Esja

Esja er fjall við ofanvert Kjalarnes í Reykjavík og er eitt af einkennunum á norðanverðu höfuðborgarsvæðisins. Fjallið ræður veðri og vindum auk þess sem útsýni yfir fjallið hefur í gegnum tíðina haft áhrif á fasteignaverð á svæðinu. Til er fólk sem segist geta spáð fyrir um veðrið út frá litunum í fjallinu svo hvernig þaulsetnir snjóskaflar haga sér í giljum.
Hæsti tindur Esjunnar er 914 metrar y.s. Nokkrar gönguleiðir eru upp á fjallið og þar eru vinsæl útivistarsvæði. Það er syðsta blágrýtisfjall á Íslandi.
Búahellir ofan við EsjubergÍ Kjalnesinga sögu er talað um bæinn Esjuberg þar sem landnámsmaðurinn Örlygur Hrappsson bjó þegar hann kom til Íslands frá Suðureyjum í Skotlandi. Í sögunni er sagt frá því að írsk kona að nafni Esja hafi komið í Kollafjörð og hafa menn þá leitt að því líkum að nafnið sé írskt að uppruna. Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er einnig nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið er að skýringu á nafninu.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Esjan - nafngiftin hefur jafnan verið þjóðsagnakenndLíklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.
Í 2. kafla Kjalnesingasögu segir m.a.frá írskum manni, Andríð, sem kemur til landsins og fær að reisa sér bæ í landi Helga og skammt frá honum. Fer vel með honum og sonum Helga þeim Þorgrími og Arngrími og sverjast þeir í fóstbræðralag. Með sama skipi og Andríður kemur Esja, kona forn í brögðum og sest að á bæ Örlygs.” Í 3. kafla segir að Esja bjóði Búa, einni aðalpersónu sögunnar, til fósturs og elst hann upp hjá henni. Í 4. kafla segir frá því er Búi kemur heim til Esju eftir átökin við þá Þorstein og hún brýnir hann til dáða og lofar að hjálpa honum. Búi ákveður því að láta til skarar skríða gegn Þorsteini; drepur hann í hofinu og brennir hofið. Búi lýsir víginu á hendur sér og heldur til Esju sem felur hann í helli skammt frá bænum þar sem erfitt er að sækja að honum. Esja býr sig svo undir eftirreið Þorgríms með því að fylla hús sín af reyk og remmu.
Í 5. kafla er sEsjuberg - hér mótar fyrir fornum görðumagt frá því er Þorgrímur safnar liði og heldur að Esjubergi til að hafa hendur í hári Búa. Að sjálfsögðu mætir honum þar ekkert nema reykjarsvæla og enginn Búi. Þorgrímur sakar Esju um undirferli, en Esja nýr Þorgrími það um nasir að hann sé enginn jafningi Helga föður síns. Þorgrímur verður að láta reiði sína koma einhvers staðar niður og fer og drepur Andríð föður Búa og fóstbróður sinn. Fer það gegn ríkjandi siðferði að drepa fóstbróður sinn og verður það Þorgrími til minnkunnar.
Í 6. kafla víkur sögunni að Austmanni einum sem Örn nefnist. Kemur hann í Kollafjörð og verður hrifinn af Ólöfu dóttur Kolla. Esja hefur sitthvað við það að athuga og vill að Búi fari og geri hosur sínar grænar fyrir Ólöfu. Hún hafi nefnilega ætlað Búa hana fyrir konu. Eins og fyrri daginn kvað Búi hana ráða skyldu og fer til Kolla og gerist þar þaulsetinn. Sátu þeir tveir Örn og Búi svo um grey stúlkuna að hvorugur fékk neitt sagt við hana án þess að hinn heyrði. Í 7. kafla bætist bætist enn einn galgopinn við í umsátrið um Ólöfu. Er það Kolfinnur, sonur Þorgerðar á Vatni [Elliðavatni], sem fram að því hafði verið álitinn stórskrýtinn vitleysingur. Eins og Búi þá er það móðir Kolfinns, Þorgerður sem brýnir hann af stað. Er hún fjölkunnug eins og Esja en þó engin jafnoki hennar í þeim efnum. Gengur þetta þannig fyrir sig allan veturinn að þeir sitja þrír um Ólöfu. Ólöf greyið virðist ekki hafa verið manneskja til að taka af skarið og segir að hún hafi svarað þeim öllum kurteislega.
Í 8. kafla fer Erni Austmanni að leiðast þetta þóf allt saman og ákveður að ráðast gegn Kolfinni og drepa hann. Fer það ekki betur en svo að Kolfinnur drepur Örn. Kolfinnur verður sár í átökunum og leitar á náðir móðurbróður síns Korpúlfs sem hjúkrar honum til heilsu. Esja segir Búa frá viðureign þeirra Arnar og Kolfinns og vill að hann klæði sig betur. 

