vesturs og 6 fðm. frá norðri til suðurs, en gengur að sér vestantil…“.
Uppkast úr gerði austan EsjubergsGuðmundur Ólafsson gróf í þessa tóft, eins og fram hefur komið. Þegar hann var spurður um niðurstöður rannsóknarinnar svaraði hann eftirfarandi: „
Ég byrjaði á smá rannsókn þarna árið 1981. Tilefnið var ósk um rannsókn frá kirkjunnar mönnum í tilefni af því að þá var kristniboðsár. Ég flaug líka yfir svæðið og tók myndir. Rannsóknarsvæðið var í skriðum nokkru austan við bæinn, þar sem talið var að væru leifar kirkjunnar. Fljótlega kom í ljós að rústirnar voru mun yngri en frá landnámsöld, þannig að þetta gátu ekki verið leifar af Kirkju Örlygs.  Steinhleðslurnar sem sagðar voru vera leifar kirkjunnar voru að öllum líkindum frá 16. eða 17. öld.  Nokkru neðar voru mannvistarlög sem bentu til eldri byggðar, eða allt frá 11. – 12. öld, en það voru leifar sem bentu frekar til íveruhúsa en kirkju (móöskudreif og viðarkolaaska). Það var líka augljóst að skriður höfðu farið yfir allt þetta svæði og að það yrði afar erfitt að finna og grafa upp frekari minjar á þessu svæði. Þá var líka ljóst að rústin væri ekki leifar af  kirkju Örlygs og að hennar yrði að leita annars staðar. Rannsókn var því hætt.“
Af ummerkjum á vettvangi að dæma er ljóst að hver skriðan á eftir annarri hefur hlaupið yfir það úr Gljúfurdal. Eldri minjar eru og verða því grafnar undir þeim yngri. Líklegt er því að niðurstaða Guðmundar sé skynsamleg, auk þess sem hún er byggð á rannsóknum.
Tóft norðan gerðisinsÞegar FERLIR gekk um svæðið „austan“ Esjubergs með hliðsjón af lofmyndum af svæðinu virtist áhugaverðasta svæðið samt sem áður vera órannsakað. Hafa ber í huga að munnmæli sögðu kirkjutóftina vera austan við bæinn og jafnan var bent á líklegustu staðsetningu hennar m.v. eðlilegt sjónarhorn frá bænum. Ekki er vitað hversu glöggar upplýsingar seinni tíma ábúendur höfðu fengið frá fyrri ábúendum um nákvæma staðsetningu tóftarinnar og annarra örnefna eða hvort einhverju sinni hefði einhver giskað á hana að þeim óvörðuspurðum, líkt og dæmi eru um. Hafa ber í huga að í lýsingum er gjarnan notuð önnur viðmið en eiginlegar höfuðáttir. Var t.d. gjarnan miðað við útnorður á Reykjanesskaganum, þ.e. beint út á sjó. Ef tekið er mið af því ætti „austur“ af bænum Esjubergi að vísa á fyrrnefnt svæði. Þegar gengið var um það mátti vel sjá að „grundvöllurinn“ lá lægra en landið umhverfis. Óljóst mótaði fyrir leifum af hlöðnum veggjum, ferningslaga. Beygur fylgdi göngunni yfir reitinn. Upphleyingar voru á stöku stað – og Esjuberg um 1900niðurgróningar á öðrum. Hlaðnir grjóthraukar voru auk þess á stangli, mögulega uppsöfnun úr gröfum. Hvorutveggja bentu því til gamalla grafstæða. Norðan garðsins var forn tóft með vestur/austur legu. Við austurenda hennar var þvertóft er gæti gefið heykuml til kynna. Samt sem áður kom vöknuðu efasemdir um að þarna hafi verið fjárhús. Þau voru einfaldlega ekki með þessu lagi fyrrum og auk þess samræmdist byggingarlagið ekki slíkum mannvirkjum frá seinni tíð. Það virtist líkara skálum þeim er reistir voru til forna.
Jarðirnar Grund og Árvellir fóru í eyði eftir skriðuföll 2. september árið 1886. Þá urðu 9 jarðir á Kjalarnesi fyrir stórskemmdum.
Ákveðið var að freysta ekki uppgöngu í Búahelli að svo komnu máli. Slíkt þrekvirki krefst mun meiri undirbúnings – og áræðis.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Landnáma (Sturlubók), 12. kafli.
-Kjalnesingasaga, 2. kafli.
