Reykjavík

Í Skírni árið 1979 birtist erindi Lýðs Björnssonar um “Reykjavík; upphaf höfuðstaðar“, sem hann flutti á aðalfundi Hins íslenska bókmenntafélags 16. desember 1978. Hér er erindið stytt að nokkru.

Lýður Björnsson

Lýður Björnsson.

“Haft hefur verið fyrir satt, að Ingólfur Arnarson frá Dalsfirði í Firðafylki í Noregi hafi fyrstur norrænna manna numið land á Íslandi og byggt í Reykjavík. Þetta á að hafa gerzt um 870.
Fornrit herma, að Ingólfur hafi, áður en hann ákvað bústað sinn, verið búinn að ferðast meðfram meginhluta suðurstrandarinnar og þá væntanlega kannað land þar nokkuð. Staðarvalið virðist síðar hafa vakið furðu, enda leggur skrásetjari Landnámu þræli Ingólfs í munn hin kunnu orð, er ljóst varð, að Reykjavík varð fyrir valinu: „Til lítils fórum vér um góð héruð, ef vér skulum byggja útnes þetta.“ Má ætla, að ummæli þessi spegli viðhorf 12. og 13. aldar manna til bústaðarvalsins. Á síðari árum hefur Benedikt Gíslason, fræðimaður frá Hofteigi, bent á, að búsældarlegra hafi verið við Sund á landnámsöld en á Suðurlandsundirlendinu. Þetta er hárrétt athugað, enda hefur fiskur verið þar á miði, fugl í eyjum, selur á skerjum og hafnarskilyrði góð af náttúrunni. Auk þess er líklegt, að kjarrs hafi gætt minna í seltunni úti við hafið, en allgróskumikið kjarr hlýtur að hafa torveldað samgöngur um mikinn hluta Suðurlandsundirlendisins á landnámsöld og hulið þar hin minni kennileiti. Lægðir og harðbalar meðfram sjó hafa þá sennilega verið skógvana, og þá líka malarkamburinn milli vogs þess, sem skerst inn úr Kollafirði austan Örfiriseyjar, og Reykjavíkurtjarnar. Birkikjarr hefur þó hulið öll holt í nágrenni þessa staðar. Reki mun og hafa verið til búdrýginda á Seltjarnarnesi, þótt margri góðri spýtu hafi skolað út aftur aldirnar næstu fyrir landnám og aðrar fúnað uppi á malarkambi líkt og á síðari öldum.

Reykjavík

Reykjavík – elsti uppdráttur 1715 eftir Hans Hoffgaard.

Ingólfur Arnarson sló að sögn Landnámu eign sinni á landsvæðið milli Ölfusár og Hvalfjarðar. Hér er um svo víðáttumikið landsvæði að ræða, að einum bónda mundi nú veitast fullerfitt að nýta það að gagni, þrátt fyrir alla tækni 20. aldar. Má því geta nærri, hvernig landnemi, sem aðeins réði yfir tækni 9. aldar, gat nálgazt það takmark, enda á Ingólfur að hafa brugðið á það ráð að selja eða gefa hluta landnáms síns. Ætla má því, að það hafi fljótlega skipzt milli allmargra eigenda. Björn Teitsson sagnfræðingur telur líklegt, að í öndverðu hafi aðeins þrjár jarðir verið í byggð á utanverðu Seltjarnarnesi, Nes við Seltjörn, Reykjavík og Laugarnes. Tvær fyrsttöldu jarðirnar voru metnar á 100 hundruð eða meira í sumum jarðabókum.

Reykjavík

Reykjavík og nágrenni 1703.

Uppblástur fylgdi í kjölfar vaxandi byggðar og flest holt í nágrenni Reykjavíkur voru orðin örfoka um 1500 að sögn dr. Þorleifs Einarssonar. Þrátt fyrir þetta virðist byggð hafa þétzt í Seltjarnarneshreppi á tímabilinu 1200—1500. Má ætla, að íbúarnir hafi þá í auknum mæli lifað á sjávargagni, enda herðust fiskveiðar mjög í vöxt á 14. og 15. öld. Landeigendur brugðu þá á það ráð að leigja mönnum afmarkaða túnskák og heimila þeim beit í óskiptu landi þeirrar jarðar, sem túnskákin hafði tilheyrt. Með þessu tryggðu landeigendur sér aukinn vinnukraft, enda hvíldu ýmsar vinnukvaðir á ábúendum smábýla af þessu tagi, t.d. skipsróður. Smábýli þessi nefndust hjáleigur. Þrjár hjáleigur a.m.k. voru í landi Ness við Seltjörn 1397 og um 1700 voru 8 hjáleigur í landi Reykjavíkur. Munu þær hafa verið fleiri fyrrum.

Reykjavík

Reykjavík-jarðir og hjáleigur 1703.