Tóftir í Esjuhlíðum ofan Esjubergs

Það sama ráðleggur Korpúlfur Kolfinni, sem ákveður að nú skuli sverfa til stáls með honum og Búa. Í 9. kafla segir Kolfinnur Búa að hætta að finna Ólöfu eða ganga á hólm við sig ella. Búi tekur áskoruninni og er ákveðið að hólmgangan fari fram daginn eftir. Þegar Kolfinnur segir Korpúlfi hvað standi til líst honum ekki á blikuna. Segir hann fáa hafa riðið feitum hesti í glímu við Esju. Hann fær honum sverð fyrir átökin. Esja undirbjó Búa eftir kúnstarinnar reglum og sú tilfinning magnast hjá lesandanum að átökin standi ekki milli Kolfinns og Búa, heldur Esju annars vegar og þeirra systkina Korpúlfs og Þorgerðar hinsvegar. Það fer svo að Búi særir Kolfinn og gerir han óvígan. Eftir hólmgönguna heldur Búi rakleitt til Kollafjarðar, sækir Ólöfu og fer með hana heim í hellinn sinn. Hreyfir hún engum mótmælum við en ekki kemur heldur fram nein gleði hjá henni.

Tóftir Grundar við Grundará í Esjuhlíðum

Í 10. kafla grær Kolfinnur sára sinna, safnar liði og heldur við fimmtánda mann að helli Búa við Esjuberg og vill sækja Ólöfu. Leggja þeir þó ekki í að fara upp einstigið að sjálfum hellinum. Kolfinnur reynir að storka Búa með því að kalla hann Berkvikindi og Búi er næstum rokinn út í opinn dauðann, en þá grípur Esja í taumana og setur að Búa þvílíkan augnverk að hann fær sig hvergi hrært. Kolfinnur og menn hans snúa á braut og undi hann illa við sína ferð. Í 11. kafla kemur fram að Esja vill að Búi haldi utan og viti hvað þar bíði hans, enda dæmdum skóggangsmanninum varla vært heima fyrir. Ólöf skyldi bíða hjá föður sínum Kolla í þrjú ár eftir honum.
Í 17. kafla snýr Búi aftur til Esjubergs þar sem Esja fagnar honum og fer síðan og hittir móður sína. Þorgrímur er orðinn gamall maður og góðir menn koma á sáttum á milli hans og Búa. Búi kvænist Helgu dóttur Þorgríms og Helgi Arngrímsson fær Ólafar Kolladóttur. Og nú verður aftur tvöfalt brúðkaup í að Hofi. Þegar Esja deyr sest Búi að á Esjubergi. Þau Helga og Búi eignast þrjú börn, Ingólf, Þorstein og Hallberu. Þegar Þorgrímur deyr tekur Búi við sem höfðingi héraðsins.
Af fornsögunum að dæma virðist fjallið fá nafn sitt frá fyrrnefndri Esju, sem verður að teljast til marks um mikilleik hennar því sjaldan munu svo stór fjöll hafa heitið eftir konum í upphafi landnáms hér á landi. Bær hennar var nefndur eftir henni skv. sögunni, enda sjálf bústýran. Ekki er ólíklegt að ætla að Búi hafi að henni genginni nefnt fjallið eftir henni, sem hafði reynst honum svo vel er raun bar vitni. Líklegt má því telja að lík hennar hafi verið brennt undir rótum þess eða það verið sett þar í haug á efstu mörkum eftirlifendum til ævarandi verndar.
Fornar tóftir bæjarins Grundar eru á suðurbakka Grundaráar er kemur ofan úr Gljúfurdal undir Kerhólakambi í Esjunni vestanverði, ofan við Esjuberg. Ofan þeirrar jarðar, í Esjuhlíðum, má einnig sjá móta fyrir fornum tóftum. Þangað verður ferðinni heitið innan skamms.

Heimildir m.a.:
-Vísindavefurhi.is
-Wikipedia.org
-kjalarnes.is
-Kjalnesingasaga, 2. – 17. kafli.

Esjan