-Árni Snorrason.
-Gísli Snorrason.
-Páll Eggert Ólason.
-Fasteignamat.
-Skrá um friðlýstar fornleifar 1990.
-Ari Gíslason – Örnefnastofnun Íslands – Esjuberg.
-Kjalnesingar – frá 1890, 1998.Garður í túninu Esjubergi

Esja

Esja er fjall við ofanvert Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennunum á norðanverðu höfuðborgarsvæðisins. Fjallið ræður veðri og vindum auk þess sem útsýni yfir fjallið hefur í gegnum tíðina haft áhrif á fasteignaverð á svæðinu. Til er fólk sem segist geta spáð fyrir um veðrið út frá litunum í fjallinu svo hvernig þaulsetnir snjóskaflar haga sér í giljum.
Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar y.s. Nokkrar gönguleiðir eru upp á fjallið og þar eru vinsæl útivistarsvæði. Það er syðsta blágrýtisfjall á Íslandi.
Búahellir ofan við EsjubergÍ Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er einnig nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið er að skýringu á nafninu.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Esjan - nafngiftin hefur jafnan verið þjóðsagnakenndLíklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.
Í 2. kafla Kjalnesingasögu segir m.a.frá írskum manni, Andríð, sem kemur til landsins og fær að reisa sér bæ í landi Helga og skammt frá honum. Fer vel með honum og sonum Helga þeim Þorgrími og Arngrími og sverjast þeir í fóstbræðralag. Með sama skipi og Andríður kemur Esja, kona forn í brögðum og sest að á bæ Örlygs.“ Í 3. kafla segir að Esja bjóði Búa, einni aðalpersónu sögunnar, til fósturs og elst hann upp hjá henni. Í 4. kafla segir frá því er Búi kemur heim til Esju eftir átökin við þá Þorstein og hún brýnir hann til dáða og lofar að hjálpa honum. Búi ákveður því að láta til skarar skríða gegn Þorsteini; drepur hann í hofinu og brennir hofið. Búi lýsir víginu á hendur sér og heldur til Esju sem felur hann í helli skammt frá bænum þar sem erfitt er að sækja að honum. Esja býr sig svo undir eftirreið Þorgríms með því að fylla hús sín af reyk og remmu. Í 5. kafla er sEsjuberg - hér mótar fyrir fornum görðumagt frá því er Þorgrímur safnar liði og heldur að Esjubergi til að hafa hendur í hári Búa. Að sjálfsögðu mætir honum þar ekkert nema reykjarsvæla og enginn Búi. Þorgrímur sakar Esju um undirferli, en Esja nýr Þorgrími það um nasir að hann sé enginn jafningi Helga föður síns. Þorgrímur verður að láta reiði sína koma einhvers staðar niður og fer og drepur Andríð föður Búa og fóstbróður sinn. Fer það gegn ríkjandi siðferði að drepa fóstbróður sinn og verður það Þorgrími til minnkunnar.
Í 6. kafla víkur sögunni að Austmanni einum sem Örn nefnist. Kemur hann í Kollafjörð og verður hrifinn af Ólöfu dóttur Kolla. Esja hefur sitthvað við það að athuga og vill að Búi fari og geri hosur sínar grænar fyrir Ólöfu. Hún hafi nefnilega ætlað Búa hana fyrir konu. Eins og fyrri daginn kvað Búi hana ráða skyldu og fer til Kolla og gerist þar þaulsetinn. Sátu þeir tveir Örn og Búi svo um grey stúlkuna að hvorugur fékk neitt sagt við hana án þess að hinn heyrði. Í 7. kafla bætist bætist enn einn galgopinn við í umsátrið um Ólöfu. Er það Kolfinnur, sonur Þorgerðar á Vatni [Elliðavatni], sem fram að því hafði verið álitinn stórskrýtinn vitleysingur. Eins og Búi þá er það móðir Kolfinns, Þorgerður sem brýnir hann af stað. Er hún fjölkunnug eins og Esja en þó engin jafnoki hennar í þeim efnum. Gengur þetta þannig fyrir sig allan veturinn að þeir sitja þrír um Ólöfu. Ólöf greyið virðist ekki hafa verið manneskja til að taka af skarið og segir að hún hafi svarað þeim öllum kurteislega.