Fiskur var mjög eftirsótt vörutegund í Evrópu á 14. öld og næstu aldir á eftir. Talið er, að borgamyndun og föstuboð kaþólsku kirkjunnar séu helztu orsakir þessa. Afleiðing varð sú, að fiskverð hækkaði mikið eða því nær þrefaldaðist á árunum 1200—1550. Þetta ýtti undir fjársterka aðila að eignast útróðrarjarðir, og var kirkjan þar fremst í flokki. Sama þróun varð í Seltjarnarneshreppi og annars staðar. Þannig átti Skálholtsstóll höfuðbólið Nes og fjórar jarðir aðrar í hreppnum um siðaskipti. Konungur þröngvaði síðan stólnum til að skipta á jörðum þessum og fleiri útróðrarjörðum í Kjalarnesþingi fyrir jarðir í landbúnaðarhéruðum á árunum 1556 og 1563, og árið 1616 keypti sami aðili meginhluta Reykjavíkur af erfingjum Narfa lögréttumanns Ormssonar. Útræði var stundað frá Reykjavík, en mikilvægi staðarins hafði og vaxið er hér var komið sögu vegna tilkomu verzlunar. Skal nú vikið lítilsháttar að því atriði og fylgt ritgerð eftir Helga Þorláksson sagnfræðing.

Reykjanes

Reykjanes við Reykjavík.

Getið er um siglingu á Elliðaár- og Leiruvog á þjóðveldistímabilinu, og kaupstefnur og skipakomur virðast hafa verið töluverðar við Þerney um 1400 og á 15. öld. Þá er getið um kauprein í Gufunesi í skjali einu frá 1496, en þar verzluðu Viðeyjarmenn.
Verzlunar er fyrst getið í Hólmi árið 1521, en sá Hólmur kynni að vera Grandahólmur vestan Örfiriseyjar. Á síðari hluta 15. aldar og öndverðri 16. öld var mikil samkeppni milli Englendinga og Þjóðverja og virðist eðlilegt, að Hólmur hafi orðið verzlunarstaður sem mótvægi við Hafnarfjörð í samkeppni kaupmanna um verzlun við innanverðan Faxaflóa. Þjóðverjar höfðu betur í samkeppninni og voru upp frá því leiðandi aðili í verzlun hérlendis, unz einokunarverzlunin var innleidd 1602. Árið 1608 var dönskum kaupmönnum boðið að rífa verzlunarhús Þjóðverja. Konungur keypti Reykjavík árið 1616 eins og fyrr var getið, en Örfirisey átti hann fyrir. Kemur því til álita, að verzlunin hafi verið flutt úr Grandahólmi til Örfiriseyjar á árunum 1608—1616, enda gat sú ráðstöfun losað kaupmenn við að greiða lóðartolla. Reykjavík átti Grandahólm hálfan. Verzlunin í Örfirisey nefndist síðar Hólmsverzlun.
Fiskgengd virðist hafa verið mikil í Faxaflóa á tímabilinu 1640—1687. Kaupmenn sigldu á hafnir við norðurströnd flóans talsverðan hluta þessa tímabils, t.d. Eyri í Hvalfirði og Straumfjörð, en verzlun þar lagðist af um 1680 vegna atburða erlendis, dauðsfalls í röðum kaupmanna og fjárglæfra. Beindist þá verzlun íbúa Borgarfjarðar- og Mýrasýslu til Reykjavíkur, sem þá lá bezt við samgöngum þaðan af verzlunarstöðunum. Styrkti þetta stöðu Reykjavíkur.

Reykjavík

Reykjavík 1921 – Kristján X. við veiðar í Elliðaánum.

Það styrkti og stöðu Reykjavíkur, að mönnum var a.m.k. þegar um 1700 gert að flytja konungsgjöld ásamt fálkum og laxi konungs þangað. Lax konungs var veiddur í Elliðaám. Áður hafði þessi varningur verið fluttur með skipum Bessastaðamanna, en þau sigldu á Seiluna við Bessastaði. Sú höfn lagðist af, er kaupmenn hófu að taka konungstekjur á leigu 1695.
Hafnarfjörður var mikilvæg verzlunarhöfn mikinn hluta 17. aldar, enda jafnframt varahöfn fyrir Eyrarbakka og Grindavík. Hafnarskilyrði voru góð í Hafnarfirði frá náttúrunnar hendi, en slæm á hinum stöðunum. Fór og svo, að sigling til Grindavíkur hætti um 1640, og viðskipti þeirra, sem þangað höfðu sótt, beindust til Hafnarfjarðar. Landinu var skipt í kaupsvæði árið 1662, og varð kaupsvæði Hafnarfjarðar lítið. Sigling til Grindavíkur hófst á nýjan leik 1664, og skerti þetta hlut Hafnarfjarðar. Sami kaupmaður hélt þó bæði Grindavík og Hafnarfjörð ásamt Eyrarbakka enn um hríð, en hann lét Grindavíkurverzlun af hendi 1684 og Eyrarbakkaverzlun 1692. Eftir það var verzlun í Hafnarfirði um skeið einskorðuð við hið litla kaupsvæði staðarins. Er því ljóst, að Reykjavík var orðin helzti verzlunarstaður við innanverðan Faxaflóa þegar fyrir 1700.

