Bláfjöll

Brak úr flugvél er austan Bláfjalla. Ætlunin var að skoða aðstæður sem og grennslast fyrir um hvaða vél gæti verið að ræða. Samkvæmt slysaskráningu ameríska hersins gæti verið um að ræða DC-3 flugvél, eða C47 eins Kaninn nefndi hana. Það slys varð 5. mars 1944 kl. 18:30, 1 mílu suðaustur af “Camp Bundy”. Enginn komst af. Tvö lík fundust.

Bláfjöll

Í Árbók FÍ 1984 segir Tómas Einarsson frá því að “á styrjaldarárunum fórst herflugvél í Bláfjöllum á sléttunni austan við Hákoll. Hér á landi liggja litlar upplýsingar fyrir um það slys. Leifar af flakinu sáust á slysstaðnum í mörg ár, en munu nú horfnar.”
Pétur Þorleifsson kvaðst hafa séð flakið fyrir tveimur árum. Hann hafi verið að hjóla undir hlíðum Kerlingarhnúks, sem auðvitað má ekki, og þá séð flakið dreift um hana á u.þ.b. 100 metra kafla. Best væri að fara niður frá skíðalyftunum ofan Kóngsgils, milli Heiðinnar há (Heiðartopps) og Kerlingahnúks og niður með rótum hans. Stórgrýtt væri þarna á köflum og væri flakið upp af slíkri utan í grónum bala við lækjarfarveg. Líklega væri um klukkustundar gangur á svæðið – eða innan við það. Austar væru Drögin og fjær Fjallið eina.
Gengið var inn á Heiðarveginn innan við Bláfjallahornið. Þaðan er þessi gamla gata Bláfjöllvörðuð niður á Ólafskarðsleið í austri, skammt sunnan við Leiti. Vesturendinn er á Selvogsgötu skammt ofan við Tvíbolla. Reykjavegurinn liggur spölkorn eftir Heiðarveginum eða þangað til hann beygir til norðausturs yfir norðuröxl Kerlingarhnúks. Þar liggur vegurinn áfram niður með austanverðum Bláfjöllum, niður með Fjallinu eina.
Bláfjallahornið er hæsti hluti Reykjavegarins, en þaðan er frábært útsýni til allra átta í björtu veðri. Eftir nokkra göngu með neðrihlíðunum var komið að rótum Bláfjallahryggjarins að austanverðu skammt ofan við Fjallið eina – annað tveggja með því nafni á Reykjanesskaganum.
Úr skarðinu milli Bláfjalla og Fjallsins eina er mikið og fagurt útsýni norður yfir, þar sem Lambafell, Syðri Eldborg og Blákollur blasa við nær, en Hengilsvæðið fjær. Útsýnið hikstar þó á vitundundinni um eyðileggingu Orkuveitunnar á náttúruverðmætum í Henglinum. Þar hefði verið hægt að gæta miklu meiri tillititsemi en gert var.
Þá er skammt á Ólafsskarðsveg, sem liggur um Ólafsskarð upp úr Jósepsdal nokkru norðar, með hlíðum Bláfjalla og áfram austan Geitafells suður af hálendisbrúninni.
Leitað var bæði með austurrótum Bláfjalla sunnan og norðan Kóngsgils og síðan Bláfjöllhaldið um neðri hlíðarnar þar sem rætur Kerlingarhnúks liggja.
Þegar komið var fram á neðri brúnirnar austan Bláfjalla sást víðfeðmin neðanverð. Einhverjum hefði fallist hendur – en ekki FERLIR. Geitafell sat þarna formfagurlega neðan hraunsléttunnar er runnið hafði úr gígum Heiðinnar há. Enn neðar sást Leitarhraunið. Austar og nær voru Drögin, mikil og breið gildrög. Kvöldsólin á vesturhimninum, handan Bláfjallahornsins, var byrjuð að glitra nafna hans, austurhimininn. Haldið var upp með Drögunum vestanverðum.
Bláfjöll eru mótuð af eldvirkni og umbrotum. Fjöllin sjálf eru dæmigerður móbergshryggur sem myndast hefur í gosi undir jökli. Hæst ber tind sem vanalega er nefndur 702 sem vísar til hæðar hans, en Hákollur er skammt norðar.
Umhverfis fjöllin hafa runnið hraun og er þar mest áberandi hraunið frá Heiðartoppum (613m), austur af skíðasvæðinu. Margir gígar og gígaþyrpingar eru á svæðinu. Má þar nefna Stompa, Eldborg og Skeifuna. Nú andaði köldu af norðri. FERLIR hefur hins vegar aldrei látið veður aftra leit – enda er það bara eldra nafn á Cintamani.
Bláfjöll Í svo til beina stefnu frá Kóngsgili í norðuröxl Geitafells lá flakið, milli Hákolls og Kerlingarhnúks, í um 560 metra h.y.s., u.þ.b. 50 metrum norðan Reykjavegarins fyrrnefna.
