Reykjavík

“UPPHAFLEGA var Reykjavík stærsta jörð, sem nokkru sinni hefir verið á Íslandi. Land hennar náði yfir Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og fjóra hreppa. Árnessýslu, Þingvallasveit, Grafning, Ölfus og Selvogshrepp.
landnam-401En brátt saxast á land þetta, því að Ingólfur var óspar á að miðla öðrum af landnámi sínu. Eru taldir 18 landnámsmenn, er hann fékk lönd, og er þá svo komið að land Reykjavíkur nær ekki yfir meira en Seltjarnarneshrepp og vestasta hluta Mosfellssveitar. Og enn skerðist þetta land, því að sjálfstæðar jarðir rísa þar upp snemma, svo sem Nes við Seltjörn og Laugarnes. Örlyndi Ingólfs, sem kemur fram í því hvernig hann brytjar niður landnám sitt, verður trauðlega skýrt á annan veg en þann, að hann hafi ætlað sjer og afkomendum sínum að vera höfðingjar í þessu landi. En höfðingi gat enginn orðið nema sá, er hafði mannaforráð. Og að þeir feðgar hafi haft mannaforráð um alt landnámið, sjest á því er Þorsteinn Ingólfsson stofnar Kjalarnesþing.
Reykjavík var enn góð jörð, þrátt fyrir alt, og höfuðból hefir hún verið fyrstu aldirnar. Hafa þar um ráðið hin miklu hlunnindi hennar, svo sem selalátur í Örfirisey, trjáreki, æðarvarp í eyunum, laxveiði i Elliðaánum. Þá hafa og verið hjer ágæt fiskimið og fiskur oft gengið inn í Sundin.
Þess vegna hefir jörðin getað framfleytt fjölda Austurvollur-401fólks og þess vegna rísa stöðugt upp nýjar jarðir í landi hennar, þangað til svo er komið, að þetta höfuðból er orðið að kotjörð, hlunnindin hafa lent hjá öðrum eða farið forgörðum, og svo verður Danakonungur eigandi jarðarinnar. Niðurlægingarsagan er löng og ömurleg.
Og þegar konungur gefur svo verksmiðjunum heimajörðina, þá er það ekki annað en kvosin, þar sem Miðbærinn stendur nú. REYKJAVÍK var þá jörð í Seltjarnarneshreppi. En árið 1803 er hún gerð að sjerstöku lögsagnarumdæmi og fær sjerstakan bæarfógeta. Lögsagnarumdæmið var miklu stærra en verslunarlóðin, því að innan þess voru Þingholt, Stöðlakot, Skálholtskot, Melshús. Melkot, Götuhús og Grjótaþorpið, og brátt bættist Landakot við.
Þrátt fyrir þetta helst enn sambandið við Seltjarnarnes að nokkru ]eyti, því að fátækramálin voru sameiginleg og voru til þess alveg sjerstakar ástæður.
Reykjavik-402Þegar eftir að verksmiðjurnar voru reistar hjer, og þó einkum eftir að verslunin var gefin frjáls og Reykjavík fekk kaupstaðar rjettindi, fór fólk að flykkjast þangað í atvinnuleit og margir settust þar að og komu sjer upp tómthúsbýlum, eða hinum svonefndu kotum.”
“SVO segir í Landnámabók: „Þá er Ingolfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndvegissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land. Ingolfur tók þar land er nú heitir Ingolfshöfði . . . Vífill og Karli hjetu þrælar Ingolfs; þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna . . . Fundu þeir öndvegissúlur hans við Arnarhvál fyrir neðan heiði . . . Ingolfur tók sjer bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík”.
Arnarhóll hjet seinna bær hjer og stóð þar sem nú er líkneski Ingólfs Arnarsonar. Hefur nafnið fest við hólinn, þar sem líkneskið stendur og er hReykjavik-405ann nú í daglegu tali nefndur Arnarhóll. En eigi er alveg víst að það sje sá Arnarhóll, sem Landnáma talar um. Norðan við þennan hól var áður annar hóll, sem skagaði eins og höfði út í sjóinn, og var mýrarslakki á milli þeirra. Þessi hóll eða höfði var einnig nefndur Arnarhóll, og höfum vjer fyrir satt að það hafi verið sá Arnarhóll er Landnáma nefnir og þar hafi öndvegissúlur Ingolfs borið að landi. En þegar bærinn, sem við hann var kendur, var byggður á hólnum fyrir sunnan, þá hafi nöfnin ruglast og að minnsta kosti hefur höfðinn stundum verið nefndur Arnarhólsklettur. Það eru líkur til þess að Arnarhóll hafi nokkuð snemma orðið sjálfstæð jörð. Er hennar fyrst getið 1534 og er það ár gefin Viðeyjarklaustri (af Hrafni Guðmundssyni). Kemst hún svo undir konung ásamt öðrum eignum klaustursins. Árið 1764 var bygt tukthús í Arnarhólslandi (nú Stjórnarráðshúsið) og var afgjald jarðarinnar í fyrstu lagt til þess. Seinna fekk ráðsmaður tukthússins leigulausa ábúð á jörðinni og enn seinna var jörðin fengin stiptamtmanni til, afnota og síðar landshöfðingja.
ÞegArnarholl-401ar fyrsta útmæling kaupstaðarlóðar Reykjavíkur fór fram (1787) er þar með talin „spilda af Arnarhólslandi fyrir norðan og norðaustan Arnarhólstraðir”. En með nýrri útmælingu, sem fór fram 1792, er þessari spildu sleppt og var hún því ekki lögð undir kaupstaðinn, eins og fyrst var til ætlast. Um þær mundir er Reykjavík fekk kaupstaðarrjettindi var bærinn Arnarhóll orðinn mesta hreysi og hrörnaði stöðugt þangað til Hoppe stiptamtmaður ljet rífa húsin árið 1828 og sljetta yfir rústirnar.
Lækurinn skifti löndum Arnarhóls og Víkur frá sjó og sennilega þar suður undir sem Mentaskólinn er nú. Var lækurinn þá stundum nefndur Arnarhólslækur neðst. Frá læknum lágu svo landamerkin skáhalt norðaustur að Rauðarárvík.”
“Fyrri hluta ársins 2001 var gerður uppgröftur á hluta af hinu gamla bæjarstæði Reykjavíkur, nánar tiltekið á lóðunum 14, 16 og 18 við Aðalstræti.