Reykjavík

Reykjavík 1787 – Jón Helgason.

Kaupauðgisstefnan (merkantilismi) var ráðandi stefna í efnahagsmálum meginhluta 17. og 18. aldar. Talsmenn þessarar stefnu lögðu áherzlu á mikilvægi iðnaðar og verzlunar. Báðar þessar atvinnugreinar eiga meiri vaxtarmöguleika í þéttbýli en strjálbýli. Efling þeirra stuðlaði því að þéttbýlismyndun, og þær eru oft nefndar borgaralegar atvinnugreinar. Það virðist því eðlilegt, að hugmyndir um stofnun borga á hinu borgalausa Íslandi taka að skjóta upp kollinum, er Íslendingar og aðrir þeir, sem báru hag landsins fyrir brjósti, kynntust kenningum í anda þessarar stefnu.
Arngrímur Þorkelsson Vídalín (um 1667—1704), rektor og bróðir Jóns biskups lagði í riti sínu Consilium de Islandia til að stofnaðar yrðu tvær kastalaborgir á Íslandi, önnur á Norðurlandi og hin á Suðurlandi. Setulið skyldi vistað í borgum þessum til að halda uppi aga í landinu, og erlendir iðnaðarmenn laðaðir til að setjast þar að og þeir hvattir til að kvænast íslenzkum konum.

Reykjavík

Reykjavík 1787 – Hans Lievog.

Á 18. öld tóku þeir Páll lögmaður Vídalín (1667—1727), Jón Eiríksson konferensráð (1728—1787) og Hans lögmaður Becker (d. 1746) upp þráðinn. Í ritinu Deo, regi, patriæ, sem Jón Eiríksson gaf út árið 1768, er stungið upp á því, að efnt skuli til kaupstaðar á Mýrum og staðnum talið það til ágætis, að innsiglingin þangað sé svo slæm og vandrötuð, að það eitt mundi nægja til varnar gegn ræningjum. Lagt er til, að 5 húkkortur verði gerðar út frá kaupstaðnum og þar stundaður iðnaður og jarðrækt. Í bænum verði reist timburkirkja og þar starfi tveir prestar, bæjarfótgeti og lögreglustjóri. Síðar verði götur kaupstaðarins steinlagðar og þar reistir skólar. Loks er bent á, að íþróttastarfsemi muni með tímanum eflast í kaupstaðnum, t.d. skíðaferðir.

Reykjavík

Reykjavík – Aðalstræti 10; hluti Innréttinganna.

Nokkru fyrir miðja öldina eða 1736 lagði Hans Becker til, að kaupstaðir yrðu stofnaðir á eftirtöldum fimm stöðum: Hafnarfirði, Grundarfirði, Ísafirði, Akureyri og Reyðarfirði. Tíu timburhús skyldu reist í hverjum kaupstað. Hafnarfjörður skyldi vera höfuðstaður landsins og aðsetursstaður helztu embættismanna sunnanlands, en norðlenzkir embættismenn áttu að búa á Akureyri.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Af þessu er ljóst, að fyrir 1750 hafði ekki komið fram tillaga um myndun þéttbýlissvæðis í Reykjavík, sem þó var leiðandi verzlunarstaður við innanverðan Faxaflóa. Næstu ár hóf Skúli fógeti ásamt flestum atkvæðamestu embættismönnum landsins viðamikla tilraun til að efla hér hinar borgaralegu atvinnugreinar auk fiskveiða og landbúnaðar. Stofnuðu þeir fyrirtæki í þessu skyni, og hlaut það nafnið Innréttingarnar. Saga þess verður ekki sögð hér, heldur skal vikið að staðsetningu fyrirtækisins og áhrifum á næsta nágrenni. Svo var ráð fyrir gert, að Innréttingarnar rækju ullariðnað, útgerð, sútun, kaðlagerð o.fl. Ætla hefði mátt, að freistandi hefði verið að staðsetja fyrirtæki, sem lagði svo mikla áherzlu á ullariðnað, á Norðurlandi, en þar hefur sauðfjárrækt verið mikil frá fornu fari. Á móti vó, að betri fiskimið voru fyrir Suðurlandi, og útgerð átti að vera einn þátturinn í rekstrinum.

Reykjavík

Skíp á 18. öld.

Góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi hljóta því að hafa verið eitt þeirra atriða, sem stofnendur Innréttinganna hafa haft í huga varðandi staðarval. Góð fiskimið voru á Faxaflóa. Auk þess höfðu byggðarlögin við innanverðan Faxaflóa þann kost að þau lágu tiltölulega skammt frá Þingvöllum, en þar hittust flestir hluthafanna ár hvert. Konungur átti margt jarða við innanverðan Faxaflóa, en hluthafar í Innréttingunum gátu gert sér vonir um að losna við að greiða leigu ef þeir staðsettu fyrirtækið á konungsjörð, og jafnvel að fá jörðina gefins. Fór og svo, að þeir báðu konung um að gefa fyrirtækinu jarðirnar Hvaleyri, Reykjavík og Örfirisey, og varð hann við þeirri bón með konungsúrskurði dagsettum 4. janúar 1752. Allir þessir staðir voru prýddir framangreindum kostum og góðri höfn frá náttúrunnar hendi að auki.

Reykjavík

Þófaramylla við Elliðaár.

Svo fór, að Innréttingunum var valinn staður í Reykjavík, og gerir Skúli fógeti grein fyrir viðhorfi sínu til þess máls í ódagsettu skjali. Hann telur Seltjarnarnes, sem hann nefnir reyndar Saltenes, heppilegasta svæðið til að staðsetja fyrirtækið á, einkum Reykjavík eða Skildinganes. Seltjarnarnes liggi mitt á milli tveggja góðra hafna, Hólms (Örfiriseyjar) og Seilu, og liggi vel við fiskveiðum. Þófaramyllu megi reisa við Elliðaár eða í Laugarnesi, og útgerðin geti haft miðstöð sína í Örfirisey, en þar hagi svo til, að bátum verði auðveldlega hrundið á flot og þeir settir upp. Mismunur flóðs og fjöru sé að vísu mikill eða um 16 fet, en botn sé fastur og sléttur. Eyjan hafi ennfremur þann kost að vera umflotin sjó um flóð og varðgæzla sé aðeins nauðsynleg á einum stað, sem viti móti landi. Skúli er lítið hrifinn af Hafnarfirði sem aðsetursstað fyrir Innréttingarnar, kveður veginn þangað slæman og þar engan mó að hafa. Eldsneyti, hafnarskilyrði, samgöngur og vatn hafa því ráðið úrslitum um staðarvalið, og er það að vonum. Fyrrnefnt skjal hlýtur að vera frá árunum 1750—1751, enda geymir það tillögur til laga fyrir Innréttingarnar og rekstraráætlun fyrir slíkt fyrirtæki ásamt skýringum.

Reykjavík

Örfirisey tengd landi með granda.

Forsvarsmenn Innréttinganna fóru ekki fram á að fá Skildinganes, sem var konungsjörð eins og hinar þrjár, enda mun höfn þar lakari en við Reykjavík og Örfirisey og staðurinn liggur lengra frá Elliðaám og Laugarnesi. Athugasemdin um varðgæzlu í Örfirisey er athyglisverð og bendir til þess að Skúli hafi óttazt þjófnað af fiskbirgðum eða úr verzluninni. Annars bar hann varnir Reykjavíkur talsvert fyrir brjósti og bendir t.d. í lýsingu sinni á Gullbringu- og Kjósarsýslu frá árunum 1782—1784 á, að lítið virki í Engey mundi nægja til að loka báðum innsiglingunum á höfnina, en önnur þeirra er milli Örfiriseyjar og Engeyjar og hin milli Engeyjar og Viðeyjar.
Árið 1703 áttu 69 manns lieima í Reykjavík að hjáleigum meðtöldum, en um 180 manns bjuggu á sama svæði árið 1787. Aukninguna má vafalítið rekja að verulegu leyti til Innréttinganna, þótt blómaskeið fyrirtækisins hafi verið liðið, enda voru aðeins 34 menn í þjónustu þess árið 1780. Mun fleiri unnu hjá fyrirtækinu um 1760, jafnvel um 100 manns samtímis, en á árunum 1767—1773 var samtals 53 starfsmönnum sagt upp. Af vitnisburði um hag þessa fólks, dagsettum 6. marz 1773, er ljóst að fjórðungur þess bjó þá enn í Reykjavík, flestir við sárustu fátækt að sögn. Nokkur hluti þess var fjölskyldufólk.