Í 8. kafla fer Erni Austmanni að leiðast þetta þóf allt saman og ákveður að ráðast gegn Kolfinni og drepa hann. Fer það ekki betur en svo að Kolfinnur drepur Örn. Tóftir í Esjuhlíðum ofan EsjubergsKolfinnur verður sár í átökunum og leitar á náðir móðurbróður síns Korpúlfs sem hjúkrar honum til heilsu. Esja segir Búa frá viðureign þeirra Arnar og Kolfinns og vill að hann klæði sig betur. Það sama ráðleggur Korpúlfur Kolfinni, sem ákveður að nú skuli sverfa til stáls með honum og Búa. Í 9. kafla segir Kolfinnur Búa að hætta að finna Ólöfu eða ganga á hólm við sig ella. Búi tekur áskoruninni og er ákveðið að hólmgangan fari fram daginn eftir. Þegar Kolfinnur segir Korpúlfi hvað standi til líst honum ekki á blikuna. Segir hann fáa hafa riðið feitum hesti í glímu við Esju. Hann fær honum sverð fyrir átökin. Esja undirbjó Búa eftir kúnstarinnar reglum og sú tilfinning magnast hjá lesandanum að átökin standi ekki milli Kolfinns og Búa, heldur Esju annars vegar og þeirra systkina Korpúlfs og Þorgerðar hinsvegar. Það fer svo að Búi særir Kolfinn og gerir han óvígan. Eftir hólmgönguna heldur Búi rakleitt til Kollafjarðar, sækir Ólöfu og fer með hana heim í hellinn sinn. Hreyfir hún engum mótmælum við en ekki kemur heldur fram nein gleði hjá henni.
Í 10. kafla grær Kolfinnur sára sinna, safnar liði og heldur við fimmtánda mann að helli Búa við Esjuberg og vill sækja Ólöfu. Leggja þeir þó ekki í að fara upp einstigið að sjálfum hellinum. Kolfinnur Tóftir Grundar við Grundará í Esjuhlíðumreynir að storka Búa með því að kalla hann Berkvikindi og Búi er næstum rokinn út í opinn dauðann, en þá grípur Esja í taumana og setur að Búa þvílíkan augnverk að hann fær sig hvergi hrært. Kolfinnur og menn hans snúa á braut og undi hann illa við sína ferð. Í 11. kafla kemur fram að Esja vill að Búi haldi utan og viti hvað þar bíði hans, enda dæmdum skóggangsmanninum varla vært heima fyrir. Ólöf skyldi bíða hjá föður sínum Kolla í þrjú ár eftir honum.
Í 17. kafla snýr Búi aftur til Esjubergs þar sem Esja fagnar honum og fer síðan og hittir móður sína. Þorgrímur er orðinn gamall maður og góðir menn koma á sáttum á milli hans og Búa. Búi kvænist Helgu dóttur Þorgríms og Helgi Arngrímsson fær Ólafar Kolladóttur. Og nú verður aftur tvöfalt brúðkaup í að Hofi. Þegar Esja deyr sest Búi að á Esjubergi. Þau Helga og Búi eignast þrjú börn, Ingólf, Þorstein og Hallberu. Þegar Þorgrímur deyr tekur Búi við sem höfðingi héraðsins.
Af fornsögunum að dæma virðist fjallið fá nafn sitt frá fyrrnefndri Esju, sem verður að teljast til marks um mikilleik hennar því sjaldan munu svo stór fjöll hafa heitið eftir konum í upphafi landnáms hér á landi. Bær hennar var nefndur eftir henni skv. sögunni, enda sjálf bústýran. Ekki er ólíklegt að ætla að Búi hafi að henni genginni nefnt fjallið eftir henni, sem hafði reynst honum svo vel er raun bar vitni. Líklegt má því telja að lík hennar hafi verið brennt undir rótum þess eða það verið sett þar í haug á efstu mörkum eftirlifendum til ævarandi verndar.
Fornar tóftir bæjarins Grundar eru á suðurbakka Grundaráar er kemur ofan úr Gljúfurdal undir Kerhólakambi í Esjunni vestanverði, ofan við Esjuberg. Ofan þeirrar jarðar, í Esjuhlíðum, má einnig sjá móta fyrir fornum tóftum. Þangað verður ferðinni heitið innan skamms.
Sjá meira um Esju HÉR.

Heimildir m.a.:
-Vísindavefurhi.is
-Wikipedia.org
-kjalarnes.is
-Kjalnesingasaga, 2. – 17. kafli.Esjan

Portfolio Items