Reykjavik-406

Til uppgraftarins var stofnað vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda. Vitað var að á þessum stað væri að vænta fornra mannvistarleifa og því þótti nauðsynlegt að rannsaka staðinn fyrst með uppgrefti. Minjarnar sem fundust voru aðallega frá tveimur tímabilum. Annars vegar voru þar töluverðar minjar bygginga frá tímum Innréttinganna á 18. öld og hins vegar óvenjulega heilleg tóft af skála frá 10. öld.
Ýmisleg vitneskja hefur smátt og smátt verið dregin saman um hið forna bæjarstæði Reykjavíkur. Sigurður Guðmundsson málari taldi líklegast að elsti bærinn hefði staðið á lóðinni Grjótagötu 4. Þar hafði staðið torflhús kallað „Skálinn” og voru sagnir um að hann hefði verið þar lengi. Soffia Fischer þekkti sögn um að bærinn hefði verið á Arnarhóli, en Guðbjörg Jóhannsdóttir að „bærinn gamli hefði verið þar, sem gamli klúbbur stóð”4 eða við suðurenda Aðalstrætis. Kristian Kálund ályktaði að hinn gamli Reykjavíkurbær hefði verið annað hvort norðan eða sunnan við kirkjugarðinn, en Eiríkur Briem taldi að bærinn hefði verið „vestan við Aðalstræti sunnanvert milli Túngötu og Bröttugötu”. Ólafur Lárusson taldi ólíklegt að sagnir þær er sögðu bæjarstæðið á Arnarhóli fengju staðist. Klemens Jónsson taldi líklegast að bærinn hefði frá upphafi staðið sunnan Grjótagötu, „rjett vestan við Aðalstræti, þar sem nú eru húsin 14 og 16″.