Reykjavík

Fæstir starfsmanna Innréttinganna höfðu grasnyt. Frá fornu fari höfðu bændur haft mikla vantrú á fólki, sem framfleytti sér og sínum án grasnytja. Slíkt fólk var nefnt þurrabúðarmenn eða tómthúsmenn, en talsverð tómthúsmannahverfi hafa öldum saman verið í grennd við helztu verstöðvar, t.d. á Suðurnesjum og undir Jökli. Þorri bænda hafði horn í síðu tómthúsmanna, og mun ein orsök þess hafa verið ótti við, að tómthúsmenn og fjölskyldur þeirra færu á vergang á aflaleysisárum. Hitt gleymdist, að verstöðvarnar og tómthúsahverfin voru helzta athvarf þeirra bænda, sem flosnuðu upp, er harðindi geisuðu til landsins. Auk þessa munu bændur hafa óttazt, að vinnuafl kynni að dragast að sjávarsíðunni, ef ekki væru reistar skorður við tómthúsmennsku, svo sem ráða má af skjölum frá 15. öld, t.d. bréfi frá Íslendingum til konungs, dagsettu 4. júlí 1480. Slíkt hefði og valdið samkeppni um vinnuafl og kaupgjaldshækkun. Þetta viðhorf átti sinn þátt í því, að hér mynduðust aðeins fámenn þurrabúðarhverfi, en ekki þorp eða borgir.

Reykjavík

Reykjavík – tómthús 1890.

Eðlilegt virðist, ef þetta er haft í huga, að íbúar Seltjarnarneshrepps hafi litið hið nýja tómthúsmannahverfi í Reykjavík nokkru hornauga. Þetta átti líka eftir að koma á daginn og að vonum mest eftir að Innréttingunum tók að hnigna laust fyrir 1770. Starfsmenn Innréttinganna staðhæfa í fyrrnefndu bréfi 2. maí 1771, að fyrirtækið hafi komið fleirum en Reykvíkingum að gagni. Íbúar nágrennisins hafi oft fengið þar vinnu, þegar vinna féll til, og aðstoð í harðindum, bæði mat og peninga.

Reykjavík

Reykjavík 1917.

Ýmsir lifnaðarhættir bæjarbúa breyttust lítið fyrr en talsvert var liðið á 19. öldina. Heimildir frá tímabilinu 1773—1830 geyma gnótt vitnisburða um slark, enda munu Reykvíkingar hafa átt auðveldara með að afla nauðsynlegra vínfanga eftir að verzlunin var flutt til bæjarins úr Örfirisey 1780 og verzlunum tók að fjölga í bænum eftir 1787.

Reykjavík

P.C. Knudtzon reisti kornmyllu á árinu 1864 sem gekk undir nafninu “Hollenska myllan”, en áður hafði hann reyst myllu þar sem nú er Suðurgata 20 (Hólavallamylla). Rekstur myllunar gekk ekki sem skyldi og var hún á tímabili notuð sem geymsla. Myllan var rifin árið 1902.

Um aldamótin 1800 var gerð tilraun til að koma á fót félagsstarfsemi í bænum. Klúbbur að enskri fyrirmynd hafði verið stofnaður í bænum þegar árið 1803 og tveir slíkir virðast hafa starfað hér á árunum 1805—1806. Borgarar bæjarins hittust í klúbbum þessum 2—3 kvöld í viku, og þar voru haldnir nokkrir dansleikir á hverjum vetri. Þrátt fyrir menningarviðleitni af framangreindu tagi var bæjarbragurinn um 1800 sumum ærinn þyrnir í augum.
Þrátt fyrir þennan áfellisdóm kom ýmislegt fram í Reykjavík á tímabilinu 1752—1830, sem til framfara horfði, en ekki tóku landsmenn þeim nýjungum öllum opnum örmum. Ný tækni við ullarvinnslu — notkun rokks og nýrrar gerðar af vefstól — breiddist út frá bænum, en útbreiðslan átti og aðra orsök.

Reykjavík

Hólavallaskóla var komið á fót á Hólavöllum ofan núverandi Suðurgötu í Vesturbæ Reykjavíkur eftir að skólahald í Skálholti var lagt niður. Sögu skólahalds má rekja til þess að hálfri öld eftir kristnitöku á Íslandi eða árið 1056 varð Skálholt biskupssetur. Var þá stofnaður þar skóli til þess að mennta presta til að sinna trúarlífi nýkristina landsmanna. Með konungsboði að loknum siðaskiptum 1550 var biskupsstólunum íslensku gert skylt að reka skóla til að mennta menn til að gegna prestsembættum og einnig gat skólavist verið undirbúningur undir framhaldsnám erlendis. Saga skólahalds í Skáholti endaði sumarið 1784. Þá hrundu öll hús á staðnum nema dómkirkjan í suðurlandjarðskjálfta. Á sama tíma gengu móðuharðindin í lok Skaftárelda yfir og næstum allt búfé staðarins féll vegna gróðurbrests og fóðurskorts. Skólinn var ekki endurreistur í Skálholti. Með konungsúrskurði 15. apríl 1785 var ákveðið að flytja biskupssetrið og skólann til Reykjavíkur. Smíði Hólavallaskóla var lokið sumarið 1786 sama ár og Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi sem áttu að efla hana til að gerast höfuðbær svo vitnað sé til orða Jóns Espólín. Var skólinn vígður haustið 1786 í viðurvist ýmissa heldri manna þess tíma. Þar á meðal voru Hans Christopher Diderich Victor von Levetzow stiftamtmaður, Hannes Finnsson biskup, Ólafur Stefánsson amtmaður, Guðmundur Þorgríms-son dómkirkjuprestur og Jón Sveinsson landlæknir viðstaddir athöfnina. Alþingi hélt síðustu fundi sína 1799 og 1800 í húsi Hólavallaskóla áður en það var lagt niður tímabundið. Landsyfirréttur var um tíma í húsinu en hrökklaðist þaðan í febrúarmánuði 1807 vegna kulda og trekks. Skólahúsið var rifið skömmu síðar.

