Þingnes
Skoðaðar voru minjarnar á Þingnesi og svæðið gaumgæft. Meginminjarnar eru landmegin við austanvert Elliðavatn, en einnig eru minjar á landfastum tanga. Guðmundur Ólafsson, fornleifafræðingur, hefur haldið utan um nýjustu rannsóknir á svæðinu, en áður höfðu m.a. Jónas Hallgrímsson, sem fyrstur kom með þá kenningu að þarna hafi verið hið eiginlega Kjalarnesþing um tíma, og Daniel Bruun grafið í tóftirnar.

Þingnes

Skiptar skoðanir hafa verið um hvað minjarnar hafa að geyma, en ljóst er að sumar þeirra a.m.k. eru frá upphafi norræns landnáms. Að öllum líkindum hefur auk þess verið þarna um ýmis not að ræða og tóftirnar gætu verið frá mismunandi tímum. Ekki er óraunhæfta að álykta, ef þarna er um hinn forna þingstað að ræða, sem stofnaður var af Þorsteini, syni Ingólfs Arnarssonar, og að þar hafi verið ákveðið að stofna til Alþingis á Þingvöllum árið 930.
Grafið hefur verið í 3 rústir og kom í ljós að þær voru frá því um 900. Einnig komu í ljós hringir, sá stærri um 18 metrar í þvermál.

Þingnes

Þingnes – uppgraftarsvæði.

Upplýsingatafla er við aðkomuna á svæðið, en hún þyrfti að vera nær minjunum því á henni eru miklar fróðlegar upplýsingar, uppdrættur og mynd, sem erfitt er fyrir venjulegt fólk að leggja á minnið með hliðsjón af umhverfinu. Minjarnar mættu vera aðgengilegri, en eru í raun í skjóli utan stíga. Staðurinn er mjög fallegur, við tanga úti í Elliðavatn, og auðvelt að setja sig í spor þeirra, sem ákváðu þingstaðinn á sínum tíma. Hins vegar eru aðstæður aðrar en þá voru því yfirborð Elliðavatns hækkaði við stíflugerðina.
Þingnes

Nyrsta húsið er sýnilega stærst. Um miðju þess liggur hlaðinn garður. Garðurinn er þvert á húsið því opið vísar á mót suðri, en húsið er á lengdina frá vestri til austurs. Vestan utan í húsinu er hringurinn, eða öllu heldur hringirnir, því annar minni er inni í þeim stærri. Hann er að hluta til flóraður. Inni í honum er svo aftur enn eldri tótt. Sunnan við hringinn eru fimm tóttir og er sú, sem stendur næst, yfir enn eldri tótt, nokkuð stórri. Austan við tóttirnar eru þrjár tóttir, þ.a. ein nokkuð stór. Norðan við þær er ein tótt.

Þingnes

Á tanganum vestan við þær eru fjórar tóttir, tvær liggja nálægt hvorri annarri, ein er vestan við þær og sú fjórða norðar og efst á tanganum.
Nýjasti uppgröfturinn á Þingnesi var vikuna 17.-21. maí 2004. Það voru fornleifafræðinemar, sem það gerðu, undir stjórn Guðmundar Ólafssonar. Grafið var í rústir 9 og 12. Útlínur húsanna komu fram og dyragat í tóft 12, auk viðarkols- og beinaleifa. Landnámsöskulagið var greinilegt í torfinu og í jarðlögunum, sem og Katla~500. Þegar FERLIR leit þarna við voru nemarnir hinir áhugasömustu og unnu af kappi, en jafnframt með þeirri varfærni sem fræðigreininni er svo nauðsynleg. Vinna við fornleifarannsóknir eru tímafrekar – líkt og leifarnar, sem rannsaka þarf, gefa til kynna.

Þinganes

Fornleifauppgröftur á Þingnesi.

Þingnesið er áhugavert svæði til stuttrar gönguferðar í fallegu og sagnaríku umhverfi. Þótt ekki hafi hingað til verið hægt að fullyrða að þarna geti verið um fornan þingstað að ræða benda þó meiri líkur til þess en minni.
Gangan um Þingnesið tók 19 mín. Veður var frábært, lygnt og hlýtt.

Þingnes

Minjasvæðið á Þingnesi. Uppdráttur GÓ.