Árbær

Á uppdrætti með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur, sést örnefnið “Árbæjarborg” skammt ofan (norðan) við bæjarhúsin í Árbæ. Ofan og vestan við hana er örnefnið “Borgarmýri”.

Árbær

Árbær – túnakort 1916. Tóftin er nr. 262-2.

Örnefnið “Árbæjarborg” er ekki að finna í takmarkaðri örnefnalýsingu af Árbæ, en í örnefnalýsingu Grafarholt eftir Björn Bjarnarson segir; “Borgarmýri, mest öll í Árb. landi, kennd við Árbæjarborg”.
Á uppdrættinum er Árbæjarborg staðsett þar sem í fornleifaskráningu fyrir Árbæ frá árinu 2017 segir; “Hænsnahús – tóft, 1900-1950. Á túnakorti Árbæjar eru merkt inn tvö hús um 60 m fyrir norðvestan Árbæinn. Nú eru þetta rústir. Hús þessi voru úr torfi og grjóti og sneru langveggjum saman. Nyrðra húsið var um 2×4 m að stærð, en syðra húsið 10x 6m. Dyr snéru í vestur á báðum húsunum en gluggi var í þilinu fyrir ofan dyrnar á nyrðra húsinu.” Árbæjarborgar er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Árbær

Árbær – borgin var þar sem útihúsin v.m. eru á myndinni frá 1948.

Um Árbæ segir í fornleifaskráningunni:
“Austur af Ártúni var jörðin Árbær, en bæjarhúsin eru nú innan safnsvæðis Árbæjarsafns. Hluti núverandi byggðar í Ártúnsholti og neðrihluti Árbæjarhverfis eru byggðir í landi Árbæjar, en jörðin lá upp með Elliðaánum og tilheyrðu Blásteinshólmi og Árbæjarhólmi henni.
Elsta heimild um Árbæ er í skjali frá 31. júlí 1464. Þar votta Steinmóður ábóti í Viðey og Jón Narfason að Ólöf ríka Loptsdóttir hafi látið Gerrek gullsmið í Hafnarfirði fá silfur sem greiðslu fyrir jarðir Guðmundar Arasonar, sem hún og hennar maður Björn Þorleifsson höfðu keypt af konungi en Gerrekur átti að koma silfrinu til konungs fyrir þeirra hönd.

Árbær

Árbær 1911.

Saga Árbæjar er hins vegar mun eldri en þekktar heimildir gefa til kynna því árið 2016 leiddu fornleifarannsóknir á bæjarstæðinu í ljós að þar var búið á 11. öld og jafnvel þeirri tíundu. Leiða má að því líkur að það sama eigi við um búsetu á öðrum þeim jörðum sem hér eru til umfjöllunar.
Síðustu ábúendur í Árbæ voru hjónin Margrét Pétursdóttir og Eyleifur Einarsson sem bjuggu þar frá 1881 og dóttir þeirra Kristjana, sem tók við búinu árið 1935 og bjó þar til 1948, en þá fór bærinn í eyði. Í tíð Margrétar og Eyleifs var fjölsótt greiðasala í Árbæ, með svipuðu móti og verið hafði í Ártúni.

Árbær

Árbæjarborg?

Eins og áður segir keypti bæjarstjórn Reykjavíkur jörðina ásamt Ártúni og fleiri jörðum árið 1906 vegna fyrirhugaðra vatnsveituframkvæmda og árið 1929 voru jarðirnar Ártún og Árbær báðar lagðar undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur.”

Líklegt má telja að örnefnið “Árbæjarborg” sé miklu mun eldra en “hænsnahúsið” eða önnur útihús þar, þ.e. að það/þau hafi síðar verið byggt upp úr borginni. Gamla nafnið hafi verið látið halda sér enda ástæðan fyrir nálægum örnefnum, s.s. “Borgarmýri” og “Borgarholt”.

Árbær

Árbær og nágrenni. Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða, sem unnin var árið 1963 af Steindóri Björnssyni í Gröf, að beiðni Þorvarðar Árnasonar, eins framámanns í Golfklúbbi Reykjavíkur. Uppdrátturinn hékk lengi í klúbbhúsinu í Grafarholti en er nú geymdur á Korpúlfsstöðum. Höfundur er óþekktur.

Uppmæling tóftanna ofan Árbæjar líkist óneytanlega að mörgu leyti útliti fjárborgar að grunni til.

Heimildir:
-Byggðakönnun; Borgarhluti 7 – Árbær, Reykjavík 2017, bls. 12 og 81.
-Uppdráttur með örnefnum í nágrenni Grafarholts og Korpúlfsstaða (1963).
-Örnefnalýsing Björns Bjarnarsonar um Grafarholt.

Árbær

Árbæjarborg?