Svo virtist sem flugvélin hafi verið að koma úr suðaustri, vinstri vængurinn lent utan í stórgrýttri hlíðinni og vélin þá byrjað að brotna. Eftir örskamma stund steyptist vélin síðan niður í gil og þar liggur meginhluti hennar ennþá. Leifarnar eru ótrúlega heillegar af slíkum að vera. Líklega er það vegna þess að snjór þekur þær 2/3 hluta úr ári. Ljóst er að eldur hefur komið upp við brotlendinguna og þá hluti vélarinnar brunnið. Bráðið ál er á vettvangi. Vænghluti er þarna, hjólaspyrnur og fleira. Á vænghlutanum má greina tvo stóra svartmálaða stafi. Annar er nokkur skýr, “S”, en hinn (fremri) öllu óskýrari, gæti verið “T”. Það gæti bent til þess að vélin hafi verið í eigu Íslendinga, með ísl. skráningarstafi. Þessi vél virðist í fljótu bragði hafa verið eins hreyfils því einungis einn V12 strokka vél er sjáanleg í gilinu. Svo stór hreyfill gæti þó bent til þess að annar hreyfill hafa verið þarna, en einhverjir fjarlægt hann. Einungis einshreyfils orrustuflugvél hefði getað haft svo stóran aflgjafa.
Lækur rennur um gilið á vorin og hefur hann eflaust skolað hluta braksins niður hlíðina. Af þessu að dæma er ósennilegt að um DC-3 flugvél hafi verið að ræða. Sú flugvélartegund var bæði stærri og tveggja hreyfla. Því væri þarna bæði meira brak á vettvangi auk þess sem auðkennin leyndu sér ekki. Þá myndi vænghlutinn vera breiðari en raun ber vitni.
Merking er á vélarhlutum; annars vegar 40773 A – ALCOA – M – ? og hins vegar 40772 – DR M1. Erfitt var að greina hvaða litur hefur verið á vélinni, en sjá mátti blágrænan lit á einstaka málmbútum.
Leitin tók 3 klst og 3 mín. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum var byrjað að dimma þegar flugvélin fannst. Við þær aðstæður komu FERLIRshúfurnar að góðum notum.
BláfjöllÓlafur Íshólm, flugmaður og lögregluvarðstjóri á Selfossi rámaði aðspurður í að eins hreyfils flugvél á leið frá Vestmannaeyjum hafi brotlent í Bláfjöllum á stríðsárunum, en hann vildi þó ekki fullyrða með öllu að svo hafi verið.
Ekkert er að finna í gömlum fréttum dagblaða um flugslys í Bláfjöllum.
Annar viðmælandi FERLIRs, sem haft var samband við, minnti að tveggja hreyfla bandarísk Lightning flugvél hefði farist þarna á stríðsárunum. Meira vissi hann ekki um atvikið.
Haft var samband við Flugmálastjórn og leitað eftir því hvort einhver þar kynni að vera fróður um flugvélaflök sem þessi á Reykjanesskaganum. Eftir stutta athugun kom upp nafnið Guðjón Viðar Sigurgeirsson, flugvélstjóri.
Hlynur Skagfjörð Pálsson fv. rekstrarfulltrúi og starfsmaður í Bláfjöllum gaf FERLIR gagnmerkar upplýsingar um flugvélaflakið.
“Flakið sem um ræðir er af lightning P-38. Orrustuvél með stuttan búk og tvöfalt stél knúin 2 mótorum. Ég hef heyrt að þessi vél hafi farið niður 1944. Þegar ég kom að henni fyrst u.þ.b. 1996 voru mótorarnin tveir. Þessi sem er ofan í gilinu og svo annar á melholti í stefnu á Geitafell. Þegar ég kom aftur til starfa í Bláfjöllum 2001 og fór að svipast um þá var annar mótorinn horfinn. Auðunn Jónsson ýtumaður sagði mér að hann hefði heyrt að einhverjir aðilar úr Þorlákshöfn hefðu náð í hann og sent hann vestur í Örlygshöfn.
Bláfjöll Ég hef alloft komið að henni bæði gangandi í auðu og farið þarna um á snjó. Ég tel að vélin hafi verið að koma að vestan beygt upp með hlíðinni og rekið v. vænginn í og að þá hafi mótorinn sem nú er horfinn orðið eftir. Brakið úr vængnum gæti hafa dreifst þarna um flatirnar fyrir neðan. Vélin hefur svo skriðið þarna upp yfir holtin því að það er töluverð dreif úr henni og krassað í gilinu þar sem hæðin ofan við er heldur hærri en sú sem neðar er.
Þá er stjörnuhreyfill í Bláfjöllunum, skammt norðan við Reykjavegarstikurnar. Ég hef ekki öruggar heimildir fyrir því hvaða vél þetta var en hef talið þetta vera “Gömlu Gránu” þá er Jóhannes Snorrason var u.þ.b. skotinn niður í yfir Eyjafirði í stríðinu. Hún var sögð hafa endað lífdagana á hraunsléttu í Bláfjöllum.”

Heimildir m.a.:
-Árbók FÍ 1984, bls. 45.
-Útivist, greinar/Reykjavegur.
-Hlynur Skagfjörð Pálsson.

Brak