Stjórnvöldum var á ofanverðri 18. öld umhugað um að bæta verkkunnáttu Íslendinga. Þau sendu því sýslumönnum rokka og vefstóla, sem þeir útbýttu ókeypis til þess fólks, er talið var líklegt til að notfæra sér þessi tæki. Auk þessa kostuðu stjórnvöld a.m.k. 20—30 manns til náms í vefnaði og spuna í Danmörku á árunum 1785—1795. Sumt þessa fólks sneri aftur heim til Íslands og stundaði hér iðn sína.

Reykjavík

Málverk Jóns Helgasonar biskups sýnir Hólakot og Hólavallamyllu um 1840.

Hliðstæð kennsla fór fram við Innréttingarnar í Reykjavík. Þessi viðleitni bar þann árangur, að hin nýju tæki og ný tækni útrýmdu eldri vinnubrögðum á tiltölulega skömmum tíma. Öðru máli gegndi um kerru og hjólbörur. Þessi tæki voru keypt til Reykjavíkur 1752 og hafa verið í notkun hér síðan. Útbreiðsla þeirra um landið virðist aftur á móti hafa verið mjög hæg, og er það skiljanlegt að því er kerruna varðar, enda var landið vegalaust, en öðru máli gegnir um hjólbörurnar. Þær hefðu þó átt að létta mörg dagleg störf.Aðeins tveir barnaskólar störfuðu í landinu á 18. öld svo að öruggt sé. Barnaskóli tók til starfa í Vestmannaeyjum árið 1745 og starfaði fram yfir 1760, og Hausastaðaskóli tók til starfa 1791 og starfaði rúmlega tvo áratugi.

Reykjavík

Viðeyjarstofa.

Reykjavík var helzti þéttbýlisstaður landsins á ofanverðri 18. öld. Þess var því að vænta, að þar kæmu fram hugmyndir um stofnun barnaskóla, enda varð sú raunin. Af bréfi frá Sunchenberg kaupmanni til Levetzows stiftamtmanns, dagsettu 3. febrúar 1786, og bréfum stiftamtmanns til kaupmanns þessa, dagsettum 24. desember 1785 og 13. febrúar 1786, er ljóst, að Sunchenberg hóf fjársöfnun til skólastofnunar hinn 8. janúar 1785. Lét hann í þessu skyni setja upp söfnunarkassa í verzlun sinni. Stiftamtmaður bannaði þessa fjáröflunaraðferð, og undrast kaupmaður það mjög, enda væri þessi háttur algengur í Kaupmannahöfn. Alls söfnuðust 261 rd og 7 1/2 sk í þessu skyni. Kaupmaður lagði til, að stofnaður yrði skóli fyrir 20 nemendur að Hlíðarhúsum við Reykjavík, tíu af hvoru kyni. Nemendur skyldu vera á aldrinum 7—16 ára. Hlíðarhúsaskóla varð aldrei hrundið í framkvæmd, en vera má, að fé það, er safnaðist, hafi verið notað til skólahalds, enda er Þorkell Magnússon titlaður skoleholder í skjölum frá fyrstu árum 19. aldar.

Reykjavík

Bessastaðir.

Jón sagnritari Espólín ber Reykvíkingum ófagra sögu í Árbókum sínum, en þar segir svo við árið 1808: “Voru allir bæjarmenn kramarar, og þernur þeirra og þjónar hugsuðu ei um annað en skart og móða; konur höfðu gullhringa marga hver, og keppt var um hvað eina sem til yfirlætis horfði, samkvæmi jafnan og dansar og drykkjur, og eftir þessu vandist alþýðan,, er þar var um kring.” Ummæli þessi benda ekki til, að bóklestur hafi þá verið mikið iðkaður í bænum.

Reykjavík

Nesstofa.