Adalstraeti-450

Þegar grafið var fyrir húsinu Tjarnargötu 3A 1904 var komið niður á mannvistarminjar, sem lýst er sem öskuhaug og rennu úr grjóti. Við gröft fyrir hitaveitustokk vestanmegin í Tjarnargötu nyrst, einhvern tíma milli 1940 og 1950, sáust einnig ummerki fornra mannaverka á um 1 m dýpi, hellustétt og svört moldarlög. Ekki er að sjá að menn hafi veitt fornum mannvistarleifum athygli þegar grafið var fyrir húsi Hjálpræðishersins í Kirkjustræti 2, 1916, og ekki heldur þegar steinhúsið í Suðurgötu 3 var reist 1923. En árið 1943 var gerður kjallari að húsabaki við Suðurgötu 3 og var þá komið niður á ræsi úr steinum, sem lá frá austri til vesturs á meira en 2 m dýpi. Þegar grafið var fyrir stóru steinhúsi á lóðinni Tjarnargötu 4 árið 1944 reyndust vera þar miklar leifar eftir eldri byggð. Ekki fór fram regluleg fornleifarannsókn á þeim tíma, en þó eru til töluverðar upplýsingar um það sem sjá mátti í grunninum. Sunnarlega í grunninum mátti sjá „allmikið af hleðslugrjóti djúpt í jörðu”, og virtust leifar af vegg. Þarna var líka ferhyrndur hellukassi, líklega eldstæði, grafinn niður í malarlag það sem er undir miðbænum. Þar fyrir norðan mátti sjá gólfleifar.
Árið 1962 voru mannvistarleifar á þessum slóðum kannaðar með því að bora könnunarholur og taka upp jarðvegskjarna. Hér um bil allsstaðar þar sem borað var fundust einhverjar leifar eftir mannvist. Grjót fannst víða, en lítið er um það á þessum slóðum af náttúrunnar völdum. Í fleiri en einni af könnunarholunum mátti sjá gjóskulag það sem kallað hefur verið landnámslagið á töluverðu dýpi. Nokkru norðan við húsið Aðalstræti 16 varð í einni holunni vart við lag sem talið var gólfskán á u.þ.b. 2 m dýpi undir yfirborði.
Árið 1971 var ráðist í viðamiklar fornleifarannsóknir í miðbæ Reykjavíkur. Verkið stóð yfir sumurin 1971-1975. Grafið var á fjórum auðum lóðum í miðbænum, Aðalstræti 14 og 18 og hluta lóðanna Suðurgötu 3-5. Í ljós kom að á öllum þessum lóðum voru byggingaleifar frá ýmsum tímum. Á lóðinni Aðalstræti 18 voru leifar byggingar úr torfi nánast beint ofan á mölinni. Í þeirri byggingu var eldstæði í gólfi og var því talið að það væri íveruhús.

Adalstraeti-407

Veggir hússins voru mjög sundurskornir af undirstöðum yngri bygginga, en nyrsti hluti þess var ekki grafinn upp enda lá hann undir húsið Aðalstræti 16. Ekki var hægt að tímasetja torfbyggingu þessa nákvæmlega. Þegar uppgröfturinn fór fram lá ekki fyrir nákvæm tímasetning á gjóskunni, en talið að hún hefði fallið nálægt 900. Gjóskulagið hefur nú verið tímasett til 871+/-2.
Elstu mannvistarleifarnar sem vart varð á lóðinni Aðalstræti 14 þegar uppgröftur þessi fór fram var veggbútur sem sjá mátti í sniði við Grjótagötu. Þessi veggur var úr torfi sem ekki innihélt landnámslagið svonefnda. Aftur á móti sást landnámslagið liggja að veggnum, og taldi Else Nordahl það sýna að veggur þessi væri eldri en landnámslagið og því eldri en allar aðrar minjar sem kannaðar voru við þessa rannsókn.
Árið 1983 var gerð rannsókn á lóðinni Suðurgötu 7. Komið niður á gólflag.Viðarkol úr gólfi hússins voru aldursgreind til 10. aldar.
Elstu byggingarleifar sem fundust við rannsókn 2001 voru nyrst á lóðinni Aðalstræti 14, næst Grjótagötu. Þar mátti sjá leifar torfveggjar, og var þetta sami veggstúfur og sést hafði við fyrri rannsókn á þessum stað. Mátti álykta að þessi veggur hafi verið reistur áður en landnámslagið féll og öskulagið lagðist yfir.
Á lóðunum Aðalstræti 14-16 voru grafnar upp rústir af skála frá víkingaöld. Skáli þessi var töluvert vel varðveittur. Skáli þessi er best varðveitta byggingin frá víkingaöld sem fundist hefur í Reykjavík. Í skálanum miðjum er stórt eldstæði úr grjóti. Á skálanum eru tvennar dyr, sem virðast hafa verið á honum frá upphafi.
landnamsbaerinnVitað er um aðrar víkingaaldarbyggingar á þessum slóðum í miðbæ Reykjavíkur. Þó ekki séu öll kurl komin til grafar er greinilegt að þær byggingar sem við vitum um á bæjarstæði Reykjavíkur á víkingaöld hafa staðið í röð frá norðri til suðurs, frekar en í þyrpingu. Líklegt er að landslag ráði miklu um þetta og byggingarnar hafi verið reistar undir brekkunni, en fleira getur hafa komið til. Fyrstu kynslóðir Reykvíkinga hafa til dæmis haft þeim mun frjálsari hendur um val á byggingarstað að engin eldri byggð var fyrir sem taka þurfti tillit til, ólíkt því sem gerðist í öðrum löndum norrænna manna.”

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla – Skilnaðir Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps, 28. janúar 1951, bls. 45-48.
-Lesbók Morgunblaðsins, Árni Óla – Víggirðingar Reykjavíkur, 8. febrúar 1948, bls. 61-64.
-Árbók Hins íslenska forleifafélags, Howell M. Roberts, Mjöll Snæsdóttir, Natascha Mehler og Orri Vésteinsson – Skáli frá víkingaöld í Reykjavík, 96. árg. 2000-2001, bls. 219-232.

Arnarhóll

Arnarhóll – býli 1787.