Á fyrri öldum bjuggu æðstu embættismenn konungs á Bessastöðum. Skúla fógeta þótti of þröngt um sig þar, og því fór hann fram á að fá Viðey til ábúðar. Konungur varð við þeim tilmælum, og lét stjórnin reisa vandaðan landfógetabústað í Viðey á árunum 1752—1754. Landlæknisembætti var stofnað árið 1760, og embættisbústaður reistur yfir landlækni á árunum 1761—1765 að Nesi við Seltjörn. Nýr embættisbústaður fyrir amtmann var reistur að Bessastöðum á árunum 1760—1765. Allir þessir staðir eru í næsta nágrenni við Reykjavík, sem því varð samgöngumiðstöð og höfn fyrir þessi embætti, einkum eftir að verzlunin var flutt til Reykjavíkur úr Örfirisey 1780. Nábýli var mikill kostur fyrir æðstu embættismenn landsins, enda þurftu þeir að hafa margvísleg samskipti. Mun þetta orsök þess, að bæði biskupsstóll og skóli voru fluttir til Reykjavíkur eða nágrennis, er hinir fornu biskupsstólar voru lagðir niður.

Reykjavík

Reykjavík – Laugarnes 1836.

Fyrrnefndir embættisbústaðir voru reisuleg hús og kostuðu mikið fé. Stjórninni mun því hafa verið umhugað um, að þeir væru nýttir, og byggingarkostnaður vegna nýrra embættisbústaða hefði einn út af fyrir sig verið nægileg hindrun í vegi þess að flytja fyrrnefnd háembætti frá Reykjavíkursvæðinu næstu áratugi. Má því segja, að staða höfuðborgarsvæðisins sem aðsetur æðstu stjórnar á Íslandi hafi verið orðin vel tryggð fyrir lok 18. aldar. Miðstöð þess svæðis var í Reykjavík.

Reykjavík

Myndina málaði Aage Nielsen-Edwin eftir mynd Moltke greifa frá því um 1820. Moltke varð stiftamtmaður á Íslandi 1819. Árið eftir flutti hann í Tukthúsið sem gert hafði verið að bústað fyrir hann (heitir nú Stjórnarráðshúsið).

Ein þeirra stofnana, sem komið var á fót í Reykjavík á ofanverðri 18. öld, var tukthúsið á Arnarhóli. Forsaga þess máls er sú, að Henrik Ocksen, sem var stiftamtmaður yfir Íslandi 1730 — 1750, hreyfði árið 1734 þeirri hugmynd, að rétt væri að reisa hér tukthús og bauð amtmanni að ræða málið við sýslumenn. Amtmaður var þessu mótsnúinn og sama máli gegndi um lögmenn og sýslumenn, en þessir aðilar töldu allir, að kostnaðurinn vegna starfrækslu slíkrar stofnunar yrði landinu ofvaxinn.
Forstöðumenn Innréttinganna tóku málið upp við stjórnvöld árið 1753. Um skeið höfðu þeir áhuga á, að slíkri stofnun yrði komið á fót á Búðum á Snæfellsnesi, enda væri staðurinn í grennd við kaupstað og verstöðvar. Síðar breyttu þeir um skoðun og hinn 22. ágúst 1760 ritaði Magnús amtmaður Gíslason Otto Rantzau stiftamtmanni og lagði til, að tukthúsið yrði reist á Arnarhóli, enda fylgi jörðinni uppsátur og útræði. Magnús tekur fram, að þeir Skúli fógeti hafi rætt málið og séu sammála um þessa lausn. Er vart að efa, að þessir tveir aðalforustumenn Innréttinganna hafa sannfærzt um, að tukthúsið varð að vera mjög nærri Reykjavík, ef vinna fanganna átti að koma að tilætluðum notum fyrir fyrirtækið, en sú hafði verið ætlunin. Varð þetta að ráði. Tukthúsið var reist á Arnarhóli á árunum 1761—1771, en farið var að vista fanga þar alllöngu fyrr.

Reykjavík

Grunnteikning af Stjórnarráðshúsinu (Tukthúsinu) eftir Ohlsens árið 1803 sem sýnir skipulag á neðri hæð hússins, en x og y eru kamrar.

Magnús amtmaður lætur að því liggja í bréfi, dagsettu 27. september 1757, að ýmsir afbrotamenn á 18. öld hafi fagnað því að vera dæmdir í hegningarvinnu og talið sig öðlast örugga framfærslu með þessum hætti, enda gleðji slíkir dómar margan þjófinn. Umsögn Magnúsar lýtur að refsivist á Brimarhólmi og öðrum hliðstæðum stofnunum í Danmörku, sem hér voru lítt þekktar í raun, en ekki er víst, að viðhorf brotamanna til tukthússins á Arnarhóli hafi verið svipað. Það var að vísu furðunýtízkulegt um sumt. Fangarnir voru ráðnir í vinnu hjá bændum og öðrum vinnuveitendum í nágrenninu og komu því stundum ekki vikum saman í tukthúsið. Karlmenn voru einkum ráðnir í ver eða að Bessastöðum eða Viðey, en þeir virðast og hafa unnið við uppskipun og við að taka grafir og við kúagæzlu. Gert var út frá tukthúsinu, og voru bátarnir mannaðir föngum, jafnt formaður sem hásetar.

Reykjavík

Reykjavík – kort 1787; Tukthúslóðin græn h.m.

Kvenfangar voru oft ráðnir í vist, en þá kom fyrir, að einhver á heimilinu og fanginn felldu hugi saman.
Hér hefur einkum verið dvalið við hinar bjartari hliðar. Á móti kemur, að barsmíðar voru tíðar í tukthúsinu og a.m.k. í eitt skipti beið fangi bana af þeirra völdum (Þorsteinn Einarsson 1808). Þetta kann þó að hafa vakið litla athygli. Fangaverðir kvarta og um, að ýmsir fanganna séu svo harðgerir, að refsing með kaðli bíti ekki á þá. Verra til afspurnar hlýtur að hafa verið, að sum ár dó allt að því heill tugur fanga, og er banamein þeirra nær undantekningarlaust hor eða óþrif. Jafnvel lús er nefnd sem banamein. Skýtur þetta mjög skökku við dánarorsakir hjá bæjarbúum öðrum, en þær eru einkum magaveiki og skyrbjúgur auk landfarsótta og slysa. Skyrbjúgur virðist hlutfallslega tíðari hjá þeim bæjarbúum, sem unnu við verzlun eða iðnað, og kann þetta að spegla mismunandi neyzluvenjur.

Reykjavík

Ljósmynd frá 1907 af “Batteríinu” eða Jörundar-vígi neðan Arnarhóls.

Fréttirnar um hið illa atlæti í tukthúsinu þessi ár hljóta að hafa átt greiðan aðgang að bæjarbúum og breiðzt út um landið frá Reykjavík, enda kvartar fangelsisstjórnin um of mikil tengsl milli fanganna og bæjarbúa hinn 4. apríl 1806. Tekur hún fram, að fangarnir séu óðar komnir út á götu og gefi sig á tal við vegfarendur, ef þeir (þ.e. fangarnir) fari út til að fá sér hreint loft. Fangelsisstjórnin leggur til, að lóð tukthússins verði girt, en á því varð bið.
Orðrómurinn um atlætið í tukthúsinu hefur fráleitt orðið þess valdandi, að brotamenn hafi fýst þangað og talið sig með því öðlast trygga framfærslu hérna megin. Stofnun tukthússins treysti Reykjavík á hinn bóginn í sessi sem þjóðlífsmiðstöð. Tukthúsið sjálft var hin myndarlegasta bygging, sem kostað hafði talsvert fé, og a.m.k. 1—2 embættismenn voru ráðnir að stofnuninni.

Reykjavík

Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu á sér langa sögu. Hana má rekja allt aftur til ársins 1759, en þá var gefinn út konungsúrskurður um byggingu tugthúss á Íslandi. Tveimur árum síðar var hafist handa við framkvæmdir en smíði hússins lauk ekki að fullu fyrr en veturinn 1770 – 71. Fyrstu áratugina gegndi húsið hlutverki tugthúss, en frá 1819 var það embættisbústaður stiftamtmanns og síðar landshöfðingja. Árið 1904 fékk húsið nýtt hlutverk, þegar Íslands fékk heimastjórn og Stjórnarráð Íslands var stofnað. Allar götur síðan, hefur húsið gengið undir nafninu Stjórnarráðshúsið.

Niðurstöður verða þessar: Nægilegt eldsneyti, góð hafnarskilyrði frá náttúrunni, tiltölulega góðar samgöngur og gnægð vatns voru þeir kostir, sem tryggðu Reykjavík sess sem aðsetursstað fyrir Innréttingarnar. Þar hófst því þéttbýlismyndun á 18. öld. Embættisbústaðir fyrir þrjá af æðstu embættismönnum landsins voru reistir í nágrenni bæjarins á árunum 1750—1770, og varð Reykjavík þá samgöngumiðstöð fyrir þessi embætti, einkum við útlönd. Fleiri embættismenn fylgdu í kjölfarið, enda höfðu þeir hag af nábýlinu, og tryggði þetta svæðinu sess sem stjórnarsetur landsins. Innréttingarnar reyndust nágrenninu styrkur, enda sóttu íbúar þess þangað vinnu og seldu þar vörur sínar. Íbúum þéttbýlishverfisins var tekið með tortryggni, og guldu þeir þar bæði gamalla hleypidóma og lífernis síns. Eimdi lengi eftir af þessu viðhorfi.” – Lýður Björnsson

Heimild:
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1979, Reykjavík; upphaf höfuðstaðar – Lýður Björnsson, bls. 42-61.

Reykjavík

Málverk af Reykjavík frá um 1850. “Batteríið”, þar sem Íslendingar hafa komist næst því að koma upp virki, sést vinstra megin á myndinni, en þar stóð áður Arnarhólskot sem var hjáleiga frá Arnarhóli.